Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Þróunarlegur sveiganleiki

Hér verður rætt um tvær vísindalegar spurningar. Hvernig leiðir þróun af sér breytingar á þroskun og útliti lífvera. Hin er hvernig getur þroskun skilað eðlilegum einstaklingum, þrátt fyrir þróunarlegan breytileika?

Það er staðreynd að þroskun er breytileg, engir tveir einstaklingar þroskast á sama hátt, útlit þeirra, beinabygging, vöðvar og innviðir eru alltaf örlítið mismunandi. Ástæðurnar eru nokkrar, það er munur á umhverfi og erfðaupplagi einstaklinga, og einnig hefur tilviljum áhrif á ferlin. Þetta geta allir sannreynt með því að bera saman hægri og vinstri hendur sínar eða taka mynd af andlitum og spegla eftir miðju andlitinu. Það er nefnilega alltaf smávægilegur munur milli hægri og vinstri hliða (sem getur numið allt að 1-5% af breytileika í viðkomandi eiginleika).

Smávægilegur arfgengur breytileiki í þroskun er hráefni fyrir þróun. Segjum að breytileiki í starfsemi gena sem mynda brjósk í útlimum leiði til þess að sumir einstaklingar eru með aðeins meira brjósk. Ef þetta auka brjósk nýtist einstaklingum í lífsbaráttunni er líklegt að þeir erfðaþættir sem stuðla að myndun þeirra aukist í tíðni í stofninum. Að nægilega mörgum kynslóðum liðnum hefur útlimurinn breyst og e.t.v. kominn ný tá eða stoðbein í fót.

Sjötta tá fílsins, sem þekkt hefur verið meðal líffærafræðinga í nokkur hundruð ár, virðist hafa komið fram fyrir um 40 milljónum ára. John Hutchinson og félagar birtu vísindagrein um þetta efni í Science nú í árslok (From flat foot to fat foot...), þar sem þeir rekja þróunarsögu eiginleikans (sbr. mynd úr greininni - prentleyfi Science magazine).

f4_medium.gif

Hutchinson og félagar gera því skóna að þessi auka tá hafi einmitt nýst forfeðrum fíla, við að ganga og bera uppi líkamsþunga sinn. Þessu til stuðnings er sú staðreynd að stærð þessara dýra hefur einmitt aukist undangengnar aldir, þegar miðað er við fílaforföðurinn.

Á þennan hátt getur þróunin búið til nýjungar, úr smávægilegum frávikum í þroskun. Jákvætt náttúrulegt val dregur til brúkleg smáatriði, veigalitlar brjóskbungur og frumuhnoðra, og mótar úr þeim dýrlegustu form og skepnur. Af þeim eru fílar og ávaxtaflugur stórkostlegastar, að ótöldum mannöpunum spaugsömu (O, sei sei. Það var nú í þá daga.).

Að síðustu vill ég þakka mbl.is fyrir ljómandi ágæta skrifaða grein.  Sannarlega er um endurflutning á frétt BBC að ræða (Elephant's sixth 'toe' discovered), en textinn er laus við mistúlkanir. Það eina sem stingur í stúf er að vísindagreinin í Science er kölluð ritgerð og skýrsla, sem er örlítið ónákvæmt vegna þess að greinar í svona tímaritum eru ritrýndar en venjulegar ritgerðir og skýrslur ekki. Á hinn boginn er notkun ritgerðar og skýrsluorðanna líka merkilega hressandi.

Ítarefni:

Frétt BBC: Elephant's sixth 'toe' discovered 23 desember 2011.

From Flat Foot to Fat Foot: Structure, Ontogeny, Function, and Evolution of Elephant “Sixth Toes” John R. Hutchinson, Cyrille Delmer, Charlotte E. Miller, Thomas Hildebrandt, Andrew A. Pitsillides og Alan Boyde Science 23 December 2011: 1699-1703.[DOI:10.1126/science.1211437] Ágrip


mbl.is Fílar eru með sex tær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræðimaðurinn og Sjúklingurinn

Ég held að velflestir hafi gaman að sjálfum sér, amk. að hugsa um sjálfan sig ef ekki um að tala eða dásama. Og í slíkum sjálfsrenningum er nokkuð algengt að fólk rekist á nýjar hliðar á sjálfum sér eða persónu sinni. Slíkt er fyllilega eðlilegt, engin skömm er af því að vilja frekar hjálpa hömstrum í smáhamstraburði en að selja verðbréf. Einnig er það náttúruleg staðreynd að margir samborgarar okkar eru beinlínis þjakaðir af slíkum eða áþekkum fjölbreytileika í geðslagi eða persónu. Einn slíkur er sjúkdómurinn geðhvörf (e. bipolar disorder), þar sem sjúklingurinn getur sveiflast milli ofláta og þunglyndis, jafnvel sama daginn.

Einn félagi minn hefur borið slíkan kross í rúm 20 ár. Samhliða hefur hann stundað sína rannsóknarvinnu, á vísindasögu og tengslum mannerfðafræði og líftækni. Upp á síðkastið hefur sjúkdómurinn orðið að hans faglega viðfangsefni. 

Steindór J. Erlingsson hefur kafað í heimildir um virkni(eða skort á virkni) margra geðlyfja sem nú eru algeng á markaði, og starfshætti lyfjafyrirtækja. Það sem gefur skrifum hans sérstakan tón er að þetta er ekki eingöngu starf hugsjónamanns heldur barátta sjúklings við að skilja ástand sitt og leita lækninga.

Við höfum vitnað til margra greina Steindórs hér, en nýjasta greinin er sú athyglisverðasta til þessa. Hún birtist í Geðvernd: Rit Geðverndarfélags Íslands ( Frá vonleysi til vonar: Hugleiðingar fræðimanns um sjúkling, geðlyf og bata, 40: 24-29, 2011.). Ég fékk leyfi til að birta hér nokkrar málsgreinar. Hér fjallar Steindór um sínar tvær hliðar, Fræðimanninn og Sjúklinginn.

Meðvitundin um togstreituna á milli Fræðimannsins og Sjúklingsins sem kviknaði um mitt árið 2008 fól ekki í sér skilning á eðli vandamálsins. Liðu tæp tvö ár þar til fullnægjandi skilningur birtist skyndilega. Þetta átti sér stað í kjölfar innlagnarinnar í upphafi ársins 2010. Á meðan á henni stóð kynntist ég lækni sem við skulum kalla Önnu. Hún sýndi mér mikinn áhuga og gaf sér mun meiri tíma til samskipta en nokkur annar geðdeildarlæknir sem rekið hefur á fjörur mínar. Í samræðum okkar fór ég að tala um mig sem samsettan úr tveimur hlutum, Fræðimanninum og Sjúklingnum, sem geta ekki á nokkurn hátt talast við. Þarna sá Anna tækifæri!

Sannarlega eiga geðsjúkdómar sér bæði rætur í líffræði okkar og samskiptum (eða skorti á þeim) milli fólks. Í greininni ræðir Steindór nokkur að þeim atriðum sem ættu að gera fólk tortryggið gagnvart lyfjamokstri geðlækna, en einnig hvernig manneskjuleg samskipti og innsæi geta hjálpað fólki við að yfirstíga sín geðrænu vandamál. Lausnin er ekki alltaf að gleypa magnyl, stundum þarf maður að ýfa upp gömul sár, eða amk horfa á örin.


Ný grein um hraðan útdauða

Ég var að lesa fínan pistil á Loftslag.is um nýlega grein um útdauðabylgjuna fyrri 252 milljónum ára. Greinin sem þeir vitna til  (Shen o.fl. 2011: Calibrating the End-Permian Mass Extinction) metur að útdauðinn hafi skollið mjög snögglega á, sbr. grein loftslagsmanna (Hinn hraði útdauði).

Á  mörkum Perm og Trías, fyrri um 252 milljónum árum síðan, þá þurrkaðist út um 90-95 % af öllu lífi jarðar, jafnt hjá lífverum á þurrlendi sem og hjá sjávardýrum. Hinn mikli dauði (e. The Great Dying), eins og hann er stundum kallaður var alvarlegastur allra fjöldaútdauða lífvera í sögu jarðar og líklega sá tími sem jarðlíf hefur komist næst því að þurrkast út – algjörlega. Tilgátur um ástæður útdauðans eru mikil eldvirkni, súrefnisþurrð sjávar og – sem þykir ólíklegt – árekstur loftsteina.

Þó ástæða þessara hamfara sé óljós, þá hefur rannsóknateymi (Shen o.fl. 2011) staðfest að útdauðinn gekk mjög hratt yfir eða á um 20 þúsund árum. Það er gríðarlega stutt tímabil á jarðfræðilegum skala.

 


Íslensku vísindabækur ársins

Fjórar íslenskar vísinda og fræðibækur hljóta mín einlægustu meðmæli. Tvær þeirra eru þýðingar (Fiskurinn í okkur og Skipulag alheimsins) en tvær samþætta vísindi og samfélag (Sæborgir og Þingvellir).

fiskurinn_i_okkurYour inner fish eftir Neil Shubin var þýdd af Guðmundi Guðmundssyni og gefin út af Ormstungu á haustmánuðum undir titlinum Fiskurinn í okkur. Um er að ræða snilldartexta frá höfundarins hendi. Neil samþættir steingervingafræði, þekkingu okkar á líffærum og genum til að afhjúpa hina sameiginlegu þætti spendýra, hryggdýra og fjölfruma dýra.

Úr tilkynningu Ormstungu.

Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?

Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.

Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.

Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, „týndi hlekkurinn“ milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.

Shubin leggur áherslu á að við berum með okkur arfleið forföður sem bjó í hafinu. Á sama hátt má segja að við berum með okkur arfleið sameiginlegs forföður okkar og ávaxtafluga, okkar og amöbu og okkar og gersvepps. (úr Darwin var fiskur)

Þetta þýðir einnig að kengúrur bera einnig í sér arfleifð forföðurs sem bjó í hafinu, og ávaxtaflugur þætti sem sameiginlegur forfaðir okkar og þeirra bjó yfir fyrir 500-450 milljón árum síðan.

droppedImageSkipulag alheimsins er eftir hinn heimskunna Stephen_Hawking sem nýtur aðstoðar galdramannsins(pennans) Leonards Mlodinow . Þýðingu önnuðust Baldur Arnarsson og Einar H. Guðmundsson, og fá má bókina á tilboði á aðeins 3.990 kr.  Við fjölluðum stuttlega um bókina áður (SKIPULAG ALHEIMSINS á íslensku) en birtum hér aðeins ágrip af vefsíðu íslensku þýðingarinnar:

Hér kynna Stephen Hawking og Leonard Mlodinow nýjustu hugmyndir vísindamanna um ráðgátur alheimsins. Þeir setja fram þá tilgátu að ekki sé til nein ein útgáfa af raunveruleikanum. Einnig útskýra þeir fjölheimstilgátuna sem gerir ráð fyrir mörgum alheimum og kynna til sögunnar þá tilgátu að alheimurinn eigi sér ekki aðeins eina tilvist eða sögu. Loks fjalla þeir um M-kenninguna, útskýringuna á lögmálum sem stjórna okkur og alheiminum. Hún er sennilega besta heildstæða „kenningin um allt“ sem völ er á. Ef hægt er að staðfesta kenninguna, segja þeir, verður hún sameinaða kenningin sem Einstein leitaði að og hinn endanlegi sigur mannlegrar rökhugsunar. 

Sjá einnig Bókin sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út! á stjörnufræðivefnum og umfjöllun Gunnars Th. Gunnarssonar um Skipulag alheimsins.

thingvellirÞingvellir, þjóðgarðar og heimsminjar Sigrúnar Helgadóttur samþættir vísindi, sögu og samfélag. Sigrún hlaut fræðibókaverðlaun hagþenkis fyrir bók sína um Jökulsárgljúfur og þessi bók er engu síðri.  Mann skyldi ætla að nóg hafi verið skrifað um Þingvelli, og að erfitt sé að toppa meistaraverk Péturs Jónassonar og Páls Hersteinssonar heitins Þingvellir- undraheimur í mótun. Sigrún tekur vel á viðfangsefninu, og hefur bersýnilega varið mörgum dögum við rannsóknir á rituðum heimildum og ekki síður að kanna landið með eigin fótum. Þingvellir eru náttúrulega einstakt jarðfræðifyrirbæri, en skarta einnig sérstæðu lífríki. Saga staðarins er samofin sögu þjóðarinnar. Þótt við lifum ekki lengur eins og Hraunfólkið, þá tel ég ákaflega hollt fyrir íslendinga að muna, bæði uppruna lýðræðisins og þá samvinnu og vinnusemi sem hélt lífi í forfeðrum okkar.

Sæborgir Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings kom út um miðbik ársins hjá Háskólaútgáfunni. Um er að ræða ágætlega skrifaða samantekt á snertiflötum tækni, líffræði, læknisfræði og verkfræði. Titill bókarinnar er Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika og spannar vítt svið. Saeborgin-netSem bókmenntafræðingur nálgast Úlfhildur viðfangsefnið mikið til frá sjónarhorni ritaðs skáldskaps, en er einnig rösk að tína þemu og hugmyndir úr tónlist og myndlist. Veikleikar bókarinnar eru kannski helst í umfjöllun um líftækni, þar sem hún hefur ekki alveg burði til að greina mun á raunverulegum minna verulegum möguleikum á inngripum og tæknivæðingu læknavísinda. Það verður þó að viðurkennast að markmið hennar er líklega víðtækara en að kanna í þaula hagnýtt sambland tækni og lífvera. Hún segir allavega í viðtali við RVE í Fréttablaðinu (Líftækni í ljósi skáldskapar 13. ágúst 2011)

Allt miðar þetta að því að skoða hvaða áhrif tækni hefur á samfélagið okkar og einstaklinginn sjálfan eða hugmyndir okkar um mennsku," bendir Úlfhildur á og bætir við að hugmyndirnar séu setta fram til að dýpka skilning íslenskra lesenda á þessum flóknu fyrirbrigðum, líftækni og sæborgum.  Blaðamaður biður hana vinsamlegast um að útskýra nánar hugtakið sæborg áður lengra er haldið. "Sæborg er nærtækt dæmi um líftækni úr skáldskap og vísar til lífveru sem er að einhverju leyti vélræn eða vélar sem er að einhverju leyti lífræn," segir hún og tekur ófreskju Frankensteins og tortímandann úr samnefndum kvikmyndum sem dæmi um slíkar verur. "Ef við heimfærum þá skilgreiningu yfir á veruleikann mætti segja að við séum flest að einhverju leyti sæborgir í samfélögum nútímans sem reiða sig á alls konar tól og tækni. Svona rétt eins og þú ert að pikka þetta samtal inn á tölvu sem er þá orðin framlenging af þér," segir hún glettin. "Þess vegna fannst mér sæborgin ágætt viðmið því við getum sett okkur í hennar spor."

Hvernig þessi nálgun á síðan eftir að hugnast vísindamönnum segir Úlfhildur svo annað mál. "Ég veit að þeir sem starfa á þessu sviði eru lítt gefnir fyrir að skella þessu öllu saman í einn hrærigraut eins og gert er í bókinni. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt til að setja hlutina í stærra samhengi," segir hún og kveðst vona að bókin veki umtal. "Eiginlega stóla ég á að hún valdi deilum," segir hún og brosir.

Ég get eindregið mælt með hugvekju Úlfhildar og bendi á að hún mun fjalla um efni bókarinnar á morgun (16. des 2011), á fræðslufundi Vísindafélags Íslands. Erindið kallast Frankenstein og félagar: líftækni í ljósi skáldskapar (Kaffi Sólon, Bankastræti 7a efri hæð, kl. 15:00).


Heili 1 og heili 2

Mér finnst fáránlega gaman að læra um starfsemi heilans. Hvernig við tökum ákvarðanir eða leyfum skoðunum okkar að stýra ályktunum okkar? Mikið af því sem kallað er heilbrigðs skynsemi er alls ekki skynsamt og enn síður heilbrigt. Við misskiljum veröldina, stöðu okkar í henni og eigin getu (sjá t.d. Ertu viss eftir Gilovich).

Þróunarsálfræðingar hafa gert því skóna að það sé gott að vera of-jákvæður, og með útblásið sjálf. Þá sé maður líklegri til afreka. Það er sannarlega skemmtileg tilgáta en ég get ekki gleypt við henni að óathuguðu máli.

En þegar Daniel Kahneman skrifar bók um hugsun, þá verður maður að veita því eftirtekt. Kahneman hlaut nóbelsverðlaun í hagræði árið 2002 og er þekktur fyrir rannsóknir sínar með Amos Tversky. Ég ætla að leyfa mér að sleppa frekari útlistingum og vísa ykkur á grein um bók Kahnemans Thinking, fast and slow í the Guardian (Galen Strawson,  Tuesday 13 December 2011 11.56 GMT)

We now know that we apprehend the world in two radically opposed ways, employing two fundamentally different modes of thought: "System 1" and "System 2". System 1 is fast; it's intuitive, associative, metaphorical, automatic, impressionistic, and it can't be switched off. Its operations involve no sense of intentional control, but it's the "secret author of many of the choices and judgments you make" and it's the hero of Daniel Kahneman's alarming, intellectually aerobic book Thinking, Fast and Slow.

System 2 is slow, deliberate, effortful. Its operations require attention. (To set it going now, ask yourself the question "What is 13 x 27?" And to see how it hogs attention, go to theinvisiblegorilla.com/videos.html and follow the instructions faithfully.) System 2 takes over, rather unwillingly, when things get difficult. It's "the conscious being you call 'I'", and one of Kahneman's main points is that this is a mistake. You're wrong to identify with System 2, for you are also and equally and profoundly System 1. Kahneman compares System 2 to a supporting character who believes herself to be the lead actor and often has little idea of what's going on.


Er 1% munur á DNA manns og höfrungs?

Vísindavefurinn fékk eftirfarandi spurningu:  Er það rétt sem Dr. House segir í einum þætti að ef DNA okkar breytist um 1% þá verðum við höfrungar? Það féll í minn hlut að svara, sbr. málsgreinar hér að neðan.

Sjónvarpspersónan Dr. House segir eitthvað á þessa leið í einum þætti: "Ef DNA okkar breytist um 1% þá verðum við höfrungar". Þessi setning felur í sér þá hugmynd að menn og höfrungar séu eins að upplagi. Það er rétt, menn (homo sapiens) og höfrungar eru bæði spendýr með áþekka grunnbyggingu og líkamsstarfsemi.

Dr. House, eða nánar tiltekið handritshöfundar þáttanna, fara hins vegar frjálslega með nokkrar staðreyndir. Höfrungur er nefnilega samheiti fyrir tugi tegunda smárra hvala í fjölskyldunni (Delphinidae) sem skipa má í nokkrar ættir. Innan ættarinnar rúmast meira að segja háhyrningar (Orcinus orca) og fimm aðrar tegundir sem í daglegu tali kallast hvalir, enda eru þær mjög stórvaxnar.

Ættartré þessara tegunda hafa verið afhjúpuð með samanburði á DNA-röðum, bæði hvatbera og annarra gena. Niðurstöðurnar eru þær að sumar tegundir höfrunga eru mjög náskyldar, en aðrar, eins og árhöfrungar í Amasón, aðskildust fyrir meira en 20 milljón árum. Á svipuðum tíma var uppi síðasti sameiginlegi forfaðir manna og Rhesusapa. Gögnin sýna einnig að höfrungar og flóðhestar nútímans áttu sameiginlegan forföður fyrir um það bil 50 milljón árum. Aðrir náskyldustu ættingjar höfrunga eru klaufdýr, sem innihalda meðal annars kýr og kindur.

En hversu mikill munur er þá á erfðamengi manna og höfrunga? Munurinn milli manna og simpansa er um það bil 1%, þegar við einskorðum okkur við samanburð á þeim hlutum genanna sem mynda prótín. Aðrir hlutar erfðamengisins breytast hraðar og eru ólíkari milli tegunda. Einungis eitt erfðamengi höfrungs hefur verið raðgreint í heild, það er erfðamengi stökkuls (Tursiops truncatus), en unnið er að raðgreiningu nokkurra annara. Verkefnið 10K genomes miðar að því að raðgreina alls 10.000 hryggdýr.

Mismunurinn á genum manna og höfrunga er mun meiri en það 1% sem Dr. House var lagt í munn. Sum gen eru ólík um 3%, önnur 7% og enn önnur mun ólíkari. Að auki hafa gen líka tapast eða orðið til í þróunarsögu þessara tegunda. Hluti af erfðamengi okkar er af sama meiði og erfðamengi höfrunga, en við höfum einnig tapað nokkrum genum sem höfrungar bera ennþá í sér. Að sama skapi höldum við í nokkur gen sem þeir hafa tapað. Einfalt bókhald á erfðamengjum manns og simpansa sýnir að okkur áskotnuðust einnig nokkrir tugir gena á undangengnum 3-5 milljón árum. Algengast er að slíkt verði þegar eitt gen tvöfaldast, en einnig verða til gen við samruna tveggja gena og jafnvel framandi DNA-búta.

Rannsóknir á þróun höfrunga og annarra spendýra afhjúpa að auki undarlegt mynstur. Hraði þróunar (fjöldi basabreytinga) er mismikill á ólíkum greinum þróunartrésins. Mælingar sýna að meðal spendýra breytist hvatberalitningurinn um 1% á hverjum milljón árum. Það þýðir að einn af hverjum 100 bösum í DNA breytist á þessum tíma. Hvalir og höfrungar eru hins vegar með mun lægri þróunarhraða í hvatberanum, um 0,25% á hver milljón ár. Ástæðan er líklega hinn langi kynslóðatími hvala miðað við meðal spendýrið.

Heimildir og ítarefni:


Tengsl sjófugla við vistfræði sjávar

Eftir rétta viku (16. desember 2011) mun Gunnar Þór Hallgrímsson verja doktorsritgerð sína: Takmarkandi þættir í vistfræði tveggja máfategunda. Erindið verður í stofu 132 í Öskju (náttúrufræðahúsi HÍ), kl 10:00.

gth_lardel010509_9 Gunnar er óforbetranlegur fuglaáhugamaður (sbr. myndir af www.fuglar.is - t.d. af Hringmáf (Larus delawarensis)) hefur stundað rannsóknir á fuglum um nokkura ára skeið og hefur birt um þær nokkrar greinar. Úr tilkynningu.

Í doktorsverkefni sínu, sem byggir á átta greinum, athugaði Gunnar takmarkandi þætti í vistfræði tveggja máfategunda, sílamáfs og silfurmáfs. Miklar breytingar urðu nýlega í stærsta varpi sílamáfa  á Reykjanesskaga, bæði í útbreiðslu og í mikilli fækkun fjölda verpandi máfa. Ástæður breytinga í útbreiðslu varpsins má rekja til staðsetninga tófugrenja en hrunið í fjölda varpfugla er einkum rakið til fæðuskorts sem m.a. hefur haft áhrif á eiginleika tengda varpinu t.d. minnkandi eggjastærða. Áhrif vítamínsskorts (þíamíns) á fækkun máfa í meginlandi Evrópu var athuguð og einnig hér á landi og eins möguleg áhrif mengunar. Auk þessa voru far sílamáfa og kyngreiningaraðferðir athugaðar. ...

Andmælendur eru dr. Robert Furness, prófessor við Háskólann í Glasgow, Skotlandi og dr. Kristján  Lilliendahl, sérfræðingur á Hafrannsóknarstofnun. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Páll Hersteinsson prófessor hjá Líf- og umhverfisvísindadeild. Eftir andlát Páls í október síðastliðnum tók dr. Snæbjörn Pálsson, dósent við sömu deild, við sæti hans í doktorsnefndinni, en auk hans í nefndinni eru dr. Agnar Ingólfsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, dr. Lennart Balk, dósent við Stokkhólmsháskóla, og dr. Ólafur Karl Nielsen, sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands.  

Erlendur andmælandi Gunnar, dr. Robert Furness mun einnig halda erindi sama dag (kl 14:00, í sömu stofu), sem nefnist samskipti sjófugla, sandsíla afræningja í sjó og fiskveiða.

Fjöldi sjófugla í Skotlandi jókst töluvert frá sjötta áratug síðustu aldar fram á þann tíunda. Vísbendingar eru um að ein ástæða þessarar aukningar var fjölgun sandsíla. Ofveiði á þorski, lýsu, makríl og síld í Norðursjó leiddu til fjölgunar sandsíla. Veiðar á sandsílum jukust í kjölfarið. Í lok níunda áratugarins hrundi sandsílastofninn við Hjaltlandseyjar og hafði það áhrif á varpárangur og stofnstærð nokkurra sjófuglategunda. Eftir aldamót hafa flestir sandsílastofnar minnkað stórlega í Norðursjó og sýnt litla nýliðun. Samfara hruni sandsílastofnsins jókst síld í Norðursjó. Stofnstærð margra skoskra sjófugla er nú minnkandi að undanskilinni súlu sem lifir á síld auk minni fiska. Fyrirlesturinn mun rekja þessar breytingar og fjalla um að hve miklu leyti breytingarnar megi rekja til fiskveiða frekar en náttúrlegra orsaka einsog loftslagsbreytinga.


Gul blaðra...sjáðu gul blaðra...sjáðu gul blaðra...

Maður skyldi ætla að á virðulegum fjölmiðlum sé einhver sem hafi yfirumsjón með hverjum málaflokki. Tökum vísindi og tækni sem dæmi, það væri e.t.v. einhver ritstjóri yfir þeim greinum sem birtar yrðu undir þeim málaflokki. Sem ákvæði hvort að efnið sé nægilega vandað og hvort það eigi erindi við íslenska lesendur. Slíkur ritstjóri gæti t.d. komið í veg fyrir að sama fréttin birtist aftur og aftur, undir mismunandi fyrirsögnum.

Þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir að mbl.is birti tvær fréttir um sama efni á innan við viku.

Ætla að klóna mammút

og

Reisa loðfílinn upp frá dauðum

Spurningin um upprisu loðfílsins er í sjálfu sér ágætlega spennandi, en sérstaklega hvernig vísindamennirnir koma sér í fjölmiðla án þess að gera nokkurn skapaðan hlut - sjá t.d. Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl.

Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir því að sama fréttin birtist tvisvar undir keimlíkum fyrirsögnum (ath þetta er ekki eina dæmið!).

Er ritstjórn vefmiðilsins mbl.is losaraleg?

Lesa fréttamenn mbl.is ekki sinn eigin miðil?

Eða halda þeir að við séum svona hryllilega ginkeypt...nei vá gul blaðra, og önnur gul blaðra, ooooh, blá blaðra....


mbl.is Reisa loðfílinn upp frá dauðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SKIPULAG ALHEIMSINS á íslensku

Fyrir rúmum 20 árum las ég uppruna tímans, bók Stephen Hawking um alheiminn og tímann. Það var meiriháttar upplifun, því hann ritar um flóknar og forvitnlegar spurningar á einstaklega skýran hátt.

Hawking hefur skrifað nokkrar fleiri bækur, bæði sjálfur og með Leonard Mlodinow. Síðasta bók þeirra félaga heitir einmitt skipulag alheimsins (the grand design), sem er nú komin út á íslensku. Af vefsíðu íslensku þýðingarinnar:

Hér kynna Stephen Hawking og Leonard Mlodinow nýjustu hugmyndir vísindamanna um ráðgátur alheimsins. Þeir setja fram þá tilgátu að ekki sé til nein ein útgáfa af raunveruleikanum. Einnig útskýra þeir fjölheimstilgátuna sem gerir ráð fyrir mörgum alheimum og kynna til sögunnar þá tilgátu að alheimurinn eigi sér ekki aðeins eina tilvist eða sögu. Loks fjalla þeir um M-kenninguna, útskýringuna á lögmálum sem stjórna okkur og alheiminum. Hún er sennilega besta heildstæða „kenningin um allt“ sem völ er á. Ef hægt er að staðfesta kenninguna, segja þeir, verður hún sameinaða kenningin sem Einstein leitaði að og hinn endanlegi sigur mannlegrar rökhugsunar.

Mér er reyndar minnistætt að þegar bókin kom út var Stephen með yfirlýsingu um að hann teldi ekki hefði þurft guðlegt inngripi til að koma veröldinni  á koppinn.

Because there is a law such as gravity, the Universe can and will create itself from nothing. Spontaneous creation is the reason there is something rather than nothing, why the Universe exists, why we exist...

It is not necessary to invoke God to light the blue touch paper and set the Universe going.

Þá sagði ég í pistli (Var hann lengi að fatta?)

Uppruni heimsins er torrannsakanlegur, en við þurfum samt ekki að kasta frá okkur hinni vísindalegu aðferð og sættast allt í einu á yfirnáttúrulega skýringu. Er þessi yfirlýsing ekki bara auglýsingabrella fyrir nýju bókina?

Það er hæpið að svona upphrópanir þurfi til að selja bókina hérlendis, íslenskir bókkaupendur eltast meira við gæði en spennandi slúðursögur og dramatískar yfirlýsingar (eða grafískar lýsingar).

Svona í framhjáhlaupi vill ég benda á að meðhöfundur Hawkins, Leonard Mlodinow hefur verið ötull á ritvellinu. Hann skrifaði m.a. bókina Ramb rónans, hvernig tilviljun ræður lífi okkar (Drunkard ́s Walk: How Randomness Rules Our Lives). Um er að ræða snilldarlega úttekt á mikilvægi tilviljunar, og því hvernig skarpskyggnin blekkir okkur, hvernig við sjáum mynstur úr þoku og oftúlkum minnstu breytingar.

Hann kafar einnig ofan í líkindafræðina og sýnir okkur hvernig reglur hennar ganga gegn "heilbrigðri skynsemi". Þannig að jafnvel reyndustu fræðimenn ramba á rangt svar - og dómarar einnig. Mlodinov m.a. fjallaði um OJ Simpson dóminn. Úr dómi NY Times um Drunkards walk.

When statistics are used in a court of law the effect can be just as misleading. Mlodinow recalls the O. J. Simpson trial, in which the prosecution depicted the defendant as an inveterate wife abuser. One of Simpson’s lawyers, Alan Dershowitz, countered with statistics: in the United States, four million women are battered every year by their male partners, yet only one in 2,500 is ultimately murdered by her partner.

The jury may have found that persuasive, but it’s a spurious argument. Nicole Brown Simpson was already dead. The relevant question was what percentage of all battered women who are murdered are killed by their abusers. The answer, Mlodinow notes, didn’t come up in the trial. It was 90 percent.


mbl.is Viltu spyrja Hawking spjörunum úr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl

Venjulega þurfa vísindamenn að birta greinar um merkilegar framfarir eða niðurstöður til þess að fréttmenn beini að þeim kastljósum. Japanskir og rússneskir vísindamenn hafa fundið sniðuga leið fram hjá þessu smáatriði. Þeir tilkynntu í upphafi árs að þeir ætluðu að freista þess að klóna loðfíl (íslenska þýðingin á mammút!). Galdurinn er semsagt ekki að framkvæma góða rannsókn, heldur að AUGLÝSA hugmyndina um svakalegt stórvirki.

Sölumennska og glansmyndir eru hluti af vopnabúri sumra vísindamanna sem reyna að afla fé til rannsókna sinna og nafni sínu frægð. Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt, að vísindamenn þurfi (eða leyfi sér) að stunda þvílík vinnubrögð. Maður er því miður alvanur sölubrellum, rökvillum, smjörklípum og ryksprengjum í umræðu um stjórnmál og þjóðfélagið, en ætti sannarlega að vera öskuillur yfir sorglegri umræðuhefð og þroskaskorti. Lífið er ekki morfis, það eru til algild sannindi sem falla ekki úr gildi þótt að einhverjir trúðar þyrli upp moldviðri og sturti saur yfir andstæðinga sína.

Því miður grípa fjölmiðlarnir svæsnustu frasana, ýktustu fullyrðingarnar, svakalegustu slysin og bera á borð okkar. Við veljum að skoða fréttirnar um slysin, líkamspartana, rifrildin og uppgjörin, á meðan fjármagnseigendur og veltengdir velunnarar valdamanna (núverandi og fyrrverandi) maka krókinn í þögninni. Ég tel það enga tilviljun að Murdoch veldið gangi á mokstri á gulum fréttum, slúðri og hálfklámi sem duga fjarska vel til að draga úr þjóðfélagslegri virkni almúgans.

En er hægt að klóna loðfíl? 

Í janúar síðastliðnum ræddi ég þetta mál við Guðmund Pálsson og Frey Geirfugl Eyjólfsson í morgunútvarpi rásar 2. Þar ályktaði ég að:

...hæpið sé að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt. Sannarlega væri mikilfenglegt að sjá loðfíl rölta niður Skólavörðustíg, en bévítans óvissuþættirnir benda til að það sé ólíklegur möguleiki. 

Stutt leit á netinu bendir til þess að ósköp lítið hafi breyst frá því í janúar. Rússnesku vísindamennirnir fundu jú reyndar bein af loðfíl, sem þeir segja að sé heppilegt fyrir tilraunirnar sem þeir hafi í hyggju. Ég vildi óska þess að þeir gerðu eitthvað að viti í staðinn fyrir að senda endalausar fréttatilkynningar út í heim. Sem gera ekki annað en að glepja þýðendur vef"frétta"miðlanna. Kannski er þetta vísindafréttafræðileg tilraun, þar sem þeir dæla út tilbrigði við sama stef, á 8-12 mánaða fresti og sjá hversu lengi fjölmiðlar verða að fatta gabbið?

Heilagur Ra, það var ekki meiningin að vera svona neikvæður, mögulega er þetta svörun arfgerðar minnar við skelfilegum kulda. Hvíðið eigi, Barbapabbi mun bjarga málunum.

Tengt efni:

Hugmyndir um klónun loðfíla

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni


mbl.is Ætla að klóna mammút
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband