Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Sprengjugengið, vel að hvellinum komið

Í heimi þar sem afþreying, slúður og vinsældir skipta öllu, eiga fræði og vísindi litla von. Nema hugvitsömu fólki takist að fanga athygli fólks og blása í áhuga þess á námi í raungreinum, eða bara á lögmálum og ástandi náttúrunnar.

Einn hópur sem skarað hefur fram úr á þessu sviði er sprengjugengið, hópur nemenda í efnafræði, efnaverkfræði og lífefnafræði við HÍ. Þau hafa á undanförnum 6 árum þróað ansi skemmtilega sýningu sem tvinnar saman Hollywood og efnafræði. Þau fengu verðlaun Rannís fyrir vísindamiðlun fyrir árið 2013, og eru vel að þeim hvelli kominn.

Þau hafa verið með sýningar á Háskóladeginum, Háskólalestinni og auðvitað vísindavökunni, þar sem ég sá þau síðast. Þar var blandað saman lausnum og sprengdar blöðrur með eldfimum gastegundum. Þau framleiddu fílatannkrem og sprengdu flösku með fljótandi köfnunarefni, í heilmiklu sjónarspili undir dúndrandi tónlist (Dagur vonar hvað).

Sýningin var hin skemmtilegasta og börnin mín skemmtu sér konunglega. Mér fannst reyndar að hægt sé að bæta hana töluvert, t.d. með því að hamra á vísindalegu og efnafræðilegu staðreyndunum í skýrum setningum. Einföld slagorð eða dæmi gætu miðlað heilmiklu, sérstaklega því að fólk geislar af áhuga. 

Það er hægt að miðla staðreyndum með eldhafi.

Ég er mjög spenntur fyrir því að sjá hvernig sýning sprengjugengisins þroskast. Á sama tíma var ég að velta fyrir mér hvernig mín fræðigrein, líffræðin kynnt sig á sambærilegan hátt. Mér datt í hug að koma með risaeðluna mína í vinnuna, eða vera með nokkrar Ebolaveirur í krukku. Einnig er möguleiki að túlka pörun litninga með dansi eða vera með getraun um lykilstaðreyndir líffræðinar.

Hver er heildarlengd litninganna 23 í hverri frumu mannsins?

  • A) 2 micrometrar
  • B) 2 centimetrar
  • C) 2 metrar

Bætt við 2. okt.

Rétt svar er C), heildar erfðaefni í einni frumu mannsins er 2 metrar. Þetta er mögulegt af því að DNA er mjög mjó sameind, sem auðveldlega rúllast upp í litnisagnir með aðstoð tilheyrandi prótína.

Ítarefni:

http://www.youtube.com/user/sprengjugengid 

E.s. 

Frétt um verðlaun fyrir vísindamiðlun, er í raun bara endurprentun á fréttatilkynningu.

http://www.hi.is/frettir/sprengjugengi_hi_hlaut_visindamidlunarverdlaun

Hvað þýðir það varðandi miðlun vísinda og fræða á Íslandi?


mbl.is Sprengjugengið verðlaunað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindavaka

Í kvöld verður vísindavakan í Háskólabíó. Þar kennir ýmisa grasa. Hægt er að kynnast viðfangsefnum margra fræðigreina og fyrirtækja. Sem dæmi má taka:

grjotakrabbi_cancer_irroratus.jpg

 

 

  • Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum: Grjótkrabbar, kræklingar og fleiri íbúar sjávarins: lifandi landnemar og nytjadýr
  • Jarðvísindastofnun: Sprengigos á Íslandi
  • Vísindasmiðja HÍ: Leikur að vísindum
  • Friðlandið í Vatnsmýri: Lifandi vettvangur vísinda
  • Háskólinn á Akureyri:  Samlífi undir smásjá
  • Háskólinn á Hólum: Undraheimur íslensks ferskvatns
  • ORF líftækni: Sameindaræktun á frumuvökum í byggi
  • Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness: Undur alheimsins

Dagskrá í heild sinni má vinna á vef vísindavöku og Rannís.

Mynd af Grjótkrabba tekin af Óskari Sindra Gíslasyni, doktorsnema í líffræði, sem vinnur verkefni við Rannsóknasetur Suðurnesja.

Vísindavefurinn: Hvað getið þið sagt mér um grjótkrabba?

 


Rannsóknir - undirstaða framþróunar

Eftirfarandi bréf birtist í Fréttablaði dagsins, undir fyrirsögninni Rannsóknir - undirstaða framþróunar. (einnig á visir.is Rannsóknir – undirstaða framþróunar)
 
Grunnrannsóknir á sviði tækni og vísinda gegna mikilvægu hlutverki í nútíma samfélagi og mynda þá kjölfestu sem þekkingarleit og nýsköpun eru byggðar á.

Grunnrannsóknir á sviði tækni og vísinda gegna mikilvægu hlutverki í nútíma samfélagi og mynda þá kjölfestu sem þekkingarleit og nýsköpun eru byggðar á. Sá sjóður sem er einna mikilvægastur fyrir fjármögnun grunnrannsókna á Íslandi er Rannsóknasjóður Rannís, sem fjármagnar stóran hluta allra rannsóknaverkefna hér á landi. Nú eru hins vegar blikur á lofti um fjármögnun sjóðsins og tvísýnt að hægt verði að fjármagna ný verkefni á næstu árum. Ef dregið verður úr stuðningi við grunnrannsóknir og því klippt á þekkingarsköpun í landinu niður við rót er nær öruggt að hagnýtar rannsóknir munu einnig bera mikinn skaða af.

Fjárfestingar í grunnrannsóknum skila beinum arði til samfélagsins í réttu hlutfalli við þær fjárhæðir sem eru veittar þótt arðurinn skili sér hægt. Þess vegna hafa flestar vestrænar þjóðir lagt mikið upp úr því að efla grunnrannsóknir, þar sem opinberir aðilar gegna lykilhlutverki í að tryggja styrkveitingar til rannsókna og efla samkeppnisumhverfi í kringum þær. Tilgangurinn er oft háleitur, þar sem stórþjóðir hafa það að markmiði að takast á við helstu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Ísland er vissulega í hópi þjóða sem lagt hafa lóð á vogarskálarnar til þess að bæta lífskjör og stuðla að framförum í heiminum. Það þarf ekki nema að hugsa til þeirra sprotafyrirtækja sem hér hafa sprottið upp og náð miklum árangri á alþjóðavísu.

Styðjast við nema

Rannsóknir kosta fé en í hvað fer það fé? Í raun styðjast flest allar rannsóknir á háskólastigi að miklu leyti við nema í framhaldsnámi til þess að framkvæma þær.

Styrkjafé fer því að mestu leyti í það að styrkja nemendur og búa þeim umhverfi til skapandi náms. Þannig hljóta vísindamenn mikilvæga þjálfun í upphafi ferils síns, þar sem þeir læra vinnubrögð, aðferðafræði og vísindalega hugsun, á meðan tryggt er að þekkingin sem skapast berist til næstu kynslóðar vísindamanna. Þannig eflist og vex þekkingin með hverri kynslóð og nemar koma vel undirbúnir úr framhaldsnámi og taka þátt í tækni- og þekkingariðnaðinum sem fer hratt vaxandi í landinu og stuðla þannig beint að auknum hagvexti. Einnig eru ungir vísindamenn, nýdoktorar og hópstjórar sem eru að hefja sjálfstæðan vísindaferil algerlega háðir styrkfé úr samkeppnissjóðum. Að spara fé til rannsókna er því sambærilegt því að éta útsæðið. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar.

Algengur misskilningur er að íslenskir vísindamenn geti hreinlega bætt upp skort á rannsóknastyrkjum á Íslandi með styrkjasókn í erlenda sjóði. Sannleikurinn er sá að þegar sótt er um erlent styrkfé er lykilatriði að fyrir séu góðir innviðir og styrkir sem hafa verið veittir í heimalandinu. Þannig veita erlendir sjóðir ekki fé til rannsókna nema sýnt þyki að til staðar sé sá mannauður, tækjakostur og hugvit sem þarf til þess að fjárfesting í rannsóknum beri árangur. Þess vegna er fjárfesting í grunnstoðum íslensks vísindasamfélags forsenda þess að erlendir styrkir fáist til landsins.

Skiptir sköpum

Nýliðun á þeim mannauði sem verður til við grunnrannsóknir skiptir sköpum þegar viðhalda skal þekkingar- og nýsköpun. Flestir vísindamenn hljóta hluta þjálfunar sinnar í öðrum löndum og margir þeirra snúa til baka með mikla reynslu og þjálfun sem er undirstaða þess að rannsóknaumhverfið á landinu haldi í við strauma og stefnur erlendis. Þess vegna er lykilatriði að skapa skilyrði á Íslandi fyrir ungt vísindafólk að snúa aftur til landsins eftir þjálfun á doktors- og nýdoktorsstigi til þess að við fáum stöðugt blásið nýju lífi í það frjóa umhverfi sem grunnrannsóknir þrífast í. Þannig hámörkum við afköst þess mannauðs sem við höfum yfir að búa.

Fyrstu árin eftir að vísindamaður lýkur grunnþjálfun er sá tími sem er einna viðkvæmastur á ferlinum og sker oft úr um það hvort einstaklingur hljóti tækifæri til þess að halda áfram rannsóknum. Falli nýjar styrkveitingar til grunnrannsókna niður, þrátt fyrir að staðið sé við eldri skuldbindingar, mun það hafa hrapalleg áhrif fyrir þá vísindamenn sem eru í þann mund að ljúka við grunnþjálfun og stefna að því að snúa aftur til landsins. Líklegt er einnig að við missum marga hæfileikaríka vísindamenn endanlega úr landi og þeir ungu vísindamenn sem fyrir eru muni snúa sér að öðrum störfum og áralöng fjárfesting í þjálfun þeirra muni fara í súginn.

 

Ármann Gylfason Tækni- og verkfræðideild, HR

Arnar Pálsson Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ

Erna Magnúsdóttir Læknadeild, HÍ

Eyjólfur Ingi Ásgeirsson Tækni- og verkfræðideild, HR

Guðrún Valdimarsdóttir Læknadeild, HÍ

Henning Úlfarsson Tölvunarfræðideild, HR

Hlynur Stefánsson Tækni- og verkfræðideild, HR

Jón Guðnason Tækni- og verkfræðideild, HR

Jón Þór Bergþórsson Læknadeild, HR

Leifur Þór Leifsson Tækni- og verkfræðideild, HR

Magnús Örn Úlfarsson Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, HÍ

Margrét Helga Ögmundsdóttir Læknadeild, HÍ

Páll Melsted Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, HÍ

Pétur Henry Petersen Læknadeild, HÍ

Sigríður Rut Franzdóttir Læknadeild, HÍ

Sigurður Yngvi Kristinsson Læknadeild, HÍ

Stefán Sigurðsson Læknadeild, HÍ

Valerie H. Maier Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ

Ýmir Vigfússon Tölvunarfræðideild, HR

Zophonías Jónsson Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ


Eflum rannsóknarsjóð

Ég vil benda fólki á flotta grein í Fréttablaði dagsins. Þar segir m.a.

Í stefnu flestra stjórnmálaflokka er talað um að auka hlutfall samkeppnissjóða við fjármögnun vísinda á Íslandi. Eftir mjög erfiða tíma í kjölfar efnahagshruns tókst loks á þessu ári að tryggja aukna fjármögnun til Rannsóknasjóðs með svokallaðri Fjárfestingaráætlun en hún bætti 550 milljónum við þær u.þ.b. 800 milljónir sem áður voru í sjóðnum. Sú ráðstöfun kom honum í sambærilega stöðu og hann var í fyrir hrun....

Við núverandi fjárlagagerð er mikil hætta á að þessi mikilvægasti vísindasjóður á Íslandi verði ekki fjármagnaður eins og áætlað var þar sem tekjustofnar Fjárfestingaráætlunar eru ekki lengur fyrir hendi. Ef vexti sjóðsins verður snúið við er líklegt að engir nýir styrkir verði veittir til vísindarannsókna á Íslandi árið 2014 og jafnvel árið 2015. Þetta skýrist af því að úthlutanir ársins 2013 leiða til skuldbindinga tvö til þrjú ár fram í tímann og ljóst að fasta framlagið dugar tæplega fyrir þeim.

Ég tek heilshugar undir með höfundum greinarinnar, sérstaklega í lokaorðunum.

Eftir efnahagsþrengingar á Íslandi hefur verið rætt um mikilvægi þess að efla nýsköpunarstarf. Rannsóknatengd nýsköpun er afar mikilvæg enda getur hún leitt til mikillar verðmætasköpunar í formi verðmætra afurða, atvinnu fyrir vel menntað starfsfólk og aukinna skatttekna fyrir hið opinbera. Íslensk dæmi um slíka nýsköpun eru vel þekkt. Á Íslandi hafa samkeppnissjóðirnir alltaf verið lítið hlutfall af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi eða um 15%. Á Norðurlöndunum eru samkeppnissjóðirnir hins vegar 30-50% af framlagi hins opinbera til vísindastarfsemi.

Stefna Vísinda- og tækniráðs hefur verið að breyta þessu. Mikilvægt er að láta ekki tímabundna efnahagsörðugleika koma í veg fyrir vöxt í framtíðinni. Við hvetjum Alþingi til að snúa ekki af þeirri braut að treysta grunnrannsóknir í samfélaginu. Efling Rannsóknasjóðs mun skila sér margfaldlega á öllum sviðum mannlífs á Íslandi.

Fréttablaðið 25. september 2013. Mikilvægt að efla Rannsóknasjóð


Í sátt við hagahafa og okkur hin

Það slær að manni óhugur þegar umhverfisráðherra, leggur til að lög um náttúruvernd verði afturkölluð.

Rökstuðningurinn er sá að margar athugasemdir hafi borist varðandi frumvarpið.

Í Fréttablaðinu var rætt við Sigurð Inga:

Máli sínu til stuðnings bendir Sigurður Ingi á gagnrýni vegna ferðafrelsis á hálendinu en bílaumferð var takmörkuð í lögunum.

Spurður hvort tilgangur endurskoðunarinnar sé einnig að greiða fyrir framkvæmdum svarar hann neitandi og bætir við að mikil og góð vinna hafi verið unnin varðandi frumvarpið og að hún verði nýtt við smíði nýrra laga. Hann segir lögin einkennast af boðum og bönnum og vill breyta "yfirbragði þeirra" eins og hann orðar það sjálfur.

Þar höfum við það.

Náttúruvernd á ekki að snúast um boð og bönn, ekki einu sinni að bannað sé að keyra á ómerktum slóðum.

Eins gott að þessi ráðherra fer ekki með dómsmál, hann hefði kannski viljað breyta "yfirbragði" refsilaga og annara. Óþarfi að banna rán, það skerðir ruplfrelsi vissra haghafa í glæpaiðnaðinum.

Flest verk umhverfisráðherrans ganga gegn náttúrunni. Við getum ekki setið þegandi undir þessu.


mbl.is Lög um náttúruvernd afturkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur með Y litninga í heilanum

Allir einstaklingar fá erfðaefni frá foreldrum sínum*. En sumir einstaklingar eru með erfðaefni í frumum sínum, frá fleirum en sínum líffræðilegu foreldrum. Sumir einstaklingar búa svo vel að vera vefjablendingar (chimeras).

 

Vefjablendingar

Vefjablendingar geta verið með fernskonar útgáfur af hverju geni, en þó aldrei fleiri en tvær í hverri frumu. Þetta er vegna þess að þeir eru með blöndu af frumum frá tveimur einstaklingum/fóstrum. Einnig finnast einstaklingar með stökkbreytingu í einum vef en ekki í öðrum (t.d. í annari hendinni en ekki í hinni hendinni).

Þetta hljómar brjálæðislega en svona er raunveruleikinn stundum. Um miðbik síðustu aldar var lýst rannsókn á konu, með blóð af tveimur blóðflokkum (O og A). Í ljós kom að hún var tvíeggja tvíburi, og hafði líklega fengið stofnfrumur blóðs frá bróður sínum í móðurkviði.

Einnig geta vefjablendingar orðið til þegar tvö frjóvguð egg renna saman. Þá verður til einstaklingur með 4 erfðamengi, tvö frá föður og tvö frá móður. Ef ólíkir kynlitningar komu frá föðurnum, getur einstaklingurinn verið beggja blands, með tilliti til kynferðis. Ytri verkfæri gætu verið af einu kyni, en heilinn af öðru. Þessi gerð vefjablendinga er best skilgreind með tilliti til þroskun hnoðakambsfruma, þar sem greina má mismunandi litmynstur í húð vegna þess að litfrumur á öxl fara aðra þroskabraut en litfrumur á ökkla.

Sérkennilegt dæmi kom upp þegar erfðapróf sýndu að móðir ein, var ekki erfðafræðileg móðir beggja barna sinna. Jafnvel þótt að hún hefði sannarlega fætt þau. Í ljós kom að konan var vefjablendingur, og eggjastokkar hennar af mismunandi arfgerðum.

Svona smáblendingar (microchimeras) eru mun algengari en við höldum. Í ljós hefur komið að við meðgöngu þá sleppa frumur frá fóstri inn í blóð móður. Og frumurnar geta lifað þar og skipt sér. Erfðapróf hafa sýnt að í heilum mjög margra mæðra má finna Y litninga, sem eingöngu er hægt að skýra með svona frumuflakki frá fóstri til móður.

Manni fyndist eðlilegt að frumur gætu fetað báðar áttir á þessum stíg, og fóstrið þannig grætt frumur frá móður sinni. Ég hef reyndar ekki lesið nægilega mikið, til að vita hvort svo sé.

 

Stökkbreytingar í líkamsfrumum

Í þroskun þá fara frumuhópar á mismunandi brautir og mynda hina og þessa vefi. Frumurnar skipta sér ansi oft, og geta orðið fyrir stökkbreytingum, sem þá erfist í viðkomandi frumu-ætt (sem t.d. myndar hluta húðarinnar eða einhvern vöðva).

Slíkur fjölbreytileiki í líkamsfrumum þýðir vitanlega að erfðasamsetning hægri og vinstri handar er ekki endilega sú sama. Og eins og áður hefur verið rætt, þá þýðir þetta líka að eineggja tvíburar eru aldrei nákvæmlega eins.

Auðvitað eru stökkbreytingar í líkamsfrumum mjög mikilvægar, því þær liggja til grundvallar mörgum krabbameinum. Það er uppsöfnun á göllum í líkamsfrumum sem gerir sumum frumum þeirra kleift að losna undan ægivaldi fjölfrumungsins og fjölga sér taumlaust. Þannig fer æxlisvöxtur af stað. Einnig er talið að vissar stökkbreytingar geri æxlisfrumur ífarandi og þar með lífshættuleg.

Að lokum vil ég samt árétta að genin eru ekki allt. Umhverfi er meiriháttar afl í tilvist lífvera. Margir sjúkdómar okkar mannfólksins eru að mestu  leyti vegna umhverfisins, þ.e.a.s. næringar, sjúkdóma eða annar ytri þátta.

Við ritun þessarar greinar var stuðst að miklu leyti við grein Carl Zimmers í New York Times. DNA Double Take 16. sept. 2013.

*Eða foreldri, í tilfelli kynlausrar æxlunar.

Leiðréttingar, alvarleg skyssa í annari málsgrein var leiðrétt 25. september, og annað smálegt snurfusað.

ítarefni:

Arnar Pálsson. „Er hægt að taka kjarna úr tveimur sáðfrumum, setja í tóma eggfrumu og búa þannig til einstakling úr tveimur karlmönnum?“. Vísindavefurinn 7.2.2011. http://visindavefur.is/?id=19843.

Arnar Pálsson. Ólíkir eineggja tvíburar 11. mars 2008.

Male microchimerism in the human female brain. Chan WF, Gurnot C, Montine TJ, Sonnen JA, Guthrie KA, Nelson JL. PLoS One. 2012;7(9):e45592. doi: 10.1371/journal.pone.0045592.


Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar

Hér er endurprentaður pistill af síðu Kennarafélags Íslands (Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar). Pistillinn er ritaður af stjórn Samtaka líffræðikennara (sem blogghöfundur er hluti af).

---------------

Dagur íslenskrar náttúru var 16. september sl. Markmið dagsins er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum. Fyrr í haust sendi Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvatningu til Íslendinga um að fagna deginum. Það er ánægjuefni að stjórnvöld sýni náttúru landsins áhuga. Því miður endurspeglast þessi áhugi ekki í menntakerfinu þó að fögrum orðum sé farið um viðfangsefnið í námskrám. Áralangur niðurskurður veldur líffræðikennurum áhyggjum og fól aðalfundur Samlífs, samtaka líffræðikennara, 20. apríl 2013 stjórninni að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfnimarkmiðum. Áhyggjur eru af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Fjölgun í nemendahópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár um hæfniviðmið er í andstöðu við sístækkandi nemendahópa.

Mennta- og menningarmálaráðherra er hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum í raungreinum í kjarna úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut en náttúrufræðibrautum var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samræmist fækkun raungreinaeininga í framhaldskólum markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja rými til að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.

Fækkunin úr 12 einingum í 9 einingar (NÁT103, NÁT113 og NÁT123) á bóknámsbrautum sem tilgreind er hér að ofan varð til þess að eðlis- og efnafræði var blandað saman í einn áfanga. Þetta hefur leitt til þess að í flestum tilfellum kennir efnafræðingur áfangann og því er lítið fjallað um eðlisfræði. Álíka gáfulegt væri að spyrða saman ensku og dönsku og gefa fyrir einkunn í erlendum tungumálum. Gefum raungreinum tíma og rúm í íslensku menntakerfi svo að komandi kynslóðir kunni að fagna Degi íslenskrar náttúru og njóta.


Undur lífsins

Ríkisútvarpið sýnir þessa dagana stórbrotna þætti frá BBC um undur lífsins (wonders of life). Ég vil þakka RÚV kærlega fyrir að taka þessa þáttaröð til sýningar, hún er að mínu mati hreinasta afbragð.

Í þáttunum er fjallað um eiginleika lífvera og hvernig þeir spretta úr lögmálum eðlisfræðinnar.

Í fyrsta þættinum sem sýndur var hérlendis - stærð skiptir máli* - var fjallað um þær skorður sem lögmál eðlisfræðinnar setja lífverum. Byrjað var á að ræða hvernig stærð trjáa ræðst af samspili þyngdaraflsins og hárpíplukraftsins. Þann síðarnefnda nota tré  til að flytja vatn upp bolinn. Eðlisfræðin setur lífinu strangar skorður.

Einnig var sýnt hvernig lögmál stærðar leiða til breytinga á byggingu og hreyfimöguleikum dýra. Lærleggur risavambans í Ástralíu var 5x lengri en venjulegs vamba. En hann var 40X þykkari, vegna þess að risavambinn var um tvö tonn á móti 20 kg venjulegs vamba.

Einnig fannst mér stórkostlegt sjá myndir af minnstu skordýrum sem þekkt eru.** Það eru litlar sníkjuvespur sem þrátt fyrir smæð sína, eru með 10.000 taugafrumur í taugakerfi sínu. En þær eru færar um heilmikið atferli, geta flogið um og tekið mikilvægar ákvarðanir varðandi líf sitt.

Í þætti gærdagsins var fjallað um uppruna lífsins og um orkuna sem býr í efnafræði jarðhitahvera. Það voru færð rök fyrir því að líf hefði kviknað við neðansjávarhveri, þar sem basískt útstreymi komst í snertingu við súrann sjó. Í þessum muni á sýrustigi liggur orka, sem sýnd var á mjög flottan hátt í þættinum (hann dugði til að drífa rafmagnsviftu). 

Í frumunum heilkjörnunga er svona stigull, frá súru yfir í basískt, notaður í orkukornum (hvatberum) til að  framleiða orkusameindir. Orkusameindirnar, kallaðar ATP, eru helsti gjaldmiðil framkvæmda í frumunum.

Þættirnir tveir hafa verið ljómandi skemmtilegir. Efnið er framsækið, ekki er verið að segja einfaldar sögur af fjölbreytileika lífsins eða dæmisögur úr lífsbaráttunni. Heldur er verið að fjalla um grundvallaratriði lífsins, og frásagnarmátinn er lifandi og myndefnið fyrirtak. Mér þætti reyndar gaman að heyra hvað fólki finnst. Er ég svona hrifinn af því að bakgrunnur minn er líffræði, eða kveikir þátturinn í öðrum?

*reyndar er sá þáttur fjórði  í röðinni, þegar serían var fyrst sýnd á BBC two.

** OK, ég er með flugublæti, enda rannsakaði ég þær í 8 ár meðan ég bjó í Bandaríkjunum.

Ítarefni:

Wonders of Life á vef BBC two

Undur lífsins á vef RÚV


Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum

Til: Mennta- og menningarmálaráðherra

Efni: Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfni­mark­miðum.

Áhyggjur eru af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Stækkun í hópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár Mennta- og menningarmálaráðuneytis um hæfni­viðmið er í andstöðu við stærri nemendahópa.

Mennta- og menningarmálaráðherra er einnig hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut. Á náttúrufræðibraut var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samræmist fækkun raungreinaeininga  í framhaldskólum  markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja rými til að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.

Stjórn Samlífs Samtaka líffræðikennara (einnig á fésbók, Samlíf)

Ester Ýr Jónsdóttir, formaður
Rúna Björk Smáradóttir, gjaldkeri
Hólmfríður Sigþórsdóttir, ritari
Arnar Pálsson, meðstjórnandi
Halla Bjarnadóttir, meðstjórnandi.


Ákall vegna Náttúruminjasafns Íslands

Stjórnir nokkurra félaga og fræðisamtök á sviði náttúrufræða og náttúruverndar, til Mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar, vegna Náttúruminjasafni  í Perlunni. Bréfið er hér prentað í heild sinni.

Undirrituð samtök hvetja menntamálaráðherra eindregið til að þess að sýna djörfung og þor við uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Náttúruminjasafn í Perlunni veitir ótal tækifæri og mat fagaðila, m.a.
Framkvæmdasýslu ríkisins, bendir til að aðgangseyrir muni standa undir leiguverðinu (80 milljónir á ári fyrir 3.200 m2, og gott betur). Jafnframt yrði safnið mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að.
Samtökin minna á að Náttúruminjasafn Íslands hefur mikla þýðingu fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu gagnvart öllum skólastigum landsins og almenningi.
Slík fræðsla er óformleg í þeim skilningi að hún er ekki beint innan skólakerfisins og í því liggur styrkur hennar.

Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi, Sigurður Halldór Jesson
Félag raungreinakennara – Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir
Fuglavernd, Jóhann Óli Hilmarsson
Hið íslenska náttúrufræðifélag, Árni Hjartarson
Jarðfræðafélag Íslands, Sigurlaug María Hreinsdóttir
Landvernd, Guðmundur Hörður Guðmundsson
Líffræðifélag Íslands, Arnar Pálsson
Náttúruverndarsamtök Íslands, Árni Finnsson
Samlíf – Samtök líffræðikennara, Ester Ýr Jónsdóttir

Aukreitis:

Grein eftir forstöðumann Náttúruminjasafnsins, Hilmar Malmquist, birtist í fréttablaði dagsins í dag (16. september 2013). Náttúruminjasafn Íslands – gæluverkefni eða þjóðþrifamál?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband