Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Um nýja strauma og stefnur innan þróunarfræðilegrar vistfræði

Dr. Skúli Skúlason flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt í dag, mánudaginn 31. mars kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Titill erindis Um nýja strauma og stefnur innan þróunarfræðilegrar vistfræði
Ágrip af erindi.

Þróunarfræðin leiðir saman margar greinar líffræðinnar. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikilvæg tenging milli rannsókna í vistfræði, þróunarfræði og þroskunarfræði. Þetta felur í sér nýstárlega nágun á hvernig vistfræðilegar aðstæður geta stuðlað að náttúrulegu vali en jafnframt mótað þroskun svipgerða, samhliða því að svipgerðir geta haft áhrif á vistfræðilegar aðstæður. Samverkun þessara ferla getur skýrt hvers vegna þróun líffræðilegrar fjölbreytni getur verið bæði hröð og breytileg og hvernig samspil vistfræði og þroskunar lífvera er lykilatriði í þróun breytileika og myndun tegunda. Margar tegundir norðlægra ferkvatnsfiska mynda afbrigði sem nýta sér ólíkar fæðuauðlindir og búsvæði og í sumum tilfellum hafa nýjar tegundir myndast. Rannsóknir sýna að aðskilnaður samsvæða afbrigiða orsakast af rjúfandi náttúrulegu vali og að svipgerðirnar mótast í mismiklum mæli af erfða-, umhverfis-, og móðuráhrifum. Norðlægir ferskvatnsfiskar eru því afar hentugir til rannsókna á samspili vistfræði, þróunar og þroskunar lífvera. Í fyrirlestrinum verður þetta útskýrt nánar með fræðilegum skýringum og dæmum.


Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda

Greinin Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda birtist í Fréttablaðinu og á Vísir.is þann 29. mars 2014. Höfundar eru Pétur Henry Petersen taugalíffræðingur og Arnar Pálsson erfðafræðingur, dósentar við HÍ.

Greinin er endurprentuð hér, með inngangi sem var klipptur af til að uppfylla takmarkanir um orðafjölda.

Inngangur.

Háskóli Íslands er ein verðmætasta sameign íslensku þjóðarinnar, en er alvarlega undirfjármagnaður. Fjárskorturinn birtist í lágum launum akademískra starfsmanna og stundakennara, miklu kennsluálagi, lélegri nýliðun og veikum stuðningi við rannsóknir. Forsendur góðrar kennslu og menntunar eru að allir þessir þættir séu í góðu lagi. Þetta ástand vinnur því gegn gæðum. HÍ er ódýr skóli vegna þess að laun eru lág og of stór hluti kennslu er á hendi stundakennara, sem eru á smánarlegum launum. Ríkið verður að styðja betur við starfsemi skólans (eða fækka nemendum) ef hann á að standa undir nafni. En það eru einnig gallar á innra starfi skólans, sem vinna gegn gæðum.

Greinin sjálf eins og hún birtist.

Við HÍ er notað matskerfi, sem metur rannsóknarframlag hvers vísindamanns. Punktar eru gefnir fyrir framleiddar einingar svo sem vísindagreinar, bækur, einkaleyfi o.s.frv. Punktarnir, eða stundum einfaldar talningar á greinum, stjórna dreifingu fjármagns, styrkjum til einstakra vísindamanna, styrkjum til framhaldsnema, launum kennara, framgangi kennara og fjárframlögum til deilda (sem sagt öllu sem skiptir máli).

Kerfið, sem upprunalega átti að vera ritlaunakerfi, hefur tekið yfir stjórn skólans. Að okkar mati grefur þetta kerfi (sem reyndar er sameiginlegt fyrir alla opinberu háskólana) sérstaklega undan gæðum. Vandamálið í hnotskurn er að kerfið verðlaunar framleiðni á kostnað gæða. Við HÍ eru stunduð afar fjölbreytt vísindi og á mismunandi forsendum. Það er erfitt að bera saman framleiðni í rannsóknum, t.d. í fornleifafræði, kennslufræði og líffræði, m.a. vegna munar á fræðigreinum, aðferðum, kostnaði og birtingartíðni.

Gallar punktakerfisins
Á kerfinu eru margir og alvarlegir gallar. Sá helsti er að magn og gæði fara sjaldnast saman. Verst er að kerfið mótar hegðun vísindafólks, og ógnar þar með akademísku frelsi og vinnur gegn gæðum. Punktakerfi HÍ umbunar fyrir fjölda vísindagreina, á meðan lítið tillit er tekið til gæða. Að mestu er horft framhjá mun á eðli mismunandi fræðigreina.

Kerfið hvetur til skammtímarannsókna á kostnað langtímarannsókna. Kerfið gerir það nánast ómögulegt að stunda kostnaðarsamar rannsóknir sem taka tíma. Kerfið hvetur fólk til að gera auðveldar rannsóknir, sem líklegar eru til að skila afurð sem fyrst eða sem oftast.

Á svipaðan hátt vinnur kerfið gegn nýsköpun – því henni fylgir nánast samkvæmt skilgreiningu, mikil áhætta. Punktar hafa bein áhrif á launaflokk og framgang í starfi. Punktar eru einnig notaðir til að borga akademískum starfsmönnum launabónus (kallast þá vinnumatspunktar) sem getur numið margra mánaða launum, einkum hjá þeim sem lært hafa að spila á kerfið. Punktakerfið tekur lítið tillit til fjölskyldufólks og vinnur líklega gegn velgengni kvenna og barnafólks. Kerfið eins og það er notað í HÍ vinnur einnig markvisst gegn vissum tegundum vísinda. Ef hliðstæðu matskerfi væri beitt á íþróttir, færu flest stig til körfuboltafólks og knattspyrna legðist af.

Flestir sem tala fyrir kerfinu (eða allavega ekki gegn því) eru í þeirri aðstöðu að vera á sviðum þar sem punktaframleiðni er einfaldlega mikil. Margir sem græða á kerfinu eru í þeirri stöðu að tengjast einfaldlega mörgum birtingum. Þannig er gríðarlegur aðstöðumunur milli fólks og fræðigreina og kerfið í raun að mæla hann.

Í síðustu úthlutunum vísindanefndar háskólaráðs var byggt að mjög miklu leyti á einfaldri talningu á birtum greinum. Einbeittari trú á gildi framleiðni sem mati á vísindastarfi má vart finna. Ef ekkert er að gert mun kerfið grafa hægt og örugglega undan tilraunavísindum og öllum fræðum sem ekki standa undir mikilli og hraðri framleiðslu vísindagreina. Það mun rýra gæði og draga úr fjölbreytileika rannsókna og að lokum gjaldfella HÍ. Að reka rannsóknarháskóla án nægjanlegs fjármagns með kerfi sem verðlaunar framleiðni en ekki gæði, leiðir til framleiðslu á því sem lítið er á bak við.

Leggjum niður eða endurskoðum kerfið
Stjórnvöld þurfa að átta sig á því að nýsköpun og menntun þarfnast fjárfestingar í háskólum og rannsóknasjóðum. Háskólaráð HÍ verður að skilja að magn er ekki gæði. Hugsa þarf reiknilíkan HÍ upp á nýtt og aðgreina laun og fjárframlög til deilda frá hrárri framleiðni. Horfa þarf til hvernig þessi mál eru leyst erlendis. Lagfæringar á kerfinu kosta ekki fé, heldur þor, framsýni og vilja stjórnar skólans og starfsmanna. Vegna þess að HÍ er ein mikilvægasta eign íslensku þjóðarinnar og starfsemi hans varðar almannaheill er bréf þetta birt á opinberum vettvangi.

Við óskum eftir því að menntamálaráðherra láti gera utanaðkomandi úttekt á matskerfi opinberu háskólanna hið fyrsta, með áherslu á gæði og jafnræði fræðigreina.

Ítarefni og skyldar greinar.

Arnar Pálsson 2. des. 2013 Toppnum náð - vindur úr blöðrunni

Arnar Pálsson 24. feb. 2014 Fjársveltur Háskóli


Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir, málstofa 3

Á árinu verða haldnar málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Fyrsta málstofan var haldin 17. janúar 2014 og önnur málstofan 14. mars, báðar á Café Sólon.

Mikil umræða á sér nú stað um arðsemi, kosti og galla laxeldis í sjó. Reynsla af fiskeldi í sjó hér við land og erlendis hefur verið misjöfn og full ástæða er til að fara vandlega yfir hina ýmsu þætti eldisins áður en teknar eru ákvarðanir um frekari framkvæmdir á því sviði. Nú er komið fram á Alþingi frumvarp til laga, þingskjal 609 – 319. mál um breytingu á lögum um fiskeldi. Því er nauðsynlegt að efna til umræðna um fjölmarga þætti sem varða fiskeldi, umhverfi, byggðir og vottun afurða áður en afdrifaríkar breytingar verða lögfestar.

Á næstu málstofu munu sérfræðingar gera grein fyrir lagaumhverfi fiskeldis hér á landi frá upphafi og sérstaklega um núgildandi lög og þær breytingar sem nýja frumvarpið felur í sér. Meðal þeirra verða Árni Ísaksson fyrrum forstöðumaður lax- og silungsveiðisviðs Veiðimálastofnunar auk fulltrúa Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga.

Málstofan fer fram á íslensku og verður haldin á Café Sólon í Reykjavík föstudaginn 4. apríl, 2014, kl. 13:30 – 16:30.

Upplýsingar um fyrstu tvær málstofur, þ.a.m. slæður frummælenda má finna á vef Líffræðifélags Íslands (málstofur um líffræði fiskeldis).

Allir eru velkomnir og beðnir að skrá sig til þátttöku hjá nasf@vortex.is

 


Frétt um erfðablöndun laxa

Í laxeldi er notaður eldisstofn sem ættaður er frá Noregi. Það er vegna þess að ræktun eldisfiska er erfitt verkefni, og norsku fiskarnir hafa verið ræktaðir lengur og með betri árangri en aðrir. Mér skilst að hérlendis hafi verið byrjað á kynbótaræktun laxa á seinni hluta síðustu aldar, en fiskarnir voru bara of litlir og uxu hægar en norskir. Því hafi kynbótum verið hætt og norski stofninn orðið einráður í eldi.

Reyndar er aðra sögu að segja um eldisbleikju, en hún er hérlendis af íslensku meiði og afrakstur eldistarfs starfsmanna á Háskólanum á Hólum.

Erfðanefnd landbúnaðarins fjallar um erfðir villtra og eldislaxa í nýlegu svari við fyrirspurn. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í morgun:

Erfðanefnd landbúnaðarins telur fulla ástæðu til að huga að áhrifum norsks eldisstofns á villta íslenska stofna. Lagaákvæði þurfi um vöktun á erfðablöndun.
 
Líta ber á norskan eldislax sem framandi stofn á Íslandi. Full ástæða er til að huga að áhrifum af auknu laxeldi hérlendis á villta íslenska laxastofna. Brýnt er að innleiða í lög og reglur vöktun á erfðablöndun.
 
Þetta er afstaða Erfðanefndar landbúnaðarins sem kemur fram í svari til Óðins Sigþórssonar, formanns Landssambands veiðifélaga (LV). Óðinn vildi að nefndin tjáði sig um áhættu sem fylgir auknu laxeldi hér á landi og hvort hægt væri að líta á kynbættan norskan eldislax sem erfðabreytta lífveru í íslensku vistkerfi. Norski laxinn hefur verið notaður í eldi við Ísland í áratugi.

Nefndarmenn fallast ekki á að norskur eldislax sé erfðabreytt lífvera, en erfðaefni í kynbættum norskum eldislaxi hefur ekki verið breytt með öðrum hætti en kynbótum. "Hins vegar sýna erfðarannsóknir að íslenskur lax er mjög frábrugðinn norskum laxi og má því líta á norskan eldislax sem framandi stofn," segir í bréfinu. Laxeldi í sjókvíum sé í dag ein helsta ógnin við villta laxastofna. Rannsóknir sýni að nálægð við laxeldi geti leitt til hnignunar laxa- og urriðastofna. "Erfðanefnd landbúnaðarins telur að erfðablöndun við norskan eldislax geti ógnað íslenskum laxastofnum í grennd við laxeldisstöðvar en mögulegt áhrifasvæði er ekki þekkt," segir þar einnig.

Spurning Óðins er fyllilega sanngjörn, það er eðlilegt að við hugum að mögulegri erfðamengun á milli eldisfiska og villtra fiska, og hvaða afleiðingar það hefur fyrir náttúru og auðlindir. Ég grein samt snert af hræðsluáróðri í fyrirspurninni, þar sem spurt var sérstaklega hvort líta mætti á norskan eldislax sem erfðabreyttan? Mér sýnist sem ætlunin hafi verið að brennimerkja eldislaxinn með erfðabreytta-stimplinum, sem virðist virka mjög stuðandi á fólk og vekja ótta. Eins og við höfum rætt hér ítarlega, þá eru erfðabreytingar ekki hættulegar í sjálfu sér, frekar en ritvélar eru hættulegar í sjálfu sér. Það er hægt að misnota erfðatækni, alveg eins og ritvélar, en mikilvægast er að átta sig á að tæknin er bara hluti af vopnabúri ræktenda, sem eru að reyna að betrum bæta nytjaplöntur eða dýr.

Ég fagna sérstaklega áherslu erfðanefndarinnar á mikilvægi þess að hamla genaflæði úr eldislaxi yfir í villtan. Því slíkt flæði getur dregið úr hæfni villtu stofnanna með ófyrirséðum afleiðingum. Það er raunveruleg ógn.

Líffræðifélag Íslands, ásamt Verndarsjóði villtra laxastofna og Stofnun Sæmundar fróða við HÍ hefur staðið fyrir málstofum um fiskeldi nú í vetur. Næsta málstofa verður 4. apríl og mun fjalla um fiskeldisfrumvarpið sem liggur fyrir þinginu.

319. mál lagafrumvarp 143. löggjafarþingi 2013—2014.

Ég skora á fólk að kynna sér frumvarpið og fagmenn að senda inn álit.

Ítarefni:

Fréttablaðið 26. mars 2014. Norski laxinn er framandi stofn á Íslandi

Málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands.


Hrun í bleikjustofninum

Undanfarin ár hafa borist tíðindi af minnkandi veiði í sjóbleikjustofnum og sumum stofnum vatnableikja.

Bleikjan er kuldaþolnasti laxfiskurinn og einnig harðgerasti, því hún þarf minnst æti og getur framfleytt sér við ótrúlegar aðstæður.

Bjarni K. Kristjánsson prófessor á Hólum hefur rannsakað dvergbleikjur í lindum og litlum tjörnum við hraunjaðra, og ásamt samstarfsmönnum sínum komist að því að þær virðast hafa þróast oft á undanförnum 10.000 árum. En þá lauk síðustu ísöld og ný búsvæði opnuðust fyrir ferskvatnsfiska. Svo virðist sem sjóbleikja hafi þá farið að ganga upp í ár og vötn. Samfara landrisi (vegna þess að jökulhettan hélt ekki lengur niður landinu) einangruðust margir stofnar í vötnum eða ám ofan við stóra fossa. Sjóbleikjan gat ekki lengur gengið þangað upp, og stofninn sem fyrir var þróast í samræmi við aðstæður. Margir stofnar þróuðust í sömu átt, að undirmynntum dvergfiskum.

Í Mývatni  eru nokkrar gerðir af bleikjum, m.a. dvergbleikjur í hellum og hraungangakerfum sem tengjast vatninu. Bjarni og félagar eru einmitt að rannsaka þá stofna núna, og reyna að kortleggja skyldleika fiska í ólíkum hellum og mæla flutning á milli þeirra.

En stóra bleikjan í Mývatni hefur verið í mikilli niðursveiflu. Sögulega hafa veiðst um 27.000 fiskar í vatninu á hverju ári. En síðasta áratug hefur fjöldinn verið minna en 10% af því.

Guðni Guðbergsson sviðstjóra auðlindasviðs Veiðimálastofnunar fjallar um þetta í nýlegri skýrslu, sem rætt var um í Fréttablaðinu:

Guðni er sammála því að varla sé hægt lengur að tala um veiðistofn bleikju í Mývatni og að staðan sé verulegt áhyggjuefni. Í skýrslu sinni mælir hann með því að sem allra mest verði dregið úr veiði, sem hann segir að sé í raun hvatning til þess að veiði sé alfarið hætt um tíma. Dregið hefur verið úr sókn í bleikjustofninn síðustu þrjú ár. Vegna þess hefði mátt búast við hækkandi afla en Guðni segir að þær vonir hafi ekki ennþá ræst ennþá. Ennfremur er ekkert úr netaveiði undir ís fyrrhluta mars í Mývatni sem bendir til að hagur silungsins sé að vænkast, nema þvert á móti þar sem veiðin var lélegri en undanfarin tvö ár.

Guðni hefur einnig miklar áhyggjur af hugmyndum um virkjun í Bjarnarflagi, sem gæti mögulega raskað streymi vatns og jafnvel breytt efnasamsetningu vatnsins.

„Svo eru menn að tala um Bjarnarflag og þá hugsar maður með sér hver verður dropinn sem fyllir mælinn. Í mínum huga þá mega menn ekki tefla á tvær hættur með þessa stofna,“ segir Guðni en Landvirkjun hefur uppi áform um nýja og stærri jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag skammt austan Reykjahlíðar. Verulegar áhyggjur hafa komið fram um áhrif virkjunarinnar á grunnvatnsstreymi til Mývatns og efnasamsetningu þess, sem kunni að raska lífríki vatnsins.

Fréttablaðið 25. mars 2014. Vart hægt að tala um veiðistofn í Mývatni lengur

Ysta nöf og loftslagsvísindin

Loftslag jarðar er að breytast samfara aukinni losun loftslagstegunda af mannavöldum.

Þetta er staðreynd, en smáatriðin eru ekki alveg á hreinu.  Það er að segja, við vitum t.d. ekki alveg hversu mikið hitinn mun aukast, eða hvar hitinn breytist mest, eða hvaða aðrar afleiðingar það mun hafa fyrir veðrakerfi og strauma í höfunum.

En til að geta búið til góð líkön um væntanlegar breytingar þurfum vísindamenn að skilja  náttúrulegar sveiflur í hita og veðrakerfum. Við vitum öll um árstíðasveifluna, en einnig er vitað að stærri sveiflur eða umskipti gerast í veðurlagi jarðar. Íslendingar kannast flestir við Litlu ísöld, sem varaði frá 1450-1900.

Með því að kanna fjölda, samsetningu og dreifingu frjókorna í jarðlögum er hægt að meta sveiflur í loftslagi og öðrum þáttum.

Það er einmitt viðfangsefni fornvistfræði, sem er á mörkum líffræði og jarðfræði. Lilja Karlsdóttir doktorsnemi við Líf- og umhverfisfræðideild HÍ mun á morgun verja doktorsritgerð sína um birkifræ í jarðlögum.

Lilja var að rannsaka kynblöndun birkitegunda á nútíma (síðustu 10.000 ár, e. Holocene).

Erindi Lilju verður í Hátíðarsal aðalbyggingar kl 14.00 og heitir Kynblöndun íslenskra birkitegunda á nútíma lesin af frjókornum.

Prófdómari hennar Chris Caseldine prófessor við landfræðideild háskólans í Exeter flytur fyrirlestur mánudaginn 24.mars kl.16:30, í Öskju,stofu 132.

Heiti fyrirlestursins Chris er From esoteric fringe to Climategate – the changing role of Quaternary science over recent decades and into the future.

Ítarefni

Litla ísöld á wikipedia.


Laxlús og lyfjanotkun í Noregi

Líffræðifélag Íslands, NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna og Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands standa fyrir málstofum um líffræði og umhverfisfræði fiskeldis.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpg Á málstofu 14. mars fluttu erindi erlendir sérfræðingar sem hafa rannsakað áhrif sjókvíaeldis á nálæg vistkerfi og þekkja reynslu annarra þjóða af laxeldi. Þeir voru dr. Trygve Poppe prófessor við norska dýralæknaháskólann, dr. Paddy Gargan hjá Central Fisheries Board of Ireland, og dr. Bengt Finstad hjá norsku náttúrufræðastofnuninni NINA. Einnig fluttu erindi þeir Jón Örn Pálsson MSc fyrir hönd  Landssambands fiskeldisstöðva og dr. Erik Sterud fyrir hönd Landssambands veiðifélaga.

Erindin voru öll mjög góð, og umræðan á háu plani.

Slæðurnar af málstofunni verða settar á vef líffræðifélagsins fljótlega (slæður af fyrstu málstofunni eru aðgengilegar).

Áhugasömum er einnig bent á ágætis pistil Stefáns Gíslasonar um laxalús og lyfjanotkun í Noregi, sem fluttur var í Sjónmáli í dag.

Sjónmál Rás 1 20. mars 2014. Lýs og lyf í laxeldi


Fuglaflensuveirur hérlendis

Gunnar Þór Hallgrímsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, tók þátt í rannsókn á dreifingu veira meðal fugla á norðurhveli.

Niðurstöðurnar sýna að hérlendis finnast margar gerðir fuglaflensuveira, og gæti Ísland verið suðupottur fyrir Evrópska, Asíska og Ameríska fuglaflensuveirur. Flensuveirur eru þeirrar náttúru, að ef tvær gerðir sýkja sama einstakling, geta nýjar gerðir orðið til. Ástæðan er sú að erfðaefni flensuveira er í nokkrum bútum, sem geta valdið því að erfðaefni þeirra stokkast upp.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum RÚV og Kastljósi.

Í dag var birt ný rannsókn sem Náttúrustofa Suðvesturlands, Háskóli Íslands gerðu í samvinnu við US Geological Survey.  Rannsóknin sýnir að hér á landi finnast bæði evrópskir og amerískir fuglaflensuvírusar auk afbrigða þar sem vírusarnir blandast saman. Þetta er í fyrsta sinn sem vírusar af þessu tagi finnast á sama svæðinu á sama tíma.

Rannsóknin hófst árið 2010 og stóð í tvö ár.  1078 fuglar voru veiddir á Vestur- og Suðurlandi á þeim tíma. Fram til þessa hafa rannsóknir af þessu tagi aðallega beinst að hænsn,- og andfuglum en í þessari rannsókn var sjónum beint að mávum, vaðfuglum og andfuglum.  Fuglarnir voru fangaðir í net og gildrur og voru tekin úr þeim sýni til að kanna hvort í þeim fyndust vírusar.  

Erfðamengi vírusanna voru raðgreind til að kanna uppruna þeirra. Engir flensuvírusar fundust í vaðfuglunum en töluvert magn fannst í mávunum og andfuglunum. Gunnar Þór Hallgrímsson dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands ræddi um rannsóknina við Kastljós.

Ítarefni:

Fréttir RÚV 19. mars 2014. Ísland er stökkpallur fyrir fuglaflensur

RÚV 19. mars 2014 Kastljós Ísland suðupottur fuglaflensuvírusa

Dusek RJ, Hallgrimsson GT, Ip HS, Jónsson JE, Sreevatsan S, et al. (2014) North Atlantic Migratory Bird Flyways Provide Routes for Intercontinental Movement of Avian Influenza Viruses. PLoS ONE 9(3): e92075. doi:10.1371/journal.pone.0092075


Ráðstefna Vistfræðifélags Íslands 2. apríl

Við viljum vekja athygli ykkar á Vistfræðiráðstefnunni (VistÍs 2014) 2.apríl næstkomandi. Skráning erinda og veggspjalda hefur verið framlengd til 21.mars (sjá nánari upplýsingar í viðhengi hér að neðan).

Ráðstefna Vistfræðifélags Íslands verður haldin í sal Norræna hússins í Reykjavík þann 2. apríl næstkomandi.

Ráðstefnan er vettvangur til að kynna íslenskar vistfræðirannsóknir og nátengd málefni sem falla undir fræðasvið vistfræðinnar.

Skráningarfrestur:
21. mars-erindi og veggspjöld
31. mars -á ráðstefnuna sjálfa
Skráningargjald 1.500 kr
Frekari upplýsingar um ráðstefnuna eru að finna á heimasíðu Vistfræðifélags Íslands


#björk #náttúra #gætagarðsins

Mér finnst pínkulítið merkilegt að tíst stórstjörnunar Russel Crowe sæti tíðindum.

Jú hann minnist nú reyndar á Ísland, og minnimáttarkennd okkar veldur því að við kippumst við af gleði í hvert skipti sem frægir útlendingar segja nafn fósturjarðarinnar.

Tístið er tengt frumsýningu á Nóa Aronofskys í kvöld.

Þess er reyndar ekki getið í fréttinni af tístinu að frumsýningin er í samvinnu við Björk Guðmundsdóttur og íslensk nátturuverndarsamtök.

Í kvöld verða nefnilega stórtónleikar í Hörpu, þar sem Björk, Patti Smith, Highlands, Of Monsters and Men, Samaris, Retro Stefson, Björk, Mammút og Lykke Li koma fram.

Það er glæsilegt framtak og lofsvert.

a_160.jpgHins vegar er umfjöllun mbl.is um þennan stórviðburð heldur rýr. Eina umfjöllunin var 3. mars síðastliðinn, reyndar ágæt grein Halls M. Hallsonar (sjá neðst).

-------

Varðandi titil pistilsins. Svona hroði mun ekki endurtaka sig, því mér finnst tístíska ljótasta tungumálum nútímans. Ég vil ekki leggja alla ábyrgðina á herðar tölvunarfræðinga, en þeir mættu stundum spá í samfélagsleg áhrif verka/brandara sinna.

Ítarefni:

Náttúruverndarsamtök Íslands Gætum garðsins

Sjónmál 14. mars 2014. Stopp! Gætum garðsins

Mynd Arnar Pálsson. Ofan á Esjunni 2010.


mbl.is Crowe sendir kveðju til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband