Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Fremstur vísindamanna á Íslandi

Einn fremsti vísindamaður íslendinga á síðustu öld var Björn Sigurðsson læknir. Í ár eru 100 liðið frá fæðingu hans. Að því tilefni verður haldinn minningarfyrirlestur um Björn Sigurðsson.

Úr tilkynningu frá HÍ.

Ashley T Haase, prófessor við Minnesotaháskóla heldur minningarfyrirlestur um Björn Sigurðsson, fyrsta forstöðumann Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Hátíðasal Háskólans, en í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Björns.

Björn Sigurðsson ávann sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á mæði-visnuveirunni og kenningar um hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnuveiran er náskyld eyðniveirunni (HIV), og tilheyra þessar veirur báðar flokki lentiveira, en lentiveirur draga nafn sitt af kenningum Björns (lentus=hægur).

8. ágúst 2013 kl. 16:00 í Hátíðasal Háskólans, Aðalbyggingu

Ítarefni:

Guðmundur Pétursson Hver var Björn Sigurðsson og hvert var hans framlag til vísinda visindavefur.hi.is

keldur.hi.is/

Ashley Haase, MD - University of Minnesota Medical School

Halldór Þormar skrifar um sögu mæði-visnu veirunnar


Það fellur enginn á safni

Söfn eru hreinustu fjársjóðir. Fólk sækir þau af ýmsum ástæðum, en mikilvægust er sú staðreynd, að fólk fer þangað af eigin frumkvæði. Þar getur það skoðað framandi hluti og notið samvista við sína nánustu í notalegu umhverfi.

Ferðir á söfn eru oft í eðli sínu upplýsandi, og því einskonar fræðsla. Nema hvað þetta er fræðsla af öðru tagi en sú sem veitt er í skólum, og gesturinn nálgast safnið á annan hátt en nemandi námsefni. Enginn þarf að taka próf í lok ferðar a safnið. Og eins og Frank Oppenheimer, kjarneðlisfræðingur og faðir vísindasafnsins sagði, þá fellur enginn á safni ("No one ever flunked a museum").

grjotakrabbi_cancer_irroratus.jpgFyrir skemmstu heyrði ég fulltrúa vísindasafnsins í Helsinki (Heureka) útskýra hlutverk nútímavísinda og náttúrufræðisafna. Ég legg áherslu á nútíma, því í gamla daga voru hlutverk safna að geyma hluti, ekki endilega að gera þá aðgengilega almenningi eða reyna að miðla þekkingu til fólks.

Vísindasafnið Heureka tekur á móti 300.000 gestum á ári. Um 65% þjóðarinnar hefur komið í safnið. Um 50-60.000 börn fæðast í landinu á ári, og flestir nemendur fara einu sinni eða tvisvar í safnið á námsferli sínum.

Kjarninn í vísindasöfnum er að vissuleyti heimspeki John Deweys, þar sem fólk lærir með því að gera (learning by doing). Vísindasafnið í Kaupmannahöfn er t.d. stappfullt af dóti sem hægt er að hnoðast með. Blása lofti á seglbáta, halda jafnvægi á hálfkúlu eða þjösnast á apparati sem býr til hringiðu í risa stórri vatnssúlu.

Auðvitað hafa farið fram rannsóknir á upplifun fólks á slíkum söfnum, og hversu lengi lífsreynslan varir hjá fólki. Í vitjun á safnið lærir fólk yfirleitt eitthvað nýtt, t.d. hvernig rafmagn virkar eða hversu langir litningar okkar eru (2 metrar í hverri frumu). Það vaknar einnig til vitundar um eiginleika veraldarinnar, sem það hafði kannski ekki spáð mikið í. T.d hversu mikið af koltvísýringi ólíkar þjóðir dæla út i lofti. Mikilvægast er samt að fólk sér veröldina í nýju ljós, eða undir öðru horni, og þroskar sína félagslegu færni. Af þessu fernu, sitja einstakar staðreyndir skemmst efir (2 metar muniði), en vitundin, nýja sjónarhornið og félagslega færnin mun lengur.

Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður, því einstaka staðreyndir skipta ekki mestu máli, þær má finna í bókum. Heldur er mikilvægast að við tökumst á við áskoranir framtíðar með skýrum og grandvörum huga, sem er fær um að skilja staðreyndir, óvissu og fjölbreytileika veraldarinnar.

Robert J. Semper Science Museums as Environments for Learning Physics Today, vol. 43, no. 11, pp. 50-56, Nov. 1990.(American Institute of Physics)

John Dewey NPR.org http://www.pbs.org/onlyateacher/john.html

Heureka www.heureka.fi

A national treasure or a leaning tower? PISA, education and Finland  http://wcsj2013.org/national-treasure-leaning-tower-pisa-education-finland/


Opnar bleikjur í lokuðu vatni

Í tæru og köldu vatni kenndu við Þingvelli, lifa dularfullar skepnur. Sumar þeirra læðast með botninum, skjótast milli steina og fela sig í hraunglufum. Aðrar fylgja botninum og borða snigla, á meðan stórir flokkar silfraðra kvikinda þeysast í gegnum vatnsmassan. Sjaldgæfasta gerðin eru stóru rándýrin, sem éta alla sem eru minni og veikari.

Bleikjurnar í Þingvallavatni eru um margt merkilegar. Þær numu land í lok ísaldar, og hafa að öllum líkindum verið einangraðar þar í 8-10.0000 ár. Vatnið er sérstætt á heimsvísu, því í því finnast fjögur ólík form sem greinilega tilheyra samt sömu tegund. Hérlendi eru þau þekkt sem, dvergbleikja (sem dylst í hrauni á grunnsævi), kuðungableikja, murta og sílableikja (ránfiskurinn ógurlegi). Þær eru aðgreinanlegar í útliti, og að vissu leyti erfðafræðilega.

Nýjar rannsóknir sýna mun á starfsemi gena sem tengjast þroskun þeirra og varnarkerfum.

Ehsan Pashay og félagar könnuðu tjáningu gena í snemmþroskun fisksins. Fyrst skilgreindu þau svokölluð viðmiðunargen, sem eru tjáð t.t.l. stöðugt í gegnum þroskun fisksins, og á milli afbrigða. Þessi viðmiðunargen má nota sem mælistikur á tjáningu annara gena. Ehsan skoðaði nokkur þroskunargen, og sýndi að virkni þeirra er ólík á milli afbrigða. Þetta byggist á því að genin eru tjáð mismikið, þ.e. meira RNA og líklega viðkomandi prótín, er framleitt í einni gerðinni.

Kalina Kapralova og félagar skoðuðu erfðafræði afbrigðanna, með því að rýna í breytileika í nokkrum genum ónæmiskerfisins. Í tveimur genanna var munur á milli afbrigða, sérstaklega milli murtu og dvergbleikju. Mestur var munurinn a afbrigðunum 78% í tíðni stökkbreytinga í MHCII alfa geninu, en einnig var umtalsverður munur í bakteríudrepandi prótínin sem kallast cathelicidin 2. Til útskýringar, ef munurinn á tíðni gerða er 100%, þá eru allir fiskar annars afbrigðisins með einn basa (t.d. A á vissum stað í geninu) en allir einstaklingar hins afbrigðisins með annan basa (td. T).

Þessar rannsóknir sýna báðar, að jafnvel þótt að bleikjurnar í Þingvallavanti séu af sömu tegund, þá er marktækur erfðafræðilegur munur á afbrigðunum.

Báðar rannsóknir voru birtar í opna vísindatímariti Plos One. Opin tímarit eru þess eðlis að allir geta lesið þau á netinu, endurgjaldslaust. Mörg hefðbundin vísindatímarit eru nefnilega bara hægt að lesa, gegn greiðslu (með krítarkorti eða í gegnum bókasafn). 

Það sem meira er, gögnin úr grein Kalinu eru lika aðgengileg á netinu, fyrir hvern sem skoða vill, á datadryad.org. doi:10.5061/dryad.81884

 Ítarefni:

Ahi EP, Guðbrandsson J, Kapralova KH, Franzdóttir SR, Snorrason SS, et al. (2013) Validation of Reference Genes for Expression Studies during Craniofacial Development in Arctic Charr. PLoS ONE 8(6): e66389. doi:10.1371/journal.pone.0066389

Kapralova KH, Gudbrandsson J, Reynisdottir S, Santos CB, Baltanás VC, et al. (2013) Differentiation at the MHCIIα and Cath2 Loci in Sympatric Salvelinus alpinus Resource Morphs in Lake Thingvallavatn. PLoS ONE 8(7): e69402. doi:10.1371/journal.pone.0069402

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

 


Opið aðgengi á Íslandi

Það er hreyfing innan vísindasamfélagsins sem berst fyrir því að grunngögn og vísindagreinar verðir birt í svokölluðum opnum aðgangi (open access). Kjarninn í þessari hugmyndafræði er sá að almenningur, í gegnum ríkið og stofnanir þess, hefur greitt fyrir hagnýtar og grunnrannsóknir, og að það sé kjánalegt að almenningur (ríkið) þurfi að borga aftur fyrir að vísindamenn geti lesið um niðurstöður þessara rannsókna.

Nánar um opinn aðgang á vefsíðunni opinnadgangur.is

Þar segir frá nýju hefti ScieCom info. Flestar greinarnar fjalla um stöðu OA mála innan Norðurlandanna. Fréttabréf opinns aðgangs bendir sérstaklega á The important developments within academic publishing and OA in Iceland: a short overview eftir Solveig Thorsteinsdottir hjá Heilbrigðisvísindabókasafni LSH.

Ágrip greinar:

Vísindagreinum hefur fjölgað mikið á Íslandi síðustu árin eða um helming á árunum 2002 - 2012.  Hlutfall greina í opnum aðgangi sem skráðar eru frá Íslandi í gagnasafninu PubMed eru um 20% síðustu tíu árin.  Fáar vísindagreinar á erlendum tungumálum eru í opnum aðgangi í varðaveislusöfnum landsins eða um 2%.  Dræmur áhugi vísindamanna á opnum aðgangi má ef til vill rekja til þess að flestir hafa góðan aðgang að erlendu vísindaefni um Landsaðgang án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði.  Nýlegar breytingar á lögum landsins um vísindi um opinn aðgang og reglur Rannís um opinn aðgang munu vonandi hafa þau áhrif að birtingar í opnum aðgangi mun aukast á Íslandi.


Elsku sjónvarp, láttu mig hreyfa mig

Í fyrradag fékk ég að tala við svona sjónvarp. Ekki að plata, svona sjónvörp eru kominn til Íslands (á heimili mektarfólks og lukkunarpamfíla). Ég sagði "Volume down", svo sagði ég tölu milli 0 og 20, og hljóðið stillist sjálfkrafa. Það var líka með hreyfiskynjara, þannig að maður gat veifað hendinni og kallað fram valmynd. Líklega verður það mjög ruglað í stórri veislu, t.d. þegar margir er að dansa fyrir framan sjónvarpið (gerist það ekki í veislunum þínum?).

Ég veit ekki hvort öll fínheitin sem talin voru upp í tæknifrétt mbl.is, eigi við um þetta sjónvarp. Ég tek illa eftir nöfnum á raftækjum, en græjan er amk með þrívíddar eiginleikann og innbyggða tölvu fyrir vafr og þess háttar.

Annars hafa margir sagt að sjónvarpið væri orsök hreyfingarleysis og offitu meðal nútímamanna. Það væri náttúrulega frábært ef sjónvarpið gæti skipað manni fyrir. Heyrðu gosi, þú ert búinn að horfa á mig í 3 klst, ég slekk á mér núna, farðu í labbitúr.

Fyrr í vikunni las ég um tvær mjög forvitnilegar rannsóknir sem sýna fram á ágæti hreyfingar. 

Önnur, sýnir að hreyfing leiðir til aukins fjölda ákveðinna taugafruma í heilanum. Þessar taugafrumur espast auðveldlega, en hversu mótsagnarkennd sem það er, hjálpa einnig við að friða heilann til lengri tíma. Þannig getur regluleg hreyfing unnið gegn taugaveiklun, og veitt hugarró. Rannsóknin var reyndar gerð á músum, sem gerði þeim kleift að skoða þroskun heilans í músum sem fengu reglulega hreyfingu eða enga. Það er því ekki víst að það sama eigi við um mannfólk, en etv má meta tilgátuna á annan hátt.

Nýleg erfðafræðirannsókn á mannfólki sýndi hinsvegar að miklar æfingar gjörbreyta eiginleikum fituvefs. Þetta var sýnt með því að skoða tjáningu gena - og metýl merkingar í erfðamenginu - í fituvef fólks sem hafði stundað strangar æfingar í 6 mánuði. Mörg genanna sýndu breytta tjáningu, og sum þessara gena hafa einmitt verið tengd offitu og sykursýki. Hreyfingin getur því spornað gegn þessum sjúkdómum, jafnvel þótt að við sjáum ekki mikinn mun á viktinni.

Í stuttu máli þá getur hreyfing bæði breytt eiginleikum heilans og fært fituna okkar til betri vegar. Nú þurfum við bara sjónvarp sem getur skipað okkur (og músunum) að fara út að hlaupa...

Ítarefni:

GRETCHEN REYNOLDS NY Times Well: How Exercise Can Calm Anxiety

A Six Months Exercise Intervention Influences the Genome-wide DNA Methylation Pattern in Human Adipose Tissue Tina Rönn, Petr Volkov, Cajsa Davegårdh, Tasnim Dayeh, Elin Hall, Anders H. Olsson, Emma Nilsson, Åsa Tornberg, Marloes Dekker Nitert, Karl-Fredrik Eriksson, Helena A. Jones, Leif Groop, Charlotte Ling Research Article | published 27 Jun 2013 | PLOS Genetics 


mbl.is Hægt að skipa sjónvarpstækinu fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hross úr forneskju

Hesthaus á staur mætti göngumönnum á miðri heiðinni. Uggur fór um hópinn og þeir pískruðu sín á milli, "hvaða kraftar eru hér að verki?" Þokan skreið niður dalverpin og umlukti mennina, og vitið yfirgaf þá endanlega.

-----------------

Menn og hestar tengjast fornum og traustum böndum. Forfeður okkar beisluðu hross og þau eru meðal elstu og forvitnilegustu húsdýra mannsins. En hver er uppruni hestsins, eða ólíkra hestakynja? Hvenær greindust þeir frá öðrum hest-tegundum og ösnum? Eru Przewalski hestarnir náskyldir eða fjarskyldir nútíma hestum og eru þeir í hættu vegna kynblöndunar? genimage_ashx.jpg

Þessar spurningar voru viðfangsefni nýlegrar rannsóknar Ludovic Orlando við Háskólann í Kaupmannahöfn, og samstarfsmanna hans (um 40 manna hóps).

Til að svara þessum spurningum beittu þeir aðferðum stofnerfðafræðinnar. Þeir nýttu nýlega tækni, sem gerir fólki kleift að raðgreina heilu erfðamengi tegunda og einstaklinga. Að auki duttu þeir í lukkupottinn og náðu erfðaefni úr tveimur ævafornum hestsbeinum. Annað var um 42.000 ára bein, en hitt var 560.000–780.000 ára gamalt bein úr sífreranum í Yukon.

Þetta er nýtt met í raðgreiningu á beinum. Elstu nýtilegu gögn til þessa komu úr 70.000 ára gömlum efnivið. Að auki sýna gögnin að hestar aðskildust líklega frá öðrum hestategundum fyrir um 4 milljónum ára.

Mongólsku villihestarnir, kallaðir Przewalski hestar, eru náskyldasti hópur núlifandi hestanna okkar. Gögnin benda til aðskilnaðar fyrir um 40.000 árum, og gefa ekki til kynna að kynblöndun hafi átt sér stað á milli þeirra síðan.

En gögnin sýna líka hvaða erfðaþættir hafa breyst samfara því að menn tömdu hesta, og fóru að ala þá sem húsdýr. Upp á enskuna er talað um "domestication", en ég megna ekki að snara því orði almennilega. Niðurstöður Orlandos og félaga sýna hvaða erfðaþættir hafa mögulega tengst breytingum á eiginleikum hesta, frá villtu stóðdýri, til þeirra öflugu áhrifavalda sem hestar hafa verið í mannkynsögunni.

En þótt að genin opni okkur sýn aptur í forneskju, þá skulum við muna að erfðir eru ekki allt. Margir þeir eiginleikar sem prýða hross eru einmitt tilkomnir vegna dásamlegs atlætis, og persónulegrar þjálfurnar og samveru. Að því leyti eru hestar ekki ólíkir okkur, genamundurinn er ekki allt, það skiptir líka máli að fæðast inn í rétt samfélag eða fjölskyldur. Það getur skipt máli hvernig maður tekst við hinu óvænta, eins og níðstöng á miðri heiði.

Ítarefni:

Mynd eftir Halldór Pétursson af vefnum www.myndlist.is.

Fréttatilkynning Kaupmannahafnar háskóla A 700.000 year old horse gets its genome sequenced 26 Júní 2013

Ludovic Orlando, ofl. Recalibrating Equus evolution using the genome sequence of an early Middle Pleistocene horse Nature (2013) doi:10.1038/nature12323


Líffræðiráðstefnan 2013

Líffræðiráðstefnan 2013, verður haldin 8. og 9. nóvember í Háskóla Íslands. Ráðstefnan er opin þeim sem rannsaka, kenna eða hafa áhuga á líffræði.

 

Auglýst verður eftir framlögum (erindum eða veggspjöldum) – frestur til að skila ágripum er 10. október 2013. Ráðstefnan verður með sama sniði og árin 2009 og 2011, með þeirri nýbreyttni að a.m.k. 2 erlendir vísindamenn flytja yfirlitserindi. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, skráningu og haustfagnaðinn verða sendar og birtast á nýrri vefsíðu félagsins í september.

 

Ráðstefnan spannar alla líffræði, og veltur breiddin á framlagi gesta.

 

Það er sérstaklega ánægjulegt að tilkynna að á ráðstefnunni verður málstofa helguð líffræðikennslu, skipulögð í samstarfi við Samtök líffræðikennara (Samlíf) sem eru þrítug á árinu. Sendið aðrar uppástungur um sérstakar málstofur á stjórn líffræðifélagsins.

 

Stjórn Líffræðifélags Íslands


Pósthólf 5019
125 Reykjavík

Póstlisti félagsins er í endurnýjun - http://lif.gresjan.is/skraning/ .


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband