Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Orsakir á huldu

Hverjar eru orsakir einhverfu?

Erfðafræðin segir okkur að sumir eiginleikar hafi hátt arfgengi, en flestir séu flóknari en það. Er einhverfa því tilkomin vegna i) erfða, ii) umhverfis, iii) samspils erfða og umhverfis eða jafnvel iv) tilviljunar?

Gögnin benda til að einhverfa sé að aukast, og það mælir gegn möguleikum i) og iv).

Er þá umhverfið aðal ástæðan fyrir einhverfu, jafnvel í gegnum eitthvað samspil við erfðaþætti, sem myndu gera suma útsettari fyrir þessum óskunda?

Fimmti möguleikinn er einnig fyrir hendi. Að við séum orðin of dugleg að greina einkenni og að ris í tíðni sé bara afleiðing þess að við beitum nýrri mælistiku á hegðan fólks.

Ég mun ekki rekja þessa umræðu ítarlegar hér en vísa til fróðari manns. Steindór Erlingsson fjallar um breytingar á mælistikum amerísku geðlæknasamtakanna á innihald.is (Er sorg þunglyndi?). Samtökin eru að velta fyrir sér að sjúkdómsvæða sorgina. Steindórs egir:

Í þessu sambandi má spyrja hvort sorgarviðbrögð við fráfall maka eða náins ættingja séu í raun þunglyndi . Samkvæmt DSM-IV má ekki greina einstakling sem upplifir slíka sorg með þunglyndi, þó hann uppfylli greiningarskilyrði, fyrr en eftir tvo mánuði. Í DSM-III var tímabilið eitt ár. Nú stendur hins vegar til að fella sorgarundanþáguna út úr DSM-5 og því má greina einstakling með þunglyndi tveimur vikum eftir t.d. fráfall maka.

Ítarefni:

Skyldur pistill Steindórs um Athyglisbrest: Er staðhæfing ADHD samtakanna rétt?

A.Pálsson Genadýrkun

 

 


mbl.is Börnum með einhverfu fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt vísindasamfélag, rannsóknir og efling samkeppnissjóða

Í Fréttablaði dagsins (28. mars 2012) birtist grein eftir fjóra vísindamenn með fyrirsögnina Íslenskt vísindasamfélag, rannsóknir og efling samkeppnissjóða.

Höfundar eru Eiríkur Steingrímsson, Hannes Jónsson, Magnús Karl Magnússon og þórólfur Þórlindsson prófessorar við Háskóla Íslands. Greinin er birt að neðan hér með áætluðu vilyrði höfunda.

Samhliða greininni var efnt til undirskriftarlisti á vefnum til að hvetja stjórnvöld til þess að efla samkeppnissjóði vísinda og tækniráðs.

-----------------------

Undanfarna áratugi hafa orðið stórstígar framfarir með tilliti til gæða og árangurs í íslensku vísindastarfi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað; nýjar fræðigreinar hafa rutt sér til rúms, og þverfaglegar rannsóknir hafa dafnað. Þessu samhliða hefur námsframboð á háskólastigi aukist og rannsóknartengdu framhaldsnámi verið hleypt af stokkunum - doktorsnámi. Á sama tíma hafa orðið til öflugar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki sem ráða til sín vel þjálfað starfsfólk. Samheiti alls þessa er íslenskt vísindasamfélag.

Ísland á marga öfluga vísindamenn en forsenda fyrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi eru tækifæri og fjármagn sem gera þeim kleift að stunda rannsóknir hér á landi. Undanfarin ár hafa rannsóknarhópar á ýmsum sviðum eflst og sótt rannsóknarfé til útlanda, oft í samstarfi við erlenda vísindamenn. Uppbygging slíkra hópa hefst hér heima og því er nauðsynlegt að búa íslenskum vísindamönnum hagstæð skilyrði, bæði með tilliti til eflingar rannsókna en þó ekki síst nýliðunar, til að tryggja eðlileg kynslóðaskipti.

Rannsóknartengt framhaldsnám á sér stutta hefð á Íslandi. Aðeins rúmur áratugur er síðan farið var að mennta doktora á Íslandi með formlegum hætti en fyrir þann tíma luku flestir Íslendingar slíku prófi erlendis. Það er eðlileg þróun að bjóða upp á rannsóknartengt framhaldsnám hér á landi en þar þarf að standa vörð um gæði.

Áhrif hrunsins á bæði háskóla og vísindasamfélag eru kunn. Það er hins vegar vert að benda á að jafnvel fyrir hrun voru framlög í opinbera samkeppnissjóði langtum lægri hér á landi en meðal annarra þjóða sem við berum okkur saman við. Undanfarin þrjú ár hefur árangurshlutfall í Rannsóknasjóði - eina opna samkeppnissjóði landsins á sviði rannsókna - verið á bilinu 14-17%. Það þýðir að á sama tímabili hefur um 83-86% umsókna verið hafnað. Allar götur frá stofnun sjóðsins (2004) hefur þörfin fyrir hann aukist, enda hækkar sífellt sú upphæð sem sótt er um. Á sama tíma hefur styrkjum hins vegar fækkað en sjóðurinn hefur veitt um 37-47 nýja styrki á ári undanfarin þrjú ár. Umsóknir eru vel á þriðja hundrað.

Nú er svo komið að sjóðurinn hefur jafnvel ekki ráð á að

styrkja umsóknir sem lenda í efsta gæðaflokki. Þetta er afleit þróun enda öðru rannsóknarfé í opinni samkeppni vart til að dreifa. Og jafnvel þótt Rannsóknasjóður veiti hæstu styrki sem veittir eru til rannsókna hér á landi eru þessir styrkir ekki nema hálfdrættingur á við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og brot af því sem gerist í Bandaríkjunum. Loks er þess að geta að af því fé sem ríkið leggur í rannsóknir og þróun fara einungis um 15% sem í opna samkeppni; leitun er að lægra hlutfalli.

Rannsóknasjóður veitir styrki annars vegar á grundvelli almennra áherslna Vísinda- og tækniráðs og hins vegar að undangengnu faglegu mati. Sjóðurinn er opinn samkeppnissjóður sem þýðir að vísindamenn koma sjálfir með hugmyndir að rannsóknum sem svo eru settar í dóm annarra vísindamanna í svonefndu jafningjamati (peer review). Auðvitað eru umsækjendur missáttir þegar niðurstöður styrkveitinga eru birtar ár hvert - annað væri óeðlilegt - en þegar úthlutunarhlutfall er langt innan við 20% og jafnvel umsóknir sem raðast í efsta gæðaflokk fá synjun um styrk er úr vöndu að ráða.

Matskerfi Rannsóknasjóðs hefur tekið miklum breytingum undanfarin fimm ár; nú eru til að mynda allar umsóknir metnar erlendis áður en fagráð taka þær til umfjöllunar og raða endanlega fyrir stjórn. Í hverju af fjórum fagráðum Rannsóknasjóðs eiga sæti sjö sérfræðingar og eru fimm þeirra Íslendingar en tveir erlendir sérfræðingar. Mikið hefur verið gert til að bæta matsferlið og efla tiltrú umsækjenda (og vísindasamfélagsins alls) á úthlutunum. Hætt er þó við að lágt úthlutunarhlutfall bregði skugga á allt það óeigingjarna starf sem ytri sérfræðingar og fagráðsmenn auk stjórnar sjóðsins leggja á sig til að tryggja faglega afgreiðslu. Jafningjamat er ekki gallalaust kerfi en er það skásta sem við höfum.

Ef Íslendingar hyggjast áfram ná árangri á sviði rannsókna er bara eitt til ráða: efling samkeppnissjóða. Sanngjarnari leið til þess að efla rannsóknir er ekki til. Ýmislegt hefur verið reynt en hvergi hefur raunverulegur árangur náðst þar sem vísindamenn hafa ekki tækifæri til þess að leggja verk sín í dóm jafninga og fjármagna rannsóknir sínar í gegnum samkeppnissjóði. Rannsóknarstyrkir eru auk þess undirstaða rannsóknarnáms; þeir eru nýttir til að þjálfa nemendur og greiða laun þeirra. Rannsóknir eru forsenda fyrir öflugri nýsköpun og mikilvæg leið til raunverulegrar uppbyggingar á nútíma samfélagi.

Við skorum hér með á stjórnvöld að efla Rannsóknasjóð og gera honum kleift að stuðla að raunverulegri uppbyggingu á rannsóknum á Íslandi. Framtíð rannsókna og nýsköpunar á Íslandi er í húfi.


Rafrænt frelsi í Reykjavík

Ertu frjáls í netheimum?

Hvaða forrit eru ókeypis og hver ekki?

Hvað er opinn aðgangur?

Þetta eru dæmi um spurningar sem tengjast rafrænu frelsi og aðgengi að gögnum.

Opinn aðgangur fjallar um óheftann, ókeypis aðgang að bókum, vísindagreinum, forritum og gögnum. Þessi hreyfing er erlend að uppruna, á sér rætur í heimspeki vísinda, þar sem niðurstöður og gögn eiga að vera öllum aðgengileg. Ef einhver heldur því fram að seyði af plöntu X lækni sjúkdóm Y, þá þarf að lýsa vandlega rannsókninni og niðurstöðunum sem liggja til grundvallar. Ein fullyrðing er ekki nóg fyrir vísindamenn, heldur er krafan sú að aðrir fái sömu niðurstöðu þegar tilraunin er endurtekin. Hérlendis vinnur hópur fólks að opnum aðgengi og netfrelsi openaccess.is/.

Tveir aðillar (openaccess.is og Félag um stafrænt frelsi) standa fyrir málþingi næsta fimmtudag (29. mars 2012) í Bíó Paradís.

Ráðstefnan heitir Reykjavik digital freedoms conference: A Conference on Open Access and Digital Rights. Sem útlegst líklega sem ráðstefna um rafrænt frelsi í Reykjavík: um opinn aðgang og rafræn réttindi.

Til fundarins var boðið erlendum þungaviktarmönnum (þetta eru Alma Swan og Glyn Moody). Alma er leiðandi í opnu vísindastarfi, sem fjallar um varðveislu, dreifingu og aðgengi að vísindalegum upplýsingum og þekkingu. Glyn er blaðamaður sem hefur fjallað um opinn hugbúnað, og rafræn réttindi. Dagskráin er þessi:

Það er ótvírætt hægt að mæla með fundinum, sem verður örugglega hinn fróðasti. Sem betur fer er ég búinn að kenna í bili og á lausa stund...

Ítarefni og skylt.

Iceland a haven of opennes : Glyn Moody 12. mars. 2012.

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna

Hvar er genið mitt tjáð?


Bók um almenna fávisku

Frekar fáir fjölmiðlamenn fatta að þekking og staðreyndir eru skemmtilegar. Þeir halda flestir að fólk vilji bara fá spennu, dramatík og brandara í sjónvarpið sitt (tölvuna eða snjallsímann). En sagan (sjónvarpssagan amk) sýnir að fólk þrífst einnig á góðu fræðsluefni. Það kitlar forvitni, skemmtir og kveikir tilfinningar engu síður en sögur um danska kúkalabba eða lögulegum læknanemum.

Hérlendis er reyndar gaman að því hversu vinsælir heimildaþættir RÚV á mánudögum eru vel liðnir (hin undursamlegu köldu heimskaut er nýjasta dæmið). Einnig sýna vinsældir spurningaþáttanna Gettu betur, Útsvars og Spurningabombunar að íslendingar hafa gaman að staðreyndum, eða allavega því þegar fólk reynir með sér í þekkingu.

Spurningaþættir eru reyndar merkilegir að því leyti að stundum er spurt um fáránlegar staðreyndir. Og þeir sem kunna margar staðreyndir eru ekki endilega skynsamir eða með góða þekkingu.

b006ml0gUppáhaldspurningaþátturinn minn QI er sýndur á BBC. Stephen Fry er stjórnandi, en höfundar efnis eru fjölmargir (m.a. John Lloyd og John Mitchinson). Þemað í þættinum eru staðreyndir, en keppendur fá einnig stig fyrir fyndin eða forvitnileg svör. Keppendur eru flestir grínistar og listamenn, kvikir í huga og snjallir í andsvörum. Alan Davies hefur verið gestur í öllum þáttunum sem ég hef séð, og er hrókur alls fagnaðar (vinstra megin á myndinni, SF er hægra megin, mynd af vef BBC).

Aðal brellan í þættinum er sú að þeir sem giska á augljóst (en vitlaust) svar fá mínus stig.

Spurningarnar fjalla nefnilega ekki endilega um staðreyndir sem fáir vita, heldur um eitthvað sem við höldum að sé staðreynd - en er rangt! Þannig afhjúpast almenn fáviska (general ignorance). Þetta er reyndar kjarninn í vísindalegum vinnubrögðum, að afsanna tilgátur (eða almenna fávisku). 

Charles Darwin orðaði þetta ágætlega:

Þátturinn er nú á tíunda ári, og hefur spannað viðfangsefni frá A til H (þeir eru búnir með Ísland). Jónarnir tveir (Lloyd og Mitchinson) unnu upp úr spurningum þáttarins samantekt um atriði sem við héldum að við vissum en reyndust röng. Saman mynda þau bók um almenna fávisku (Book of general ignorance). Dæmi:

Úr hverju er kaffi búið til? (Ekki baunum heldur fræjum)

Hvað eru mörg boðorð í biblíunni?  (Ekki 10, heldur allt að 613)

Hversu margar gerðir af skynjunum (lykt, bragð...) eru menn með? (ekki 5, heldur amk 9...sumir segja 21!)

Hverjir gleyma á 3. sekúndum? (ekki gullfiskar, þeir eru þrælgreindir og hafa meira að segja lært á matarskammtara)

Hver er þurrasti staður á jörðinni? (Ekki Sahara, heldur Þurrudalir (Dry valleys) á Suðurskautslandinu).

185px-qi-book.jpgJónarnir tveir eru titlaðir fyrir verkinu, en það er bersýnilega afurð breiðari hóps því dæmin spanna sögu, landafræði, jarðfræði, líffræði og læknisfræði.  Það er slatti af sérenskum atriðum, byggð á sögu eða tungumáli, sem auðvelt er að fletta yfir ef áhuginn dofnar. Önnur viðfangsefni eru ekki nægilega vandlega unnin, sumar fullyrðingar þeirra eru hreinlega rangar (sem er sérstaklega vandræðalegt fyrir þátt sem gerir sig út fyrir að afhjúpa fávisku). Nærtækt dæmi er umfjöllun um banana-framleiðslu-lýðveldið Ísland.

En bókin er afbragð aflestrar, læsileg og upplýsandi. Þótt að einhverjar staðreyndir misfarist þá virkar hún jafnvel sem uppspretta spurninga og boðberi sannleikans. Mikilvægasta atriðið er að gera okkur meðvituð um að þekking okkar á veröldinni er ófullkomin. Það er nefnilega hættulegra að vera viss um eitthvað rangt, en að vera óviss.


Skrif fyrir fjölmiðla og vísindatímarit

Óðinshani syndandi á tjörn, beygir til hægri og vinstri, myndar hringi, slaufur og rósir. Þetta merkilega atferli er kveikjan að viðurnefninu skrifari, þar sem hægt er að ímynda sér að hann sé að draga skrautlegastafi með tengiskrift.

Annars eru það aðallega manneskjur sem standa í þeim ósköpum að skrifa niður, birgðastöðu þorpsins, boð til konungsins eða ástarbréf til hinnar undurfögru. Nú á öld hraðans er margt skrifað, en hið ritaða mál er ansi misjafnt að gæðum.

Í gærkveldi stóð Innihald.is fyrir fundi um ábyrgð fjölmiðla. Fundurinn var ágætlega sóttur og erindin sem ég heyrði voru ákaflega hugvekjandi og umræður góðar. Gunnar Hersveinn ræddi fyrst um skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla, hvernig hefðir, ritstjórn, beinir og óbeinir hagsmunir geta haft áhrif á skrif fréttamanna. Hann útskýrði aðstæður blaðamanna og einnig þá kosti sem þeim standa til boða ef samviska og ritstjórnarstefna stangast á (rífast við ritstjórann, hætta eða láta yfir sig ganga).

Elva Björk Árnadóttir flutti ljómandi erindi um möguleg áhrif fjölmiðla á sjálfsmynd stúlkna og drengja. Skilaboðin sem tímarit, vefmiðlar og sjónvarp senda eru ólík eftir því hvors kyns markhópurinn er. Drengir eru hvattir til hreysti og félagsskapar, en stúlkur eru sífellt minntar á það hversu fita er hættuleg og mikilvægi þess að vera grannur (ekki endilega hraustur).

Ég missti af tveimur erindum vegna ótímabærrar íþróttaiðkunar (og seinkunnar á dagskrá). Mitt erindi fjallaði um vísindaveffréttir, og vonandi næ ég að vinna úr því greinarstúf seinna. Hluti af umfjölluninni var samt ábyrgð vísindamanna. Þeir þurfa að geta sagt frá rannsóknum á skiljanlega hátt (í þeim tilfellum sem þeir eru að gera skiljanlegar tilraunir).

Í því samhengi langar mig að beina fólki á all skemmtilegan pistil eftir Adam Ruben (höfund bókarinnar: Surviving Your Stupid, Stupid Decision to Go to Grad School). Það að fara í framhaldsnám á ekki að vera léttvæg ákvörðun, miklar kröfur eru gerðar til nemenda á mörgum ólíkum sviðum.

Til að mynda þurfa vísindamenn að geta skrifað, rökrétt, skýrt og jafnvel einnig laglega. Ruben fjallar einmitt um það hvernig bókmenntalegur metnaður hans fékk skell þegar leiðbeinandi hans sagði við hann:

You don’t write like a scientist

Vandamálið er að Adam hafði notað orðið "only" 5 sinnum í málsgreininni og tilfinning hans fyrir nánd orða ýtti honum til þess að nota orðið "lone" í staðinn, yfirmanninum til mikillar gremju. Hann rekur nokkur atriði sem einkenna vísindamál (og gerir stólpagrín af því leiðinni):

We’re taught that scientific journal articles are just plain different from all other writing. They're not written in English per se; they're written in a minimalist English intended merely to convey numbers and graphs. As such, they have their own rules. For example:

1. Scientific papers must begin with an obligatory nod to their own relevance, usually by citing exaggerated figures about disease prevalence or other impending disasters. If your research does not actually address one of these issues, pretend it does, because hey, that didn’t stop you on the grant application. For example, you might write, “Twenty million children die of scabies every day. OMG we built a robot kangaroo!”

2. Using the first person in your writing humanizes your work. If possible, therefore, you should avoid using the first person in your writing. Science succeeds in spite of human beings, not because of us, so you want to make it look like your results magically discovered themselves.

Og svo verð ég að taka með eina gullvæga setningu úr lokahluta greinarinnar.

Many scientists see writing as a means to an end, the packing peanuts necessary to cushion the data they want to disperse to the world. They hate crafting sentences as much as they hate, say, metaphors about packing peanuts.

Ítarefni:

Adam Ruben 23. mars 2012. How to Write Like a Scientist


Ægivald lyfjaiðnaðarins og innihald fjölmiðla

Steindór J. Erlingsson, líf- og vísindasagnfræðingur hélt erindi á aðalfundi Félagsráðgjafafélags Íslands sem hét „Geisar þunglyndisfaraldur“. Morgunblaðið gerir erindinu skil í greininni „Verðum að draga úr ægivaldi lyfjaiðnaðarins“, þar segir m.a.

Frá 1990 hefur tíðni geðraskana næstum því tvöfaldast hér á landi og Steindór spurði hvers vegna hin mikla notkun geðlyfja hér á landi hefði ekki dregið úr tíðni örorku af völdum geðraskana.

Steindór sagði að læknisfræðin hefði vanrækt umræðu um mismunandi gerðir þunglyndis og að fólk brygðist misvel við lyfjagjöf eftir því hvers konar þunglyndi væri um að ræða. Einnig þyrfti að huga betur að áhrifum umhverfis á þunglyndi.

„Lyfjafyrirtækin hafa sætt sig við veika virkni þunglyndislyfja og að þau hafa engan hag af því að rannsaka undirgerðir,“ sagði Steindór. Hann sagði samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn hafa áhrif á ávísanir þeirra og að tiltekinn menning væri ræktuð strax í læknadeild um samskipti lækna og lyfjaiðnaðarins.

Steindór hefur skrifað nokkra pistla og greinar um þetta efni, nú síðast á vefsíðunni innihald.is.

Innihald er ný vefsíða fyrir vandaða umræðu og greinar. Aðstandendur hafa mikinn áhuga á hlutverki fjölmiðla og boða til fundar í kvöld (fimmtudaginn 22. mars kl. 20:00) um ábyrgð fjölmiðla (Kaffitár í Bankastræti). Meðal erinda og flytjenda eru:

Áhrif fjölmiðla á sjálfsmynd ungs fólks

Elva Björk Árnadóttir, msc í sálfræði

Eignarhald og tortryggni

Katrín Mixa, mastersnemi í blaða- og fréttamennsku

Hlutdeild fjölmiðla í skoðunum hvers og eins

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur


Flórgoðinn á Mývatni

Árni Einarsson forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og gestaprófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ mun fjalla um Flórgoðan á Mývatni í erindi föstudaginn 23. mars 2012 (kl. 12:30-13:10).

Flórgoða má að sönnu kallast einkennisfugl Mývatns og getur hann deilt þeim titli með húsöndinni. Um 250 pör eru talin verpa við Mývatn, og er flórgoðinn fremur sjaldséður hér á landi utan Mývatnssveitar. Flórgoðinn kemur snemma á vorin eða fljótlega eftir að vakirnar fara að stækka. Heldur hann til á Mývatni uns ísa leysir á nærliggjandi vötnum og tjörnum þar sem heppilegt varpland er að finna. Mörg pör verpa þó við Mývatn sjálft, einkum við vestanverðan Ytriflóa (af vef Náttúrurannsóknarstöðvarinnar www.ramy.is).

florgodi_sindri_gislason.jpg

Mynd af Flórgoða tók Óskar Sindri Gíslason (Fleiri myndir hans má sjá á Flickr síðunni Sindrinn).

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir.

Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Eflum samkeppnissjóði Vísinda og tækniráðs

Settur hefur verið upp undirskriftarlisti á vefnum til að hvetja stjórnvöld til þess að efla samkeppnissjóði vísinda og tækniráðs. Áskorunin er svo hljóðandi:

Opinber stuðningur við vísindastarfsemi er fjárfesting sem skilað hefur íslensku samfélagi miklum arði, m.a. í formi hratt vaxandi þekkingariðnaðar. Til að efla þekkingarsamfélagið enn frekar er mikilvægt að hlúa vel að rótunum, þ.e. vísinda og rannsóknastarfi. Þetta er best gert með því að efla rannsóknasjóði sem nota jafningjamat við úthlutun fjár. Með því er fjármunum beint til þeirra verkefna sem líklegust eru til að ná árangri skv. alþjóðlegum viðmiðum.  Einnig er mikilvægt að styrkja efnilega unga vísindamenn sérstaklega til að tryggja eðlilega nýliðun. Samkeppnissjóðir eru mjög veikir á Íslandi og eru hlutfallslega mun minni en sambærilegir sjóðir í nágrannalöndunum. Auk þess hefur fjármagn til sjóðanna dregist verulega saman undanfarin ár sem þegar hefur valdið stöðnun í rannsóknum og er viðbúið að muni hindra framþróun íslensks þekkingariðnaðar á næstu árum ef ekki verður brugðist tafarlaust við.

Við undirrituð hvetjum því Ríkisstjórn Íslands til að:
·         Stórauka framlög til rannsóknasjóða Vísinda- og tækniráðs. Til að ná svipuðu hlutfalli og í nágrannalöndunum þyrfti að þrefalda Rannsóknarsjóð. Mikilvægt er að tryggja vöxtinn til frambúðar í samræmi við verðþróun í landinu.
·         Styrkja sérstaklega efnilegt ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref sem sjálfstæðir vísindamenn.

Ég hvet alla sammála áskoruninni til að skrifa undir.

Skylt efni og pistlar:

Háskólarannsóknir á tímum kreppu (1) Hlutverk háskóla

Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna.

Háskólarannsóknir á tímum kreppu (3) Gæði rannsókna

Háskólarannsóknir á tímum kreppu (4) Doktorsnám á Íslandi

Háskólarannsóknir á tímum kreppu (5) Staða raun- og heilbrigðisvísinda

Sameiginleg hlutverk og baráttumál vísindafólks


Ný-útdauðir frummenn

Steingervingasagan er mjög gloppótt. Engu að síður er hægt að átta sig á stórum dráttum, t.d. tilkomu ákveðinna dýra og plöntuhópa.

Steingervingasaga mannsins er fyllri en margra annara lífvera, líklega vegna áhuga okkar á eigin fortíð (frekar en sögu sæsporðdreka t.d.). Það er staðreynd að maðurinn er skyldastur simpönsum. Reyndar sýna nýjar upplýsingar sýni að hluti af erfðamengi okkar er skyldara górillum en simpönsum, en það er vegna þess i) að genin hafa hvert sína sögu og ii) þess að það leið stuttur tími frá því að forfaðir manna og simpansa skildi við sameiginlegan forfaðir okkar og górilla. 

Ættartré manntegunda er ríkulega greinóttur runni. Þekktustu meiðarnir eru suðurapinn, Homo erectus og Homo neanderthalensis. Neanderdalsmenn eru t.t.l. náskyldir manninum, en dóu út fyrir um 35000 árum (en skildu reyndar eftir erfðaefni í mannfólki utan Afríku. Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?). Reyndar fannst einnig beinagrind smágerðrar mannveru á eyjunni Flores í Indónesíu en deilt er um hvort um sé að ræða nýja tegund eða afbakað mannveru Dvergar á Flores og á Íslandi).

Nýverið birtist grein í PLoS ONE sem bætir nýrri steingerðri beinagrind í safnið. Sú ku vera um 13000 ára gömul og harla ólík Homo sapiens. Sum einkenni eru áþekk venjulegu mannfólki en önnur segja höfundar greinarinnar að séu of ólík til að um sömu tegund geti verið að ræða. Út frá þeim beinum sem fundust og einkennum þeirra er ekki hægt að skera úr um hvort að þetta sé djúp greina á þróunartré manntegunda (homo greininni okkar) eða hvort að þetta sé bara sérstaklega umbreyttur (úrkynjaður) hópur af tegundinn H. sapiens.

Beinin fundust í tveimur Kínverskum hellum árin 1979 og 1989, en lágu órannsökuð til ársins 2008. Annar hellana heitir Rauða dádýrshellir, og því fengu nýju (eða nýútdauðu) mennirnir heitið Rauðadádýrsfólkið (Red deer cave people). 

Mér finnst alltaf jafn svekkjandi að neanderdalsmenn hafi dáið út. Ímyndið ykkur hversu fjölskrúðugari staður jörðin væri, ef hér byggju 2-5 tegundir manna. Ef til vill var ómögulegt fyrir þær að búa saman í friði, en sem afkomandi hippa má ég alveg leyfa mér drauma.

Frumheimild

Darren Curnoe o.fl.  Human Remains from the Pleistocene-Holocene Transition of Southwest China Suggest a Complex Evolutionary History for East Asians PLoS ONE 7(3): e31918. doi:10.1371/journal.pone.0031918

Umfjöllun the Guardian

 

Red Deer Cave people' may be new species of human The guardian Ian Sample 14 mars 2012

Skyldir pistlar: athugið að í pistlunum hér á eftir er misræmi, sem starfar af því að gögn sem birtust 2010-2011  staðfestu kynblöndun manna og neanderdalsmanna.

Úr Svínadal eða Neanderdal

Adam neanderthal og Eva sapiens

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?

Er sjálfsofnæmi arfleifð frá Neanderdalsmönnum?


Visnu og mæðirannsóknir á Keldum fyrir hálfri öld

Það var sem vitrun að læra frumulíffræði hjá Halldóri Þormar prófessor. Hann kenndi mikið út frá spurningum, á borð við:

Hér er fruma, hvernig getum við greint mismunandi hluta hennar?

Er þessu prótíni seytt út úr frumunni eða ekki?

Síðan rakti hann hvernig hægt væri að svara þessum eða áþekkum spurningum. Áherslan var á aðferðir og rökhugsun tilrauna, og í gegnum þær lærðum við líka heilmikið um eiginleika og byggingu frumunnar.

Rannsóknir Halldórs voru mest í veirufræði og mun hann fjalla um þær rannsóknir sem hann stundaði fyrir hálfri öld þegar hann kom til starfa á Keldum í erindi í dag:

Fræðsluerindi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesari: Halldór Þormar, prófessor emeritus, erindið verður haldið fimmtudaginn 15. mars, kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.
Visnu og mæðirannsóknir á Keldum fyrir hálfri öld.
Visna og mæði eru smitsjúkdómar í sauðfé sem bárust til Íslands árið 1933 með innfluttu karakúlfé. Mæði er lungnasjúkdómur og visna sjúkdómur í miðtaugakerfi og teljast til hæggengra sýkinga. Sýkingartilraunir í kindum bentu til að visna og mæði væru veirusjúkdómar. Visnuveiran ræktaðist í frumurækt árið 1957 og mæðiveiran árið 1958. Báðar veirur ollu svipuðum sjúklegum breytingum í frumurækt og skoðun í rafeindasmásjá leiddi í ljós svipaðar kúlulaga veiruagnir. Frekari rannsóknir sýndu að um náskyldar eða sömu veiru var að ræða sem síðar var nefnd mæði-visnuveira (MVV). Rannsóknir bentu til að MVV væri náskyld RNA æxlisveirum og sú tilgáta sannaðist við uppgötvun víxlritans (reverse transcriptase) sem skipaði þessum veirum í flokk retroveira. MVV telst til undirflokks lentiveira ásamt HIV.

Halldór er ein af gersemum íslensks vísindasamfélags, og vísindastarf hans er víðfemt, nákvæmt og mikilsvert. halldorthormar_bjarnikristjansson_lr2011_stor_1121793.jpg

Því veitti Líffræðifélag íslands Halldóri heiðursverðlaun síðasta haust. Halldór er vinstra megin á myndinni, hægra meginn er ungstirnið Bjarni K. Kristjánsson.

Sem dæmi um virkni hans og framsýni, þá gaf hann út bók um fitur og lípíð sem varnarefni gegn sýklum snemma árs 2011.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband