Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Enn skal banna útiræktun erfðabreyttra lífvera - Hefur eitthvað breyst?

Opið bréf til flutningsmanna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun erfðabreyttra lífvera.

Fram er komin á Alþingi tillaga til þingsályktunar um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum (Þskj. 1073 – 667. mál). Flutningsmenn tillögunnar eru þingmennirnir Þuríður Backman, Mörður rnason, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir, Birgitta Jónsdóttir, Þráinn Bertelsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Samkvæmt tillögunni skal „skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum plöntum eigi síðar en 1. janúar 2013“. Rökin eru eftirfarandi: „Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að leggja af útiræktun á erfðabreyttum plöntum til þess að vernda hreinleika íslenskrar náttúru og með tilliti til siðferðislegrar skyldu núlifandi kynslóðar til að koma í veg fyrir að einkenni hennar glatist.“

Sambærileg tillaga var lögð fram á löggjafarþingi 2010-2011 (Þskj. 737 – 450. mál) og voru flutningsmenn þeir sömu nema í stað Atla Gíslasonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar eru komnar þær Álfheiður Ingadóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Í bréfi til nefndarsviðs Alþingis 10. febrúar 2011 gerðu 37 sérfræðingar í erfðafræði og skyldum greinum athugasemdir við tillöguna. Í bréfinu sagði m.a.: „Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun.“

Okkur er ekki kunnugt um að fram hafi komið ný fræðileg rök um hættuna sem erfðabreyttrar plöntur geti haft á „hreinleika íslenskrar náttúru“ sem gefa tilefni til þess að endurskoða þetta álit. Endurupptaka umræddrar tillögu á dagskrá Alþingis án nýrra gagna hlýtur að vekja þá spurningu hvaða upplýsingar og rök liggja að baki því að alþingismennirnir átta kjósa að halda tillögunni til streitu og taka því ekki tillit til álits helstu sérfræðinga þjóðarinnar í erfðafræði og skyldum greinum. Við þessari spurningu hljóta flutningsmenn tillögunnar að bregðast áður en Alþingi tekur efnislega afstöðu til málsins.

Arnar Pálsson, dósent, Háskóla Íslands
Áslaug Helgadóttir, prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Háskóla Íslands
Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus, Háskóla Íslands
Jón Hallsteinn Hallsson, dósent, Landbúnaðarháskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon, prófessor, Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor, Háskóla Íslands
Ólafur S. Andréssson, prófessor, Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar, Íslenskri erfðagreiningu


Björg C. Þorláksson náði eyrum erlendra líffræðinga

Í vísindum nútímans er smættunarhyggja (reductioninsm) ríkjandi. Hún gegnur út á að greina undirliggjandi ástæður, oftast með því að finna og rannsaka einstök ferli sem móta þá eiginleika sem verið er að rannsaka. T.d. í atferlisfræðinni, er nú alsiða að leita að genum sem hafa áhrif breytileika í hegðun dýra.

Heildarhyggja (holism) er andstæður póll við smækkunarhyggjuna. Samkvæmt henni er mikilvægt að rannsakan heildina, ekki stakar einingar. Steindór J. Erlingsson fjallar aðeins um togstreitu á milli þessara öfga í nýlegri grein um íslenska vísindakonu (Björg C. Þorláksson náði eyrum erlendra líffræðinga). Þar segir hann:

Enginn er spámaður í sínu föðurlandi, allra síst ef hann er kona! Þetta fékk Björg C. Þorláksson (1874–1934) að reyna á sinni lífsleið, eins og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir lýsir vel í ævisögu Bjargar. Þegar ég hafði fyrst spurnir af rannsóknum Sigríðar Dúnu heyrði ég því fleygt að ekki væri mikill fengur í því að fást við fræðistörf Bjargar þar sem hún birti lítið sem ekkert á Íslandi, auk þess sem hún fékkst við hálf vafasamar rannsóknir, en hún blandaði saman líffræði, heimspeki og sálfræði.

Pistillin er endurprentun á 10 ára gamalli grein Steindórs í morgunblaðinu, en ekkert verri fyrir vikið.


Fluga á væng fiðrildis

Ótrúlega flott mynd Stephen Paddock, af vef Nikon. Ávaxtafluga á væng fiðrildis.

fruitflyonwing.jpghttp://www.microscopyu.com/featuredmicroscopist/paddock/paddockgallery.html

Frekari flugu og myndadýrkun...naktar ávaxtaflugur og geislandi gen.

Ég hef bara ekkert mótstöðuafl, á mig svífur höfgi við hugsun um blessaðar flugurnar. 

Hér er ein af mínum eigin, af tjáningu nokkura gena á fyrstu klst. þroskunar.

lottetal07b.jpgFrá Lott et al 2007.

Ávaxtafluga leitar að maka

Morgan og hvíta genið

 

 

 

 


Bólusetningar og einhverfa - samantekt

Fyrir nokkru þá reifuðum við mögulegar orsakir einhverfu í stuttum pistli (Orsakir á huldu), sem kveikti ansi miklar umræður. Hér reifa ég mína sýn á þessa umræðu, frá sjónarhóli líffræðings og áhugamanns um vísindalega umræðu. Í stutt máli þá má tíunda nokkra möguleika sem geta e.t.v. útskýrt hví tíðni sjúkdómsins hefur aukist svo á vesturlöndum.

Er einhverfa því tilkomin vegna:

i) erfða

ii) ólífræns umhverfis (hita, raka, loftslags, loftmengunar...)

iii) líffræðilegs umhverfis (matar, drykkjar, sýkingar, baktería, skorts á bakteríum...)

iv) félagslegs umhverfis (atlæti, fjölskyldubyggingu, skorti á áreiti, of miklu áreiti, tölvu eða sjónvarpsglápi...)

v) samspili erfða og einhverra þessara (eða allra) umhverfisþátta

Margir þættir hafa marktæk, en ekki endilega sterk, áhrif á líkurnar á einhverfu. T.d. heilsa foreldra (of mikil fita?), tími á milli barna og erfðir. (Independent and dependent contributions of advanced maternal and paternal ages to autism risk http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/aur.116/abstract, Maternal diabetes, obesity linked to autismScientists Link Gene Mutation to Autism Risk, NYtimes The Autism Wars Amy Harmon 8. apríl 2012).

 

 

Einnig er mögulegt að um ofgreiningu sé að ræða, sem er vitað fyrir suma tauga- og geðsjúkdóma (sbr. pistla Steindórs Erlingssonar og frétt kanadíska ríkisjónvarpsins ADHD may be overdiagnosed in youngest classmates www.cbc.ca).

Í umræðu um pistilinn bar töluvert á fullyrðingum um að bóluefni valdi einhverfu eða öðrum taugasjúkdómum. Ég hef aðeins fjallað um upprunalegu rannsókn Wakefields og afsönnun á henni (Ábyrgðin liggur hjá...) (og aðrir ítarlegar The media’s MMR hoax ).

Hópur fólks trúir því að bóluefni séu hættuleg, og að þau orsaki aukningu í einhverfu og öðrum geð- og taugasjúkdómum meðal vesturlandabúa. Vandamálið er að það gögnin sem styðja ekki þessar ályktanir, sbr. yfirlitsrannsókn Cochrane review:

Exposure to the MMR vaccine was unlikely to be associated with autism, asthma, leukaemia, hay fever, type 1 diabetes, gait disturbance, Crohn's disease, demyelinating diseases, bacterial or viral infections.

Cochrane Database Syst Rev. 2012 Feb 15;2:CD004407. Vaccines for measles, mumps and rubella in children. Demicheli V, Rivetti A, Debalini MG, Di Pietrantonj C. http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/22336803

En það hindrar fólk ekki í að vitna í rannsóknir og mistúlka þær. Sett var fram sú hugmynd að Thimerosal (sem er ónæmisglæðir) í bóluefnum ýtti undir einhverfu. Stór rannsókn á tíðni einhverfu í Danmörku sýnir að svo sé ekki, því að þegar hætt var að nota bóluefni með þessu efni þá hélt tíðni einhverfu áfram að aukast.

denmarkautismf1_medium.gif

Mynd frá  Thimerosal and the occurrence of autism: negative ecological evidence from Danish population-based data.Madsen KM, Lauritsen MB, Pedersen CB, Thorsen P, Plesner AM, Andersen PH, Mortensen PB. Pediatrics. 2003 Sep;112(3 Pt 1):604-6.

Þar segir:

Results. A total of 956 children with a male-to-female ratio of 3.5:1 had been diagnosed with autism during the period from 1971–2000. There was no trend toward an increase in the incidence of autism during that period when thimerosal was used in Denmark, up through 1990. From 1991 until 2000 the incidence increased and continued to rise after the removal of thimerosal from vaccines, including increases among children born after the discontinuation of thimerosal. 

Þegar gögnin eru afgerandi er reynt að kasta rýrð á rannsóknirnar. Í þessu tilfelli fékk samsæriskenningafólkið gjöf frá guði, í einum höfunda greinarinnar. Paul Thorsen reyndist óvandaður maður, var rekinn frá Árósaháskóla fyrir fjármagnsmisferli og síðar dæmdur fyrir þann glæp.

Rökvillan er sú að halda að fyrst Poul Thorsen hafi verið svikahrappur, séu allar rannsóknir sem hann tók þátt í séu glataðar.

Mikilvægt er að átta sig á þvi að hann var ekki fyrsti og ekki síðasti höfundur greinarinnar(sjá að ofan). Það þýðir að hann var einungis ábyrgur fyrir afmörkuðum hluta rannsóknarinnar. Fyrsti og síðasti höfundur bera mesta ábyrgð (og fá mesta heiðurinn!).

Þótt Thorsen hafi verið dæmdur og rekinn frá skólanum, þá hafði það EKKERT með greinarnar um Thimerosal og einhverfu að gera. Ef Thorsen hefði svindlað í þeim, hefði það komið til kasta skólayfirvalda sem hefðu látið draga greinarnar til baka.

EN liðið sem býr til samsæriskenningarnar hundsar þessar staðreyndir. Þeir halda að ef eitt rotið epli finnst í vísindakörfunni, sé hægt að sturta öllu úr henni. Þannig virkar það ekki. Vísindin virka ÞRÁTT fyrir rotnu eplin, vegna þess að allir geta rýnt í gögnin, kannað niðurstöðurnar og endurtekið tilraunirnar.

Það að slá upp "Danskur vísindamaður dæmdur fyrir margvíslegar sakir, Thorsen hélt því fram að bólusetningar valdi ekki einhverfju" er hrein sögufölsun (Danish Researcher Indicted on Multiple Counts Poul Thorsen Claimed Vaccines Don't Cause Autism). Dómsmálið fjallaði ekki um það hvort að bólusetningar valdi einhverfu. Það sýndi fram á að Thorsen hafði stolið frá danska ríkinu.

Ímyndum okkur "Íslenskur stjórnmálamaður dæmdur fyrir eina sök, Geir Haarde " sagði við umræðuna að Íslendingar hefðu ekki verið beinir aðilar að innrásinni í Írak"". Geir var ekki dæmdur fyrir að ljúga um innrásina í írak, heldur vanrækslu....sem er önnur saga!

Vandamálið fyrir leikmenn og lærða utan þessa fagsviðs er tvennskonar.

Það er erfitt að meta, hvort að staki vísindamaðurinn sem öskrar "úlfur" hafi í raun séð úlf eða sé bara ruglaður. Það er hellingur af "non-consensus" röddum í hverju fræðasviði, og margar þeirra eru vísindamanna sem hafa bitið eitthverja afstöðu í sig og hampa henni (oft á kostnað gagnanna). Hin hliðin á peningnum er sú að sumir þessara vísindamanna eru raunverulegir brautryðjendur sem velta ríkjandi hugmyndum. Vandamál okkar sem stöndum á hliðarlínunni (í annari fræðigrein eða meðal almennings) er að greina þarna á milli!

Hagsmunaaðillar, lyfjafyrirtæki eða lifræni/næringapredikara-geirinn, vinna ötullega að því að móta skoðanir fólks með birtingu greina, pistla, og persónulegra sagna á vefsíðum og prentmiðlum. Sem vísindamaður gef ég lítið fyrir sögur einstaklinga, ég snýtti mér á mánudegi og varð fyrir eldingu á þriðjudegi (snýtingar eru móðgun við rafkerfi segulsviðs jarðar sem hefndi sín á mér), og vill frekar sjá stórar og vandaðar rannsóknir (með vel útskýrðri verklýsingu þannig að hægt er að sjá hvernig gögnum var aflað og úr þeim unnið). Best er ef gögnin eru öll aðgengileg og að aðrir geti hlaðið þeim niður og gert sínar greiningar á þeim sjálfir.

Ítarefni:

Orca á scienceblogs Danish investigator Poul Thorsen: Custom-made for the anti vaccine movement to distract from inconvenient science

og

The use of Poul Thorsen to distract from inconvenient facts about vaccine safety continues apace


Hrafnaþing: Erfðabreytt náttúra

Af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

-------------------------------------------------------------

Kristinn P. Magnússon sameindaerfðafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands mun á síðasta Hrafnaþingi vormisseris, miðvikudaginn 25. apríl, flytja erindi sitt Erfðabreytt náttúra.

Í erindinu verður fjallað um líffræðilega fjölbreytni, sem er undur lífsins, hráefni þróunar og grundvöllur þess að lífverur og vistkerfi geti aðlagast breyttum aðstæðum. Grunneining líffræðilegrar fjölbreytni er erfðabreytileiki einstaklingsins. Stofnar, tegundir, og heilu vistkerfin standa og falla með fjölbreytileika erfðamengja einstaklinganna. Þannig endurspeglar erfðabreytileiki lýðfræðilega byggingu og þróunarsögu stofns.

-------------------------------------------------------------

KP var einn kennara á nýafstöðnu námskeiði um Erfðatækni, umhverfi og samfélag, sem haldið var í samstarfi HÍ, LBHÍ og HA. Það lukkaðist ljómandi vel, ég lærði amk. helling og umræðan var þroskuð og á yfirveguðum nótum.

Erindi Náttúrufræðistofnunar eru aðgengileg á vefnum, á sérstakri youtube rás. Um er að ræða slæðusýningu og upptaka af erindinu samhliða. Þetta er flott framtak og vonandi taka fleiri skipuleggjendur fyrirlestra um vísindi þetta upp.  Það væri akkur í því fyrir leikmenn og lærða að geta horft á fyrirlestra um forvitnileg og brýn efni.


Með fróðleik í fararnesti - Kræklingaferð í Hvalfjörð

Af vef Háskóla Íslands. Ferð farin 21. apríl 2012.

---------------------------------------------------------------------------------------

Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða ferð á slóðir kræklingsins í Hvalfirði. Kræklingi verður safnað og fræðst um hann og verkun hans.

Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 10.30. Hægt verður að sameinast þar í bíla. Gert er ráð fyrir að ferðin taki um það bil þrjár klukkustundir að akstrinum í Hvalfjörð meðtöldum.

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.

------------------------------------------

Næstu ferðir:

5. maí kl. 11 - Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiðir hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga.

27. maí kl. 14 - Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, leiða gönguferð við Vífilsstaðavatn. Ferðin er sérstaklega sniðin að börnum, ungmennum og fjölskyldum þar sem skoðaður verður gróður, lífríki vatnsins og fuglar sem verða á vegi okkar.

8. september kl. 11 - Kristín Einarsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild, leiðir hjólaferð, með aðstoð Þjóðbrókar, félags þjóðfræðinema, þar sem þjóðsögur, draugasögur, hjátrú sjómanna, vikivaki og óvæntar uppákomur verða á vegi okkar.

6. október kl. 11 - Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, leiðir gönguferð um slóðir 250 ára sögu ljósmæðra. Gengið verður frá Skólavörðustíg 11 og komið við á þremur til fjórum áfangastöðum í miðbæ Reykjavíkur sem tengjast sögu ljósmæðra.


Eflum samkeppnisjóði - eflum vísindin

Ég hvet alla til að skrifa undir áskorun á vefnum til að hvetja stjórnvöld til þess að efla samkeppnissjóði vísinda og tækniráðs.

ALLIR VINNA...TIL LENGRI TÍMA LITIÐ! sagði góður maður nýlega um þetta átak.

Framfarir í vísindum verða fyrir tilstuðlan atvinnumanna, sem finna mikilvægar rannsóknarspurningar og sem geta fundið svör við þeim með snjöllum tilraunum eða athugunum. Vísindamenn starfa flestir hjá hinu opinbera, kenna við háskóla og stunda rannsóknir samhliða því. Íslenskir háskólar styðja misvel við sína vísindamenn, skaffa þeim aðstöðu og stundum örlítið styrkfé. Stuðningur þeirra er samt lítill miðað við það sem gerist í nágrannalöndunum, eða Bandaríkjunum.

Mestur er samt munurinn á samkeppnisjóðunum. Samkeppnissjóðir útdeila peningum til vísindamanna á grundvelli faglegs mats á umsóknum um tiltekin verkefni. Ef t.d. Rán Múladóttir vill rannsaka áhrif plastefna á greind músa, þá hannar hún þá tilraun og lýsir í ítarlegri umsókn. Ef fagráðið og yfirlesara telja spurninguna spennandi og mikilvæga, tillögur Ránar skynsamlegar og líklegt að verkefnið skili greinagóðu svörum fær hún pening til verksins. Nema auðvitað peningar séu af skornum skammti, eins og á Íslandi.

Vandamálin hérlendis eru einnig annars eðlis. Of stór hluti fjármagns hins opinbera til rannsókna er úthlutað á ógegnsæan hátt.

Vísinda og tækniráð leggur til í nýlegri skýrslu að samkeppnissjóðir verði efldir, sbr. tilkynningu á vef Rannís:

Hér á landi er 84% opinbers fjár til vísinda og nýsköpunar bundin í fjárveitingum til stofnana en aðeins 16% er veitt í samkeppni. Við teljum brýnt að það verði sýnilegt að skattfé þjóðarinnar renni til þeirra verkefna, háskóla og stofnana sem skila mestum árangri og að jafnræði sé tryggt. Breytt skipulag fjárveitinga kallar á virku gæðamat í kerfinu öllu, ekki aðeins innan háskóla sem hafa fylgst skipulega með rannsóknastarfi um árabil, heldur líka í rannsóknarstofnunum og öllu stuðningskerfinu.

Að auki er rannsóknasjóðirnir svo aðkrepptir að þeir geta ekki styrkt allar umsóknirnar sem fá besta einkunn.

Nú er svo komið að sjóðurinn hefur jafnvel ekki ráð á að styrkja umsóknir sem lenda í efsta gæðaflokki. Þetta er afleit þróun enda öðru rannsóknarfé í opinni samkeppni vart til að dreifa. Og jafnvel þótt Rannsóknasjóður veiti hæstu styrki sem veittir eru til rannsókna hér á landi eru þessir styrkir ekki nema hálfdrættingur á við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og brot af því sem gerist í Bandaríkjunum. [Úr Íslenskt vísindasamfélag, rannsóknir og efling samkeppnissjóða. Eiríkur Steingrímsson, Hannes Jónsson, Magnús Karl Magnússon og þórólfur Þórlindsson prófessorar við Háskóla Íslands.]

Staðan er nefnilega ískyggileg. Alltof stór hluti styrkfjárins fer huldubrautir. Þeir fara beint til stofnanna eða í sjóði sem vinna eftir undarlegum eða pólitískum forsendum.  Félagar mínir segja frá furðulegheitum eins og, styrkfé sem er búið að úthluta áður en umsóknarfresti er lokið og peningum sem settir eru í ákveðnar stofnanir án þess að þær hafi gert grein fyrir því hvernig eigi að verja fénu.

Ímyndið ykkur opinber innkaup sem fara eftir slíkum brautum. Ríkið vill byggja náttúruminjasafn óskar eftir tilboðum. Þeir úthluta verkinu síðan til einhvers gæðings áður en fresturinn rennur út! Eða að hluti fjármagns ráðaneytis sé settur í einhverja tiltekna stofnun, án þess að þeir þurfi að segja hvað þeir vilji gera við féð!


Borgarskipulag gegn þunglyndi

Nýleg samantekt skoskra vísindamanna sýnir að gönguferðir draga úr einkennum þunglyndis. Samantektin byggir á greiningu á 8 eldri rannsóknum, sem eru reyndar ansi misjafnar hvað varðar uppsetningu og samsetningu "sjúklinga" og viðmiðunar hópa.

En niðurstöður greinarinnar eru afgerandi.

Of the 14,672 articles retrieved, eight trials met the inclusion criteria. The pooled standardised mean difference (effect size) was -0.86 [-1.12, -0.61] showing that walking has a statistically significant, large effect on symptoms of depression. However, there was considerable heterogeneity amongst the interventions and research populations and it is uncertain whether the results can be generalised to specific populations such as primary care patients.

Einnig er spurning hvort að slík hreyfing dragi úr líkunum á sjúkdómnum sjálfum.

Við lifum í samfélagi sem er sniðið að þörfum bifreiða, mun oftar en þörfum fólks á fæti. Það er eðlilegt er að álykta að skipulag borga og samfélaga geti með þessu ýtt undir líkurnar á þunglyndi. Ímyndum okkur ýkt dæmi, þar sem engar væru gangstéttir, gönguljós eða brýr. Allir yrðu að ferðast með bifreiðum (og hjól væru ekki til og enginn færi í ræktina). Miðað við þessar niðurstöður mætti búast við því að  slíku samfélagi væri þunglyndi alvarlega og jafnvel algengara en í "venjulegri" borg. 

Á sama hátt mætti búast við því að bæta mætti andlegt ástand fólks (ekki endilega bara þunglyndra!) með því að greiða götu gangandi vegfarenda. Einnig væri hugmynd að hafa bílastæði fjær mikilvægum byggingum. Það er ekki heilbrigt eins og fyrirfinnst sumstaðar að hafa bílakjallara á íbúðarhúsi, vinnustað og verslunarkjarna, þannig að fólk þurfi í raun aldrei að standa undir beru lofti (svo hjálpi mér Tútti).

Einnig er hægt að stuðla að léttri hreyfingu, göngu t.d., með því að bæta almennings samgöngur. Þá þarf fólk alltaf að labba á lestarstöðina eða stoppustöð Strætó.

Sem foreldri leikskóla og skólabarns þá finnst mér líka alveg sanngjarnt að planta slíkum byggingum fjær burðaræðum og bílastæðum. Tvennt ynnist með slíku. Í fyrsta lagi þá geta börnin og foreldrar þeirra fengið örlitla hreyfingu. Í öðru lagi þá er bílaloftinu bælt frá skólabyggingum. Það getur myndast fáranlegur mökkur í kringum skóla, þegar foreldrarnir af misskilinni ást skutla börnum í skólann og að láta bílvélarnar dæla óþverra inn á skólasvæðið (sérstaklega á kyrrum dögum).

Ég hef reyndar aldrei skilið þetta með þá áráttu að keyra um bæinn þveran og endilangann, og enda síðan á bíltúr í ræktina. En það er reyndar bara mín skoðun.

Auka athugasemd.

Frásögn mbl.is er hin ágætasta þótt þeir hafi fylgt forskrift BBC nokkuð náið. Það er til fyrirmyndar að þeir skuli skaffa tengil bæði á frétt BBC og frumheimildina.

Ítarefni:

Walking for depression or depressive symptoms: a systematic review and meta-analysis Roma Robertson, Ann R.R. Robertson, Ruth Jepson,  Margaret Maxwell. Mental Health and Physical Activity Available online 4 April 2012

 


mbl.is Gönguferð góð gegn þunglyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendir í boði lyfjaframleiðenda

Steindór J. Erlingsson skrifar pistil á innihald.is um nýlegar bók geðlæknisins David Healy, Pharmageddon. Titil bókarinnar þýðir Steindór sem Lyfjarök, sem nokkurskonar hliðstæða Ragnaraka. Þar segir:

Breski geðlæknirinn og prófessorinn David Healy er einn af þekktustu gagnrýnendum lyfjaiðnaðarins. Auk þess að fjalla mikið um stöðu iðnaðarins í dag hefur hann einnig ritað nokkrar bækur þar sem saga geðlyfja og geðlæknisfræði er gerð að umtalsefni. Gagnrýni Healys verður að ýmsu leyti beittari þegar haft er í huga að á tíunda áratug síðustu aldar vann hann náið með mörgum af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Hann þekkir því vel til innviða iðnaðarins og hvar brotalamirnar liggja. Í upphafi ársins kom út ný bók eftir Healy sem nefnist Pharmageddon. Lét ég loksins verða af því í kvöld að byrja á bókinni. Áður en ég held áfram lestrinum langar mig að fara nokkrum orðum um það sem Healy segir í inngangi bókarinnar.

...Lyfjarök vísar því í ferli sem sett var af stað til þess að láta okkur öllum líða betur, en samkvæmt Healy er það nú að snúast upp í andhverfu sína. Það er ekki ofsögum sagt að hrollvekjandi upplýsingar komi fram í formála bókarinnar.

Mér er hlutverk vísinda í samfélaginu hugleikið. Ég vona að þau verði til að bæta líf fólks og vernda náttúruna, en oft lenda vísindin í hringiðu stjórnmála og peninga. Þá kunna grunngildi að kvika, og vísindin (vísindaleg yfirbreiða/ímynd) að vera notuð til að selja fólki dýrar en e.t.v lélegar lausnir eða ónýtar.

Ég hvet fólk til að lesa pistil Steindórs, og kaupa og lesa bók David Healy.

Skrif Ben Goldacre á Bad Science um þessi efni eru einnig vönduð.

Vinsamlegast setjið athugasemdir við pistil Steindórs, ég hef ekki mikið tóm fyrir umræður næstu daga.


Naktar ávaxtaflugur og geislandi gen

Kjarni vísindagreina eru niðurstöðurnar, sem hjálpa til við að svara rannsóknarspurningum sem upp var lagt með. Niðurstöðurnar eru af ýmsu tagi, tölur, töflur, gröf og myndir.

Myndir er eitt mikilvægasta form niðurstaðna, og upp á síðkastið hafa myndbönd einnig komist á þennan stall. Myndband sem lýsir atferli dýrs segir meira en mörg orð, og stakar myndir geta einnig afhjúpað djúpstæða líffræði.

Þroskun er eitt af þeim sviðum sem myndbönd hjálpa mikið við. Þroskun fósturs ávaxtaflugunar, yfir í starfhæfa lirfu tekur 24 klst. Á þeim tíma skipta frumurnar sér í ofboði og skipa sér upp í vefi og líffæri, sbr myndband á DNAtube.

Ávaxtaflugufræðingar efna til myndakeppni árlega, í tengslum við fund sinn. Hér fylgja nokkur dæmi um myndir sem unnu til verðlauna, eða komust á virðingarlista.

 2-f.pngTissue elongation requires oscillating contractions of a basal actomyosin network.
He L, Wang X, Tang HL, Montell DJ. Nat Cell Biol. 2010 Dec;12(12):1133-42. Epub 2010 Nov 21.

11hvkup.jpg

 

Bhutkar, A. J., S.W. Schaeffer, S. Russo, M. Xu, T. F. Smith, W. J. Gelbart (2008). Chromosomal rearrangement inferred from comparisons of twelve Drosophila genomes. Genetics 179: 1657-1680.

 

5hvxdt.png

Weavers H, Prieto-Sánchez S, Grawe F, Garcia-López A, Artero R, Wilsch-Bräuninger M, Ruiz-Gómez M, Skaer H, Denholm B. The insect nephrocyte is a podocyte-like cell with a filtration slit diaphragm. Nature 2009 15;457:322-6
Denholm B, Skaer H. Bringing together components of the fly renal system. Curr Opin Genet Dev. 2009 19(5):526-3


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband