Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Skutu máf sem veiddi laxa

Í sveitinni minni er nafntoguð laxá. Afi minn og nú frændi leigja alltaf ánna til veiðifélags, og við nýttum aldrei veiðidaga. En samt borðuðum við stundum lax úr ánni hér á árum áður.

Lykillinn var að vakta veiðibjölluna sem veiddi lax. Þegar bóndinn eða vinnumaðurinn voru að vinna á sléttunum við ánna, fylgdust þeir með atferli máfsins. Það var a.m.k. ein veiðibjalla sem gat nefnilega veitt lax. 

Hún sveif yfir fisknum, dýfði sér síðan niður og hjó í hann. Við vitum ekki alveg hvernig hún fór að, en það var sem hún stýrði fisknum upp á grynningar. Þar sá bóndinn til hennar gæða sér á fisknum, óð út í ánna og hirti fenginn.

Síðan fékk veiðifélagið byssumenn til að fækka fuglum, og eftir það fundum við ekki fleiri laxa á þennan hátt. Mögulegt er að þeir hafi skotið mávinn sem kunni að veiða lax.

Vitanlega er e.t.v. líklegra að veiðibjallan hafi ekki veitt laxinn sjálf, heldur bara kunnað að nýta sér sjálfdauða (eða örþreytta og slæpta fiska sem veiðimenn slepptu...undarleg hegðun veiðimanna...spurning hverjar lífslíkurnar eru hjá fiski sem sleppt er?).

Mér fannst laxinn alltaf ágætur biti. Jafnvel þótt að hann hafi e.t.v. verið sjálfdauður var hann sannaræega betri en soðin gömul hæna.


mbl.is Skjóta máva sem éta hvali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróun í hellum

Rannsóknir á þróun lífsins eru stundaðar á margvíslegan hátt. Hægt er að kanna hvernig skyldar tegundirnar eða stofnar breytast vegna umhverfisþátta. Nálgunin byggist á því að fylgjast með þróuninni þegar hún gerist.

Spurningin sem eftir stendur er hvort að þróunin leiti alltaf á sömu brautir, eða hvort að það geti verið tilviljun háð hvaða lausn verður ofan á. Þetta má skýra með dæmi. Hvað gerist þegar stofn fiska kemur í nýtt umhverfi, þar sem lítil fæða er í boði og hitinn lágur? Búast má við hraðari kynþroska, að fiskarnir verði minni og e.t.v. breytingum á formi þeirra.

Þetta er einmitt það sem gerist í bleikjustofnum hérlendis, í litlum tjörnum og hellum. Bjarni Kr. Kristjánsson, Prófessor við Hólaskóla, hefur rannsakað dvergbleikjur hérlendis undanfarin ár, og nú byrjað að kanna hellableikjuna við Mývatn sem Árni Einarsson og félagar við Náttúrurannsóknarstöðina á Mývatni hafa kortlagt.

Hellableikjan er sérstök að því leyti að umhverfis Mývatn eru margar tjarnir í hraunhellum, og í mjög mörgun finnast dvergvaxta hellableikjur. Þetta er sérstaklega heppilegt fyrir rannsóknir á þróun, af því að mögulegt er að í hverjum helli hafi einangrast stofn sem þróist sjálfstætt. Hellableikjan gæti því verið nokkurskonar náttúruleg tilraun í þróunarfræði, svona dálítið eins og þegar fólk gerir tilraunir í 10 aðskildum túbum af bakteríum á tilraunastofunni.

Fyrstu niðurstöður úr rannsókn Bjarna og félaga voru ræddar í fréttum Rúv 26. ágúst síðastliðinn (Hellableikja rannsökuð í Mývatni.). Þar segir Bjarni frá því að  erfðafræðilegur munur hafi fundist milli hellana (25 voru skoðaðir), sem bendir til þess að í þeim séu "erfðafræðilega aðgreindir stofnar af bleikju, þeir eru margir hverjir mjög litlir (50 veiddir)". Fiskarnir eru einnig frekar svipaðir að útliti, sem er vísbending um að samskonar aðlaganir hafi orðið í mismunandi hellum við vatnið.

Spurningarnar sem fyrirhugað er að rannsaka í framhaldinu (með orðum fréttamans RÚV) er "Hvenær og hvernig bleikjan komst í hellana?" og "Hvernig eru hún erfðafræðilega skyld bleikjunni í vatninu og innbyrðis?"

Bjarni er ungur og upprennandi vísindamaður sem fékk einmitt nýstirnisverðlaun Líffræðifélagsins árið 2011.


Auglýst eftir ritstjóra fyrir Náttúrufræðinginn

Tilkynning:
Hið íslenska náttúrufræðifélag óskar eftir að ráða starfsmann til að ritstýra félagsriti sínu Náttúrufræðingnum. Náttúrufræðingurinn er alþýðlegt fræðslurit um náttúru Íslands og náttúrufræði og hefur tímaritið komið út samfleytt í 82 ár síðan 1931. Fjögur hefti eru gefin út á ári og er hver árgangur um 160 blaðsíður. Ritstjóri hefur umsjón með útgáfunni og starfar með ritstjórn.
Helstu verk ritstjóra eru að afla efnis í tímaritið, tryggja fagleg og málfarsleg gæði sam-þykktra greina, stjórna umbroti tímaritsins, afla auglýsinga, hafa umsjón með prentun tímaritsins og sjá til þess að því sé dreift til meðlima félagsins. Einnig er gert ráð fyrir að ritstjóri kynni efni tímaritsins og birti útdrætti á netsíðu félagsins. Um er að ræða 50% starfshlutfall og launakjör samkvæmt starfsheitinu Yfirnáttúrufræðingur í samræmi við kjarasamning FÍN og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Auk þess fær ritstjóri ákveðið hlutfall af auglýsinga-tekjum.
Fyrir hendi er aðstaða með nauðsynlegum tölvu- og skrifstofu-búnaði. Æskilegt er að umsækjandi hafi reynslu af ritstjórn eða útgáfu-málum, kynningar- og markaðsmálum og hafi góða grunnþekkingu í náttúrufræðum og á íslenskri náttúru. Miðað er við ráðningu frá 1. október 2012.
Nánari upplýsingar veitir Árni Hjartarson formaður HÍN (ah@isor.is, 864 0846).

Rýnt í gegnum drífuna: rannsóknir á vistfræði mörgæsa

Breytingar á umhverfinu hafa margvísleg áhrif á lífverur, og geta leitt til minnkunar stofna og jafnvel útdauða. Erfitt hefur reynst að rannsaka mörgæsir og vistfræði þeirra, vegna náttúrulegra aðstæðna, og því er lítið vitað um sögu þeirra og sveiflur í stofnum. Tom Hart hefur notað stofnerfðafræði við rannsóknir á nokkrum mörgæsastofnum, bæði á suðurheimskautinu og við heimskautasvæðið. Tom Hart starfar við Dýrafræðistofnunina í London (Institute of Zoology London), sem er nátengd dýragarðinum í borginni.

tomhart_penguins.jpg

Mynd af mörgæs tók Tom Hart - höfundaréttur er hans.

Hann mun fjalla um rannsóknir sínar í erindi föstudaginn 31. ágúst 2012. Erindið kallast, Rýnt í gegnum drífuna: rannsóknir á vistfræði mörgæsa fjarri miðstöðvum vísindanna (Peeking behind the snowdrift: revealing penguin ecology away from scientific bases).

Ágrip erindis Tom Hart:

Mörgæsir eru meðal best rannsökuðu dýra suðurheimskautasvæðisns. Engu að síður vitum við mjög lítið um vistfræði þeirra og hvernig þær bregðast við loftslagsbreytingum og vaxandi nýtingu fiskistofna. Að auki er ekki vitað hvað mikill samdráttur í hvala og selaveiðum þýðir fyrir suðurhöf. Því er óvíst hvaða breytingar á mörgæsum eru tilkomnar vegna náttúrulegra breytinga, vegna loftslags eða vegna breytinga á nýtingu sjávarfangs. Undanfarin fjögur ár hefur Hart þróað nýjar aðferðir við greiningar á stofngerð mörgæsa. Aðferðirnar þarfnast ekki veiða á dýrum og eru afkastamiklar, þ.e. hægt er að kanna mjög marga einstaklinga og stofna með litlum tilkostnaði. Með því að samtvinna stofnerfðafræði og töluleg líkön, hefur tekist að afhjúpa breytingar í stofngerð nokkura mörgæsategunda frá lokum ísaldar, og einnig sveiflur í stofnstærð síðustu tvö hundruð árin.

Hann mun halda erindi í boði Líf og umhverfisvísindastofnunar HÍ. Fyrirlesturinn verður í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ, og hefst kl 16.00. Hann er öllum opinn og ókeypis.

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.


Svo mikið elskaði móðirin börn sín...

Stökkbreytingar eru líf og yndi erfðafræðinga. Án stökkbreytinga hefði Mendel verið ómögulegt að greina lögmál erfðanna, og þær hjálpa okkur að skilja líffræði margra eiginleika og sjúkdóma.

Flestar stökkbreytingar eru slæmar, eða hlutlausar

En stökkbreytingar eru ekki (bara) til að erfðafræðingar njóti lífsins. Þær eru aukaverkun kerfa sem afrita erfðaefni í frumum. Kerfin framkvæma afritun (nokkurskonar ljósritun) á eldri litningum, þegar búa á til nýja frumu (t.d. sæði eða egg). Kerfin virka eins og munkar sem skrifa upp helgirit, þau afrita upprunalega textann, staf fyrir staf, orð fyrir orð. Stundum gera þau skyssur, setja A í stað C, og þá verður stökkbreyting. Flestar stökkbreytingar eru slæmar, eða amk hlutlausar (þ.e. hafa ekki áhrif á svipfar eða eiginleika einstaklingsins). Að auki búa frumur yfir viðgerðarkerfum sem laga skemmdir í DNA, m.a. til að vernda afkvæmi fyrir stökkbreytingum. Segja má að foreldrar elski börnin sín svo mikið að þeir leiðrétti næstum allar villur í erfðaefninu sem þeir láta ungunum í té.

Jákvæðar stökkbreytingar  eru sjaldgæfar

Í undantekningatilfellum verða til hagstæðar stökkbreytingar, sem bæta eiginleika prótína eða einhverra kerfa frumunnar eða líkamans. Þessar stökkbreytingar eru hráefni þróunar. Þær getur náttúrulegt val gripið og dregið í gegnum stofninn. Með öðrum orðum, nýjar stökkbreytingar byrja allar í mjög lágri tíðni. Í tilfelli nútímamannsins er það 1 á móti 2 * 7 milljarðar. Ef stökkbreytingin er jákvæð (og heppnin með henni) þá getur hún aukist í tíðni, kannski upp í 1/1.000.000, 1/1000 eða jafnvel 1/2. En það er ekki fyrr en stökkbreytingin hefur náð 100% tíðni í stofni einhverrar lífveru, að hún er orðin hluti af þeim erfðafræðilega mun sem aðskilur þá tegund frá sínum nánasta ættingja. Í tilfelli okkar og simpansa eru það bara nokkur prósent, um 2% staða í erfðamenginu sem mynda þann mun.

Haldane spáði hærri stökkbreytitíðni í körlum

J.B.S. Haldane benti á árið 1947 að karlar framleiddu sæðisfrumur alla ævina, en konur fæddust með sína eggvísa tilbúna. Því mætti búast við því að stökkbreytitíðni í kynfrumum karla væri hærri en í kynfrumum kvenna.  Tækniframfarir hafa gert kleifar nýlegar rannsóknir á þessari tíðni, mun á milli kynja og áhrifum aldurs. Til þess að finna nýjar stökkbreytingar þarf að bera saman erfðamengi foreldra og afkvæma í heild sinni.  Í fyrra birtu Conrad og félagar rannsókn sem mat stökkbreytitíðnina sem u.þ.b. 70 per kynfrumu/kynslóð, en þeir sáu einnig mikinn mun á milli kynja, og á milli einstaklinga.

Íslensk erfðagreining staðfestir tilgátu Haldanes

Ný rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar (Augustine Kong og félagar í Nature) leitaðist við að mæla á nákvæmar stökkbreytitíðnina. Þau, í samstarfi við raðgreiningarfyrirtækið Illumina, raðgreindu erfðamengi 219 íslendinga. Um var að ræða 57 foreldra og afkvæma þrendir (trio), og nokkrar stærri fjölskyldur (m.a. með tveimur systkynum).

Niðurstöðurnar styðja tilgátu Haldanes, og leyfa mat á aukningu í tíðni stökkbreytinga samfara auknum aldri karlanna. Að meðaltali tvöfaldast fjöldi stökkbreytinga sem finnst í sæðisfrumum karla, hver 16 ár. Það þýðir að eldri feður láta afkvæmum sínum í té mun fleiri nýjar stökkbreytingar en yngri feður, sirka 2 stökkbreytingar á hvert ár. Aldur feðra er sterkasti þátturinn sem hefur áhrif á nýjar stökkbreytingar, munur á milli einstaklinga eru raunverulegur en veigaminni og umhverfið virðist ekki hafa mjög sterk áhrif (líklega þarf að kanna það aðeins betur samt, með annari tilraunauppsetningu).

Aukin stökkbreytitíðni getur útskýrt (að hluta) aukinugu í tíðni einhverfu

Þetta getur útskýrt af hverju sumir sjúkdómar sýna fylgni við aldur föður. Líkurnar á einhverfu og geðklofa aukast t.d. samfara hærri aldri föður (sjá gott yfirlit í The Autism Wars í NY Times). Í sýninu voru 44 afkvæmi með einhverfu og 21 geðklofa, og eitthvað slangur af einstaklingum sem ekki sýndu þessi einkenni. Við fyrstu sýn virðist ekki sem tíðni stökkbreytinga sé hærri í einhverfum einstaklingum (eða þeim með geðklofa) miðað við aðra. Það staðfestir að flestar stökkbreytingar eru líklega hlutlausar, a.m.k. með tililti til þessara sjúkdóma.

Ólíklegt að gamlir kallar ógni erfðafræðilegri framtíð mannkyns

Sumir hafa áhyggjur af því að með hækkandi meðalaldri feðra, sé erfðafræðilegri framtíð mannkyns stefnt í voða. Kári Stefánsson segir að það sem sé slæmt fyrir börnin geti verið gott fyrir stofninn. Það er í sjálfu sér rétt að stökkbreytingar eru hráefni þróunar, en þar sem yfirgnæfandi hlutfall þeirra er slæmur þykir mér ályktun hans ansi hæpin.

Alexey Khondrasov hvetur til þess að tvítugir menn geymi sæði, en Evan Eichler bendir á að margir fullorðnir menn eiga fullkomleg eðlileg börn. Einn frískasti maður sem ég þekki, fæddist föður sínum rúmlega fimmtugum, sem sjálfur var getinn af fimmtugum föður og hann af manni á sama aldri. Langalangafi hins fríska var semsagt upp um 1800 þegar smámennið Napóleón fór með hernaði um Evrópu.

Í grein Kong og félaga er graf sem sýnir að aldur íslenskra feðra er lægri nú á dögum, en hann var milli 1600 og 1900. Því þykir mér ólíklegt að núverandi hækkun í meðalaldri feðra sé það slæm að við þurfum að frysta hreðjar (eða sýni úr eistum) ungra manna.

Ítarefni og leiðréttingar.

Haldane, J. B. S. Ann. Eugen. 13, 262271 (1947)

Donald F. Conrad o.fl. Variation in genome-wide mutation rates within and between human families Nat Genet. ; 43(7): 712–714. doi:10.1038/ng.862.

Augustine Kong o.fl. Rate of de novo mutations and the importance of father’s age to disease risk Nature 488, 471–475 (23 August 2012) doi:10.1038/nature11396

Father’s Age Is Linked to Risk of Autism and Schizophrenia  BENEDICT CAREY NY Times 22. ágúst 2012.

Það er rangt sem kemur fram í fyrirsögn Pressunar/Eyjunar

Merkileg uppgötvun Íslenskrar erfðagreiningar: Hærri aldur feðra eykur líkur á einhverfu

Hið rétta er að ÍE staðfesti eldri niðurstöður sem sýndu að aldur feðra eykur líkurnar á einhverfu, og brá mati á tíðni stökkbreytinga sem gætu legið þar að baki.

BBC gerir svipaða skyssu í titli, en vandar sig svo í meginmálinu að greina frá því ÍE hafi í raun staðfest eldri tilgátu Older dads link to rise in autism

Greinin var leiðrétt og millifyrirsögnum bætt við eftir að hún birtist fyrst. Velvirðingar er beðist á misskilning og ruglingi sem þetta kann að valda.


mbl.is Stökkbreytingar ráðast af föður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr. Church skrifar bók í DNA

Í mannafrumu eru um 6.000.000.000 bókstafir, sem byggja 23 litningapör. Bókstafirnir, eru svokallaðir niturbasar, sem hanga saman í löngum keðjum - sem parast og hvelfast um hvora aðra. Hver litningur er gerður úr tveimur slíkum keðjum sem mynda einn DNA helix, eða stigul. Þetta er DNA, erfðaefnið sem er myndað af sömu fjórum gerðum niturbasa í öllum lífverum á jörðinni. Munurinn á milli tegunda eins og manns og svíns liggur í röð basanna, svona rétt eins og munurinn á Íslandsklukkunni og Afleggjaranum liggur í röð bókstafa og orða.

dna_double_helix_vertikal.pngDNA er eitt stöðugasta efni jarðar, það myndar helix og getur varðveist í leifum lífvera um þúsundir ára. Því hafa margir horft til erfðaefnisins sem mögulega leið til að geyma upplýsingar, og jafnvel reikna.

Nú hefur tækninni fleytt svo fram að hægt er að búa til stuttar og langar DNA sameindir fyrir viðráðanlegar fjárhæðir. Við líffræðilegar rannsóknir er alsiða að kaupa 20-25 basa búta, til að ná tangarhaldi á ákveðnum genum. En nú einnig er hægt að skeyta saman mörgum lengri bútum, og setja saman heilann bakteríulitning.

Árið 2010 bárust tíðindi af því að Craig Venter og samstarfsmenn hefðu smíðað litning örveru á tilraunastofu, og flutt hann í heilu lagi inn í erfðaefnislausa frumu. Þannig opnuðu þeir leið fyrir mjög yfirgripsmiklar erfðabreytingar á heilum lífverum (sjá Ekta gervi og  'Artificial life' breakthrough announced by scientists). Venter og félagar sýndu fram á þetta, m.a. með því að skrifa skilaboð í erfðaefnið, m.a. línu frá James Joyce ( “To live, to err, to fall, to triumph, to recreate life out of life.”) sem þeir reyndar höfðu ekki leyfi til að eftirprenta.

Fyrsta dæmi um að menn hafi skrifað upplýsingar í DNA er líklega frá árinu 1988, en það voru stutt skilaboð (n.k. upphafsstafir). Tilvitnun Joyce og annað pár Venters og félaga var með rétt rúmlega 7000 bita af upplýsingum (ef við leyfum okkur að nota tölvuslangur).

Nú berast tíðindi um að George M. Church og tveir samstarfsmenn hafi skrifað heila bók í DNA. Um er að ræða  53.426 orð, 11 myndir á JPG formi og 1 forrit (ritað með JavaScript) - í streng sem 5.27 megabit. Þeir bjuggu til 54.898 DNA búta, sem hver um sig var 159 basar á lengd. Í hverjum bút voru 96 basar með upplýsingum, 19 basar sem auðkenndu staðsetningu í heildarverkinu og 22 á sitthvorum endum sameindarinnar til að hægt sé að lesa hana (með PCR mögnun og DNA raðgreiningu).

Þetta er forvitnileg atburðarás. Með tillit til þess hversu hratt tækni til raðgreininga DNA fleytir fram, er mögulegt að í framtíðinni munum við geyma upplýsingar í DNA, geymt í túbum í frystinum en ekki í bókahillunni eða tölvunni. Ef við leyfum okkur að dreyma um þá framtíð, getum við mögulega heyrt þessar samræður.

Emil: Ég ætla að fara að lesa Brekkukotsannál, manstu í hvaða túbu hann er?

Tóta: Ætli það sé ekki í túbu 401...ef krakkarnir vilja horfa á Andarsögur (Ducktales), taktu þá túbu 313 líka.

Ítarefni:

Geraint Jones The Guardian, 16. ágúst 2012 Book written in DNA code

Church GM, Gao Y, Kosuri S (2012) Next-generation Digital Information Storage in DNA. Science DOI: 10.1126/science.1226355


Steinar Egils Sæbjörnssonar þjófstarta Menningarnótt

Egill Sæbjörnsson* fjöllista- og tónlistarmaður starfar mest í Berlín, en hefur dvalið hérlendis í sumar.

Hann setti meðal annars upp 3 verk í Gallery i8 (Tryggvagata 16). Víðsjá ræddi við Egill í júlímánuði - Egill Sæbjörnsson í Gallery i8 um verk hans. Sýningin er opin til 25. ágúst 2012.

Hann hefur einnig sett saman bók byggða á nýlegu verki með talandi steinum. Úr tilkynningu: 

egill_hen3.jpgFöstudaginn 17. ágúst verður útgáfu bókarinnar Stones According to Egill Sæbjörnsson, eftir myndlistarmanninn Egil Sæbjörnsson fagnað í húsakynnum Crymogeu að Barónsstíg 27. Að því tilefni verða einnig sýnd ný verk Egils sem tengjast bókinni. Útgáfufögnuðurinn hefst kl. 17 og eru allir velkomnir.

Bókin Stones According to Egill Sæbjörnsson er ný útgáfa þýsku listabókaútgáfunnar Revolver Publishing, gefin út í tengslum við sýningu Egils í Künstlerhaus Bremen í Þýskalandi, The Egg or the Hen, Us or Them. Sýning Egils hverfist um spurninguna um samband manns og steins og samband náttúru og manns. Í bókinni leiða fræðimenn úr ýmsum greinum náttúruvísinda, lista og heimspeki saman hesta sína til að varpa ljósi á þessa spurningu sem og skilning okkar á þróun tegunda og félagsheilda og samskipti ólífrænna efna og lífheilda. Þessar hugmyndir eru skoðaður út frá listrænum, jarðfræðilegum, líffræðilegum og félagsfræðilegum sjónarhóli um leið og margbrotnu og glettnu verki Egils eru gerð skil.

Í viðtölum við Dr. Jane Bennett, kennara við John Hopkins háskólann í Baltimore og Dr. Arnar Pálsson, kennara í erfða- og þróunarfræði við Háskóla Íslands kryfur Egill spurninguna um tengsl ólífrænna efna og mannsins sem og spurningar á borð við hvort listin sjálf sé sérstök tegund. Dr. Matthias Mäuser, forstöðumaður Náttúruvísindasafnsins í Bamberg í Þýskalandi og listaheimspekingurinn Albert H.S. nálgast einnig margbreytileg tengsl lífvera og ólífrænnar náttúru og með ljósmyndum af jarðfræðilegum fyrirbærum, teikningum, klippimyndum og heimildum um sýninguna sjálfa opnast heillandi heimur steinsins.

Bókin er gefin út af Revolver Publishing í Þýskalandi, en Crymogea dreifir henni hérlendis.

Myndin er úr sýningunni  The Egg or the Hen, Us or Them sem sett var upp í Kunstlerhaus Bremen.

*Til upplýsingar: Egill er frændi vor, tiltölulega náskyldur. Ég get því ekki talist hlutlaus álitsgjafi, en klæði mig fús í klappstýrugalla en leiðist klappstýrudansinn. Ég naut þeirra forréttinda að liðsinna Agli við gerð bókarinnar, með því að svara nokkrum spurningum um steina, lífið, uppruna þess og eðli. Vonandi gefst mér færi á að rekja þá atburðarás og skyldar hugmyndir síðar.


Trú á yfirnáttúru og kraftaverkalyf er meinsemd

Hví trúir fólk furðulegum hlutum? spurði Michael Shermer í bók sem kom út i lok síðustu aldar (Why  people believe weird things). Þar fjallar hann um fólk sem trúir undarlegum hlutum, t.a.m. þá sem afneita helförinni, dýrka djöfla, trúa sköpunarsögu biblíunar, sem smíða samsæriskenningar og aðra sértrúarsöfnaði í öllum regnbogans litum.

Shermer hefur mestan áhuga á því hvað fær fólk til að trúa undarlegum hlutum, t.d. talandi runnum, tilgátum um samsæri gyðinga eða því að geimverur  hafi numið þá á brott.

Hin hliðin á málinu er sú að með einstrengingslegri trú á kjaftæði verður sumt fólk að meinsemd í mannlegu samfélagi. Skýr dæmi um hvernig trúarofstæki leiðir til hörmunga eru krossferðirnar, spænski rannsóknarrétturinn og fávitarnir sem flugu á tvíburaturnanna.

Önnur dæmi eru kannski ekki eins skýr, eins og trúa smáskammtalækningar (homeopathy) óhefðbundnar lækningar, bænir eða Atkinskúrinn. Nýjasta dæmið er trú sumra Laosbúa á að duft mulið úr beinum ljóna hafi lækningamátt.

Þetta er bara eitt dæmið af mörgum þar sem óhefðbundnar lækningar, (kannski sérstaklega í Asíu, en þó þoli ég ekki að fullyrða það) geta haft slæmar afleiðingar. Það eru engin vísindaleg gögn sem benda til þess að ljónabeinaduft hafi lækningarmátt, en engu að síður er komin upp þörf og þar með þrýstingur á síminnkandi ljónstofna. Deyjandi gamalmenni í Laos er örugglega alveg sama hvort að duftið sem hann fái sé úr síðasta ljóninu eða því næst síðasta, svo lengi sem hann trúi því að það bæti lífslíkur hans eitthvað. Þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum verða örlög annara, sérstaklega annara dýra, harla léttvæg.

Hérlendis er hæpið að nokkur muni kaupa ljónabeinaduft sér til hressingar, en í staðinn er nóg framboð af öðrum snákaolíum og hressingarlyfjum.  Ég vona að til þess komi ekki að íslenskir kraftaverkalyfja-neytendur taki þátt í útrýmingu ljóna, eða annara tegunda í útrýmingarhættu. Hins vegar eru sumar pillur sem seldar eru í heilsubúðum úr fágætum tegundum, sem eru ofnýttar í náttúrunni , t.d sólhatti (Echinacea ).

Því er mikilvægt að við áttum okkur á því að ekki öll vandamál hafa lausnir. Stundum getum við ekkert gert við sjúkdómum annað en lina þjáningar. Við viljum leita lausna, en lausnin kann að vera líkn frekar en ljónabeinaduft.


mbl.is Vilja mala ljónabein í lyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættartré tegunda, einstaklinga og gena

Erfðamengjabyltingin gerir okkur kleift að greina erfðamengi einstaklinga, ekki bara manna heldur einnig annara lífvera. Nú berast fregnir af rannsókn á erfðamengjum 23 hvítabjarna og nokkura brúnbjarna. Markmiðið er að meta aldur hvítabjarna - hvenær aðskildust þeir frá sameiginlegum forföður hvítabjarna og brúnbjarna? Einnig er hugmyndin að kanna erfðabreytileika innan hvítabjarnarstofnsins, og með einstöku ~120.000 ára gömlu beini úr hvítabirni sem Ólafur Ingólfsson fann, kanna nýlega sögu stofnsins. 

IsbjarnarKjalki_OlafurIngolfssonMynd af beininu tók Ólafur Ingólfsson jarðfræðingur. 

Rannsóknin birtist í hinu virta tímariti PNAS, og er helstu niðurstöðum hennar gerð ágæt skil í nýlegri fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands Hvítabirnir blandaðri brúnbjörnum en áður var talið (birtist meðal annars nær orðrétt á mbl.is -Hvítabirnir eldri en áður var talið).

Ein niðurstaða greinarinnar er að aldur hvítabjarna er mun meiri en áður var talið. Fyrra mat var um 150.000 ár, en nýjustu tölur benda til að um 3-4 milljón ár séu síða hvíta og brúnbirnir aðskildust í tegundir. Hví þessi mikli munur?

Munurinn liggur í því að mismunandi hlutar erfðamengisins voru skoðaðir. Fyrra matið á aldri hvítabjarna byggði á erfðaefni úr hvatberanum - og benti til þess að sameiginlegur uppruni tegundanna hafi verið fyrir um 150.000 árum. Seinna matið byggði á öllu erfðamenginu, og þá sést að flest gen og litningabútar aðskildust fyrir um 3-4 milljónum ára. Seinni talan er rétt, því hún byggir á næstum öllu erfðamenginu. En ég legg áherslu á að flest gen sýna þennan mikla aldur, því önnur gen sýna lægra gildi. Eðlileg frávik í svona aldursmati umtalsverð, geta skeikað þúsundum ára ef ekki hundrað þúsund árum. En munur upp á 150.000 til 4.000.000 ár kallar á aðrar skýringar.

Greinin lýsir því að þessi náni skyldleiki milli hvítabjarna er mestur við brúnbirni frá ákveðnu svæði í vestaverðu Kanada. Svarið við gátunni er genaflæði, afrakstur kynmaka (og jafnvel ásta) hvítabjarna og brúnbjarna. Sum gen, m.a. hvatbera litningurinn virðist hafa flætt frá hvítabjörnum til brúnbjarna, líklega þegar dýrin á þessu landsvæði hittust í kjölfari hlýnunar og búferlaflutninga.

Lykilatriðið er að ættartré gena, einstaklinga og tegunda eru ekki þau sömu. Við erfum gen og litningabúta frá foreldrum okkar, ömmum, öfum og öðrum forfeðrum. Erfðamengi einstaklings er blanda af genum forfeðra. Gen hvers okkar eru handahófskennd blanda af genum fjögurra langafa og fjögurra langamma*. Við kunnum að fá eintök af einu geni frá ömmunni í Bárðardal, og afanum frá Bæ, en eintök næsta gens geta verið frá Arkangelsk og Dýrafirði.

Erfðafræðirannsóknir hafa nú afhjúpað slík mynstur í mörgum tegundum. Aldur hvatberalitnings mannsins er annar en aldur Y-litningsins (þannig að Askur og Embla voru tæplega samtíða). Einnig sjást skýr merki um kynblöndun Neanderdalsmanna og forfeðra okkar utan Afríku (Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?).

* að því gefnu að engin skyldleikaæxlun hafi verið!

Ítarefni

Polar and brown bear genomes reveal ancient admixture and demographic footprints of past climate change Millera o.fl. 2012 PNAS www.pnas.org/cgi/doi/10.1073/pnas.1210506109

Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?


mbl.is Hvítabirnir eldri en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðursdoktor við Háskóla Íslands

David Attenborough er flestum vel kunnugur, sem dásamleg sjónvarpspersóna og ástríðufullur talsmaður náttúru og fræða. Færri vita að þann 24. júní 2006 var David Attenborough gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Kristín Ingólfsdóttir rektor sagði af því tilefni að mikilvægi Attenboroughs væri tvíþætt

Annars vegar er hinn einstaki persónuleiki og geta til að færa flókin vísindi í búning sem alla heillar. Hins vegar eru sjálf vísindin, sem vinna hans byggir á, traust og áreiðanleg

Úr frétt Morgunblaðsins af þessu tilefni (Attenborough heiðursdoktor 25. júní 2006)

Attenborough er heiðursdoktor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og á vefsíðu deildarinnar er fjallað um starf hans og sögu, Stiklað á stóru á ferli Davids Attenborough

Starfsævi Davids Attenborough (f.1926) er orðin bæði löng og margbrotin. Hann hefur komið mun víðar við en flesta grunar og gefið út fjöldann allan af fræðsluefni, aðallega fyrir sjónvarp en líka t.a.m. á. bókaformi, sem farið hefur fram hjá almenningi hér á landi. Hér er stiklað á stóru á ferli Attenboroughs, til að sýna hversu viða hann hefur komið við á starfsferli sínum. Hann var orðinn afkastamikill löngu áður en Life on Earth opinberaðist sjónvarpsáhorfendum.

Pistilinn um David Attenborough er ritaður af hæverskum aðdáanda David Attenborough og lesinn yfir af ykkar æruverðugum.


mbl.is Attenborough heiðraður með kónguló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband