Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Fiskurinn í okkur

Fiskurinn í okkur (Your inner fish) eftir steingervingafræðinginn Neil Shubin er kominn út á íslensku.

Ég las bókina fyrir nokkru á engilsaxnesku, en nýt hennar engu síður á íslensku (í ágætri þýðingu Guðmundar Guðmundssonar). Ég mun birta ritdóm um bókina hér von bráðar.

Úr tilkynningu Ormstungu.

Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?


Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.

Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.

Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, „týndi hlekkurinn“ milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.

Steingervingarnir, ásamt DNA-athugunum, veita athyglisverðar vísbendingar um hvernig bein og vöðvar, sem mynda fiskugga, umbreyttust í ganglimi landhryggdýra. Gangverki þróunarinnar er lýst á ljósan og auðskilinn hátt, til að mynda hvað mannslíkaminn er nauðalíkur fiski.

Lesendur sjá sjálfa sig og umheiminn í algerlega nýju ljósi eftir lestur bókarinnar. Fiskurinn í okkur er vísindaskrif fyrir almenning eins og þau gerast best. Hrífandi og upplýsandi frásögn, aðgengileg og sögð af ómótstæð[u]ilegum eldmóði.

Ítarefni

Tiktaalik


sá 77 milljarðasti í röðinni

Reiknivél BBC sem helguð eru hinum ófædda 7 milljarðasta jarðarbúanum er mjög skemmtilegt leiktæki. Sem afurð ársins 1970 komst ég að því að þá hefði mannkynið verið komið næstum hálfa leið í sjö milljarðana (reyndar skeikar hundrað þúsund manns á mati reiknivéla BBC og the Guardian)

Apparat BBC gaf mér einnig mat á þeim fjölda mannfólks sem hefur lifað frá upphafi tímans. Samkvæmt þeim er ég sá  77,877,246,857 í röðinni. Það þýðir að u.þ.b. 77 milljarðar manna fæddust á undan mér. Mér leikur forvitni á að vita hvernig þeir áætluðu þennan fjölda, og sérstaklega upphaf mannkyns.

Vísað er á síðu sameinuðu þjóðanna (http://www.unfpa.org/public/).

Mannfjöldi á jörðinni er reyndar orðin vandamál, við göngum á auðlindir jarðar, jarðnæði er af skornum skammti, vatn, matur og hráefni. Það er merkilegt hvað við náum að heillast af ómerkilegum viðburðum (hjónaböndum, skilnuðum, brjóstastækkunum, drykkjuferðum einhverra persóna úti í heimi sem einhverjir fjölmiðlasnápar ákveða að við höfum áhuga á) á meðan brýn úrlausnar efni fá hvorki athygli né umfjöllun.

Ég held að myndræn framsetning staðreynda sé ein mikilvægasta leiðin til að við áttum okkur á grafalvarlegri stöðu mála.

T.d. framsetning DATAmarket á atvinnuleysi í BNA og myndir the guardian um mannfjölda eftir löndum.


mbl.is 7 milljarðar jarðarbúa - hvar ertu í röðinni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Lifði af undir jökli

etiennekornobis.jpgGetur eitthvað lifað af undir jökli? Geta einhverjar lífverur lifað af jökulskeið, undir jöklinum? Svarið við báðum spurningum er já, grunnvatnsmarfló.

Næstkomandi laugardag mun Etienne Kornobis doktorsnemi (sjá mynd) við líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands verja ritgerð sína um rannsóknir á grunnvatnsmarflóm sem lifðu af undir jökli. Til að kynna rannsóknirnar birtist hér hluti af eldri pistli (Lifði af undir jökli).

---- pistill hefst ----

Sumarið 1998 var Bjarni Kr. Kristjánsson dósent [nú prófessor] við Háskólann á Hólum að rannsaka fæðu og vistfræði hornsíla í Þingvallavatni, og fann framandi marfló í uppsprettu við vatnið. Bjarni og Jörundur Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands, hafa nú lýst tveimur nýju tegundum grunnvatnsmarflóa sem finnast hvergi annars staðar á jörðinni.

Þessar tvær marflær, Crangonyx islandicus (sjá mynd) og Crymostygius thingvallensis, eru einstakar í sögu dýrafræði Íslands. Marflóin  C. islandicus, er 2-5 mm að stærð. Myndina tók Etienne Kornobis - copyright.

kornobis_c_islandicus.jpg

Sérstaklega með tilliti til þess að líffræðilegur fjölbreytileiki er lítill á Íslandi. Einlendar tegundir á Íslandi (tegundir sem finnast hér og hvergi annars staðar) eru nánast óþekktar, fáar tegundir búa hérlendis og breytileiki innan tegunda er almennt talinn frekar lítill. Einnig er dreifigeta grunnvatnsmarflóa afar takmörkuð, ólíklegt er að þær hafi borist yfir Atlantshafið og numið hér land. Þar að auki er stutt síðan Ísland var allt hulið jökli, u.þ.b. 10 þúsund ár eru frá lokum síðasta kuldaskeiði ísaldar. Þetta leiðir til tveggja spurninga:

Hvenær og hvernig námu marflærnar land á Íslandi?

Lifðu marflærnar ísöldina af undir jökli?

Til að svara þessum spurningum var ákveðið að ráðast í erfðafræðilega rannsókn á breytileika og uppruna íslensku grunnvatnsmarflónna. Snæbjörn Pálsson og doktorsnemi hans Etienne Kornobis skoðuðu breytileika í hvatberalitningi annarrar marflóarinnar (C. islandicus), og greindu mikinn breytileika. Breytileikinn fylgir landfræðilegri dreifingu tegundarinnar um Ísland. Marflóin hefur fundist í ferskvatnslindum í hraunjöðrum á eldvirka svæði landsins. Skyldleiki þeirra innan Íslands endurspeglar fjarlægðir innan landsins asamt sögu þess. Fjarskyldustu marflærnar finnast á Melrakkasléttu og sýna útreikningar að þær aðskildust frá öðrum marflóm á  Íslandi fyrir um 4,5 milljónum ára. Landfræðileg dreifing arfgerða bendir til að marflærnar hafi lifað af ísöldina í ferskvatnslindum undir jökli. Enn er ekki vitað hvaða fæðu þær nærast á en líklegast er að þær lifi a bakteríum, sveppum eða frumdýrum.
marflo2010_mynd1.gif
marflo2010_mynd2.gif Bjarni og Jörundur settu fram þá hugmynd að marflærnar hafi í raun borist með landinu þegar "forveri" Íslands var viðskila við Grænland fyrir um 40 milljónum ára. Niðurstöður rannsóknar Kornobis og félaga duga ekki til að staðfesta þá tilgátu, en benda til að marflóin C. islandicus hafi búið hér í að minnsta kosti 4,5 milljónir ára og jafnvel aðgreinst í tvær eða fleiri tegundir.

Viðbót - Snæbjörn Pálsson kom í viðtal í morgunútvarpinu 11.11.11. og ræddi þá meðal annars rannsóknir á grunnvatnsmarflóm og efni líffræðiráðstefnunar.

Ítarefni:

ETIENNE KORNOBIS, SNÆBJÖRN PÁLSSON, BJARNI K. KRISTJÁNSSON og JÖRUNDUR SVAVARSSON
Molecular evidence of the survival of subterranean amphipods (Arthropoda) during Ice Age underneath glaciers in Iceland Molecular Ecology (2010) doi: 10.1111/j.1365-294X.2010.04663.x
B
jarni Kr. Kristjánsson og Jörundur Svavarsson  GRUNNVATNSMARFLÆR Á ÍSLANDI Náttúrufræðingurinn 2007

---- pistill endar ----

Doktorsvörn Etienne verður laugardaginn 29. október 2011, kl. 14:00. Sjá tilkynningu af vef HÍ.

Laugardaginn 29. október fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Etienne Kornobis doktorsritgerð sína: Grunnvatnsmarflær á Íslandi: Stofngerð og flokkun.

Andmælendur eru dr. Christophe Douady prófessor við Háskólann í Lyon í Frakklandi og  dr. Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur og forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Umsjónarkennari og leiðbeinandi er dr. Snæbjörn Pálsson dósent hjá Líf- og umhverfisvísindadeild. Í doktorsnefnd ásamt Snæbirni eru dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við sömu deild og Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Hákólann á Hólum.

Sigurður S. Snorrason forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar stjórnar athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl. 14:00.

Etienne fæddist 17. apríl 1983 í Arras, Frakklandi. Hann lauk BS-prófi í líffræði árið 2005 frá Université des Sciences et Technologies de Lille Frakklandi, og MS-prófi í líffræði árið 2007 frá sama skóla. Frá árinu 2007 hefur hann unnið að doktorsverkefni sínu við Háskóla Íslands.

Er hægt að vera bæði fræðari og sérfræðingur?

Vísindi síðustu áratuga ára, hafa einkennst af frekari sérhæfingu fræðasviða og viðfangsefna vísindamanna. Sannarlega eru til forvitnilegar undantekningar, þar sem eðlisfræðingar hlaupa yfir í líffræði, læknar í tölfræði og fuglafræðingar í felur. En á öld sérhæfingar, hvaða möguleika eiga sérfræðingar á því að verða fræðarar? Eðlilega stendur þessi spurning mér dálítið nærri, þar sem ég stunda rannsóknir dagvinnu og leitast við að fræða með pistlum mínum. Vandamálið er alls ekki nýtt af nálinni, eins og Steindór J. Erlingsson rekur í pistli á vísindavefnum stóð Julian Huxley í sömu sporum í upphafi síðustu aldar (Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?). Pistillinn hefst svo:

Julian Huxley (1887-1975) er einn af þekktustu líffræðingum Breta á 20. öld. Kom hann víða við en er líklega kunnastur fyrir Evolution, Modern Synthesis (1942). 

Fisher og Wright höfðu leyst gátuna um erfðafræði Mendels og þróunartilgátur Darwins, en sameinaða þróunarkenningin (the new synthesis) þarfnaðist frekari tenginga við almenna líffræði, steingervinga og grasafræði. Í bók sinni og alþýðlegum skrifum kynnti Julian samþættingu erfðafræði Mendels og þróunarfræði Darwins fyrir vísindamönnum og öðrum. Framlag hans til vísinda var hins vegar minna, eins og Steindór rekur:

Í sjálfsævisögu Hogbens getur hann þess að á meðan Huxley starfaði í Bandaríkjunum hafi hann haft einstakt tækifæri til þess að kynna sér það nýjasta sem var að gerast þar innan dýrarfræðinnar. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kynnti hann þessar nýjungar, sem „enn höfðu ekki haft nein áhrif á breska dýrafræði“, í fyrirlestrum víða um Bretland. Hogben bendir hins vegar á að áhrif Huxleys á upprennandi kynslóð líffræðinga hafi „á engan hátt endurspeglað nýmæli rannsókna hans“. Þetta má glöggt sjá í þeirri staðreynd að á tímabilinu 1921–1925 átti Huxley í nokkrum erfiðleikum með að fá niðurstöður rannsókna sinna birtar.

Vinir hans voru vel meðvitaðir um þetta vandamál. Töldu þeir skýringuna liggja í „endalausum ritstörfum og annarri vinnu sem beindi orku hans“ frá vísindarannsóknum, eins og Hogben komst að orði í bréfi árið 1922. Breski líffræðingurinn George P. Bidder (1863–1953) var ekkert að skafa utan af því í bréfi til Huxleys síðla sumars 1925 þegar hann bað Huxley „í guðanna bænum“ að gera upp við sig

í hvaða grein líffræðinnar þú ert sérfræðingur. Enginn getur núorðið verið allsherjar sérfræðingur, nokkuð sem þykir svo víst að ef einhver reynir að kynna sig sem slíkan, mun fólk að ósekju telja hann ótraustan á öllum sviðum. Þú mátt ekki láta hugdettuna um að herma eftir afa þínum [T.H. Huxley] leiða þig af réttri braut; við ráðum yfir tíu sinni meiri líffræðilegri þekkingu nú en þá, ef til vill tuttugu sinnum.
Hér komum við að kjarna málsins. Þó Huxley hafi verið ötull talsmaður nýju dýrafræðinnar í Bretlandi hlýddi hann ekki kalli samtímans um að kafa djúpt ofan í vel skilgreind rannsóknaverkefni. Það þarf því ekki að koma á óvart að alþýðleg skrif Huxleys og efasemdir um gæði rannsóknavinnu hans komu í tvígang á síðari hluta þriðja áratugarins í veg fyrir að hann næði kjöri í Konunglega félagið í London, virtasta breska vísindafélaginu. Huxley var loks kjörinn árið 1938.

Að mínu viti eru kosningar í félög og stjórnir bara eitt birtingarform framlags vísindamannsins. Starf að skipulagi, geta til framkvæmda, ritstjórn og stjórnarseta eru allt mikilvæg atriði í vísindastarfi, en allir vísindamenn vilja einnig uppgötva eitthvað verulega nýtt og spennandi. Til þess þarf maður eiginlega að vera sérfræðingur, jafnvel það mikill sérfræðingur að bara hinir 5 fluguvængjasérfræðingarnir eigi séns á að skilja hvað þú ert að fara.

Steindór J. Erlingsson. „Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?“. Vísindavefurinn 27.9.2011. http://visindavefur.is/?id=60745. (Skoðað 23.10.2011). 


Svar við hræðsluáróðri

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að sérmerkja skuli allar matarafurðir sem unnar eru úr erfðabreyttum lífverum. Það finnst mér óþarfi, svona svipað og að merkja lambið eftir því hvort háls þess var skorinn af hægri eða vinstrihandar manni eða merkja kálplöntur eftir því hvort þær séu vökvaðar með plastslöngu eða stálúðara.

Einn andstæðingur erfðafbreyttra lífvera, Sandra B. Jónsson skrifaði grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni: Matvælaöryggi fórnað fyrir pólitík (7. okt. 2011) og sagði meðal annars:

Því síður getur ráðuneytið hafa vanmetið heilsufarsáhrif þess að fresta gildistöku reglugerðarinnar. Fyrir fjórum mánuðum var ráðuneytið upplýst um ritrýndar niðurstöður nýrrar tímamóta heilsufarsrannsóknar við Sherbrooke-háskólasjúkrahúsið í Quebec í Kanada sem birtust í Journal of Reproductive Toxicology. Í rannsókninni fannst Bt-eitur sem splæst er í erfðabreyttar plöntur (gegn skordýrum) í blóði þungaðra kvenna og fóstra sem þær gengu með. Niðurstaða hennar var að eitur þetta kæmi úr erfðabreyttum matvælum vegna þess að mæðurnar neyttu venjulegs kanadísks fæðis, en drjúgur hluti þess inniheldur ómerkt erfðabreytt matvæli. Erfitt er að ímynda sér sterkari vísbendingar um það heilsutjón sem erfðabreytt matvæli geta valdið neytendum – eða sterkari rök fyrir merkingum erfðabreyttra matvæla.

Þessari staðhæfingu svaraði Jón Hallsteinn Hallson í Fréttablaði dagsins í dag (20. okt 2011) Hræðsluáróður gegn erfðabreyttum matvælum:

 Þann 7. október sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Söndru B. Jónsdóttur þar sem hún skammar íslensk stjórnvöld fyrir seinagang við setningu reglugerðar um merkingar á erfðabreyttum matvælum. Til að undirstrika mikilvægi reglugerðarinnar vísar Sandra í niðurstöður sem nýverið birtust í tímaritinu Reproductive Toxicology (1) en þar er fullyrt að mælst hafi próteinið Cry1Ab í blóði hjá hópi kvenna í Kanada. Framsetning Söndru á þeim niðurstöðum er með slíkum endemum að ekki verður orða bundist og langar mig að benda á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara.

Ég skora á fólk að lesa gagnrýni Jóns, og læt eitt dæmi úr grein hans duga hér:

Sandra telur að hér hafi verið á ferðinni „tímamóta heilsufarsrannsókn”. Hið rétta er að hér var ekki um að ræða heilsufarsrannsókn þar sem niðurstöður mælinga voru ekki tengdar við heilsufar þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni. Í greininni kemur aðeins fram að konurnar, sem sumar voru þungaðar, voru heilbrigðar við sýnatöku, að engin vandamál komu fram í fæðingu og að öll börnin voru af eðlilegri stærð. Hvernig Sandra kemst að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða heilsufarsrannsókn er mér hulin ráðgáta.

Mér þykir mikilvægt að benda á að Bt eitrið sem um ræðir er virkt gagnvart skordýrum sem herja á nytjaplöntur, eins og maís. Það hefur verið notað um áratuga skeið í hefðbundinni og lífrænni ræktun, og oft í mjög miklum mæli. Það er álitið hafa væg áhrif á hryggdýr, nema í stórum skömmtum. Með því að framleiða Bt-skordýraeitrið í plöntunni, þá þarf ekki lengur að nota jafn mikið af því og áður, og möguleg skaðleg áhrif þess á aðra náttúru væru mun minni en ella.

Ítarefni:

Bt Pesticide No Killer on Its Own, Overturning Orthodoxy

Bacillus thuringiensis


Dauðar rósir rísa

Fyrir margt löngu ráku framhaldskólarnir á höfuðborgarsvæðinu útvarpstöð undir nafninu Útrás. Sem ungur tónlistaráhugamaður í MH fann ég mig knúinn til að leggja stöðinni lið, og við Doddi frændi byrjuðum með þáttinn Óskar undrakýr. Nokkru síðar smalaði Indriði H. Indriðason mér í hóp, ásamt Hjálmari G. Sigmarssyni og Friðjóni Friðsjónssyni. Þá fæddust neðanjarðargöngin, tónlistarþáttur um jaðartónlist og rokk ("independent and alternative"). Saga þáttarins verður vonandi rakinn við tækifæri, en þarna fengu við undanvillingarnir sem ekki fíluðu Kylie Minogue og Bryan Adams að spila Pixies, Smiths og Wedding Present. Við lásum ensku tónlistarblöðin (Sounds, NME og melody maker) í tætlur og keyptum skífur sem okkur leist á.

postcard-6x4-made-of-stone1-150x150Elephant stone með Manchesterbandinu Stone roses var eins slík smáskífa, sem ég keypti út á jákvæðan plötudóm í Sounds (held ég). Við spiluðum lagið oft í Neðanjarðargöngunum, sérstaklega eftir að Stone roses gáfu út árið 1989 samnefndan frumburð. Sú plata kveikti aldelis í bretanum, enda var um ferska blöndu rokk-, dans- og sól tónlistar að ræða. Laglínurnar vor einnig í fyrsta flokki og sjálfsálit hljómsveitarmeðlima í hæstu hæðum (skemmtileg tilbreyting frá óöruggum skóstarandi veggjalúsum sem földu sig bak við gítarinn sinn). Skífan var einstaklega heilsteypt, hefur verið kallaður besti frumburður allra tíma, og ekki skaðaði myndræni þátturinn. John Squire gítarleikar var liðtækur í mállingu, og sletti saman ágætis málverkum sem prýddu plötuumslögin (sjá myndir).

MSpikeIslandPoster-150x150Ungliðinn ég féll alveg kylliflatur og get auðveldlega sagt að bandið sé eitt af mínum 5 uppáhalds hljómsveitum (með House of love, Boo radleys, Suede og the Triffids*). Saga hljómsveitarinnar hefur verið rakin af mörgum pennum, ég mæli með pistli Edgars Stone Roses - bandið sem náði ekki að sigra heiminn upp á íslenskuna og ferilskrá þeirra á http://www.thestoneroses.co.uk/bio. Skemmst er frá að segja að hljómsveitin gaf bara út eina aðra hljóðversplötu og leystist upp árið 1996 eftir skelfilega lokatónleika á Reading (frændi minn var meðal áhorfenda og grét af sorg).

postcard-6x4-i-wanna-be-adored-150x150En altént hefur hljómsveitin gleypt lifnipillu og hyggur á hljómleika á næsta ári. Vissulega eru tilfinningarnar blendnar, hver vill ekki sjá uppáhaldshljómsveit æsku sinnar á sviði? Síðan kemur óttinn við að upplifunin muni granda góðum minningum. Þeir voru ásakaðir um græðgi, allar hljómsveitir sem rísa úr gröfinni eru ásakaðar um slíkt (en ekki þær sem þrást við!). En lína úr I wanna be adored ætti að svara þeirri fullyrðingu:

I don't have to sell my soul, he's already in me

Ég hef hlustað á lögin þeirra stanslaust í allan morgun (I am the  resurrection, Fools gold, Something burning, Breaking into heaven, Ten storey love song....) nostalgía er frábært fyrirbæri.

* Persónur Nick Hornby í High Fidelity skilgreindu líf sitt í topp 5 listum. Þeir voru alltaf að breyta listunum sínum, ég skipti t.d. Pixies út fyrir the Triffids í hádeginu.


mbl.is Rósirnar springa út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi eggjastærðar fyrir fjölbreytileika hjá laxfiskum

Laxfiskar hrygna í lækjum, ám og vötnum. Hrygnurnar leggja eggin á botninn, laxar hreinsa oft botninn með ákveðnu atferli, og síðan skvettir hængurinn svili sínu yfir. Foreldrarnir krossa síðan ugga sína og vona að allt fari vel, þeirra hlutverki er lokið og ungviðisins að spjara sig. Reyndar leggja hrygnurnar afkvæmum sínum til meira en erfðaefni, eggin eru hlaðin næringu, boðsameindum og prótínum sem hafa áhrif á þroskun fóstursins.

Þessi áhrif eiginleika eggjanna og stærðar þeirra voru viðfangsefni Camille Leblanc, sem kynnir doktorsverkefni sitt miðvikudaginn 19. október 2011. Verkefnið heitir “The importance of egg size for the diversity of salmonids”, eða Mikilvægi eggjastærðar fyrir fjölbreytileika hjá laxfiskum.

Camille framkvæmdi margskonar athuganir á bleikju og laxi, og einnig tilraunir inni á rannsóknarstofu. Hún sýndir fram á að stærð eggjanna minnkar þegar fiskarnir hrygna á tilraunastofu miðað við egg sem fengin eru úr villtum fiski. Ungviði sem klaktist úr smærri eggjum þroskast hraðar en ungviði úr stórum eggjum. Fiskar úr litlum eggjum verða einnig smærri að meðaltali, en fiskar úr stórum eggjum. Eggjastærðin getur þannig haft heilmikil áhrif á útlit og eiginleika fiskanna. Camille skoðaði einmitt atferli fiska úr stórum og litlum eggjum, og sá greinilegan mun. Fiskar úr stórum eggjum, urðu stærri, hreyfðu sig meira og leituðu víðar að fæðu en fiskar úr smáum eggjum, sem héldu sig við botninn og lifðu rólegheita lífi. Móðurarfurinn getur þannig haft heilmikil áhrif á lífsögu einstaklingsins.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgMynd af bleikjuhrognum, tekin haustið 2010 við Þingvallavatn. Mynd Arnar Pálsson.

Fyrirlestur Camille verður kl 16:00 í stofu 132 í náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Camille Leblanc hlaut doktorsgráðu, frá Háskóla Íslands og Fylkisháskólanum í Oregon (Oregon State University), en leiðbeinendur hennar voru Sigurður S. Snorrason (við HÍ), Skúli Skúlason (við Hólaskóla) og David Noakes við Fylkisháskólanum í Oregon.

Meira um rannsókn Camille - í fréttabrefi Oregon háskóla (bls. 5).


Maður og jörð í ríkissjónvarpinu

Maðurinn er ein stórkostlegasta tegund sem lifir á jörðinni. Menn búa um alla jörðina, í heitustu eyðimörkum, hæstu fjöllum og köldustu útnárum. Þessi tengsl eru viðfangsefni nýrra fræðsluþátta frá BBC sem byrja í kvöld í ríkissjónvarpinu. Þeir kallast maður og jörð og kynnir er leikarinn John Hurt.

http://www.bbc.co.uk/nature/humanplanetexplorer/

Fyrsti þátturinn fjallar um fólk sem lifir í nærveru hafsins.

Sýnt: mánudagur 17. okt. 2011 kl. 20.00.

Endursýnt: 23. okt. 2011 kl. 13.55

Af því að mannskepnan andar að sér lofti er hún illa til þess fallin að lifa í sjó en fólk hefur fundið leiðir til þess að lifa með sjónum og nýta sér auðlindir hans. Í þættinum sjáum við hákarlahvíslara á Kyrrahafi og brasilíska fiskimenn sem veiða röndunga með aðstoð höfrunga. Hrúðurkarlasafnarar í Galisíu tefla djarft á klettaströndum fyrir feng sem gefur þeim um 35 þúsund krónur á kílóið. Í Indónesíu veiða menn enn búrhvali með gamla laginu, á smábátum og með skutlum. Bajau-sæsígaunarnir á Súlúhafi eru svo mikið á sjó að þeir verða landveikir þegar þeir stíga á þurrt. Við köfum 40 metra niður í djúpin með Pa-aling-fiskimönnum sem anda í gegnum langar slöngur tengdar díselvél og veiða smáfiska í stór net. Og við sjáum brimreiðar í Pólýnesíu og fylgjumst með skutulveiðimanni sem kafar 20 metra niður á hafsbotninn án nokkurra hjálpartækja til að sækja sér í soðið.

Björk söng það er "allsekkert, allsekkert, allsekkert vit í mannlegri hegðun" ("There's definitely, definitely, definitely no logic to human behaviour"*) í fyrsta laginu á Debut. En við vitum að mannfólk hefur áorkað ýmsu, og slíkt er næstum ómögulegt ef hegðunin er algerlega röklaus. Mannfólk hefur fundið upp margar snjallar lausnir, til að gera sér lífið auðveldara og til að forðast áhrif náttúruaflanna.

Björk var spurð að því hvað hún ætti við með þessari setningu, af lesanda the Guardian sem kennir mannfræði. Svar hennar var:

... at the time I wrote it I was referring to my childhood and probably talking about how I felt more comfortable on my own walking outside singing and stuff than hanging out with humans ... I experienced harmony with kids, the mountains and the ocean surrounding Reykjavik and animals I guess but found grown ups rather chaotic and nonsensical. When I went into sixth form school I choose science, math and physics and thought psychology, anthropology, sociology and history and such was for sissies. A huge majority of Icelanders do the same thing. They call subjects in school about people "kjaftafog" which means nattersubjects. As I got older and became a grown up myself I have learned to appreciate nattersubjects and recently read many books for the first time about psychology and I guess my last album volta had a anthropology angle on it ... so I have learned a little about humans. Now I can keep up a conversation (still rubbish at small talk though) and through my experience probably understand them a little better ...

*Þýðingin er ekki orðrétt, en vonandi nær hún inntakinu.


Rafræn lífást á tónum

Björk Guðmundsdóttir er stórmerkilegur tónlistamaður. Verk hennar eru alltaf hugvekjandi og fersk, og hún er sannarlega innblástur þeim sem upplifa skapandi kenndir og vilja finna þeim farveg.

Samkvæmt viðtekinni skilgreiningu merkir hugtakið lífást (Biophilia) að fólk hafi ást á lífinu. Nánar tiltekið að fólk þarfnist samneytis við lífverur og að upplifa náttúruna. Edward O. Wilson gaf árið 1984 út bók um hugtakið og sagði að biophilia fæli í sér "að menn leita eftir tengingum við aðrar lífverur eða náttúruna" ("the connections that human beings subconsciously seek with the rest of life"). Tilvitnanir í Wilson undirstrika þetta mjög vel:

Most children have a bug period, and I never grew out of mine.

 

Humanity is exalted not because we are so far above other living creatures, but because knowing them well elevates the very concept of life. (Biophilia, 1984, p. 22)

Í nútímasamfélagi hafa tengsl fólks og náttúru rofnað að miklu eða öllu leyti. Rétt tæpur helmingur nemenda minna í líffræði hafa verið viðstödd fæðingu dýrs (hvolps, kálfs, lambs...) og margir nútímamenn hafa aldrei út af malbiki stigið. David Suzuki lagði á það áherslu í erindi sínu í vor og haust, og í kvikmyndinni Force of Nature að menn væru að missa sambandið við náttúruna. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, því að náttúran hefur áhrif á okkur og við á hana. Skilningur á náttúrunni er lykillinn að því að verjast henni og að verja hana.  Í þessu markmiði lagði E.O. Wilson nafn sitt við sérstakan Biophilugarð (E.O. Wilson biophilia center) þar sem amerísk börn fá að kynnast náttúrunni.

Tilraun Bjarkar felur í sér að blanda saman tækni og náttúrusýn, vefsíðan og apparötin hafa öll yfir sér náttúrulegan og líffræðilegan blæ. Það var sannarlega ekki tilviljun að Björk fékk David Attenborough til að lesa kynninguna fyrir Biophiliu. Myndbandið við hollow gæti allteins verið kennslumyndband í sameindaerfðafræði, þar sem áhorfandinn fylgir myndavél inn í iður frumunar og fylgist með hökti og skrölti ensímanna sem eftirmynda DNA (Drew Berry höfundur myndbandsins vann/vinnur hjá BBC).

Biophilia Bjarkar á að tvinna saman náttúru, tækni og tónlist. Náttúran hefur vissulega verið listamönnum viðfangsefni um töluverða tíð, hellamálverk, málverk af kúm og eplum og líkamspartalist síðustu aldar. Tónlist er hinsvegar sérstök, því hún er nær eingöngu bundin við mannfólk. Fuglar syngja vissulega, en þeir syngja sjaldan saman eða tileinka sér ný lög af sömu áfergju og við. Þessi sérkennilega ást og tónlistarþörf er líklega eitt af einkennum tegundar okkar. Oliver Sacks talar um tónást (Musicophilia) í þessu samhengi og lýsir í bók sinni bæði ótrúlegri tónlistarþörf og furðulegum tónlistarsjúkdómum. Bók Olivers er stórkostleg, vonandi get ég rætt hana frekar á þessari síðu þegar um hægist á síldarplaninu. Á meðan hlusta ég á lífástarveröld Bjarkar.


mbl.is Björk flytur Biophiliu í fyrsta sinn hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávaxtafluga leitar að maka

Ég lenti í tölvuveseni og tímahraki, með þeim skelfilegu afleiðingum að ég vanrækti bloggið.

Mín auma tilraun til yfirbótar er að deila þessari "skrýtlu".

Drosophila_seeks_mate.jpg

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband