Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Vísindafrétt af gerð 3 - sirkus

Það er í raun ósköp lítið við þessu að segja, nema hvað fréttin er greinilega af gerð 3, þótt reyndar megi greina snefil af gerð 2 í þessari frétt.

Vísindafréttum má skipta í nokkrar flokka.

Í fyrsta flokki eru tíðnid af framfaraskrefum (maður á tunglinu, erfðamengi mannsins raðgreint, ný lækning við krabbameini). 

Í öðrum flokki eru hræðslufréttir (hættuleg padda, vírus, baktería eða sjúkdómur sem drepur fólk).

Í þriðja flokki eru fyndnar fréttir (konur með stórar tær hafa meiri kynþörf, froskar aldir á bjór rata betur en aðrir froskar...).

Í fjórða flokki eru "stolt þúfunnar". Vísindamenn ættaðir úr þorpinu eru ræddir í þorpsblaðinu, sem og örninn sem verpir í hólmanum og sjaldgæfa jarðfræðilega fyrirbærið í fjallinu.

Í fimmta flokki eru vísindaleg klúður, t.d. ef vísindamenn svindla, sprengja upp heilt þorp, opinbera kynþáttafordóma sína eða kvenhatur.

Fréttin sem um ræðir er fyndin og hryllileg, framkallar svipuð viðbrögð og það að sjá sjónverfingamann saga sundur fallega konu. 9788700408517auto%5C9788700408517_175_20000Eitt besta tilbrigðið við þá sirkusbrellu er lýst í bókinni Albert eftir Ole Lund Kirkegard. Það skaðar ekki að Þorvaldur Kristinsson (yfirlesarinn á Arfleifð Darwins) þýddi Albert á íslensku.


mbl.is Skorin í sundur og sett saman aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hví að vernda náttúrunna?

Líffræðileg fjölbreytni er í kastljósinu árið 2010. Margar hættur steðja að fjölbreytileika lífsins á jörðinni, en flestar þeirra eru afleiðingar manna verka eða skorts á aðgerðum.

Við getum rifjað upp nokkrar staðreyndir. 

  • Ein af hverjum 5 plöntutegundum eru í útrýmingarhættu.
  • Skógar Amazón og Austur-Asíu eru á hröðu undanhaldi vegna skógarhöggs.
  • Stór hryggdýr, eins og nashyrningar, tígrisdýr og fílar eru í útrýmingarhættu.
  • Búsvæði lífvera eru eyðilögð fyrir landbúnað, verksmiðjur, námagröft og virkjanir.
  • Iðnvæddur lífstíll leiðir til mengunar, díoxíns, súrs regns, þungmálmamengunar og hnattrænna veðrabreytinga.

Allt þetta leiðir til þess að fleiri og fleiri tegundir deyja út, eða fækkar svo mjög að þær skrimta við ystu mörk. Að auki er mikilvægt að átta sig á að líffræðilegur fjölbreytileiki er ekki bara mældur í fjölda tegunda, heldur einnig í breytileika innan tegunda (hversu fjölbreyttir spóarnir í móanum?) og samsetningu vistkerfa. Á Íslandi eru engar einlendar tegundir plantna, en samt finnast hérlendis einstök vistkerfi (samsetning plantna og dýra sem hvergi finnst annarstaðar). Eins og Guðbjörg Á. Ólafsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson segja í bókinni Arfleifð Darwins:

Líffræðilegur fjölbreytileiki er ein af auðlindum jarðarinnar. Á síðustu árum hefur ágangur okkar mannanna vaxið og hefur það leitt til hnignunar líffræðilegs fjölbreytileika. Þó að náttúrufræðingar hafi kortlagt og skráð fjölbreytileika síðustu aldir, er enn langt í land. Viðhald og skráning líffræðilegs fjölbreytileika er ekki einungis mikilvægt vegna möguleika á nýtingu einstakra tegunda eða afbrigða sem nú eru jafnvel óþekktar. Vandi náttúruverndar felst ekki síður í missi eða óafturkræfum breytingum á heilum vistkerfum. Á okkar tímum er því enn sem fyrr mikilvægt að kortleggja líffræðilegan fjölbreytileika og ekki sístað rannsaka þá þætti sem mikilvægir eru fyrir uppruna og viðhald hans og mikilvægi breytileikans fyrir virkni vistkerfisins. 

En hvaða rök eru fyrir því að verna náttúruna og lífríkið?Er ekki bara allt í lagi þótt að nokkrar bjöllur deyji út, eða þótt fimmtungur planta á jörðinni hverfi inn í eilífðina? Það er líffræðileg staðreynd að allar tegundir deyja út...einhvern tímann.Vísindin geta ekki gefið okkur fræðilegar ástæður fyrir því hvort vernda eigi náttúruna eður ei. Vísindin geta sagt okkur hvað gerist ef hitastig hækkar um 5 gráður á jörðinni, en ekki hvort sú breyting er slæm eða góð.

Til þess þurfum við að horfa til siðfræði, heimspeki og hagfræði. Hér mun ég bara líta á hagfræðilegu rökin. Það eru hagfræðilegar ástæður fyrir því að nýta náttúruna, sem tengjast þeirri frumþörf að lifa af. Reyndar gerum við vesturlandabúar dálítið meira en að lifa af, við viljum ógjarnan sleppa sjónvarpinu, nautasteikinni á laugardagskvöldið, flugferðinni til útlanda og bíltúrnum til ættingja úti á landi.

Það eru líka hagfræðilegar ástæður til þess að vernda náttúruna. Eyðing skóga í fjalllendi Austur-Asíu leiðir til þess að ár flæða frekar yfir bakka sína - með tilheyrandi ósköpum og eyðingu verðmæta. Skógar og plöntusvif framleiða súrefni, taka upp koltvíldi og halda uppi mikilvægum fæðuvefjum. Heilbrigði hafsins ætti að vera forgangsmál íslendinga, en við sýnum því fáranlega lítinn áhuga. 


mbl.is Fimmtungur plantna í útrýmingarhættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: ensím og stjórnþættir

Tvö framhaldsverkefni í lífvísindum verða kynnt í vikunni.

Manuela Magnúsdóttir ræðir um verkefni sitt, Áhrif lykkjusvæða á kuldaaðlögun alkalísks fosfatasa úr Vibrio örveru Erindið er föstudaginn 1. október í stofu 158. VR-II. Kl. 12:30. Úr tilkynningu:

Lífverur finnast á mjög harðbýlum svæðum jarðar, svo sem við mjög há eða lág hitastig, háa seltu sjávar, eða öfgafullt sýrustig. Mörg prótein þurfa að aðlagast slíkum aðstæðum með breytingum í innri gerð. Samanburður á því sem breyst hefur í amínósýruröð með skyldum próteinum gefur upplýsingar um þætti sem ráða mestu um virkni þeirra. Kuldakær ensím hafa oftast meiri sveigjanleika innan heildarbyggingar sinnar miðað við hitaþolin ensím, sem kemur í veg fyrir að nauðsynlegar hreyfingar frjósi.  Nokkrir þættir stuðla að auknum sveigjanleika þeirra. Sem dæmi hafa kuldaaðlöguð ensím gjarnan færri vetnistengi, færri saltbrýr, og fleiri yfirborðshleðslur.  Kuldakær ensím hafa einnig oft stærri yfirborðslykkjur samanborið við samsvarandi ensím úr miðlungs- og hitakærum lífverum.

Benedikta Steinunn Hafliðadóttir ver doktorsritgerð sína „Varðveisla Mitf-gensins, hlutverk í ávaxtaflugunni og áhrif micro-RNA sameinda“ (Conservation of the Mift gene, its role in Drosophila and the effect of microRNA‘s). Úr tilkynningu:

Verkefnið beindist að byggingu og starfsemi Mitf gensins en það gegnir lykilhlutverki í litfrumum og þeim krabbameinsæxlum sem þær geta myndað, svonefndum sortuæxlum. Rannsóknirnar sýndu að Mitf genið er vel varðveitt milli fjarskyldra dýrategunda og gegnir svipuðu hlutverki í þessum ólíku lífverum.  Athyglisvert var að sá hluti gensins sem ekki tjáir fyrir próteini var óvenju vel varðveittur.  Þegar þessi hluti gensins var skoðaður betur kom í ljós að hann geymir bindiset fyrir svonefndar microRNA sameindir, litlar sameindir sem geta haft áhrif á starfsemi gena með því að bindast þeim og draga úr framleiðslu viðkomandi próteinafurða. microRNA sem þessi geta því haft mikil áhrif á framleiðslu tiltekinna próteina og hafa mörg þeirra verið tengd við myndun krabbameins. Sýnt var fram á að nokkrar microRNA sameindir, nánar tiltekið miR-148, miR-137 og miR-124 hafa áhrif á framleiðslu MITF próteinsins í sortuæxlisfrumum. Niðurstöðurnar sýna fram á tengsl ákveðinna microRNA sameinda og Mitf gensins og þar sem það gegnir mikilvægu hlutverki við myndun þessara æxla er hugsanlegt að nota megi þessi microRNA til meðferðar á þessu illvíga æxli.


Trúleysingjar vita mest um trúarbrögð

Var að heyra af stórmerkilegri rannsókn á vegum Pew stofnunarinnar. Kristinn Theodórsson ræðir um þetta í pistlinum Trúleysingjar og efahyggjumenn vita mest um trúarbrögð (sem birtist einnig á vantrú).

Hann segir meðal annars:

Hvað leiðir til trúleysis? Nú, að vita eitthvað um trúarbrögð og velta þeim fyrir sér. Það virðist allavega vera niðurstaða könnunar sem gerð var í Bandaríkjunum.

Þeir sem gátu svarað flestum spurningum um trúarbrögð voru trúleysingjar og efahyggjumenn (agnostics). Gyðingar og mormónar stóðu sig líka nokkuð vel, en voru þó ekki eins fróðir og trúleysingjarnir.

Því hefur lengi verið haldið fram að menntun leiði til trúleysis. Nú benda gögnin til þess að þekking á trúarbrögðum leiði einnig til trúleysis, eða a.m.k. að um fylgni sé að ræða.

Sem er örlítið skemmtilegt miðað við hvað ég sagði um fólkið í Divinty School við University of Chicago:
Á þeim tíma er ég vann við Chicago háskóla sóttum við töluvert í kaffistofu Guðfræðideildarinnar, út af veraldlegum kosti ekki andlegum. Kaffistofan seldi bestu skyndibita á háskólasvæðinu og guðdómlegt kaffi. "Where god drinks coffee" - var yfirskriftin á stuttermabolunum sem þeir seldu, sem er auðvitað argasta guðlast. En það er allt í lagi að því að sagt var á campus að guðfræðideildin við háskólann afkristnaði flesta sem þaðan luku námi.

Trúarbrögð má rannsaka með aðferðum vísinda. Það er eðlilegt að við sem líffræðingar eða mannfræðingar reynum að skilja tilurð trúarbragða. Eru þau afleiðing tilviljunar eða afurð náttúrulegs vals (annað hvort vegna þess að trúaðir einstaklingar séu hæfari eða vegna þess að trúar"hæfileikinn" er aukaverkun af náttúrulegu vali fyrir einhverju virkilega mikilvægu). Guðmundur Ingi Markússon fjallar einmitt um þetta í kafla í bókinni Arfleifð Darwins, sem kallast Menning, mím og mannskepnur. Þróunarfræði í hug- og félagsvísindum samtímans.


Vísindaþátturinn á útvarpi sögu

Fréttir um vísindi eru oft í mýflugumynd, stutt og hnellinn innslög. Iðulega er hlaupið yfir rannsóknina, og niðurstöður, beint í umræður á víðum grundvelli. Greining á eiginleikum prótíns sem finnst í krabbameinsfrumum, verður að næstu töfralausn sem mun kollvarpa læknavísindunum.

Framafarir í vísindindum eru sjaldnast af þessari gerð. Oftast er um að ræða litlar einangraðar tilraunir eða rannsóknir sem hver um sig færa okkur nokkur skref á fram í þekkingarleitinni. Undantekning frá þessari reglu eru einstaka rannsókn, sem nær að kollvarpa áður viðurkenndri tilgátu eða beina sjónum vísindamanna að áður óþekktum fyrirbærum í náttúrunni, og kerfisbundnar samatektir (systematic review) sem dregur saman niðurstöður margra rannsókna. Langflestar rannsóknir eru hins vegar eins og laufblöðin sem maurarnir bera í bú sitt. Eitt laufblað skiptir ekki öllu máli, en það skiptir máli að allir maurarnir vinni að sama marki og af heillindum, því annars fellur búið.

Meðalfrétt í morgunblaðinu eða fréttatíma RÚV sýnir sjaldnast þessa hlið vísinda. Það eru nokkrir fréttamiðlar sem gera vísindum bærilega hátt undir höfði, spegillinn, víðsjá og vísindaþátturinn á Útvarpi sögu.

Vísindaþátturinn er í raun gamaldags spjallþáttur, þar sem Björn Berg Gunnarsson og Sævar Helgi Bragason hlýða gestum sínum yfir, spyrja þá út úr nýjustu rannsóknum, aðferð vísinda, hlutverki vísindamanna og almennri heimsýn eða speki. Þátturinn er á þriðjudögum kl 17:00 til 18:00 og er svo endurfluttur nokkru sinnum í viku. Að auki er hægt að hlýða á eldri þætti á Stjörnufræðivefnum.

Í dag er Steindór J. Erlingsson gestur Sævars og Björns Bergs, og ræða Arfleifð Darwins, landnám þróunarkenningarinnar hérlendis og vísindasagnfræði.


Arfleifð Darwins: útgáfuhátíð 5 október

Arfleifð Darwins: þróunarfræði, náttúra og menning kemur út nú um mánaðarmótin. Bókin er gefin út til að minnast þess að árið 2009 voru 200 ár frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár síðan hann gaf út tímamótarit sitt Uppruni tegundanna.

Í bókinni er þráðurinn tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður úr þróunarfræðirannsóknum síðari tíma á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði.

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út. Til að kynna hana verða hér ritaðir pistlar, valdir kaflar verða settir inn á vefinn darwin.hi.is og Facebook síða sett í loftið

Útgáfuhátíðin verður 5 október 2010 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands (frá 16:30 til 18:00). Um verður að ræða stutta kynningu, tvö 10 mínútna erindi og síðan léttar veitingar.

16:30 Kynning á bókinni Arfleifð Darwins
16:40 – 16:50 Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins - Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
16:50 – 17:00 Hvunndagshetjan Darwin Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands
17:00 – 18:00 Léttar veitingar - bókin verður til sýnis og til sölu.

Útgáfuhátíðin er öllum opin. Fyrirlestrarnir tveir verða fluttir af valinkunnum vísindamönnum, sem bæði eru þekkt fyrir að skemmtilega og lifandi framsögu.

Við munum á næstu dögum dreifa veggspjöldum og auglýsingum til að auglýsa bókina. Meðfylgjandi er tilkynning frá HIB um útgáfu bókarinnar og auglýsing um útgáfuhátíðina, hvoru tveggja á pdf formi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skinhelgi kristinna helgimanna

Reynir Harðarsson fjallar um Skinhelgi kirkjunnar sem hefur ótrúlega þétt tak á íslensku þjóðfélagi.  Hann segir meðal annars að:

Yfirlýstir trúleysingjar vita mætavel hvaða afleiðingar það hefur að voga sér að gagnrýna stjórnarskrárvarin sérréttindi ríkiskirkjunnar, ofurlaun presta, trúboð í leik- og grunnskólum, sjálfkrafa skráningu barna við fæðingu í trúfélag og fleira.
Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur gerir sér enga grein fyrir hvað hann er gjörsamlega gegnsósa af kenningum kirkjunnar og þeim lúmska áróðri sem hún beitir á opinberum vettvangi. Í Vantrú höfum við lengi gagnrýnt kristna trú, kirkju og málflutning kirkjunnar manna. Fyrir vikið höfum við fengið að reyna á eigin skinni andúð kirkjunnar manna og ofurkristinna. Við þekkjum skítkastið, símhringingarnar, slúðrið og áhrif á atvinnu okkar. Meirihluti landsmanna hefur hins vegar litla þekkingu á málstað okkar og málflutningi en trúir líklega tröllasögum hinna helgu manna.
Kannski er ekki von á góðu þegar það er beinlínis kennt í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands að málflutningur Dawkins og Vantrúar „grafi undan allsherjarreglu og almennu siðferði" með því að „skerða málfrelsi trúaðra, andmæla almennum mannréttindum, leggja menn í einelti og fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga". Þegar okkur varð þetta ljóst var okkur illa brugðið, og þarf þó nokkuð til. Siðanefnd Háskólans hefur þessa kennslu nú til athugunar. 

Á þeim tíma er ég vann við Chicago háskóla sóttum við töluvert í kaffistofu Guðfræðideildarinnar, út af veraldlegum kosti ekki andlegum. Kaffistofan seldi bestu skyndibita á háskólasvæðinu og guðdómlegt kaffi. "Where god drinks coffee" - var yfirskriftin á stuttermabolunum sem þeir seldu, sem er auðvitað argasta guðlast. En það er allt í lagi að því að sagt var á campus að guðfræðideildin við háskólann afkristnaði flesta sem þaðan luku námi. Allavega virðist Chicago vera með opnara og fræðilegra nám en guðfræðideild HÍ.

Málflutningur Guðmundar Inga Markússonar er næst mínum skilningi á tilurð trúarbragða. Eins og hann segir í óútkominni bók um Arfleifð Darwins:

Skilgreina má tvær meginþróunarfræðilegar tilgátur um tilurð trúarbragða. Í fyrsta lagi kenningar um trúarbrögð sem hliðarverkun líffræðilegra þátta (by product) og í annan stað kenningar um trúarbrögð sem sjálfstæða, líffræðilega aðlögun (adaptation). Seinni tilgátan kemur í tveimur tilbrigðum sem gera ráð fyrir þróun trúarbragða sem aðlögun innan hóps einstaklinga eða sem afleiðingu vals á milli hópa.

Sjá einnig pistlana: 

Arfleifð Darwins: þróun menningar og trúarbragðaÞróaðist trúar "hæfileikinn"?


Crappameyn í heyla - eikur kingetu

Líffræðingar hafa veitt því eftirtekt að á undanförnum árum hafa stofnar bjargfugla og einnig kríu minnkað umtalsvert. Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, hefur rannsakað bjargfugla stofna í nokkra áratugi. Í fyrra benti hann á að Bjargfuglum hefur fækkð hér við land á síðustu tveimur áratugum.

Erpur Snær Hansen og samstarfsmenn hafa fylgst með lundanum og öðrum tegundum í Vestmannaeyjum, og í sumar greindu þeir frá því að varpið í ár misfórst eins og undanfarin ár.

Þetta eru raunverulegar sveiflur og við hljótum að reyna að finna orsakir þeirra. Samdráttur í stofnstærð eða fari sandsílisins virðist vera einn þáttur, en ekki er hægt að útiloka aðra umhverfisþætti. Það er ólíklegt að um einhverskonar farsótt sé að ræða, fyrst stofnar margra mismunandi tegunda eru að skreppa saman.

Ég vissi að náttúrufræði og vísindaþekkingu blaðamanna væri töluvert ábótavant en mér finnst stórkostulegt að þeir kunni ekki nöfnin á algengustu fuglategundum. Rita eða ryta, það er spurningin.

Hvað er næst, munu þeir misrita nöfn líffæra og algengra sjúkdóma..."Alvarleg livrarbólgutilfelli í Andakílshreppi", "Arfgeng Heylablæðing á undanhaldi", "Crappamein í heyla - eykur kingetu"


mbl.is Bjargfugli fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Visindavaka: kaffi úti á landi

Af vefsíðu vísindavökunar:

Miðvikudagur 22. september kl. 18-19:30 í Sandgerði
Grjótkrabbi - skemmtilegur og bragðgóður!
Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði og Náttúrustofa Reykjaness  kynna grjótkrabba sem er nýr landnemi hér við land. Fyrst er krabbinn kynntur og síðan eldaður og gefst gestum færi á að spreyta sig og smakka!!

Fimmtudagur 23. september, kl. 20-21:30, Hofi á 1862 Nordic Bistro
Erfðabreytt framtíð
Háskólinn á Akureyri og Rannís bjóða í Vísindakaffi í tilefni af Vísindavöku 2010. Dr. Kristinn P. Magnússon og Dr. Oddur Vilhelmsson dósentar við Háskólann á Akureyri og sérfræðingar í erfðavísindum og erfðatækni spjalla um erfðavísindi og hagnýtingu þeirra, svo sem við klónun, kynbætur dýra og jurta og ræktun erfðabættra landbúnaðarafurða. Hver er framtíð íslensks lífríkis og nýtingar þess í ljósi þróunar í erfðavísindum og -tækni? Hvað er í húfi og hvar eru tækifærin fyrir landbúnað og framleiðslu  lyfja og matvæla? Eftir stutt spjall frá þeim Kristni og Oddi mun Pétur Halldórsson, útvarpsmaður hvetja til  og stýra umræðu. Allir eru velkomnir og hvattir til að taka þátt í skemmtilegu og fræðandi spjalli yfir vænum vísindakaffibolla í boði HA og Rannís. 

Það væri gaman að heyra hvernig umræður ganga fyrir sig.


Arfleifð Darwins: Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins

Í lok septembermánaðar kemur út ritgerðasafnið Arfleifð Darwins. Kveikjan að bókinn var afmæli Charles Darwin, en í fyrra voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, og það að 150 ár voru í fyrra liðin frá því að Uppruni tegundanna var gefinn út.

Við helgum nokkra pistla næstu vikur þessari bók, og birtum hluta úr af köflum hennar. Tólfti kafli bókarinn heitir Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins. Sókn eftir nýjum breytileika

Áslaug Helgadóttir prófessor og aðstoðarrektor Landbúnaðarháskóla Íslands rekur þar sögu kynbóta, erfðafræði og mikilvægi lögmála Gregors Mendel og kenninga Charles Darwin og stofnerfðafræðinga síðustu aldar (R.A. Fisher, S. Wright og fleiri) fyrir framfarir í kynbótum. Hún fjallar einnig um aðferðir sem byggjast á samruna fruma mismunandi plöntutegunda og markvissar erfðabreytingar á plöntum sem hafa verið að ryðja sér til rúms. Kaflinn hefst á þessum orðum:

Ein af frumþörfum mannsins er að hafa í sig og á. Í árdaga var hver sjálfum sér nógur, en nú þegar um helmingur mannkyns býr í borgum er það hlutverk landbúnaðarins að framleiða mat og sjá um matvælaöryggi jarðarbúa. Flest kaupum við það sem við borðum úti í búð eða á veitingahúsi og sífellt fleiri virðast ekki gera sér grein fyrir því hvaðan maturinn kemur. Síðustu tvær aldir hefur fólki fjölgað hratt í heiminum og enn virðist vera nægur matur á jörðinni til þess að fæða alla íbúa hennar, þó svo að gæðunum sé vissulega misskipt. Framleiðni í landbúnaði hefur vaxið hröðum skrefum og hefur hún einkum verið drifin áfram af vísindum og tækni við vélvæðingu, framleiðslu áburðar og plöntukynbótum. Hér er ætlunin að huga sérstaklega að því hvernig maðurinn hefur lagað nytjaplöntur að þörfum sínum frá upphafi vega og hvaða þátt Charles Darwin átti í að fleyta þeirri þróun fram.

Árið 1798 samdi enski klerkurinn og hagfræðingurinn, Thomas Robert Malthus (1766–1864), ritgerð um lögmál fólksfjölda.1 Kenning hans var sú að fæða væri nauðsynleg fyrir tilvist mannsins og hann setti jafnframt fram þá tilgátu að mannfjöldinn tvöfaldist sífellt á meðan framleiðsla á mat vaxi línulega. Hann spáði því að eftir tvær aldir, þ.e. nú á dögum, yrði 512 sinnum fleira fólk en einungis 10 sinnum meiri matur en á hans dögum og ályktaði að þó svo að hverri skák á Bretlandseyjum yrði breytt í bújörð gæti landið ekki fætt þegna sína að 50 árum liðnum. Kenningar Malthusar höfðu mikil áhrif, en eins og við vitum rættust spádómar hans ekki. Vissulega hefur fólki fjölgað frá dögum Malthusar þegar jarðarbúar voru taldir tæpur milljarður. Þeir voru um hálfur annar milljarður í upphafi 20. aldar, eru nú rúmlega sex milljarðar og því hefur verið spáð að þeir geti orðið um níu milljarðar um miðja öldina. Þrátt fyrir þetta hefur framboð á mat aukist enn hraðar, og vert er að benda á að síðustu hálfa öld hefur stærð ræktaðs lands í heiminum haldist óbreytt en matvælaframleiðsla þrefaldast.2

1 Malthus 1798/1826.

2 Borlaug 2002.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband