Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Miðlun vísindalegrar þekkingar á öld veraldarvefsins

Vísindin byggja á strangri og varkárri aðferð. Settar eru fram skýrar tilgátur og þær prófaðar á sem strangastan hátt. Reynt er að afsanna tilgáturnar, með vandaðri uppsetningu tilrauna og rannsókna og næmum prófum.

Þegar ekki tekst að hrekja tilgátu - má draga varfærnar ályktanir um að einhverjar líkur séu á hún sé rétt. Tilgátan er hins vegar ekki sönnuð! Tilgátur eru nefnilega ekki sannaðar, heldur eru þær meðteknar - uns annað kemur í ljós.

Ef tilgáta standast ítrekuð próf dvínar óvissan um sannleiksgildi hennar og hún fær stöðu lögmáls eða staðreyndar. Dæmi um þetta eru afstæðiskenning Einsteins og þróunarkenningin*.

Tilgátur þurfa að uppfylla nokkur skilyrði, um prófanleika, einfaldleika, rökrænt samræmi og tengingu við grundvallarþekkingu. Vísindin byggja nefnilega á grundvallarþekkingu, og bæta við hana. 

Stundum eru settar fram tilgátur sem ganga gegn grundvallarþekkingu,  en þá er krafan sú að þannig tilgátur þurfi mjög sterkan stuðning til að teljast samþykktar (Extraordinary claims require extraordinary evidence - Carl Sagan).

Í nútímasamfélagi geta vísindamenn og hagsmunaðillar beitt veraldarvefnum til að blása út skoðanir og hjávísindi, sem ganga þvert á grundvallarþekkingu. Tvö dæmi eru rædd hér.

Í fyrsta lagi er það herferð orkufyrirtækja gegn loftslagsvísindunum. Sú herferð er mjög vel studd fjárhagslega, byggir á stórum stofnunum sem sveipa sig vísindalegri slæðu, og nýtir sér net fjölmiðla, bloggara og fréttamanna til að kasta rýrð á þá vísindamenn sem hafa fundið út að mennirnir eru að valda verulegum loftslagsbreytingum á jörðinni.

Í öðru lagi er Giles-Eric Serilini og félagar á stofnuninni Committee for Research and Independent Information on Genetic Engineering, sem er sjálfseignarstofnun með markmiðið:  (CRIIGEN is an independent non-profit organization of scientific counter-expertise to study GMOs, pesticides and impacts of pollutants on health and environment, and to develop non polluting alternatives).

Serilini komst í fréttirnar í september mánuði þegar rannsókn hans og félaga birtist í tímaritinu Food and Chemical Toxicology. Í rannsókninni var því haldið fram að erfðabreyttur maís og illgresiseitrið Round-up ylli krabbameini.

Vandamálið er bara að rannsóknin var meingölluð, eins rakið hefur verið ítarlega (Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?, Erna Magnúsdóttir Skaðsemi erfðabreyttra matvæla http://www.vantru.is/2012/09/21/13.00/NHS: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers). Sex franskar vísindaakademíur (Serilini vinnur við Háskólann í Caen) gagnrýndu greinina og sögðu að ályktanir hennar stæðust ekki vegna alvarlegra aðferðagalla.

Hér er því dæmi um vísindalega útlítandi grein, sem ekki er hægt að treysta. Í vísindum er nokkur dæmi um slíkt, en afleiðingarnar eru ekki það alvarlegar. Ef allir sem þurfa vita að viðkomandi grein er bull og stundum eru slíkar greinar jafnvel dregnar til baka. En ef grein (eða hugmynd) sem þessi öðlast sjálfstætt líf, fyrir utan veröld vísindanna, þá geta afleiðingarnar orðið alvarlegar.

Það er einmitt tilfellið með grein Serilinis, hún var kynnt á opnum fjölmiðlafundi með miklum látum. Fréttin sjálf flaug um víða veröld, en spurnir af veikleikum rannsóknarinnar hafa skriðið með veggjum. Fiskisagan flýgur en netið situr fast.

Hvað geta vísindamenn á viðkomandi fagsviði gert í þessari stöðu?

Eiga þeir að senda fréttamönnum/ritsjórum ábendingar?

Eiga þeir að skrifa í blöðin (blogga, eða setja upp youtube videó) til að gagnrýna svona rangfærslur?

Eiga þeir að framkvæma sjálfstæða rannsókn á þeim fyrirbærum sem "bullgreinin" ræðir?

Eiga þeir að loka augunum og halda áfram sínu starfi (haus í sand nálgun)?

Eiga þeir að senda kjörnum fulltrúum póst og leiðrétta skyssur í málflutningi þeirra?

Altént, vísindin eiga ekki upp á pallborðið hjá öllum. Orkufyrirtækin agnúast í loftslagsvísindamenn, umhverfissinnar í sameindaerfðafræðingum, útgerðamenn í fiskifræðingum (nema þegar þeir eru að reyna kreista makríl úr ESB) og refaskyttur í refafræðingum. Kannski að ég fari bara að rannsaka stórnraðir gena í ávaxtaflugu...en nei ó nei,  ég gæti þurft að nota erfðatækni og hún er af hinu illa.

*Ekki þróunarkenning Darwins, því hún var ekki alveg rétt og var betrumbætt með réttri erfðafræði á síðustu öld.


Breytileiki í stofnstærðum laxfiska

Umtalsverðar sveiflur hafa verið í stofnstærðum laxfiska hérlendis síðustu áratugi. Gagnaraðir um langt árabil yfir ýmsa þætti í lífsferli fiskanna gerir það kleift að kanna orsakir þessa breytileika. Koma þar við sögu þéttleiki seiða, samkeppni milli þeirra í ferskvatni, breytilegt tíðarfar, fæðuskilyrði í sjó, sjúkdómar og jafnvel hnattræn hlýnun.

austurland_2012_thorolfurantonsson.jpgÞórólfur Antonsson (mynd tekin á austurlandi), fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, mun ræða rannsóknir á þessum sveiflum föstudaginn 2. nóvember 2012. Erindið kallast Breytileiki í stofnstærðum laxfiska og hluti af fyrirlestraröð líffræðistofu, Líf og umhverfisvísindastofnunar HÍ. Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið er í stofu 130 í Öskju, náttúrfræðahúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.

 


Makríll við Ísland. Líffræði - stofnstærð og göngur

Tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

------------------------
Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur, flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt, Í DAG, mánudaginn 29. október kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa yfir 30 nýjar tegundir bæst í hóp þeirra fisktegunda sem fundist hafa í lögsögu Íslands og telja má fullvíst að tengist þeirri hlýnun sem orðið hefur í hafinu við Ísland á sama tíma. Fæstar þessara nýju tegunda teljast til nytjastofna og finnast jafnframt aðeins í takmörkuðu magni að undanskildum makríl (Scomer scombrus), sem nú er orðinn mikilvægur nytjastofn á Íslandsmiðum og árlegur afli undanfarin ár verið um 150 þúsund tonn. Í erindinu er m.a. fjallað um líffræði makríls í Norðaustur-Atlantshafi, umhverfisbreytingar sem orðið hafa á Íslandsmiðum á undanförnum árum og um breytingar á útbreiðslu makríls samfara þeim. Þá verður fjallað um rannsóknir Íslendinga á undanförnum árum, m.a. niðurstöður athuganna á því hvað makríllinn étur meðan hann hefur viðkomu við landið. Jafnframt er fjallað um komur makríls á Íslandsmið á síðustu öld og þær settar í samhengi við umhverfisaðstæður sem ríktu við landið á þeim tíma.
Þorsteinn Sigurðsson er fæddur árið 1964. Hann lauk BS. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1991, 4. árs verkefni frá sama skóla árið 1992 og lauk cand scient prófi í fiskifræði við Háskólann í Bergen árið 1993 með bergmálsmælingar fiskistofna sem sérsvið. Þorsteinn hefur frá árinu 1994 starfað á Hafrannsóknastofnuninni, fyrst sem sérfræðingur en frá árinu 2005 sem forstöðumaður Nytjastofnasviðs stofnunarinnar.

Heyra má viðtal við Þorstein í útvarpsþættinum Samfélagið í nærmynd á Rás 1.

Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)
Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)


Stofnfruma með þrjá foreldra

Hvatberar eru orkuverksmiðjur frumna. Þær eru að upplagi bakteríur, og eru með 16569 bp litning (í tilfelli mannsins) sem skráir fyrir tæplega 40 genum. Hvatberar erfast eingöngu frá móður, og ef galli er í erfðaefni þeirra fá öll afkvæmi konunar gallann í móðurarf.

Mitochondria%2C_mammalian_lung_-_TEMMynd af hvatbera af vef Wikimedia commons.

Hvatberasjúkdómar

Nokkrir sjúkdómar eru orsakaðir af göllum í genum hvatberans, sumir mjög alvarlegir.

Upp kom sú hugmynd að lækna þennan genagalla, með því að flytja kjarna frá móður inn í heilbrigt egg (án erfðaefnis). Þetta væru þá nokkurskonar hvatberaskipti, áþekk hugmynd og beinmergskipti þó að öðrum skala. Þetta egg er síðan tæknifrjóvgað með innspýtingu sæðisfrumu, eins og algengt er ófrjósemislækningum.

Shoukrat Mitalipov og félagar við rannsóknarstofnun í Oregon framkvæmdu svona tilraun á rhesusöpum fyrir nokkrum árum (Api með þrjá foreldra).

Stofnfruma með þrjá foreldra

Í Nature vikunnar birtist grein sem lýsir hliðstæðum tilraunum með mannaegg og sæði. Þar var kjarni í skiptingu fjarlægður úr eggi - og annar settur í staðinn. Eggið var síðan frjóvgað með innspýttu sæði*

Niðurstaðan er sú að stórt hlutfall frjóvgaðra eggja virkjast eðlilega (fullt af smáatriðum hér sem tengjast rýrisskiptingu o.fl.), en einnig að frumuskiptingar voru eðlilegar. Einnig voru fósturstofnfrumur eðlilegar, miðað við þá þætti sem kannaðir voru.

Fósturvísar spendýra mynduðu svokallað kímblöðru. Hjá mönnum er hún á 5 degi með um 55 frumur og á 7 degi hátt í 80. Af þessum 80 myndar um helmingur kökk inni í blöðrunni, og úr kekki þessum myndast síðan fóstrið sjálft. Hinar frumur mynda líknarbelg, fylgju og fleira spennadi vefi. Úr kekkinum má vinna fósturstofnfrumur, embryonic stem cells, sem brúka má í læknisfræðirannsóknum og etv meðferð (Nóbelsverðlaun í þroskunarfræði).

Breskt siðfræðiráð sagði að ef engin praktísk vandamál væru því samfara að skipta út hvatberum, þá væri siðferðilega verjandi að framkvæma slíka aðgerð.

Þessi rannsókn var lítið skref í áttina að genalækningum. 

Framlag þriggja foreldra

Mamma 1: Hvatberalitningur 16569 basar

Mamma 2: 22 venjulegir litningar og X kynlitningur ~3.200.000.000 basar

Pabbi: 22 venjulegir litningar og Y kynlitningur ~3.100.000.000 basar

Y litingurinn er ~58 millj. basar og X litningurinn ~153 millj. basar.

Framlag mæðranna er því ekki jafnt. Hlutfall framlags mömmu 1 og mömmu 2 er ~1/200.000. Með öðrum orðum, leggur mamma 1 til jafnmikið af DNA og forfaðir í 17 eða 18 lið.

Á móti kemur að genaþéttni hvatberalitnings er meiri en kjarna DNA. Og að auki er margir hvatberar í hverri frumu. Í venjulegum líkamsfrumum eru hundruðir eða þúsundir hvatbera, hver um sig með 2-10 eintök af litningi í sér. Mikill munur er á fjölda hvatbera milli frumugerða, og skipa kynfrumurnar sér á sitthvorn enda skalans. Sæðisfrumur, sem eiginlega bara kjarni með svipu, hafa um 100 stykki. Eggið, stærsta einstaka fruma mannslíkamans er hins vegar með uþb. milljón hvatbera. Enda þarf það að skipta sér í hundruði fruma áður en fylgjan myndast og fóstrið fer að fá næringu frá móður sinni.

Ítarefni

Mitochondrial gene replacement in primate offspring and embryonic stem cells. Tachibana M, Sparman M, Sritanaudomchai H, Ma H, Clepper L, Woodward J, Li Y, Ramsey C, Kolotushkina O, Mitalipov S. Nature. 2009 Sep 17;461(7262):367-72. Epub 2009 Aug 26.

Api með þrjá foreldra

Viðtal við erfðafræðing á Rás 2.

*Það má snúa út úr orðalagi þessu...en bara ef maður er dóni.

Viðbætur: Millifyrirsögnum og síðasta hlutanum um framlag þriggja foreldra var bætt við 27. okt. 2012.


Örþing um opinn aðgang

Í tilefni af alþjóðlegri viku opins aðgangs (http://www.openaccessweek.org) verður haldið örmálþing um opið aðgengi (OA) að birtu fræðiefni, með þáttöku LUVS, Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og Rannís. Það fer fram í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ þann 26. október 2012, frá kl. 12:30 til 13:10 í stofu 130. Dagskrá:

  • Frá flugum til fræðigreina: frjálst aðgengi að efniviði og niðurstöðum - Arnar Pálsson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • OA útskýrt: hvað er opinn aðgangur og af hverju? - Guðmundur Þórisson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • Græna leiðin til OA á Íslandi: rafræn varðveislusöfn - Sólveig Þorsteinsdóttir, Heilbrigðisvísindabókasafn LSH
  • Rannsóknasjóðir og opið aðgengi - Guðlaug Kristjánsdóttir, Rannís
  • Spurningatími
Sjá meira um OA á http://openaccessweek2012.jpgopinnadgangur.is

Ákall til ESB um stuðning við rannsóknir

Fyrir þá sem vilja öflugan stuðning við grunnrannsóknir í líffræði og skyldum greinum. Skilaboð frá Mariu Leptin, einum af framkvæmdastjórum Evrópsku sameindalíffræði-samtakanna EMBO.

---------------------------------

The discussions at the next summit of the European Union heads of state or government, which is scheduled for 22 and 23 November, will be decisive in determining the EU research budget for the next seven years. Several Member States are demanding severe cuts on the total EU budget and research will have to compete with other policy priorities.  
 
This is a time when we, the scientific community, should act together and make our case to protect research funding, including that of the European Research Council (ERC), from cuts. Decisions will be prepared in discussions among politicians at the national level. All of us must look for opportunities to affect these decisions and send a strong signal to the heads of state or government.
 
An open letter signed by European Nobel laureates has been published in top European newspapers this week. The impact of this letter will be increased if it is followed by a mobilization of the national scientific communities. To keep the momentum going, an online petition has been launched:
http://www.no-cuts-on-research.eu

I would like to ask you to sign it and to encourage all your colleagues to do likewise. Note that in the past, less than 30 000 scientists signed the largest petition for a European scientific cause compared to the hundreds of thousands of signatures on petitions from other groups of society.  We must do better than that.
 
This action is coordinated by the Initiative for Science in Europe (ise@i-se.org; www.initiative-science-europe.org), of which EMBO is a member.  Please contact Wolfgang Eppenschwandtner, Executive Coordinator of the ISE if you have any questions or suggestions.
 
Best regards,
Maria Leptin Director EMBO


Athugasemdir vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera

Í þessu samhengi. Eftirfarandi bréf var sent nefndasviði Alþingis 141.

Varðar, löggjafarþing 2012–2013, þingskjal 196 — 193. mál


Athugasemdir vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera.
Í upphafi árs 2011 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum (þskj. 737 – 450. mál) þar sem gert var ráð fyrir að skipaður yrði starfshópur til að vinna að breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Í kjölfarið bárust Alþingi mótmæli 37 sérfræðinga í erfðafræði og skyldum greinum. Tillagan náði ekki fram að ganga það árið en var lögð fram í breyttri mynd í upphafi árs 2012 (þskj. 1073 - 667. mál). Greinargerðin var í það skiptið nokkuð styttri en í fyrstu útgáfu. Þannig höfðu tilvísanir í greinar í dagblöðum vikið fyrir mun styttri greinargerð um ástæðu þess að banna ætti útiræktun erfðabreyttra lífvera. Enn á ný sendu vísindamenn Alþingi mótmæli og bentu á að ekkert hefði í raun breyst frá því að tillagan var fyrst lögð fram í upphafi árs 2011 og aftur dagaði tillagan uppi.
Þessi sama tillaga hefur nú birst í þriðja sinn (þskj. 196 - 193. mál). Röksemdir flutningsmanna fyrir mikil-vægi þess að tillagan nái fram að ganga eru þær sömu nú og í upphafi árs 2012. Í greinargerð með tillögunni segir: „Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að leggja af útiræktun á erfðabreyttum plöntum til þess að vernda hreinleika íslenskrar náttúru og með tilliti til siðferðislegrar skyldu núlifandi kynslóðar til að koma í veg fyrir að einkenni hennar glatist“. Þessu til stuðnings vísa flutningsmenn tillögunnar til varúðarreglunnar og alþjóðlegra samninga á borð við Cartagena-bókunina um líföryggi, Codex Alimentarius og Árósa-samninginn.
Í ljósi þess að á Íslandi eru engar villtar tegundir, sem skyldar eru þeim nytjaplöntum sem ræktaðar eru hérlendis, verður að telja það langsótt í meira lagi að áhrif útiræktunar á erfðabreyttum lífverum komi fram á „hreinleika íslenskrar náttúru“. Þannig er ekki ljóst af greinargerð þeirri sem fylgir þingsályktunartillögunni hvernig útiræktun á erfðabreyttum lífverum getur skaðað hreinleika íslenskrar náttúru eða valdið því að „einkenni hennar glatist“ umfram áhrifin af hefðbundnum landbúnaði. Í greinargerðinni er til stuðnings fyrirhuguðu banni vísað í alþjóðasamninga og -bókanir. Ekki verður séð í fljótu bragði hvernig þessir samningar styðja bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera. Til dæmis má nefna að í Cartagena-bókuninni um líföryggi (Cartagena Protocol on Biosafety), sem er viðbót við Samninginn um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity), segir, í lauslegri þýðingu, að aðilar að bókuninni "[v]iðurkenni að nútíma líftækni hefur mikla möguleika fyrir velferð mannkyns ef þróuð og notuð með fullnægjandi varúðar-ráðstöfunum fyrir umhverfi og heilsu" (modern biotechnology has great potential for human well-being if developed and used with adequate safety measures for the environment and human health). Hvergi í bókuninni er hvatt til banns við útiræktun erfðabreyttra lífvera. Ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur, sem m.a. gegnir hlutverki umsagnaraðila um umsóknir til útiræktunar á erfðabreyttum lífverum, hefur tryggt faglega umfjöllun um hverja og eina umsókn. Í bréfi til nefndasviðs Alþingis 10. febrúar 2011 frá 37 sérfræðingum í erfðafræði og skyldum greinum vegna þingsályktunartillögu sama efnis komu m.a. fram eftirfarandi athugasemdir: „Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfða-breytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum.“
Síðan tillaga þess efnis að leggja bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum kom fyrst fram í upphafi árs 2011 hefur ekkert breyst sem gefur tilefni til þess að taka málið fyrir að nýju. Við undirrituð andmælum því tillögunni.

Virðingarfyllst:
Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Jón Hallsteinn Hallsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur og forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar Mógilsá
Anna K. Daníelsdóttir, stofnerfðafræðingur
Arnar Pálsson, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Árni Bragason, forstjóri NordGen - Norræna Genbankans
Ástríður Pálsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og aðjúnkt, læknadeild Háskóla Íslands
Björn Sigurbjörnsson, plöntuerfðafræðingur og fv. ráðuneytisstjóri
Edda B. Ármannsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Edda Sigurdís Oddsdóttir, jarðvegslíffræðingur Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá
Eggert Gunnarsson, dýralæknir við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Emma Eyþórsdóttir, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands
Erna Magnúsdóttir, sérfræðingur við læknadeild Háskóla Íslands
Guðbjörg Inga Aradóttir, skordýrafræðingur við Rothamsted Research, Bretlandi
Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Óli Hreggviðsson, lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Guðmundur Pétursson, prófessor emeritus við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands
Guðni Þorvaldsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands Halldór Sverrisson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá Hólmgeir Björnsson, prófessor emeritus við Landbúnaðarháskóla Íslands
Ingibjörg Harðardóttir, prófessor í lífefna- og sameindalíffræði við læknadeild Háskóla Íslands
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent og deildarforseti auðlindardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands
Jónatan Hermannsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og tilraunastjóri á Korpu
Jórunn E. Eyfjörð, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kristinn P. Magnússon, prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í sameindaerfðafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands
Kristín Ólafsdóttir, eiturefnafræðingur og deildarstjóri við Rannsóknarstofu í Lyfja- og eiturefnafræði, læknadeild Háskóla Íslands
Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við læknadeild Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands
Oddur Vilhelmsson, dósent við Háskólann á Akureyri
Ólafur H. Friðjónsson, Dr.rer.nat. sérfræðingur
Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor við fiskeldisdeild Hólaskóla
Ólafur S. Andrésson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Pétur Henrý Petersen, lektor við læknadeild Háskóla Íslands
Sigríður Guðmundsdóttir sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Sigurður Guðmundsson, sérfræðingur í lyflækningum og smitsjúkdómum, Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Snæbjörn Pálsson, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við læknadeild Háskóla Íslands
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri erfðarannsókna, Íslenskri erfðagreiningu og rannsóknardósent við læknadeild Háskóla Íslands
Vala Friðriksdóttir, deildarstjóri Bakteríu-, sníkjudýra- og meinafræðisviðs Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Þórarinn Guðjónsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Þórdís Anna Kristjánsdóttir, sérfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands
Þóroddur Sveinsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og tilraunastjóri á Möðruvöllum
Þórunn Rafnar, framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu
Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, Skógrækt ríkisins


mbl.is Ekki sýnt fram á skaðsemi erfðabreytts maíss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneyksli eða réttlæti?

Dómur yfir ítölskum jarðvísindamönnum sem lýsir þá ábyrga fyrir manntjóni sem varð í jarðskjálfta í bænum L´Aquila er yfirlýst hneyksli. Vísindin er eina leið okkar til að spá fyrir áreiðanlega til um framtíðina, en hún er samt ófullkomin.

Visindamennirnir eru dæmdir fyrir rangar yfirlýsingar um að engin hætta væri á stórum jarðskjálfta. Þeir sögðu að hætta væri fyrir hendi, en að hún væri lítil.

Fyrir mér er þetta týpískt dæmi um mismunandi skilning vísindamanna og leikmanna á óvissu. Vísindamenn skilja óvissu betur en leikmenn, sem sjá veröldina  frekar í svörtu og hvítu. Þegar vísindamaður segir að það séu líkur á hamförum, t.d. 1/100 eða 1/1000000 þá hefur sú tala merkingu. Leikmenn sjá fjarska lítinn mun á þessum tveimur möguleikum, þótt tölfræðilega sé hann gríðarlegur og raunverulegur.

Því hallast ég að því að dómurinn sé hneyksli.

Með sömu rökum má dæma líffræðinga fyrir að spá rangt fyrir um þorskstofninn, veðurfræðinga fyrir ónákvæma spá 4 daga fram í tímann, eðlisfræðinga fyrir að reikna ekki út fall loftsteina og hagfræðinga fyrir að spá ekki fyrir um hrun.

Blessunarlega hefur dómurinn vakið hörð viðbrögð samanber afsögn yfirmanns Náttúruhamfarastofnunar Ítalíu og ályktanir bandarískra jarðfræðinga.

Sjá einnig umfjöllun Rúv.

Vísindamenn dæmdir í fangelsi

Vísindamenn verða varkárari en áður

Fordæma dóm yfir vísindamönnum

og pistil Dark Buzz

Geologists sentenced for bad advice


mbl.is Segir af sér vegna dóma yfir vísindamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vika helguð opnu aðgengi

Nú stendur yfir hin alþjóðlega vika opins aðgangs (http://www.openaccessweek.orgopinnadgangur.is).

Hvað þýðir opinn aðgangur?

Skilgreiningar og nánari upplýsingar má sjá á síðunni opinnadgangur.is. Þar segir t.d.

Opinn aðgangur (e. open access) miðar að því að gera ritrýndar vísindagreinar og annað útgefið fræðiefni aðgengilegt óhindrað á rafrænu formi gegnum Internetið, án takmarkana höfundaréttar eða aðgangsleyfa.

Gullna leiðin til OA - framlag birt í OA fræðiriti strax í upphafi (e. open access publishing).
Græna leiðin til OA - framlag gert aðgengilegt gegnum eigin safnvistun (e. self-archiving) í OA varðveislusafni, samhliða birtingu í fræðiriti eða skömmu eftir það.

Í tilefni af alþjóðlegu Open Access vikunni (http://www.openaccessweek.org) verður haldið örmálþing um opið aðgengi (OA) að birtu fræðiefni, með þáttöku LUVS, Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og Rannís. Það fer fram í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ þann 26. október 2012, frá kl. 12:30 til 13:10 í stofu 130. Dagskrá:

  • Frá flugum til fræðigreina: frjálst aðgengi að efniviði og niðurstöðum - Arnar Pálsson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • OA útskýrt: hvað er opinn aðgangur og af hverju? - Guðmundur Þórisson, Líf- og umhverfisvísindastofnun
  • Græna leiðin til OA á Íslandi: rafræn varðveislusöfn - Sólveig Þorsteinsdóttir, Heilbrigðisvísindabókasafn LSH
  • Rannsóknasjóðir og opið aðgengi - Guðlaug Kristjánsdóttir, Rannís
  • Spurningatími
Sjá meira um OA á http://opinnadgangur.is

Hér fylgir stutt forsaga eða umræða um opinn aðgang, í raunvísindalegri túlkun.

Innan vísinda og fræðasamfélagsins hefur myndast hreyfing, sem hvetur til opins aðgengis að vísindalegu efni. Fræði hafa reyndar lengi byggst á því að birta greinar, bókakafla eða bækur um ákveðnar rannsóknir. Markmiðið er vitanlega að miðla hugmyndum og þekkingu til samfélagsins og annara fræðimanna. Þeir vísindamenn sem sitja á mikilvægum niðurstöðum hægja á framþróun vísinda og koma í veg fyrir að þær séu hagnýttar í samfélaginu.

Vísindamenn birta því bækur, ritrýnda bókakafla og vísindagreinar fyrir vísindasamfélagið, fyrirtæki og almenning. Málin æxluðust þannig að prentun vísindabóka og tímarita varð að sjálfstæðri atvinnugrein. Útgáfufyrirtæki spruttu upp til að sjá um uppsetningu og prentun vísindagreina, og sum þeirra urðu mjög stór og skila miklum hagnaði.

Ferlið er nokkurn veginn á þessa leið. Vísindamenn senda inn handrit, akedemískur ritsjóri sendir það til yfirlesturs hjá fræðimönnum á viðkomandi sviði. Ef fræðimennirnir eru sáttir við handritið er það sent í uppsetningu og prentun í næsta tölublaði vísindatímaritsins. Höfundar greina afsöluðu sér höfundarétti, og fyrirtækin fengu rétt á því að selja tímaritin. Þetta var gert í hagræðingarskyni, til að spara fagfélögum eða stofnunum ómakið við útgáfustarfsemi. Útgáfufyrirtækin seldu áskrift að tímaritunum til vísindamanna skóla, stofnanna og fyrirtækja. Nú til dags er áskriftin oftast rafræn, og jafnvel á landsvísu eins og hérlendis. Allir á geta Íslandi lesið vísindagreinar í merkum ritum eins og Nature og Science.

Á undanförnum áratugum hefur myndast hreyfing sem hvetur til opins aðgengis að vísindagreinum. Rökstuðningurinn er sá að áskrifafyrirkomulagið sé gallað, því að rannsóknir séu í flestum tilfellum kostaðar af hinu opinbera. Klemmunni má lýsa með einni setningu.

Hví á hið opinbera síðan að kaupa aðgang að vísindagreinum sem lýsa rannsóknum sem ríkið sjálft hefur kostað?

Ýmsar lausnir hafa litið dagsins ljós.

Til eru opin tímarit eins og PLoS biology og BMC genetics, sem birta greinar á netinu án nokkura aðgangstakmarkana. Vísindamenn við Bangalore Háskóla, Hólaskóla og Land Institute geta allir lesið þær, kostnaðarlaust.

Varðveislusöfn hafa verið sett upp, t.d. eins og Hirsla sem er varðveislusafn LSH (Landspítala háskóla sjúkrahús).

Stofnanir og Rannsóknasjóðir hafa beint tilmælum til vísindamanna, eða jafnvel skilyrt rannsóknarfé.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur undirritað Berlínaryfirlýsinguna um opinn aðgang. Þar með staðfestir safnið stefnu sína varðandi opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum sem unnar eru fyrir opinbert fé.

Sjá einnig:

Academic publishers have become the enemies of science - Mike Taylor í the Guardian 

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn


Tasmaníuskollinn og árásargirnin

Tasmaníuskollinn (ekki djöfull) þjáist af sérkennilegri meinsemd. Smitandi krabbamein hefur breiðst út í stofninum og ógnar tilvist hans. Eins og við höfum áður fjallað um (Smitandi krabbamein).

Um er að ræða rándýr af ætt pokadýra (Marsupials) sem er bundið við eyjuna Tasamaníu, sunnan Ástralíu. Á skollann herjar smitandi krabbamein, sem berst dýra á milli í gegnum skurði og sár í andliti þeirra. Hegðun þeirra og samskipti ýta undir þessa farsótt, því skollarnir eru sífellt að slást, rífa og bíta hvorn annan í andlitið. Það leiðir til þess að frumur flytjast á milli, og þar á meðal frumur sem leiða til myndunar æxla í andliti skollanna.

tasmaniuskolli_mai2010.jpg Mynd af Tasmaníu skolla tók Arnar Pálsson, í dýragarði Kaupmannahafnar 2010 - copyright.

Erfðagreining á æxlunum sýnir að þau eru af annarri arfgerð en hýslarnir, og með því að reikna þróunartré sést að þau eru öll af sama meiði. Gögnin benda til þess að smitandi krabbameinsfrumur hafi orðið til einu sinni.

Hin nýja rannsókn sem morgunblaðið fjallar um sýnir að eldri skilningur á eðli samskipta dýranna og smitsins var ekki réttur. Það eru nefnileg dýrin sem eru minnst bitin, sem eru líklegust til að fá krabbameinið.

Rannsókn Rodrigo Hamede og félaga (sem birtist í British Ecological Society's Journal of Animal Ecology) bendir til að árásagjörnustu dýrin séu í mestri hættu. Þau ráðast á aðra, bíta í æxli þeirra og smitast þannig. Mest smithætta er þegar dýr bítur í æxli, ekki þegar dýr með æxli bítur annað.

Þetta er hin nýja þekking sem rannsóknin leiddi í ljós, nokkuð skýr í titli fréttar CNN en furðulega hulinn í meðförum mbl.is.

Hamede og félagar komust að þessu með því að fylgjast með skollum á tveimur svæðum í Tasmaníu, yfir 4 ára tímabil. Einnig kom í ljós að smitið var mun fátíðara á öðrum staðnum, sem gæti verið vísbending um að farsóttin sé í rénum. Ástæðan gæti verið sú að þar herji vægara afbrigði krabbameinsins, eða að þar hafi þróun átt sér stað í stofni skollana.

Það er nefnilega viðbúið að tíðni arfgerða sem kynda undir árásargirni muni dvína í stofninum, meðan krabbameinið er svona algengt. Með öðrum orðum, lögmál Darwins um náttúrulegt val gæti orðið Tasmaníuskollanum til bjargar. Eins gott að skollin sé ekki hallur undir teboðið, því annars væri hann í vandræðalegri klemmu milli náttúrlögmáls og trúarlegrar sannfæringar.

Ítarefni.

Grein Oliviu Judson í New York Times, Cancer of the Devil 14 okt. 2008.

Tasmanian Devils' best hope for survival could rest on being less ferocious CNN 2012.

BES press release: Less ferocious Tasmanian devils (3. sept 2012)


mbl.is Krabbamein í Tasmaníudjöflum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband