Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Háskóladagur og undur vísinda

Á morgun verður Háskóladagurinn, þar sem fjölmargir námsmöguleikar eru kynntir.

Í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ mun líffræði og sameindalíffræði vera kynnt, ásamt öðrum skyldum greinum. lffraedi_orn.jpg

Nokkur undanfarin ár höfum við í líffræðinni opnað tilraunastofurnar og leyft fólki að kanna undraheim fruma, dýra og plantna.

Vísindamenn hafa uppgötvað fjölda staðreynda um lífið og vísindin - og reyndar heilmargt meira en lítið undarlegt. John McNally fjallar um slíkar staðreyndir í nýlegri bók, m.a.

Það eru t.d. 140 milljónir skordýra fyrir hverja einustu mannveru.

Hver einstaklingur samanstendur af 70 000 000 000 000 000 000 000 000 000 atómum. Ef við gætum kreist tómið innan úr hverju atómi væri hægt að pakka öllu mannkyni inn í einn sykurmola.

Þeir sem hafa áhuga á að kynnast starfi líffræðinga geta hlustað á einn slíkann í viðtali á Ríkisútvarpinu. KP Magnússon er prófessor við Háskóla Akureyrar, og hefur frá mörgu að segja.

Ítarefni:

The Guardian 27. feb. 2014. John McNally's top 10 true or false science facts

Mynd Róbert A. Stefánsson - forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands


Menntun og fiskveiðar

Það er greinilegt að nemendur skilja að menntun gefur þeim tækifæri til að bæta fiskveiðar, vinnslu og nýtingu sjávarafurða hérlendis. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sjávarklasans, sem bendir á  að fleira fólk skrái sig til náms í sjávarútvegstengdu námi.

En Sjávarklasinn hefur líka bent á að þörf er á rannsóknum og vísindalega þjálfuðu fólki, til að auka verðmæti sjávarfangs.

Það er ekki nóg að þjálfa fólk í bestu þekktu vinnubrögðum.

Við þurfum líka að mennta fólk, sem getur betrumbætt vinnubrögð, tæki, aðferðir og vinnslu.

Það eru viðfangsefni vísinda og tæknimenntaðs fólks. Þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld og ekki síst sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í menntun og rannsóknum á þessu sviði. Við ræddum þetta í nýlegri grein sem birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014Virðisauki með vísindum.

Þar sögðum við m.a.:

Til að auka verðmæti þarf bæði hugvit og skipuleg vinnubrögð. Upphugsa þarf aðferðir eða nýjungar, og prófa hvort þær séu betri en eldri aðferðir. Með öðrum orðum, það þarf að vinna vísindalega. Í nýlegri skýrslu Sjávarklasans kemur fram að verðmæti sjávarafurða hefur aukist um marga milljarða með því að fóstra nýjungar og beita nákvæmum vinnubrögðum. Sem dæmi má nefna fyrirtækin Kerecis sem vinnur græðandi plástra úr roði, Iceprotein sem vinnur prótín úr afskurði, og Genís sem þróar bólgueyðandi lyf úr rækjuskel. Sammerkt þessum fyrirtækjum er að þau vinna vísindalega. Með því að þjálfa unga vísindamenn, þá bætum við framtíðarmöguleika þessara og annarra áþekkra fyrirtækja. 

...

Íslenskur sjávarútvegur er stærsta og sterkasta aflið í efnahag landsins og eðlilegt að hann leggi sitt af mörkum til að styrkja stoðir atvinnulífs. Stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa að fjárfesta í hagnýtum rannsóknum. En þau þurfa líka að sannfæra stjórnvöld um að styrkja samkeppnissjóði og grunnrannsóknir, því þaðan kemur sérmenntað og fært starfsfólk. Með því að efla samkeppnisjóði Vísinda- og tækniráðs stuðlum við að nýsköpun og verðmæti í sjávarútvegi þjóðinni til heilla.

Ítarefni:

2 fyrir 1 – Fullvinnsla aukaafurða og líftækni í sjávarklasanum 2013

http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2013/11/2fyrir1-2013-netutgafa.pdf


mbl.is Aukinn áhugi á sjávarútvegstengdu námi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjársveltur Háskóli

Útskrift nemenda er sérstaklega ánægjulegur viðburður. Fólk sem hefur lagt hart að sér við nám kemst yfir marklínuna og heldur áfram á lífsins braut. Menntun er sérkennileg að því leyti að hún er ekki jafn áþreifanleg og önnur afrek manna. Það stendur ekki eftir bygging, rúllubaggastæða eða bretti af frosnum fiski. Menntun mótar bara einstaklinginn, en þannig óbeint samfélagið allt.

Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ ræddi við útskriftina 22. febrúar um stöðu HÍ, fjármögnun, velgjörðarmenn og hlutverk. Hún tiltók fjölmörg dæmi um mikilvægar rannsóknir sem stundaðar eru við HÍ, bæði hagnýtar og grunnrannsóknir (ekki tíunduð hér). Rektor ræddi sérstaklega um fjármögnun skólans, lagði áherslu á skort á stuðningi frá ríkinu og hina fjölmörgu velgjörðarmenn skólans. Rektor segir:

Ef við miðum tekjur Háskóla Íslands við meðaltal  tekna háskóla í löndum OECD, skortir fimm milljarða króna árlega til að við stöndum jafnfætis. Ef borið er saman við Norðurlönd, er munurinn talsvert meiri.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ákvæðum í samningi um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands verði fylgt, en þar er kveðið á um stefnumótun til framtíðar um fjármögnun skólans. Fyrsta markmið er að tekjur skólans verði sambærilegar við meðaltal OECD-ríkja.  Við fögnum vilja stjórnvalda til að helga sig þessari vinnu. Á móti skuldbindur skólinn sig til að afla þriðjungs þeirra tekna sem upp á vantar gegnum sjálfsaflafé, meðal annars með sókn í rannsóknastyrki úr erlendum samkeppnissjóðum.  Við fögnum niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Capacent um að meirihluti Íslendinga vilji auka framlög til háskóla.  Fyrir rúmri öld gengum við sameinuð til verka og stofnuðum háskóla í bláfátæku samfélagi. Hvers erum við þá megnug í dag?  Við skulum svara þeirri spurningu með því að láta verkin tala. Og samfélagið mun uppskera eins og til verður sáð.

En rektor bendir einnig á að fjárskorturinn hafi alvarlegar afleiðingar fyrir starf skólans. Hún tiltekur sérstaklega að skólinn sé ekki samkeppnishæfur við erlenda háskóla.

Háskóli Íslands keppir um verkefni og mannafla við fjárhagslega sterkar stofnanir um allan heim. Við sjáum þess sárgrætileg dæmi að öflugir vísindamenn og kennarar, sem vilja starfa við skólann, finna sér starfsvettvang annars staðar þar sem fjárhagur og starfsskilyrði eru betri.  

Þetta á ekki að koma á óvart því það hefur ítrekað komið fram að íslenska háskólakerfið er stórkostlega undirfjármagnað. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfast í augu við afburðafólk, fólk  sem er tilbúið að leggja líf sitt í verkin, og geta ekki boðið viðunandi kjör og starfsskilyrði. Þetta er ekki bara missir fyrir Háskóla Íslands heldur samfélagið allt því uppbygging háskólastarfs leggur grunn að lífskjörum okkar í framtíðinni.

Þetta er allt satt og rétt. En það eru reyndar líka gallar á innra starfi HÍ sem hrekja fólk frá skólanum. Eitt dæmi er hversu veikur rannsóknasjóður HÍ er. Yfirvöld skólans vilja frekar deila afmælissjóðnum í önnur mál, en að styrkja grunnrannsóknirnar. Helga Ögmundsdóttir ræðir nokkur þessara atriða í Sjónmáli í síðusut viku.

Þar utan ræður meingallað punktakerfi að miklu leyti miðlun fjármagns til rannsókna innan skólans.

En í víðara samhengi, má einnig spyrja sig til hvers er menntun og hverjir eiga að fjárfesta í henni. Í síðustu viku ræddi Páll Skúlason um málið í Sjónmáli, og við lögðum út af því í litlum pistli (brot úr honum birtist hér).

Páll Skúlason lagði áherslu á að peningar mega ekki einir ráða ferðinni. Við verðum að meta menntun að eigin verðleikum. Og líka átta okkur á að hún er ekki einkamál nemanda, heldur skiptir hún líka samfélagið máli. Samfélagið fjárfestir í góðri menntun þegnanna, með það að markmiði að upplýsa fólk og gefa því tækifæri til að bæta sig í lífi og starfi. Samfélagið fjárfestir líka í menntun, til að skaffa atvinnulífi hæfa einstaklinga og til að næra grasrótina þaðan sem nýjar hugmyndir og fyrirtæki spretta.

Sannarlega eru peningar af skornum skammti, en það er algerlega misráðið að einblína á menntakerfið með augum aurasálarinnar. Í Bandaríkjunum hafa peningasjónarmið verið ríkjandi í rekstri margra háskóla, með mörgun alvarlegum aukaverkunum. Meðal þess sem Páll tíundaði er það að skólagjöld í BNA hafa tilhneygingu til að hækka langt umfram almennt verðlag. Þetta skilar sér ekki endilega í betri menntun, en örugglega í feitari bónus fyrir rektor viðkomandi háskóla. Afleiðingin er líka stéttaskipting. Bara hinir ríku komast í bestu skólana. Og þeir sem læra í bestu skólunum fá bestu vinnurnar.

Það er sérlega ánægjulegt að rektor skuli leggja spilin á borðið og segja frá því hversu fjársveltur HÍ er. En einnig er mikilvægt að við tökum til við að lagfæra það sem gallað er í innra starfi skólans.

Ítarefni og heimildir:

HÍ 22. febrúar 2014. Ræða rektors við brautskráningarhátíð

Rás 1. Sjónmál. 20. 2. 2014 Vilja búa hér en vinna erlendis

Rás 1. Sjónmál 17. 2. 2014 Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans

Ritdómur um University, Inc.: The Corporate Corruption of American Higher Education eftir Jennifer Washburn.


mbl.is Tekjur þurfi að aukast um fimm milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðisauki með vísindum

 

Greinin Virðisauki með vísindum birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.

-----------------

Fiskveiðiþjóð ætti að spyrja, hvernig nást fleiri krónur úr hverjum fiski? Verðmæti má auka á nokkra vegu. Til dæmis með því að veiða fiskinn þegar hann er verðmætastur, bæta vinnslu og geymslu. Eða með því að kortleggja markaði, vinna vörumerkjum orðspor og kynna vörurnar markvisst. Einnig má nýta afurðirnar betur, t.d. nota afganga í nýjar og verðmætar afurðir. Margt hefur áunnist á öllum þessum sviðum undanfarna áratugi. Til dæmis fara íslenskir sjómenn mun betur með fiskinn en norskir sjómenn, við tökum smærri holl og afhausum ekki. Hér verður aðallega fjallað um nýtingu fisksins og hvernig má ná verðmætum úr afskurði og því sem áður var hent.

Til að auka verðmæti þarf bæði hugvit og skipuleg vinnubrögð. Upphugsa þarf aðferðir eða nýjungar, og prófa hvort þær séu betri en eldri aðferðir. Með öðrum orðum, það þarf að vinna vísindalega. Í nýlegri skýrslu Sjávarklasans kemur fram að verðmæti sjávarafurða hefur aukist um marga milljarða með því að fóstra nýjungar og beita nákvæmum vinnubrögðum. Sem dæmi má nefna fyrirtækin Kerecis sem vinnur græðandi plástra úr roði, Iceprotein sem vinnur prótín úr afskurði, og Genís sem þróar bólgueyðandi lyf úr rækjuskel. Sammerkt þessum fyrirtækjum er að þau vinna vísindalega. Með því að þjálfa unga vísindamenn, þá bætum við framtíðarmöguleika þessara og annarra áþekkra fyrirtækja.

Hérlendis hafa samkeppnissjóðir alltaf verið veikir og umgjörð vísinda losaraleg. Í skýrslu Sjávarklasans segir "Það er enganveginn ásættanlegt að ætla veikum opinberum rannsóknasjóðum að útvega bróðurpart þess fjár sem þarf til rannsókna og þróunar í nýja sjávarútveginum". Hér eru forsvarsmenn sjávarklasans að biðla til annarra sjávarútvegsfyrirtækja, banka og stjórnvalda um meira fjármagn. En undirstrika um leið hve illa búið er að rannsóknasjóðum hérlendis.

 

Niðurskurður ríkistjórnarinnar á samkeppnisjóðum í síðasta fjárlagafrumvarpi og fyrirhugaður niðurskurður grefur undan framtíðarvexti í sjávarútvegi. Hann dregur úr nýliðun vísindamanna sem eru nauðsynlegir fyrir rannsóknir t.d. í sjávarlíftækni og matvælafræði. Á síðustu fjárlögum var Tækniþróunarsjóður lækkaður um 22%, Rannsóknasjóður um 19% og markáætlun um 50%. Boðaður áframhaldandi niðurskurður mun bæði draga úr þjálfun nauðsynlegs mannafla og hægja á klaki nýrra fyrirtækja.

 

Íslenskur sjávarútvegur er stærsta og sterkasta aflið í efnahag landsins og eðlilegt að hann leggi sitt af mörkum til að styrkja stoðir atvinnulífs. Stærstu fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa að fjárfesta í hagnýtum rannsóknum. En þau þurfa líka að sannfæra stjórnvöld um að styrkja samkeppnissjóði og grunnrannsóknir, því þaðan kemur sérmenntað og fært starfsfólk. Með því að efla samkeppnisjóði Vísinda- og tækniráðs stuðlum við að nýsköpun og verðmæti í sjávarútvegi þjóðinni til heilla.

 

Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósent við Háskóla Íslands

Ítarefni:

2 fyrir 1 – Fullvinnsla aukaafurða og líftækni í sjávarklasanum 2013

http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2013/11/2fyrir1-2013-netutgafa.pdf

Fréttablaðið 4. okt. 2013. Milljarðar fyrir hausa, roð og bein

 


Aðalfundur HÍN og plöntuerfðatækni

Áhugamönnum um náttúrufræði er bent á aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags verður nú á laugardaginn og eftir helgina flytur Björn Örvar erindi up plöntuerfðatækni á vegum félagsins.

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags laugardaginn 22. febrúar 2014 í fyrirlestrarsal Þjóminjasafns Íslands við Suðurgötu, Reykjavík. Athöfnin hefst kl. 14:00 og að loknu kaffihléi hefjast aðalfundarstörf.
Dagskrá aðalfundarins er eftirfarandi:
1. Fundarsetning.
2. Skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2013.
3. Reikningar HÍN fyrir árið 2013.
4. Skýrslur fulltrúa HÍN í nefndum fyrir árið 2013.
5. Tillögur til ályktunar.
6. Kjör stjórnarmanna og embættismanna félagsins.
7. Önnur mál.
8. Fundarslit.

Kaffiveitingar verða í boði félagsins, allir eru velkomnir!

Mánudaginn 24. febrúar verður síðan erindi á vegum félagsins, um plöntuerfðatækni. Úr tilkynningu:

Ágrip af erindi Dr. Björns Lárusar Örvars, haldið mánudaginn 24. febrúar 2014.

„Miklar framfarir hafa orðið í erfðatækni á síðustu áratugum sem m.a. hefur leitt til byltingar í læknisfræðirannsóknum og lyfjaþróun. Mörg ný lyf, t.d. gegn krabbameini og gigt, eru nú framleidd með erfðatækni í erfðabreyttum bakteríum eða í spendýrafrumum. Plöntuerfðatæknin hefur hægt og rólega verið að ryðja sér til rúms í nútíma landbúnaði, en tæknin hefur m.a. verið notuð til að auka varnir gegn skordýrum og veirusjúkdómum, bæta næringarinnihald plantna eða gera þær þolnari gagnvart erfiðum umhverfisskilyrðum. Þá hefur komið í ljós að plöntur henta mjög vel fyrir framleiðlsu á ýmsum, sérhæfðum próteinum fyrir rannsóknir og lyfjaþróun. ORF Líftækni hefur m.a. sýnt fram á að með erfðatækni er hægt að framleiða í byggfræjum ýmis erfið prótein, einsog vaxtarþætti úr manninum, fyrir læknisrannsóknir og stofnfrumuræktanir. 

 


Aðskiljum heim menntunar og heim peninga

Eigum við að hækka skólagjöld (innritunargjöld), minnka ríkisstyrki, auka aðkomu atvinnulífs að menntakerfinu, auka námskröfur fyrir LÍN eða setja kvóta á fleiri námsbrautir?

Allar þessar spurningar fjalla um togstreituna milli peninga og menntunar. Páll Skúlason fyrrverandi rektor HÍ ræddi þetta ítarlega í Sjónmáli í gær (Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans).

Mikilvægi menntunar

Hann lagði áherslu á að peningar mega ekki einir ráða ferðinni. Við verðum að meta menntun að eigin verðleikum. Og líka átta okkur á að hún er ekki einkamál nemanda, heldur skiptir hún líka samfélagið máli. Samfélagið fjárfestir í góðri menntun þegnanna, með það að markmiði að upplýsa fólk og gefa því tækifæri til að bæta sig í lífi og starfi. Samfélagið fjárfestir líka í menntun, til að skaffa atvinnulífi hæfa einstaklinga og til að næra grasrótina þaðan sem nýjar hugmyndir og fyrirtæki spretta.

Sannarlega eru peningar af skornum skammti, en það er algerlega misráðið að einblína á menntakerfið með augum aurasálarinnar. Í Bandaríkjunum hafa peningasjónarmið verið ríkjandi í rekstri margra háskóla, með mörgun alvarlegum aukaverkunum. Meðal þess sem Páll tíundaði er það að skólagjöld í BNA hafa tilhneygingu til að hækka langt umfram almennt verðlag. Þetta skilar sér ekki endilega í betri menntun, en örugglega í feitari bónus fyrir rektor viðkomandi háskóla. Afleiðingin er líka stéttaskipting. Bara hinir ríku komast í bestu skólana. Og þeir sem læra í bestu skólunum fá bestu vinnurnar.

Páll talaði einnig um að flestir íslenskir háskólanemar taki nám sitt alvarlega, og séu ekki mikið að dúlla sér. Þetta er líklega rétt, en mér finnst samt vanta upp á að íslenskir nemendur skilji hversu mikil forréttindi háskólanám er. Um víða veröld er bágstatt fólk sem myndi gefa allt fyrir aðgang að góðri menntun, en á sama tíma sýna margir íslenskir nemendur merkilegt skeytingarleysi gagnvart eigin framtíð og náminu.

Ég veit ekki hverju veldur, en mig grunar að menntun geti ekki keppt við skemmtanasirkusinn um athygli fólks. Amk er ég skelfilega ginkeyptur fyrir lélegu sjónvarpsefni, fyrirsögnum um líkamsparta og ofbeldi, litríkum formum og lykt af heitri súkkulaðibitaköku.

Altént, einn mikilvægasti punktur Páls var að við þurfum að tala um mikilvægi menntunar, bæði við fullorðna fólkið og börn á öllum aldri.

Rás 1. Sjónmál 17. 2. 2014 Háskólanám ekki einkafjárfesting nemandans

Skylt efni.

Ritdómur um University, Inc.: The Corporate Corruption of American Higher Education eftir Jennifer Washburn.


Frá Kalahari út á sléttuna miklu

Þessar vikurnar erum við blessuð með náttúrulífsþáttum BBC á mánudagskvöldum. RÚV hefur alltaf sett fræðandi efni á oddinn, og þessi sería um Afríku er hreinasta yndi.

Í síðustu viku kynntumst við undrum Kalahari eyðimarkarinnar. Mér fannst alveg magnað upphafsatriðið, þegar flogið er inn yfir hrjóstrugt landið, sem er stráð merkilega reglulegum sandhringjum. Mynstrið minnir reyndar smá á feld blettatígurs eða hýenu, en orsakirnar eru enn á huldu.

Ekki síður stórbrotin voru myndskeið af Spitzkoppe fjallinu eða átökum gíraffatarfanna.

Í uppáhaldi hjá mér var athugunin á lífríki geysistórs neðanjarðarvatns sem fannst undir eyðimörkinni. Þetta minnti dálítið á vísindaskáldskap frá miðbiki síðustu aldar, þar sem Tarzan og félagar lentu kannski í týndum dal fullum af furðuverum og mannskrímslum. Líklega hefði Tarzan haft í fullu tré við Gullgrana í neðanjarðarhellinum, en skáldskapurinn veitir þessari ævintýraveröld enga keppni.

Í kvöld verður þáttur um Afrísku slétturnar, líklega Serengeti að einhverju leyti. Þar sem stórar hjarðir villidýra ferðast um gríðarstórt svæði í leit að fæðu og vatni. Jarðfræði svæðisins er einnig mögnuð, en lífríkið er í mikilli hættu vegna veiðiþjófa og ágangs mannsins.

http://www.bbc.co.uk/programmes/p010jc6p/episodes/guide


Kóngar og nafnlausir drengir

Við gerum mjög mikið úr muni á milli einstaklinga, kóngur eða smábóndi, knattspyrnuhetja eða saumakona. Samt er það ófrávíkjanleg staðreynd að menn eru af sömu tegund.

Sagan af Ríkharði III og beinum í Leicester

Fyrir rétt rúmlega ári sögðust vísindamenn við Háskólann í Leicester hafa fundið leifar Ríkharðs 3 konungs. Aldur og eiginleikar  beinagrindarinnar studdu tilgátuna, en flestir sannfærðust af erfðafræðilegum gögnum sem sýndu skyldleika við ættingja Ríkharðs.

Það sem fréttatilkynningin og vefsíða rannsóknarhópsins við Leicester háskóla sagði frá var að þeir hefðu grein hluta af hvatberalitningi úr höfuðkúpunni, og fundið að hún passaði við ættingja  sem rakti móðurlínu sína til móður Ríkharðs*.

En margir erfðafræðingar voru ekki sannfærðir. Þeim fannst of lítill bútur vera athugaður, ekki var sýnt fram á hversu algeng (eða óalgeng) að þessi gerð hvatbera-litningsins væri í fólki af bresku bergi?

Engin ritrýnd vísindagrein hefur birst um þessi erfðafræðilegu gögn. Samt finnst Wellcome trust og nokkrum öðrum aðillum ásættanlegt að verja 100.000 pundum í að freista þess að raðgreina erfðamengi úr þessari hauskúpu.

Í stuttu máli, er ég ekki sannfærður um að beinin séu úr Ríkharði.

Nafnlaus drengur kortleggur sögu Ameríku

Hins vegar bárust fréttir af niðurstöðum stórrar rannsóknar Eske Willerslev við Kaupmannahafnarháskóla og samstarfsmanna hans, sem varpa ljósi á sögu Ameríkubúa.

140212132807-largeMynd Sarah Anzick, af vef Science Daily.

Forsagan er sú að fyrir rúmum 50 árum fannst bein á Anzick landareigninni í Montana. Beinið fannst á sama stað og sérlega vandaðir steinoddar, sem kenndir eru við Clovis-menninguna. Clovis menningin er forvitnileg fyrir sögu Ameríku, því þar fundust fyrst háþróaðir spjótsoddar, sem hægt var að festa á kastspjót. Gripirnir eru um 13.000 ára gamlir, og finnast vítt og breitt um N. Ameríku. Í eldri jarðlögum finnast engar menjar um menn eða verkfæri. Því er talið að Clovis menn hafi verið fyrstu landnemarnir í Ameríku. Einnig hefur því verið haldið fram að Clovis fólkið hafi veitt og útrýmt mörgum stórum landdýrum sem fyrir voru í Ameríku (t.d. stórum letidýrum, amerískum hestum og sverðtígrinum).

Ýmsar hugmyndir voru um uppruna Clovis fólksins, t.d. að það hefði komið frá Síberíu yfir Beringseiðið, eða jafnvel frá Eyjaálfu eða Evrópu.

Raðgreining á DNA í Anzick beininu sýnir hins vegar að drengurinn er náskyldur núverandi íbúum Ameríku. Sérstaklega er mikill skyldleiki við ættbálka í S. Ameríku en einnig við frumbyggja N. Ameríku og austurhluta Síberíu. Gögnin duga ekki til að skera úr um hvort að Ameríka var byggð af einni holskeflu, eða hvort fleiri bylgjur fólks hafi numið þar land.

Erfðamengi úr beinum löngu látins fólks afhjúpar sögu þjóðanna.

Fyrir skilning okkar á sögu þjóðanna er eitt bein úr þessum um eins árs gamla  nafnlausa dreng mikilvægara en beinagrind sem fannst undir bílastæði í Leicester og eignuð hefur verið Ríkharði III.

*Ríkharður átti engin afkvæmi, og þar að auki erfast hvatberar bara frá móður til barna, aldrei frá föður

Pistill þessi er byggður á spjalli við Leif Hauksson í Sjónmáli, og nokkrum heimldum sem fylgja hér að neðan.

Rúv 14. feb. 2014. Frumbyggjar Ameríku komu frá Asíu

http://io9.com/5981784/richard-iii-identified-not-so-fast-say-dna-experts
http://www.theguardian.com/uk-news/2014/feb/11/richard-iii-dna-complete-genome-sequence-dna
http://www.le.ac.uk/richardiii/science.html
http://www.npr.org/2014/02/13/276021092/ancient-dna-ties-native-americans-from-two-continents-to-clovis
http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-26172174
http://www.bbc.co.uk/ahistoryoftheworld/about/transcripts/episode5/
http://www.nature.com/nature/journal/v506/n7487/full/nature13025.html
Arnar Pálsson 5. feb. 2013. Tveimur sögum fer af fundi Ríkharðs konungs 

mbl.is Genamengi Ríkharðs 3. raðgreint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði Darwin drepið gíraffann?

Í heimi vísinda er oft horft til vísindamanna sem uppgötvuðu stór lögmál, eða kollvörpuðu fornum kreddum. Charles Darwin eitt af afmælisbörnum dagisns er einn slíkur og fjölmörgum vísindamönnum (sérstaklega líffræðingum) finnst nauðsynlegt að vísa í hans afstöðu eða hugmyndir um tiltekin rannsóknarviðfangsefni.

Það endurspeglar líklega eiginleika samfélags manna, þar sem ákveðin virðingarröð er til staðar og fólk finnst upphefð í því að láta sjá sig með stórmennum, tala um þau eða tengjast þeim á einhvern hátt.*

Hvað myndir Darwin gera?

Sumir trúræknir vesturlandabúar spyrja sig hvað myndi Jesú gera (t.d. ef hreindýr verður fyrir bíl eða ef Silli frændi er klárar allt viskíið)? Fræðimenn spyrja sig hins vegar ekki (eða sjaldan) hvað Rachel Carson eða Charles Darwin myndi gera í tilteknum aðstæðum. Ég veit að Chris Mooney myndi segja að þessi munur á trúuðum og efasemdamönnum endurspegli virðingu þeirra fyrir valdastiga. Margir trúaðir, sérstaklega á hægri vængnum, bera mikla virðingu fyrir yfirvaldi, á meðan efasemdamenn efast um valdahafa jafnt sem eigin fatasmekk**

En hvað hefði Charles Darwin gert ef hann hefði verið forstjóri dýragarðsins í Kaupmannahöfn?

Við þekkjum Darwin flest sem mikinn náttúrufræðing og fræðimann. En á yngri árum var hann ötul skytta og mikill safnari. Á meðan hann var í guðfræðinámi leitaði hann iðullega fiðrilda í skógum, og fór á veiðar. Í heimssiglingunni á Hvutta var hann býsna duglegur að drita niður fugla og margskonar dýr, hamfletta þau og geyma til greininga. Hann sendi fjölda kassa fulla af hömum, beinum og pressuðum laufblöðum til Englands, þar sem sérfræðingar fóru að rannsaka efniviðinn.

Því finnst mér líklegt að Darwin hefði látið aflífa gíraffann, og verið fullfær um að skjóta hann sjálfur.

Siðfræðileg afleiðing þróunarkenningarinnar

Flestir líta á þróunarkenninguna sem fyrirbæri sem útskýrir eiginleika lífvera og sögu þeirra. En heimspekilega afleiðing hennar er mjög djúpstæð. Maðurinn er ekki aðskilinn frá náttúrunni. Við eru grein á lífsins tré, og lögmál náttúrunnar eiga við okkur eins og dýr merkurinnar.

En hvað með siðferðilegu spurningarnar, eins og þær sem Gunnar Dofri fjallar um í grein sinni?

Eru gíraffar æðri kúm, kolkröbbum eða kúluskít? Eða eru öll dýr, önnur en maðurinn skör lægri og með minni rétt en við? Eiga vistkerfi einhvern rétt, jafnvel þótt að þau séu ekki lifandi í sjálfu sér? Og ef við gefum vistkerfi eða lífkerfi rétt, eiga þá hinir dauðu steinar líka heimtingu á réttindum?

Það er ekki ætlunin að svara þessum spurningum hér, enda er ég fræðimaður og er alsæll með galopnar spurningar og þríræðar vísur.

*Það er líklega hluti af ástæðunni fyrir því að ég rita þennan pistil.

**Af skiljanlegum ástæðum.


mbl.is Sum dýr jafnari en önnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svín í tíma og rúmi

Hvað er hægt að læra af svínum? Það fer náttúrulega eftir því hvaða svíni þú fylgist með.*

Sálfræðingar birtu árið 2009 rannsókn sem sýnir m.a. að svín geta notað spegla, til að finna mat og skynja umhverfi sitt. Aðrar rannsóknir og tilraunir hafa sýnt að svín geta smalað kindum**, framkallað mannleg hljóð, hoppað í gegnum hringi og spilað tölvuleiki með gleðipinna.

Síðasti sameiginlegi forfaðir svína og okkar var uppi fyrir rúmlega 100 milljón árum, en fyrir um 8000 árum lágu leiðir okkar saman aftur. Þá tóku menn svín í sína þjónustu, ólu þau upp og átu. Ó hið grimma sársoltna fólk.

Vísindamenn við Durham háskóla á Englandi hafa rannsakað uppruna svína með erfðafræðilegum aðferðum og með því að bera saman hauskúpur þeirra.

Una Strand Viðarsdóttir mannfræðingur vann að þessum rannsóknum og mun fjalla um þær í erindi næstkomandi föstudag (14. febrúar 2014, kl 12:30).

Erindið verður í stofu 129 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og er aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Þeir sem vilja kynnast störfum Unu er bent á vefsíðu hennar við Durham háskóla.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð Líffræðistofnunar HÍ.

*Fyrst datt mér í hug að segja, "það fer náttúrulega eftir því hvaða svín kenndi þér", en fannst það of móðgandi fyrir kennarastéttina og fræðara (líklega því ég tel mig til þeirra).

** Já, kvikmyndin Babe var ekki alger uppspuni.

Tími og stofa voru leiðrétt kl. 16:12, 11. febrúar.

New York Times NATALIE ANGIER 9. 11. 2009 Pigs Prove to Be Smart, if Not Vain


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband