Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Vísindavaka – stefnumót við vísindamenn 23. september 2011

Úr tilkynningu:

Vísindavaka 2011 verður haldin föstudaginn 23. september 2011 í Háskólabíói. Rannsóknamiðstöð Íslands, RANNÍS, stendur fyrir Vísindavöku en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu í tengslum við Dag vísindamannsins. Evrópusambandið styrkir verkefnið, en Vísindavaka verður haldin samtímis í fjölmörgum borgum Evrópu. Sjá evrópska heimasíðu verkefnisins. 

Markmiðið með Vísindavökunni er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Verður það gert með lifandi kynningum og boðið upp á skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi.

Föstudaginn 23. september kl. 17:00-22:00 í Háskólabíói

http://www.rannis.is/visindavaka/visindavaka/


Heyr heyr, lokum bakdyrunum

Það er ákaflega mikilvægt að fólk og þá sérstaklega nemendur átti sig á því hvernig mannkynið hefur öðlast skilning á veröldinni og efnisheiminum. Besta aðferðin til þess atarna er hin vísindalega aðferð, og hún hefur meðal annars sýnt okkur að besta skýringin á tilurð mannsins sé þróun vegna náttúrulegs vals.

Því miður er stór hópur kristinna og múslimskra öfgamanna sem telja sér skylt að boða sköpunarkenningu biblíunar meira eða minna útvatnaða.

Áróður og atgangur þessa hóps er kveikjan að ákalli 30 breskra vísindamanna, þar á meðal þriggja nóbelsverðlaunahafa, sem vilja láta banna kennslu sköpunarhugmynda í breskum skólum. Sköpunarsinnarnir senda helling af vísindalega útlítandi kennsluefni á skóla, heimsækja skóla og leitast eftir því að fá að ræða við nemendur (t.d. í trúarbragðatímum), og dæla út netgreinum og bloggfærslum með vísindalegu orðfæri ef ekki innihaldi.

Ég er fyllilega fylgjandi því að settur verði slagbrandur fyrir bakdyrnar, og lokað á sköpunarsinnana sama hvaða hempu þeir klæðast (þ.a.m. sjali vithönnunar).

Hef þetta ekki lengra núna, visa í umfjöllun Riazat Butt, hjá the Guardian um málið (sjá úrklippur hér að neðan). Afsakið að þetta fylgi hér óþýtt.

A group of 30 scientists have signed a statement saying it is "unacceptable" to teach creationism and intelligent design, whether it happens in science lessons or not. The statement claims two organisations, Truth in Science and Creation Ministries International are "touring the UK and presenting themselves as scientists and their creationist views as science".

"Creationism and intelligent design are not scientific theories, but they are portrayed as scientific theories by some religious fundamentalists who attempt to have their views promoted in publicly funded schools," the scientists say.

"There should be enforceable statutory guidance that they may not be presented as scientific theories in any publicly funded school of whatever type."

The scientists claim organisations such as Truth in Science are encouraging teachers to incorporate intelligent design into their science teaching.

"Truth in Science has sent free resources to all secondary heads of science and to school librarians around the country that seek to undermine the theory of evolution and have intelligent design ideas portrayed as credible scientific viewpoints. Speakers from Creation Ministries International are touring the UK, presenting themselves as scientists and their creationist views as science at a number of schools."

Free schools and academies were not obliged to teach the national curriculum and so were "under no obligation to teach evolution at all," it added.

Scientists demand tougher guidelines on teaching of creationism in schools

Leiðrétting:

Í fyrstu útgáfu pistils voru nokkrar skyssur í einni setningunni. Upphaflega stóð "Áróður og atgangur þessa hóps er kveikjan að ákalli 30 (ekki þriggja) breskra vísindamanna sem vilja láta banna sköpunarkenninguna í breskum skólum." 

Bestu þakkir til Vals Hafsteinssonar fyrir ábendinguna.


mbl.is Vilja banna sköpunarkenninguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Saga rauðgrenis og Charcot fyrirlestur

Í hádeginu í dag (19 september 2011) verður fluttur fyrirlestur um rauðgreni.

Thomas Källman, við Vist- og erfðafræðideild Uppsalaháskóla, heldur fyrirlestur mánudaginn 19. sept kl 12.30 í stofu 131 í Öskju.  

Disentangling the roles of history and local selection in shaping clinal variation in allele frequency and gene expression in hotoperiodic genes in Norway spruce (Picea abies)

Síðdegis verður Charcot-fyrirlestur á sama stað. Hann er haldinn til að minnast þess þegar "Jean-Paptiste Charcot fórst með allri áhöfn sinni utan einum manni, alls fjörutíu mönnum, þann 16. september 1936 um borð í rannsóknaskipinu Pourquoi Pas?" Fyrirlesturinn er í samstarfi, Alliance Française í Reykjavík og Háskóla Íslands ("Í samvinnu við  Jörund Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands og stjórnarforma[nn] rannsóknaseturs Suðurnesja í Sandgerði.") úr tilkynningu: 

Fyrirlesarinn í ár er Jean-Christophe Victor, sem flytur erindi sem nefnist "Jean-Baptiste Charcot, Paul-Emile Victor og staða heimskautarannsókna nú á tímum".

Jean-Christophe Victor er sonur hins heimsþekkta mannfræðings og leiðangursstjóra Paul-Emile Victor, en Charcot var nokkurs konar lærifaðir hans á sínum tíma. Jean-Christophe Victor er með háskólapróf í mannfræði, hernaðartækni og kínversku. Hann var um skeið menningarfulltrúi Frakklands í Afghanistan og vann með Greiningar og spádeild franska utanríkisráðuneytisins (CAP). Hann er líka hugmyndasmiður og umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins „Hin hliðin á kortunum“, en það er þáttur um þróun heimsmála sem sýndur er á fransk-þýsku sjónvarpsstöðinni ARTE. Hann hefur talsvert fengist við kennslu og fyrirlestrahald í Frakklandi og víða um heim. Auk þess hefur hann skrifað allmargar bækur um alþjóðasamskipti og er annar stjórnenda LEPAC, Miðstöð stjórnmálafræða og kortagreininga.

Undanfarin sautján ár hefur Jean-Christophe Victor fjallað um alþjóðastjórnmál í sjónvarpinu og gert almenningi kleift að átta sig á gangi mála, hvort sem það er á sviði stjórnmála eða efnahagsmála. Hér er slóð inn á vef þáttarins: http://www.arte.tv/fr/Comprendre-le-monde/le-dessous-des-cartes/392,CmC=396,view=maps.html

Þeir sem vilja fræðast frekar um Jean-Christophe Victor er hér slóð þar sem hann útskýrir hvernig hann fer að: http://dai.ly/biXprn

Fyrirlesturinn verður sem fyrr segir haldinn mánudaginn 19. september kl 17:00. Hann verður haldinn á frönsku og túlkaður á íslensku. Aðgangur er ókeypis.


Dagur íslenskrar náttúru

Er frábær hugmynd sem varð að veruleika. Það er ákaflega viðeigandi að ljósmyndarinn Ragnar Axelsson hljóti ein umhverfisverðlaun fyrir starf sitt. Hann hefur sýnt borgarbúum og landsmönnum öllum fegurð öræfa og skóga, baráttu dýra og mann við náttúruöflin. Ég skora á alla að kíkja á vefsíðu Ragnars (www.rax.is).

a_160.jpgÉg þorði ekki að kippa mynd af vef Ragnars, og set í staðinn mynd af mosa ofan af Esjunni eptir sjálfan mig.

Margt skemmtilegt stendur til í tilefni dagsins, meðal annars gönguferð á Þingvöllum og skoðunarferð um Esjuna. Hér í Háskóla Íslands verður haldið upp á daginn með þvi að vígja nýja stofnun, líf og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands.

Haldin verða 3 erindi um náttúru Íslands, og hefjast þau kl. 14.30 í stofu 132 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (eftir að fyrirmenninn hafa lokið máli sínu).

Málþing.  Íslensk náttúra og gildi hennar.

  1. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor: Um verðmæti íslenskrar náttúru.
  2. Anna Dóra Sæþórsdóttir dósent:  Gildi náttúrunnar fyrir ferðamennsku og útivist.
  3. Brynhildur Davíðsdóttir dósent:  Náttúra Íslands, hagsæld og lífsgæði.


mbl.is Ragnar Axelsson hlýtur umhverfisverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, stofnun og málþing

Næstkomandi föstudag 16. september 2011 verður haldið upp á dag íslenskrar náttúru í fyrsta skipti. Af því tilefni tekur ný stofnun til starfa, líf og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, og haldið verður málþing um stöðu og mikilvægi íslenskrar náttúru.

Stofnunin og málþingið fara fram í stofu 132, í Öskju náttúrufræðihúsi HÍ, og eru allir velkomnir.

14:00-14:30

Formleg stofnun Líf- og umhverfisvísindastofnunar

Fundarstjóri prófessor Gísli Már Gíslason prófessor.

Ávörp:

  • Ráðherra umhverfis- og menntamála.
  • Rektor mun segja stofnunina formlega tekna til starfa.
  • Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
  • Forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar.

14:30 – 16:30

Málþing.  Íslensk náttúra og gildi hennar.

Erindi:

  1. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor: Um verðmæti íslenskrar náttúru.
  2. Anna Dóra Sæþórsdóttir dósent:  Gildi náttúrunnar fyrir ferðamennsku og útivist.
  3. Brynhildur Davíðsdóttir dósent:  Náttúra Íslands, hagsæld og lífsgæði.
  4. Formaður stjórnar segir frá hinni nýju stofnun og hlutverki hennar.
  5. Umræður.
Í kjölfarið verður veggspjaldasýning og tækifæri til að rabba.

Hin nýja stofnun verður vettvangur rannsókna starfsfólks við líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, sem inniheldur m.a. kennara í líffræði, ferðamálafræði og landfræði. Líffræðingarnir störfuðu undir merkjum líffræðistofnunar, einni af þessum litlu fjársveltu stofnunum sem virka aðallega sem regnhlífar utan um ákveðið starf en eiginleg umgjörð. Starfsfólk líffræðistofnunar gerði ágæta hluti, m.a. voru birt 75 rit í röðinni rit líffræðistofnunar (skýrslur og stakar rannsóknir), og einnig vann það að þjónusturannsóknum á lífríki landsins. Gamla vefsíða Líffræðistofnunar er enn aðgengileg - en er sannarlega komin til ára sinna. Viðbúið er að nú þurfi einhverjir sleðar að spinna vef fyrir Líf og umhverfisvísindadeild.

Fuglablik

Mér var bent á að Fuglavernd stendur fyrir ljósmyndasýningu í ráðhúsi Reykjavíkur (frá 9. til 29. september 2011). Tilkynning af vef Fuglaverndar:

Fuglablik - Ljósmyndasýning Fuglaverndar tileinkuð Hjálmari R. Bárðarsyni

Fuglavernd stendur nú fyrir annarri ljósmyndasýningu sinni.  Að þessu sinni er sýningin tileinkuð velunnara félagsins, Hjálmari R. Bárðarsyni, sem lést í mars 2009.  Hjálmar var brautryðjandi í fuglaljósmyndun og gaf út fyrstu stóru ljósmyndabókina um íslenska fugla árið 1986.  Hjálmar, ásamt Grétari Eiríkssyni, var af annarri kynslóð íslenskra fuglaljósmyndara en það var Björn Björnsson frá Norðfirði sem ruddi brautina.  Hjálmar var gríðarlega áhugasamur, iðinn, nákvæmur og listrænn í ljósmyndun sinni.  Myndir hans á sýningunni eru allar teknar á 6x6 cm filmu.

image002

Þegar stafræna byltingin varð á fyrstu árum aldarinnar fjölgaði mjög í hópi fuglaljósmyndara, eins og sést á því að þátttakendur í sýningunni eru 18, auk Hjálmars, þar á meðal margir af helstu myndasmiðum þjóðarinnar á sínu sviði.  Aldurinn spannar frá 14 ára til 87 ára.  Viðfangsefni þeirra eru ærið misjöfn en sammerkt með verkunum er aðdáun og virðing á íslenskri náttúru og íslenskum fuglum.  Í verkunum leika ljósmyndararnir sér að litum, ljósi og skugga, sýna fugla að leik og starfi, í aksjón eða kyrra, portrett eða sem hluta af náttúrunni.  Efnistökin eru jafn margbreytileg og ljósmyndararnir eru margir og býður sýningin uppá afar skemmtilega upplifun.

Sýningin opnar föstudaginn 9. september kl. 17:00 og stendur til 29. september. Sýningin er opin virka daga frá 8-19 en um helgar frá 12-18. 

Umhverfisráðuneytið styrkti sýninguna og Ljósmyndasafn Íslands (Þjóðminjasafnið) veitti góðfúslega aðgang að ljósmyndasafni Hjálmars.

Ég kíkti við á göngu um miðbæin nú um helgina og get vel mælt með sýningunni. Það er skemmtilegt að skoða myndir af fuglum í Ráðhúsinu og síðan lifandi fugla á tjörninni.

Í mér blundar sá draumur að setja upp ljósmyndavef fyrir íslenskar vísinda og náttúrulífsmyndir, en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn. Þegar maður sækir ráðstefnur sér maður nefnilega oft ótrúlega flottar myndir, af iðandi maðkasúpu, DNA flókum á geli eða blómabreiðum í skugga jökla. Lífríkið er innblástur margra listamanna, eins og t.d. Bjarna Helgasyni sem hannaði boli með líffræðilegu ívafi.


Hvert stefnir Tyrkland?

Pistill þessi fjallar ekki um deilur Ísraels, Tyrklands og Palestínumanna.

Tyrkland nútímavæddist snemma á síðustu öld þegar Ataturk leiddi frelsisbaráttu tyrkja og stofnaði nútímalegt lýðveldi ríki á rústum gamla Ottoman heimsveldisins. Aðferðir hans voru all harkalegar, ofbeldi og ofsóknir, en markmiðið var að færa Tyrkland fram í timann. Hann setti upp lýðveldi með öflugt stjórnkerfi, laust við ívilnanir presta og aðalsmanna, iðnvæddi og menntaði þjóð sína. Hann klauf þjóðríkið frá Íslam, bannaði trúardómstóla sem byggðu á sharia lögum.

Þeir tyrkir sem ég kynntist í Bandaríkjunum (þegar ég var við nám í Norður Karólinu) voru allir trúir þessari sýn á Tyrkland. Landsmenn voru sannarlega múhameðstrúar, en þessir nemar sem við kynntumst voru fyrst of fremst stoltir Tyrkir sem vildu mennta sig og gera vel fyrir land sitt. Margir þeirra fengu styrki til náms erlendis, sem þeir urðu að endurgreiða með eins konar þegnskyldu vinnu. Læknar sem sóttu sérmenntun til Ameríku, urðu að vinna einhver ár á spítala í Tyrklandi (ellegar endurgreiða styrkinn að fullu).

Í stjórnartíð Erdogans og félaga í hinum íslamska AKP flokki (kosnir til valda árið 2002) virðist sem Tyrkland hafi sveigt af braut Ataturks. Það er ekki slæmt í sjálfu sér, því í Tyrklandi var herinn með of mikil ítök, en þeir hafa einnig lagt til atlögu við dómskerfið og menntakerfið.

Í Nature vikunnar er fjallað um tvær atlögur stjórnar Erdogans að vísindastarfi í Tyrklandi. Með tilskipun var rannsóknaráði Tyrklands (TÜBİTAK, the Scientific and Technological Research Council of Turkey) breytt á þann hátt að ítök stjórnmálamanna voru aukin (svipaðar breytingar voru gerðar á 10 öðrum ráðum og stofnunum sem eiga að vinna á vísindalegum grunni). Það segir sig sjálft að leppar skipaðir af stjórnmálamönnum eru tæplega færustu sérfræðingar á hverju sviði, og því viðbúið að fagleg vinnubrögð séu á undanhaldi. 

Annað útspil var tilskipun um Tyrknesku vísindaakademíuna (Turkish Academy of Sciences TÜBA), sem er/var sjálfstætt ráð Tyrkneskra vísinda og tæknifélaga. Samkvæmt tilskipuninni færist TÜBA undir menntamálaráðaneyti Tyrklands, sem skipar þriðjung fulltrúa, þriðjungur er skipaður af Menntaráð Tyrklands (sem er hæl stjórnvalda og forsætisráðherrans) og þriðjungur eru "frjálsir" fulltrúar vísinda og tækni í Tyrklandi. Með þessu gerræðislega inngripi er hérmeð búið að svipta Tyrkneska vísindamenn sjálfstæðinu. Þetta væri svona svipað og ef Menntamálaráðaneytið tæki yfir KSÍ, Fuglavernd eða líffræðifélagið.

Því miður eru þessir atburðir ekki einsdæmi, stjórn Erdogans hefur hoggið niður sjálfstæðar vísindastofnanir og lamað rannsóknir í sameindalíffræði með fáranlega ströngum lögum um erfðabreyttar lífverur. Nú er skammt að bíða að íslömsku sköpunarsinnarnir banni rannsóknir á þróun, eða jafnvel náttúrulegt val á tyrkneskri grundu.

Ítarefni:

Editorial A very Turkish coup Nature 477, 131 (08 September 2011) doi:10.1038/477131a

Egypt: Doubts cast on Turkish claims for model democracy Robert Tait guardian.co.uk, Sunday 13 February 2011


mbl.is Vilja ekki svara Erdogan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gloppur í erfðamengi þess gula

Þorskurinn (Gadus morhua) sem stundum er kallaður sá guli er einn mikilvægasti nytjafiskur veraldar. Þorskveiðar hafa verið stundaðar um allt norðanvert Atlantshaf undangengnar aldir, með þeim afleiðingum að stofnarnir hafa látið á sjá. Frægast er að þorskstofninn við strendur Kanada hrundi fyrir síðustu aldamót, með skelfilegum afleiðingum fyrir sjávarþorp og útgerðir.

Fiskveiðistjórn byggist á þekkingu á líffræði tegundanna, t.d. stofnstærð, fjölgunargetu, fari milli landsvæða og fæðu. Margir líffræðingar, hérlendis við Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun og erlendis (aðallega í Noregi) hafa kannað breytileika í útliti, eiginleikum og erfðamengi þorskins. Erfðafræðirannsóknir hafa sýnt forvitnilegan mun á milli hafsvæða, t.d. þegar horft er á hvatberalitninginn (Árnason 2004). Einnig sýnir Pan I genið sláandi fylgni við dýpi, þannig að fiskar af ákveðinni arfgerð finnast nær eingöngu neðan 200 metra dýpis (Aðlögun að dýpi). Af sögulegum og aðferðalegum ástæðum var erfðabreytileiki í hemoglóbín genum þorskins einnig mikið rannsakaður, þar sem arfgerðir voru mismunandi eftir landsvæðum og virtust einnig tengjast útliti og hitaþoli (sjá t.d. Borza ofl. 2009). Samt er þorri breytileikans sameiginlegur Norðusjávar, Íslands og Norður-Ameríkuþorski. Það þýðir að þorskar flytjast á milli landsvæða og makast.

Rannsóknir á stökum genum geta hins vegar gefið ólíkar niðurstöður, því þau eru staðsett á ólíkum litningum og vegna endurröðunar þeirra. Þess vegna er mikilvægt að skoða mörg gen þegar skyldleiki einstaklinga og stofna er skoðaður (FBI notar 13 mjög breytileg gen til að athuga hvort grunaðir hafi verið á vettvangi glæps). Til þess að skilja fjölbreytileika þorskins er því brýnt að raðgreina erfðamengi hans. Norskir aðillar (og tveir þjóðverjar) birtu í Nature vikunnar fyrstu drög að erfðamengi þorskins. Þar kennir margra forvitnilegra gena, en stærstu tíðindin eru þau að heilt genagengi vantar í þorskinn. Hin ærið mikilvægu MHC2 gen tilheyra ónæmiskerfi hryggdýra, og gera þeim kleift að greina og búa til mótefni gegn bakteríum og sníkjudýrum, vantar í þorskinn (sem og gen nokkura prótína sem starfa með MHC2 prótínunum).

Hvernig í ósköpunum kemst þorskurinn af án þessara gena? 

Svarið er fjölþætt, einnig er ágætt að rifja upp að aðrir fjölfrumungar (skordýr, sniglar, ormar) eru ekki með MHC gen og spjara sig ágætlega.

Í tilfelli þorskins virðist sem önnur gen og kerfi hafi tekið við hlutverki MHC2 genanna. Nokkrar vísbendingar um þetta eru tíundaðar í greininni í Nature. Í fyrsta lagi er mun fleiri eintök af MHC1 genunum og þau breytilegri innbyrðis meðal þorska en t.d. músa og manna. MHC2 er einmitt mjög breytilegt, sem nýtist við að skynja útlit margvíslegra sýkla, og í þessu tilfelli er eins og MHC1 genin séu farin að virka eins og MHC2. Í öðru lagi virðist sem náttúrulega ónæmiskerfið (innate immunity)* hafa stækkað að umfangi. Altént finnast fleiri gen nokkura lykilviðtaka þess kerfis.

Það má því líkja þessu við breytingu á samsetningu herliðs. Her eins lands (hér ónæmiskerfi þorskins) missti alla skriðdrekana sína, en í staðinn stækkuðu þeir flugherinn og vélvæddu fótgönguliðanna.

Niðurstaðan er allavega sú að þrátt fyrir stórkostlegar breytingar á samsetningu erfðamengis þorskins hefur sá guli það nokkuð gott. Holdið er allavega prýðilegt til átu, ekki kjaftfullt af hringormi eins og búast mætti við er ónæmiskerfið væri allt í steik.

Ítarefni og glósur.

* Það að hið forna ónæmiskerfi sé kallað hið "náttúrulega ónæmiskerfi" þýðir vitanlega ekki að frumubundna ónæmiskerfið sé ónáttúrulegt!

Arnason E.  Mitochondrial cytochrome B DNA variation in the high-fecundity atlantic cod: trans-atlantic clines and shallow gene genealogy. Genetics. 2004 Apr;166(4):1871-85.

Borza T, Stone C, Gamperl AK, Bowman SAtlantic cod (Gadus morhua) hemoglobin genes: multiplicity and polymorphism. BMC Genet. 2009 Sep 3;10:51.

Star B, Nederbragt AJ, Jentoft S, Grimholt U, Malmstrøm M, Gregers TF, Rounge TB, Paulsen J, Solbakken MH, Sharma A, Wetten OF, Lanzén A, Winer R, Knight J, Vogel JH, Aken B, Andersen O, Lagesen K, Tooming-Klunderud A, Edvardsen RB, Tina KG, Espelund M, Nepal C, Previti C, Karlsen BO, Moum T, Skage M, Berg PR, Gjøen T, Kuhl H, Thorsen J, Malde K, Reinhardt R, Du L, Johansen SD, Searle S, Lien S, Nilsen F, Jonassen I, Omholt SW, Stenseth NC, Jakobsen KS. The genome sequence of Atlantic cod reveals a unique immune system. Nature. 2011 Aug 10. doi: 10.1038/nature10342. [Epub ahead of print]


Líffræðirannsóknir á Íslandi 2011

Líffræðifélag Íslands heldur ráðstefnu dagana 11. og 12. nóvember 2011. Við hvetjum alla til að nýta tækifærið til að kynna líffræðirannsóknir sínar með erindum eða veggspjöldum.

Ráðstefnunni verður skipt upp í málstofur eftir viðfangsefnum, ekki verða fleiri en ‏‏þrjár málstofur samhliða. Ef áhugi er á sérstökum málstofum, komið þá hugmyndum til skipuleggjenda ráðstefnunnar eigi síðar en 10. september. Stefnt er að því að hver málstofa hefjist á 30 mínútna inngangserindi, en hvert erindi er síðan 15 mínútur. Ef of margar beiðnir um erindi berast, getur þurft að bjóða sumum þáttakendum að senda inn veggspjald í staðinn.

Skráningarfrestur á ráðstefnuna er 1. október.

Vinsamlegast skráið þátttöku og útdrátt á síðunni http://lif.gresjan.is/2011/skraning.php. Vinsamlegast takið fram við skráningu hvort þið óskið eftir því að vera með veggspjald eða erindi. Útdrættir, erindi og veggspjöld skulu vera á íslensku eða ensku, en við hvetjum þátttakendur til að kynna efni sitt á íslensku sé þess auðið. Lengd útdrátta skal ekki vera lengri en 1500 slög.

Að lokinni ráðstefnunni, laugardagskvöldið 12. nóvember, verður haldinn haustfagnaður félagsins. Staðsetning og nánari uppýsingar verða gefnar síðar.

Undirbúningsnefndin/stjórn líffræðifélagsins: Snæbjörn Pálsson, Snorri Páll Davíðsson, Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir, Bjarni K. Kristjánsson  og Arnar Pálsson.

Nánari upplýsingar má fá á biologia.hi.is.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband