Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Stofnun lífvísindaseturs HÍ

Læknadeild Háskóla Íslands er stappfull af líffræðingum. Margir þeirra eru að fást við grunnrannsóknir á líffræði sjúkdóma, frumna og mannsins. Fjölmargir útskrifaðir BS. nemar í líffræði fara líka í framhaldsnám við læknadeild og gera góða hluti. Umgjörð rannsókna í Læknagarði er hin ágætasta og margar forvitnilegar uppgötvanir gerðar. Í nokkur ár hefur verið óformlegur rammi um þessar rannsóknir, aðallega á sviði sameindaerfðafræði og frumulíffræði, en nú á afmælisári HÍ tekur hann á sig eiginlegt form. Lífvísindasetur HÍ verður stofnað á miðvikudaginn. Úr tilkynningu af vef HÍ:

----- tilkynning byrjar ----

Háskóli Íslands kynnir stofnun Lífvísindaseturs HÍ.Af því tilefni verður athöfn

í Öskju, sal 132, miðvikudaginn 30. nóvember kl. 15:00-17:30.

Dagskrá:

15:00  Opnunarfyrirlestur
Neural crest stem cells: Development, evolution, and relationship to cancer

Marianne Bronner, prófessor, California Institute of Technology
Fundarstjóri: Hannes Petersen, dósent við Læknadeild og yfirlæknir á LSH

16:00   Kaffi

16:15  Opnun Lífvísindaseturs Háskóla Íslands
             Ávarp: Guðmundur Þorgeirsson, forseti Læknadeildar
             Kynning á Lífvísindasetri HÍ: Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild
             Opnun Lífvísindaseturs HÍ: Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Fundarstjóri: Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs

16:45  Léttar veitingar
             Ávarp: Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild

---- tilkynning endar ----


Safnið sem gleymdist, þjóðarhneisa

Náttúruminjasafn Íslands er ekki til, ekki sem aðgengilegt og fræðandi safn í anda Ameríska náttúruminjasafnsinsSmithsonian eða Náttúruminjasafnið í London (The national natural history museum).

Nýverið hélt Helgi Torfason, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands erindi um stöðu safnsins. Hún er heldur bagaleg, eins og fjallað var um í Fréttablaðinu 24. nóvember 2011 (Safnið sem ráðamenn kusu að gleyma). Þar segir m.a.

Öll vestræn ríki, að Íslandi undanskildu, hafa komið upp veglegum náttúruminjasöfnum til varðveislu og sýningar náttúrugripa. Þangað sækja þúsundir manna, heimamenn og gestir, á hverju ári. Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna Íslands, en í rúm 120 ár hefur verið beðið eftir því að náttúruminjasafn fái hentuga aðstöðu.

Ástæðurnar eru þó nokkrar, m.a. skilningsleysi stjórnmálamanna og að því er virðist andstaða Náttúrufræðistofnunar. Helgi segir meðal annars í viðtali við Fréttablaðið:

Erfitt er að fá svar frá stjórnsýslunni. Þau eru nokkur bréfin sem ég hef sent á undanförnum árum til bæði mennta- og menningarmála- og umhverfisráðherra, en fæstum þeirra hefur verið svarað. Ég hef til dæmis sent bréf og óskað eftir því að sett verði á fót óháð nefnd sem færi yfir málefni safnsins og Náttúrufræðistofnunar og gerði tillögur um hvernig gripa- og safnamálum yrði háttað í framtíðinni og hvaða gripir fari til safnsins samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um safnið. Því hefur ekki svarað enn, frekar en öðrum.

...

Helgi segir að ekki sé aðeins unnið gegn safninu innan stjórnsýslunnar heldur sé það einnig gert af forsvarsmönnum Náttúrufræðistofnunar. "Þeir vilja þetta safn dautt og að sýningarnar verði deild hjá Náttúrufræðistofnun og þá í Urriðaholti. Aðilar sem ekki hafa neitt með safnið að gera hafa látið teikna um 500 fermetra sýningaraðstöðu þarna upp frá, sem mér finnst að vísu ekki sýna mikinn metnað. Þess utan er það mín skoðun að staðsetning fyrir sýningar og aðra starfsemi Náttúruminjasafnsins sé afleit í Urriðaholti," segir Helgi. Hann útskýrir að safna- og sýningarhúsnæði verði að vera aðgengilegt fyrir almenning, fjölskyldur, skóla og ferðamenn. "Aðrar þjóðir byggja þessi söfn nær undantekningarlaust miðsvæðis í höfuðborgum sínum. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar hefur kynnt þá skoðun sína að það ætti að gera safnið að deild hjá stofnuninni, þetta kemur reyndar fram í Ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2008."

Er það ekki dæmigert íslenskt að fálæti og valdatogstreita standi góðum verkum fyrir þrifum?

Aðalspurningin er samt hvernig er best að leggja málefninu lið?


Sérfræðingur í lífríki Mývatns

Árni Einarsson líffræðingur er forstöðumaður náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn. Hann hefur stundað rannsóknir á lífríki vatnsins um áratuga skeið og komið víða við.

Við fjölluðum hér einu sinni um grein í Nature um líkön sem Árni, Arnþór Garðarsson og Tony Ives byggðu til að lýsa stofnsveiflum mývargsins (Hamingjuóskir). Þar sagði m.a.

Árni, Arnþór og félagar hafa verið virkir í rannsóknum á þessu vistkerfi en grein þeirra í Nature vikunnar verður að teljast hápunkturinn á góðu verkefni. Í greininni njóta þeir aðstoðar erlendra líkanasmiða, sem sniðu reiknilíkön sem útskýra ágætlega sveiflur í mýstofninum á Mývatni. Anthony Ives smíðaði líkan á grunni reiknirita sem notuð eru til að fylgja eftir sveiflum á mörkuðum eða hreyfingum gervitungla, eins og lýst er í pistli í Nature. Vincent Jensen aðstoðar þá að túlka herlegheitin.

Megin niðurstaðan er sú að stofninn sveiflist milli tvennskonar ástanda. Annars vegar rótækar sveiflur í stærð, sem fólk kannast við, stundum er Mývatn nær ósýnilegt að sumarlagi, en önnur árin stendur það varla undir nafni. Hins vegar getur stofnstærðin stundum hangið stöðug um nokkura ára skeið. Líkanið sem þeir byggðu getur útskýrt hvorutveggja.

Það sem skiptir náttúrulega mestu er það að vistkerfi eru ekki stöðug, og að stundum geta þau hrunið, oft af veigalitlum orsökum. Það ætti að vera ástæða til þess að draga úr veigameira álagi á vistkerfi, sem eru okkur nauðsynleg lifibrauð. 

Nýverið varð Árni gestaprófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, sem er mikil lyftistöng fyrir deildina. Okkur til happs hefur Árni reyndar alltaf haft annan fótinn í náttúrufræðahúsi HÍ, yfir vetrarmánuðina allavega, og lagt mikið af mörkum í vísindastarfi og kennslu.krus-300x208

Árni hefur sett saman ákaflega skemmtilega vefsíðu fyrir náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn og ekki sakar hversu glöggur ljósmyndari hann er. Myndin af krúsinni hér að ofan er fengin að láni af síðu stöðvarinnar.


Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands

Ein merkilegasta viðbót við starfsemi HÍ á undangengnum áratug eru hin fjölmörgu rannsóknasetur sem sett voru upp utan Reykjavíkur. Þau hýsa marga öfluga vísindamenn og stunda rannsóknir í nálægð við líffræðilega og efnahagslega mikilvæg svæði. Á morgun (23. nóv 2011) verður haldinn fundur Stofnunar rannsóknasetra, sem er regnhlífarsamtök fyrir hin ólíku rannsóknasetur HÍ. Fundurinn verður í Þjóðminjasafninu (skráningar er þörf en enginn er aðgangseyririnn). Dagskráin er eftirfarandi:

13:30- 13:40 Setningarávarp – Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands
13:40 -13:55 Efling samstarfs Háskólans og rannsóknasetranna - Sigurður Snorrason deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ.
13:55 -14:10 Samfélags- og menningarlegt hlutverk rannsóknasetra - Þorvarður Árnason, Rannsóknasetri HÍ á Höfn í Hornafirði.
14:10- 14:25 Rekstur rannsóknarverkefna af landsbyggðinni, drifkraftur eða drómi? -Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Rannsóknasetri HÍ á Vestfjörðum.


14:25 - 14:55 Kaffi

14:55 - 15:10 Samvinna HÍ og Háskólafélags Suðurlands um námskeiðahald – reynslusaga - Sigurður Sigursveinsson, Háskólafélagi Suðurlands.
15:10 - 15:25 Um framlag rannsóknasetra til kennslu - Tómas G. Gunnarsson, Rannsóknasetri HÍ á Suðurlandi.
15:25 - 15:40 Umræður.
15:40 - 16:00 Samantekt og ráðstefnuslit - Rögnvaldur Ólafsson formaður stjórnar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.

Fundarstjóri: Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs Háskóla Íslands.


Heiðursverðlaun til líffræðinga

Á ráðstefnunni Líffræðirannsóknir á Íslandi sem haldin var 11. og 12. nóvember veitti Líffræðifélag Íslands tveimur íslenskum vísindamönnum heiðursverðlaun. Halldór Þormar fékk viðurkenningu fyrir farsælan feril og Bjarni K. Kristjánsson viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns.

halldorthormar_bjarnikristjansson_lr2011_stor_1121793.jpg

 

Líffræðifélag Íslands veitti tvö heiðursverðlaun á líffræðiráðstefnunni 2011. Halldóri Þormar fyrir farsælan feril (til vinstri) og Bjarna K. Kristjánssyni fyrir góðan árangur ungs vísindamanns (til hægri). Ljósmynd Arnar Pálsson, copyright.

 

Halldór Þormar, veirufræðingur og prófessor emeritus við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna. Halldór stundaði góðar rannsóknir á mæði-visnuveirunni eftir að Björn Sigurðsson réð hann til Rannsóknarstöðvar Háskólans að Keldum árið 1957. Þá höfðu mæði og visna herjað á íslenskt sauðfé, og Björn sett fram þá tilgátu að orsakirnar væru hæggengar veirur.

Halldór lýsti, í erindi sem hann hélt á líffræðiráðstefnunni 11. nóvember 2011, rannsóknum sem sýndu að visna væri vegna veirusmits. Í nákvæmum tilraunum smitaði hann kindafrumur í rækt með síuðu floti úr heilum sýktra kinda. Veiruagnir voru einangraðar úr ræktinni og sýnt fram á að þær dugðu til að smita kindurnar aftur af visna. Halldór rifjaði upp þessar tímamótarannsóknir af kímni og hógværð - "hver sem er gat gert þetta" var viðkvæðið. Stjórn Líffræðifélagsins ályktaði hins vegar að ævistarf Halldórs væri veigameira en flestra og hann hlaut því viðurkenningu fyrir farsælan feril á sviði líffræðirannsókna.

Rannsóknir sýndu síðar að mæði og visna eru náskyldar veirur, og þær voru fyrstu fulltrúar hóps veira sem kallaðar eru lentiveirur. Þekktasta veiran í ættkvíslinni er eyðniveiran  (e. Human Immuno Deficiency Virus ) eða HIV-veiran sem uppgötvaðist fyrst í byrjun níunda áratugarins. Nú eru miklar rannsóknir stundaðar á mæði-visnu veirunni á Keldum þar sem hún nýtist til að skilja líffræði HIV og alnæmis.

Halldór Þormar lauk mag. scient. prófi í frumulíffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1956. Hann stundaði framhaldsnám í veirufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1957-1958 og á þeim árum stundaði hann rannsóknir við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum, 1957-1960 og síðan aftur 1962-1967. Hann hlaut doktorspróf í veirufræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1966. Halldór stundaði um árabil rannsóknir í New York fylki, en sumpart er ferill hans áþekkur ferli heimshornaflakkarans og teiknimyndahetjunnar Tinna. Halldór hefur nefnilega einnig starfað við Cambridge-háskóla og háskóla og stofnanir í Belgíu, Venezúela, Kína og Danmörku. Árið 1986 var hann ráðinn prófessor í frumulíffræði við líffræðiskor Háskóla Íslands, kenndi þar við góðan orðstír og stundaði vandaðar rannsóknir. Síðustu áratugi hefur Halldór kannað áhrif fitu og sápuefna á veirur og aðra sýkla, sem er sérstaklega mikilvægt viðfangsefni nú þegar mannkynið hefur ofnotað hin klassísku sýklalyf. Halldór ritstýrði bók um þetta fræðasvið, sem kom út hjá hinu virta forlagi Wiley í ársbyrjun 2011.

Verðlaunaður fyrir góðan árangur í upphafi vísindastarfa

Stjórn líffræðifélagsins ákvað einnig að heiðra líffræðing sem lokið hefur doktorsprófi á síðustu 5 árum, og þykir hafa byrjað rannsóknaferil af miklum krafti. Bjarni K. Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum hlaut verðlaunin, því hann hefur gert mjög snjallar rannsóknir á sviði vistfræði og þróunarfræði og birt um þær 22 greinar á stuttum ferli. Ein vísbending um dugnað hans er að nú í ár var hann 39 ára gamall skipaður prófessor við Háskólann á Hólum.

Bjarni er útskrifaður Flensborgari og lauk BS-prófi 1994 og fjórðaársverkefni 1997 frá líffræðiskor HÍ. Hann hóf meistaranám við Guelph-háskóla í Kanada undir leiðsögn David Noakes og Skúla Skúlasonar við Hólaskóla. Meistaraprófi lauk hann 2001 og doktorsprófi frá Guelph háskóla 2008. Bjarni hefur stundað rannsónir á fiskum; hrognkelsum, hornsílum og bleikjum eða á matnum sem fiskarnir borða. Bjarni hefur líka gert sér mat úr mat fiskanna, ekki síst með rannsóknum á áður óþekktum grunnvatnsmarflóm. Um að ræða tvær áður óþekktar tegundir, sem hafa þróast í íslensku grunnvatni í milljónir ára og lifað af margar ísaldir. Þessar tegundir geta veitt okkur ómetanlegar upplýsingar um uppruna og þróun lífs á Íslandi og ekki síður uppruna landsins þar sem tilvist þeirra er talin tengjast landreki. Rannsóknirnar voru unnar í samstarfi við Jörund Svavarsson, Snæbjörn Pálsson og Etienne Kornobis við Háskóla Íslands.

Um 250 manns sóttu líffræðiráðstefnuna 2011 þar sem flutt  voru 84 erindi og 77 veggspjöld kynnt. Ágrip erinda og veggspjalda má lesa á vefsíðu ráðstefnunar (lif.gresjan.is/2011). Ráðstefnan var studd af Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, Íslenskri erfðagreiningu, Gróco ehf, Mennta og menningarmálaráðaneytinu og fleiri aðillum (sjá einnig biologia.hi.is)


Konungsríki refa og vellandi spóar

 

Tveir af framhaldsnemum í líffræði birtust í fjölmiðlum í þessari viku

Bæjarins besta ræddi fyrir helgi við Ester Rut Unnsteinsdóttir forstöðumann Melrakkaseturs og doktorsnema í líffræði. Hér birtast bútar úr viðtalinu.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs í Súðavík segir tófurnar á Hornströndum spila stórt hlutverk í starfsemi Melrakkaseturs. „Hornstrandir eru algjört konungsríki refa og fugla, þá meina ég refa og fugla, ekki bara refa eins og sumir vilja halda fram. Þetta er mjög sérstakt svæði og ekki til mörg slík í heiminum þar sem náttúran fær algerlega að njóta sín og hafa sinn gang.

..

Í viðtalinu segir hún m.a. frá tilurð setursins og hvernig það bjargaði sögufrægu húsi var bjargað frá niðurníðslu. Melrakkasetrið opnaði fyrir tveimur árum og starfsemin eflist stöðugt. Hlutafélagið í kringum Melrakkasetrið var hins vegar stofnað í september 2007. „Þetta er svokallað „non-profit“ hlutafélag og það verður aldrei greiddur ágóði til eigenda heldur fer hann allur í uppbyggingu setursins. Uppleggið var rannsókna- og fræðasetur með sýningu og kaffihúsi. Það komu 42 hluthafar á fundinn og keyptu hlut og tóku þátt í að stofna fyrirtækið. Það þótti mér mjög vænt um þar sem ég er utanaðkomandi og sérfræðingur að sunnan og allt það. Það var mjög mikilvægt að fá þennan meðbyr frá heimamönnum, sveitarfélögunum í kring og fólki í ferðaþjónustu á svæðinu.“ 

Borgný Katrínardóttir hefur stundað rannsóknir á líffræði spóans undanfarin ár. Í sjónvarpsþættinum fjarsjóður framtíðar var fjallað um rannsóknirnar:

Rannsóknir Borgnýjar snúast um vistfræði hálfgróinna áreyra en markmið þeirra er að meta mikilvægi slíks landsvæðis fyrir heimsstofn spóans. „Helmingur allra spóa í heiminum verpir á Íslandi og hvergi þéttar en á hálfgrónum áreyrum,“ segir Borgný. „Slík búsvæði eru víðáttumest hérna á Suðurlandi og finnast víða þar sem ár flæða öðru hverju yfir bakka sína og halda gróðurframvindu niðri.“ Borgný segir að hálfgróin svæði meðfram ám séu víða á undanhaldi, meðal annars vegna stýringar vatnsfalla, bráðnunar jökla og landnáms lúpínu.


Hröð aðlögun að þunnu lofti

Þegar stofnar lenda í nýjum aðstæðum, t.d. flytjast af láglendi upp í hæstu fjallgarða, þá verða þeir fyrir nýjum vaþrýstingi. Arfgerðir sem áður voru hagstæðar eða amk hlutlausar geta reynst skaðlegar við nýjar aðstæður. Sú var raunin þegar forfeður Tíbeta fluttu inn, fyrir um 10.000 - 20.000 árum. 

------

Rannsóknirnar sýna að á þeim 10-20.000 árum sem liðið hafa frá landnámi Tíbet hefur orðið hröð þróun á nokkrum lykil genum. Flest þessara gena tengjast myndun og starfsemi rauðra blóðkorna.

Tíbet er í rúmlega 3500 metra hæð yfir sjávarmáli og súrefni er þar af skornum skammti. Láglendisfólk á oft í miklu basli svo hátt yfir sjó, framleiða mjög mikið af hemóglóbíni og yfirmagn af rauðum blóðkornum, með tilheyrandi aukaverkunum. Dánartíðni barna af Han uppruna sem fæðat í Tíbet er 3 sinnum hærri en dánartíðni Tíbetskra barna. Tíbetbúar eru hins vegar með eðlilegan fjölda rauðra blóðkorna, en líða samt ekki súrefnisskort.

Þetta virkar mótsagnakennt, er ekki flutningsgeta blóðsins meiri ef fleiri eru rauðu blóðkornin? Ástæðan liggur líklega í því að of mikið af blóðkornum og hemóglóbíni leiðir til þykkara blóðs, sem getur aftrað flæði þess og þar með flutningi súrefnis til vefja.

Aldur landnáms í Tíbet og mynstur erfðabreytileikans í þeim genum sem sýna mestan mun á milli Tíbeta og Han fólksins sýna okkur líka hversu hröð þróun getur verið.

Ef til staðar er breytileiki, erfðaþættir sem hafa áhrif á breytileikan, mishröð æxlun einstaklinga og barátta fyrir lífinu, þá mun samsetning stofna breytast. Í sumum tilfellum getum við sett fram nákvæmar tilgátur um þá þætti, í umhverfi eða starfsemi lífverunnar, sem skiptu máli fyrir þróun viðkomandi stofns. Í öðrum tilfellum sjáum við bara merki um náttúrulegt val en vitum ekkert um þá líffræði sem máli skipti.

Það sem gerir rannsóknirnar á loftslagsaðlögun Tíbeta svona aðlaðandi er að líffræði blóðs og viðbragða við súrefniskorti er vel þekkt.

------
Ég veit ekki hvort fjallað verður um þróunarlegar breytingar á líffræði mannsins í þættinum maður og jörð sem sýndur verður í kvöld. Það gildir einu, því ég mun fylgjast með af athygli.

Fjöllin - Líf í þunnu lofti. mánudagur 14. nóv. 2011 kl. 20.00. Endursýnt: 20. nóv. 2011 kl. 13.55

Í þessum þætti er skoðað hvernig fólk fer að því að lifa hátt uppi í fjöllum þar sem náttúran gefur engin grið. Í Altai-fjöllum í Vestur-Mongólíu er nær ómögulegt að stunda dýraveiðar á opnum sléttunum svo að heimamenn hafa fengið gullerni í lið með sér. Í þverhníptum fjöllum Simien-fjalla í Eþíópíu á ungur drengur í harðvítugri baráttu við illskeytta apa sem ætla sér að ræna rýrri kornuppskerunni af fjölskyldu hans. Í Nepal í Himalajafjöllum, á þaki heimsins, verðum við vitni að sjaldséðri athöfn, himnaútför. Þar er enginn viður aflögu fyrir bálfarir og engin leið að grafa lík og þess vegna eru hinir látnu lagðir fyrir hrægammana.

Ítarefni:

Genes for High Altitudes Jay F. Storz Science 2 July 2010: Vol. 329. no. 5987, pp. 40 - 41 DOI: 10.1126/science.1192481

Scientists Cite Fastest Case of Human Evolution Nicholas Wade New York Times

Ég fjallaði um þetta í eldri pistli Erfðir og þróun hæðar og lofts - þeim hluta var skeytt inn á milli punktalínanna.


Býst alltaf við hinu besta

Persónuleikar fólks eru sannarlega mismunandi. Ég veit ekki hvernig persónuleikar þroskast eða mótast eða hvort þeir séu að töluverðu leiti tilkomnir vegna erfða. Hitt er víst að sumir eru mjög jákvæðir en aðrir búast alltaf við hinu versta.

Væntingar hafa áhrif á hugarástand okkar og líkamlegt ástand. Það er þekkt úr læknisfræðinni að sjúklingar upplifa bata, jafnvel þótt þeir hafi fengið sykurpillu (eða aðra í raun gagnslausa meðferð). Þetta eru hin velþekktu lyfleysuáhrif (placebo). Minna þekkt eru gagnstæð áhrif, nocebo (lýsi hérmeð eftir þýðingu). Í þeim tilfellum sýna sjúklingar frekar merki um aukaverkanir, ef þeim er sagt fyrirfram hverjar aukaverkanirnar gætu verið. Ef þeir fá lyf en eru varaðir við því að þeim geti fylgt hausverkur eða niðurgangur, þá aukast líkurnar á því að þeir fái hausverk eða niðurgang. 

Í verðlauna pistli (The nocebo effect: Wellcome Trust science writing prize essay, sem birtist í the Guardian 13. nóv 2011) skrifar Penny Sarchet:

Can just telling a man he has cancer kill him? In 1992 the Southern Medical Journal reported the case of a man who in 1973 had been diagnosed with cancer and given just months to live. After his death, however, his autopsy showed that the tumour in his liver had not grown. His intern Clifton Meador didn't believe he'd died of cancer: "I do not know the pathologic cause of his death," he wrote. Could it be that, instead of the cancer, it was his expectation of death that killed him?

This death could be an extreme example of the "nocebo effect" - the flip-side to the better-known placebo effect. While an inert sugar pill (placebo) can make you feel better, warnings of fictional side-effects (nocebo) can make you feel those too.

Þið hreinlega verðið að lesa pistilinn í heild, en hún segir m.a.

This places a spotlight on doctor-patient relationships. Today's society is litigious and sceptical, and if doctors overemphasise side-effects to their patients to avoid being sued, or patients mistrust their doctor's chosen course of action, the nocebo effect can cause a treatment to fail before it has begun. It also introduces a paradox – we must believe in our doctors if we are to gain the full benefits of their prescribed treatments, but if we trust in them too strongly, we can die from their pronouncements.


Hin stjarnfræðilega smæð frumunar

Gengið á stjörnufræðivefnum hefur oftar en ekki fleygt manni fram af hengiflugi, með því að sýna manni hversu agnarsmár maður er á jörð, í sólkerfi og vetrarbraut á fleygiferð um geim sem er ÓENDANLEGA stór.

Hann Pétur sendi mér mynd sem steypir manni fram af bjarginu í hina áttina. Ekki út í risastórar óravíddir, heldur inn í veröld hins agnarsmáa.

Ég skora á ykkur að fylgja tenglinum og smeygja ykkur milli fruma, baktería og síðan inn í þessar smæstu einingar lífsins og sjá legókubbana sem við og sniglarnir erum búin til úr.

Cell size and scale af Learn genetics síðu háskólans í Utah.


Hið glænýja Blávatn

Efst á jöklinum Ok hefur myndast nýtt stöðuvatn. Vatnið myndast í gígopinu við bráðnun jökulsins árið 2007. Þar finnast meira að segja lífverur, m.a. þörungar og bessadýr. Vatnið er í 1114 metra hæð yfir sjávarmáli, sem þýðir að Blávatn stendur hæst íslenskra vatna.  Botn vatnsins er ísilagður, en með tíma mun það bræða sig niður að jarðveg eða bergi sem myndar gíg Oksins. 

Hilmar Malquist og samstarfsmenn við Náttúrustofu Kópavogs hafa kannað lífríki vatnsins, og stefna á að fylgjast með framvindu lífríkisins þegar frá líður.

Hilmar mun kynna fyrstu niðurstöður rannsóknanna á Líffræðiráðstefnunni 2011. Áhugasömum bendi ég sérstaklega á umfjöllun Spegilsins: Blávatn, nýjasta stöðuvatn landsins

WaterbearHinir furðulegustu íbúar vatnsins eru hin harðgeru bessadýr (sjá mynd af Wikimedia commons). Þau hafa einmitt skipað sér sess í rannsóknum á lífi í geimnum, vegna þess að þau geta lagst í dvala og þraukað við svakalegar aðstæður (Sjá umfjöllun á Vísindavefnum Vísindavefurinn: Hvers konar dýr eru þau sem nefnast tardigrade?)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband