Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Afl náttúrunnar

David Suzuki fjallar um afl náttúrunnar (Force of Nature) í hátíðarfyrirlestri á vegum Verk og náttúruvísindasviðs HÍ (4. apríl 2011, kl 17:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi HÍ) í tilefni aldarafmæli HÍ.

Dr. Suzuki er prófessor í líffræði við Háskóla Bresku Kólumbíu, náttúruverndarsinni  og sjónvarpsmaður sem þekktur er fyrir að útskýra náttúruvísindin á einfaldan og heillandi hátt. Sjónvarpsþættir hans, The Nature of Things, hafa verið sýndir á mörgum helstu sjónvarpsstöðvum heims. Kesara Jónsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild kynnir fyrirlestur Suzuki. Fyrirlesturinn verður fluttur með fjarfundabúnaði frá Háskólanum í Bresku Kólumbíu. Að honum loknum mun Dr. Suzuki taka við fyrirspurnum úr sal.

Fyrirlesturinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir. 


Málstofa og erindi um sjófugla við Ísland

Umhverfisráðaneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands stendur fyrir Málstofu um sjófugla við Ísland fimmtudaginn 31. mars 2011. Ræða á:

ástand og þróun helstu stofna sjófugla við landið, hvernig loftslags- og umhverfisbreytingar hugsanlega virka á stofnana og umhverfi þeirra og hvernig bregðast megi við slíkum breytingum.

Málstofan er haldin á Hótel Sögu í sal Harvard II, kl. 13:00 til 17:00. Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fuglaverndar, er fundarstjóri. 

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  • 13:00. Setning, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
  • 13:10. Sjófuglastofnar við Ísland - inngangur. Arnþór Garðarsson prófessor Háskóla Íslands.
  • 13:40. Loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar. Halldór Björnsson Veðurstofu Íslands.
  • 14:00. Hvaða áhrif gæti hlýnun haft á lífríki sjávar við Ísland og á nálægum svæðum. Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur.
  • 14:20. Fæða stærstu stofna íslenskra sjófugla. Kristján Lilliendahl, Hafrannsóknastofnun.
  • 14:40. Stofnrannsóknir á lunda, hlýnun sjávar og sjálfbærni veiða. Erpur S. Hansen Náttúrustofu Suðurlands.
  • 15:00. Kaffi.
  • 15:20. Vetrarstöðvar íslenskra bjargfugla. Guðmundur A. Guðmundsson,  Náttúrufræðistofnun Íslands
  • 15:40. Vöktun sjófugla og annarra mikilvægra fuglastofna. Kristinn H. Skarphéðinsson Náttúrufræðistofnun Íslands.
  • 16:00   Mögulegar aðgerðir – umræða.
  • 17:00   Fundarslit.

Arnþór Garðarsson heldur einnig föstudagsfyrirlestur Líffræðistofnunar 1. apríl næstkomandi. Hann er prófessor emeritus við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Hann hefur aðallega stundað rannsóknir á vistfræði fugla, samspili fugla og vatnaskordýra við Mývatn og sveiflur í sjófuglastofnum. Arnþór hefur einnig þróað aðferðir til að áætla þéttleika fugla úr lofti sem nýtast við rannsóknir á sjófuglastofnum. Ágrip erindis:

Menn hafa frá örófi alda sótt að ströndinni og stundað veiðar á fiskum, sjávarskjaldbökum, sjófuglum og sjávarspendýrum. Þessi sókn leiddi til fækkunar og útdauða stofna og tegunda í takt við lögmál framboðs og eftirspurnar. Röskun af völdum þessara strandveiða var veruleg hér á landi en um 25% af öllum sjófuglum í Norðaustur-Atlanrshafi á heima á Íslandi, og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims. Í þessu erindi verður fjallað almennt um sjófuglastofna, áhrif þeirra á vistkerfi strandarinnar og áhrif manna á tilvist sjófugla.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Þeir eru haldnir í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ (kl 12:30-13:10).


Pistlapakki

Ég vil benda áhugasömum á nokkra nýlega og forvitnilega pistla. Þeir eru sannarlega úr sitthvorri áttinni.

Villi benti mér á að pistlar Freys Eyjólfssonar útvarpsmanns og Geirfugls eru aðgengilegir á vef RÚV. Ég mæli sérstaklega með pistli hans um Denisovans mennina, sem voru frændur Neanderthalsmanna en æxluðust einnig við Homo sapiens. Hann segir meðal annars:

Nýi maðurinn, sem ekki hefur enn fengið nafn en verið kallaður Fjallamaðurinn, fannst í helli í Altai fjöllum í Síberíu. Þetta er að vísu ekki meira en lítið fingurbein sem fannst og er talið vera um 30.000 ára gamalt, en það er engum vafa undirorpið að hér er á ferðinni ný  manntegund. Þetta þykja stórtíðindi í vísindaheimnum að sérstök manntegund hafi lifað á þessum tíma á norðurhjara veraldar í Asíu en þar hafa ekki áður fundist svo gömul mannabein. Það er ekki síður stórmerkilegt að lítill hópur nútímamanna sem nú býr á Melanesíu í Kyrrahafi er erfðafræðilega skyldur þessum dularfulla manni í Síberíu.

Björgvin Leifsson líffræðingur og kennari skrifar vandaðan pistil um erfðabreyttar lífverur (sem ég fékk að lesa yfir): 

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um kosti og galla erfðabreyttra lífvera í fjölmiðlum og meðal almennings og stjórnmálamanna. Oft hefur umræðan einkennst af töluverðri vanþekkingu, sem er iðulega undanfari fordóma. Í þessu greinarkorni reyni ég að útskýra erfðabreytingar og erfðabreyttar lífverur á alþýðlegan hátt í þeirri veiku von að einhverjir hafi gagn og gaman af.

Róbert A. Stefánsson, Rannveig Magnúsdóttir, og Guðmundur I. Guðbrandsson skrifa um ágengar tegundir í sjó. Umræðan hefur snúist að miklu leyti um innfluttar plöntur og skógartré, en vistkerfi sjávarins er mikilvægara fyrir efnahag okkar og því fyllilega ástæða til að meta hvort framandi tegundir ógni því eður ei. Þetta er fjarri því að vera auðveld spurning:

 Flutningur framandi lífvera milli hafsvæða er mikið áhyggjuefni á heimsvísu því víða hefur orðið tjón á lífríki sjávar vegna ágengra tegunda. Skaðinn hefur verið frá því að vera smávægilegur upp í að kollvarpa heilum vistkerfum. Framandi lífverur hafa líka valdið skemmdum á skipum, veiðarfærum, vatnsleiðslum og eldi fisks og skeldýra. Á lista yfir óæskilegustu lífverurnar sem staðfest hefur verið að flytjist milli landa á þennan hátt eru m.a. skeldýr, krabbadýr, þörungar og bakteríur sem hafa valdið skaða á lífríki í Vestur-Evrópu. Með hækkandi hitastigi sjávar hafa víða skapast skilyrði fyrir framandi tegundir til að koma undir sig fótunum í umhverfi sem þær hefðu annars ekki getað þrifist í.

Að síðustu las ég nýverið umfjöllun Vantrúar um þingsályktunartillögu Árna Johnsen um "um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf"

Greinargerðin með umfjölluninni er að mínu viti frekar döpur, svona á par við greinargerð um bann við útiræktun á erfðabreyttum plöntum. Vantrúarmenn eru einnig þeirrar skoðunar, og benda einnig á að greinargerðin sé næstum orðrétt úr ranni Gísla Jónssonar (sem birti mjög áþekka grein á vef biskupsstofu):

Til að unnt sé að fjalla um þessa tillögu þarf að feðra hana rétt. Greinargerðin, sem fylgir tillögunni, er nánast orðrétt og samhljóða pistli sr. Gísla Jónassonar er birtist á vefriti Biskupsstofu, http://www.tru.is, þann 7. desember sl. Þingskjalið er þó að sönnu lagt fram nokkrum dögum fyrr, en báðir eru sr. Gísli og 1. flm. tillögunnar stakir heiðursmenn með óflekkað mannorð og því útilokað að um ritstuld sé að ræða. Því verður að telja líklegt að þingsályktunartillagan sé unnin í nánu samstarfi við Þjóðkirkjuna og að hún sé jafnvel runnin undan rifjum hennar, enda samband þings og kirkju ákaflega náið og frjósamt eins og alkunna er.


Tilvitnanir en ekki vinsældir

Einn mælikvarði á mikilvægi rannsókna er hversu margar tilvitnanir ákveðin vísindagrein. Segjum að Emil birti grein um aðferð til að bæta líðan mjólkurgeita. Vísindamönnum sem finnst mikið til þeirrar rannsóknar vitna í grein hans, þegar þeir birta sínar greinar um skyld efni. Því mikilvægari sem rannsókn Emils er, því fleiri vitna í hana. Þannig vitna mjög margir í grein Watson og Crick um byggingu erfðaefnisins, þar sem um var að ræða grundvallaruppgötvun í líffræði. Vinsældir hafa ósköp lítið með þetta að segja, þótt sýnileiki greina (hvar þær eru birtar og hversu mikið er um þær fjallað) skipti vissulega máli (sbr. Í fréttum eða fokinn).

 

Thomson Reuters halda úti stórum gagnagrunni um birtar vísindagreinar og tilvitnanir á milli greina. Það gefur fyrirtækinu tækifæri á að mæla áhrif ritrýndra vísindagreina á vissu tímabili. Á hliðstæðan hátt er hægt að meta áhrif vísindatímarita, háskóla og stofnanna.

Í samantektinni komast þrír starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar á topp tíu yfir þá vísindamenn sem mest er vitnað til á árinu 2010. Auk Kára eru þetta Unnur Þorsteinsdóttir, hægri hönd forstjórans, og Augustine Kong yfirmaður tölfræðideildar fyrirtækisins. Kári hefur verið meira í sviðsljósinu en bæði Unnur og Augustine eru vel að heiðrinum komin enda hafa þau leyst mörg praktísk og vísindaleg vandamál í starfi sínu. Augustine fór fyrir hópi sem uppgötvaði aðferð til að ákvarða hvort að ákveðnir litningabútar væru frá mömmu eða pappa. Vandamálið er að ef einstaklingur er arfblendin um margar stökkbreytingar á ákveðnu svæði í erfðamenginu er ómögulegt með hefðbundnum aðferðum að greina hvaðan hver stökkbreyting kemur. Með þessari aðferð (fösun með skyldleika - phasing by descent) er t.d. hægt að segja til um hvaða stökkbreytinga sitja saman á tiltekinni útgáfu af litningi 3. Það er að mínu viti merkilegasta uppgötvun starfsmanna ÍE, er lykillinn að öllu starfi ÍE nútildags og gefur þeim forskot á samkeppnisaðillana.

Tilvitnanir eru samt hvorki upphaf né endir alls, t.d. hefur grein Augstine Kong og félaga um fösunina aðeins fengið 31 tilvitnun (24. mars. 2011) á meðan aðrar greinar ÍE hafa rakað saman fleiri hundruð tilvitnunum. Margar mikilvægustu uppgötvanir vísindasögunar voru hundsaðar af samtímamönnum, á meðan þeir einbeittu sér að "léttvægari" vísindum. Einnig er sum fræðasvið afmarkaðari og lykiluppgötvanir sem hafa áhrif út fyrir fræðasviðið ná ekki athygli heimsins fyrr en eftir dúk og disk. Það er engu að síður gaman að heyra að niðurstöður íslenskrar erfðagreiningar hafi víðtæk áhrif á líffræði og læknisfræði, þó mig gruni að í aldarlok verði ljóst að sumar af minna "vinsælum" greinum fyrirtækisins hafir reynst merkilegastar.

 


mbl.is Meðal „heitustu“ rannsókna ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Stofnvistfræði minksins

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru komnir á skrið eftir nokkura ára hlé. Í þessari viku mun Róbert A. Stefánsson við Náttúrustofu Vesturlands  fjalla um stofnvistfræði minksins.

Minkur var fyrst fluttur til Íslands árið 1931 en slapp fljótlega úr haldi og breiddist um landið. Veiðitölur benda til að mink hafi fjölgað allt fram yfir aldamót en að síðustu ár hafi honum af ókunnum ástæðum fækkað á ný. Róbert og félagar hafa safnað sýnum úr afla veiðimanna víða um land frá árinu 1996 og má nýta þau gögn á ýmsan hátt, m.a. til að komast nær því að skilja hvað stjórni breytingum á stofnstærð.

folk_ad_vinna_15 Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram).

Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

Mynd af Róberti og mink af vef Náttúrustofu Vesturlands, ljósmynd og copyright: Menja von Schmalensee, 2002.

3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11   Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11   Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13/6/11  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir 


MANNA

Mér var bent á forvitnilega sýningu í Norræna húsinu. Úr tilkynningu:

Viltu vita meira um matinn okkar? Vitum við í raun hvaðan hann kemur og hvernig hann verður til? Manna er sýning sem höfðar til allra skilningarvitanna, sýning þar sem fjallað er um sambandið milli fæðu og umhverfis, hvernig við vanmetum áhrif okkar á náttúruna og birtir okkur vistfræðilegan veruleika vors daglega brauðs. Málefnið er sett fram á myndrænan og lifandi hátt þar sem húmor og jákvæðni eru höfð að leiðarljósi.

Þrátt fyrir borgarvæðingu og  þann hátækniiðnað sem við búum við í dag erum við jafn háð náttúrunni og við vorum í árdaga, jafnvel háðari ef eitthvað er. Í dag notum við meira af auðlindum jarðar en við gerðum á dögum bændasamfélagsins. Er öllum ljós tengingin milli dýranna í húsdýragarðinum við skinkuna á brauðinu eða hakkið í kjötbollunum?

Fáir vita að það þarf fleiri hundruð lítra af vatni til að framleiða eina flösku af bjór og til að búa til einn hamborgara þarf þúsundir af frjóvgandi skordýrum. Það vita heldur ekki margir að hægt er að bjarga heilu regnskógunum með því að skipta um kaffitegund og að stór hluti af kjötinu sem við borðum er alið á fóðri sem kemur erlendis frá.


Erfðatæknin og vísindin

 

Í framhaldi af þingsályktunartillögu um skipan nefndar sem á að útfæra bann á útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi ( "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."), greinarskrifum 37 líffræðinga, lækna og erfðafræðinga (Athugasemd til Alþingis) skrifaði Gunnar Ágúst Gunnarsson grein í Morgunblaðið (9. mars 2011 - sjá viðhengi með pistli). Grein Gunnars er titluð vísindamenn í fjötrum sérhagsmuna. Slíkum aðdróttunum er ekki hægt að láta ósvarað, og að því tilefni tóku nokkrir af 37 menningunum sig saman og rituðu andsvar sem birtist í morgunblaði gærdagsins (17. mars 2011). Sú grein birtist hér að neðan í heild sinni.

 

Erfðatæknin og vísindin

Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir.

Gunnar Ágúst Gunnarsson ritar harðorða grein í Morgunblaðið 9. mars s.l. þar sem hann vænir 37 vísindamenn við helstu fræðastofnanir þjóðarinnar um að ganga erinda sérhagsmuna. Það er þó erfitt að átta sig á því í hverju þessir sérhagsmunir eru fólgnir.

Tilefnið eru athugasemdir hópsins við þingsályktunartillögu um útiræktun á erfðabreyttum lífverum sem nú liggur fyrir Alþingi. Við vísum ásökunum Gunnars alfarið á bug. Þær eiga ekki við nein rök að styðjast og eru nánast ærumeiðandi.

Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir. Því miður er greinargerðin með þingsályktunartillögunni að verulegu leyti byggð á misskilningi, vanþekkingu og fordómum og því teljum við það skyldu okkar að bregðast við. Er það bæði í anda þess sem hvatt er til í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem gefin var út í kjölfar hrunsins, og laga um opinbera háskóla. Í 3. grein þeirra segir að háskólar skuli miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Lög ætti aldrei að innleiða nema á grundvelli allrar þeirrar þekkingar sem til á hverjum tíma. Greinargerðin endurspeglar ekki slíka þekkingarþrá.

Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að sumir lífrænir ræktendur sjái sér hag í að þingsályktunartillagan nái fram að ganga enda er notkun erfðabreyttra lífvera og efna sem eru leidd af erfðabreyttum lífverum bönnuð í lífrænni ræktun, skv. reglugerð nr. 74/2002 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar. Gunnar Ágúst gleymir að geta þess að hann er framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns. Hann er sérlegur talsmaður þess að auka lífrænan búskap og hann hefur lífsviðurværi sitt af því að votta lífræna framleiðsluhætti.

Erfðatækni gerir okkur kleift að flytja erfðaefni milli óskyldra lífvera en um hana hafa staðið miklar deilur. Því hefur verið haldið fram að slíkt gerist ekki í náttúrunni og beiting hennar sé því „andstæð ætlan guðs“, eins og Karl Bretaprins komst eitt sinn að orði. Erfðabreyttar lífverur af öllu tagi séu þess vegna hættulegar bæði umhverfinu og öðrum lífverum. Gunnar vísar til nokkurra vísindagreina því til stuðnings að útiræktun erfðabreyttra lífvera sé hættuleg. Flestar þeirra hafa verið harðlega gagnrýndar (sjá t.d. http://academicsreview.org/). Aftur á móti hundsar hann mikinn fjölda greina sem hafa ekki fundið nein neikvæð áhrif. Slík vinnubrögð eiga meira skylt við áróður en fræðimennsku.

Það er samdóma álit þeirra vísindamanna sem gerst þekkja að áhætta af ræktun og nýtingu erfðabreyttra lífvera sé hverfandi. Í þessu sambandi er rétt að benda á ályktanir í nýlegri skýrslu á vegum Evrópusambandsins þar sem sjónum var beint að niðurstöðum rannsókna á öryggi erfðabreyttra plantna fyrir umhverfi, menn og skepnur (http://ec.europa.eu/research/biosociety/pdf/a_decade_of_eu-funded_gmo_research.pdf). Frá árinu 1982 hefur sambandið lagt í þessar rannsóknir rúmar 300 milljónir evra, eða um 48 milljarða króna, og niðurstaðan er klár og kvitt: „Líftæknin sem slík, og þá einkum erfðabreyttar plöntur, hefur ekki meiri hættu í för með sér en t.d. hefðbundnar kynbótaaðferðir.“

Mestur styr á liðnum árum hefur staðið um beitingu líftækni í landbúnaði. Hefur henni verið stillt upp sem andstæðu búskaparhátta er byggjast á að draga úr öllum aðföngum eins og kostur er. Þessar tvær leiðir útiloka ekki hvor aðra – þvert á móti. Á næstu árum þarf að framleiða enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er. Til þess þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á vísindalegum grunni. Í stað þess að einblína á tæknina eða aðferðafræðina er langtum mikilvægara að leggja mat á hvort úrræðin séu gagnreynd (e. evidence based) og leiði til þess árangurs sem að er stefnt. Með sama hætti er nauðsynlegt að vega og meta hugsanlega áhættu af nýrri tækni í samhengi við hugsanlegan kostnað sem hlytist af því að nýta hana ekki í stað þess að vísa sífellt í grunnfærnislegar útgáfur af varúðarreglunni margumtöluðu.

Við gerum okkur engar vonir um að hinir eitilhörðu andstæðingar erfðatækninnar láti sannfærast af þessum skrifum okkar. Hins vegar treystum við því að þingmenn og almennir lesendur séu reiðubúnir að hlusta á rök frá hlutlausum sérfræðingum frá helstu fræðastofnunum þjóðarinnar á þessu sviði.

Arnar Pálsson dósent, Háskóla Íslands
Áslaug Helgadóttir prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson prófessor, Háskóla Íslands
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Háskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon prófessor, Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor, Háskóla Íslands
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Erindi: súrnun sjávar og lífríki hafsins

Hrönn Egilsdóttir er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun. Doktorsverkefni hennar lýtur að rannsóknum á áhrifum súrnunar sjávar á kalkmyndandi lífríki í hafinu við Ísland. Hún lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 2007 og meistaraprófi í sjávarlíffræði frá Háskólanum í Plymouth 2008. Úr grein hennar á loftslag.is.

Frá því iðnvæðing vesturlanda hófst fyrir 250 árum hafa orðið gríðarlegar breytingar  á magni koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti jarðarinnar.  Eftir því sem iðnvæðingin hefur orðið hraðari og útbreiddari hefur þetta magn aukist hraðar.  Ein afleiðing þessara breytinga er súrnun sjávar sem er ekki síður alvarleg þróun en hlýnun jarðar....

Súrnun sjávar getur haft áhrif á ýmis lífeðlisfræðileg ferli í lífverum en dýr og þörungar sem mynda kalk eru í mestri hættu vegna þess hve kalkmettun sjávar (ΩCaCO3) er nátengd sýrustigi sjávar. Mikill fjöldi tegunda í hafinu myndar kalk og koma kalkframleiðandi lífverur við sögu í flestum fæðukeðjum ásamt því að byggja upp búsvæði fyrir fjölda annara lífvera og má þar helst nefna kóralrif og rauðþörungabreiður.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram).

Þeir fara milli kl. 12:30 og 13:10, í stofu 131 í Öskju náttúrufræðahúsi HÍ. Þeir eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir.

Fulla dagskrá má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

3/18/11 Súrnun sjávar - Hrönn Egilsdóttir
3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11   Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11   Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13/6/11  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir 


Fyrstu dýrin á jörðinni

7 og 14. mars mun RÚV sýna þætti um uppruna lífsins.

Í fyrri þættinum rakti Davíð menjar um fyrstu dýrin og hinn heillandi starfa steingervingafræðingsins. Hann skildi við á for-kambrían tímabilinu, og því er líklegt að hann muni tala um lífssprenginuna á Kambrían í þætti kvöldsins. Þar munu lífverur frá Burgess Shale svæðinu í Kanada ríða fyrstar á vaðið. Í þeim jarðlögum er að finna leifar margara torkennilegra tegunda sem enga afkomendur eiga nú á dögum. Stephen J. Gould gerði þessar lífverur heimsfrægar í bókinni Wonderful life - þar sem hann veltir meðal annars fyrir sér spurningunni, hvað myndi gerast ef lífið yrði endursýnt. Myndur risaeðlurnar, elftingartrén, steypireyðurinn og maðurinn birtast aftur?

Umfjöllun RÚV um uppruna lífsins (First life).

Í þessari bresku heimildamynd, sem er í tveimur hlutum, veltir David Attenborough því fyrir sér hvernig fyrstu dýrin á jörðinni urðu til.

Á glæsilegum ferli sínum, sem spannar orðið meira en hálfa öld og fjölmargar glæsilegar þáttaraðir, er David Attenborough orðinn einn virtasti fræðimaður heims um lífið á jörðinni. Og nú fjallar hann í þessum tveimur þáttum um þau dýr sem eðlilega er hvað minnst vitað um, fyrstu lífverurnar á plánetunni. Þetta er mikil saga sem nær yfir milljónir ára, frá dögun lífsins í „djúpum vítis“ til fyrstu fótanna sem stigu á land.

First Life á síðu BBC og síða helguð þáttunum.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu pistilsins ruglaði ég saman fornleifafræðingi og steingervingafræðingi. Velvirðingar er beðist á þessum mistökum, og mögulegum móðgunum sem af þeim gætu hafa sprottið.


Erindi: Fæða minks

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru komnir á skrið eftir nokkura ára hlé.

Í þessari viku mun Rannveig Magnúsdóttir fjalla um fæðuvistfræði minksins, sem er doktorsverkefni hennar við Háskóla Íslands. Af vef Náttúrstofu Vesturlands:

Í verkefninu notast hún við efnivið sem Náttúrustofa Vesturlands hefur aflað á undanförnum árum. Verkefnið snýst um að skoða fæðuval minks á Snæfellsnesi frá aldamótum og mögulegar breytingar sem gætu hafa orðið á því samfara breytingum sem virðast hafa orðið í lífríki sjávar á tímabilinu og endurspeglast m.a. í slökum varpárangri sjófugla síðustu ár.

Rannveig er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Verkefnið er samvinnuverkefni HÍ (aðalleiðbeinandi Páll Hersteinsson), Náttúrustofu Vesturlands og Oxford háskóla (sjá http://www.wildcru.org/).

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Þeir eru haldnir í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ (kl 12:30-13:10).

Dagskrá í heild sinni með tenglum má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

3/11/11 Fæða minks -  Rannveig magnúsdóttir
3/18/11 Súrnun sjávar - Hrönn Egilsdóttir
3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11   Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11   Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13/6/11  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband