Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Tilviljun og nauðsyn, meistaraverk franska nóbelsverðlaunahafans Jacques Monod.

Líffræðistofa Háskóla Íslands stendur fyrir málþingi þann 8. febrúar n.k. um bókina Tilviljun og nauðsyn, meistaraverk franska nóbelsverðlaunahafans Jacques Monod.


Jacques Monod var einn fremsti sameindalíffræðingur sögunnar. Á yngri árum vann hann við rannsóknir á lífríki sjávar. Hann var í áhöfn rannsóknarskipsins Pourquois Pas, fyrir hinstu för þess til Íslands. Örlögin leiddu til þess að Monod fór ekki til Grænlands og Íslands heldur til Kaliforníu og kynntist erfðafræði.

 

Rannsóknir hans og Francois Jacob á sykurnámi E. coli gerla ollu straumhvörfum í líffræði. Þeir félagar fengu Nóbelsverðlaunin 1965 (ásamt Andre Lwoff) fyrir að uppgötvanir sínar á genastjórnun. Monod velti fyrir sér sameindalíffræði í víðu samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn sem kom út árið 1970. Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands þýddi bókina úr frönsku og Hið íslenska bókmenntafélag gaf hana út 2012.

 

Á málþinginu verða flutt fjögur stutt erindi um Monod, verk hans og áhrif þeirra. Guðmundur Eggertsson mun kynna Jacques Monod og bók hans Tilviljun og nauðsyn. Ólafur S. Andrésson prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands mun ræða sérstaklega rannsóknir Monod og félaga á genastjórn sykurnýtingar E. coli. Björn Þorsteinsson sérfræðingur við Heimspekistofnun HÍ ræðir og gagnrýnir hugtak Monods um „siðfræði þekkingarinnar“. Jafnframt mun hann huga að sambandi þessa hugtaks við skoðanir Monods á samfélagsmálum. Að síðustu mun Luc Fuhrmann sendiráðunautur flytja erindið “The impact of Chance and Necessity in the 70s”. Fundarstjóri verður Eva Benediktsdóttir, forseti Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

 

Málþingið verður haldið 8. febrúar 2013, milli kl. 16:00 og 18:00 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis. Erindin verða fyrsta klukkutímann í stofu 132 og boðið verður upp á léttar veitingar að þeim loknum.

Málþingið er styrkt af eftirtöldum aðillum:

Sendiráði Frakklands á Íslandi

Líffræðifélagi Íslands

Örverufræðifélagi Íslands

Mannerfðafræðifélagi Íslands

Verk og náttúruvísindasviði HÍ

Gróco ehf

ORF líftækni

Hinu Íslenska bókmenntafélagi

GPMLS við HÍ


Langtíma breytileiki í erfðasamsetningu þorsks (Gadus morhua) við Ísland

Tilkynning frá HÍ.

 --------------------------------

Þriðjudaginn 29. janúar n.k. fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild. Þá ver Klara Björg Jakobsdóttir doktorsritgerð sína: Langtíma breytileiki í erfðasamsetningu þorsks (Gadus morhua) við Ísland (á ensku: Historical genetic variation in Atlantic cod (Gadus morhua) in Icelandic waters).

Andmælendur eru  Svein-Erik Fevolden, prófessor við Háskólann í Tromsø, Noregi  og  Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum

Leiðbeinendur eru Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Daniel E. Ruzzante, prófessor við Dalhousie háskólann í Halifax, Kanada og Dr. Christophe Pampoulie, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent við Líf- og Umhverfisvísindadeild og forseti Líf- og Umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, mun stjórna athöfninni.

Tengill á ritgerð: http://skemman.is/handle/1946/13858

Ágrip

Þekking á erfðafræðilegri stofngerð þorsks hefur aukist til muna á undanförnum áratugum. Hins vegar er enn lítið vitað um sögulegar breytingar í erfðasamsetningu þessa fisks eða möguleg áhrif fiskveiða á hana, hvort sem er í tíma eða rúmi. Markmið þessa doktorsverkefnis var að kanna erfðabreytileika þorsks á seinni hluta síðustu aldar og meta áhrif fiskveiða.

Unnt er að nýta gamlar kvarnir sem hefur verið safnað af Hafrannsóknastofnun til aldursgreininga, til að nálgast erfðaefni. Í fyrsta hluta verkefnisins er fjallað um notkun nýrra erfðamarka en léleg gæði erfðaefnis sem einangrað var úr uppþornuðum vefjaleifum af yfirborði kvarnanna kallaði á þróun nýrra aðferða til að auðvelda notkun þess.

Í öðrum hluta ritgerðarinnar var hið valbundna Pan I erfðamark notað til að aðgreina erfðafræðilega tvo hópa þorsks sem sýnt hafa ólíkt atferli m.t.t. til fæðunáms. Þannig var sýnt fram á að Pan IAA arfgerð einkennir grunnfarsþorsk, sem heldur sig á grunninu allt árið um kring en Pan IBB arfgerð virðist einkenna djúpfarsþorsk sem leitar í dýpri sjó og í hitaskil til fæðuöflunar.

Í megin hluta ritgerðarinnar var notað erfðaefni af  kvörnum sem safnað var á árunum um 1948-2002 auk líffræðilegra upplýsinga til að kanna langtíma breytingar á arfgerðatíðni Pan I erfðamarksins sem og hlutlausra erfðamarka (örtungl) í hrygnandi þorski við Ísland. Helstu niðurstöður voru þær að jafnframt því sem að meðalaldur fiska lækkaði á tímabilinu urðu breytingar á arfgerðatíðni Pan I erfðamarksins. Þessar niðurstöður bentu eindregið til þess að hlutfall Pan I BB arfgerðar sem einkennir djúpfarshópinn hafi minnkað í kjölfar aukins fiskveiðiálags á rannsóknartímabilinu.

Ítarleg rannsókn á langtíma breytileika í hlutlausum erfðamörkum (örtungl) leiddi í ljós töluverðan breytileika og erfðafræðilegan mun á milli ára, sér í lagi yfir seinni hluta tímabilsins. Erfðafræðileg stofnstærð (Ne) var metin vera á bilinu nokkur hundruð til þúsunda fiska sem er mjög lág miðað við eiginlegan hrygningarstofn. Niðurstöður bentu til þess að sá mikli breytileiki sem einkennir ýmis lífsöguleg atriði í íslenska þorskinum endurspeglist í breytilegri erfðasamsetningu en um leið tiltölulega lágri erfðafræðilegri stofnstærð. Jafnframt sýna niðurstöður fram á mikilvægi endurtekinnar söfnunar yfir lengri tímabil svo greina megi erfðafræðilegar langtímabreytingar frá skammtímasveiflum.

------------

sjá einnig Aðlögun að dýpi og  Intense Habitat-Specific Fisheries-Induced Selection at the Molecular Pan I Locus Predicts Imminent Collapse of a Major Cod Fishery

 


Erindi: af flugum og þorskum

Tveir framhaldsnemar í líffræði verja verkefni sín á næstunni.

Í dag 25. janúar 2013 mun Dagmar Ýr Arnardóttir verja ritgerð sína um breytileika í stjórnröðum ávaxtaflugunnar. Ritgerðin kallast "Testing for co-evolution between eve and hunchback in Drosophila melanogaster". Erindið er kl. 12:30 í stofu 131 í Öskju. Í ágripi segir:

Stjórnraðir í erfðamenginu gegna hlutverkum við að kveikja og slökkva á genum á réttum stað og tíma, bæði í þroskun og yfir æviskeið fjölfruma lífvera. Rannsóknir sýna að stjórnraðir eru vel varðveittar í þróun, og jafnvel má finna samsvarandi raðir í fjarskyldum tegundum eins og manni og fiski. Sérstaklega eru bindiset innan stjórnraða vel varðveitt, en við þau bindast prótín sem stýra virkni gena. Oft bindast mörg mismunandi prótín á hverja stjórnröð og sem ræður tjáningu gensins, á vefjasérhæfðan hátt eða í þroskun.

Náttúrulegar stökkbreytingar í bindisetum stjórnraða eru sjaldgæfar, t.d. þegar bornir eru saman margir einstaklingar sömu tegundar. Enn er sjaldgæfara að finna úrfellingar í sömu stjórnröð, hvað þá tvær sem báðar fjarlægja skilgreind bindiset fyrir sama stjórnprótín. Vitað er um eitt slíkt tilfelli. Í einni stjórnröð even-skipped gensins í Drosophila melanogaster eru tvær náttúrulegar úrfellingar sem fjarlægja tvö bindiset fyrir Hunchback stjórnprótínið.

Rannsóknin miðaði að því að kanna hvort að þessar úrfellingar væru staðbundið fyrirbæri (einungis í þessu geni) eða hvort vísbendingar væru um fleiri áþekka atburði í genamengi ávaxtaflugunnar. Markmiðið var að prófa tilgátur um samþróun stjórnprótínsins Hunchback og stjórnraða. 

Prófdómari verður Albert V. Smith. Leiðbeinendur Arnar Pálsson og Zophonías O. Jónsson.

Þriðjudaginn 29. janúar ver Klara Björg Jakobsdóttir doktorsritgerð sína: Langtíma breytileiki í erfðasamsetningu þorsks (Gadus morhua) við Ísland (á ensku: Historical genetic variation in Atlantic cod (Gadus morhua) in Icelandic waters).

Nánari upplýsingar um verkefni Klöru má finna á vefsíðu Guðrúnar Marteinsdóttur prófessors í fiskifræði (Marice).

Andmælendur eru  Svein-Erik Fevolden, prófessor við Háskólann í Tromsø, Noregi  og  Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum

Leiðbeinendur eru Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Daniel E. Ruzzante, prófessor við Dalhousie háskólann í Halifax, Kanada og Dr. Christophe Pampoulie, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni.


Við erum afkomendur Neanderdalsmanna

Erfðafræðingurinn George Church komst aldelis í hann krappann þegar orð hans í Der Spiegel voru mistúlkuð. Það er svo sem ekkert nýtt að blaðamenn mistúlki vísindamenn, eða einfaldi skilaboð þeirra svo að upprunalega merkingin týnist.

Þetta dæmi, þar sem Dr. Church veltir fyrir sér möguleikunum á að endurmynda Neanderdalsmenn, er sérlega broslegt. Það er hins vegar ekki rétt að endurmyndun á Neanderdalsmanni sé sérstaklega ólíklegt fyrirbæri. 

Erfðafræðilegar rannsóknir á beinaleifum sýna nefnilega að Neandedalsmenn voru mjög náskyldir okkur hinum. Þær benda einnig til að einhverjir forfeður okkar og Neanderdalsmanna hafi farið á stefnumót og uppskorið ávöxt ásta sinna.

Gögnin benda til þess að kynblöndun þessi hafi átt sér stað utan Afríku, þ.e. einhvern tímann eftir að forfeður okkar Evrópubúa fluttu frá Afríku með sitt hafurtask. Blöndunin er ekki mikil, það er álitið að einhver prósent af erfðamengi Evrópubúa eigi uppruna í Neanderdal.

Ef til vill er einhver breytileiki í dreifingunni, kannski eru einhverjir hérlendis með 10% af sínu DNA frá Neanderdal? Væri það ekki skemmtilegt? Opna spurningin er, ef við skoðum alla núverandi Evrópubúa, hversu stór hluta erfðamengisins má rekja til þessara ættingja. Eru það kannski bara partar af litningi 1, 4 og 7 sem eru ættaðir úr Neanderdal?

Ítarlegar er fjallað um kynblöndun okkar og Neanderdalsmanna í pistli fyrir Vísindavefinn:

Getur verið að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki dáið út heldur blandast nútímamanninum?


mbl.is Leitar EKKI að konu til að bera Neanderthals-barn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hluti af þroskaðri heimsýn

David Attenborough er heimsþekktur sjónvarpsmaður. Hann hefur ferðast um veröldina og kynnst lífríki á öllum meginlöndunum, sem og í hafdjúpunum.

Nýlega kom út ný þriggja þátta sería, sem kallast Lífssögur Attenboroughs (Attenborough’s Life Stories). Í fyrsta þættinum er fjallað um framvindu í myndtækni, frá fyrstu þáttunum sem BBC og Attenborough gerðu, til þeirra stórbrotnu myndatöku sem sést t.d. í Líf með köldu blóði. Í öðrum þætti er fjallað um samspil kvikmyndatækni og vísindalegra rannsókna, m.a. hvernig myndskeið frá BBC hafa staðfest vísindalegar niðurstöður. Í þriðja þættinum er fjallað um áhrif mannsins á náttúruna. Þeir sem hafa fylgst með þáttum Attenborough í gegnum tíðina eru ekki undrandi að sjá slíkan þátt. Þetta viðfangsefni hefur birst í mörgum þáttum, bæði sem aukaatriði og kjarni málsins.

David Attenborough hefur ferðast um heiminn og fylgst með lífríki stranda, skóga og fjalla. Starfsferill hans spannar áratugi, sem gefur honum tækifæri á að sjá og meta breytingar samfara fjölgun mannkyns. Ef hann telur að offjölgun mannkyns sé vandamál, þá ættum við að leggja við hlustir.

NY TIMES A Life of Being Smitten With This Species, That Habitat By NEIL GENZLINGER January 22, 2013.

Ágrip af ævi David Attenboroughs - heiðursdoktors við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ.

 


mbl.is Vill hefta fjölgun mannkyns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttinn mikli og ofurgen eldmauranna

Síðasta mánudag fjallaði ég um notagildi erfðafræði við rannsóknir á þroskun lífvera. Erfðafræðin getur nefnilega afhjúpað hvaða gen, prótín og ferli eru nauðsynleg til að byggja tiltekna vefi eða líffæri.

Síðasti punkturinn í erindinu var sá að erfðafræðin nýtist einnig við að rannsaka lífeðlisfræði og hegðun lífvera. Þegar ég nam í Norður Karólínu var hópur atferlisfræðinga  að beita erfðafræði til að kanna atferli ávaxtaflugna, t.d. hvaða gen tengjast taugaveiklun, viðbragði við fýlu og nikotíni. Í nýjasta hefti nature er skýrt frá tveimur rannsóknum á erfðum atferlis.

Mýs skipuleggja flóttann mikla

Villtar mýs í Norður ameríku eru mjög margvíslegar í útliti en einnig í hegðan. Einn músategund (svokölluð Olíuvallamús - Peromyscus polionotus) grefur sér langar holur, og alltaf neyðarútgang. Náskyldur stofn Dádýrsmúsa (Deer mouse P. maniculatus) grefur styttri holur en aldrei neyðarútgang.

Hopi Hoekstra og félagar æxluðu saman þessum stofnum og skoðuðu göngin sem afkomendurnir byggðu. Göngin voru öll með neyðarútgangi. Það bendir til að erfðaþáttur móti þetta atferli, og að hann sé ríkjandi.

Til að kanna þetta frekar, æxluðu þeir kynblendingunum við Dádýrsmýs, og könnuð göngin sem afkomendur þeirra byggðu. Niðurstöðurnar voru mjög skýrar. Sumar þessara músa byggðu löng göng, en aðrar stutt. Einnig gerðu sumar neyðarútgang en aðrar ekki. Eiginleikarnir tveir, (hæfileiki/vilji til að grafa löng göng eða til að grafa neyðarútgang) erfðust hins vegar óháð hvor öðrum. Það sýnir að óháðir erfðaþættir hafa áhrif á þessa tvo eiginleika. (sjá einnig umfjöllun BBC Mouse burrowing 'in their genes')

Ofurgen í eldmaurum

Eldmaurar (Solenopsis invicta) eru landlægir í Suður ameríku, en numu land í suðuríkjum BNA á fjórða áratug síðustu aldar. Þeir byggja sér bú, þar sem ein drottning ríkir, eins og algengt er meðal félagskordýra. Nema hvað töluverður fjöldi eldmaurabúa er með fleiri en eina drottningu, að því er virðist án vandkvæða. Þróunarfræðileg líkön sýna að togstreita er á milli drottningar og afkomenda hennar í búinu. Einnig verða oft blóðug átök þegar drottningin fellur frá. Því er frekar sjaldgæft að finna bú með fleiri en eina drottningu.

712px-solenopsis_invicta_casent0005804_head_1.jpgMynd af eldmaur S. invicta af vef Wikimedia commons og © AntWeb.orgCC-BY-SA-3.0

Áður hafði verið sýnt fram á að muninn á eindrollu og fjöldrollu búum mátti útskýra með einum erfðaþætti (Gp-9). Wang og félagar beittu sameindaerfðafræðilegum aðferðum við að  finna þennan erfðaþátt og skilgreina hann.

Í ljós kemur að þetta er ekki einn erfðaþáttur, heldur nokkurskonar ofurgen. Ofuregen eru ruma margra gena, líklega 616 stk. í eldmaurum,  sem erfast saman og öll taka þátt í að móta einn eiginleika. Í þessu tilfelli hversu margar drottningar eru leyfðar í búinu. 

Wang og félagar gerður ítarlegri rannsóknir á þessu ofurgeni, og litningnum sem það liggur á. Í stuttu máli hegðar þetta ofurgen sér hliðstætt kynlitningum  t.d. í spendýrum (XX: kvendýr, XY: karldýr). Þernur með BB  mynda einnar drottningar bú, en Bb gerðin fjöldrottningabú. Engir bb einstaklingar finnast í stofninum. Sem er áþekkt og hjá okkur, ekkert okkar hefur hitt YY manneskju eða YY hamstur.

Ítarefni og heimildir:

BBC Mouse burrowing 'in their genes'

Jesse N. Weber, Brant K. Peterson & Hopi E. Hoekstra  Discrete genetic modules are responsible for complex burrow evolution in Peromyscus mice Nature 493, 402–405 (17 January 2013) doi:10.1038/nature11816

John Wang, Yannick Wurm, Mingkwan Nipitwattanaphon, Oksana Riba-Grognuz, Yu-Ching Huang, DeWayne Shoemaker & Laurent Keller A Y-like social chromosome causes alternative colony organization in fire ants Nature (2013) doi:10.1038/nature11832


Heiðraða móðir og æsir allir

Nöfn skilgreindra tegunda lífvera fylgja kerfi sænska grasafræðingsins Carl von Linné (1707-1773). Nöfnin eru samsett úr tveimur orðum, sem eru skáletruð til auðkenningar. Fyrra orðið skipar tegund til ættkvíslar, en hið seinna er auðkenni hennar. Maðurinn er Homo sapiens, þar sem Homo er ættkvíslin okkar, og sapiens tegunda heitið. Í ættkvísl okkar voru nefnilega nokkrar aðrar manntegundir, þar af eru líklega Homo erectus og Homo neanderthalensis þekktastar.

Nafngiftirnar eru iðullega lýsandi, vísa í form eða lífshætti tegundar, en stundum velur fólk nöfn af öðrumuppruna. Eins og það að heiðra móður sína eða æsina með síðara nafni tegundarinnar.

Hinn einstaki og frábæri fræðari Örnólfur Thorlacius skrifaði ákaflega skemmtilega grein um tegundaheiti í Náttúrufræðinginn árið 2010 (Skondin fræðiheiti). Hann rekur nokkur furðuleg tegundaheiti, sem og skemmtilegar tilvísanir í goðafræði, popkúltúr og hetjur samtímans. Hann útskýrir bakgrunn tegundanafna kerfisins í inngangi greinarinnar:

---------------------

Kerfi sem tekur til milljóna tegunda, þar sem sífellt bætast nýjar við og jafnframt eru í endurskoðun mörkin á milli þeirra sem fyrir eru, verður aldrei fullkomið, en til að hafna óhæfum nöfnum og úrskurða um vafaatriði, meðal annars að draga úr líkunum á því að sama heiti sé notað um fleiri en eina tegund eða mörg heiti séu á þeirri sömu, eru starfandi alþjóðanefndir eða ráð. Hinar þekktustu þessara stofnana eru Alþjóðlega dýrafræðinafnanefndin (International Commission on Zoological Nomenclature) og Alþjóðlegu plöntuflokkunarsamtökin (International Association for Plant Taxonomy). Á milli þeirra virðist vera lítið sem ekkert samráð; í það minnsta er óátalið þótt sama fræðiheitið taki til tegundar plöntu og dýrs.

Ekki fer hjá því að sum heitin veki kátínu, og skal ósagt látið hvort það var ætlun höfunda. Hér eru birt örfá dæmi þessa. 

-----------------------

Norræna goðafræðin hefur verið uppspretta nokkra nafna, þ.a.m. á Thor amboinensis, sem þrátt fyrir glæsilegan titil er reyndar bara ósköp lítilfjörleg rækja. Hún gengur undir nafninu Sexy shrimp á ensku. Mynd af vefnum Tropical Favorites. NormalPicture

Skáldagáfa eða andagift vísindamanna er kannski ekki annáluð en hún finnur sér altént farveg í nöfnum tegunda. Einnig er til töluvert af hreint dásamlega skrýtnum genanöfnum (Nafnið á bakvið genið).


mbl.is Skírði nýja froskategund eftir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að senda í PLoS One

Það er ótrúlegur léttir að senda loks frá sér handrit að vísindagrein, eftir kannski margra ára vinnu. Í síðustu viku sendi ég handrit til PLoS One um rannsókn á erfðabreytileika í ónæmisgenum Þingvallableikjunnar, og samanburð á nokkrum öðrum stofnum hérlendis.

PLoS (Public Library of Science) er sjálfseignarstofnun sem gefur út vísindagreinar í opnum aðgangi, sem þýðir að hver sem er á jörðinni getur lesið greinina. Engin áskrift er nauðsynleg, né er rukkað fyrir rafræn eintök. Þetta gengur þvert á það sem útgefendur vísindatímarita hafa gert í meira en öld, þar sem þeir rukka einstaklinga, stofnanir og jafnvel lönd um afrit af tímaritum eða greinum. Heimspeki PLoS er dregin saman í stuttri lýsingu:

PLOS applies the Creative Commons Attribution License (CCAL) to all works we publish. Under the CCAL, authors retain ownership of the copyright for their article, but authors allow anyone to download, reuse, reprint, modify, distribute, and/or copy articles in PLOS journals, so long as the original authors and source are cited. No permission is required from the authors or the publishers.

Heimspekin um opinn aðgangur hefur rutt sér til rúms á undanförnum áratug, t.d. var PLoS Biology fyrst gefið út árið 2003, en nú eru 7 tímarit gefin út af samtökunum. Opinn aðgengi skiptir miklu máli fyrir Ísland því alþjóleg tímarit eru dýr í innkaupum, og mikilvægt að auka sýnileika íslenskra rannsókna. Hópur sem berst fyrir opnu aðgengi er starfræktur hérlendis, áhugasamir eru hvattir til að ganga í herinn.

openaccessweek2012.jpg

Um áramótin kynnti PLoS ný verkfæri til að greina áhrif og dreifingu á vísindalegri þekkingu (Redesigned PLOS Journals – now launched). Venjulega eru taldar tilvitnanir í greinar, þ.e. hversu margar aðrar rannsóknir eða greinar vitna í tiltekna rannsókn. Ef enginn vitnar í greinina þína, er hún mögulega arfaslök eða lítilsvirði. Ef margir vitna í hana, er líklegast að eitthvað sé í hana spunnið.

PLoS bætti við öðrum verkfærum til að meta áhrif greina, t.d. hversu margir hafa opnað tengilinn, hversu margir sóttu PDF útgáfu af greininni, sendu afrit á vini sína, tístu um hana o.s.frv. Sem dæmi má kíkja á grein í PLoS one frá 2005, Functional Evolution of a cis-Regulatory Module. Fyrir algera tilviljun valdi ég grein sem ég vann að sjálfur, þar sem við vorum að rannsaka þróun og starfsemi stjórnraða sem virka í þroskun ávaxtaflugna. Undir METRICS flipanum má sjá að 81 sinni hefur verið vitnað í greinina, henni hlaðið niður 2200 sinnum og 18 vísindamenn bættu henni í sínar persónulegu lista á CITEULIKE.

Þetta er flott viðbót við annars glæsilegt tímarit. Vonandi fylgja önnur tímarit í kjölfarið og taka upp svipaðar mælistikur.

Viðbót:

Margir af bestu skólum heims eru með sérstakar skrifstofur sem helgaðar eru aðgengi og skrifum. Harvard háskóli er t.d. með skrifstofu fræðilegrar miðlunar (Office of scholarly communication) sem rekur opið gagnasafn Háskólans og heldur býður upp á styrki til birtingar í opnum tímaritum.

Ítarefni:

Redesigned PLOS Journals – now launched December 19, 2012

Tenopir C, Allard S, Douglass K, Aydinoglu AU, Wu L, et al. (2011) Data Sharing by Scientists: Practices and Perceptions. PLoS ONE 6(6): e21101. doi:10.1371/journal.pone.0021101

Measures of Impact Hemai Parthasarathy Editorial | published 19 Jul 2005 | PLOS Biology

Opinn aðgangur á Íslandi

Misgóðir pistlar mínir um þessi og skyld mál:

Nýjar reglur Rannís um birtingar í opnum aðgangi

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna

Litli vísindamaðurinn og voldugi risinn

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn


Aðlögunarsaga um rúsínuputta og sveskjutær

Niðurstöður Smulders og félaga um aðlögunargildi rúsínuputta er dæmigerð aðlögunarsaga. Dæmigert er að horft sé á líffræðilegan eiginleika og tilgátur settar fram um hvaða gagn þeir gætu gert lífverunni.

Þessi aðferð er þó vandasöm í framkvæmd, því ekki eru allir eiginleikar raunverulegar aðlaganir. Sumir eiginleikar eru bara aukaverkanir annara eiginleika eða líffæra. Aðrir eiginleikar eru sögulegar leifar, sem munu á þúsundum eða milljónum kynslóðum hverfa, því náttúrulegt val er ekki til að varðveita þá.

Ef við gefum okkur að tilgátan hafi eitthvert sannleiksgildi. Þá væri einmitt forvitnilegt að kanna hversu algengir rúsínuputtar eru í dýraríkinu. Eru þeir einkenni mannsins, eða mannapa sem hóps? Það kann að vera gagnlegt að hafa grip þegar hangið er í tré í rigningu?

Einnig væri gaman að vita hvort að til séu menn sem fá hvorki rúsínuputta né sveskjutær (eða jafnvel bara annað hvort?). Slík "viðundur" eru vinsamlegast beðin um að deila reynslu sinni með athugaemdum.

Þótt ég trúi ekki endilega aðlögunarsögunni þeirra, þá er verður að viðurkennast að þeir komu krumlunum í skemmtilega tilgátu.


mbl.is Mikil ráðgáta er loksins leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþing um siðfræði til heiðurs Vilhjálmi Árnasyni

Heimspekistofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands efna til málþings til heiðurs Vilhjálmi Árnasyni sextugum í Þjóðminjasafni Íslands 11. til 13. janúar 2013.

Hugsað með Vilhjálmi - Málþing til heiðurs Vilhjálmi Árnasyni sextugum

11. janúar 2013 - 9:30 to 13. janúar 2013 - 16:00 í Þjóðminjasafninu.

Issues in Bioethics - Chair: Ástríður Stefánsdóttir.

  • 09:30–10:00  Anders Nordgren: Ethical considerations in personalised health monitoring.
  • 10:00–10:30   Björn Hofmann: Authorized to consent: Old concepts for new things?
  • 10:30–11:00   Coffee.
  • 11:00–11:30   Ruth Macklin: International Ethics Guidelines for Research: How many do we need?
  • 11:30–12:00  Linn Getz: The Design of Man – Take 2.
  • 12:00–12:30 Stefán Hjörleifsson: Teaching radical ethics.
Af vef HI.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband