Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Besta blað í heimi

Meðan við bjuggum í ameríku keyptum við iðullega New York Times. Við vorum reyndar ekki með það í áskrift, en keyptum stundum helgarblaðið og kíktum næstum daglega á vefsíðuna. Þriðjudagsblaðið var í sérstöku uppáhaldi, því þar var sérlega vönduð vísindasíða. Reyndar hafa vísindasíður verið á hröðu undanhaldi í amerískum blöðum, og fyrir hverjar 300 mínútur af fréttum á kapalstöðvunum er aðeins 1 mínúta sem fjallar um vísindaleg efni.

Vegna þess að blaðið er einnig með vandað umfjöllum amerísk þjóðmál og fréttir af heimsbyggðinni, sem eru töluvert dýpri en það sem RÚV, visir.is og mbl.is bjóða upp á, þá keypti ég mér áskrift af blaðinu á netinu.

Ég held að það sé skylda þeirra sem annt er um vandaða fjölmiðlun, að kaupa áskrift af þeim miðlum sem bestir eru. Það er ekki líklegt til að stuðla að mannlegum framförum, ef maður er bara áskrifandi að þeim miðlum sem púkka upp á heimsmynd manns sjálfs, eða sem skaffa ekkert nema afþreyingu.


mbl.is Auglýsingasala skýrir tap New York Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fín grein hjá rektor HÍ

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands birti grein í Fréttablaði dagsins, undir yfirskriftinni Borðum ekki útsæðið.

Þar rekur hún þá beinhörðu verðmætasköpun sem verður í Háskóla Íslands, og telur til framlag alþjóðlegra styrkja, einkaleyfi og sprotafyrirtæki. Í greininn segir:

---------------------

Eftir niðurskurð fjárveitinga í kjölfar efnahagshruns, hefur rekstri Háskóla Íslands verið haldið innan ramma fjárlaga með lækkun kostnaðar og ströngu aðhaldi. Skólinn leggur einnig mikla áherslu á að sækja styrki úr samkeppnissjóðum til að tryggja framgang vísindastarfs. Árangur þeirrar sóknar byggist á markvissri uppbyggingu rannsóknastarfs við skólann undanfarin ár og áratugi.

Vísindamenn Háskóla Íslands afla nú um 1,8 milljarða króna á ári úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum, sem koma inn í íslenska hagkerfið sem gjaldeyristekjur. Styrkirnir eru notaðir til tækjakaupa, rekstrar og til að greiða laun vegna nýrra starfa. Leiðandi einstaklingar og hópar innan skólans eru í sívaxandi mæli gjaldgengir í þessari hörðu alþjóðlegu samkeppni.  

.....

Auk þessara fjármuna kemur svipuð fjárhæð í erlendum gjaldeyri inn í landið vegna þátttöku vísindamanna HÍ í verkefnum annarra innlendra stofnana og fyrirtækja. Þannig má ætla að vísindastarfsemi við skólann skapi á fjórða milljarð króna í beinar gjaldeyristekjur.

Fjárhæðir rannsóknastyrkja til HÍ úr innlendum samkeppnissjóðum eru mun lægri en úr þeim erlendu. Þannig veitti Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs samtals 416 mkr. til íslenska vísindasamfélagsins í heild árið 2012. Hlutdeild vísindamanna HÍ var 315 mkr. Þótt styrkirnir séu verulega lægri en þeir erlendu, skipta þeir sköpum, ekki síst fyrir unga vísindamenn. Verkefnin eru styrkt í harðri samkeppni og leiða til nýrrar þekkingar. Oft eru þeir grundvöllur þess að hægt sé að sækja erlent styrktarfé. 

--------------

Hér útlistar rektor ítarlega og á skýran hátt rökin fyrir því að verja samkeppnisjóði Rannís og vitanlega einnig að skerða ekki framlög til Háskóla.

Við fögnum þessari grein rektors HÍ og tökum undir málflutning hennar og ályktanir heils hugar.


Auðlindastjórnun byggð á rannsóknum

Ímyndaðu þér að þú og félagar þínir stjórni litlu landi og hafir áhuga á að nýta auðlindir þess á sem skynsamastan hátt.

Nokkrir kostir standa til boða.

Þú getur fengið þér góða markaðsmenn til að selja auðlindina, góða verkfræðinga til að nýta auðlindina eða góða vísindamenn til að skilja eðli og takmörk auðlindarinnar.

Ef þú værir skynsamur þá myndir þú vilja fá alla þessa aðilla (og fleiri) til að hjálpa þér.

Þú myndir að minnsta kosti ekki skerða framlag til þeirra sem bestir eru í að rannsaka auðlindirnar og skilja takmarkanir  þeirra, samhengi og eðli. Og ekki myndir þú svelta háskólanna sem þjálfa fólk sem getur rannsakað, virkjað og selt auðlindina.

En það er einmitt það sem núverandi ríkistjórn Íslands gerir. Hún virðist ekki skilja að framfarir í hinum vestræna heimi eru að miklu leyti byggðar á menntun, tækni og vísindum. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 er skerðing á framlögum til grunnrannsókna og tækniþróunar.

Fólki er tíðrætt um að það borgi sig ekki að éta útsæðið.

En þeir bera líka ábyrgð sem kveikja í kartöflugeymslunni.


mbl.is Sjálfbærni og ábyrg auðlindastjórnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segja sig úr vísinda og tækniráði

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 heggur mjög nærri vísinda og nýsköpunarkerfi Íslands.

Þar er lagt til að framlag til rannsóknasjóðs verði lækkað um 200 milljónir, rannsóknanámssjóður er lagður niður, markáætlun rannsóknasjóðs fær engan pening og tækniþróunarsjóður er einnig minnkaður. Til að toppa allt saman eru síðan ákvæði í frumvarpinu um frekari skerðingu á næstu tveimur árum.

Vísinda og tækniráð er æðsti samstarfsvettvangur um rannsóknir hérlendis:

Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækni­­þróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka sam­keppnis­hæfni atvinnulífsins. 

Í ráðinu sitja forsætisráðherra, fimm aðrir ráðherra og fulltrúar Háskólana, fyrirtækja og fræðasviða.

Þrír fulltrúar í vísinda og tækniráði hafa nú mótmælt áformum stjórnvalda með því að segja sig úr ráðinu. Þetta eru þeir Eiríkur Steingrímsson prófessor og Magnús Karl Magnússon prófessor og deildarforseti læknadeildar HÍ hafa ásamt Magnúsi Gottfreðssyni prófessor og yfirlækni á Landspítala.

Stefnumótun vísinda og tækniráðs er eyðilögð með fjárlagafrumvarpinu, sem tekur engin mið þeirri staðreynd að vísindi og tækni eru ein forsenda efnahagslegra og félagslegra framfara.

Eiríkur Steingrímsson ræddi þetta í viðtali Bylgjunni í gær.

Ítarefni:

Frétt Bylgjunnar 28. október 2013.

Bítið - við verðum að efla rannsóknir 2013.

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

http://lifvisindi.hi.is/news/2013-10-28/segja-sig-ur-visinda-og-taekniradi 


Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Fyrir rúmri viku stóð Vísindafélag Íslendinga fyrir málþingi vegna yfirvofandi niðurskurðs á samkeppnisjóðum Rannís.  Þar var rætt um mikilvægi grunnrannsókna frá nokkrum sjónarhornum. Hér fylgir samantekt af málþinginu og ályktun stjórnar Vísindafélagsins.

Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Grunnrannsóknir, þekkingarsköpun og hagnýting þekkingar eru hornsteinar framfara, tækniþróunar og hagvaxtar í vestrænum samfélögum. Mörg af okkar helstu og stöndugustu fyrirtækjum eru byggð upp á grunni rannsókna og þekkingarsköpunar sbr. Össur, Marel, Íslensk erfðagreining, CCP ofl. Fjöldi fyrirtækja í iðnaði allt frá stóriðju til útgerðar og landbúnaðar eru öflug þekkingarfyrirtæki þar sem grunnrannsóknir skipta verulegu máli. Grunnrannsóknir, nýsköpun og hagnýting þekkingar er virðisaukandi keðja sem stjórnvöld verða að hlúa að.

Vísindafélag Íslendinga hélt fyrir skömmu málþing um gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag. Málþingið sem fór fram í sal Þjóðminjasafnsins var afar vel sótt enda boðið upp á fimm áhugaverð erindi sem sýndu okkur hvernig grunnrannsóknir snerta beint þekkingar- og nýsköpunarstarf í íslensku samfélagi. Guðmundur Þorgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands stýrði málþinginu.

Magnús Karl  Magnússon, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands hélt erindi um hvernig rétt væri að fjármagna grunnrannsóknir.  Í máli hans kom fram að fjárframlög til háskólastarfs (fjárframlög fyrir hvern nemanda) væru mun minni hér á landi en  í öðrum OECD löndum. Að meðaltali verja OECD ríkin 60% meira til háskóla en Íslendingar og hin Norðurlöndin verja rúmlega tvöfalt hærri fjárhæð til háskólastarfs á hvern háskólanema.  Magnús benti á að þessar tölur endurspegli ekki einungis föst framlög til skóla heldur heildarfjármögnun. Í  öðrum löndum er fjármögnun gegnum samkeppnissjóði vísinda mun veigameiri hluti af tekjum skóla. Slík fjármögnun er að flestra mati skilvirkasta og gegnsæjasta leiðin til að auka gæði rannsóknastarfsins. Magnús hvatti til þess að um leið og fjármögnun háskólastarfs verði bætt verði hlutur samkeppnissjóðanna stóraukinn. Slíkt fjármögnun gefi rannsóknarstarfi aukinn sveigjanleika og geti bætt nýliðun og vöxt þeirra rannsóknarhópa sem skara fram úr.

Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, ræddi framtíð og gæði doktorsnáms á Íslandi. Doktorsnámið er mjög ungt og ennþá í mótun. Doktorsnemum hefur fjölgað úr 52 árið 2000 í 510 árið 2011. Þessi tala er nokkuð lægri, miðað við fólksfjölda, en gerist á hinum Norðurlöndunum, en ásættanleg engu að síður. Rannsóknaháskólar verða þó ekki til á einni nóttu og ekki án fármagns. Eiríkur taldi að gæði doktorsnáms væru í hættu vegna fjárskorts og þá sérstaklega vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs. Á síðustu þremur árum hefur Rannsóknasjóður styrkt 170 doktorsnema og þannig staðið undir stórum hluta uppbyggingar doktorsnámsins.

Erna Magnúsdóttir sérfræðingur við Lífvísindasetur Háskóla Íslands ræddi mikilvægi nýliðunar í íslensku vísinda- og fræðasamfélagi. Skortur á nýliðun er stóralvarlegt mál sem endurspeglast í því að við nýtum ekki nægjanlega vel þann mannauð sem við fjárfestum í gegnum menntun. Erlendis eru notaðar sértækar leiðir til þess að örva nýliðun. Það er boðið upp á sérstaka styrki fyrir nýdoktora eins og hér á Íslandi en jafnframt upp á veglega styrki fyrir fólk sem hefur lokið nýdoktorsþjálfun og er að koma á fót sjálfstæðum rannsóknum. Það umhverfi sem mætir ungu hámenntuðu fólki í íslensku háskólasamfélagi er beinlínis fráhrindandi og ekki til þess fallið að örva nýliðun. Afleiðingin er atgervisflótti eða „spekileki“ úr íslensku samfélagi. Þörf er á því að taka til fyrirmyndar aðgerðir annarra landa til að koma í veg fyrir atgervisflótta þann sem við glímum við.

Hekla Arnardóttir fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) lýsti hlutverki sjóðsins sem er áhættufjárfestir sem fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þar sem vænta má mikils virðisauka. Hekla sýndi hvernig grunnrannsóknir skila sér inn í atvinnulífið í formi nýsköpunarfyrirtækja en af þeim 35  fyrirtækjum sem Nýsköpunarsjóður á hlut í er um þriðjungur sprottinn beint úr rannsóknarstarfi á vegum háskóla, sjúkrahúsa og einstaklinga. Þetta er fjölbreytt flóra af fyrirtækjum en þó flest á sviði upplýsinga eða heilbrigðisækni. Sjóðurinn hefur nú þegar hagnast á því að selja hlut sinn í fyrirtækjunum Hafmynd og Markorku sem bæði urðu til úr rannsóknarstarfi frumkvöðlanna. Sá hagnaður nýtist beint til fjárfestinga í nýjum sprotafyrirtækjum og gefur þannig vel menntuðu fólki tækifæri á spennandi störfum.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir lektor í hagfræði við Háskóla Íslands nefndi að Íslendingar hafi ekki val um að spara rannsóknarútgjöld í þeirri von að hægt sé að nýta erlendar rannsóknir til hagnýtingar, þar sem þekkingu sérhæfðra og virkra rannsóknaraðila þarf til hagnýtingarinnar sjálfrar. Því sé ekki val um að stunda aðeins hagnýtar rannsóknir og spara fé til grunnrannsókna, heldur sé um að ræða samfellt ferli sem ekki verði skilið í sundur.Í tali Tinnu kom fram að þekking sem verður til við vísindarannsóknir þurfi að nýtast samfélaginu. Skattfé er veitt til vísindastarfs og því eðlilegt að samfélagið njóti góðs af afrakstri rannsókna. Það hamlar þó mjög að íslenskt samfélag er vanþróað sem upplýsingasamfélag og vandamálin mörg þegar kemur að aðgengi að upplýsingum sem gætu nýst til rannsókna, m.a. vegna undirfjármögnunar innviða þeirra stofnana sem hafa mikilvæg gögn í sinni vörslu.

Að loknum framsöguerindum sátu fyrirlesarar í pallborði ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir forstöðumanni mennta og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins og Magnúsi Lyngdal Magnússyni, sérfræðingi hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það var samhljómur meðal þátttakenda í pallborði að til að tryggja árangursríka nýsköpun byggða á grunnrannsóknum væri nauðsynlegt að efla verulega samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs, þar sem slíkir styrkir skiluðu sér beint til vísindamanna- og frumkvöðla. Auk þess væri jafningjamatið sem beitt væri við mat umsókna úr þessum sjóðum öflugasta eftirlitskerfið sem völ væri á til að meta gæði rannsóknaverkefna.

Ályktun stjórnar Vísindafélags Íslendinga

Grunnrannsóknir, þekkingarsköpun og hagnýting þekkingar er virðisaukandi keðja sem hvetur hagvöxt. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag er óumdeilt. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að fylgja eftir ákvæðum samnings um aldarafmælissjóð Háskóla Íslands þar sem segir m.a. að fjármögnun til háskólasamfélagsins skuli ná meðaltali OECD ríkja árið 2016 og meðaltali Norðurlanda árið 2020. Til að ná þessu markmiði að þá er efling samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs langmikilvægasti þátturinn. Það er því með öllu óásættanlegt að stjórnvöld skuli stefna á að skera þessa sjóði niður, á sama tíma og dregið er jafnt og þétt úr framlögum á hvern nemanda til háskóla landsins. Stjórn Vísindafélag Íslendinga skorar á stjórnvöld að standa vörð um og efla samkeppnissjóði Vísinda- og tækniráðs enda hafa þessir sjóðir fyrir löngu sannað mikilvægi sitt í uppbyggingu íslensks vísinda- og fræðasamfélags, fyrir árangur vísindamanna á Íslandi í alþjóðlegri samkeppni, fyrir þekkingarskapandi atvinnugreinar í landinu, almenna nýsköpun í atvinnulífi og fyrir íslenska menningu í víðum skilningi.


Um vísindarannsóknir og fjárfestingar

Rannsóknir skila sér á margvíslegan hátt út í samfélagið. Þær eru grundvöllur framfara í vísinum og tækni. Þær eru nauðsynlegar til að þjálfa fólk sem skilur eðli vísindalegrar þekkingar og getur heimfært hana upp á íslenskar aðstæður, Þær eru nauðsynlegar fyrir þroska ungra nýsköpunarfyrirtækja og til að skapa umhverfi sem getur fundið lausnir á vandamálum heimsins.
 

Kristján Leósson eðlisfræðingur við Háskóla Íslands ritaði grein í Fréttablað gærdagsins (26. október 2013), þar sem hann fjallar um peningalegt gildi vísindarannsókna. Greinin heitir um vísindarannsóknir og fjárfestingar, er endurprentuð hér með leyfi Kristjáns.

--------------------

Framlagi samfélagsins til grunnrannsókna er oft líkt við kaup á happadrættismiða sem mögulega geti skilað fjárhagslegum ávinningi í framtíðinni. Oft heyrist talað um „fjárfestingu til framtíðar“ og á slík samlíking vissulega rétt á sér í mörgum tilfellum.

Hitt vill þó stundum gleymast að vísindarannsóknir eru einnig atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu umtalsverðum gjaldeyristekjum ár hvert í formi rannsóknastyrkja úr erlendum vísindasjóðum. Rannsóknaumsvif og erlent samstarf styðja einnig fjárhagslega við aðrar innlendar atvinnugreinar svo sem þjónustu- og ferðamannaiðnað.

Erlendar fjárfestingar í þekkingu
Undanfarið hefur mikið verið rætt um mikilvægi þess að laða til landsins erlent fjármagn í formi fjárfestinga. Slíkar fjárfestingar eru óneitanlega mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf. Fjárfestingar eru þó almennt þess eðlis að sá sem fjárfestir ætlast til þess, til lengri eða skemmri tíma, að ávaxta sína fjárfestingu og fá þannig meira fé út en lagt er inn. Fjárhagsleg ávöxtun vel heppnaðra erlendra fjárfestinga rennur þess vegna, a.m.k. að hluta, út úr landinu aftur, eins og forsætisráðherra hefur nýverið bent á. 

Vísindarannsóknir sem stundaðar eru á Íslandi laða í auknum mæli að sér erlent fjármagn þar sem vinnuafl vísindamanna er nýtt til að skapa nýja þekkingu. Ólíkt hefðbundnum fjárfestingum þá er ný þekking eina afurðin sem ætlast er til að slíkar fjárfestingar skili. Fjárfestingar erlendra aðila í vísindarannsóknum á Íslandi eru því ónæmar fyrir gjaldeyrishöftum og án fjárhagslegrar ávöxtunar- eða endurgreiðslukröfu. Þar að auki eru niðurstöður rannsókna í flestum tilfellum gerðar opinberar og gagnast því öllum sem geta nýtt sér þær. 

Á árinu 2012 öfluðu vísindamenn Háskóla Íslands 1.400 milljóna króna úr erlendum rannsóknasjóðum, um 350 milljónir runnu til Hjartaverndar, 300 milljónir til Matís og svo mætti lengi telja. Hér eru svo ótaldar gjaldeyristekjur og umsvif vegna ferðamanna sem hingað koma í tengslum við alþjóðlegar vísindaráðstefnur og fundi.

Hvers vegna Ísland?
Það er alls ekki sjálfgefið að erlendir aðilar kjósi að kosta rannsóknastarf á Íslandi. Nóg er af hæfum rannsakendum um allan heim. Í sumum tilfellum eru rannsóknir framkvæmdar á Íslandi vegna ákveðinnar sérstöðu lands eða þjóðar, t.d. landfræðilegrar legu, jarðfræðilegrar gerðar, stærðar (smæðar) samfélagsins, bókmenntasögu eða annarra þátta.

Rannsóknir íslenskra vísindamanna eru styrktar af erlendum sjóðum þegar þær þykja leiðandi á heimsvísu enda er samkeppni um alþjóðlega styrki mjög hörð. Árangur í slíkri samkeppni er heldur ekki sjálfgefinn, hann byggist á því að hér á landi hafi vísindamenn traustan grunn að byggja á. 

Gott dæmi er rannsóknaverkefni um „Innviði eldfjalla“ sem nýlega hlaut öndvegisstyrk úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs sem nam um 25 milljónum króna á ári í 3 ár. Í framhaldi af þeirri styrkveitingu fengu forsvarsmenn verkefnisins, í samvinnu við innlenda og erlenda vísindamenn, 950 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til að byggja upp FutureVolc-rannsóknasetrið. Þar af munu yfir 300 milljónir renna beint inn í íslenskt hagkerfi, m.a. í formi launa og rekstrarkostnaðar. Innlent rannsóknafé var lykilþáttur í að tryggja verkefninu margfalt meira fjármagn úr erlendum sjóðum.

Skilaboðin
Í ræðu á Alþingi 15. október 2009 sagði núverandi fjármálaráðherra: „Tekjur ríkisins má auka með tvennum hætti fyrst og fremst. Annars vegar með því að tryggja aðgerðir sem munu efla skattstofnana, koma atvinnulífinu aftur af stað og tryggja að ný störf verði til. Nokkur þúsund ný störf stórbæta afkomu ríkissjóðs [...] Ekki bara í nýjum sköttum frá einstaklingum heldur vegna þess að við mundum spara okkur alls konar félagslegar bætur [...] Áherslan hlýtur því að vera á að skapa ný störf sem auka verðmætaframleiðslu í landinu.“ 

Fyrrnefndar tölur um erlenda rannsóknastyrki samsvara nokkur hundruð störfum í hreinni þekkingarsköpun sem kostuð eru af erlendu fjármagni. Slíkum rannsóknastörfum hefur fjölgað verulega hér á landi á undanförnum áratugum og tengja má þá fjölgun beint við aukin rannsóknaumsvif innanlands. Fyrirhugaður niðurskurður fjárveitinga ríkisins til samkeppnissjóða hefur því bein áhrif, til lengri og skemmri tíma, á möguleika okkar til að afla þeirra erlendu fjárfestinga sem skila hvað mestu á hverja krónu til þjóðarbúsins.

Skilaboðin til þeirra sem umboð hafa til að ráðstafa skattfé almennings eru því skýr: Stuðningur við innlendar rannsóknir og efling þeirra gæti skilað þjóðarbúinu milljörðum í beinar gjaldeyristekjur á komandi árum – til viðbótar við önnur jákvæð hagræn og menningarleg áhrif – auk möguleikans á því að tryggja okkur nokkra vinningsmiða í happadrættinu.


Fjöldauppsagnir ríkisins á ungum vísindamönnum

Um tugur ungra vísindamanna skrifa grein í Fréttablað dagsins (Fjöldauppsagnir ríkisins á ungum vísindamönnum 23. okt. 2013). Hún er endurprentuð hér.

--------------

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir Alþingi er stefnt að um 30-40% niðurskurði á nýjum framlögum til Rannsóknarsjóðs Rannís verði frumvarpið samþykkt óbreytt. Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir íslenskt samfélag og þá sérstaklega fyrir unga vísindamenn, en sjóðurinn stendur að miklu leyti undir launakostnaði þeirra.

Um 80% af því fjármagni sem veitt er úr Rannsóknasjóði árlega, fer í laun til ungra vísindamanna sem eru í framhaldsnámi við íslenska háskóla, eru nýdoktorar eða jafnvel með enn meiri reynslu en gegna tímabundnum störfum. Atvinnuöryggi ungra vísindamanna er nánast ekkert og reiða þeir sig mjög á styrki frá Rannís til fjármögnunar launa sinna. Þessi niðurskurður sem nú er efnt til í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 jafngildir því að um 30-40 ungum vísindamönnum verði sagt upp störfum með áframhaldandi uppsögnum næstu tvö árin.

Afleiðingar þessa eru óumdeilanlegar. Íslenskt samfélag hefur tjaldað miklu til við þjálfun ungs íslensks vísindafólks sem nú mun ekki lengur eiga kost á að stunda nýsköpun sem leiðir til þjóðhagslegs ávinnings þegar til lengri tíma er litið. Vísindafólkið okkar mun snúa sér að öðru og að öllum líkindum hverfa til annarra landa þar sem því standa til boða störf og nám við hæfi. Mannauðsfjárfesting í menntun mun því ekki skila sér til baka til samfélagsins þegar grunnstoðir nýsköpunar eru brostnar með harkalegum niðurskurði til samkeppnissjóða Rannís.

Þetta eru ekki aðeins alvarleg tíðindi fyrir íslenska vísindamenn heldur þjóðina alla. Hún stendur nú frammi fyrir þeirri spurningu hvort æskilegt sé að fjármagna framhaldsmenntun á sviði nýsköpunar, og stuðla þannig að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi með spennandi störfum sem mörg hver yrðu ómetanleg og myndu tvímælalaust leiða til aukinnar verðmætasköpunar.

Ein verðmætasta auðlindin
Það þarf ekki að leita lengra en til nýsköpunarmiðstöðvar atvinnulífsins, sem nú styður við bakið á tólf sprotafyrirtækjum sem runnin eru beint úr íslensku rannsóknaumhverfi og munu gefa af sér útflutningsafurðir á næstu árum. Það er eflaust orðin gömul tugga að minnast á fyrirtæki eins og Marel, Össur, Actavis og Íslenska erfðagreiningu, en öll þessi fyrirtæki hafa dafnað í íslensku nýsköpunarumhverfi og reiða sig að miklu leyti á þá uppsprettu sem felst í mannauði íslenskra vísinda.

Það er viðurkennd staðreynd að fjárfesting í grunnrannsóknum sé ein besta leið samfélagsins til þess að hvetja til langvarandi hagvaxtar. Því má nefna að þjóðir eins og Bretar sem eru í fararbroddi í nýsköpun á sviði grunnrannsókna tóku þá ákvörðun að hlífa samkeppnissjóðum sínum við niðurskurði eftir fjármálahrunið árið 2008. Það mun verða þungur róður að snúa stefnunni þó niðurskurður vari aðeins í nokkur ár.

Fyrir hvern vísindamann sem tapast úr samfélaginu verður meira tap en sem nemur vitneskju og þjálfun þess eina starfsmanns vegna eðlis og uppbyggingar nýsköpunar- og rannsóknarsamfélagsins. Fyrir hvert ár sem skorið er niður mun taka mörg ár að ná aftur að þeim stað sem samfélagið var á þegar niðurskurður hófst. Það er nefnilega ekki bara hægt að ýta á „pásu“ þegar kemur að uppbyggingu þekkingariðnaðar og nýsköpunar. Á meðan heltast vísindamenn og frumkvöðlar úr lestinni og með þeim ein verðmætasta auðlind íslensks samfélags.


Opinn aðgangur á opinn aðgang 25. október

Aðþjóðleg vika helguð opnu aðgengi stendur nú yfir. Hérlendis er henni fagnað með málþingi í HR föstudaginn 25. október. Úr tilkynningu.

----------

Alþjóðlega Open Access vikan verður haldin hátíðleg 21. til 27. október næstkomandi. Í tilefni af þessu stendur OA Ísland, í samstarfi við Rannís, Háskólans í Reykjavík og fleiri aðila, fyrir málþingi um opinn aðgang að fræðiefni þann 25. október í fyrirlestrarsal HR. Aðalfyrirlesari verður Mikael Elbæk frá DTU í Danmörku. Málþingið fer fram að mestu á íslensku.

Markmið málþingsins er að fræða almenning og fræðasamfélagið á Íslandi um opinn aðgang og hvetja til umræðu um þetta mikilvæga málefni. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum. Boðið verður upp á léttan hádegisverð og kaffi & með því.

Dagskrá

Fundarstjóri verður Ian Watson, Háskólanum á Bifröst og Samtíð, tímariti um samfélag og menningu

10:30 – 11:15 Skráning og kaffi
11:15 – 11:45 Staðan á Íslandi:  Guðmundur Á. Þórisson, Reiknistofnun Háskóla Íslands og ORCID
11:45 – 12:25 Aðal fyrirlesari:  Mikael Elbæk, DTU, Danmörku
12:25 – 13:00 Matarhlé.
13:00 – 14:00 Samhliða vinnustofur, öllum opnar:
   1) Ritstjórn/umsjón fræðirita á Íslandi. Stjórnendur: Ian Watson og Guðmundur Þórisson
   2) Ávinningur af OA og praktísk atriði fyrir fræðihöfunda. Stjórnendur: Sólveig Þorsteinsdóttir og Guðlaug Þ. Kristjánsdóttir
   ATH Fallið hefur verið frá þriðju vinnustofunni sem var ætluð stjórnendum og öðru fagfólki. Við biðjumst velvirðingar á þessu og bendum þeim sem völdu þessu vinnustofu við skráningu að taka þátt í annarri hvorri af hinum vinnustofunum.
Ítarlegri upplýsingar um vinnustofurnar verða birtar er nær dregur. Aðstaða verður í boði fyrir málþingsgesti sem hyggjast ekki taka þátt í vinnustofu og kjósa frekar að spjalla yfir kaffibolla á meðan, eða hópa sig saman í “deiglu” stíl (e. unconference) í kringum önnur umræðuefni ákveðin á staðnum.

14:00 – 14:45 Örerindi, ~5mín hvert
  Helgi Hrafn Gunnarsson, alþingismaður – Upplýsingar og skortur
  Ian Watson, Samtíð og Háskólanum á Bifröst – Aðstoð við bókahöfunda sem vilja setja verk sín í opinn aðgang
  Arnar Pálsson, Háskóla Íslands – Frá flugum til fræðigreina: frjálst aðgengi að efniviði og niðurstöðum
  Kristín Atladóttir, Háskóla Íslands – Opinn aðgangur, viðmið ekki regla
  Hrafn Malmquist, Landsbókasafni – Opinn aðgangur og WikiMedia
  Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri Iðnú, kennslubókarútgáfu –  Er eitthvað til sem að heitir ókeypis hádegisverður?

14:45 – 15:10 Kaffihlé
15:10 – 16:10 Framgangur OA frá sjónarhóli stofnunar
  Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík
  Eiríkur Rögnvaldsson, Hugvísindasviði Háskóla Íslands, Íslensku- og Menningardeild og meðlimur í vinnuhópi um stefnu HÍ um opinn aðgang
 Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
 Magnús Gottfreðsson, Heilbrigðisvísindasviði HÍ, Læknadeild og Landspítala-Háskólasjúkrahúsi

16:15 – 16:30 Samantekt og málþingi slitið


Menntabúðir um líffæra- og lífeðlisfræði mannslíkamans

Tilkynning um menntabúðir.

----------------

Menntabúðir um líffæra- og lífeðlisfræði mannslíkamans verða mánudaginn
28. október 2013 kl. 15:00–18:00 í Réttarholtsskóla í Reykjavík.
Grunn- og framhaldsskólakennarar eru hvattir til þátttöku. Menntabúðir eru öllum opnar og þátttökugjald er ekkert.
Menntabúðirnar eru haldnar af NaNO (Náttúruvísindi á nýrri öld), verkefni á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, í samvinnu við Náttúrutorg.

Sjá nánar í viðhengi og á menntabudir.natturutorg.is þar sem skráning fer einnig fram.


Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands

Við Pétur Henry Petersen dósent við Læknadeild HÍ, skrifuðum greinarstúf sem birtist í Fréttablaði dagsins (Notagildi menntunar og lífsbarátta Háskóla Íslands). Frekari útskýringar og heimildir má sjá neðst.

--------------------

Ríkistofnanir bregðast ólíkt við fjársvelti og kröfum um niðurskurð og hagræðingu. Háskóli Íslands (HÍ) hefur undanfarin ár tekið niðurskurði, vanefndum ríkis á samningum, breytingum menntamálaráðaneytis á reiknisflokkum og skorti á stuðningi við grunnrannsóknir með því að rétta fram hinn vangann.

HÍ hefur borið sig vel og lagt áherslu á fjölda innritaðra nemenda, fjölda framhaldsnema og góða stöðu á einum lista yfir ágæti háskóla (sem er að mestu leyti vegna erlendrar samvinnu í vísindum Íslenskrar erfðagreiningar og Hjartaverndar)*.

Halda mætti að innra starf HÍ væri með ágætum en það er ansi fjarri lagi. Margir hafa bent á ótal atriði sem bæta þarf innan HÍ. Í stuttu máli er ekki hægt að reka rannsóknarháskóla með litlu og dvínandi fjármagni án þess að það bitni á gæðum.

Hluti af vandanum er að yfirstjórn HÍ virðist ekki skilja vandamál einstakra deilda eða rannsóknarsviða. Markmið HÍ eru skýr (gæðakennsla og gæðarannsóknir) en leiðirnar sem farnar eru til að ná þeim eru furðulegar á köflum.

Sem dæmi má taka úthlutun á afmælisgjöf Alþingis vegna aldarafmælis HÍ. Yfirstjórn HÍ ákvað að nýta afmælisgjöfina á nokkra vegu, í stoðþjónustu, innviði, nýdoktora og nýja kennara.

En útdeiling fjármuna í þessi atriði þarfnast heilmikillar umsýslu sem hefur ekki verið gagnsæ. Einfaldast og líklega áhrifaríkast hefði verið að setja stóran hluta afmælisgjafarinnar í rannsóknasjóð HÍ og útdeila honum beint til þeirra kennara og framhaldsnema sem eru að stunda rannsóknir. Þannig hefðu peningarnir nýst strax í erfiðu árferði.

Sussað á vísindafólk**
Mjög skiptar skoðanir eru innan HÍ um hvernig bæta eigi ástandið. Á tímabili var sussað á vísindafólk HÍ fyrir að benda á brotalamir eða „tala niður“ Háskóla Íslands. Það var ekki álitið heppilegt, sérstaklega ef yfirstjórn HÍ stóð í samningum við yfirvöld um einstök mál, að einstakir starfsmenn væru að gagnrýna menntastefnu stjórnvalda, stjórnsýslu eða rekstur HÍ.
Hugmyndin var líklega sú að HÍ ætti að hafa eina skýra stefnu og alls ekki margar ólíkar meiningar. Orsökin er að hluta sú að í gamla daga fóru allmargir starfsmenn HÍ í ráðuneytin til að betla, þ.e.a.s. færa rök fyrir fjárstuðningi við einstök verkefni eða stofnanir. Stjórnvöldum leiddist það suð og bað HÍ að hafa hemil á sínu fólki.

Á meðan HÍ sat þægur í kreppunni ákváðu aðrar ríkisstofnanir að lýsa raunveruleikanum. Landspítalinn minnir yfirvöld og landsmenn reglulega á áhrif fjárskorts á rekstur og viðhald spítalans. Matís kvartaði þegar IPA-styrkirnir brugðust. Hvorir tveggja fá áheyrn ráðamanna og loforð um úrlausn. Athugið, hér er ekki lagt neitt mat á hlutfallslegt mikilvægi ólíkra stofnana ríkisins, heldur bara fjallað um viðbrögð þeirra við fjárskorti.

Sannarlega eru hlutverk Landspítala og HÍ ólík. Á meðan flestir sjá augljóst gildi góðrar heilbrigðisþjónustu virðast færri átta sig almennilega á mikilvægi háskólamenntunar og rannsókna.

Samfélagið þarfnast vel menntaðs fólks fyrir margs konar störf og hlutverk sem oft er erfitt að sjá fyrir. Við þurfum góða lækna, vísindamenn, verkfræðinga, fjármálastjóra, félagsfræðinga og kennara.

HÍ hefur alltaf verið sparneytinn, t.d. miðað við norræna eða breska háskóla, en hann getur ekki keyrt á bensíngufu. Ef kenna á fleiri nemendum fyrir færri krónur mun gæðum námsins hraka. Og ef styrkir til rannsókna eru skornir niður munu íslensk vísindi ekki standa undir framförum og betra mannlífi.

Gæði í háskólastarfi byggja að miklu leyti á því að háskólakennarar og nemendur séu virkir í rannsóknum. Án rannsókna munu vísinda- og tækniframfarir framtíðar ekki vera íslenskar og fyrirtækin sem græða á þeim ekki heldur.

Rannsóknir leiða einnig af sér upplýst fólk og þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, hvorutveggja nauðsynlegt þjóðinni. Forsenda virkra rannsókna er að hlúa að rannsóknarsjóði HÍ og að tryggja fjárframlög til rannsóknarsjóða Rannís, sem fjármagna stóran hluta allra rannsókna hérlendis.***

-------------------

* Gestaprófessorar draga upp einkunnir HÍ - var skoðað í fyrra sbr. Decode dregur upp Háskóla Íslands

(með fyrirvara um að greiningin var gerð á frekar einfaldan hátt). Kári Stefánsson hefur einnig stært sig af því að Decode hafi komið HÍ inn á Times Higher Education listann - í viðtali við Fréttatímann 2011 (Montinn að eiga þátt í frábærum árangri ).

** Millifyrirsögn er blaðsins.

*** Drög til fjárlaga miða að því að draga aftur úr fjármagni til rannsóknarsjóða. Þrátt fyrir að þeir séu mjög litlir hérlendis miðað við nágrannalönd okkar.

Sjá t.d. grein Eiríks Steingrímssonar og Magnúsar K. Magnússonar Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband