Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Arfleifð Darwins: námskeið

arfleifddarwins_kapa3_1049132.jpgÁrið 2009 voru 200 ár liðin frá fæðingu Charles R. Darwins og 150 ár síðan bók hans “Uppruni tegundanna” kom út. Af því tilefni rituðu íslenskir vísindamenn bókina Arfleifð Darwins.

Áhugasömum er bent á að nokkrir af höfundum kafla í bókinn Arfleifð Dawins munu taka þátt í námskeiði á vegum Endurmenntunar HÍ. Þar verður rætt um valda kafla bókarinnar, um Charles R. Darwin og þróunarkenninguna í víðu samhengi.

Á námskeiðinu verður farið í efni þeirrar bókar og ýmsar spurningar ræddar, s.s.:

  • Hvers vegna stunda lífverur kynæxlun?
  • Hver er uppruni lífsins?
  • Hvað eru lifandi steingervingar?
  • Hvernig þróuðust finkurnar á Galapagoseyjum?
  • Hvernig tóku Íslendingar þróunarkenningunni?
  • Hvernig þróast fórnfýsi?
  • Veldur þróun sjúkdómum?
  • Hver eru tengsl þróunarfræði, hugvísinda og trúarbragða?
  • Eru nýjar tegundir að myndast á Íslandi?
Skráningarfrestur er til 2. mars 2011. Skráning

Kennsla / umsjón:

Arnar Pálsson, dósent við HÍ, Bjarni K. Kristjánsson, dósent við Hólaskóla, Guðmundur Ingi Markússon, verkefnisstjóri við HÍ, Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla SÞ, Ólafur Ingólfsson, prófessor við HÍ, Snæbjörn Pálsson, dósent við HÍ og Steindór Erlingsson, sjálfstætt starfandi.

Arfleifð Darwins: ritdómar

Arfleifð Darwins: Þróunarkenningin barst fljótt til Íslands

 


Aðalfundur Líffræðifélag Íslands 28. febrúar

Líffræðifélag Íslands verður 32 ára á árinu 2011. Starf félagsins hefur aðallega snúist um að halda málþing og ráðstefnur um líffræðileg málefni. Síðasta afmælisráðstefna var haldin árið 2009, og var þar ákveðið að halda stóru líffræðiráðstefnuna á 2 ára fresti en ekki á 5 fresti. Einnig stóð félagið, í samstarfi við vistfræðifélag íslands, fyrir eins dags ráðstefnu um líffræðilegan fjölbreytileika haustið 2010.

Nú liggur fyrir að skipuleggja ráðstefnu ársins 2011. Að því tilefni verður haldinn aðalfundur félagsins og undirbúningur hafinn fyrir skipulagningu líffræðiráðstefnunar 2011. Markmiðið er að byggja traustara tenglanet, til að tryggja að allar stofnanir, skólar og setur séu með í ráðum.

Aðalfundur Líffræðifélagsins verður haldinn í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands kaffistofu starfsfólks þann 28. febrúar næstkomandi kl. 20.00.

Allir félagsmenn eru hvattir til að mæta og áhugasamir að bjóða sig fram í stjórn.

Léttar veitingar verða í boði og hugsanlega skemmtiatriði.

Dagskrá:
Fjármál félagsins.
Kosning stjórnar.
Starfið á árinu 2011.
Önnur mál.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum. Skráning í félagið fer fram á http://lif.gresjan.is/skraning/ 

Ég biðst velvirðingar á því ólagi sem er á vefsíðu félagsins biologia.hi.is.


Karl stundar svefnrannsóknir

Við eyðum 1/3 ævinnar sofandi en vitum ekki af hverju. Þetta sagði Karl Ægir Karlsson dósent við HR í viðtali í Kastljósi (miðvikudaginn 23. febrúar 2011). Hægt er að horfa á viðtalið í vef RUV: Hvers vegna sofum við?

Karl stundar mjög forvitnilegar rannsóknir á svefni. Í viðtalinu lýsir hann því hvernig hann ákvað að verða vísindamaður, og helstu spurningum svefnrannsókna, eins hvers vegna sofum við? Hann segir að það sé mikilvægt að átta sig á því að svefninn er ekki "einn hlutur", heldur samsettur úr mörgum þáttum. Það séu nokkrar skýringar á því hvers vegna svefn er nauðsynlegur. Karl minnist á að helstu tilgátur eru þær að svefn sé nauðsynlegur til að draga úr orku, forðast hættur á hættulegum tíma (næturna), og hjálpi einnig við minnisúrvinnslu. Mig grunar að það séu einnig frumulíffræðilegar eða lífeðlisfræðilegar orsakir, t.d. að frumur þurfi að hreinsa til og losa sig við uppsafnaðar aukaafurðir og gera við. Það er vitað að frumur* eru með innri klukku (stundum kölluð lifklukka: circadian clock). Nýverið birtust tvær greinar um lífklukkur í blóðfrumum, jafnvel rauðum blóðfrumum (sem er dálítið merkilegt því rauðar blóðfrumur eru ekki með erfðaefni - og því augljóst að lífklukkan tifar óháð umritun gena og líklega nýmyndum prótína).

En víkjum okkur aftur að svefni. Karl leggur áherslu á að grunnrannsóknir á svefni geti farið fram á fleiri dýrum en mönnum og músum**. Hann segir að það skipti ekki máli hvort svarið komi úr fíl, hval eða manni. Því er eðlilegt að nota zebrafiskinn sem líkan fyrir svefn. Búið er að raðgreina erfðamengi beggja tegunda og finna út hversu skyld genin eru, og hver erfðafræðilegi munurinn er. Þannig er hægt að nota zebrafiskinn sem líkan fyrir svefn hryggdýra.

Viðtalið lýsir einnig vel ástríðu vísindamannsins, persónulegri upplifun hans í sigrum og mótlæti, sérstaklega muninn á grunnrannsóknum á Íslandi og við bandarískan háskóla í fremstu röð.

*Það eru óvíst hvort allar frumur með klukku!

**Leiðrétting.Í fyrstu útgáfu pistils var sagt að Karl leggði áherslu á að hægt væri að rannsaka svefn í hvaða hryggdýri sem er. Hann sagði þetta ekki fullum fetum, heldur var þetta mín túlkun á orðum hans. Hann var að færa rök fyrir því að nota zebrafiska til rannsóknanna.


Fituefni og ilmolíur sem vopn gegn sýklum

Veirufræðingurinn Halldór Þormar hefur um áratuga skeið stundað rannsóknir á lífvirkum fituefnum. Halldór og samstarfsmenn sýndu m.a. fram á að ákveðið einglýseríð (mónókaprín) virkar gegn mörgum gerðum veira og baktería. Í framhaldi af þessu einstaka starfi var Halldóri boðið að ritstýra bók um notagildi lípíða og ilmolía (essential oils) í baráttunni við sýkla. Bókin ber heitið Lipids and essential oils as antimicrobial agents og kom út hjá hinu virta forlagi Wiley (John Wiley and Sons, Ltd.) núna í upphafi árs 2011.

halldorthormarwiley2011.jpgÍ bókinni eru teknar saman rannsóknir á líffræðilegri virkni og notkun fituefna og ilmolía. Robert Koch birti árið 1881 fyrstu rannsóknina um áhrif náttúrulegra efna, sérstaklega kalíríkrar sápu, á miltisbrandsbakteríuna (Bacillus anthracis). Miklar rannsóknir fóru fram á nítjándu öld og framan af síðustu öld á notagildi fitusýra og sápa í baráttuna við sýkla. Í ljós kom að áhrifin voru í mörgum tilfellum sérhæfð, sápa sem drap kóleru-bakteríur hafði lítil áhrif á stafýlokokka. Einnig voru sterkar vísbendingar um að fitusýrur væru hluti af varnarkerfum líkamans, og þær finnast t.d. í mjólk, á húð og í slímhimnu lungnanna.

Með tilkomu sýklalyfja og bóluefna upp úr seinni heimstyrjöld dró úr rannsóknum á þessum náttúrulegu varnarefnum. Sýklalyf og bóluefni eru ennþá mikilvægustu varnir samfélagsins gegn sýkingum, en aukin tíðni sýkinga vegna lyfjaónæmra bakteríustofna og veira hafa leitt til þess að vísindamenn hafa snúið sér í auknum mæli að rannsóknum á náttúrulegum efnum, t.d. fitusýrum, sápum og olíum. Talið er að fitudropar t.d. í mjólk eða húð raski byggingu fituhimnu baktería og veira, og veikli þær þannig. Ekki er þó útilokað að fitusýrur raski einnig starfsemi prótína í frumuhimnu sýkla og dragi þar með úr sýkimætti þeirra.

Halldór er prófessor emeritus við Líf og umhverfisvísindadeild, en kenndi frumulíffræði og veirufræði  við líffræðiskor HÍ frá 1985 til 1999. Hann útskrifaðist með meistarapróf í frumulíffræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1956 og með doktorspróf í veirufræði frá sama skóla 1966. Hann starfaði meðal annars á Keldum, við Statens Seruminstitut í Kaupmannahöfn, í Venezuela, og við rannsóknarstofnun New York fylkis sem helguð er rannsóknum á þroskunargöllum (New York State Institute for Basic Research in Developmental Disabilities). Halldór hefur skrifað yfir 100 vísindagreinar, hlotið fjölda verðlauna og stofnaði ásamt öðrum sprotafyrirtækið LipoMedica ehf. um hagnýtingu á mónokapríni og öðrum fituefnum til sóttvarna.

Wiley er eitt virtasta bókaforlag heims. Það var stofnað árið 1807 og gaf meðal annars út bækur eftir Herman Melville og Edgar Allen Poe, en hefur frá árinu 1860 lagt mesta áherslu á útgáfu bóka um vísindi og tækni.

Mynd 1: Forsíða bókarinnar Lipids and essential oils as antimicrobial agents - Wiley 2011, ritstjóri Halldór Þormar.
Mynd 2: Halldór Þormar prófessor emiritus við Háskóla Íslands 

Hlekkur inn á vefsíðu bókarinnar hjá forlagsinu. 

Hlekkur inn á vefsíðu Halldórs 


Fjármögnun grunnrannsókna á Íslandi

Vísindafélag Íslendinga efnir til málþings í fundarsal Þjóðminjasafnsins miðvikudaginn 23. febrúar kl. 16-­18.00.

Frummælendur verða Magnús Karl Magnússon og Jón Torfi Jónasson, prófessorar við Háskóla Íslands. Fundarstjóri: Guðrún Nordal prófessor við HÍ.

Fyrir viku var fundur um vísinda og nýsköpunarkerfið á vegum vísindaráðs. Frummælendur voru Ilkka Turunen, aðalritari finnska Vísinda- og nýsköpunarráðsins og Hans Müller Pedersen, aðstoðarframkvæmdastjóri Vísinda- og nýsköpunarmiðstöðvar Danmerkur.

Þeir gættu þess báðir að slá varnagla í upphafi um að þeir hefðu ekki kynnt sér íslenska kerfið eða útfærslu þess. Báðir lögðu áherslu á að lýsa kostum og göllum sinna kerfa, og voru hvergi bangnir við að benda á galla og annmarka. Það er nefnilega nauðsynlegt að geta horft gagnrýnið í eigin nafla.

Nokkrir af þeim punktum sem fram komu hjá norrænu vinum okkar voru:

Það er þjóðsaga að finnar hafi brugðist við kreppunni með því að auka fjármagn í rannsóknir og nýsköpun. Sú áhersla var lögð fyrr. Ég viðurkenni að hafa trúað þessari þjóðsögu og jafnvel dreift henni hérlendis. Finnum til hrós, þá héldu þeir kúrsinum.

Nýsköpunarkerfi finna er ekki nægilega skilvirkt. Þeir leggja stóran hluta þjóðartekna í rannsóknir (1% af GPD kemur frá ríkinu og rúm 2% frá fyrirtækjum, Nokia er stór þáttur), en samt koma þeir ekki vel úr útektum (þeir eru með aragrúa leiða til að styðja við nýsköpun, en lítil nýsköpunarfyrirtæki eru t.t.l. fá, einnig er minna um rannsóknarsamstarf við erlenda aðilla en á hinum norðurlöndunum).

Danirnir fækkuðu háskólum með sameiningu, úr 12 í 8. Þeir fluttu líka flestar rannsóknastofnanir undir háskóla, fengu þannig breiðara lið kennara og opnuðu skýrari kosti fyrir framhaldsnema til rannsókna á þessum stofnunum. Flestir dönsku háskólarnir eru með deildir um víðan völl, sem eru þá sjálfstætt starfandi einingar á tilteknu sviði.

Forsetisráðherra dana, Fogh-Rasmussen leiddi persónulega starfshóp 25 sérfræðinga sem vinna átti áætlun um það hvernig danir tækust á við alheimsvæðinguna (globalization). Þeir settu upp markmið, og áætlun um það hvernig ráðaneyti, skólar og stofnanir áttu að framfylgja þeim markmiðum, og HVENÆR.

Íslendingunum í salnum þótti mikið tilkoma að í Danmörku hafi starfað stjórnmálamaður sem hafði raunverulegan áhuga á nýsköpun og vísindastarfi.

Nóturnar mínar af fundinum eru heima, ég bæti e.t.v. einhverjum punktum við síðar.


Klónun og tvífeðra börn

Fyrir 12 árum, þegar kindin Dolly var kynnt til sögunnar var ég fenginn til að taka þátt í samdrykkju á vegum líffræðinema, guðfræðinema og heimspekinema um klónun. Það var kveikjan að grein sem ég birti í morgunblaðinu árið eftir (31. maí 1998), sem hófst á þessa leið.

Í Febrúar 1997 komst gimbrin Dollý í heimsfréttirnar sakir sérstæðs ætternis. Hún varð ekki til við kynæxlun heldur var hún einræktuð úr kindajúgri. Í kjölfarið varð einræktun (klónun) umræðuefni allra hugsandi manna, segir Arnar Pálsson . Upp kom spurningin um hvort mögulegt væri að einrækta manneskjur en sú umræða var oft óraunsæ. Auk þess hafa dunið yfir óljósar fréttir af klónuðum öpum, erfðabreyttum búfénaði og hauslausum froskum. Þetta hefur vakið óhug meðal fólks gagnvart öllu "erfðakukli". Ótti getur magnast vegna þekkingarskorts, sem þessi grein bætir vonandi úr.

Nú rétt fyrir áramót fékk nokkrar spurningar frá lesendum vísindavefsins um klónun til úrlausnar. Bútar úr tveimur svörum birtast hér:

Er hægt að klóna manneskju?

Er hægt að taka kjarna úr tveimur sáðfrumum, setja í tóma eggfrumu og búa þannig til einstakling úr tveimur karlmönnum?

Í náttúrunni eru hins vegar þekkt dæmi um að tvær sæðisfrumur geti frjóvgað eitt egg. Árið 2007 fæddust tvíburar, einn drengur og einstaklingur með óþroskuð kynfæri. Erfðapróf sýndu að þeir höfðu erft sama erfðamengi frá móður, en fengið tvö sett frá föður. Einstaklingarnir voru vefja-blendingar (e. chimera), því erfðasamsetning húðarinnar (og líklega líkamans alls) var mismunandi eftir líkamshlutum. Slíkir hálf-tvíburar (e. Sesquizygotic twins) eru mjög sjaldgæfir en þeir eru svo sannarlega tvífeðra.

Ef eineggja tvíburarsystur eiga börn með eineggja tvíburabræðrum, verða börnin þá alveg eins?

Því er mjög ólíklegt að afkvæmi eineggja tvíburabræðra með eineggja tvíbura systrum verði erfðafræðilega eins. Skyldleiki barnanna verður hins vegar meiri en gengur og gerist hjá einstaklingum í annarri kynslóð. Þau verða jafn skyld og venjuleg systkini.


Örorka og geðraskanir

Steindór J. Erlingsson birti eftirfarandi grein í Fréttablaðinu fyrir nokkru. Hann er m.a. að bjóða fólki að sjá fyrirlestur Robert Whitaker hjá Hugarafli þann 19. febrúar 2011 (kl 15:00).

Frá árinu 1990 hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hér á landi, án þess að tíðni þessara raskana hafi aukist að ráði. Þetta kemur fram í grein eftir Sigurð Thorlacius, Sigurjón B. Sigurðsson, Stefán Ólafsson og Kristinn Tómasson sem birtist á síðasta ári í Journal of Mental Health. Sem hlutfall af heildarfjölda öryrkja á tímabilinu 1990-2007, þá óx tíðni kvenna með örorku vegna geð- og atferlisraskana úr 14% í 29%, meðan karlar fóru úr 20% í 35%. Höfundarnir velta fyrir sér ýmsum skýringum á þessari aukingu en eftir lestur greinarinnar stendur eftir mikilvæg spurning: Hvað með geðlyfin?

Eins og mikið hefur verið rætt um á undaförnum árum er ávísun geðlyfja hér á landi með því mesta sem þekkist í heiminum. Þegar þetta er haft í huga vaknar eftirfarandi spurning: Af hverju hafa geðlyfin ekki dregið úr aukningu örorku vegna geðraskana? Árið 2004 veltu Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoega þessari spurningu fyrir sér í grein sem birtist í British Journal of Psychiatry, en þar er fjallað um áhrif þunglyndislyfja á heilsufar Íslendinga. Niðurstaða greinarinnar er að ekkert bendi til að hröð auking á ávísun þunglyndislyfja hafi minnkað þann mikla vanda sem þunglyndi veldur. Greinarhöfundar benda enn fremur á að ekki muni draga úr þessum vanda fyrr en með tilkomu betri meðferða.

Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort að langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðarlega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra. Íslendingum mun gefast færi á að hlýða á Whitaker 19. febrúar næstkomandi. Hann verður aðalfyrirlesari á málþingi sem Hugarafl, félag notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og fagaðila, stendur fyrir milli 14 og 17 í salnum Skriðu í húsnæði Kennaraháskólans. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
Frekari upplýsingar um Robert Whitaker.

Opið í Öskju 19 febrúar

Hveljurannsoknir_FannarTheyr

Síðustu tvö árin höfum við í líffræðinni opnað tilraunastofur okkar í Öskju á Háskóladeginum. Það hefur virkað mjög vel, við fengum mikið af gestum bæði framhaldskólanema og fjölskyldufólk.

Í ár ætlum við að vera með svipaða dagskrá (milli 11 og 16 í þann 19. febrúar í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ - gengið er inn Norrænahúsmeginn):

  • Við sýnum nýjasta landnema við Ísland - grjótkrabbann
  • Við sýnum örverur, erfðabreytta sveppi og klónaðar plöntu
  • Sýndar verða höfuðkúpur mismunandi dýra, frá hrefnu til manns
  • Hægt að spreyta sig á því að einangra DNA úr lauk
  • Við sýnum verkfæri og aðferðir sem notaðar eru við rannsóknir á fiskistofnum
  • Fólk fær að kynnast DNA örflögum sem skoða tjáningu allra 21000 gena í erfðamengi okkar í einu
  • Dýrafræðingarnir sýna fuglshami, furðulega hryggleysingja og tennur úr hákarli.

visindavaka_2332.jpg

augndiskurHáskóladagurinn verður með öðru sniði í ár, kynningar verða í fleiri byggingum og í Öskju bætast við félagar okkar á Verk og náttúruvísindasviði.  Meðal þess sem er á boðstjólum eru: 

  • Ör-kynningar nemenda á námi þar sem hver námsgrein sviðsins fær til umráða 10 mínútur
  • Líffræðingar opna tilraunastofur og leyfa fólki að spreyta sig
  • Eldorgel eðlisfræðinga verður til sýnis - þar er leikið með tónlist og gasloga.
  • Stjörnufræðingar sviðsins munu bjóða í stutt ferðalag um alheiminn.
  • Ferðamálafræðingar verða með ratleik um Öskju.
  • Vélaverkfræðinemar sýna líkan að kappakstursbíl sem þeir eru með í smíðum, einnig verður keppnisbrautin í hönnunarkeppninni til sýnis.
  • Byggingarverkfræðinemar kynna burðarþol brúa með skemmtilegum hætti.
  • Nýstárlegar kynningar verða á stærðfræði og eðlisfræði.
  • Jarðvísindamenn kynna tækjabúnað sem þeir nota á eldfjallavaktinni.
  • Grillaðar pylsur í boði frá hádegi og meðan birta leyfir.

Verið hjartanlega velkomin í HÍ á Aldarfmæli skólans.

Mynd 1. Fannar Þeyr Guðmundsson - tekin í Eyjafirði við rannsóknir. Mynd 2. tekin á vísindavöku, af yðar æruverðugum. Mynd 3. Taugar og stoðfrumur í auga ávaxtaflugu´- mynd og copyright Sigríður Rut Franzdóttir.


mbl.is Háskólinn býður í aldarafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um ræktun erfðabreyttra lífvera

Eiríkur Steingrímsson var í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Hann útskýrði sjónarmið "þessara svokölluðu erfðafræðinganna" ágætlega.

Einnig var sýnt viðtal við Þuríði Backman, fyrsta flutningsmann tillögunar.

Þuríður sagðist vilja virða varúðarregluna, því ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti að erfðabreyttar lífverur valdi ekki skaða í náttúrunni.

Ef varúðarreglunni er beitt á þennan hátt, þá er eðlilegt að vænta þess að Þuríður leggi fram tillögur um að banna fleiri tækninýjungar því ekki er "hægt að sanna með óyggjandi hætti að [þær] valdi ekki skaða í náttúrunni." Með þessum rökum er eðlilegt að banna þriðjukynslóð farsíma, blue-ray diska, fésbókina, nýjustu úlpuna frá Nikita og grjónagrautinn frá MS (sem er fullur af DNA!).

Mér leikur forvitni á að vita, hver skrifaði greinagerðina með þingsályktunartillögunni?

Þuríður var mjög gagnrýnin á ríkisábyrgðina sem Íslensk erfðagreining fékk á sínum tíma. Vísbendingar eru um að lögmenn ÍE hafi verið hjálplegir ríkistjórn Davíðs Oddson við að semja ríkisábyrgðarlögin og gagnagrunnslögin. Það er því mjög forvitnilegt að vita hvaða vinnubrögð Þuríður hefur viðhaft í þessu máli.


Umfjöllun um erfðabreyttar plöntur í sjónvarpinu

Erfðabreyttar plöntur eru komnar aftur í umræðuna, vegna þingsályktunartillögu sem hefst á þessum orðum "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."

Þrjátíu og sjö erfðafræðingar hafa lagst gegn þessari þingsályktunartillögu, m.a. vegna þess hversu illa rökstudd hún er, sbr. Athugasemd til Alþingis. 

Kastljós tók málið fyrir í gær (14. febrúar 2010) og ræddi við Hákon Már Oddsson* sem er, ef mínar heimildir eru réttar, einn forkólfa vefsíðunnar www.erfdabreytt.net. Þóra Arnórsdóttir ræddi við hann og er sjón sögu ríkari. Hann m.a. vænir vísindamenn við Landbúnaðarháskólann um ófagleg vinnubrögð og líkir vísindamönnum við viðskiptaskólamenntaða hrunverja.

Það er skemmtileg tilviljun að sama kvöld var fjallað um ORF líftækni í þætti Ara Trausta um íslensk vísindi (Þáttinn má nálgast á vef RUV - Nýsköpun íslensk vísindi).

Viðbót 16. febrúar 2011. Mér finnst Ari komast ónákvæmlega að orði, þegar hann segir að niðurstöður bendi til að EGF droparnir frá SIF cosmetics virki vel. Ég veit ekki um neinar formlegar rannsóknir á þessum dropum, aðeins samantektir um "upplifun" kúnnanna og hefðbundnar staðhæfingar fallegs fólks í auglýsingabæklingum.

*Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var Hákon Már gerður Hauksson. Velvirðingar er beðist á þessum mistökum. Bestu þakkir til Aðalsteins Sigurgeirssonar sem benti á skyssuna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband