Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Erindi: Landnám framandi grjótkrabba

Óskar Sindri Gíslason doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ mun fjalla um framandi lífverur og grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland í erindi föstudaginn 3. mars 2012 (kl. 12:30-13:10).

Erindi hans kallast flutningur framandi lífvera og landnám grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland (The transport of non-indigenous species and colonization of the Atlantic rock crab (Cancer irroratus) in Icelandic waters).

Landnám framandi tegunda er eitt af alvarlegustu umhverfis- og efnahagslegu vandamálum sem blasa við heimsbyggðinni í dag. Flutningur sjávarlífvera í kjölfestuvatni skipa er talin ein meginástæða þess. Á síðastliðnum árum hafa nokkrar tegundir sjávarlífvera numið land við Ísland, þar á meðal hinn norður-ameríski grjótkrabbi (Cancer irroratus). Farið verður yfir helstu flutningsleiðir sjávarlífvera auk þess sem greint verður frá landnámi grjótkrabbans hér við land.

Erindið er að hluta byggt á  meistaraverkefni Sindra, sem hann vann í samstarfi við Jörund Svavarsson,  Halldór P. Halldórsson í Sandgerði og Snæbjörn Pálsson.

grjotakrabbi_cancer_irroratus.jpgMynd af grjótkrabba er úr safni Líffræðistofnunar (höfundaréttur - copyright). Fleiri myndir af grjótkröbbum og aðrar myndir Sindra má finna á Flickr síðunni Sindrinn.

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.

Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

Gen frá mömmu, pabba og öllum hinum

Í helgarpistlinum "stökkbreyting írskra gena" veltir Jónas Haraldsson (17. feb. 2012, bls. 32) fyrir sér spurningum um uppruna íslendinga og mun á fegurð íra og íslendinga. Hann ber sérstaklega saman fegurð íslenskra kvenna og meintan ófrýnileik írskra karlmanna. Því næst tíundar Jónas uppl ýsingar um erfðafræðilegan uppruna íslendinga, sem honum finnst stangast á við dreifingu fegurðar í þessum hluta Evrópu. Jónas segir:

 

Þar kemur fram að um 60 prósent erfðaefnis Íslendinga er norrænt en um 40 prósent frá Bretlandseyjum. Hið skrýtna er samt að sömu mælingar segja okkur að um 80 prósent erfðaefnis íslenskra karla megi rekja til Noregs og annarra Norðurlanda en um 20 prósent til Bretlandseyja.....

 

...Þegar þetta liggur fyrir hættir maður að skilja. Íslenskar skvísur, fegurðarviðmið víða um heim, eru meira eða minna írskar, upprunalega dætur ljótustu karla í heimi....

....Vill ekki einhver rannsaka það?

Erfðarannsóknir hafa sýnt að 4 af hverjum 5 íslenskum körlum er með Y litning ættaðan frá Noregi. Á sama hátt sýna rannsóknir að u.þ.b. 2 af hverjum 3 hvatberalitningum eru ættaðir frá Bretlandseyjum. Hvatberalitningar erfast eingöngu frá móður og Y litningar eingöngu frá feðrum til sona. En það sem vantar í umfjöllun Jónasar er afgangurinn af erfðaefninu, hinir 23 litningarnir sem bera í sér 98% DNA frumna okkar.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, þessi 98% erfðamengisins, öll hin genin og litningarnir erfast óháð kyni. Það þýðir að erfðasamsetningin stokkast upp í hverri kynslóð. Þannig að þessar írsku ófrynjur sem Jónas lætur sig dreyma um, voru fljótar að umbreytast þegar írsku og norsku genin stokkast saman á þeim fjörtíu kynslóðum sem liðnar eru frá landnámi. Þetta sést best ef við skoðum bókhaldið í smáatriðum. Hvatberalitningurinn, sem erfist bara frá mæðrum, er u.þ.b. 16,570 basar. Y-litningurinn er u.þ.b. 50 milljón basar, en erfðamengi okkar í heild er u.þ.b. 3200 milljón basar.

Að endingu vill ég samt árétta, fyrir mitt leyti a.m.k., að margar írskar konur eru forkunnafallegar og rautt hár íslenskra kvenna mikil prýði. Einnig er ágætt að rifja upp að makaval gengur ekki eingöngu út frá snoppufegurð eða gullnum hlutföllum. Eins valdi stórabóla sér ekki skotmörk með hliðsjón af útliti. Stundum er betra að vera hraustur en sætur.

 

Skýring: Pistlinn þessi er aukinn og bætt útgáfa lesendabréfs sem birtist  í Fréttatímanum 24. febrúar 2012, undir titlinum "Betra að vera hraustur en sætur".

Heimildir

http://genomics.energy.gov/

http://www.ornl.gov/sci/techresources/Human_Genome/posters/chromosome/faqs.shtml


Eðli mannsins

Hvert er eðli mannsins?

Margir hafa velt spurningunni fyrir sér og svörin verið á alla kanta. Tvær öfgafyllstu skoðanirnar eru þær að maðurinn sé óskrifað blað (svokallað tabula rasa) eða að eðli hans sé algerlega ákvarðað af líffræðilegum þáttum (erfðum, breytileika í genum og líffræðileg umhverfi).

Steindór J. Erlingsson fjallar um spurninguna um eðli mannsins í nýlegum pistli (Darwin, Marx og spurningin um mannlegt eðli). Hann segir meðal annars:

 Spurningin um hvort maðurinn fæðist sem óskrifað blað eða hafi eitthvað fast meðfætt eðli var mjög áberandi í pólitískri orðræðu á síðustu öld. Öfgafullar túlkanir á þessum ólíku viðhorfum, sem lituðust t.d. af líffræðilegum hugmyndum og kristinni heimsendatrú, voru hluti af hugmyndafræði frægustu harðstjóra aldarinnar. Hitler framkvæmdi grimmdarverk sín m.a. í nafni bókstaflegrar túlkunar á hugmyndinni um meðfætt eðli, meðan Maó, Stalín, og Pol Pot frömdu glæpi sína m.a. í nafni öfgafulls skilnings á hugmyndinni um að maðurinn fæðist sem óskrifað blað. Hér hyggst ég draga umræðuna um þessa mikilvægu spurningu frá öfgapólunum, sem t.d litaði umræðuna um félagslíffræðina á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Þetta verður annars vegar gert með því að etja saman hugmyndum Charles Darwin, föður þróunarkenningarinnar, og Karls Marx, helsta hugmyndasmið kommúnismans, og hins vegar með því að velta upp spurningunni hvernig hægt sé að skýra hið mikla trúarlega bil sem er á milli Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna.

Hann spinnur einnig inn í umræðuna rannsóknir á kirkjusókn og trúhneigð í mismunandi löndum:

Með þessa vitneskju að vopni könnuðu þeir [Gill og Lundsgaarde] tengslin á milli ríkisrekins velferðarkerfis og trúarþátttöku og trúhneigðar í Filippseyjum, Ástralíu, Bandaríkjunum, 16 Evrópulöndum og 8 Suður-Ameríkulöndum, og komust að því að þau eru tölfræðilega sterk. Þetta felur í sér að lönd með hærri velferðarútgjöld á hvern einstakling hafa tilhneigingu til minni trúarþátttöku og hafa venjulega hærra hlutfall ótrúaðra einstaklinga. Af þessum sökum draga Gill og Lundsgaarde þá ályktun að „fólk sem býr í löndum með mikla velferðareyðslu hefur minni tilhneigingu til þess að leita huggunar í trúarbrögðum, vitandi að ríkið muni hjálpa þeim þegar áfall dynur yfir“.

Ég mæli með að þið lesið grein Steindórs í heild sinni. Og ef þið hafið tíma, bók Michael Shermers Believing brain, sem ég vonast til að geta rætt hér í náinni framtíð.

Ítarefni:

Steindór J. Erlingsson  Darwin, Marx og spurningin um mannlegt eðli Þriðjudagur, 21 Febrúar 201


ORF Líftækni: frá vísindum í vöru

Björn Örvar framkvæmdarstjóri ORF líftækni mun halda erindi föstudaginn 24. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10), á vegum líffræðistofu HÍ.

Í fyrirlestrinum verður farið yfir rúmlega 10 ára sögu ORF Líftækni, allt frá því að hugmynd kviknaði um stofnun fyrirtækis í plöntuerfðatækni að markaðssetningu vöru á neytendamarkaði. Fjallað verður um Orfeus framleiðslukerfi fyrirtækisins sem byggir á því að nota bygg sem "verksmiðju" fyrir smíði vaxtarþátta og annarra próteina, vísindin að baki,  íslenskt nýsköpunarumhverfi, árangur á markaði o.m.fl.

bjornorvar2012.jpgMynd. Björn Örvar.

Föstudagsfyrirlestrar líffræðistofu eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.

Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Erindi: Fléttur og óstöðug erfðamengi

Nokkur spennandi erindi á sviði náttúrufræða og erfðafræði eru á döfunni:

Stephen Meyn fjallar um óstöðugleika erfðamengis og sjúkdóma því tengdu

Miðvikudaginn 22. febrúar klukkan 12-13.

Stephen mun ræða um óstöðugleika erfðamengis og tvo sjúkdóma því tengdu, Fanconi anemia og ataxia telangiectasia. Í erindi sínu mun hann leggja sérstaka áherslu á sameindalíffræðilegar hliðar þessara sjúkdóma.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 343, Læknagarði, og verður fluttur á ensku. Allir velkomnir.

Fræðsluerindi Náttúrustofanna "Samanburður breytinga á stofnum lunda og sílis við Ísland og í Norðursjó

Fimmtudaginn 23. febrúar nk. kl. 12:15-12:45 flytur Erpur Snær Hansen, líffræðingur á Náttúrustofu Suðurlands erindi.

Á sama tíma verður flutt erindi um erfðamengi samlífis.

Fyrirlesari: Ólafur Andrésson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Heiti erindis:  Erfðamengi samlífis: Hvað býr hið innra með fléttum?
 
Erindið verður haldið fimmtudaginn 23. febrúar kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar á Keldum.
Enda þótt fléttur séu víða áberandi og hafi mikla þýðingu í mörgum vistkerfum auk þess að vera sérlega áhugaverðar þróunarfræðilega, þá hefur enn ekkert erfðamengi fléttu verið birt. Við erum því í ákjósanlegri aðstöðu til að vinna ítarlega lýsingu á erfðamengi, umritamengi og próteinmengi fléttusamlífis. Í heild munu þessar upplýsingar veita djúpan og margbrotinn skilning á fléttusamlífi og þróun þess og leggja grunn fyrir frekari rannsóknir, svo sem á efnaskiptamengi, efnaflæði, smíði kerfislíkana og prófun þeirra. Auk þess gefast tækifæri til að greina ný efni og hvernig þau eru framleidd.
Efniviður rannsóknanna er himnuskóf (Peltigera membranacea) sem safnað er í Keldnagili. Gerð verður stutt grein fyrir hvernig erfðamengi fléttunnar og umritunarmengi (mRNA) hafa verið raðgreind og hvers konar ályktanir má draga af því, m.a. um eðli samlífisins. Einnig verður gerð grein fyrir óvenjulegu efni sem fundist hefur í fléttunni. 

Eilífðarsmáblóm í tímavél

Sumar plöntur mynda mjög harger fræ sem endast áratugi, og spíra oft löngu eftir að foreldri þeirra runnu sitt skeið. Tilgátur eru uppi um að þetta sé leið plantna til að dreifa áhættunni, þrauka erfið ár eða kuldaskeið. Ef veðrátta er nægilega rysjótt eða umhverfi óstöðugt, þá mun veljast fyrir eiginleikum sem tryggja að fræin spíri ekki öll á sama tíma, heldur muni sum liggja í dvala lengur en önnur.

Hins vegar er ljóst að venjuleg fræ geta ekki legið í dvala í 30.000 ár. Ávextirnir sem rússnesku vísindamennirnir fundu árið 2007 í sífrera voru heldur ekki með fullþroskuð fræ. Lykillinn virðist hafa verið íkornar sem söfnuðu ávöxtum í forðabúr sín, þar sem þeir frusu og héldust frosnir til dagsins í dag. Tilraunir til að fá fræin til að spíra lukkuðust ekki, en vefjarækt kom þá til bjargar.

Vefjarækt gengur út að fá frumur plantna, t.a.m. úr fræbelg eða laufblaði, til að fjölga sér og mynda nýjan einstakling. Plöntur eru merkilegar að því leyti að þær má einrækta á þennan hátt (margar plöntur gera þetta alveg sjálfar!), og þetta hefur verið notað markvisst í plöntukynbótum.

Þetta er í fyrsta skipti sem tekst að lífga við smáblóm sem lá í sífreranum. Margir hafa reynt að koma til gömlum fræjum sem fundist hafa á túndrunni, og e.t.v. fundu rússnesku líffræðingarnir hér leið til að ferðast um tímann. Rannsóknir sem þessar gefa okkur nefnilega tækifæri á að skoða eiginleika, erfðir og líffræði tegunda sem nú eru horfnar (eða allavega breyttar).

Þannig getum við kannað eiginleika eilífðarsmáblóms sem afhjúpast okkur í kjölfar merkilegs ferðalags. Það er skemmtilegt að hugsa til þess að íkornar voru við stjórnvölin á tímavélinni.

Leiðréttingar á orðalagi.

Eins og Benjamín benti á þá eru "loðnir einhyrningar" reyndar "loðnir nashyrningar" (woolly rhinoceros), sbr. einhyrningar og mammútar frá tímum mammúta

"kornum ávaxtanna" á líklega að vera "fræ ávaxtana"

"mammútar" eru "loðfílar"

Einnig er erfitt að skilja að það "fundust smávægileg frávik í formi blaðanna og kyns blómanna"? Í útgáfu BBC, sem var þýdd hér nánast hugsunarlaust, er sagt " found subtle differences in the shape of petals and the sex of flowers". Mér þykir líklegast að um sé að ræða mun á kynvef plantnanna, en hvorki BBC (Richard Black environmental correspondent) né mbl.is (NN) reyna að útskýra það almennilega.

Ítarefni:

Pistill Ed Young (Not exactly rocket science) um þetta efni: Flowers regenerated from 30,000-year-old frozen fruits, buried by ancient squirrels

BBC 21. febrúar 2012  Frozen plants spring back to life

Frumheimildin:

Yashina, Gubin, Maksimovich, Yashina, Gakhova & Gilichinsky. 2011. Regeneration of whole fertile plants from 30,000-y-old fruit tissue buried in Siberian permafrost. PNAS http://dx.doi.org/10.1073/pnas.1118386109


mbl.is Ræktuðu upp úr 30.000 ára ávexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkaminn sem vígvöllur

Mannslíkaminn hefur verið sýndur á RÚV síðustu mánudagskvöld. Í kvöld er síðasti þátturinn í þessari vönduðu BBC þáttaröð, sem heitir "inside the human body" á frummálinu. Í þáttunum hefur verið kafað í byggingu og starfsemi mannslíkamans, hvernig hann þroskast og breytist þegar við eldumst eða skiptum um umhverfi.

Í kvöld verður fjallað um lífsbaráttuna, hvernig líkaminn verst útfjólubláum geislum, rándýrum eða sýklum. Líkaminn er nefnilega með margskonar leiðir til að verja sig. Þeir einstaklingar sem bjuggu yfir hæfileika til að gera við galla í DNA vegna geislunar, höfðu nefnilega meiri hæfni en þeir sem gátu ekki lagað DNA. Þannig þróuðust DNA viðgerðarkerfi fyrir mörg hundruð milljón árum, meðan við* vorum ennþá einfrumungar. Gersveppir, plöntur og allir hópar dýra eru nefnilega með sömu DNA viðgerðarkerfin, þótt sannarlega hafi þau slípast örlítið til síðan þá!

Hræðsla sem vörn

Við forðumst líka hættur með því að flýja. Ef ljón birtist í stigaganginum þínum, er viturlegt að flýja upp stigann og inn í íbúðina. Eða ef hópur snælduvitlausra hermanna nálgast bæinn þinn (gildir einu hvort hann heiti Homs, Grozny eða Falluja), er ansi skynsamlegt að forða sér á hlaupum. Hræðsla er nefnilega þróunarlegt svar, sem hjálpar okkur að lifa af. Eins bregðumst við undurhratt við þegar við snertum heita pönnu eða kaktus.

En sýklar eru ein alvarlegasta ógn sem steðjar að líkama okkar. Við, hin dýrin og plöntur erum nefnilega ansi girnilegir fæðusekkir, sem bakteríur, sveppir og frumdýr vilja gera sér að góðu. Varnir líkamans gegn sýklum eru margskonar, húðin er t.d. þéttofin skrápur sem er endurnýjaður jafnóðum. Ef bakteríur eða sveppir ná að koma sér fyrir í húðinni, þá mun hin hraða endurnýjun húðarinnar ýta þeim frá okkur, uns þeir losna af með húðflögunum. En um leið og sár myndast þá stökkva sýklarnir á tækifærið. En líkaminn ræsir líka sitt eigið varnarlið. Ónæmiskerfin, hið náttúrulega og frumubundna, fara í gang þegar húðin rofnar. 

Náttúrulega ónæmiskerfið byggir á prótínum af mörgum gerðum, sem hvert um sig vinnur á bakteríum, veirum og sveppum á sinn hátt. Til eru prótín sem loða við fituhimnur baktería, og rjúfa þær þannig að innvols bakteríanna lekur út. Önnur prótín hremma allt laust járn og takmarka þannig fjölgunarhæfni bakteríanna. Eggjahvíta í hænueggjum er stappfull af albúmínum sem hremma járn, þannig að jafnvel þótt að bakteríur komist inn í eggin þá geta þær ekki fjölgað sér. Járn er nefnilega bráðnauðsynlegt snefilefni, jafnt mönnum sem bakteríum! Eggjahvíta var notuð til lækninga í gamla daga, einmitt vegna þessara eiginleika. Lactalbúmín í móðurmjólk hremmir einnig járn og sveltir þannig bakteríur sem reyna að sýkja barnið.

Líkaminn sem vígvöllur

En pestirnar hafa einn ávinning fram yfir okkur. Á meðan það tekur okkur 15-30 ár að fjölga okkur, þá fjölgar E. coli sér á 24. mínútum. Þannig að þróun varnarkerfa okkar gerist á margfalt hægari skala en vopnabúr bakteríanna. Við búum að reynslunni, sem liggur í náttúrulega ónæmiskerfinu en ekki síst í hinu sveiganlega frumubundna ónæmiskerfi. Það byggir á mótefnum, átfrumum og minnisfrumum sem gefur líkamanum tækifæri til varnar. Þau kerfi skrá sýkla í samhæfðan gagnagrunn líkamans, sem man eftir sýklunum og kalla síðan út samhæft lið margra frumugerða.

En sýklarnir þróast mjög - mjög - mjög hratt. Sýklarnir þurfa að hafa ákveðna eiginleika sem gera þeim kleift að sýkja einstaklinga, en verða líka að geta af sér afkomendur. Það er oft togstreita á milli þessara þátta. Eiginleikar sem gera þér kleift að sýkja hýsil, eru ekki þeir sömu sem gera þér kleift að fjölga þér mjög hratt. Náttúrulegt val er því að tosa sýkilinn í ólíkar áttir, eftir því hvort að hann er að fjölga sér innan einstaklings eða að reyna að sýkja næsta einstakling.

Því er oft haldið fram að það sé ekki sýklinum í hag að gera hýsilinn mjög veikann eða drepa hann. Þetta á bara við ef fjölgunarhæfileiki sýkils veltur á heilsu hýsils. Tökum tvö dæmi. Kvefpest sem leggur menn í rúmið á 1 klst. getur ekki viðhaldist, vegna þess að veiran þarf að komast frá einum hýsli til annars. Það er ekki henni í hag að veikja hýsilinn of mikið.

Mýrarköldusníkjudýrið hefur hins vegar hag af því að leggja hýsil sinn láréttann. Því það þarfnast bits moskítóflugu til að komast á milli hýsla. Ef hýsillinn er of hress, þá slær hann frá sér flugur og fjölgunarhæfni sýkilsins dvínar. Það er því mýrarköldunni í hag að veikja mótspyrnu hýsilsins.

Einnig er hýsillinn oft sýktur af fleiri en einni pest í einu. Ef malaría, kvef og clamidía eru öll að fjölga sér í sama einstaklingi, þá skiptir máli að viðkomandi pest hraði fjölgun sinni sem mest og hoppi frá borði áður en hýsillinn fer að næra grænar torfur. Það má vera að þetta sé ástæðan fyrir því að frunsur blossi upp við stress eða veikindi. Veiran, herpes simplex, liggur nefnilega í dvala dags daglega en blómstrar aðeins annað slagið.

Þróunarkenning Darwins er nefnilega ansi víðfemt fyrirbæri, sem hjálpar okkur ekki bara að skilja form vængja ávaxtaflugnanna og hegðun kjóans, heldur einnig stríð líkamans og sýkla.

Ítarefni:

George C. Williams og Randolph M. Nesse  Why We Get Sick: The New Science of Darwinian Medicine

Mikilvægi þróunkenningarinnar fyrir læknisfræði

*þá meina ég forfeður okkar.


Litli vísindamaðurinn og voldugi risinn

Vísindamenn stunda rannsóknir og kynna fyrir öðrum með erindum, bókum en aðallega ritrýndum vísindagreinum.

Það felur í sér að vísindamaðurinn skrifi skýrslu um rannsókn sína, með inngangi, aðferðalýsingu, niðurstöðum og ályktunum. Allt þarf þetta að vera samkvæmt ströngustu reglum, vitna þarf rétt í heimildir, hanna tilraunir og rannsóknir sem best, vinna úr gögnum af heiðarleika og framkvæma ströngustu tölfræðipróf. Einnig þurfa ályktanir að vera í samræmi við niðurstöður og varast skal allar rang- og oftúlkanir.

Vísindamenn birta greinar þessar í fagtímaritum, sem ákveðin fræðafélög eða útgefendur sjá um að gefa út. Höfundar senda inn handrit sín, og útgefandinn fær i) faglega aðilla til að rýna og meta rannsóknina, ii) býr hana til prentunar, iii) prentar og iv) dreifir á bókasöfn og fagaðilla. Útgefandinn var stundum sjálfseignar fagfélag, en algengara var að einkafyrirtæki sæi um þennan hluta ferilsins Í langflestum tilfellum afsala vísindamenn sér höfundarétti til útgefenda.

Nú er svo komið að sumir útgefendur eru orðnir nokkuð stórir, Elsevier er einn slíkra útgáfurisa í heimi vísindanna. Hagnaður Elsevier árið 2010 var 1,1 milljarður bandaríkjadala (36% af veltu). Peningar koma til útgáfufyrirtækjanna frá háskólum og fyrirtækjum sem kaupa áskriftir að vísindaritum.

Starfsfólk útgefenda eru yfirritstjórar, og fólk sem sér um uppsetningu greina, rafræna útgáfu og markaðshluta. En faglegi hlutinn er í höndum sjálfboðaliða úr röðum vísindamanna. Fagritstjórar og yfirlesarar eru vísindamenn sem gefa vinnuna sína, byggt á þeirri heimspeki að allir þurfi að leggja sitt af mörkum. Einnig fylgir því orðstír að lesa yfir greinar hjá góðu vísindariti, og sérstaklega ef fólki er boðin staða ritstjóra. Sumir vísindamenn fá bónus frá sinni heimastofnun ef þeir eru skipaðir ritstjórar.

Staðan er því þannig að útgefandinn birtir vísindagreinar (sem höfunda afsala sér rétti á), fær aðra vísindamenn til að lesa þær yfir (að kostnaðarlausu) og selur síðan enn öðrum vísindamönnum aðgang að greinunum. Lögfræðingar myndu aldrei semja svona af sér.

Litli vísindamaðurinn hefur loksins gripið til mótaðgerða. Stofnuð hafa verið ný gal-opin vísindatímarit  (eins og PLoS biology) og einnig hHafa stærðfræðingar skipulagt andóf gegn Elsevier. Nú hafa rúmlega 5700 vísindamenn staðfest að þeir vilji ekki birta í, lesa yfir né ritstýra tímaritum Elsevier. 

Einnig liggja fyrir bandaríkjaþingi drög að lögum sem tryggja að niðurstöður ALLRA rannsókna sem almenningur (ríkið) borgi fyrir séu aðgengilegar ÖLLUM vísindamönnum og samfélaginu í heild. Það orkar nefnilega tvímælis, að ríkið borgi fyrir rannsóknirnar og svo aftur fyrir að fá aðgang að niðurstöðunum.

Heimildir og ítarefni:

NYTIMES THOMAS LIN Mathematicians Organize Boycott of a Publisher 13 febrúar 2012

Undirskrifarlisti gegn Elsevier   The cost of knowledge

Herkvaðning stærðfræðingsins Timothy Gower

Eldri pistlar okkar um skyld efni:

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna)

Eftirskrift um fyrirsögn. Titilinn er sannarlega orðaleikur, og fjarri því að vísindamenn séu máttlausar brúður og útgefendur vondir risar. Þeir eru bara fyrirtæki sem reynir að þrífast, afla tekna og hagnast. Engu að síður er mikilvægt að endurmeta það hvernig niðurstöður vísindarannsókna er komið á framfæri, með hliðsjón af aukinn meðvitund um opinn aðgang og minni prentkostnað.


Háskóladagurinn í Öskju 18. febrúar

Síðustu þrjú ár höfum við í líffræðinni opnað tilraunastofur okkar í Öskju á Háskóladeginum. Það hefur virkað mjög vel, við fengum mikið af gestum bæði framhaldskólanema og fjölskyldufólk.

Hveljurannsoknir_FannarTheyr

Í ár ætlum við að vera með svipaða dagskrá (milli 12 og 16 í þann 18. febrúar í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ - gengið er inn Norrænahús megin):

 

 

 

  • Við sýnum nýjasta landnema við Ísland - grjótkrabbann
  • Við sýnum örverur, erfðabreytta sveppi og klónaðar plöntu
  • Sýndar verða höfuðkúpur mismunandi dýra, frá hrefnu til manns
  • Hægt að spreyta sig á því að einangra DNA úr lauk
  • Við sýnum verkfæri og aðferðir sem notaðar eru við rannsóknir á fiskistofnum
  • Fólk fær að kynnast DNA örflögum sem skoða tjáningu allra 21000 gena í erfðamengi okkar í einu
  • Dýrafræðingarnir sýna fuglshami, furðulega hryggleysingja og tennur úr hákarli.

visindavaka_2332.jpg

augndiskur Háskóladagurinn í HÍ verður í fleiri byggingum og í Öskju bætast við félagar okkar á Verk og náttúruvísindasviði.  Meðal þess sem er á boðstjólum eru: 

  • Vélaverkfræðinemar sýna líkan að kappakstursbíl sem þeir eru með í smíðum, einnig verður keppnisbrautin í hönnunarkeppninni til sýnis.
  • Byggingarverkfræðinemar kynna burðarþol brúa með skemmtilegum hætti.
  • Nýstárlegar kynningar verða á stærðfræði og eðlisfræði.
  • Jarðvísindamenn kynna tækjabúnað sem þeir nota á eldfjallavaktinni.
  • Grillaðar pylsur í boði frá hádegi og meðan birta leyfir.

Mynd 1. Fannar Þeyr Guðmundsson - tekin í Eyjafirði við rannsóknir. Mynd 2. tekin á vísindavöku 2010, af yðar æruverðugum. Mynd 3. Taugar og stoðfrumur í auga ávaxtaflugu´- mynd og copyright Sigríður Rut Franzdóttir.


Hræðilegt ástand fjölmiðla í íslenskri sæborg

Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur hefur kannað umfjöllun íslenskra prentmiðla um líftækni og skyld efni. Hún gerði þessu skil í kafla í bókinni Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika (2011). Bókin er hreinasta gersemi, þar sem Úlfhildur samþættir lítækni, bókmennta og poppkúltúr og veltir um leið upp siðferðilegum og praktískum spurningum um líkama og tækni.

Úlfhildur hélt erindi fyrir líffræðina í lok síðustu viku (Gengur skrímslið laust? Líftækni í ljósi bókmennta) og kom þá örlítið inn á það hvernig íslenskir prentmiðlar fjalla um líftækni. Hún viðhafði stór orð, sagði að umfjöllunin væri hörmung. Ályktun hennar er rækilega studd dæmum sem finna má í bókinni (og fleiri hundruð síðum sem fjarlægðar voru af ritstjóra). En hafi umfjöllun fjölmiðla verið döpur þá var orðaræðan sem greina má í skjölum (ræðum) alþingis um líftækni fyrir neðan allar hellur.

Guðrún Elsa (á druslubækur og doðrantar) segir í pistli:

Tveir síðustu kaflar bókarinnar eru um fræðilega og almenna umfjöllun um sæborgina á Íslandi, en þar færist áherslan yfir á líftækni. Síðasti kaflinn er sérstaklega skemmtilegur, en þar einbeitir Úlfhildur sér að umfjöllun um líftækni og tæknimenningu í íslenskum dagblöðum. Hún beitir orðræðugreiningu til að skoða hvernig fjallað er um þessi efni og veltir því fyrir sér hvort umfjöllunin sé upplýst/upplýsandi og hvernig skáldskapur móti hugmyndir okkar um þessi fyrirbæri. Raunar er fjallað töluvert um það fyrr í bókinni hvernig skáldskapur og raunveruleiki eiga í samræðu þegar kemur að sæborginni og sæborgskum fyrirbærum, en hér fáum við nokkur áhugaverð konkret dæmi. Í kaflanum ber hún íslensk blaðaskrif saman við umfjöllun um líftækni í The Guardian (mjög vandræðalegur samanburður), auk þess sem hún skoðar umræður tengdar líftækni sem farið hafa fram á Alþingi undanfarin ár (annarsvegar um gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar, hins vegar um rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum). Þennan kafla ættu áhugamenn um fjölmiðlun endilega að lesa, hann er fyndinn og svo afhjúpar hann líka hvað íslenskur fréttaflutningur getur verið hrikalega yfirborðskenndur. [feitletrun AP]

Á þessu bloggi höfum við nokkuð oft farið í þann leik að leiðrétta einstakar fréttir, benda á mistök og mistúlkanir. Hér höfum við safnað góðum slatta af dæmum um skelfilega einfaldar þýðingar, misvísandi fyrirsagnir og hráar eftirprentanir fréttatilkynninga, á mbl.is, visir.is og fleiri miðlum. 

Vandamálið birtist á nokkra vegu.

Grípandi fyrirsagnir ofar efni.

Deila tveggja aðilla, hann segir : hún segir, þar sem fréttamaður hefur hvorki getu né metnað til að greina rétt frá röngu.

Sama fréttin birtist tvisvar á sama miðli, undir mismunandi titlum.

Ekkert samhengi er milli frétta um sama efni.

Nýjungar eru ekki settar í stærra samhengi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband