Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Nóbelsverðlaun í líffræði

Reyndar eru ekki veitt nóbelsverðlaun í líffræði, einungis skyldum greinum eins og efnafræði og læknisfræði. Þegar litið er yfir Nóbelsverðlauna listann sést samt að fjölmargir líffræðingar hafa hlotið verðlaun, fyrir grunnrannsóknir á þroskun, RNA, litningaendum og veirum.

Heilbrigðisvísindasvið HÍ bauð tveimur nóbelsverðlaunhöfum í heimsókn í tilefni afmælis HÍ. Fyrir nokkru hélt Elizabeth Blackburn fyrirlestur um litningaenda og á morgun (1. júní 2011, kl 14.00) mun Francoise Barre-Sinoussi halda fyrirlestur um alnæmisveiruna (HIV). Tveir t.t.l. nýkrýndir nóbelsverðlaunahafar í læknisfræði, tveir frammúrskarandi líffræðingar, tvær konur sem eru góðar fyrirmyndir stúlkum með áhuga á vísindum og tækni.

Vegna anna við umsóknaskrif (umsóknarfrestur í Rannsóknasjóð Íslands er á morgun) get ég ekki gert Barre-Sinoussi almennileg skil. Því vísa ég ykkur á umfjöllun á vef HÍ (í tilefni aldarafmælis skólans). Þar segir meðal annars:

Rannsóknir próf. Barré-Sinoussi skiptu sköpum við uppgötvun HIV-veirunnar og þeirrar staðreyndar að veiran veldur alnæmi. Hún hóf veirurannsóknir sínar árið 1970 og 13 árum síðar greindi hún og samstarfsfólk hennar frá uppgötvun þeirra á veirunni sem síðar hlaut nafnið HIV. Fyrir þessa uppgötvun hlaut dr. Barré-Sinoussi Nóbelsverðlaunin í líf- og læknavísindum árið 2008 ásamt samstarfsmanni sínum, próf. Luc Montagnier.

Dr. Barré-Sinoussi stjórnar rannsóknarstofu í veirufræði, Unité des Régulations des infections rétrovirales, við Pasteur-stofnunina í París. Rannsóknarteymi stofnunarinnar leggur áherslu á að finna vörn gegn HIV-smiti og að leita lækninga við sjúkdómnum. Hún hefur unnið markvisst að því að efla samskipti á milli þeirra sem rannsaka HIV og alnæmi á alþjóðavettvangi, stuðlað að aðgerðum í þágu heilsu í þróunarlöndunum og lagt mikið af mörkum til að auka þekkingu á HIV-veirunni og alnæmi í Afríku og Asíu, m.a. í gegnum alþjóðlegt net Pasteur-stofnunarinnar og í samvinnu við Stofnun rannsókna á alnæmi í Asíu, Agence nationale de recherche sur le sida (ANRS).

Auk Barre-Sinoussi munu Halldór Þormar fjalla um Björn Sigurðsson og fyrstu ár Rannsóknastöðvarinnar á Keldum og Valgerður Andrésdóttir um rannsóknir á mæði-visnuveirunni (sem er veira af sömu grunngerð og HIV). Halldór gaf nýlega út bók um Fituefni og ilmolíur sem vopn gegn sýklum.

Tengdir pistlar:

Nóbelsverðlaun í veirufræði

Nóbelsverðlaun fyrir að útskýra endurnýjun litningaenda


Uppreisn og innræktun á Bounty

Innræktun býður heim þeirri hættu að afkomandi erfi annars sjaldgæfar skaðlegar stökkbreytingar frá báðum foreldrum. Því meiri sem skyldleikinn er, því meiri eru líkurnar á því að erfða skaðlegar breytingar. Ef t.d. systkyni æxlast eru líkurnar 1/2, því þau deila helmingi erfðaefnis foreldranna. Ef um hálfsystkyni er þetta strax skárra (1/4), og svo fram eftir götunum. Skyldleikastuðlar geta metið líkurnar á að afkomendur skyldra fái sama gen frá báðum foreldrum. Kaþólskir klerkar notuðu þetta í gamla daga, þegar hægt var að veita syndaaflausn gegn viðeigandi gjaldi (það kostaði meira að giftast náfrænku sinni en fjarskyldri).

Þegar ég var við nám í Norður Karólínu vann ég sem aðstoðarkennari Ted Emigh, sem las erfðafræði fyrir 250 manna bekk á hverju misseri. Eitt skemmtilegasta dæmið sem hann tók um innræktun var sagan um áhöfnina á Bounty. Einhverjir kannast við kvikmyndina eða bókina um uppreisnina á Bounty, en hvoru tveggja er byggt á raunverulegum atburðum sem gerðust árið 1789 (hversu nákvæmlega skiptir ekki máli hér!).

Mutiny_HMS_BountyMynd af uppreisninni af familypedia.wikia.com

Hluti áhafnarinnar settist að á lítilli eyðieyju í Kyrrahafinu, sem nefnist Pitcairn. Þeir fengu til fylgilags við sig nokkra frumbyggja (aðallega konur, líklega með svipuðum rökum og norrænir menn beittu á Bretlandseyjum), og stofnuðu nýlendu á eyjunni. Eyjan var numin af 27 manna hópi og eru nær allir núlifandi íbúar beinir afkomendur þeirra (aðalatvinnuvegurinn er sala frímerkja til frímerkjasafnara).

Kennarinn í Norður Karólínu gerði mikið úr hættunni á innrækt þegar stofninn er svona lítill. Í hans meðförum var mikil innrækt og allskonar erfðasjúkdómar landlægir þess vegna. Það virðist vera orðum aukið, það virðist sem stofnendur á eynni hafi vitað hvað þeir voru að gera og gætt þess rækilega að of skyldir einstaklingar myndu ekki parast.

Kannski að breskir múslimar ættu að reikna skyldleikastuðla eins og kaþólskir prestar gerðu í gamla daga, eða að minnsta kosti sækja í reynslu Pitcairn búa - búa til gott ættartré og vanda sig við makaval.


mbl.is Varaði við innræktun á meðal múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlífsráðgjöf Dr. Tatíönu

Hvert leitar öfugugginn ráða varðandi kynlíf sitt (eða skort á því)?DrTatiana_cover

Ef öfugugginn er höfrungur þá myndi hann leita til Dr. Tatíönu. Höfrungar eru nefnilega svakalega opnir fyrir kynferðislegum tilraunum, þeir hnoðast á flestum dýrum sjávar og visitera jafnt leggöng og blástursop (líklega ekki vel tennta kjafta samt) - sjá neðst.

Dr. Tatíana varð fræg með bókinni, Dr Tatiana's Sex Advice to All Creation. Þar svarar hún fyrirspurnum dýra um kynlíf og makaval, eins og:

Dear Dr Tatiana,

I'm a queen bee, and I'm worried. All my lovers leave their genitals inside me and then drop dead. Is this normal?

Dear Dr. Tatiana,

I'm a European praying mantis, and I've noticed I enjoy sex more if I bite my lovers' heads off first. . . .Do you find this too?

I Like 'Em Headless in London

Dear Dr. Tatiana, 

My name's Twiggy, and I'm a stick insect. . . .My mate and I have been copulating for 10 weeks already. I'm bored out of my skull, yet he shows no sign of flagging. . . .How can I get him to quit?

Sick of Sex in India

Dr. Tatiana var sköpuð af Oliviu Judson, líffræðingi og atferlisfræðingi. Hún svarar hverju dýrir fyrir sig, útskýrir t.d. að það er algerlega eðlilegt að karlbýflugur skilji betri partana sína eftir. Býflugur geyma sæði, og ef karlinn nær að frjóvga eina kvenflugu og "loka á eftir sér", þá getur hann feðrað heilt bú!

Svipað getur verið í gangi hjá Twiggy. Karlinn vill ekki losna af, til að vera viss um að hún hlaupi ekki til einhvers annars karls sem myndi þá feðra fleiri afkvæmi.

Í hverju kafla bókarinnar tekur ræðir hún þekkingu okkar á makavali, kynatferli, kynfærum og hjálpartækjum dýraríkisins. Hún skrifar stórkostlega léttan og aðgengilegan stíl, lýsingar hennar á bandormum sem kokgleypa karldýrin sín verða jafn notalegar og skemmtilegar og atlot Popppunktsmanna.

Að síðustu verð ég vitja höfrunganna aftur, hér er viðtal við Dr. Tatiana/Oliviu:

CURWOOD: What example in the animal world do you think humans can learn the most from?

DR. TATIANA: If you sort of say, "Well, what animal would it be most fun to be if sexual gratification were what you were after," I think I’d go for the dolphin. The Atlantic bottlenose dolphin has been recorded trying to have sex with sharks, turtles, seals, eels, and even the occasional human. I think that dolphins will be my vote for the most sexually liberated organism.

Aðrir pistlar um skrif Oliviu Judson:

Vongott skrímsli - skrímsli á von

Smitandi krabbamein

Vistkerfi í einum ananas


Kynbundin áhrif og óþekktir umhverfisþættir

Þegar ég vann hjá íslenskri erfðagreiningu þá fékk ég að taka þátt í rannsókn á gáttatifi (atrial fibrilation). Tölfræðingarnir (klárustu kallarnir í Decode) höfðu fundið tengsl ákveðins svæðis í erfðamenginu við sjúkdóminn. Svæðið var fjarri genum, og ég fékk þann starfa að athuga hvort þar leyndust mögulega stjórnraðir og hvort að stökkbreytingarnar sem sýndu fylgni við sjúkdóminn hefðu áhrif á slíkar stjórnsvæði (stjórnsvæði eru nauðsynleg til að kveikja, slökkva og stýra framleiðslu á afurðum gena). Genið sem í þessari rannsókn var bendlað við gáttatif, er einmitt tjáð í öðrum helmingi hjartans. Og þegar það er skaddað í músum, þá þroskast og virkar gangvirki hjartans ekki eðlilega.

Gáttatif er kannski flestum framandi sjúkdómur en það skiptir máli, því það ýtir undir líkurnar á heilablóðfalli. Læknar og tölfræðingar LSH og Hjartaverndar könnuðu breytingar á tíðni sjúkdómsins meðal íslendinga síðastliðin tuttugu ár. Í ljós kemur að hlutfall landsmanna (prevalance) sem er með gáttaflökt hefur aukist á tímabilinu, sérstaklega í konum. Úr grein Hrafnhildar og félaga:

The age-standardized prevalence increased per year by 1.8% (95% CI 1.3–2.3) in men and 2.3% (95% CI 1.7–2.9) in women from 1998 to 2008.

Höfundar greinarinnar áætla einnig hvernig staðan getur orðið ef aukningin verður stöðug næstu 39 árin. Tíðni gáttatifs mun þá fara úr 2% í 3.8%. Það er sannarlega aukning, en tæplega faraldur. Framreikningur (extrapolation) sem þessi er alltaf háður ákveðnum forsendum og skorðum (þó íþróttamenn hafi hlaupið 100 metrana á sífellt styttri tíma, munu þeir aldrei hlaupa þá á 0 sekúndum eða -1 sekúndu).

Hitt þykir mér forvitnilegra, hvaða þættir hafa valdið aukningu í tíðni gáttatifs. Þetta skýrist að hluta af stærri hlutfalli eldri borgara hérlendis, en einnig skipta þættir eins og offita og sykursýki af gerð 2 máli. Ég veit ekki hvort að þessi þættir plagi kvenfólk meira en karlmenn. Hins vegar eru líkur á því að breytingar á matarvenjum og mögulega lifnaðarháttum þjóðarinnar hafi átt hér hlut að máli. Einnig er mögulegt að stökkbreytingar sem nú ýta undir gáttatif hafi verið einkennalausar á fyrri öldum. Áhrif genanna velta nefnilega á samspili þeirra við umhverfið (Það þarf erfðamengi til).

Ítarefni:

Líkur á faraldri hjartasjúkdómsins gáttatifs

Trends in the incidence and prevalence of atrial fibrillation in Iceland and future projections Hrafnhildur Stefansdottir, Thor Aspelund, Vilmundur Gudnason, and David O. Arnar Europace (2011) eur132 first published online May 7, 2011 doi:10.1093/europace/eur132

Það þarf erfðamengi til


mbl.is Ný rannsókn spáir faraldri gáttatifs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nám í sameindalíffræði og lífefnafræði

Sameindalíffræðin er ein yngsta grein líffræðinnar. Hún fjallar um byggingu DNA, prótína og frumunnar og nýtist við rannsóknir á þroskun lífvera og sjúkdómum, vistfræði tegunda og rannsóknum á þróun. Einnig nýtast aðferðir hennar í sakamálum og til að meta faðerni/eða móðerni. Rannsóknir mínar eru á mörkum sameindalíffræði og þróunarfræði. Núna fæst ég t.d. við rannsóknir á genastjórn, þeim kerfum sem kveikja og slökkva á genum í mismunandi frumugerðum (sem kveikja á genum sem mynda taugaboðefni í heilanum en genum sem mynda meltingarensím í mallakút). Við höfum líka rannsakað genastjórn í þroskum, samanber mynd af flugufóstrum sem lituð eru með mótefnum gegn 3 mismunandi prótínum (Lott o.fl. 2007 Mynd copyright Susan Lott). lottetal07.jpg

Mér finnst mjög gaman að benda á að núna hefur verið mynduð ný námsbraut í sameindalíffræði og lífefnafræði við HÍ. Raunvísindadeild og Líf- og umhverfisvísindadeild standa sameiginlega að námsbraut í lífefna- og sameindalíffræði. Boðið er upp á tvö kjörsvið, annars vegar í lífefnafræði og hins vegar í sameindalíffræði. Um er að ræða þriggja ára BS-nám (180 ECTS).

  • Tvær áherslur: lífefnafræði eða sameindalíffræði. Sameiginlegt nám fyrstu tvö árin en á þriðja ári er val um sérhæfðari námskeið.
  • Kenndur er grunnur að sameindalíffræði og lífefnafræði sem tekur m.a. til örverufræði, frumulíffræði, eðlisfræði, stærðfræði, efnafræði og lífrænnar efnafræði.
  • Nánari áhersla: Bygging stórsameinda (DNA, próteina, fjölsykra, frumuhimna).
  • Nánari áhersla: Bygging fruma, veira, baktería, vefja og erfðamengja.
  • Nánari áhersla: Lögmál lífefnafræði, erfða, efnaskipta fruma, þroskunar og þróunar.
  • Á þriðja ári eru í boði ýmis sérhæfð valnámskeið, t.d. um hagnýtta lífefnafræði, byggingu og eiginleika próteina, efnafræði ensíma, um aðferðir í sameindaerfðafræði, erfðamengjafræði, líftæknilega örverufræði, mannerfðafræði eða örveruvistfræði.
  • Námið mótast m.a. af byltingu í lífvísindum og læknavísindum sem fylgir í kjölfar raðgreiningar á erfðamengi mannsins og fleiri lífvera. Það þarf samstillt átak lífefnafræðinga, líffræðinga, og tölvunarfræðinga til að skilja erfðamengin, frumuna og sjúkdóma.
  • Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér hugmyndafræði og aðferðir raunvísinda og læri að beita þeim við rannsóknir á stórsameindum og líffræðilegum fyrirbærum.
  • Námið opnar tækifæri til framhaldsnáms til meistara- eða doktorsgráðu eða náms til kennararéttinda.
  • Sameindalíffræðingar og lífefnafræðingar með BS-gráðu frá Háskóla Íslands eru viðurkenndir á atvinnumarkaði og eftirsóttir í fjölbreytt störf hérlendis og erlendis.

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Í kaflanum um þróun mannsins í bókinn Arfleifð Darwins fjallaði ég aðeins um þessa spurningu. Samkvæmt þeim gögnum sem þá lágu fyrir voru engar vísbendingar um genaflæði og kynblöndun á milli okkar og neanderdalsmanna. Nýjar niðurstöður hafa kollvarpað þeirri ályktun. Eftirfarandi pistill er svar við spurningum sem bárust vísindavefnum.

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Hinn vitiborni maður (Homo sapiens) er eina núlifandi manntegundin á jörðinni. Steingervingasagan sýnir að við erum komin af stórri fjölskyldu manntegunda, sem flestar bjuggu í Afríku en dreifðust einnig um gamla heiminn. Á hverjum tíma voru líklega uppi nokkrar misjafnlega skyldar manntegundir. Því er eðlilegt að spyrja um útdauða Neanderdalsmanna, hvenær deildi Homo sapiens jörðinni með öðrum manntegundum, og hvernig var samskiptum þessara tegunda háttað? Bárust þær á banaspjót eða blönduðu þær geði og jafnvel blóði?

Mannfræðingar hafa tekist á við þessar spurningar. Búsvæði og lífshættir apa og manna valda því að beinaleifar og steingervingar þessara tegunda eru af skornum skammti. Engu að síður hafa fundist leifar tveggja manntegunda sem staðfest er að hafi lifað á jörðinni á síðustu 50.000 árum (eftir að nútímamaðurinn kom fram). Yngstu leifar Homo Neanderthalensis eru um það bil 30.000 ára og heillegustu eintök Homo floresiensis eru áætluð 12.000 ára. Neanderdalsmenn eru velþekktir (sjá til dæmis svar við spurningunni Hvað er mannkynið gamalt?), nokkrar höfuðkúpur, bein og tennur hafa fundist í Mið-Evrópu og Kákasus. Homo floresiensis er mun umdeildari, meðal annars vegna þess að um er að ræða dvergvaxta mannveru sem fannst á einni indónesískri eyju. Færð hafa verið rök fyrir því að ekki sé um sérstaka tegund að ræða, heldur einstakling sem ef til vill þjáðist af vannæringu eða vaxtar- eða beinasjúkdómi. Ekki er vitað með vissu hvort Homo floresiensis sé raunverulega áður óþekkt manntegund eða ekki.

Frá árinu 1995 hefur orðið bylting í raðgreiningu erfðamengja lífvera. Samhliða hefur fleygt fram tækni við einangrun á erfðaefni úr beinaleifum, sem gerði erfðafræðingum kleift að raðgreina litning hvatbera úr tönn Neanderthalsmanns (Krings o.fl. 1997). Niðurstöður sýndu óyggjandi að H. Neanderthalensis var ættingi nútímamannsins og að við áttum sameiginlegan forföður fyrir um 500.000-700.000 árum síðan. Ekkert í röðum hvatbera okkar og Neanderdalsmanna benti til erfðablöndunar, samanber orð Einars Árnasonar: „Neanderthalsmenn urðu útdauða án þess að skilja eftir sig afkomendur." (Höfum við beina línu forfeðra frá öpum til nútímamanns eða vantar enn "týnda hlekkinn"?).

En litningur hvatberans er bara hluti erfðamengisins og hvert gen hefur sína sögu. Því var lagt í að raðgreina erfðaefni úr beinum þriggja Neanderdalsmanna. Niðurstöðurnar birtust í maí 2010 og staðfestu mat á aldri hins sameiginlega forföður. Þær sýndu líka að Neanderdalsmennirnir þrír voru náskyldir innbyrðis, skyldari en Afríkumenn og Japanar nútímans. Merkilegast er að ákveðnir hlutar erfðamengis Neanderdalsmanna svipar til erfðamengis Homo sapiens. Besta skýringin er að nokkur gen og litningabútar í okkur séu ættuð úr Neanderdal. Slíkt gerist ekki nema með æxlunum og kynblöndun. Önnur staðreynd rennir stoðum undir þessa túlkun. Gen kennd við Neanderdal finnast ekki alls staðar. Þau finnast ekki í afrísku fólki, eingöngu í mönnum sem búa utan Afríku. Það er í samræmi við bestu þekkingu um landfræðilega dreifingu þessara föllnu frænda okkar. Þeir bjuggu í Evrasíu og hafa líklega blandast forfeðrum okkar eftir að þeir fluttu frá Afríku.

Svarið við spurningunni er því já. Niðurstöðurnar benda því til að þótt Neanderdalsmenn hafi kvatt jörðina endalega, megi finna afrit af genum þeirra í sumum okkar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir, ítarefni og mynd:
  • J. Krause o.fl. 2007. Neanderthals in central Asia and Siberia. Nature 449, 902-904. doi:10.1038/nature06193
  • P. Brown o.fl. 2004. A new small-bodied hominin from the Late Pleistocene of Flores, Indonesia. Nature 431, 1055-106. doi:10.1038/nature02999
  • M. Krings o.fl. 1997. Neandertal DNA sequences and the origin of modern humans. Cell 90, 19-30.
  • R. E. Green o.fl. 2008. A complete Neandertal mitochondrial genome sequence determined by high-throughput sequencing. Cell 134, 416-26.
  • R. E. Green o.fl. 2010. A draft sequence of the Neandertal genome. Science 328, 710-722.
  • Mynd: ScienceDaily (26. október 2007).
  • A. Pálsson 2010 Þróun mannsins í Arfleifð Darwins.

Fjölbreytni lífsins

Við skiljum bara brot af heiminum. Það þarf tölur eins og þessar til að við áttum okkur á því hversu lítið við vitum um náttúruna og lífverurnar. Hvursdags getur maður jafnvel gleymt því að við lifum á náttúrunni og þraukum vegna þess að hún er bærilega stöðug. Síðan kemur eldgos, flóðbylgja eða farsótt sem minnir mann á að við erum bara kvistur á lífsins tré, sem bærist fyrir náttúruöflunum.

Sem líffræðingi með áhuga á þróun finnst mér stórkostlegt að kynnast lífverum, þekktum eða áður óþekktum. Plöntur og þörungar eru ákaflega mismunandi að upplagi, og margar þeirra hreint stórkostlegar eins og silfursverðin á Hawaii (sjá mynd af Arizona háskóla). Ein tegund þeirra vex í Haleakala gígnum, fyrst í mörg ár sem silfurlitaður brúskur en síðan blómgast þau í einum svakalegum rykk.Silversword

Dýraríkið hefur samt vinninginn hvað fjölda tegunda varðar, nánar tiltekið bjöllusveit skordýranna. Af þeim 10-20 milljónum dýrategunda sem áætlað er að búi á jörðinni, eru bjöllur um 25%. Samkvæmt þjóðsögunni var Darwinistinn J.B.S. Haldane var einu sinni spurður um eðli skaparans út frá sköpunarverkinu. Hann átti að hafa svarað að hann hefði miklar mætur á bjöllum (An inordinate fondness for beetles) - How many species are there?.

Frétt mbl.is er að þessu sinni byggð á samantekt um nýjar tegundir. Sjá mynda albúm á vef BBC og umfjöllun á PopSci (The Top 10 New Species of 2011). Þeir reynda klikkuðu á því að nafngreina vísindamanninn sem vitnað var til í greininni. Mbl.is:

„Það er raunhæft að áætla að enn eigi eftir að skrá, nefna og flokka um 10 milljón tegundir. Fyrr getum við ekki öðlast til fullnustu skilning á margbreytileika lífríkisins.

PopSci:

Scientists' best guess is that all species discovered since 1758 represent less than 20 percent of the plants and animals living on Earth, said Quentin Wheeler, an entomologist who directs the International Institute for Species Exploration at Arizona State University.

"A reasonable estimate is that 10 million species remain to be described, named, and classified before the diversity and complexity of the biosphere is understood," he said. 

Ítarefni og pistlar:

Fleiri myndir má sjá á www.arkive.org og upplýsingar á vef grasafræðideildar Hawaii haskóla (Hawaiian silversword alliance, UH Botany).

Fjölbreytileiki sjávarlífsins - Census of Marine Life.

Umfjöllun Jerry Coyne um mat á fjölda tegunda - How many species are there? « Why Evolution Is True

Hví að vernda náttúrunna?


mbl.is 80% tegunda heims enn óþekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segir lengd litningaenda til um fjölda ólifaðra ára?

Kæra völva, hversu lengi mun ég lifa?

Elsku vinur leyfðu mér að dreypa á blóði þínu....

Grunnhugmynd nokkura sprotafyrirtækja er að reyna að svara þessari spurningu, með því að mæla lengd litningaenda í frumum einangruðum úr blóði.

Litningaendar eru varðir af stuttum endurteknum röðum, í okkar tilfelli (TTAGGG en í Tetrahymena CCCCAA), sem eru myndaðir af ensím og RNA flóka sem kallast telomerasi. Þessi flóki er virkjaður í vissum frumum, mjög snemma í þroskun og líklega í einhverjum stofnfrumum, til að bæta endurtekningum við endana á litningum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að við eftirmyndun á DNA styttast litningarnir alltaf um nokkra basa (sjá skýringarmynd með pistli CCCCAA). Ef telomerasinn væri ekki til staðar myndu litningarnir alltaf styttast, og genin á endum þeirra skemmast eða jafnvel hverfa í heilu lagi.

Elizabeth Blackburn fékk Nóbelsverðlaunin 2009, ásamt Carol Greider og Jack Szostak. Elizabeth gerði fyrstu tilraunirnar og uppgötvaði telomerasann í frumdýrinum Tetrahymena, ásamt nemanda sínum Carol (Það hófst allt með frumdýri...). Jack vann við rannsóknir á gervilitningum í sveppum, og komst að því að þeir styttust alltaf. Honum og Elísabetu tókst að skeyta telómeraröðum á gervilitningana og gera þá stöðugri.

Ein rannsókn sýndi tengsl, marktæk en ekki sterk, á milli lengdar litningaendanna og lífslíka. Einnig fannst samband milli lengdar litningaenda og krabbameins. Meiri líkur voru á að fólk með styttri litningaenda fengi krabbamein en þeir sem höfðu lengri litningaenda.

Þessi tengsl er útgangspuntkur nokkura sprotafyrirtækja, sem bjóða kúnnum að senda inn blóðsýni, mæla meðallengd litningaenda í blóðfrumunum og spá út frá þeim fyrir um lífslíkur viðkomandi einstaklings. Eitt þessara fyrirtækja er hið spænska Life length, sem státar af frú Blackburn sem einum stofnanda. 

Ekki eru þó allir vissir um að próf á litningaendum séu til mikils gagns. Carol Greider hefur meðal annars bent á að breytileiki í lengd litningaenda innan hverrar manneskju er mjög mikill. Viðkomandi getur verið með stutta litningaenda í vöðvafrumum en langa í blóði. Einnig er mikill munur á milli fruma innan hvers vefs. Það skiptir máli, sbr. orð hennar í viðtali við NY Times:

Dr. Greider said that there was great variability in telomere length. “A given telomere length can be from a 20-year-old or a 70-year-old,” she said. “You could send me a DNA sample and I couldn’t tell you how old that person is.” 

Einnig eru tengsl lengdar litningaenda og sjúkdóma eða lífslíka frekar veik. Það er vandamál við flest af þeim lífmerkja (biomarker) prófum sem nú eru í þróun. Þau hafa hvert um sig lítið spágildi...vonandi eitthvað aðeins betra en völvan (sem myndi líklega geta metið heilbrigði bráðarinnar út frá reynslu sinni).

Elizabet mun halda fyrirlestur í Háskóla Íslands laugardaginn 21. maí 2011, kl 14:00 í aðalbyggingu. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvort hún minnist á Life length, og hvaða nálgun hún tekur í þeirri umræðu. Það væri sorglegt að sjá nóbelsverðlaunahafann axla hempu sölumannsins.

Ítarefni:

A blood test that offers clues to longevity

By ANDREW POLLACK Published: May 18, 2011

http://www.nytimes.com/2011/05/19/business/19life.html

Viðtal við Blackburn á Stöð 2 "Hægt að hægja á öldrun með einföldum hætti"

Erindi dr. Blackburn á myndbandi

Leiðréttingar, í fyrstu útgáfu misritaðist að litningaendar okkar (Homo sapiens sapiens) væru CCCCAA. Það er argasta kjaftæði, þeir eru TTAGGG (eða CCCTAA).


Já takk - bönnum plastpoka

Hef enga sérstaka skoðun á ESB, en tel það ljómandi snjallt að banna plastpoka.

Plast er efni sem ekki brotnar niður í náttúrunni. Engar bakteríur borða það, fuglar geta ekki melt það, frumdýr fúlsa við því...þeir einu sem virðast geta nærst á því eru ofurmódel.

Plast í náttúrunni brotnar bara í minni einingar sem síðan safnast upp.

Í Kyrrahafinu er risastór flekkur af plastdrasli, á ströndum Bretlands eru heilmikið magn af plastögnum í sandinum, fuglar drepast því vömbin þeirra er full af plasti. Sjá t.d. fyrri pistil um plastfjallið.

Plast brotnar ekki svo gjörla niður, lang stærsti hluti þess plasts sem framleitt var fyrir 50 árum er ennþá til. Vitanlega brotna plasthlutir, en brotin leysast ekki upp í frumefni sín eins og pappír eða viður.

Richard Thompson við háskólann í Plymouth hefur rannsakað uppsöfnun plasts í fjörum og hafinu. Stórir hlutir eins og þeir sem skipverjarnir eru að tína upp, eru sýnilegir. En smáar plastagnir, brot úr stærri hlutum eru ennþá viðvarandi.

Rétt eins og plasthringir af "six-pack" geta kyrkt otra eða seli, geta smáar agnir fyllt upp í meltingarveg smærri dýra, jafnt fiska sem orma.

Áætlað er að 1000.000.000 tonn af plasti hafi verið framleidd frá lokum síðari heimstyrjaldar, og bróðurparturinn er ennþá til (í landfyllingum, fljótandi í höfunum, á botni þeirra og innan um sandinn á ströndum okkar).

41xg6tsofrl_bo2_204_203_200_pisitb-sticker-arrow-click_topright_35_-76_aa240_sh20_ou01.jpg Þennan vísdóm fékk að mestu leyti úr The World Without Us - Alan Weisman (sjá kápumynd af vef amazon) sem var gefin út hérlendis í þýðingu Ísaks Harðarsonar sem Mannlaus veröld. Ég er ekki búinn með bókina, en eftir að lesa kaflann um plastið leið mér verulega illa.

 


mbl.is ESB íhugar plastpokabann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóbelsverðlaun fyrir að útskýra endurnýjun litningaenda

Hvursdags hafa fæstir áhyggjur af litningaendunum sínum. Watson og Crick sýndu fram á byggingu DNA árið 1953 og þegar ljóst varð hvernig eftirmyndun erfðaefnisins var háttað opinberaðist vandamál. Í hvert skipti sem litningur væri eftirmyndaður, myndi hann styttast um nokkra basa.

Það var ljóst að frumurnar urðu einhvern veginn að vernda litningaendanna, þ.e. þær frumur sem er með línulega litninga (bakteríur eru flestar með hringlaga litninga, sem er áþekkt því að vera með endalaust bókfelli - sem hringast um sjálft sig).

Skemmst er frá að segja að Elizabeth Blackburn  leysti vandamálið, með því að rannsaka kjarnar í frumdýrinu Tetrahymena (Það hófst allt með frumdýri...). Hún mun halda fyrirlestur hér næsta laugardag, og ég get eindregið mælt með henni. Hún er skýr og alúðlegur fyrirlesari, með ákaflega skemmtilegan ástralskann talanda.

Úr tilkynningu frá HÍ (sjá einnig frétt).

Dr. Elizabeth Blackburn hlaut Nóbelsverðlaunin í líf- og læknavísindum árið 2009. Hún er prófessor í líffræði og lífeðlisfræði við Lífefna- og lífeðlisfræðideild Háskólans í Kaliforníu, San Francisco. Dr. Blackburn er annar tveggja öndvegisfyrirlesara Heilbrigðisvísindasviðs.

Dr. Elizabeth Blackburn uppgötvaði telomerasa sem er ensím sem sér um að eftirmynda litningaenda, svokallaða telomera við frumuskiptingar. Til nánari skýringar, þá leysir þetta ensím ákveðið endavandamál, sem tengist því að litningar okkar eru línulegir (línulegt tvíþátta DNA) og venjuleg eftirmyndunarensím geta ekki hafið eftirmyndun á enda. Við frumuskiptingar styttast því litningaendarnir í venjulegum líkamsfrumum við hverja skiptingu. Það má segja að þetta sé eins konar „lífsklukka". Hver fruma getur aðeins skipt sér ákveðinn fjölda skipta og þetta ákvarðar lífslengd hennar. Telomerasi er hins vegar virkur á fósturskeiði og í nokkrum öðrum tilfellum og hann virkjast oftast í krabbameinsfrumum, sem eru þannig á vissan hátt eilífar.

Dr. Blackburn hefur hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. heiðursdoktorsnafnbætur frá helstu háskólum Bandaríkjanna. Árið 2007 taldi Time Magazine hana til 100 áhrifamestu einstaklinga heims.

Dr. Elizabeth Blackburn mun halda fyrirlestur sinn „Telomeres and Telomerase: How do they Affect Human Health and Disease?" (Telomerar og Telomerasar: Hvernig hafa þeir áhrif á heilsu manna og sjúkdóma?) í Hátíðasal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, laugardaginn 21. maí kl. 14.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum meðan húsrúm leyfir.

Eldri pistlar um litningaenda og Elizabeth Blackburn:

CCCCAAGalsi og eilíft líf, Urður, verðandi og skuld


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband