Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Á slóðum Darwins í Öskju

Ljósmyndasýning Hafdísar Hönnu Ægisdóttur var sett upp í Öskju (náttúrufræðahúsi HÍ) fyrr í Apríl, og er hún hluti af afmælisdagskrá HÍ. Sýningin er í andyri hússins og er öllum opin að kostnaðarlausu.

Ljósmyndirnar á sýningunni "Á slóðum Darwins" eru af lífríki og landslagi Galapagoseyja. Myndinar tók líffræðingurinn Hafdís Hanna Ægisdóttir á fimm vikna rannsóknarferð um eyjurnar árið 2007.

arfleifddarwins_kapa3_1079875.jpghhae_mynd3.jpgMyndir Bjarni Helgason og Hafdís H. Ægisdóttir - copyright.

Hafdís tók ógrynni ljósmynda á eyjunum, úrval þeirra má sjá á sýningunni og fleiri að auki á myndasíðu hennar - http://www.flickr.com/photos/hafdishanna.

Bókin Arfleifð Darwins þróunarfræði, náttúra og menning er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði.

Viðbót. Galapagoseyjar: lífríki og hættur

Hafdís mun halda opinn fyrirlestur í hádeginu 13. maí 2011, í stofu 131 í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ (kl. 12:30-13.10). Í fyrirlestrinum Galapagoseyjar: lífríki og hættur, tvinnar Hafdís saman þekkingu sína af vistfræði, líflandafræði og reynslu frá heimsókn sinni til eyjanna. Um er að ræða lokahnykk föstudagsfyrirlestra líffræðistofnunar.


Brandari Keplers og moggans

Þessi "frétt" mbl.is er í raun lítið brot úr vísindasögunni. Kepler reiknaði út aldur alheimsins á þessum degi (28. apríl 15) og "fann út" að hann hefði myndast árið 4977 fyrir krists.

History channel birtir á hverjum degi samantekt um sögulega atburði, og 28. apríl tóku starfsmenn Huffington post upp á sína arma og birtu undir flokknum Saga (history). Starfsmenn mbl.is tóku pistil Huffington post og þýddu orð fyrir orð, en fylgdu ekki tengli af síðu Huffington post á greinina á vefsíðu History Channel. Þar kemur nefnilega fram að Kepler hafði rangt fyrir sér, reikningum hans skeikaði um u.þ.b. 13.700.000.000 ár.

Það er margsannað mál að mat Keplers á aldri alheimsins er rangt. Samt finnst mbl.is sérstök ástæða til þess að birta þessa SÖGU undir vísindum og tækni, án þess að leiðrétta þennan misskilning.

Það væri forvitnilegt að vita hversu margir starfsmenn mbl.is og Morgunblaðsins halda í raun og veru að alheimurinn hafi orðið til fyrir 6988 árum?

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu pistils klikkaði ég á sama atriði og mbl.is, þ.e. að um var að ræða alheiminn (universe) ekki jörðina (earth). Kom það vel á gagnrýninn. Takk fyrir ábendinguna Tómas!


mbl.is 6988 ára afmæli jarðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glansandi mynd...

Vinnuveitandi minn Háskóli Íslands sendir reglulega út tilkynningar um atburði, merkileg framfaraskref í vísindum og stöðu mála innan skólans. Tilkynningarnar hafa nokkur hlutverk, m.a. að upplýsa skattgreiðendaur um starf HÍ, upplýsa fólk um framfarir í vísindum, kynna vísindastarf innan skólans og auglýsa skólann fyrir væntanlegum nemendum. Mikið til snýst þetta um að byggja upp ímynd og viðhalda henni. Ég viðurkenni alveg að ég tek þátt í þessu með pistlum og tilkynningum.

Hluti af ímynd HÍ er að þetta sé öflugur rannsóknarháskóli. Sannarlega hafa vísindamenn við HÍ lyft grettistaki, og margir gert stórkostlega hluti. En það er ekki endilega HÍ og aðbúnaði þar að þakka. HÍ veitir sínum sterkustu rannsóknareiningum og vísindamönnum merkilega lítinn stuðning.

Nýráðnir starfsmenn fá engan afslátt á kennsluskyldu - alkunna er erlendis að fólk sé undanþegið kennslu fyrsta starfsárið.

Nýráðnir starfsmenn fá engan fjárstuðning til að koma sér upp aðstöðu, eða laun fyrir aðstoðarfólki. Slíkt er eðlilegt við alvöru rannsóknarháskóla erlendis.

HÍ skaffar litla sem enga stoðþjónustu við rannsóknir. Það er hægt að fá styrki til að kaupa tæki, en sama og engan pening til að reka þau eða gera við.

Stuðningur við doktorsnema er yfirleitt veittur til 3 ára - en engu fé veitt í viðeigandi rannsókn. Sumir fá pening fyrir doktorsnema en engan pening fyrir efnum. Aðrir fá pening fyrir efnum en engan fyrir doktorsnema. Það getur ekki verið skynsamleg leið til að fjármagna rannsóknir.

Miklu fé er varið í doktorsnema en engu í meistaranema (vegna þess að þeir telja meira í alþjóðlegum samaburði). Hins vegar leggur HÍ út frá Bologna kerfinu, sem gerir ráð fyrir því að fólk geri fyrst meistara-verkefni og síðan doktorsverkefni.

Doktorsnemar eru iðullega styrktir í 3 ár af HÍ, en verkefnin taka yfirleitt 4-5 ár. Það getur leitt til þess að fólk dagi uppi í verkefninu sínu, þurfi að sækja sér vinnu annarsstaðar og ljúka doktorsverkefnum í hjáverkum (eða ekki).

Verk vísindamanna innan HÍ* eru metin eftir fáránlegu kerfi, sem hvetur til þess að fólk birti margar litlar greinar í ósýnilegum tímaritum (erlendis eru vísindamenn sem birta í topp tímaritum verðlaunaðir).

Mikið var hressandi að létta þessu af sér. Ég ætla nú að halda áfram að greina erfðabreytileika í fléttum. Gleðileg páskakveðja frá vísindavíglínunni.

Skyldir pistlar:

Í fréttum eða fokinn

*Leiðrétting, í fyrstu útgáfu pistils vantaði "innan HÍ" í setninguna.


mbl.is 554 skráðir í doktorsnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Erfðatækni, ofurtölvur og hjartavernd

Notkun erfðatækni og ofurtölva hefur kollvarpað grunnrannsóknum í læknisfræði og líffræði. Ég mun vonandi setja saman alvöru pistil um þær framfarir bráðlega, en nú læt duga hér að auglýsa nokkra fyrirlestra og fundi á þessum nótum sem haldnir verða strax eftir páska.

Fyrst bera að nefna ráðstefnu um erfðatækni (Rannsóknir og atvinnusköpun í erfðatækni) sem samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og Samtök iðnaðarins standa fyrir. Viðfangsefnið er erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar á Grand Hótel Reykjavík, 27. apríl kl. 9.00 – 12.00

Dagskrá:

    * Upphaf erfðatækninnar, Guðmundur Eggertsson, Háskóla Íslands
    * Plöntukynbætur í forstíð, nútíð og framtíð, Áslaug Helgadóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands
    * Erfðatækni í matvælaframleiðslu, Helga M. Pálsdóttir, Matvælastofnun
    * Erfðatækni í lyfjaframleiðslu, Einar Mäntylä, ORF Líftækni
    * Erfðatækni sem rannsóknatæki, Ólafur S. Andrésson, Háskóla Íslands
    * Erfðatækni og umhverfi, Arnar Pálsson, Háskóla Íslands
    * Pallborð fyrirlesara

Fundarstjóri: Þorsteinn G. Gunnarsson, KOM almannatengsl. Fundurinn er opinn og aðgangur ókeypis.  Skrá sig á fundinn.

Daginn eftir (28. apríl 2011) heldur Vilmundur Guðnason prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar yfirlitsfyrirlestur um vísindastarf Hjartaverndar í 40 ár. Erindið er hluti af Lýðheilsa – fyrr og nú - Fyrirlestrarröð Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 í þjóðminjasafninu. Úr tilkynningu:

Landsamtökin Hjartavernd voru stofnuð árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína þremur árum síðar með mjög viðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Hóprannsókn Hjartaverndar, þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Rannsóknin hefur staðið yfir í meira en 40 ár og hefur náð til rúmlega þrjátíu þúsund Íslendinga. Margar nýjar rannsóknir hafa tengst henni. Þessar rannsóknir hafa orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma.

Síðdegis sama dag 28. apríl 2011 verður síðan ráðstefna um ofurtölvur á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Dagskráin stendur frá 13:00 til 18:00, í húsakynnum endurmenntunar HÍ. Úr tilkynningu (þar má sjá fulla dagskrá):

Ráðstefnan fjallar um hvernig vísindamenn í raunvísindum og verkfræði nota ofurtölvur eða tölvuþyrpingar í reiknifrekum verkefnum. Vísindamenn hafa keyrt samhliða forrit í nokkra áratugi sem hafa nýst vel greinum eins og eðlisfræði, efnafræði, veðurfræði og loftslagsfræði.  Greinar eins og jarðvísindi og lífvísindi fylgja nú fast á eftir og sjá í auknum mæli notagildi slíkrar forritunar. Í raun eru mjög margar greinar sem nýta sér ofurtölvur, þ.m.t. félagsvísindi (hagfræði) og hugvísindi (máltækni).  Á sama tíma hefur átt sér stað þó nokkur þróun aðferða í tölvunarfræði og reiknifræði til að nýta sem best ofurtölvur. Þar sem eftirspurn eftir ofurtölvum er nær óþrjótandi og keyrsla þeirra er jafnan orkufrek, hefur í þriðja lagi orðið allnokkur breyting á vélbúnaði samhliða tölva, orkunotkun þeirra og í auknum mæli litið til hagkvæms rekstrar þeirra.


Mannapar gera tilraunir á öpum

Við höfum mikinn áhuga á ættingjum okkar. Ættmæður nærast á fréttum af afkomendum sínum, fylgjast með þroska þeirra og viðgangi af miklum áhuga. Mannfólk hefur einnig áhuga á fjarskyldari ættingjum, eins og simpönsum, górillum og makakíöpum. Charles Darwin var einn þeirra fyrstu sem dró hliðstæður á milli atferlis mannapa og manna. Í dýragarðinum í Kaupmannahöfn er spegill á vegnum við hliðina á simpansabúrinu, þar sem við getum virt fyrir okkur tvær mannapategundir í einu. Í Brookfield dýragarðinum í Chicago er handaförum manns og górillu still upp hlið við hlið.

Vitanlega er töluverður munur á mönnum og mannöpum, öpum og apaköttum. Okkur verður tíðrætt um vitsmuni og áhaldanotkun, hendur og tvær fætur, nekt og samfélagsgerð. Einn eiginleiki kann að vera mannfólinu einstakur, það er samkennd (empathy). Við finnum til samkenndar með öðru fólki, ímynduðum persónum í bókum eða kvikmyndum og jafnvel þjáðum dýrum. Eins og Robert Sapolsky benti á, þá finnum við jafnvel til með kvöldu hrossi, jafnvel þótt það hafi verið fest á striga í túlkun Pablos Picasso (sjá mynd). Mest selda bókin á the Guardian þessa vikuna er Zero Degrees of Empathy: A new theory of human cruelty eftir Simon Baron-Cohen, sem fjallar um samkennd og hvað gerist þegar hana vantar.

guernica1.jpg

Flest okkar finnum til samkenndar með öpum, en við gerum samt tilraunir á þeim. Líffræðingar og læknar vita að apakettir og mannapar eru gagnleg tilraunadýr. Mýs og ávaxtaflugur eru ágæt til síns brúks, en líffræði þeirra er töluvert frábrugðin okkar. Það getur skipt megin máli þegar rannsaka á t.d. þroskun hjartans eða viðbrögð við sýkingu. Makakíapar voru t.d. lengi notaðir sem líkan fyrir HIV sýkingar, en þegar erfðamengi þeirra var raðgreint kom í ljós að þeir búa yfir fjölbreyttara ónæmiskerfi en við (og er því líklega óheppilegt líkan).

Vera má að lífeðlisfræði og næringarbúskapur makakíapa sé líkur okkar. Allavega vonar maður það, svo að kúrinn sem Mario, Hoopa Troopa og félagar voru settir á (Látnir apa eftir offitusjúklingum) skili niðurstöðum að gagni. Kevin Grove og félagar hafa rannsakað þessa apa í dálítin tíma og fengið nokkrar vísbendingar um neikvæð áhrif nútíma lífstíls. Þeir sáu meðal annars breytingar á blóðflæði í kringum legið, sem virðist leiða til hærri tíðni andvana fæddra unga. Greg Gibson leggur út frá svipaðri hugsun í bók sinni It takes a genome - þ.e. að við breytingar á umhverfi nútímamannsis hafi erfðamengi okkar lent í annarlegum aðstæðum og duldir genagallar komi í ljós (Það þarf erfðamengi til).

Við höfum vitanlega meðhöndlað dýr á margvíslega vegu, drepið flestar tegundir á jörðinni til átu eða sem skraut, alið hunda til þjónustu og húsdýr til átu. Í nafni vísindanna höfum við klætt rottur í nærbuxur, hlutað sundur froska og mýs, flutt frumur á milli salamandra, erfðabreytt músum, eitrað fyrir dýrum á marga vegu (í nafni eiturefnafræðinnar eða snyrtivöruframleiðslu). Stundum lenda lífverur í framandi aðstæðum, vegna aðstæðna sem við setjum þær í. Guðmundur Pálsson (Rás 2) segir m.a. í minningu um mannapann Karl sem dó fyrir nokkru:

Sjimpansinn Karl var frægur. Heimsfrægur jafnvel. Hann lék vitaskuld allskyns apakúnstir eins og sjimpansa er siður  en frægastur var hann fyrir þann ósið að reykja sígarettur. Fjöldi fólks, þúsundir manna á ári, heimsóttu  dýragarðinn í Blomfontein í Suður Afríku, gagngert til að bjóða Karli smók. Þá kveiktu gestir dýragarðsins í  sígarettum, fleygðu þeim til Karls og fylgdust með honum reykja hverja sígarettuna á fætur annarri.

Það er ekki grundvallarmunur á örlögum Maríós og Karls. Báðir eru frændur okkar, og við erum ábyrg á örlögum þeirra. Í einu tilfelli eru vísindamenn ábyrgir - og réttlæta gjörðir sínar með leit að þekkingunni, og sofna með góðri. Í hinu gerum við ekki neitt - borgum okkur inn í dýragarðinn, kaupum popp og sofnum með góða samvisku. Þótt samkenndin sé mikilvæg, er augljóst að hún er ekki algild. Því annars myndum við vafra um í sársauka, sem við myndum upplifa í gegnum samkennd með þjáningum og dauða allra þeirra lífvera sem byggja jörðina.

Ítarefni:

Af þessu tilefni mæli ég sérstaklega með pistlum Guðmundar Pálssonar um apa, Apaglöggir makakíapar, Minning um mannapa, og Ill meðferð á öpum.

Frias AE, o.fl. Maternal High-Fat Diet Disturbs Uteroplacental Hemodynamics and Increases the Frequency of Stillbirth in a Nonhuman Primate Model of Excess Nutrition. Endocrinology. 2011 Mar 29. [Epub ahead of print]

Það þarf erfðamengi til

 


mbl.is Látnir apa eftir offitusjúklingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifandi steingervingar

Steingervingafræðingar hafa veitt því eftirtekt að stundum finnast leifar áþekkra tegunda í mjög misgömlum jarðlögum. Í sumum tilfellum hafa tugmilljónir eða jafnvel hundrað milljónir ára liðið frá því að tegundin sást fyrst, og þar til hún hvarf úr steingervingasögunni. Í sumum tilfellum hverfa þessar tegundir ekki, heldur eiga sér lifandi fulltrúa á jörðinni í dag. Þetta eru lifandi steingervingar (living fossils), sem Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg S. Jónsdóttir ræða í kafla sínum um sögu lífsins á jörðinni í Arfleifð Darwins.

Þekktustu dæmin um lifandi steingervinga eru bláfiskurinn (Latimeria) sem Örnólfur Thorlacius ritaði svo skemmtilega grein um í Náttúrufræðingnum um árið, musteristréð (Ginko biloba) og skeifukrabbar. Færri vita að vissir hákarlar eru nokkurn vegin eins í útliti og forfeður þeirra sem komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir u.þ.b. 450 milljónum ára. Árið 2007 var lýst myndum af hrúðhákarli* (frilled shark - Chlamydoselachus) sem venjulega finnst eingöngu í djúpsjó. Hákarlinn gætil talist fornfálegur en engu að síður nægilega góður til að lifa af í hundruði milljóna ára.

frillshark-big-1Myndin er af vef National Geographic, mæli með því að fólk fylgi tenglinum og skoði hinar myndirnar af dýrinu.

Þótt saga lífsins sé að miklu leyti saga breytinga, fjölbreytini og nýjunga, er samt viðbúið að einhverjar tegundir varðveitist á þennan hátt. Þótt útlit þeirra sé áþekkt eru mestar líkur á að genin hafi tekið miklum breytingum. Vera má að genin sem móta útlit hákarlsins starfi á ólíkan hátt í nútímanum og þau gerðu fyrir 300 milljónum ára. Einnig er góður möguleiki á að nútíma hrúðhákarlinn hafi misst einhver gen forfeðra sinna, og áskotnast ný á þessum langa tíma.

Ítarefni:

Ridley - Evolution: living fossils.

Örnólfur Thorlacius: Sagan af bláfiskinum - Náttúrufræðingurinn 1995, í gegnum tímarit.is.

Chlamydoselachus á Fishbase.org

Steingervingar og þróun lífs

*Hrúðhákarl er mín örvæntingafulla þýðing á frilled shark ef þið vitið um aðra betri deilið henni endilega.


mbl.is Fann 300 milljón ára gamalt bein í námu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífríki Íslands og leyndardómar frumunar

Í tilefni aldarafmæli HÍ stendur líf og umhverfisvísindadeild skólans fyrir nokkrum uppákomum. Í dag (12. apríl 2011) munu framhaldsnemar kynna rannsóknir sínar ásamt nemendum í jarðvísindum. Boðið verður upp á stutta fyrirlestra, nemendur koma með viðfangsefni sín, krabba, frumur, gen, kort, öskusýni, grjót, setlagakjarna og tölvuforrit og ræða við gesti og gangandi um rannsóknir í líffræði, landfræði, ferðamálafræði og jarðfræði. Dagskráin stendur frá 16:00 til 19:00 í Öskju, náttúrufræðahúsii HÍ. Sjá nánar á vef HÍ.

kl 16-17 fyrirlestrar í jarðfræði:
Rannsóknir við Múlajökul, bergfræði og jarðfræðikortlagning á Melrakkasléttu

kl 17-18 fyrirlestrar í líffræði:
Stofnfrumur, "elstu Íslendingarnir" - grunnvatnsmarflærnar, svif í Breiðafirði og þroskun bleikjuafbrigða.

kl 18-19 fyrirlestrar í land-  og ferðamálafræði:
Umferðarmenning, íslenska landslagshugtakið, greining landslags í skipulagsvinnu á Íslandi og sjálfbær þróun.

Á morgun verða síðan fyrirlestrar um rannsóknir á lífríki Íslands (frá kl 16:30 og 18:00, í Öskju). Þá munu Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jörundur Svavarsson og Arnþór Garðarsson fjalla um hina mismunandi þætti lífríkis lands og sjávar. Fyrirlestrarnir eru stílaðir á almenning og verða ríkulega myndskreyttir.

Jörundur Svavarsson greinir frá lífríki sjávar, en hann hefur stundað rannsóknir á lífríki sjávar um árabil og m.a. unnið við og skipulagt hið alþjóðlega BIOICE verkefni sem kortlagði tegundir botndýra og útbreiðslu þeirra á Íslandsmiðum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um gróðurfar en hún hefur unnið að rannsóknum í grasa- og umhverfisfræðum og nýlega rannsakað gróðurframvindu á Skeiðarársandi.

Í fyrirlestri sínum mun Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, fjalla um sjófuglastofna, tilvist þeirra og aðferðir til að rannsaka þá og tryggja framtíð þeirra, en um fjórðungur allra sjófugla í Norðaustur-Atlantshafi á heima á Íslandi og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims, sérstaklega á Hornströndum, í Látrabjargi og Vestmannaeyjum.

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild heldur fyrirlestur í hádeginu 13. apríl, (kl. 12:30) um það hvernig hægt er að virkja náttúrulegt ónæmi gegn sýklum.

Eðlilegt jafnvægi milli hýsils og örveruflóru er nauðsynlegt fyrir heilsu manna og dýra. Örverudrepandi peptíð frá þekjufrumum hýsilsins eru lykilþættir í þessu jafnvægi. Peptíðin eru hluti af okkar náttúrulegu vörnum og í raun fyrstu virku varnirnar sem örverur mæta. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þetta einstaka varnarkerfi og mikilvægi þess. Einnig verður bent á leiðir um hvernig nýta má þetta varnarkerfi til að verjast sýkingum.

Einnig mun Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði halda fyrirlestur á föstudaginn í Málstofu í efnafræði og lífefnafræði (kl 12:30, stofa 158, VR-II, Háskóli Íslands). Hann fjallar um rannsóknir á erfðamengi fléttu, sem er forvitnileg frá vistfræðilegu sjónarmiði, gæti reynst hagnýt fyrir lyfjaiðnað og er mjög athyglisverð fyrir sameindaerfðafræðina. Úr tölvupósti:

Fléttur af ættkvíslinni Peltigera eru útbreiddar á íslandi og víðar og hafa verið rannsakaðar á ýmsavegu. Við höfum nú raðgreint erfðaefni fléttanna P. membranacea (himnuskóf) og P. malacea (mattaskóf) beint úr náttúrunni. Með þessar upplýsingar í hendi er hægt að leita svara við margvíslegum spurningum varðandi aðlögun að samlífi, sérhæfingu, þróun og breytileika o.s.frv. Viðbótargögn fengin með raðgreiningu á mRNAi og greiningu á metýleringu erfðaefnisins veita enn frekari möguleika.


Hvað gera gen fyrir framhaldskólanema?

Eitt af verkefnum mínum sem háskólakennari í líf og umhverfisvísindadeild HÍ er að taka á móti gestum. Hópar og bekkir úr nokkrum framhaldskólum koma í heimsókn til okkar, fá að fræðast um rannsóknir í líffræði og sjá rannsóknarstofur og tæki. Einnig fáum við gesti frá Danmörku og Noregi, árganga í námsferðum eða einhverju skiptiprógrammi milli skóla. Í morgun var ég t.d. að ræða við nemendur frá skóla í Fredriksberg, Kaupmannahöfn, sem eru í samstarfi við Flensborg.

Rannsóknir mínar og áhugi er mestur á sviði erfðafræði og því ræði ég mannerfðafræði, erfðamengi og starf íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) sé þess óskað (ÍE tekur á móti færri hópum þessa dagana en áður). Maður rennir stundum blint í sjóinn - því gestirnir eru misjafnlega undirbúnir, hafa heyrt um gen, stundum DNA, jafnvel, útraðir, innraðir og stjórnraðir (hina mismunandi hluta gena).

Það sem ég reyni að skerpa á eru grundvallaratriði erfða. Í fyrsta lagi að erfðaefnið berst frá foreldrum til afkvæma, og að stundum séu gallar í erfðaefninu, sem geti haft áhrif á útlit eða eiginleika lífvera.

Í öðru lagi hamra ég á þeirri staðreynd að stökkbreytingar séu misjafnlega alvarlegar. LANGflestar stökkbreytingar eru hlutlausar, hafa ekki áhrif á eiginleika einstaklingsins og möguleika hans í lífsbaráttunni. Þær breytingar sem hafa áhrif eru síðan missterkar. Sumar drepa, en aðrar bæta kannski hálfum millimetra við hæð einstaklings.

Þriðja atriðið er sú staðreynd að erfðir eru ekki einráðar. Hver eiginleiki sem er, hæð eða hætta á hjartaáfalli, eru undir áhrifum: i) erfða, ii) umhverfis, iii) tilviljunar eða iv) samspils þessara þátta.

Kúnstin, og rétt er að taka fram að hana hef ég ekki fullkomnað, er að miðla þessum staðreyndum. Samkvæmt minni reynslu þá eru dæmi langbesta verkfærið. Tökum þá dæmi um dæmi.

Mannerfðafræðingar (þar á meðal starfsmenn ÍE) hafa fundið helling af erfðaþáttum sem hafa áhrif á hæð. Flestar eru þær algengar manna á meðal en hafa frekar lítil áhrif, auka hæð t.d. um millimeter. Áður fyrr höfðu menn bara fundið sterka erfðaþætti sem tengdust hæð, á þann hátt að viðkomandi arfberi varð dvergur. Slíkar stökkbreytingar eru mjög sjaldgæfar. Þannig geta vægar breytingar verið algengar í einhverjum hópi, en mjög alvarlegar breytingar (eins og dvergagen) eru oftast ákaflega fátíðar.

Framhaldskólanemar eru flestir mjög fljótir að tileinka sér þessi atriði. Þeir átta sig á því að sum einkenni hafa þau frá föður, önnur frá móður og önnur eru beggja blands. Þótt fæstir framhaldskólanemar velti fyrir áhrifum gena á komandi kynslóðir (sín tilvonandi börn), þá finnst flestum forvitnilegt að vita að hver einasta kynfruma er með 50-100 nýjar stökkbreytingar. Hver einstaklingur hefur því fengið u.þ.b. 100-200 nýjar stökkbreytingar frá pabba og mömmu. Ungu fólki í leit að sjálfum sér getur reynst ágætt að fá staðfestingu á því að erfðafræðilega eru við öll einstök.


Já og segjum nei við réttum hlutum

Icesave er sannarlega mikilvægt mál en það er samt dvergvaxið miðað við aðrar afleiðingar hrunsins og góðáranna þar á undan. Tap Seðlabankans í hruninu og skuldafen OR eru bara tveir risavaxnir póstar sem við þurfum að takast á við. Besta leiðin til þess er að samþykkja Icesave lögin og afgreiða þetta mál í eitt skipti fyrir öll.

Óvissan sem hlytist af því að hafna Icesave er að mínu viti kostnaðarmeiri en mögulegur ávinningur af því að vinna dómsmál um innistæðutryggingarnar, og þá er ótalinn kostnaðurinn ef við töpum málinu.

Mig grunar að hluti af andstöðunni sé tilkomin vegna þess að við eru óánægð með lækkandi kaupmátt, auknar álögur, hringlanda í stjórnvöldum, og síðast en ekki síst bið eftir því að réttlætinu verði fullnægt. Arkitektar hrunsins og góðærisins leika enn lausum hala, fjárglæframennirnir hafa ekki verið sóttir til saka, eignir hafa ekki skilað sér aftur til landsins og stjórnmálamenn sprikla sér undan ábyrgð.

Það að segja nei mun ekki leysa þessi vandamál.

Nei er ekki leiðin til að fullnægja réttlæti yfir arkitektum hrunsins, ekki leiðin til að auka kaupmátt, ekki leiðin til að bæta stjórnmálamenninguna, ekki leiðin til að losa auðlindirnar úr klóm einkaaðilla og ekki leiðin minnka skattbyrði.

Við þurfum að finna réttan farveg fyrir óánægju okkar og gremju. Ég tel mikilvægt að segja nei við réttum hlutum (ofríki kvótakónganna, tvístígandi ríkisstjórn, fjáraustri í stóriðju, aðför að menntakerfinu, smjörklípum úr Hádegismóum og niðurskurði á grunnþjónustu), en já við Icesave.


Mauramengin

Rúmlega 14000 tegundir maura finnast á jörðinni. Þeir samsvara um þriðjungi lífmassa allra skordýra, sem er umtalsverður. Eitt af því sem útskýrir undraverðan árangur maura er sú staðreynd að þeir vinna saman. Þeir eru félagsskordýr og eins og ættingjar þeirra býflugurnar byggja margar tegundir þeirra hin reisulegustu bú.

Greinar í Plos Genetics og PNAS* vikunnar marka nýtt skref í rannsóknum á líffræði maura. Erfðamengi fjögurra maurategunda hafa nú verið raðgreind (upp að ákveðnu marki). Um er að ræða laufskurðarmaura (Leaf cutter ant, Atta cephalotes), eldmaura (fire ant, Solenopsis invicta), rauðskurðar maura (red harvester ant, Pogonomyrmex barbatus og argentíska maura (Linepithema humile). Laufskurðarmaurarnir eru sérstakir að því leyti að þeir skera lauf og bera í bú sitt, þar ala þeir önn bakteríur sem brjóta niður laufin og losa um næringu sem maurarnir nýta. Án bakteríanna gætu maurarnir ekki nærst á laufunum. Í erfðamengi laufskurðarmaura vantar nokkur gen sem nauðsynleg eru til að mynda tiltekin næringarefni. Talið er að þau hafi reynst óþörf eftir að þeir tóku upp landbúnað, þ.e. bakteríur sem húsdýr (eða búsdýr).

Rauðskurðarmaurarnir finnast í N.Ameríku en stofninn hefur dregist saman að undanförnu. Talið er að hluti ástæðunar sé samkeppni við hinar tegundirnar tvær, eldmaura og argentísku maurana sem báðar hafa hreiðrað um sig í Bandaríkjunum.

Í erfðamengjum mauranna má greina að þeir búa yfir mjög fjölbreyttu kerfi prótína og ensíma sem hjálpa til við samskipti einstaklinga. Almennt mynda maurar stakar byggðir, í hverju maurabúi ríkir ein fjölskylda sem berst hatramlega við skylda maura og aðra ættingja sem reyna að smeygja sér inn í búið eða taka auðlindir. Ein undarlegasta frávikið frá þessari reglu eru argentísku maurarnir, en þeir mynda súperbú (supercolony), þar sem maurar á stóru svæði hjálpast allir að. Stórkostlegasta dæmið um þetta er að maurar sem uppaldr eru á mismunandi meginlöndum vinna saman ef þeir lenda í sömu súpunni. Vitað er um eina aðra tegund sem sýnir slíka samhjálp, það er sú sem við tilheyrum.

Margir líffræðingar hafa rannsakað þessar einstöku verur, en Edward Wilson og Hölldobler skrifuðu saman maurabiblíuna (ANTS). Ég hef áður gert þá félaga að umræðuefni - undir misvísandi titli (Maur, maur, maur, maur, maur...), þar segir meðal annars um Hölldobler.

[Hann er] þýskur dýrafræðingur af Goethes-náð flutti erindi í Chicago eitt árið sem ég var þar. Hann lýsti rannsóknum sínum á maurum. Félagsskordýr eru alveg mergjuð fyrirbæri, þar vinna saman systur og bræður, í búi sem móðir þeirra er drottning. Einstaklingarnir eru aðskiljanlegir, þú getur greint muninn á hverjum maur, en þeir eru samt hluti af einhverju stærra. Félagsskordýr hafa verið notuð sem líkön til að rannsaka samvinnu og samhjálp, eins og þegar maurar leggja slóð fyrir bræður sína í átt að fæðuuppsprettu. Hölldobler lýsti því t.d. hvernig maurarnir ramba á réttar greinar á tré með því að hlera eftir þvi hvar aðrir maurar eru að saga laufblöð.

antstheonion061209_864115.jpgMyndin er af vefsíðu The Onion, sem er ekki alveg jafn alvarlegur miðill og Plos Genetics.

Ítarefni

Newly Decoded Ant Genomes Provide Clues on Ant Social Life, Pest Control ScienceDaily (Jan. 31, 2011)

The birth of ant genomics  Raghavendra Gadagkar PNAS April 5, 2011 vol. 108 no. 14 5477-5478

Maurabú grafið upp - Youtube myndband: þakkir til Hildar fyrir sendinguna.

*Proceedings of the national academy of the sciences, rit amerísku vísindaakademíunnar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband