Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Erindi: geðlyfjanotkun barna, sundrun DNA, brjóstakrabbamein og framtíð háskóla

Með upphafi kennslu við Háskóla Íslands eykst framboð á fyrirlestrum. Meðal annars eru þrjár doktorsvarnir í þessari viku, og tvö mjög spennandi erindi að auki.

Fyrst ber að nefna doktorsvörn Helgu Zoega, (kl. 13:00 29 ágúst 2011) sem fjallar um Geðlyfjanotkun meðal barna: Samanburður á notkun ADHD lyfja á Norðurlöndunum og áhrif lyfjameðferðar við ADHD á námsárangur. 

Niðurstöður rannsókna hennar hafa fengið nokkra umfjöllun, sérstaklega sú staðreynd að geðlyfjanotkun er mun algengari hér en erlendis. Megin niðurstöður rannsóknar hennar eru eftirfarandi:

Niðurstöður verkefnisins, sem byggja á lýðgrunduðum upplýsingum úr miðlægum gagnagrunnum á Íslandi og Norðurlöndunum, benda til þess  (I) að notkun geðlyfja, einkum örvandi- og þunglyndislyfja, sé hlutfallslega algeng meðal íslenskra barna og (II) að töluverður munur sé á algengi örvandi lyfjanotkunar við ADHD milli Norðurlandanna. Íslensk börn (7-15 ára) voru árið 2007 nærri fimm sinnum líklegri en önnur norræn börn til að fá útleyst ADHD lyf (örvandi lyf eða atomoxetín). Ennfremur benda niðurstöður til þess  (III) að börnum með ADHD sem hefja lyfjameðferð seint sé hættara við að hraka í námi en þeim sem hefja meðferð fyrr, sér í lagi í stærðfræði.

Síðasta niðurstaðan kemur mér reyndar á óvart. Orðalagið   "benda niðurstöður til þess" er reyndar harla varfærið.  Það væri forvitnilegt að sjá hvernig þessi greining var framkvæmd og gögnin sem liggja henni til grundvallar. 

Í annan stað mun Helga Dögg Flosadóttir verja doktorsritgerð sína (29. ágúst 2011, kl. 17:00) Metastable fragmentation mechanisms of deprotonated nucleic acids in the gas phase – A combined experimental and theoretical study (á íslensku: hægir sundrunarferlar afprótóneraðra kjarnsýra í gasfasa – tilraunir og hermanir). Rannsóknin fjallar um áhrif orkuríkra geisla á DNA og aðrar stórsameindir.

Þriðja doktorsvörn vikunar á sviði líffræði fer fram 2. september 2011 (kl 9:00). Þá ver Ólafur Andri Stefánsson doktorsritgerð sína „BRCA – lík svipgerð í stökum brjóstakrabbameinum“ (BRCA – like Phenotype in Sporadic Breast Cancers).

Ólafur hefur aðallega skoðað breytingar sem verða á frumum í vefjum, sem gætu tengst upphafi og alvarleika krabbameina. Krabbamein geta orðið til bæði vegna erfða, því einstaklingur fékk gallað gen frá foreldri, eða vegna stökkbreytinga sem verða á líkamsfrumunum sjálfum. Ólafur sýnir með rannsóknum sínum að ekki þarf alltaf beinar stökkbreytingar til, stundum breytist ástand í kjörnum fruma þannig að það slökknar á genum sem eru virk í eðlilegum frurum. Það getur verið jafn alvarlegt og galli í geninu sjálfu og leitt frumuna og afkomendur hennar á braut glötunar (krabbmeins).

Andmælandi Ólafs, Michael Stratton, mun halda fyrirlestur seinna (kl 13:15) sama dag um þróun erfðamengi krabbameina. Michael er mjög ötull í rannsóknum á erfðafræði krabbameina og þeim breytingum sem verða á frumum þegar þær umbreytast og hneygjast til ofvaxtar og íferðar.

Því miður hefst fyrirlestur hins stórmerka Jonathan R. Cole rétt 45 mín á eftir erindi Michaels. Dr. Cole fjallar um Stöðu og framtíð rannsóknarháskóla  (The Research University in the 21. Century). Hann skrifaði stórmerka bók um sögu rannsóknarháskóla sem út kom árið 2009, og hefur margt fram að færa í umræðuna um betrumbætur á íslensku skólakerfi. Það er bráðnauðsynlegt að íslenskir stjórnmálamenn og háskólafrömuðir skilji hvað rannsóknarháskólar ganga út á. Úr tilkynningu:

Meðal þeirra viðfangsefna hans sem vakið hafa hvað mesta athygli má nefna rannsóknir á jafningjamati, stöðu kvenna í vísindum, stéttaskiptingu vísindasamfélagsins og akademískt frelsi. Bók hans “The Great American Research University”, sem kom út 2009 hefur fengið frábæra dóma. Þar fjallar hann um sögu og skipulag rannsóknarháskóla samtímans og mikilvægi þeirra í nútímasamfélagi. Cole hefur látið mjög til sín taka í umræðum um vísindi og háskólamál í Bandaríkj


Er sjálfsofnæmi arfleifð frá Neanderdalsmönnum?

Neanderdalsmenn dóu út fyrir u.þ.b. 30000 árum, en nýlegar erfðafræðirannsóknir sýna að þeir hafa að öllum líkindum blandast við nútímamenn utan Afríku. Þegar litningabútar úr leifum útdauðra Neanderdalsmanna, og frænda þeirra Denisovamanna, eru bornir við erfðamengi núlifandi fólks sést mjög skýrt mynstur. Í Evrópu, mið-Asíu og austur-Asíu, finnast margir litningabútar sem eru eins eða næstum því eins og erfðaefni þessara útdauðu frænda okkar. Innan Afríku finnast engir slíkir litningabútar (sjá t.d. ítarlegri umfjöllun í Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?).

Næsta skref var að kanna hvaða áhrif ef einhver hafa þessi fornu gen á eiginleika nútímamannsins? Stofnerfðafræðin segir okkur að líklegast er að þessar útgáfur af genunum sem sum okkar erfðju hafi engin eða mjög lítil áhrif. Hins vegar er alltaf möguleiki að tilbrigði einhverra gena hafi áhrif, jafnvel til góðs.

Grein sem birtist á vef vísindatímaritsins Science í þessari viku, spyr einmitt þessarar spurningar Laurent Abi-Rached og samstarfsmenn einbeittu sér að genum ónæmiskerfisins, og sýna fram á að margar samsætur* gena ónæmiskerfisins eru ættaðar frá Neanderdals og/eða Denisovamönnum.

Þeir leiða einnig líkur að því að sumar samsæturnar hafi orðið algengar meðal forfeðra okkar, vegna þess að þær vörðu þá gegn sýklum. Sumar samsæturnar eins og t.d. HLA-B*73 urðu mjög algengar á ákveðnum svæðum, líklega vegna þess að þær vörðu fólk sem bjó þar gegn staðbundinni pest. Sjá mynd af vef Science.HLAB-73-sciencemag

Höfundarnir velta einnig upp forvitnilegum möguleika, sem ýjað er að í titli þessa pistils. Getur verið að gen frá Neanderdal hafi reynst vel fyrir 10000 árum, en illa nú? Hafa þessar samsætur, t.d. HLA-B*73 einhver neikvæð áhrif á arfbera? Slíkar erfðafræðilegar aukaverkanir eru alþekktar, og reyndar má sérstaklega búast við þeim þegar gen flakka á milli fjarskyldari hópa...eins og t.d. Homo sapiens og Homo neanderdals.

Því miður er ekki hægt að svara spurningunni til fullnustu, en það er sannarlega möguleiki á því að sjálfsofnæmi og aðrir sjúkdómar tengdir ónæmiskerfinu eigi rót í fornri kynblöndun forfeðra okkar og frænda frá Neanderdal. Af tæknilegum ástæðum læt ég staðar numið hér, en bendi þó á að tengsl sögu, þróunar og sjúkdóma geta verið all flókin (sjá t.d Það þarf erfðamengi til).

*samsætur eru mismunandi útgáfur af genum, svona eins og Saab og Volvo eru mismunandi útgáfur af bílum

Heimildir og ítarefni:

The Guardian Ian Sample Thursday 25 August 2011 19.01 BST The downside of sex with Neanderthals

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Það þarf erfðamengi til


Þróunarkenningin er staðreynd

Fylkisstjórinn í Texas Rick Perry staðhæfir að það séu göt í þróunarkenninunni. Hann fer með rangt mál, því þróunarkenningin er safn vísindalegra tilgáta sem hafa staðist ítrekaðar prófanir.

Þróunarkenningin er ekki kenning í daglegri merkingu orðsins, hún er staðreynd. Í vísindum eru tilgátur prófaðar og reyndar, þær sem ekki tekst að afsanna eru álitnar lögmál. Í sumum tilfellum hafa lögmál mjög víðtækt notagildi og útskýra svo mörg atriði í veröldinni, að þau fá stöðu kenningar (t.d. Þróunarkenningin og Afstæðiskenningin).(Þróun og aðferð vísinda)

Rick Perry hefur skipað þrjá síðustu yfirmenn menntasviðs fylkisins, allt yfirlýsta sköpunarsinna. Þetta er áþekkt því að velja í embætti fjármálaráðherra mann sem tryði ekki á reikning. Sköpunarsinnar koma í nokkrum blæbrigðum, en sammerkt er að þeir afneita hinni vísindalegu aðferð, og sérstaklega útskýringum þróunarfræðinga á tilurð og eiginleikum mannsins.

Texas hefur verið vígöllur baráttu á milli hægrisinnaðara sköpunarsinna annarsvegar og fræðimanna og sekularista (afsakið mig vantar þýðingu eða samheiti fyrir "secularists") hins vegar. Menntasvið Texas gerði að undirlagi sköpunarsinna kröfur um efnistök í kennslubókum í líffræði, um útvötnun á útskýringum á þróun og tilvísanir til guðlegrar sköpunar eða vithönnunar "til mótvægis". (sjá einnig: Bilið milli T-rex og Texas).

Rick Perry (úr frétt mbl.is):

... bætti við að almenningsskólar í Texas kenndu bæði um sköpunarkenninguna og þróunarkenninguna. „Ég býst við að þú sért nógu klár til þess að átta þig á því hvor sé sú rétta.“

Það er semsagt allt í lagi að kenna börnunum 

að jörðin sé kúla og pönnukaka,

að svínaflensa sé vegna veiru og afstöðu himintunglanna,

að bólusetningar veiti vernd og valdi einhverfu,

að 2 + 2 = 4 og 5

-  þau muni átta sig á hinu rétta. 

Markmið skóla er að kenna staðreyndir ekki sköpunarsögur eða tröllasögur sem ákveðnir þrýstihópar grundvalla sína heimsmynd á.

Hið sorglega er að hið múlbundna tveggja flokka kerfi Bandaríkjanna tryggir að Rick Perry mun eiga ágætan möguleika á að vera forseti, ef hann hlýtur náð fyrir augum Repúblikana í forvalinu. Perry hefur alla burði til að vera verri forseti en tvöfaldavaffið, hann var allavega á líka mikill skussi í skóla (Do we need another dumb Texan for president?).

Ítarefni:

Pharyngula:

Science Education Is Under Attack in the State of Texas (Again)

ICR Drops Texas Education Suit

Rick Perry the Creationist

Do we need another dumb Texan for president?

Pistlar:

Bilið milli T-rex og Texas


mbl.is Sagði þróunarkenninguna vera kenningu með götum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless bananar

Bananarækt byggir á einræktuðum (klónuðum) afbrigðum af ættinni Musa. Mörg afbrigði eru þekkt en Cavendish er leiðandi afbrigði (45% ræktaðra banana) og er ræktuð á stórum svæðum (monoculture).

Cavendish náði útbreiðslu þegar sveppasýking gerði útaf við Gros Michels afbrigðið fyrir nokkrum áratugum. Nú kemur í ljós að sveppirnir sem afgreiddu Gros Michels hafa þróast, og nú hefur fundist afbrigði sem Cavendish getur ekki varist.

Mögulegt er að þetta sýkjandi afbrigði sveppsins muni útrýma Cavendish, með tilheyrandi bananaskorti og verðhækkun. Þetta er samt ekki víst, klassískar sóttvarnir og einangrun sýktra svæða geta haldið aftur að sveppasýkingunni.

Þetta undirstrikar mikilvægi fjölbreytni í ræktun, þess að leggja ekki of mikla áherslu á fá afbrigði og að þróa stöðugt nýja stofna með markvissri ræktun (með öllum tæknilegum ráðum).

Ítarefni:

Fruits of Warm Climates Julia F. Morton

The Beginning of the End for Bananas? The scientist By Dan Koeppel | July 22, 2011 (gæti þarfnast skráningar)

 


mbl.is Bananar hafa hækkað um 162%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tinnabrenna og umfjöllun fjölmiðla

Þegar Tinni var brenndur á báli ...  Sævar Helgi Bragason, einn umsjónamanna Stjörnufræðivefsins og vísindaþáttarins á Útvarpi sögu, birti grein í Fréttablaði fimmtudagsins 11. ágúst 2011, undir þessum titli. Hann ræðir frekar dapurlega umfjöllun íslenskra fjölmiðla um vísindi, sem er alvarlega ábótavant. Vísinda og tæknimenntað fólk er nauðsynlegt fyrir nútíma þjóðfélag, til að stuðla að hagvexti og sjálfbærni, með því t.d. að leysa vandamál umhverfis og orku. Sævar segir meðal annars:

Fyrir skömmu skrifaði Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, leiðara undir fyrirsögninni „Nördarnir eru framtíðin“. Það er sannarlega hárrétt hjá ritstjóranum enda leiða vísindi og tækni hagvöxt og framfarir. Í leiðaranum segir Ólafur: „Úr þessu verður ekki bætt nema gera átak í vísinda- og tæknimenntun og vekja áhuga ungs fólks á henni.“

Að vekja áhuga er einmitt lykilatriði. Ein af ástæðum þess að ungt fólk fær ekki áhuga á vísindum er svo til algjör skortur á góðri umfjöllun um vísindi í fjölmiðlum almennt.
Til þess að efla vísindi og tækni á Íslandi þurfa margir að taka höndum saman: Vísindasamfélagið, skólayfirvöld og ekki síst fjölmiðlar. Sennilega er fyrirhöfnin minnst hjá þeim síðastnefndu. Því skora ég á ritstjóra Fréttablaðsins og ritstjóra annarra fjölmiðla að efla umfjöllun sína um vísindi. Ein frétt í viku væri skref í rétta átt. Ekki skortir plássið. Það mun skila okkur ómældum ávinningi til lengri tíma litið.

Ég tek heils hugar undir með Sævari, það væri frábært að fá ítarlegri og betri umfjöllun um vísindi í íslenskum fréttamiðlum. Nóg setur ritstjórnin af dálkametrum í íþróttir, lífstílsfréttir ("dulbúnar" auglýsingar) og froðufréttir af "fræga" fólkinu. Mig grunar svo sem að listamenn fái sömu velgju þegar fjallað er um listir í Fréttablaðinu t.d., þar sem allur seinasti hluti blaðsins er matreiddur á sama Bieber-Lohan grillinu.

Annars fannst mér orðalag pistils ritstjórans Nördarnir eru framtíðin, ansi furðulegt. Af orðlaginu mátti leggja að þjóðin þyrfti að sinna nördunum sínum vel til að búa til peninga fyrir fólkið. Svona rétt eins og sniðugt er leggja áherslu á að ala grísinn vel til slátrunar, en það er allt í lagi að kalla hann svín í leiðara. Hluti af vandamálinu er viðhorf fólks gagnvart þekkingu og fræðum. Fræðimenn og forritarar eru stimplaðir nördar, góðir til síns brúks en er ekki boðið í betri stofuna.

Sævar bendir sérstaklega á að ítarlegar umfjallanir um framfarir í vísinum séu af skornum skammti og að þær vísindafréttir sem birtist séu flestar hraðsoðnar þýðingar á erlendum fréttaskeytum. Eins og til að undirstrika málflutning Sævars prentaði Fréttablaði vísindafrétt um o ofurmýs (Ofurmýs ónæmar fyrir eitri)

Nokkrar evrópskar mýs hafa þróað með sér ónæmi fyrir sterkustu eiturtegundum. Þetta segja vísindamenn.

Mýs í Þýskalandi og á Spáni hafa eignast afkvæmi með alsírskum músum, segir Michael Kohn prófessor, sem stýrði rannsókninni. Flest afkvæmi músanna geta ekki fjölgað sér vegna þess hversu ólíkar tegundirnar eru, en þó virðist sem sum afkvæmin séu fær um það.

Rannsakendur segja fjölgun mannkyns og aukin ferðalög hafa valdið samdrætti þessara músategunda. Óttast er að það sama gæti gerst hjá rottum.

- þeb

Á þessari frétt er frekar lítið að græða. Um er að ræða erfðafræðilega rannsókn sem sýndi að gen sem miðlar þoli fyrir nagdýraeitri hefur flust inn í evrópska húsamýsa stofna. Það gerir þeim kleift að þola eitur sem meindýraeyðar leggja fyrir þær. Um er að ræða flutning gena á milli skyldra tegunda, svona rétt eins og notað er í ræktun og gerist iðullega í náttúrunni.

Nánari upplýsingar um rannsókn Kohn og félaga má nálgast á vefsíðu þeirra við Rice háskóla.

 


Lykillinn að leyndarmálum lífsins

er í tölum og stærðfræði.

Einungis í ævintýrunum þarf hetjan að slá inn réttar tölur eða tákn á dularfult lyklaborð, kannski hoppa eins og fáviti (Indiana Jones) á steinhellur ígreyptar bókstöfum, til þess að afhjúpa leyndarmálin. Í raunveruleikanum þurfa vísindamenn að safna gögnum, um breytileika í erfðaefni og ástand einstaklinga eða fjölda fiska í sjónum, og greina þau gögn með tilheyrandi aðferðum.

Mörgum nemendum okkar í líffræði leiðist afskaplega að þurfa að læra lífmælingar, tölfræði fyrir líffræðinga. Þeir eru komnir í háskóla til að læra um fuglana og fiskana, frumurnar og sjúkdómanna, ekki marktækni, sýnatöku og p-gildi. En án þessara verkfæra (tölfræði er bara verkfæri, svona rétt eins og smásjáin og botnvarpan) og aðferðafræði vísindanna er lærdómurinn einskis nýtur. Sá sem kann nöfnin á öllum beinum mannslíkamans, en ekki aðferð vísinda er jafn klár og sá sem þekkir allar hljóðritanir Steve Malkmus, með og án Pavement.

Töluleg líffræði hefur líka tekið stórstígum framförum á undanförnum árum. Við líffræðingar, læknar og annað tölulega sinnað fólk getum glaðst yfir því að á morgun (12. ágúst 2011 - kl 8:30 til 17:00) verður opin ráðstefna í samstarfi Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóla íslands (Computational Analysis of Complex Biological Systems). Ég hvet áhugasama, og sérstaklega nemendur í líffræði og tölvunarfræði til að mæta.

Ítarlegur pistill um tölulega líffræði -Tölur, líffræði og flokkun fólks eftir iðrabakteríum.


Svalur á milli góðra bóka

Í sumarleyfinu datt ég niður á Sval og Val á dönsku. Ég hafði svo gott sem lokið við Musicophiliu Olivers Sacks, snilldarlega framreiddar frásagnir af undarlegustu tónlistar-sjúkdómsfellum sögunar, og var að byrja á Zen og listin að gera við mótorhjól eftir Robert M. Pirsig, eina mest tilvitnuðu bók seinni ára. Fyrstu síðurnar benda til að mótorhjólazenið muni taka á mínar taugar og lesþol, en meira um það síðar og vonandi Musciophiliuna sem fær mín bestu meðmæli.

Langhundsviðvörun. Pistillinn var nokkra stund í fæðingu og varð fyrir vikið lengri en efni stóðu til. Lesendur eru beðnir velvirðingar, þeir sem ekki geta lengur lesið nema 4-6 setningar á hverri vefsíðu er bent á að slökkva á netinu og spreyta sig á bók, jafnvel einhverju jafn einföldu og teiknimyndasögu (til að þjálfa einbeitinguna).

Frá því að bókaforlagið Iðunn hætti að gefa út Sval og Val, einhverntímann á síðustu öld, hafa komið út þó nokkrar sögur um þá félaga erlendis. Skemmst er frá að segja að eftir að hafa vafrað inn í Vindla Faraós (á Skindegade í miðborg Kaupmannahafnar) og út aftur með búnka af ferskum Sval og Val teiknimyndasögum kvaddi ég bæði tíma og rúm. Þær sögur sem danskar krónur barna minna lentu í voru Kuldakastið, París sekkur, maðurinn sem vildi ekki deyja, Svalur og Valur í Tókýó, Uppruni Z, Árás Zorkónanna, Örvænting á Atlantshafi og safnhefti með þremur bókum eftir Franquin (3-4 Sval og Val bækur eru nú endurútgefnar saman í nokkrum heftum í danmörku, hvert verðlagt á 129 danskar í Vindlum Faraós - skora á alla að nýta sér tilboðið).

splint_panikpaaatlanterhavet.jpgNú verður að viðurkennast að yðar auðmjúkur hefur alltaf haft, allt að því sjúklega fíkn í. teiknimyndasögur, sérstaklega Ástrík fyrir dauða Goscinny og Sval og Val. Þegar Andre Franquin hafði fullskapað Sval og félagar (gorminn þarmeð talinn) var loksins hægt að skilgreina snilld. Sköpunin tók sinn tíma þó, og heilmikill byrjendabragur er á eldri bókum Franquins. Sval og Val fanatíkerar voru fæstir ánægðir með Fournier, vegna yfirnáttúrunnar og geimveranna kannski, en tóku gleði sína á ný þegar Tome og Janry tóku við pennum og söguþráðum (Aðrir hafa gert sögu Svals og Vals betri skil, sbr. pistil eftir Stefán Einarsson, vandaða wikipedia síðu) og blogfærslu um Sval bækur.

Kveikjan að enduruppgötvuðum áhuga mínum á Sval og Val er að íslenska teiknimyndablaðið Neoblek prentar nú hluta af nýrri Sval og Val sögu, "leðurblökuaðgerðin" í þýðingu Stefáns Einarssonar. Hann segir:

Þessi sérútgáfuflokkur bar nafnið "Une aventure de Spirou et Fantasio par..." (ísl. Ævintýri Svals og Vals eftir...) en hefur verið breytt í "Le Spirou de..." (ísl. Saga Svals eftir...). Í þessum flokki hafa mismunandi höfundar fengið að spreyta sig. Auk sögu þeirra Vehlmann og Yoann hafa komið sögurnar Les marais du temps (ísl. ) eftir Frank LeGall, Le tombeau des Champignac(ísl. Grafir Sveppaborgar) eftir Yann og Fabrice Tarrin, Journal d'un ingénu(ísl. Dagbók ungstyrnis) eftir Emily Bravo og hlaut sú saga verðlaun á Angoulême myndasögu hátíðinni og fær einnig mín bestu meðmæli. Le groom vert-de-gris(ísl. Leðurblökuaðgerðin) eftir Yann og Schwartz en myndasagan er byggð á handriti eftir Yann sem hann skrifaði fyrir Chaland en ritstjórnin hafnaði því. Yann valdi Schwartz til að teikna þar sem að stíll hans er líkur stíl Chalands. En þessi myndasaga er birt í íslenskri þýðingu í blaðinu NeoBlek

Sumarleyfissyndin mín voru semsagt Sval og Val bækur eftir nokkra höfunda, flestar eftir Moravan og Munero, sem voru bæði hressandi og hryllilegar í senn. Kannski er þetta áþekkt því að hlusta á nýjustu plötu Bob Dylan eða endurflutning einhverra glanseygðra ungliða á gullaldargersemum the Waterboys? Það örlar á kunnuglegum stefum, mörg hver skemmtileg eða spennandi, en síðan fer allt í allsherjarrugl.

Veröld Svals og Vals er náttúrulega fáranlegur karlaheimur, örfáar kvenpersónur finnast í bókunum. Tome and Janry léku sér með kvenleg element, gerðu Val þunglyndan af ást, sendu Sval og Val á diskótek með glanspíum, en sögurnar fullornuðust samt ekki. Það er sanngjörn spurning hvort maður vilji að Svalur giftist, eignist börn og eldist? Fyrir einhverjum árum las ég bókina Tintin in the New World: A Romance eftir Frederic Tuten. Þar segir frá því þegar hinn eitilharði fulltrúi réttvísinnar, fer að þreytast á flandrinu, tekur upp drykkjusiði Kolbeins og leggur lag sitt við hitt kynið (sem sjaldnast deildi ramma með hinum toppótta í bókum Herges). Það er í sjálfu sér forvitnileg upplifun að fara í ferðalag með persónu úr svona velskildreindri veröld, eins og Tinnabókunum, inn í heim hinna fullorðnu.

Í nýju Sval og Val bókum er engin Gormur, sbr. sérstakt klúður í "teiknimyndasögunni". Með orðum Eyrúnar Hjörleifsdóttur úr ágætum ritdómi um Sval og Val í Tókíó.

Franquin og Dupuis skildu að skiptum og upp frá því var forlaginu bannað með lögum að nota gorminn í Svals og Vals sögunum. Þess í stað var hleypt af stokkunum gúrkulega leiðinlegri seríu um líf Gorms í frumskóginum. Þær bækur eru skelfileg og samhengislaus leiðindi – Gormur veiðir fisk, Gormur passar börnin sín, Gormur lemur erkióvin sinn blettatígurinn svo hann fær stóra kúlu á hausinn. Ég hugsa til þess með djúpri sorg og reiði að Svalur og Valur hafi verið rændir gorminum og nafn hans svívirt á þennan hátt. 

Ég held að allir lesendur Sval og Val bókanna hafi heillast af gorminum, fjaðurmagnaðri og uppátækjasamri skepnu, sem lumbraði á óþokkum og gleypti allt (ætt sem óætt). Sem praktíserandi líffræðingi er manni skylt að ofbjóða, það er ekki möguleiki að venjuleg hryggdýra bein eða vöðvar gætu afrekað þessi ósköp, né að mallakútur gormsins gæti rúmað 100 piranafiska eða tonn af iðandi rauðum maurum. En gormurinn er eins og DNA, ófullkominn en samt stórkostlegur.

E.s. Mig langaði afskaplega mikið til að flétta goðið og dvergasmíðina Viggó Viðutan inn í pistillinn en gat það ekki með góðu móti. Kannski er það viðeigandi að Viðutaninn sé utan við.

Beðist er velvirðingar á mistökum, fyrst lenti færslan í Vísindi og tækni en á sannarlega ekki heima þar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband