Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Ein af ráðgátum lífsins

Guðmundur Eggertsson hefur skrifað um uppruna lífsins, og m.a. þann möguleika að líf hafi borist utan úr geimnum. Nýjasta bók hans, Ráðgáta lífsins er komin út hjá Bjarti.

http://www.bjartur.is/baekur/radgata-lifsins/

 

Lífið á jörðinni á sér langa sögu en uppruni þess er enn mikil ráðgáta. Stóraukin þekking á innri gerð og starfsemi lífvera hefur ekki megnað að auka skilning á uppruna þeirra. Margvíslegar tilgátur um uppruna lífs hafa verið settar fram en um enga þeirra er einhugur. Jafnframt hefur reynst torvelt að svara spurningunni um eðli lífsins á sannfærandi hátt. Enn síður er til vísindaleg skýring á því að til skuli vera lífverur sem geta spurt spurninga um tilveru sína og uppruna.

Í þessari bók segir annars vegar frá upphafi sameindalíffræðinnar og merkum uppgötvunum sem lögðu grundvöllinn að nútímalíffræði. Hins vegar er fjallað um uppruna lífs og helstu tilraunir til að gera grein fyrir honum. Loks beinist umræðan að eðli lífsins og að meðvituðu lífi.

Dr. Guðmundur Eggertsson var um árabil prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sviði sameindaerfðafræði. Fjöldi greina eftir Guðmund hafa birst í íslenskum og erlendum tímaritum.

Hanna G. Sigurðardóttir  ræddi við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014.Hvernig kviknaði lífið ?

Á vef RÚV segir:

Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það sem við köllum líf ? Og hvernig er hægt að skilgreina líf út frá efnasamsetningu og ferlum ? Þessar stóru spuringar eru meðal þeirra sem sameindalíffræðingar glíma við.

Í bókinni Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson erfðafræðing er gerð grein fyrir kenningum ýmissa fræðimanna sem komið hafa fram um lausn þessarar gátu, en við henni hafa enn ekki komið fram svör sem sátt ríkir um. Meðal hugmynda er meðal annars tilgáta um að elding hafi verið hvatinn sem gerði að verkum að ólífrænt efni breyttist í líf. Samkvæmt annarri er reiknað með að lífrænt efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum. 


mbl.is DNA lifði af ferð í gegnum lofthjúpinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auka á nemanda: 22 þús. í HÍ, 80 þús. í HR

Undarlega atriðið varðandi fjármögnun HÍ í fjárlögum 2015 var aftenging á greiðslu og fjölda nemenda.

Undangengin ár hafa háskólar fengið greitt fyrir nemendur sem taka próf, en Menntamálaráðuneytið ákvað einhliða að aftengja þessa reglu við vinnslu fjárlaga 2015 (amk fyrir HÍ). Sú ákvörðun var ekki rökstudd.

Fyrsta útgáfa fjárlaga gerði sem sagt ráð fyrir að HÍ myndi kenna 500 nemendum frítt (ekki fá neinar greiðslur fyrir).Sem betur fer er þetta leiðrétt, amk að hluta í annarri útgáfu fjárlaga. HÍ fær þá um 300 milljónir umfram fyrstu útgáfu fjárlaga.

Mér var bent á það á kaffistofunni að HR fái um 250 milljónir einnig, þrátt fyrir að vera með um 1/4 af nemendafjölda HÍ.

Sannarlega eru allar háskólastofnanir á Íslandi undirfjármagnaðar. En það er forvitnilegt að hægri stjórnin skuli verja meira fé í hálfeinkavædda Háskóla en ríkisrekna háskóla.

Ætli þetta sé mynstrið í fjármálafrumvarpinu öllu?

Tölur:

Fjöldi nemenda við HR 2012 3200, við HÍ 2012 14.422.


mbl.is Háskóli Íslands fær tæpar 300 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppbygging plöntusamfélaga í beittu graslendi

Dr. Bryndís Marteinsdóttir nýdoktor við Háskóla Íslands mun fjalla um doktorsverkefni sitt í plöntuvistfræði við Stokkhólms háskóla sem hún varði í maí á þessu ári. Erindið kallast Factors controlling local plant community assembly from the regional species pool (Uppbygging plöntusamfélaga í beittu graslendi) og verður flutt á ensku.

Það verður flutt föstudaginn 28. nóvember 2014, kl. 12:30 í stofu 131 í Öskju.

 

Útdráttur:

Til að planta geti numið land á nýju svæði verður hún að komast í gegnum röð sía; hún verður að framleiða fræ eða önnur fararkorn; fræin verða að dreifast á svæðið og plantan verður að geta vaxið upp við umhverfisaðstæður á svæðinu og í samspili við aðrar lífverur sem fyrirfinnast þar. Meginmarkmið doktorsverkefnis Bryndísar var að ákvarða hlutfallslegt mikilvægi mismundandi sía á uppbyggingu plöntusamfélaga í sænsku graslendi. Í þessu erindi mun Bryndís fjalla um þessar rannsóknir og ræða niðurstöður þeirra.

Aðrir föstudagsfyrirlestrar líffræðistofu HÍ.

http://luvs.hi.is/is/fyrirlestrar-haustid-2014-0

Enskt ágrip erindis.

Að klóna flatorm eða loðfíl

Hugmyndir um klónun lífvera komust á nýtt stig þegar fréttist af klónun kindarinnar Dollý. Fram að því hafði verið hægt að klóna önnur dýr, eins og froska og mýs, en aldrei jafn stóra lífveru. Og aldrei úr sérhæfðum vef eins og júgrí.

Klónun virðist hafa opnað gátt á milli vísinda og skáldskapar, þar sem hugmyndir flæða á milli, að því er virðist án mikillar gagnrýni.

Sérstaklega virðast loðfílar ganga greiðlega í gegnum þessa gátt, og hafa margir vísindamenn velt fyrir sér hvort hægt sé að klóna loðfíl og reisa hann þannig upp frá dauðum?

Afútdauði (deextinction) er sú hugmynd að hægt sé að lífga við útdauðar lífverur með líftækni.

Þetta er harla fjarstæðukennd hugmynd, því þröskuldarnir eru margir og stórir. Við fjölluðum um möguleikan á því að klóna loðfíl árið 2011. Þá sagði ég.

----

Hæpið [er] að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt.

----

George Church stakk upp á því nýlega að nýta erfðatækni til að endurskrifa erfðamengi núlifandi fíls eftir forskrift erfðamengis úr loðfílshræi. Sú nálgun kallar samt á óheyrilegan fjölda staðgöngu-fílakúa.

Bergsteinn á Rás2 kallaði á mig í gær til að ræða þetta mál. Hann spurði sérstaklega um hina siðferðilegu hlið á málinu, hvort það væri réttlætanlegt að klóna loðfíl. Helsu rökin gegn því eru:

1) Fílar eru útrýmingarhættu, við ættum ekki að taka tugi eða hundruði fílakúa úr hjörðum fyrir tilraun með óljósan ávinning og sem litlar líkur eru á að takist.

2) Fílar hafa sín réttindi, og það væri mikið álag á kýrnar að fara í gegnum gervifrjóvgun og eggjainnsetningu, sérstaklega þar sem það hefur ekki einu sinni verið reynt á fílum áður.

3) Það er nóg af tegundum í útrýmingarhættu. Við ættum frekar að eyða peningunum í að vernda þær og búsvæði þeirra en að eltast við drauminn um að geta endurlífgað útdauð dýr.

Fjöldi tegunda hafa dáið út af manna völdum. Ef við viljum endilega prufa að klóna einhverjar útdauðar tegundir, þá ættum við frekar að reyna að endurlífga einhver einfaldari dýr. Til þess þarf erfðaefni úr viðkomandi lífveru og umtalsverða tækniþróun. Ég sting upp á hryggleysingja með ytri frjóvgun, t.d. flatormi.

Ég sé fyrir mér fögnuð brjótast út í Reykjavík og um heim allan þegar það verður tilkynnt að íslenskum vísindamönnum hafi tekist að endurlífga útdauðan flatorm. Í mannkynssögunni verður fjallað um kínamúrinn, lendinguna á tunglinu og klónun útdauða flatormsins.

Ítarefni:

Arnar Pálsson | 5. desember 2011 Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl
Arnar Pálsson | 23. nóvember 2008 Erfðamengi loðfílsinsArnar Pálsson | 20. janúar 2011 Hugmyndir um klónun loðfíla

Ráðgáta lífríkis Surtseyjar

Í baðstofunni segir afi barnabörnunum frá dýpstu ráðgátu lífsins. Hvernig það spratt fram á sjónarsviðið á líflausri plánetu langt aftur í fyrndinni.

radgata_frontur-120x180.jpgGóð munnleg frásögn er list sem smitar okkur af forvitni og ástríðu. Vönduð bók hefur sömu áhrif, annað hvort með mögnuðu ritmáli eða einstökum myndum.

Við erum svo lánsöm að í ár hafa komið út þrjár einstakar bækur á íslensku um líffræðileg efni.

Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson fjallar um uppruna lífsins og fyrstu skref sameindalíffræðinnar. Viðfangsefnin eru samofin, enda tóku rannsóknir á uppruna lífs stakkaskiptum þegar vísindamenn uppgötvuðu eiginleika prótína og erfðaefnisins.

Lífríki Íslands eftir Snorra Baldursson er einstakt verk um vistfræði og lífverur á landi voru. Snorri dregur sér efni úr ótöldum fjölda vísindagreina, en ritar samt ótrúlega léttan og forvitnilegan stíl. Ekki skaða stórflottar myndir af náttúru landsins.

Surtsey í sjónmáli eftir Erling Ólafsson og Lovísu Ásbjörnsdóttur. Þau fjalla um jarðfræði og líffræði eyjarinnar, framvindu gróðurs og dýralífs, sem og framtíð eyjarinnar. Bók þeirra prýðir einnig fjöldi góðra mynda.

Líffræðifélag Íslands mun standa fyrir kynningu á þessum þremur bókum 19. nóvember 2014.

Höfundar munu kynna bækur sínar í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands (frá 17:30 til 19:00).

Fyrst flytja Guðmundur, Snorri og Erling stutt ávörp og ræða efni bóka sinna, og svo gefst gestum tækifæri á að ræða við þá og njóta léttra veitinga.

Nokkur eintök af bókunum verða til sölu á tilboðsverði.


Bakteríur eru vinir okkar

Reyndar snúast vinir stundum gegn manni. Það verður líka að viðurkennast að sumar bakteríur eiga líf sitt undir því að sýkja sem flesta.

En langflestar örverur eru ekki beinlínins hættulegar. Margar þeirra lifa t.d. á húð okkar, munni og í meltingarvegi. Það er áætlað að hver 80 kg manneskja hafi um 3.5 kg af bakteríum, mest í meltingarveginum.

Þannig að þótt 80 milljón bakteríur flytjist með einum kossi er bara dropi í hafið.

Auðvitað er möguleiki að ef einstaklingurinn sem þú kyzzir sé með sýkjandi bakteríur í munninum, að þú fáir nokkrar upp í þig og smitist. Reglan ætti að vera að kyzza ekki smitað fólk eða herfilega andfúlt, en það vefst nú fyrir sumum. Annar möguleiki væri vitanlega að spreyja bakteríudrepandi lausn upp í kozzmarkið, áður en hafist er handa. Þriðji kosturinn er sérstakur latex munnsmokkur, sem reyndar þýðir að báðir aðillar þurfa að anda með nefinu allan tímann.

Það er staðreynd að sumar fréttir af vísindalegum rannsóknum ná mikilli dreifingu því við elskum kjánalæti. Þetta eru sérstakar vísinda-sirkus-fréttir, sem einnig fjalla um viðundur eins og tvíhöfða lömb, þörungaveirur sem hafa áhrif á greind og mannaeyru ræktuð á músabökum.

Ítarefni:

Arnar Pálsson | 18. júní 2012 Bakteríur í brjóstamjólk og hræðslan okkar

Arnar Pálsson | 14. nóvember 2008 Hrein fegurð tilviljunar

Arnar Pálsson | 7. september 2009 Bakteríuland

 


mbl.is Einn koss flytur 80 milljón bakteríur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi á mannamáli: Verðmæti vísinda

Verðmæti vísinda – Frá grunnrannsóknum til lækningavara á markaði

Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, fjallar um tilurð og vöxt líftæknifyrirtækisins Zymetech og tengsl þess við grunnrannsóknir í skólanum í öðru erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli sem Háskóli Íslands stendur fyrir. Erindið verður í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 18. nóvember nk. kl. 12.10.

Fjallað verður um gildi grunnrannsókna í nýsköpunarferlinu og það hvernig djúp þekking á ensímum, örverufræði, matvælafræði, lífefnafræði, frumulíffræði og lyfjafræði nýtist beint í hagnýtri líftækni. Nýsköpunarferli líftæknifyrirtækja er langt og flókið. Alþjóðlegir markaðir líftækniafurða, eins og t.d. lækningavara, eru stórir, kröfuharðir og nýjungagjarnir. Því krefst þróun nýrra lækningavara fyrir slíka markaði sífelldrar uppbyggingar hugvits og aukinnar þekkingar. Kostnaður við einkaleyfi, skráningu lækningaafurða, erlenda ráðgjafa, markaðsmál, leyfisveitingar og fleira er mikill en nauðsynlegur fyrir alþjóðlega markaðssetningu.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.
 
Fyrsti fyrirlesturinn Brjóstakrabbamein og leitin að bættri meðferð var fluttur af Jórunni Eyfjörð. Þriðji fyrirlesturinn verður í janúar.

Viltu fá eitthvað til að efla taugarnar?

Taugar eru kannski ekki það fyrsta sem við viljum láta hressa upp á. Ef maður vill láta betrumbæta sig, hugsar maður fyrst um ytri einkenni (hné, nef, læri eða nafladúska). Innri eiginleikar, t.d. taugastyrkur, manngæska eða samviskusemi, eru frekar neðarlega á listanum. Kannski vegna þess að það er ekki augljóst hvernig maður styrkir taugar (ekki bara drekka viskí eins og í reyfurunm), eða þroskar samviskusemina?

Reyndar er til slatti af töfralausnum (svokölluðum) sem hjálpa okkur að verða betri manneskur, ekki bara betur útlítandi manneskjur. Galdurinn er að kaupa bók með regnboga utan á og indverskum gúru á baksíðu, og þá eru manni allir vegir færir (já og lesa bókina og gera nákvæmlega eins og bókin segir, með opnum huga, laus við neikvæða orku, í réttu stjörnumerki með frið í hjarta án þess að hiksta).

En læknis og raunvísindin hnikast í átt að veröld þar sem lyf og læknisfræðileg inngrip í starfsemi heilans og andlega líðan eru að aukast. Geðlyf eru einn hluti af þessu rófi, en einnig er rætt um pillur til að efla taugar.

Hvað er fólk tilbúið að gera mikið fyrir taugarnar sínar?

Eða til að verða samviskusamara?

Eða raunsærra?

Í því samhengi vil ég benda ykkur á forvitnilegan fund um taugaeflingu sem fram fer á morgun. Hann er öllum opinn og ókeypis (kaffi innifalið).

http://www.hi.is/vidburdir/malthing_sidfraedistofnunar_taugaefling_og_mork_mennskunnar

Þann 15. nóvember næstkomandi stendur Siðfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir opnu málþingi undir yfirskriftinni „Taugaefling og mörk mennskunnar“. Viðfangsefni málþingsins eru rannsóknir og hugmyndir sem hverfast um að efla starfsemi heilans og taugakerfisins (neurological enhancement). Með útkomu nýrrar tækni bæði á sviði lyfja og annarra inngripa hafa spurningar um það hvort og þá hvernig æskilegt sé að hafa áhrif á starfsemi heilans orðið áleitnari.  

Á málþinginu verður fjallað um þessar spurningar, en það er skipulagt í tengslum við evrópska rannsóknarverkefnið NERRI sem Siðfræðistofnun tekur þátt í. Þátttakendur á málþinginu verða m.a. þau María K. Jónsdóttir,  taugasálfræðingur, Hermann Stefánsson,  rithöfundur, Magnús Jóhannsson, sálfræðingur, Kristinn Rúnar Þórisson, framkvæmdastjóri Vitvélastofnunar, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar.  

Dagskránni lýkur með sýningu heimildarmyndarinnar Fixed þar sem m.a. fjallað um hvað felist í heilbrigði og möguleikum á taugaeflingu. 


Kynning á líffræðibókum 19. nóvember

Líffræðifélag Íslands mun standa fyrir kynningu á þremur bókum um líffræðileg efni, sem komið hafa út á árinu 2014.

Bækurnar sem um ræðir eru:

Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson,

Lífríki Íslands eftir Snorra Baldursson og

Surtsey í sjónmáli eftir Erling Ólafsson og Lovísu Ásbjörnsdóttur.

Höfundar munu kynna bækur sínar þann 19. nóvember, í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands (frá 17:30 til 18:00).

Fyrst flytja Guðmundur, Snorri og Erling stutt ávörp og ræða efni bóka sinna, og svo gefst gestum tækifæri á að ræða við þá og njóta léttra veitinga.

Bækurnar verða til sölu á tilboðsverði.

Nánari upplýsingar síðar.


Alvarleg staða við háskóla

Annað próftímabil í röð vofir verkfall yfir háskólanemum. Í kjölfar efnahagshrunsins þá þurftu háskólar landsins að skera niður og breyta starfsemi sinni.

Ef skorið er niður í háskólum, þá bitnar það á gæðum kennslu og náms. Þeir sem halda að námið í ár sé af sömu gæðum og fyrir 5 árum eru að blekkja sig.

Áhersla stúdentaráðs á mikilvægi samninga við kennara, fjármögnun háskóla og stuðnings við menntakerfið er einstaklega brýn. Í því samhengi vill ég benda á, Áfram í fremstu röð, 10 greinar stúdentaráðs í Fréttablaðinu sem fjölluðu um þessi og skyld mál. Stúdentaráð á lof skilið fyrir framtakið.

Verkföll háskólakennara, félags prófessora, lækna og annara vinnandi stétta eru alveg eðlileg viðbrögð við rýrnun kaupmáttar frá hruni.

Við Háskóla Íslands þar sem ég vinn birtist sparnaðurinn í því að skorið var niður til skólans nokkur ár í röð, þrátt fyrir að fleiri nemar innrituðust í kjölfar hrunsins. Við áttum að kenna fleiri nemendum fyrir færri krónur.

Háskólinn reyndi að bregðast við m.a. með því að auka kennsluskyldu kennara. Af þeirri ástæðu fór Félag prófessora í mál við HÍ, og vann það. Engu að síður hefur kennsluskyldan aukist, rannsóknar og stjórnunarskylda minnkað (að nafni til amk).

Á verkfræði og náttúruvísindasviði er því meira að segja þannig hagað að kennarar fá ekki greitt fyrir leiðbeiningu framhaldsnema, fyrr en eftir að þeir eru útskrifaðir.

Meistaranemar eru um tvö ár að klára próf sín og doktorsnemar fimm ár.

Ég veit ekki um neina aðra stétt en háskólakennara sem myndi sætta sig við að fá borgað fyrir vinnu, tveimur til fimm árum eftir að hún var innt af hendi.

Þetta kerfi hefur einnig þær óæskilegu afleiðingar að kennarar gætu freistast til að tosa fólk í gegnum próf, sem á það ekki skilið. Því ef kennarinn fær í verkefni nemanda sem reynist af einhverju ástæðum ófær um að klára verkefni, þá mun kennarinn aldrei fá greitt fyrir vinnuna.

Ábyrgðin á niðurskurði til menntakerfisins liggur fyrst og fremst hjá hönnuðum hrunsins (viðskipta, bankamönnum og stjórnmálamönnum) en einnig hjá stjórnvöldum sem ekki sjá gildi menntunar fyrir Ísland framtíðar.

Ábyrgðin á klaufalegum sparnaðaraðgerðum innan HÍ liggur hjá stjórnendum skólans, og okkur kennurunum sem ekki höfum mótmælt ranglætinu af krafti.


mbl.is Boðað til verkfalls annað prófatímabilið í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband