Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Frábært frumkvæði frá hagræðingarnefnd

"Samkeppnissjóðum verði fækkað og þeir stækkaðir og efldir þannig að hlutfall milli fastra fjárveitinga til rannsókna og samkeppnissjóða verði jafnara en nú er. Unnið verði að því að 50% fjármagns fari í gegnum samkeppnissjóði"  segir hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar.

Um þetta fjalla 5 vísindamenn í Fréttablaðinu (30. nóvember 2013) Frábært frumkvæði frá hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar!

Greinin birtist hér í heild, með áætluðu samþykki höfunda. 

------------- 

Nú eru liðnar um tvær vikur frá birtingu tillagna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um aukna framleiðni og hagræðingu í ríkisrekstri. Eins og við má búast hefur verið töluverð umræða í samfélaginu um tillögurnar og þær vakið athygli. Það er virkilega ánægjulegt að sjá að í tillögunum er að finna hugmyndir sem íslenskir vísindamenn hafa barist fyrir um áratuga skeið – um eflingu og sameiningu samkeppnissjóða til rannsókna- og vísindastarfs:


„32. Samkeppnissjóðum verði fækkað og þeir stækkaðir og efldir þannig að hlutfall milli fastra fjárveitinga til rannsókna og samkeppnissjóða verði jafnara en nú er. Unnið verði að því að 50% fjármagns fari í gegnum samkeppnissjóði (tengist einnig iðnaðar- og viðskiptaráðherra). 
33. Rannsóknarstofnunum verði fækkað og skipulag og rekstur þeirra einfaldaður frá því sem nú er með það að augnamiði að ná fram rekstrarhagræði og auknum gæðum í rannsóknar- og vísindastarfi. “
(Feitletrun er áhersluaukning höfunda). 

Vekur von í brjósti
Það vekur því von í brjósti um að fallið verði frá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að skera harkalega niður í fjárveitingum til samkeppnissjóðanna næstu þrjú árin eins og boðað er á blaðsíðu 244 í fjárlagafrumvarpi ársins 2014, sem lagt var fyrir Alþingi í lok september. Þar er kveðið á um að fallið verði frá 200 milljóna króna Markáætlun á næsta ári og stigvaxandi niðurskurð til þriggja ára um samtals 1 milljarð króna á fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs. Vegna þeirrar þriggja ára skuldbindingar sem t.d. felst í styrkveitingu úr Rannsóknasjóði mun þetta þýða að þegar í stað verði um 40% niðurskurður á nýjum styrkveitingum úr sjóðnum, sem aftur þýðir að a.m.k. 40 störf ungra vísindamanna hverfi úr nýsköpunarsamfélaginu strax á næsta ári. 

Djarfar tillögur
Þessar djörfu tillögur hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar um að efla verði hér samkeppnissjóðina til þess að gera íslenskar grunnrannsóknir skilvirkari og samkeppnishæfari hljóta því að vera samfélaginu öllu fagnaðarefni. Grunnrannsóknir eru nefnilega forsenda framfara í nútímasamfélagi, og vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem þær hafa á hagvöxt hefur verið lögð mikil áhersla á sterka stöðu samkeppnissjóða hjá þeim þjóðum sem standa fremst í víglínunni hvað varðar lífsgæði og hagvöxt í heiminum. Á tímum samdráttar hefur samkeppnissjóðum margra landa verið hlíft við niðurskurði vegna beinna hagvaxtarhvetjandi áhrifa grunnrannsókna. 

Það er því ánægjulegt að sjá að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks virðist gera sér grein fyrir þessu eins og fram kemur í tillögum hagræðingarhópsins. Þar sem því var lofað að margar hagræðingartillagnanna kæmu strax til framkvæmda við vinnslu fjárlaga hljótum við að gera ráð fyrir að fallið verði frá boðuðum niðurskurði á fjárframlögum til samkeppnissjóðanna í því frumvarpi til fjárlaga sem lagt verður fyrir Alþingi í næstu viku.
 
Erna Magnúsdóttir
rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild HÍ
Margrét Helga Ögmundsdóttir
nýdoktor við Læknadeild HÍ
Þórarinn Guðjónsson
prófessor við Læknadeild HÍ
Eiríkur Steingrímsson
prófessor við Læknadeild HÍ
Hans Guttormur Þormar
framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Lífeindar


Rannís refsað fyrir ráðdeild

Í drögum að fjárlögum fyrir 2014 hyggst stjórnin minnka sjóði sem styrkja grunnrannsóknir og  tækniþróun, skattaafslátt til nýsköpunarfyrirtækja og stuðning við framhaldsnám. Samkeppnissjóðir hérlendis er hlálega litlir miðað við OECD og sérstaklega norðurlönd, en fengu smá innspýtingu í ár (2013). Ríkistjórnin hyggst draga þá innspýtingu til baka, og í drögum að fjáraukalögum er hnífnum enn beint að vísinda og nýsköpunarkerfinu hérlendis.

Hluti af fjármagninu fyrir rannsóknasjóð fyrir árið 2013 hafði ekki verið úthlutað (221,0 milljónir), vegna þess að stjórnendur Rannsóknasmiðstöðvar Íslands vildu sýna ráðdeild. Slíkt er nauðsynlegt, því að fjárlög er samþykkt til eins árs en vísindastyrkir bundnir í 3 ár. Einnig var fallið frá því að auglýsa eftir umsóknum í Markáætlun, mögulega eftir skilaboð frá ráðherra og/eða ríkistjórn um væntanlegan niðurskurð. 200 milljónir á fjárlögum 2013 var eyrnamerktur markætlun.

Rannís sýndi ráðdeild í rekstri og var skorið fyrir vikið. Skilaboðin eru,  ríkisstofnunum er refsað fyrir ráðdeild.  Lexían fyrir stjórnendur ríkisstofnanna og rekstrareininga er - farið fram úr heimildum.

Frumvarpið er aðgengilegt á vef Alþingis (leitið að rannsóknasjóður eða markáætlun).

Ítarefni:

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Arnar Pálsson Að stunda vísindi á ísjaka

Risaeðlur og skólabækur í Texas

Risaeðlur standa bandaríkjamönnum miklu nær en íslendingum. Bergið hérlendis er svo ungt (innan við 20 milljón ára) að engar leifar af risaeðlum geta fundist hér. Þær finnast eingöngu í u.þ.b. 65 milljón ára eða eldri berglögum*. Krakkar sem gramsa í beneventum í Öskjuhlíð eiga enga möguleika á að finna steingerð risaeðlubein. En amerískir eða breskir krakkar geta hæglega rambað á slík í sinni hamrahlíð.

Ég man sem krakki að maður spáði ekki mikið í risaeðlur, bjöllur eða fiðrildi, þetta voru ekki dýr sem náðu inn á radarinn. Radarinn minn var líka fullur af kúm (einstaka járnsmiðir og dordinglar skriðu ofan á hrúgunni). En margir ameríkanar eru hugfangnir af risaeðlum frá barnæsku.

Það því ákaflega forvitnilegt hvers vegna svo margir ameríkanar afneita þeirri staðreynd að jarðsagan spannar 4 og hálfan milljarð ára og að risaeðlurnar hafi þróast og síðan dáið út fyrir um 65. milljón árum. Afneitun á þróunarkenningunni er ansi algeng í bandaríkjunum, ekki bara hjá einangruðum öfgahópum heldur einnig hjá stórum hluta fólks í sumum fylkjum.

Eitt slíkt fylki er Texas, þar sem mjög margir kjörnir fulltrúar eru andsnúnir þróunarkenningunni og loftslagsvísindum.

Ástæðurnar eru vitanlega margar, en mig grunar að pólitískar, sálfræðilegar og félagsfræðilegar ástæður liggi að baki. Sálfræðingar hafa sýnt  að fólk skipar sér í ákveðna hópa, og tileinkar sér norm þess hóps. Við tilheyrum hópnum íslendingar, ég að auki hópi kjósverja og erfðafræðinga.

Margir í bandaríkjunum samsvara sér hópnum repúblikanar eða evangelistar. Og ef málpípur þeirra hópa predika gegn þróunarkenningunni eða loftslagsvísindum, þá er líklegt að fólk í þeim hópum tileinki sér þá afstöðu (án verulegrar meðvitaðrar hugsunar).

Þetta á vitanlega líka við um fólk á hinum enda stjórnmálarófsins. Vinstrimenn eru útsettari fyrir hugmyndum um samfélagslega ábyrgð, að menn séu verndarar umhverfisins eða um jafnrétti manna, dýra og þörunga.

Hitt er alvarlegra ef kjörnir fulltrúar stjórna fylki eða landi frekar eftir trúarlegum eða heimspekilegum gildum, en raunveruleika veraldar. Vesturlandabúar skopast oft að tangarhaldi trúarpostula á daglegu lífi í hinum svokallað þriðjaheimi, en eru blindir á svipuð vandamál hjá sér.

Í Texas birtist þetta þannig að kjörnir fulltrúar repúblikana hafa skorið upp herör gegn þróunarkenningunni og loftslagsvísindum. Aðferðin er að taka fyrir kennslubækur sem nota á í fylkinu, og gera athugasemdir við einstök atriði í þeim.

Hér er ansi langt seilst - enda hefur mótstaða menntakerfisins, vísindamanna og umhugaðra borgara verið öflug. Engu að síður voru varnaglar um þróun og loftslagsvísindi í vissum kennslubókum samþykktir af menntanefnd Texas. Næsta skref er að fá 3 sérfræðinga á viðkomandi sviði til að meta varnaglana.

Ímyndið ykkur hvernig þetta myndi ganga fyrir sig á hinum enda stjórnmálarófsins. Hvað myndum við segja ef vinstrimenn í menntanefnd, myndu segja að allar erfðabreytingar væru af hinu illa og banna kennslubækur sem fræddu fólk um þau "óvísindi". Eða að þeir myndu banna hluta í kennslubókum sem fjalla um ónæmiskerfið og bóluefni, af því að "bóluefni valda einhverfu og öðrum sjúkdómum".

Viljum við virkilega að trúarleg eða pólitísk gildi trompi efni skólabóka og námskrár? Vonandi fylgir Ísland ekki í þetta fóta-feil-spor Texas.

Stuðst var að töluverðu leyti við grein í NY Times um sköpunarsinna í menntanefnd Texasfylkis.

NY Times MOTOKO RICH 22. nov. 2013. Texas Education Board Flags Biology Textbook Over Evolution Concerns

*Efri mörkin eru óljósari, því það er skilgreiningaratriði hvað telst til eiginlegra risaeðla. 

Aðrar greinar um þróun:

Arnar Pálsson | 14. febrúar 2009  Þróun og aðferð vísinda

Arnar Pálsson | 17. maí 2010 Bilið milli T-rex og Texas

Arnar Pálsson | 19. ágúst 2011 Þróunarkenningin er staðreynd


mbl.is Heil beinagrind risaeðlu á uppboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einar gegn niðurskurði á tækniþróunarsjóði

Háskóli Íslands stendur fyrir fyrirlestraröð um fyrirtæki sem hafa sprottið úr starfi sérfræðinga Háskóla Íslands. Nýlega flutti Einar Stefánsson prófessor við læknadeild erindi fjallar um fyrirtæki sem snúast um rannsóknir í augnlækningum. Fyrirtækin eru Risk, Oculis og Oxymap (Vísindi og nýsköpun í augsýn).

Að því tilefni talaði sjónvarp mbl.is við Einar um fyrirhugaðan niðurskurð á tækniþróunarsjóði og öðrum samkeppnissjóðum. Einar varaði eindregið við niðurskurði á þessum sjóðum.

Við tökum heils hugar undir orð Einars og hvetjum stjórnvöld og almenning til að standa vörð um nýsköpunarumhverfi Íslands. Við höfum ekki efni á að staldra ári lengur við á tuttugust öldinni.

Ítarefni:

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Arnar Pálsson Að stunda vísindi á ísjaka
mbl.is Kemur niður á röngum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að stunda vísindi á ísjaka

Grunnvísindi hafa alltaf verið afskipt hérlendis. Til dæmis veitum við mjög lágu hlutfalli rannsóknarpeninga í samkeppnissjóði. Þetta birtist einnig í því að það tók þriggja ára fortölur til að sannfæra fyrrverandi menntamálaráðherra um að hækka styrki til samkeppnissjóða, sem styrkja grunnrannsóknir og tækniþróun.

Nýi menntamálaráðherrann dró þá hækkun til baka undir yfirskini sparnaðar, en mann grunar að meginástæðan sé sú að pólitískur andstæðingur hans stóð fyrir henni. 

Í umræðum á alþingi 4. nóvember 2013 sögðust allir á mælendaskrá að vísindi myndu auka hagsæld og framfarir, en enginn stjórnarliði var tilbúinn að endurskoða niðurskurðinn. Menntamálaráðherra var með gagnslitlar uppástungur:

Vísinda- og tækniráð ítrekar mikilvægi þess, og það hefur komið fram, að íslenskir vísindamenn sæki um í alþjóðlega samkeppnissjóði og byggi þannig upp alþjóðlega rannsóknarhópa.

Vandamálið er að íslenskir vísindamenn þurfa innlenda styrki til að vera gjaldgengir í erlent samstarf. Útlendingarnir vilja ekki vinna með þeim sem hafa ekkert nema hugarafl fram að færa. Peningar og mannafli eru hreyfikraftur vísindalegra framfara, því hugmyndirnar sjálfar þarf að prófa og sannreyna!

Á nýafstaðinni ráðstefnu Rannsóknamiðstöðvar Íslands kynnti Jan Truszczynski (Director General, DG Education and Culture, European Commission) nýja rannsóknaráætlun evrópusambandsins, sem Ísland er aðilli að.

Ég spurði hann hvernig íslenskir vísindamenn ættu að geta sótt um í evrópuáætlanir án þess að hafa stuðning að heiman? Með einfaldri líkingu, hvernig eigum við að fljúga á Evrópskum styrkjum ef Íslensk stjórnvöld plægja upp flugbrautir okkar?

Svar hans var að rannsóknasjóðir Evrópusambandsins eiga ekki að koma í staðinn fyrir samkeppnissjóði einstakra landa (sem taka þátt í rannsóknaráætlunum sambandsins).

Það að stunda grunnrannsóknir hérlendis er dálítið eins og að stunda vísindi á ísjaka. Umhverfið er óaðlaðandi, undirstaðan hverful og glóruleysi stjórnvalda þýðir að stefnan er tekin til botns, því á endanum bráðnar klakinn.

Ítarefni:

Opnunarráðstefna nýrra samstarfsáætlana ESB á Hótel Sögu 22. nóvember

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

Arnar Pálsson Lítil von um hagvöxt, ef rannsóknum er fórnað

Ályktun vegna samkeppnissjóða

Breytingar:

Ágústi eru þakkaðar leiðréttingar á stafsetningu.


mbl.is Fá 1,7 milljónir evra í styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnissjóðir og háskólar fjársveltir

Í býtið ræddi við Tinnu Laufey Ásgeirsdóttur, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands um fjármögnun háskólastarfs hérlendis. Tinna lagði áherslu á hversu litlum fjármunum við veitum til háskóla miðað við OECD.

Þegar háskólastigið er skoðað þá er eins og við séum á einhverjum allt öðrum stað. Þar erum við langt undir OECD meðaltalinu hvað varðar framlög til háskóla. Við þyrftum eiginlega að hækka framlög til háskóla um 60% til að vera nálægt meðaltali OECD  ríkjanna. Samt sem áður er það meðaltal kannski ekkert alveg það sem við viljum vera bera okkur við. Við þurfum í raun að tvöfalda framlögin til háskólanna til að vera á pari við hinn norðurlöndin

Ég tel meira aðkallandi að hérlendis eru samkeppnissjóðirnir smáir og eiga, ef menntamálaráðherra fær sínu framgengt, eftir að minnka.

Þótt að ég sé sammála því að auka framlög til háskóla, þá tel ég mikilvægara að fjárfesta í samkeppnissjóði en háskólunum a.m.k. á þessu stigi. Því ef samkeppnissjóðirnir verða of litlir, þá hafa rannsóknarstarfsfólk háskólanna enga sjóði í að sækja. 

Óska staðan væri ef stjórnvöld, alþingi og samfélagið myndu sameinast um að fjárfesta í hágæða menntun og rannsóknum, því það mun skila sér í hagvexti og bættum lífskjörum.

Visir.is 25. nóv. 2013. Tvöfalda þyrfti framlög til háskóla hérlendis.


Faðir aðferðar til að lesa DNA

Erfðaefnið byggist upp á tveimur þráðum, sem hanga saman með svokölluðum basapörum. Basarnir eru fjórir, almennt kallaðir A, C, G og T, og það er röð þeirra sem ákvarðar röð amínósýra í prótínum, og fleiri atriði eins og hvar er kveikt og slökkt á genum (þetta er töluvert einfölduð útgáfa).

Lögmál erfðafræðinnar voru flest afhjúpuð snemma á síðustu öld, en bygging erfðaefnisins árið 1953 af Watson og Crick. Ein af ráðgátunum sem þá blasti við, var hvernig væri hægt að lesa DNA strenginn? Þetta vandamál er dæmigert fyrir grunnvísindi, á ystu brún þekkingarleitarinnar. Þetta var sérhæfð spurning án augljós hagnýtingarmöguleika. Þrautina leystu Maxam og Gilbert og Fred Sanger og félagar hans.

DNA er á þessu formi.

GCTCTACTTACCTGCAATTGTGGCCATAACTCGCACTGCTCTCGTTTTTAAGATCCGTTT
GTTTGTGTTTGTTTGTCCGCGATGGCATTCACGTTTTTACGAGCTCGTTCCTTCGGGTCC
AACCATGTCCAAAATTATGCCAGTTTGTTTTGTCTCTGGCAATTATTGGAAATTTCATTG
GGTCGATTGGGTCGCTGTCTTCCTTGCTCTTCCCTTGAGAAAAGTGAATAGGTTGTGCCA
TAAAAATCGCTGCTCCTGAAGA

En það þarf góða aðferð til að rekja sig eftir DNA þræði og lesa hann. Sanger beitti bæði lífefnafræðilegum og sameindaerfðafræðilegum aðferðum til að leysa vandamálið.

Hann var einstakur vísindamaður, og fékk tvö nóbelsverðlaun í efnafræði. Fyrst fyrir rannsóknir á insúlíni og síðan fyrir raðgreiningu á DNA. Það er hins vegar ónákvæmt að segja að hann hafi verið faðir erfðafræðinnar. Hann má kannski kalla faðir aðferðar til að lesa DNA.

Þeir sem hafa áhuga á lífshlaupi hans er bent á fyrirtaks minningargrein í The Guardian.

Pearce Wright Frederick Sanger obituary Nobel prizewinning biochemist whose pioneering work on insulin and DNA transformed the field of genetics The Guardian, 20. nóvember 2013.


mbl.is „Faðir erfðafræðinnar“ látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig vinna genin, og vísindamenn án peninga?

Það má spyrja nokkura spurninga um áhrif gena.

HVAÐA gen hafa áhrif á einhvern eiginleika?

HVAÐA áhrif hafa einstakir gallar í genum á eiginleikann?

HVERNIG hafa þeir áhrif?

Í erfðafræði nútímans er auðveldara að svara fyrri spurningunum tveimur, með því að kortleggja erfðaþætti og finna galla í genum. Til að mynda tóks Patrick Sulem og félögum hjá Íslenskri erfðagreiningu að finna slatta af genum og stökkbreytingum sem tengdust breytileika í lit hárs, augna og freknufjölda.

Í sumum tilfellum liggur í augum uppi, hvaða áhrif vissar breytingar hafa á virkni gena, prótína og líffræði. En í öðrum er það óljóst. Þannig var ekki vitað hvernig stökkbreyting í utan táknraða IRF4 gensins hefði áhrif á litarhaft.

Eiríkur Steingrímsson og samstarfsmenn við Lífvísindasetur HÍ, ÍE og erlenda háskóla rannsökuðu áhrif þessarar breytingar. Þau sýndu að hún skaddar bindiset í DNAinu í nágrenni IRF4 gensins. Þetta bindiset er nauðsynlegt til að tiltekið stjórnprótín geti bundist og stýrt tjáningu á IRF4 geninu. Stökkbreytingin dregur úr bindingunni, og þar með tjáningu á IRF4. Og þar sem IRF4 er nauðsynlegt til að kveikja á Týrósínasa geninu, sem myndar litarefni, breytist litarhaft einstaklingar með þessa stökkbreytingu.

Við viljum óska Eiríki og öðrum hlutaðeigandi til hamingju með rannsóknina hún er hin fróðlegasta.

Hún sýnir okkur líka að það er hægt að greina áhrif sumra stökkbreytinga sem tengjast sjúkdómum eða öðrum eiginleikum með vönduðum tilraunum. En þær taka líka tíma og fyrirhöfn. Grein Patricks birtist árið 2007, og nú 6 árum síðar er búið að kasta ljósi á ferlin sem liggja að baki.

Ef íslendingar eiga að geta tekið þátt í rannsókn í þessum gæðaflokki, þurfum við að styðja við grunnrannsóknir hérlendis.

Eins og Eiríkur og félagi hans Magnús K. Magnússon röktu í röð greina um Háskólarannsóknir á tímum kreppu þá er margt dapurt við íslenskt vísindaumhverfi. Í ljósi nýlegra fyrirætlana ríkistjórnar um niðurskurð til samkeppnissjóða (Til varnar rannsóknarsjóðum) vill ég vitna í grein þeirra félaga (Háskólarannsóknir á tímum kreppu (2) Fjármögnun vísindarannsókna)

 Í úttekt sinni á tengslum grunnrannsókna og atvinnulífsins komst Committee for Economic Development, bandarísk samtök leiðtoga í viðskiptum og menntun, að þeirri niðurstöðu að 25% af hagvexti Bandaríkjanna eftir seinna stríð megi rekja beint til grunnrannsókna.

...

Í efnahagsþrengingum á Íslandi hefur verið rætt um mikilvægi þess að efla nýsköpunar og hefur Vísinda- og tækniráðs sett sér skýra og framsækna stefnu. Henni hefur þó ekki verið fylgt eftir svo neinu nemi. Nýlega voru þó samþykkt lög um skattaívilnun vegna kostnaðar við rannsóknir og þróunarstarf. En framlög til þeirra sjóða sem helst styrkja rannsóknir og nýsköpun, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, hafa hins vegar staðið í stað í krónum talið sem þýðir að þau hafa í raun minnkað verulega að verðgildi. Þar sem íslenskir vísindamenn hafa alltaf staðið illa að vígi hvað fjármögnun varðar (enda upphæðir styrkja mun lægri hér en í flestum löndum Evrópu og Bandaríkjanna) er ljóst að staða þeirra hefur versnað að mun. Eitt lítið mál sem sýnir tómlæti stjórnvalda gagnvart rannsóknatengdri starfsemi er að hér er innheimtur virðisaukaskattur af allri rannsóknatengdri starfsemi háskóla og stofnana. Undanfarinn áratug hafa verið gerðar ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til að fá skattinn felldan niður. Slíkur skattur er hvergi lagður á rannsóknastarfsemi í hinum vestræna heimi. Annað og alvarlegra mál er að samkeppnissjóðirnir eru einungis um 14% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi og hafa verið um langt skeið. Á Norðurlöndunum eru samkeppnissjóðirnir hins vegar 30-40%. 

Vinsamlegast látið mennta og menningarmálaráðherra, og fjármálanefnd Alþingis vita skoðun ykkar á þessu máli.

Ítarefni:

Hér má finna greinina í fullri lengd á heimasíðu Cell.

Kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins 21. nóvember 2013: Gen sem ákvarðar írska svipmótið.

Frétt á ruv.is 21. nóvember 2013: Íslenskir vísindamenn finna Brosnan-genið 

Umfjöllun í DailyMail 21. nóvember 2013

Ályktun vegna samkeppnissjóða

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum


mbl.is Genið sem ákveður háralitinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líf á aðeins einni jörð

Líffræðiráðstefnan 2013 var haldin 8. og 9. nóvember síðastliðinn. Á ráðstefnunni voru kynntar margskonar rannsóknir á líffræði en umhverfismál voru einnig í sérstökum í brennidepli.

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og náttúruverndasinni, setti ráðstefnuna í með stuttu ávarpi og lestri á ljóðinu Aðeins ein jörð (Aðeins ein jörð).

Aðeins ein jörð.

Það er ekki´um fleiri´að ræða.

Takmörkuð er á alla lund

uppspretta lífsins gæða.

...

Að auki flutti Þóra Ellen Þórhallsdóttir yfirlitserindi sem kallaðist Afturábak eða nokkuð á leið: Staða náttúruverndar á Íslandi og Þorvarður Árnason erindið Er þörf á sérstöku ráðuneyti umhverfismála á Íslandi?

Leifur Hauksson tók viðtal við Þóru af þessu tilefni og var það flutt í útvarpsþættinum Sjónmál 13. nóvember 2013. Hægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV,  Náttúrufegurðin verður í askana látin.

Að síðustu má benda á ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands um meðferð stjórnvalda á umhverfismálum


Ályktun vegna samkeppnissjóða

Stjórn Líffræðifélags Íslands, sem undirritaður er hluti af, sendi hæstvirtum mennta og menningarmálaráðherra bréf vegna samkeppnissjóða. Sjá hér að neðan og biologia.is

Til hæstvirts mennta og menningarmálaráðherra

Kæri Illugi Gunnarson

Erindi: Ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands vegna samkeppnissjóða.

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn niðurskurði á samkeppnissjóðum Rannís, sem lagður er til í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Það er almennt viðurkennt að fjárfesting í grunnrannsóknum og tækniþróun með samkeppnissjóðum er góð leið til þekkingar- og verðmætasköpunar. Þessi staðreynd er undirstrikuð í skýrslunni „Ný sýn“ sem kom út árið 2012 og unnin var af Forsætisráðuneytinu, í samráði við Vísinda- og tækniráð og fleiri aðila.

Eins og kemur fram í skýrslunni er umgjörð íslenskra vísinda sérkennileg að mörgu leyti. Veigamest er sú staðreynd að hérlendis fer lágt hlutfall (20%) fjárframlags ríkisins til rannsókna í gegnum samkeppnissjóði, en erlendis er hlutfallið almenn hærra (40%). Heildarniðurskurður til samkeppnissjóða undanfarin 5 ár er 20-40% (eftir sjóðum), sem er meiri en niðurskurður í útgjöldum ríkisins í heild á sama tímabili. Eina undantekningin er árið 2013, þar sem fjárveitingin náði aftur sömu upphæð og 2008 (að raunvirði).

Stjórn Líffræðifélags Íslands leggst harðlega gegn fyrirhugaðri skerðingu á samkeppnissjóðum Rannís um allt að 30% í fjárlögum fyrir 2014 og þeim niðurskurði sem áætlaður er á næstu 2 árum. Það skýtur skökku við að svelta samkeppnissjóði sem standa undir vísinda og tækniþróun hjá þjóð sem hefur hvað mest þörf fyrir nýsköpun, jafnt í klassískum atvinnugreinum eins og fiskveiðum og orkuvinnslu, sem og sprotafyrirtækjum á sviði tölvu- og líftækni.

Ísland hefur alla burði til þess að standa í fararbroddi þegar kemur að þekkingarsköpun í formi tækni- og tölvuþekkingar og ekki síður formi rannsókna á náttúru Íslands og auðlindum. Við verðum að standa vörð um þessa þekkingu.

Fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís mun leiða til þess að ungt fólk mun hrökklast úr námi eða sækja sér menntun erlendis. Alvarlegra er að skerðingin mun fæla íslendinga sem náð hafa í verðmæta sérmenntun ytra frá því að snúa heim. Niðurstaðan verður íslenskur heilaleki með ófyrirséðum afleiðingum.

Þar af leiðir er líklegt að fyrirhuguð skerðing á samkeppnissjóðum Rannís verði minnst sem mikils ógæfuspors í bataferli þjóðar eftir efnahagshrun.

Við höfum alvarlegar áhyggjur vegna þessara fyrirætlana og hvetjum menntamálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi til þess að endurskoða fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, sérstaklega m.t.t. fyrirhugaðs niðurskurðar á samkeppnissjóðum Rannís.

Virðingarfyllst,

stjórn Líffræðifélags Íslands,

Arnar Pálsson,

Guðmundur Árni Þórisson,

Hrönn Egilsdóttir,

Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir og

Snorri Páll Davíðsson.

Afrit sent fjárlaganefnd og fjölmiðlum.

Reykjavík 15. nóvember 2013

Skyldir pistlar.

147 vísindamenn Til varnar rannsóknarsjóðum

Hans Guttormur Þormar Aðför að nýsköpun og hagvexti

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2010-2012

Erna Magnúsdóttir ofl. Gildi grunnrannsókna fyrir íslenskt samfélag

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband