Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Heilastærð, hvel og breiddargráður

Rangtúlkanir koma í mörgum myndum. Sumir gefa sér rangar forsendur, aðrir láta trú sína trompa staðreyndir. Enn aðrir eta upp vitleysur annara, sem er reyndin í þessu tilfelli.

mbl.is byggir greinarstúfinn "Stærri heilar fjær miðbaug (sem áður hét er fólk gáfaðara á norðurhveli?)" á frétt í the Telegraph (Northerners' brains are bigger, scientists find). Sú grein var byggð á rannsókn  Eiluned Pearce og Robin Dunbar (Latitudinal variation in light levels drives human visual system size) í tímaritinu Biology letters.

Rannsókn Pearce og Dunbar snérist reyndar um aðallega um augnbollastærð - sem stækkar (hlutfallslega) þegar norðar dregur frá miðbaug (sjá mynd). Skoðaðar voru hauskúpur úr 13 mismunandi samfélögum, frá Ástralíu til "skandinavíu". Þetta eru niðurstöðurnar, sem þeir síðan leyfa sér að ræða á varkárum nótum.

f1_medium.jpg

Höfundarnir minntust á það augnstærð gæti verið þróunarlegt svar við minni birtu á hærri  breiddargráðum, að þar breytist stofn mannvera þannig að þeir sem eru með stærri augu eignist fleiri eða heilbrigðari afkvæmi. Þeir gera því skóna að þróun augnstærðar sé afleiðing birtustigs, eins og hefur reyndar sést í öðrum dýrahópum (morgunhanar eru augnstórir og næturhrafnar sérstaklega).

We have shown that human orbital volume significantly increases with absolute latitude independently of phylogeny, brain size and body mass, suggesting that there has been selection for larger eyeballs under progressively lower light conditions. 

Þeir leyfa sér að áætla að stærri augu kalli á stærri svæði í heilanum til að vinna úr sjónrænum upplýsingum.

Finally, owing to tight scaling between visual system components, larger eyeballs will necessitate proportionately enlarged visual cortices, and hence, a parallel positive latitudinal trend in these brain regions. 

Hér er rætt um stærð heilastöðva, en ekki um gáfur. Greinarhöfundar ræða reyndar stærð heilans (líklega í fréttatilkynningunni sem greinar the Telegraph og the Guardian byggja á). En þeir leggja áherslu á að stærð heila segir ekki til um gáfur. Þeir leggja áherslu á hversu hratt þessi breyting hefur orðið á íbúum norðlægari svæða:

Humans have only lived at high latitudes in Europe and Asia for a few tens of thousands of years, yet they seem to have adapted their visual systems surprisingly rapidly to the cloudy skies, dull weather and long winters we experience at these latitudes

Einhver gæti sagt að mistök mbl.is séu skiljanleg, á ekki að vera hægt að treysta erlendum fréttamiðlum?  Jú það á að vera hægt að treysta þeim, en fólk verður einnig að sýna lágmarksdómgreind (ekki bara lágmarksþýðingarhæfileika). Grein the Telegraph var með sláandi titil (Northerners' brains are bigger, scientists find) sem átti sannarlega að grípa athygli lesenda, en blaðamaðurinn dró í land strax í fyrstu setningu og kom aðalatriði rannsóknarinnar til skila ("Unfortunately, that doesn’t necessarily mean you are more intelligent than people from the south – just that you have evolved to cope with the longer winters and greyer skies in northern climes" ). Engu slíku var til að dreifa hjá heimavarnarliðinu okkar.

E.s.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar tókst mbl.is meira að segja að rugla saman breiddargráðum og hvelum (norðurhvel og suðurhvel). Pearce og Dunbar sáu breyting á augnstærð með breiddargráðum, en mbl.is segir að það sé munur á fólki á norður og suðurhveli. Síðan koma gullkorn á borð við þetta:

Vísindamennirnir telja að skynfæri þeirra sem lifa við  litla dagsbirtu, þurfi að vinna meira til að skynja hluti. Það er að augun og heilinn þurfi að vinna meira til að mynda þá mynd sem skynfæri eins og augu skynja. Af þeim sökum er heilinn stærri. 

Hér er ekki nóg að vinna meira, það þarf að vinna betur! Það á bæði við um okkar norðlægu heila og skríbertana á mbl.is.

Ítarefni:

Eiluned Pearce og Robin Dunbar Latitudinal variation in light levels drives human visunal system size Biology letters 2011.

The Guardian People at darker, higher latitudes evolved bigger eyes and brains

The Telegraph Northerners' brains are bigger, scientists find

Leiðrétting: "heilans" vantaði i setninguna "Greinarhöfundar ræða reyndar stærð heilans (líklega í fréttatilkynningunni...". Velvirðingar er beðist á mistökunum.


mbl.is Stærri heilar fjær miðbaug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband