Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

Ljósið var hans fyrsta ást

Leyndardómar ljósins vöktu áhuga fræðimanna á nítjándu öld. En hvernig er hægt að rannsaka ljós? Einnig má spyrja hverjir rannsaka ljós og önnur fyrirbæri?

 

Svarið við seinni spurningunni er vitanlega vísindamenn (e. scientist) þó að hvorki starfsheitið né fagið væru til í upphafi nítjándu aldar. Svokallaðir náttúruheimspekingar (e. natural philosophers) og grúskarar af ýmsu tagi (prestar, efnamenn, læknar og kennarar) lögðu grunninn að vísindunum eins og við þekkjum þau. En það gerðist ekki að sjálfu sér, fræðimenn og heimspekingar mótuðu og skilgreindu vísindin og hina vísindalegu aðferð, sumpart með gjörðum sínum en einnig meðvitað og markvisst.

 

Laura J. Snyder kannar rætur nútíma vísinda í bókinni The philosophical breakfast club. Þar setur hún fjóra fræðimenn í öndvegi, og notar sögu þeirra til að kortleggja og skilja hvað gerðis um miðbik nítjándu aldar. Einn þessara manna var John Herschel, sem vísað er til í titli þessa pistils (light was my first love). Hann stundaði rannsóknir á stjörnum, grösum og efnum, auk þess sem hann var skapandi stærðfræðingur og einn af frumkvöðlum ljómyndunar. William Whewell var sonur smiðs, en barðist til mennta og lagði mest stund á steindafræði og eðlisfræði, og var á tíma rektor Trinity College í Cambridge Englandi. Charles Babbage hannaði fyrstu tölvuna og Richard Jones var einn af upphafsmönnum hagfræðinnar. Á því tímabili sem Snyder rannsakar í bók sinni, frá 1820 til 1870, urðu miklar framfarir í vísindum og tækni. Stærstu uppgötvanirnar voru e.t.v. ljósmyndun, rafmagn, gufuvélin, lestarkerfi og drög að tölvum. Samfara urðu til ný fræðisvið, t.d. hagfræði, efnafræði, félagsvísindi og þróunarfræði.

 

En fagheitið vísindamaður var ekki til í upphafi tímabilsins. Það varð til á fundi Breska vísindafélagsins árið 1833 þegar rætt var um eðli vísinda og viðfangsefni þeirra. Í kjölfar ábendingar um að náttúruheimspekingur væri ekki góð lýsing á því sem margir fræðimenn stunduðu. Whewell sagði að ef náttúruheimspekingur dygði ekki til, mætti með hliðstæðu við listamann, búa til orðið vísindamann („by analogy with artist, we may form scientist“).

 

Á tímabilinu sem í kjölfarið fylgdi þróaðist hin vísindalega aðferð, starfsgreinin skilgreindist og menntastofnanir og stjórnvöld lögðu áherslu á að koma til móts við þá sem vildu leysa stórar spurningar um eðli og eiginleika heims og lífs.

Ítarefni:

Philosophical Breakfast Club | Laura J. Snyder

Ritdómur í Washington Post Books: 'The Philosophical Breakfast Club' by Laura Snyder

 


Niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum

Íslenskt samfélag byggir á og er samofið náttúrunni. Við búum við heimskautsbaug og efnahagur okkar byggir á t.d. auðlindum sjávar, orku jarðar og óspilltri náttúrufegurð sem ferðamenn sækja í. Það er nauðsynlegt fyrir framtíð þjóðarinnar að við menntum fólk í raunvísindum, sem getur rannsakað þessar auðlindir og hjálpað okkur að nýta þær á sjálfbæran hátt. Einnig byggist þekkingarsamfélag framtíðar því á góðri vísinda- og tæknimenntun, sem byggir á góðu námi í grunn- og framhaldsskólum.

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfniviðmiðum og að Ísland dragist ekki aftur úr öðrum vestrænum þjóðum.

Við höfum áhyggjur af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Stækkun í hópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár Mennta- og menningarmálaráðuneytis um hæfniviðmið er í andstöðu við stærri nemendahópa.

Mennta- og menningarmálaráðherra er einnig hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut. Á náttúrufræðibraut var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samlíf spyr hvort að fækkun raungreinaeininga í framhaldsskólum samræmist markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina- og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.

Íslendingar framtíðar þurfa góða menntun, og eiga það skilið að metnaðarfullri námskrá sé fylgt eftir með gjörðum.

Reykjavík, 22. apríl 2014

Til: Mennta- og menningarmálaráðherra

Efni: Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum, ítrekun

Stjórn Samlífs – Samtaka líffræðikennara
Ester Ýr Jónsdóttir, formaður
Rúna Björk Smáradóttir, gjaldkeri
Hólmfríður Sigþórsdóttir, ritari
Arnar Pálsson, meðstjórnandi
Eiríkur Örn Þorsteinsson, meðstjórnandi.


Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Sigurður H. Magnússon flytja erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt Í DAG mánudaginn 28. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Ágrip af erindi:

„Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn Minna­Núp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar. Lítið var vitað um annan gróður í eynni. Áform eru um að stífla Þjórsá ofan Viðeyjar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Rennsli Þjórsár meðfram Viðey myndi minnka mjög mikið við virkjun og jafnframt sú vernd sem áin veitir eynni. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður­ og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast í eynni sjaldgæfar plöntutegundir? Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda­ og fræðslugildi eyjarinnar.“


Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.
 
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)

Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)


Ný hátæknismásjá vígð

Í gær var ný smásjá vígð og gangsett. Smásjáin er staðsett í Lífvísindasetri, sem er regnhlífarstofnun fyrir sérfræðinga sem stunda rannsóknir á sviði líffræði, sameindaerfðafræði og heilbrigðisvísinda, bæði utan og innan Háskóla Íslands. Aðillar á Landspítala, Háskólanum í Reykjavík, Landbúnaðarháskólanum og Blóðbankanum eru t.d. hluti af Lífvísindasetri.

Smásjáin var vígð af Illuga Gunnarsyni menntamálaráðherra og Kristínu Ingólfsdóttur rektor HÍ.

Úr tilkynningu frá HÍ.

Um er að ræða svokallaða confocal-smásjá af gerðinni Olympus FV1200. Confocal-smásjá býr yfir þeim eiginleikum að með leysigeislatækni er hægt að skoða staðsetningu prótína nákvæmlega í vefjum og frumum og byggja þrívíða mynd af því sem er að gerast, jafnvel í lifandi frumum. Þetta eykur rannsóknamöguleika Lífvísindaseturs til muna sem fyrr segir.

Tækið er mikil lyftistöng, og gerir íslenskum vísindamönnum kleift að stunda rannsóknar á örsmáum fyrirbærum innan frumna, og svara þannig bæði læknisfræðilegum og liffræðilegum spurningum.

Um er að ræða tugmilljóna tæki, og það þurfti sameinaðan slagkraft um tuttugu rannsóknarhópa til að sannfæra Rannsóknamiðstöð Íslands um að sniðugt væri að kaupa þetta tæki. Vinnan við undirbúning umsóknarinnar var mjög mikil og ekki síður við undirbúning útboðs, samningaviðræður og uppsetningu tækisins.

En það er ekki nóg að fá góðar græjur. Það þarf líka fé til að stunda rannsóknirnar. Því miður er alltof algengt hérlendis að styrkir fáist fyrir tækjakaupum, en engir fyrir viðhaldi eða að ráða sérfræðinga til að stjórna tækjunum. Blessunarlega hefur Lífvísindasetur fjármagn til að ráða tæknimann um 6 mánaða skeið, til að koma apparatinu á koppinn.

Og þó að ein smásjá sé sannarlega góð, þá er aðstaðan lífvísindafólks hérlendis skelfilega döpur miðað við bæði sæmilegar og góðar stofnanir erlendis. Við EMBL í Heidelberg sem telur um 400 manns, eru um 20 smásjár þ.a.m. 5 af svipuðum eða meiri gæðum en nýja tæki Lífvísindaseturs.

Vísindi eru iðkuð í samkeppni, um svörin við stærstu spurningum hvers tíma. Íslenskir vísindamenn vilja keppa við þá bestu erlendis og vera fyrstir til að svara brennandi spurningum. Nýja smásjáin hjálpar þeim við það, en meira þarf að laga. Ef líkja mætti vísindum við knattspyrnu, þá fékk íslenska liðið frábær skópör, en þarf ennþá að æfa í mýrarfláka samhliða 80 tíma vinnuviku.

Ef þessi botn virkar of neikvæður, þá er það vegna þess að mér finnst of margir vera tilbúnir að taka jákvæðu punktanna og hundsa vandamálin. Vísindin byggja á að greina vandamál og svara þeim að heiðarleika. Það sama ætti að eiga við um vanda íslensks samfélags.


Íslenskir framhaldsnemar í Evrópu

Líffræðistofa HÍ stendur fyrir tveimur erindum í þessari viku. Bæði eru flutt af íslenskum doktorsnemum, sem starfa við hágæðastofnanir í Evrópu.

Fyrst ber að nefna erindi Hákons Jónssonar, sem starfar við Kaupmannahafnarháskóla (22. apríl). Hákon er að rannsaka forn erfðamengi, og mun halda erindi um núlifandi hesta-tegundir. Hann og samstarfsmenn hans hafa beitt sameindaerfðafræðilegum aðferðum til að greina genasamsetningu í fágætum hestaafbrigðum, sem mörg hver eru í útrýmingarhættu. Og einnig skoðaði hann erfðamengi Equus quagga quaggasem er nýútdauð tegund.

Sara Sigurbjörnsdóttir fjallar um rannsóknir sínar (23. apríl). Sara er doktorsnemi hjá Mariu Leptin við EMBL í Heidelberg en mun fá prófgráðu sína frá HÍ (sjá neðst).

Sara verður einnig með kynningu á framhaldsnámi við Evrópsku sameindalíffræðistofnunina (EMBL), sem stendur íslendingum til boða.

Greinótt net fruma eru þekkt í dýraríkinu, t.d. í háræðum, meltingakerfi, nýrum og loftæðakerfum skordýra. Sara notar loftæðakerfi ávaxtaflugunnar til rannsókna sinna. Ávaxtaflugan er mjög hentug til rannsókna á þroskun og erfðum, en upplýsingarnar sem rannsóknin gefur má mögulega heimfæra yfir á líffræði mannsins. Sara kannar starfsemi gena og boðferla sem stýra og koma að þroskun loftæðanna. Margir þessir ferlar eiga sér hliðstæðu í spendýrum og sumir hafa verið bendlaðir við erfðasjúkdóma.

loftaedar_sarasigurbjornsdottir.jpgLoftæðakerfið í ávaxtaflugunni kemur í stað lungna, og þær eru ekki heldur með eiginlegt æðakerfi til að flytja súrefnisríkt blóð. Loftæðakerfið er net pípulagna sem ber súrefni úr umhverfinu inn í frumurnar (sjá mynd af loftæð og vöðva), sjá mynd.

Sara er að skoða hvernig mRNA sameindum eru fluttar og komið fyrir í angalöngum loftæðafrumanna, sem geta verið býsna fjarri kjarnanum þar sem mRNA er framleitt. Þessi staðsetning mRNA í angalöngum frumna tryggir að efniviður nauðsynlegur til vaxtar til staðar, þegar næsti angi frumunnar þarf að myndast. En það er ekki nóg að fruman sendi bara út anga, hún þarf líka að mynda loftæðina. Sara er einnig að rannsaka prótín sem koma að loftæðamyndun.

Nánari upplýsingar

22. apríl
Hakon Jónsson - Equid genome sequencing reveals multiple gene-flow events and sympatric speciation despite extensive chromosomal rearrangements Þri, 22/04/2014 - 12:30 | Askja Stofa 130
http://luvs.hi.is/is/vidburdir/equid-genome-sequencing-reveals-multiple-gene-flow-events-and-sympatric-speciation-despite-extensive

23. apríl
Sara Sigurbjörnsdóttir - Molecular genetics of tracheal development in fruitflies Mið, 23/04/2014 - 12:30 | Askja Stofa 131
http://luvs.hi.is/is/vidburdir/molecular-genetics-tracheal-development-fruitflies 


Örfá villt dýr

Það er staðreynd að við mennirnir höfum gjörbreytt umhverfi jarðar.

Teiknarinn XKCD setti þetta í samhengi, með því að teikna upp lífmassa landspendýra.

Ef tekin er saman heildarþyngd allra landspendýra, þá eru menn uþb 25%. Húsdýrin okkar leggja til um það bil 65%, en villt spendýr eitthvað um 10% af heildar þyngd landspendýra.

land_mammals

Myndin á XKCD vakti miklar umræður á Reddit, en stóru drættirnir virðist vera nokkuð nærri lagi.

Þetta undirstrikar mjög skýrt hvernig við höfum breytt orkuflæði jarðar, með landbúnaði og húsdýrarækt. Eitthvað verður jú að standa undir öllum þessum framförum, og fésbókarfærslum.

Heimildin á bak við myndina er tafla í bókinni The Earth's Biosphere: Evolution, Dynamics, and change eftir Vaclav Smil

Líklega teljast hreindýr á heiðum Austurlands til villtra dýra, og í heildarbókhaldi íslenskra landspendýra eru þau bara smár hluti hjarðarinnar.


mbl.is Ók á hreindýrahjörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegt vandamál, ekki tækifæri

Þriðja loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna fjallar um leiðir til að berjast gegn lofgslagsvánni.

Hún virðist fá takmarkaðan hljómgrunn hérlendis. Til dæmis hefur ekki einn einasti bloggari tekið sig til og sett inn athugasemdir eða hugsanir um þessi efni, hér á Moggablogginu.

Mig grunar að þetta sé bara of alvarleg frétt, og að náttúrulegt viðbragð fólks sé að stinga hausnum í sandinn. Eða hrista hausinn bara og segja, þetta drepur mig ekki í bráð, og halda áfram með líf sitt.

15letters-art-master495

Meðfylgjandi mynd er af vef NY Times.

Málið er bara það að líf okkar mun taka stakkaskiptum ef okkur ber ekki gæfu til að spyrna á móti þessari þróun. Loftslag.is hefur sem betur fer tekið á málinu, og fjalla t.d. um yfirlýsingar Bandarísku vísindaakademíunar.

AAAS, The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna sem, eins og nafnið gefur til kynna, stuðlar að framgangi vísinda, en samtökin gefa meðal annars út hið virta tímarit Science. Í mars opnuðu samtökin heimasíðu og gáfu út bækling sem heitir Það sem við vitum (e. What We Know). Helstu punktarnir eru þessir:

  1. Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
  2. Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
  3. Því  fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur.

Yfirlýsingar hæstvirts forsætisráðherra fyrir nokkru, um að loftslagsbreytingar sé sérstakt tækifæri fyrir Ísland er bæði röng og ber vankunnáttu merki.

Stöð tvö ræddi við Hrönn Egilsdóttur doktorsnema og Jón Ólafsson haffræðing. Í fréttinni sagði:

„Ísland er á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar.“ Þetta segir doktorsnemi í jarðvísindum. Hún bendir á að ummæli forsætisráherra um sóknarfæri í kjölfar hnattrænna loftslagsbreytinga séu ekki merkilegt faranesti. Hafrannsóknarstofnun getur ekki sinnt grunnrannsóknum á súrnun sjávar vegna niðurskurðar í fjárframlögum. Ásamt því að benda á hættur sem steðja að matvælaöryggi heimsbyggðarinnar ítrekuðu vísindamenn Milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðann á loftslagsráðstefnunni í Japan í vikunni að brýn þörf sé á frekari rannsóknum á súrnun sjávar á norðurslóðum.

Spurð um ummæli Sigmundar D. Gunnlaugssonar, um að loftslagsbreytingar gefi Íslandi tækifæri, svaraði Hrönn

Varðandi ummæli Sigmundar Davíðs þá sér maður það að þekking á vandanum er kannski ekki til staðar hjá ráðamönnum og það er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri,

http://www.visir.is/surnun-sjavar–island-a-versta-mogulega-stad/article/2014140…


mbl.is Jarðgas hluti af tímabundinni lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritrýni og skuggahliðar vefsins

Í þessari grein verða tvö ólík viðfangsefni tengd. Í fyrsta lagi verður fjallað um það hvernig vísindalegar rannsóknir eru metnar og kunngjörðar. Í öðru lagi tölum við um skugga hliðar vefsins, sem tengjast útgáfu vísindalegra tímarita.

Útgáfa vísindalegra rannsókna

Tímaritsgreinar og bækur er kjarninn í miðlun vísindalegrar þekkingu. Það skiptir litlu máli hver hrópar EUREKA, mestu skiptir hver skrifar greinina sem lýsir uppgötvuninni og setur hana í samhengi við þekkinguna.

Vísindalegar greinarnar þurfa að fara í gegnum ferli áður en þær eru birtar. Höfundur(ar) skrifar grein sem lýsir ákveðinni rannsókn og niðurstöðum hennar. Hann sendir greinina til ritstjórn ákveðins tímarits.

Síðan hefst jafningjarýni. Handrit er send í yfirlestur til tveggja eða fleiri sérfræðinga sem meta rannsóknina, heimildavinnu, tölfræði, tilraunir og úrvinnslu, sem og almennt gæði umræðu og fræðimennskunnar. Ef greinin hlýtur jákvæða umsögn er hún birt í viðkomandi tímariti, oft eftir töluverðar leiðréttingar. Ef greinin er ekki nógu góð, er henni hafnað. Sumar slíkar greinar eru sendar til annara tímarita, oft eftir leiðréttingar, og birtast á endanum. Aðrar eru það lélegar að þær verða aldrei hluti af hinum vísindalega fræðagrunni.

Ekki eru allar vísindagreinar sannar!

EN, jafnvel  þótt að grein sé samþykkt og birt, þá þýðir það ekki að allt í henni sé rétt. Hver rannsókn er eyland, og það þarf fleiri rannsóknir og endurtekin próf til að vísindasamfélagið sannfærist um sannleiksgildi ákveðinna hugmynda. Til dæmis voru fyrstu rannsóknirnar sem bentu á tengsl sígarettureykinga og krabbameina ekki taldar nægilega sannfærandi. En ítrekuð próf og stærri gagnasett gáfu öll sömu niðurstöðu. Því vitum við nú að reykingar valda lungnakrabba.

Ekki eru öll vísindatímarit jafngóð

Vísindatímarit eru misgóð og orðspor þeirra er misjafnt. Til eru nokkur ofurtímarit, Nature, Science og PNAS sem birta greinar úr öllum áttum, og yfirleitt bara afburða eða mjög forvitnilegar rannsóknir. Síðan eru til tímarit þar sem kröfurnar eru afmarkaðari, t.d. er bara tekið við rannsóknum á sjávarlífverum eða stjörnuþokum. Einnig eru tímarit með einfaldari kröfur um rannsóknir eða aðgengi að gögnum. Og jafnvel er til tímarit þar sem engar kröfur eru gerðar um efni, bara að rannsóknin sé vel unnin og gögnin séu aðgengileg fyrir aðra. Dæmi um þetta er galopna tímaritið PLoS One.

Vísindamenn vilja auðvitað birta í tímaritum sem eru víðlesin, eða afburða góðum. Þannig getur erfðafræðingum þótt ákjósanlegt að birta í Nature, en einnig í Genetics eða PLoS genetics. Þeim er ekki sama upphefð í því að birta í öðrum, lægra skrifuðum erfðafræðitímaritum, og grein þeirra verður ekki lesin af jafn mörgum heldur!

Fyrir fræðimanninn er mikilvægast að þekkja tímaritin á sínu fræðasviði, og vita hvaða tímarit birta forvitnilegustu greinarnar, eru með góða ritstjóra og með víðan og upplýstan lesendahóp.

Ný tímarit eingöngu á vefnum

Síðustu 10 ár hefur orðið sprenging í útgáfu vísindatímarita á vefnum. Gömlu tímaritin voru gefin út af fagfélögum eða stórum útgáfufyrirtækjum, og voru seld í áskrift sem einstaklingar og aðrir borguðu fyrir. Síðan spruttu upp óháð tímarit sem snéru dæminu við. Aðgangur að greinunum var ókeypis, allt á netinu. En kostnaðurinn við útgáfuna var borinn af vísindamönnunum. Í stað fyrir að fólk keypti aðgang að tímariti, þá borgaði það fyrir útgáfu sinnar greinar. Í líffræði byrjað tímaritið PLoS Biology fyrir rúmum 10 árum, og gaf síðan af sér PLoS One. Í því tímariti birtast nú árlega um 3% af öllum vísindagreinum sem birtast í heiminum.

Þessar breytingar hafa eðlilega hreyft við gömlu útgáfuveldunum, sem hafa reynt ýmislegt til að halda stöðu sinni. M.a. að reyna að knýja fram breytingar á lögum um vísindaútgáfu og fleira undarlegt.

Ný tímarit eingöngu til fyrir gróða

En slæmu fréttirnar eru þær að með netinu opnaðist fyrir nýjar leiðir fyrir svindl. Nethrappar reyna að svína á vísindamönnum eins og öðru fólki. Tvennskonar svindl er algengast. Í fyrsta lagi eru gerviráðstefnur, sem vísindamönnum er boðið á með loforði um að þeir fái að kynna niðurstöður sínar. Í öðru lagi eru gervivísindatímarit eða vísindarit með mjög litlar kröfur. Hrappar hafa nýtt sér líkan opinna tímarita og sett upp svikamyllu, eða amk myllu sem framleiðir óhreint mjöl.

Nærtækt dæmi um er þegar íslenska vísindaritinu  Jökli var rænt. Tímaritið er gefið út af Jöklarannsóknarfélaginu, en hrappar settu upp tvær gervisíður til að reyna að hafa fé af fólki.

Ég vill leggja áherslu á að þetta vandamál er ekki bundið við Opinn aðgang, eða eðlileg afleiðing opins aðgangs. Þetta er afleiðing netvæðingarinnar fyrst og fremst. En svona blekkingar sýna okkur líka að vísindamenn eru ginkeyptir og jafnvel fyrir einföldum barbabrellum.

Rannsókn John Bohannan

Vísindablaðamaðurinn John Bohannan birti grein í tímaritinu Science í fyrra, sem heitir Who's afraid of peer review?

Um er að ræða klassíska rannsóknarblaðamennsku, með beitu sem lögð var fyrir ritstjóra og yfirlesrara nokkur hundruð tímarita. Beitan var vísindagrein um rannsókn á áhrifum efnis á vöxt krabbameinsfruma.

Bohannan lagði beitur, með meingöllðum greinum um stórundarlega rannsókn... tilraunir voru ekki með rétt viðmið, niðurstöðurnar misvísandi, túlkanirnar úr öllu samræmi við niðurstöðurnar. Þannig að hæfir ritstjórar og yfirlesarar áttu að geta greint gallana auðveldlega. Greinarnar voru aldrei nákvæmlega eins, skipt var um efnasamband, krabbamein, höfund og stofnun, en í meginatriðum var sagan sú sama. Greinarnar voru skrifaðar á ensku, þýddar með google translate yfir í frönsku, og aftur til baka (verstu agnúarnir sniðnir af, en textinn samt á hrukkóttri ensku). Niðurstaðan var sú að stórt hlutfall greinanna var samþykktur (157 á móti 98 sem var hafnað)#

Mörg tímarit sem virðast vísindaleg eru ekki með raunverulega ritrýni

Ástæðan er sú að mörg þessara tímarita eru ekki raunveruleg vísindarit, heldur svikamyllur eða hreint hálfkák.

En rannsókn Bohannan var ekki gallalaus, sérstaklega vegna þess að tímaritin sem hann sendi til voru ekki handahófskennt valin. Þau voru valin vegna þess að þau eru með opinn aðgang. Þess ber að geta að PLoS One hafnaði grein Bohannans.

Í leiðara Science var "rannsókn" Bohannans túlkuð sem áfellisdómur yfir opnum aðgangi, og opnum tímaritum. Það er röng túlkun. Opinn aðgangur er ekki vandamálið, frekar en að internetið sé vandamálið. Vandamálið er að sumt fólk, jafnvel vísindamenn, fellur fyrir brellum. 

Eins og áður sagði þá borga höfundar fyrir umsýsl og umbrot í opnum tímaritum. En það gleymist einnig að mörg venjuleg tímarit rukka höfunda líka, fyrir umbrot, litmyndir eða prentun (sem getur verið jafn mikið og í opnum tímaritum).

Lokaorð
Skuggahliðar vefsins hafa áhrif á vísindin. Einnig er höfuðáhersla á fjölda birta greina að grafa undan gæðum vísinda á heimsvísu. Það er vandamál sem vísindamenn þurfa að takast á við, og lagfæra áður en skattgreiðendur missa traust á starfi þeirra.

Vísindamenn þurfa að læra á sitt fræðasamfélag. Þeir ættu að senda greinar í tímarit sem eru virt á þeirra sviði. Það er ekki í lagi að senda grein í eitthvað tímarit sem viðkomandi veit ekkert um.

Háskólar þurfa að breyta kerfinu sem þeir nota til að meta "framleiðni" vísindamanna. Eins og áður sagði er við HÍ t.d. punktakerfi sem hvetur vísindamenn til að framleiða greinar, ekki endilega að gera vandaðar rannsóknir.

Almenningur þarf að skilja að vísindagrein er ekki endanlegur sannleikur. Ein rannsókn getur verið röng, en ef margar greinar benda í sömu átt er niðurstaðan líklega rétt.

# Ef greinarnar voru samþykktar, þá sendi Bohannan bréf og dró greinina til baka!

Ítarefni

Arnar Pálsson | 4. mars 2013 Ný opin tímarit á sviði líffræði

Arnar Pálsson | 14. ágúst 2013  Jökli var rænt

Arnar Pálsson | 18. janúar 2012 Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

Ian Dworkin Fallout from John Bohannon's "Who's afraid of peer review"

Arnar Pálsson og Pétur H. Petersen Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda


Gögnin ljúga ekki, hvorki um tamiflu né homeopatíu

Cochrane hópurinn hefur beitt sér fyrir vönduðum yfirlitsrannsóknum á mörgum lyfjum og læknisfræðilegum fyrirbærum. Heimspeki þeirra er að meta tilraunir og gögn með ströngustu gleraugum tölfræðinnar. Það þýðir að bera saman uppsetningu rannsókna, rannsóknarhópa og viðmiðunarhópa, mælistikur og aðra þætti sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar.

Þetta hljómar flókið, af því að þetta er flókið. 

En þetta er einnig ákaflega mikilvægt, því að illa hannaðar eða framkvæmdar rannsóknir eru ekki bara til óþurftar heldur geta þær kostað mannslíf.

Í morgun bárust fréttir af því að Cochrane hópurinn hefði loksins komist í gögn frá Roche lyfjafyrirtækinu um flensulyfið Tamiflu, og fundið út að lyfið standi ekki undir nafni. Ég legg áherslu á loksins, vegna þess að Roche var mjög tregt til að birta niðurstöður prófanna á lyfinu, jafnvel þótt að verklagsreglur krefðust þess.

Fyrir 5 árum hafði heimurinn miklar áhyggjur af fuglaflensufaraldri, og ríkisstjórnir keyptu fjöll af Tamiflu til að bregðast við. Samantekt frá Cochrane hópnum (2008) benti til að Tamiflu drægi úr áhrifum og stytti meðgöngu sjúkdómsins. En þá kom japanski barnalæknirinn til bjargar.

Keiji Hayashi áttaði sig á því að merkið var drifin áfram af gögnum úr einni grein, sem tók saman gögn úr 10 öðrum rannsóknum. Og, þetta er lykilatriðið, 9 rannsóknanna voru innanhús rannsóknir Roche. Það sem í kjölfarið fylgdi var tryllt sauðaleit (wild sheep chase), með ótrúlegum útúrsnúningum af hálfu fyrirtækisins. Eftir tæp 5 ár náðust gögnin úr klóm Roche, og þegar þau voru síðan greind af óháðum aðillum kemur í ljós að efnið mildar ekki áhrif flensunar.

Gögnin afhjúpa líka lygina á bak við hómeopatíu

Í dag birtust einnig fréttir af því að nýleg Áströlsk rannsókn afsannaði fullyrðingar um að smáskammtameðferðir séu nothæfar sem lækningar. Það er í sjálfu sér ekki ný frétt, allar kerfisbundnar og vandaðar rannsóknir á fyrirbærinu hafa komist að sömu niðurstöðu.

Í þessu tilfelli tala gögnin sínu máli, alveg eins og í tilfelli Tamiflu.

En samt lifir mýtan meðal fólks, og því er sannarlega nauðsynlegt að fjölmiðlar fjalli um þessa rannsókn. Ég ætla ekki að ræða smáskammta-þjóðtrúnna frekar hér, en vísa frekar á eldri pistil okkar og Ben Goldacre um sama efni.

Ítarefni:

Arnar Pálsson 19. nóvember 2007 Högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

Arnar Pálsson 17. desember 2012  Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

The Guardian 16. nóvember 2007 Ben Goldacre A kind of magic?

The Guardian 10. apríl 2014. Ben Goldacre  What the Tamiflu saga tells us about drug trials and big pharma

Ben Goldacre - Bad Pharma : review The Telegraph

Carl Elliott -  White Coat, Black Hat

Steindór J. Erlingsson Lyfjafyrirtæki og blekkingar, Fréttablaðið, 26. nóvember, 2009.


mbl.is Milljónum kastað í gagnlaus flensulyf?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað getum við lært af skötum?

Í líffræðináminu lærðum við um byggingu hryggdýra með því að kryfja skötur og aðra fiska. Ástæðan er sú að bygging fiska er töluvert einfaldari en bygging okkar, amk. höfuðbein og lega tauga fremst í líkamanum. Byggingin er lík vegna þess að við og fiskar erum af sama meiði, þ.e.a.s. skyld í gegnum hið gríðarlega þróunartré.

Sameiginlegir forfeður okkar og fiska eru vitanlega allir útdauðir, en það er hægt að skyggnast aftur í tímann með því að finna steingervinga. Neil Shubin, steingervingafræðingur við Chicago háskóla, og samstarfsmenn hans leituðu að fiskinum sem gekk á land. Þeir fóru á staði með jarðlög af réttum aldri (um 375 milljón ára), miðað við þekktar leifar fiska og fyrstu landdýranna, sem reyndist vera á Ellesmere eyju norðarlega í Kanada.

Og viti menn, árið 2000 fundu þeir nokkra steingervinga sömu tegundar, fisks sem gat gengið. Frumbyggjarnir lögðu til nafnið Tiktaalik, og niðurstöður rannsóknanna voru kynntar árið 2006.

Síðan þá hefur Neil Shubin ritað ágæta bók um Tiktaalik og rannsóknir á uppruna dýra og þróun, sem kallast Your inner fish. Bókin var þýdd af Guðmundi Guðmundssyn og kom út hérlendis árið 2010, og kallast Fiskurinn í okkur.

Nú hefur Shubin búið til röð þriggja heimildamynda byggða á bókinni og öðrum rannsóknum, sem sýnd verður á PBS nú í Apríl. Blaðamaður NY Times tók viðtal við hann, og með fylgir athyglisvert myndbrot úr þættinum. Úr því að ég mun fjalla um stórþróun í fyrirlestri föstudagsins, mun ég auðvitað senda nemendum tengil á viðtalið.

Skötur geta ekki grafið upp steingervinga eða kennt læknanemum anatómíu, en það getum við. Við ættum að reyna að nýta hæfileika okkar til að læra á veröldina og auka skilning sambræðar okkar á undrum hennar og dýrð.

Ítarefni:

NY Times 7. apríl 2014. What Fish Teach Us About Us

Fiskurinn í okkur Neil Shubin.

Fyrirlestur Shubin á Youtube


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband