Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Nauðsynlegt að breyta vísindaumhverfi á Íslandi

Í nýlegri erlendri skýrslu er vísinda og nýsköpunarumhverfið á Íslandi metið.

Eitt af því sem plagar kerfið er að við erum með margar og litlar stofnanir, sem treglega vinna saman.

Það myndi heilmikið fást með því að sameina háskóla og rannsóknarstofnanir, samþætta stjórnsýslu og ábyrgð starfsmanna, og sameina í færri einingar.

Það þýðir ekki endilega að leggja niður stofnanir úti á landi, því Danir gerðu þetta fyrir nokkrum árum og héldu virkum starfstöðvum um allt land. 

Vísindafélag Íslendinga hélt fund á föstudaginn um skýrsluna, þar sem Erna Magnúsdóttir og Kristján Leósson ræddu efni hennar. Eftir því sem ég kemst næst var enginn stjórnmálamaður staddur á fundinum, en hluti af ályktun skýrslunar er sú að íslenskir stjórnmálamenn verða að axla ábyrgð og hrinda stefnu vísinda og tækniráðs í framkvæmd.

Í tilefni af fundinum var Þórólfur Þórlindsson til viðtals í Speglinum fyrir helgi. Á vef RÚV segir:

Við verður að taka stofnanauppbygginguna í rannsókna og nýsköpunargeiranum til endurskoðunar því hún er hamlandi, segir prófessor í félagsfræði.

Þótt ekki sé að vænta stóraukinna fjárframlaga til rannsókna og nýsköpunar um þessar mundir má ráðast í brýnar umbætur á stofnanaumhverfinu, einfalda það og efla samvinnu innan rannsóknageirans og milli hans og atvinnulífsins, segir Þórólfur Þórlindsson prófessor í félagsfræði. Vísindafélagið efndi í dag til umræðufundar um nýlega skýrslu um rannsóknasamfélagið þar sem bent er á fjölmargar brotalamir. Þórólfur umbætur óhjákvæmilegar, málið sé of mikilvægt fyrir íslenskt samfélag til að fresta því. Hér má heyra viðtal Jóns Guðna við Þórólf.

Rúv 26. 9. 2014. Umbætur óhjákvæmilegar

Kjarninn Íslenskt, nei takk

 


Fuglaflensuveirur eru algengar

Fuglaflensan og Ebóla hafa vakið athygli heimsins á þeirri ofgnótt sýkla sem býr í villtum dýrastofnum.

Margar veirur eru þeirrar náttúru að þær geta búið á fleiri en einum hýsli. Oftast er sýkingahæfnin þó mest á náskyldum tegundum, með nokkrum undantekningum þó. 

Sumar fuglaflensuveirur geta nefnilega hoppað frá fuglum í menn, en hafa sem betur fer ekki valdið faraldri.

Gunnar Þór hefur tekið þátt í rannsóknum á fuglaflensunni í samstarfi við erlenda sérfræðinga, sbr grein frá árinu 2013 (sjá tengil neðst). Gunnar er forfallinn fuglakall og ötull ljósmyndari. Á vefsíðu hans frá námsárunum má sjá margar laglegar fuglamyndir.

acrdum_skala2

https://notendur.hi.is//~gunnih/rare_birds_2002.html

http://hi.academia.edu/GunnarHallgrimsson


mbl.is Fuglaflensuveirur í íslenskum fuglum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um úttekt á íslenska Vísinda- og nýsköpunarkerfinu - 26. september

Umræðufundur Vísindafélags Íslendinga um úttekt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á íslenska Vísinda- og nýsköpunarkerfinu

Dagsetning: Föstudagur 26. Sept. kl. 12:10 - 13:00
Staðsetning: Fyrirlestrarsalur Þjóðminjasafns Íslands

Frummælendur:
Dr. Erna Magnúsdóttir, rannsóknasérfræðingur
Dr. Kristján Leósson, framkvæmdastjóri

Fundarstjóri: Þórarinn Guðjónsson, prófessor

Ágrip
Þann 29. ágúst var kynnt á Rannsóknaþingi Vísinda- og tækniráðs ný úttekt á íslensku vísinda og nýsköpunarumhverfi sem gerð var af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að beiðni íslenskra stjórnvalda. Skýrslan sem ber heitið “Peer review of the Icelandic Research and Innovation System: Time to take responsibility and act!” er mjög opinská um aðstæður í íslensku vísinda og nýsköpunaruhverfi. Þar vegur einna þyngst gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir langvarandi aðgerðarleysi í málefnum vísinda og nýsköpunar þar sem kallað er eftir pólitískri ábyrgð og aðgerðum á þeirri stefnumörkunarvinnu sem unnin er á vegum Vísinda - og tækniráðs. Skýrslan bendir á marga veika punkta í íslenska kerfinu, þar sem meðal annars er bent á að samkeppnissjóðir séu of veikir, of lágt hlutfall af heildarfjármagni sem rennur hér til vísinda og að styrkupphæðir úr þeim séu of lágar. Jafnframt er stofnanakerfið gagnrýnt, hvatt til sameiningar stofnana og einföldunar á kerfinu til þess að gera samvinnu auðveldari. Að lokum er lögð áhersla á það að mæla þurfi skilvirkni og framleiðni í kerfinu og staðreyna sífellt árangur af stefnumótunarvinnu. Höfundar skýrslunnar setja jafnframt fram tillögur til úrbóta ásamt forgangsröðun á tillögum þeirra. Við munum fara yfir helstu atriði skýrslunnar, sem enn hefur ekki komið út opinberlega, og að lokum verða umræður um skýrsluna.

Ráðgáta lífsins í Morgunblaðinu

Ef líf eyðist á jörðinni myndi það alltaf kvikna aftur?
 
Svo spurði Kolbrún Bergþórsdóttir Guðmund Eggertsson í viðtali sem birtist í Morgunblaði helgarinnar. Tilefnið er ný bók Guðmundar, Ráðgáta lífs sem Bjartur gefur út. Þar fjallar Guðmundur um sögu erfðafræðinnar og um uppruna lífsins, sem og aðrar ráðgátur lífs og líffræði.
 
Guðmundur svaraði spurningunni fyrst á þá leið, "[þ]að er ómögulegt að segja og alls ekki víst. Við vitum ekki við hvaða aðstæður líf kviknar".

radgata_frontur-120x180.jpg

Viðtalið er harla fróðlegt. Kolbrún spyr Guðmund út í sögu hans og ferill, en hann var einmitt fyrsti kennarinn sem ráðinn var til líffræðiskorar Háskóla Íslands.

Kolbrún spurði einnig um aðstöðu til rannsókna þegar Guðmundur tók til starfa. Hann svaraði:

"Aðstæður til rannsókna voru bágbornar fyrstu áratugina en fóru smaám saman batnandi."

"Ég vissi að það yrði stórt stökk og erfitt að fara aftur til Íslands því þar voru engar aðstæður til vísindarannsókna á mínu sviði"

Guðmundur og aðrir forkólfar byggðu upp grunnrannsóknir í sameindalíffræði við HÍ, og síðar aðrar stofnanir hérlendis. Aðstaðan hefur batnað til muna, en er samt að mörgu leyti ófullnægandi því takmarkaður skiliningur er á sérstöðu tilraunavísinda og sameindalíffræði.

Ég hvet fólk til að lesa viðtalið við Guðmund, því miður er það aðeins opið áskrifendum Morgunblaðins en blaðið má e.t.v. finna á bókasöfnum eða betri kaffistofum landsins.

Ítarefni:

Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við Guðmund Eggertsson (Morgunblaðið 20. september 2014).

Stórar og heillandi spurningar

Dr. Guðmundur Eggertsson erfðafræðingur stundaði lengi rannsóknir erlendis og síðan hér heima. Hann átti þátt í að byggja upp og móta námsbraut í líffræði við Háskóla Íslands.

Kjarninn í aðgerðarleysi ríkisins

Við höfum oft rætt um skort á heildarsýn í rannsóknar og nýsköpunarkerfi í Íslands.

Ríkið fékk erlenda sérfræðinga til að meta stöðuna og kerfið, og þeir skiluðu af sér í sumar. Niðurstaðan er svo svakaleg að ríkið kýs að sitja á skýrslunni, amk um stundarsakir.

Kjarninn fjallar um málið og segir:

Íslensk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd fyrir langvarandi aðgerðarleysi í vísinda-, tækni- og nýsköpunarmálum í svartri skýrslu sem unnin var af þremur erlendum sérfræðingum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Stjórnvöld eru hvött til að axla ábyrgð á málaflokknum og framfylgja metnaðarfullri stefnu Vísinda- og tækniráðs.

Skýrslan var kynnt á Rannsóknarþingi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í lok ágúst. Til stóð að gera hana opinbera í kjölfarið, en samkvæmt heimildum Kjarnans var ákveðið í Vísinda- og tækniráði að fresta birtingu skýslunnar opinberlega. Kjarninn hefur skýrsluna undir höndum og birtir hana í heild sinni í nýjustu útgáfu Kjarnans.

Íslenskt, nei takk.

Rætt verður um skýrsluna á fundi Vísindafélagsins 26. sept. 2014

Umræðufundur Vísindafélags Íslendinga um úttekt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á íslenska Vísinda-­og nýsköpunarkerfinu

Frummælendur: Dr. Erna Magnúsdóttir, rannsóknasérfræðingur

Dr. Kristján Leósson, framkvæmdastjóri

Fundarstjóri: Þórarinn Guðjónsson, prófessor

Dagsetning: Föstudagur 26. Sept. kl. 12:10 - 13:00

Staðsetning: Fyrirlestrarsalur Þjóðminjasafns Íslands

 


Nýr náttúrufræðingur

nf_84_1-2_fors.pngNáttúrufræðingurinn er kominn út, þ.e.a.s. tölublöð 1 og 2 fyrir árið 2014.

Meðal efnis eru greinar um Loðnu, um Hallmundarkviðu og árstíðabundna elda hérlendis.

Örnólfur Thorlacius skrifar sérlega athyglisverða grein um kynhneigð dýra.

Efnisyfirlit heftisins má nálgast á vef Náttúruminjasafns Íslands.

Ólafur K. Pálsson, Ástþór Gíslason, Björn Gunnarsson, Hafsteinn
G. Guðfinnsson, Héðinn Valdimarsson, Hildur Pétursdóttir, Konráð Þórisson, Sólveig R. Ólafsdóttir og Sveinn Sveinbjörnsson -
Meginþættir í vistkerfi Íslandshafs og breytingar á lífsháttum loðnu. Bls. 4.

Þröstur Þorsteinsson -  Árstíðabreytingar í tíðni gróðurelda á Íslandi. Bls. 19.

Árni Hjartarson - Hallmundarkviða, eldforn lýsing á eldgosi. Bls. 27.

Örnólfur Thorlacius - Sérstök kynhegðun dýra. Bls. 38.

Kjartan Thors og Guðrún Helgadóttir - Hryggir í Lónsdjúpi. Bls. 43.

Konráð Þórisson - Um orðanotkun tengda fyrstu stigum þroskunar hjá fiskum. Bls. 49.

Arnar Pálsson - Stefnumót skilvirkni og breytileika:snertiflötur þroskunar og þróunar. Bls. 53.

Ævar Petersen - Svartþröstur aðstoðar við hreiður skógarþrasta. Bls. 61.

Mnningaorð: Guðmundur Páll Ólafsson. Bls. 65.

Ritfregn: Tilviljun og nauðsyn. Bls. 72.

Skýrsla um HÍN fyrir árið 2013. Bls. 74.

Reikningar HÍN fyrir árið 2013. Bls. 77.


Stefnumót skilvirkni og breytileika - snertiflötur þroskunar og þróunar

Í aldanna rás hafa náttúruunnendur og fræðimenn heillast af margbreytilegum formum, atferli og lífsháttum ólíkra tegunda. Árið 1858 færðu Charles Darwin og Alfred Wallace rök fyrir mikilvægi náttúrulegs vals í mótun og viðhaldi fjölbreytileika lífvera. Kenningin um þróun vegna náttúrulegs
vals útskýrir samt ekki efnislegar rætur breytileikans; hvernig svartbakar þroskast og krónublöð sólblómanna taka sitt nákvæma form. Eiginleikar lífvera mótast af erfðum, umhverfi og tilviljun. Arfgerð einstaklings í viðeigandi umhverfi leiðir af sér svipgerð í gegnum flókið og fjölþætt ferli sem kallast þroskun. Hér verður fjallað um grundvallaratriði þroskunar og hvernig þau tengjast þróun lífvera. Greinin er þannig uppbyggð að fyrst eru svipfar og erfðir skilgreind, og samspil þeirra og umhverfisins rædd. Síðan verða lögmál þróunar útlistuð. Þroskun er kynnt sérstaklega, og samspil hennar við þróun, t.d. út frá vexti og sérhæfingu fruma. Einnig verður fjallað sérstaklega um örlagakort þroskunar og varðveislu þroskunarferla sem afhjúpa skyldleika lífvera. Að endingu verður rætt um hvernig þróun getur notað breytileika í þroskun, þrátt fyrir að þroskunin sé mjög stöðug.

------------------

ArfleifdDarwins kapa3Þetta er upphaf greinar sem ég skrifaði fyrir Náttúrufræðinginn, sem kom út nú í vikunni. Reyndar hófust skrifin árið 2009 þegar við nokkrir líffræðingar stóðum fyrir fyrirlestraröð um Darwin og útgáfu rigerðarsafns honum til heiðurs. Grein þessi var ekki tilbúin í tíma og varð því ekki hluti af Arfleifð Darwins, þ.e.a.s. bókinni sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Í hefti Náttúrufræðingsins eru fjöldi áhugaverðra greina, og þegar efnisyfirlitið kemur á vefinn munum við endurprenta það hér.


Fögnum degi íslenskrar náttúru

16. september er dagur íslenskrar náttúru. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá um allt land og allir eru hvattir til að njóta náttúru lands og sjávar á ábyrgan hátt.

Yfirskrift dagsins í ár er hreint land - fagurt land, og er áherslan á bætt umgengni um náttúruna. Reyndar mætti segja að umgengni yfir höfuð mætti vera betri. Eftir að hafa ferðast um Ameríku í sumar, þá blöskraði mér ruslið í Reykjavík og annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu.  Sígarettustubbar, tyggjóklessur, plast og pappír um allt.

a_160.jpg

Í dag hvet ég alla til að skoða og velja eitthvað spennandi að skoða af þeim fjölmörgu viðburðum sem eru í boði. Hér að neðan eru bara nokkur atriði af höfuðborgarsvæðinu, en listinn í heild er aðgengilegur á vef Umhverfisráðuneytisins.

---------------------------------

10:00 - 19:00 Kópavogur Náttúrufræðistofa Kópavogs býður á sýninguna „Þríhnúkagígur og hraunhellar á Íslandi“ þar sem fjallað er um hella og umgengi fólks um þá, með áherslu á Þríhnúkagíg. Starfsmenn verða á staðnum til leiðsagnar og umræðu um umgengi og verndun vinsælla ferðamannastaða. Sýningin verður opin út október. Nánari upplýsingar.

12:15 Garðabær Náttúrufræðistofnun Íslands býður til hádegisgöngu um hraunið í nágrenni stofnunarinnar undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Ásrúnar Elmarsdóttur plöntuvistfræðings. Mæting er við hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Áætlað er að gangan taki um 45 mínútur. 

13:00 Reykjavík Hátíðarsamkoma umhverfis- og auðlindaráðherra á Umhverfisstofnun við Suðurlandsbraut. Afhending fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti.

14 - 17 Reykjavík Skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í gömlu Loftskeytastöðinni að Brynjólfsgötu 5 verða opnar almenningi milli kl. 14 og 17. Gestum býðst að skoða þetta glæsilega hús og forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Hilmar J. Malmquist, spjallar við gesti um forsögu og framtíðarhorfur höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða.

17:00 Mosfellsbær Mosfellsbær, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosverjar bjóða til skógargöngu og grillveislu fyrir alla fjölskylduna við Hafravatn. Hjólað er frá miðbæjartorgi Mosfellsbæjar kl. 17 að Hafravatni eftir malarvegi. Skógargangan leggur upp frá Hafravatnsrétt kl. 18. Grillveisla að lokinni göngu við Sumargerði, hús Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hafravatn. Allir velkomnir. Nánari upplýsingar

17:30 Reykjavík Fuglavernd býður til fuglaskoðunar í kirkjugarðinum í Fossvogi.  Skoðaðir verða glókollar og jafnvel barrfinkur og krossnefi. Þó þessi fuglar séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu. Krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  Mæting á bílastæðið við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna. Nánari upplýsingar.

--------------------

Mynd af mosa ofan á Esjunni - AP.


mbl.is Draga þarf úr sóðaskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgáta lífsins á öldum ljósvakans

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Ráðgáta lífsins ræddi Hanna G. Sigurðardóttir við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014. Viðtalið var kynnt á vef RÚV með þessum orðum:

Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það sem við köllum líf ? Og hvernig er hægt að skilgreina líf út frá efnasamsetningu og ferlum ? Þessar stóru spuringar eru meðal þeirra sem sameindalíffræðingar glíma við.

Í bókinni Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson erfðafræðing er gerð grein fyrir kenningum ýmissa fræðimanna sem komið hafa fram um lausn þessarar gátu, en við henni hafa enn ekki komið fram svör sem sátt ríkir um. Meðal hugmynda er meðal annars tilgáta um að elding hafi verið hvatinn sem gerði að verkum að ólífrænt efni breyttist í líf. Samkvæmt annarri er reiknað með að lífrænt efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum. 

radgata_frontur-120x180.jpgHægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV, Samfélagið miðvikudaginn 10. september 2014.


Háskólaráð ósátt við fjárlög

Drög til fjárlaga voru kynnt í vikunni. Það er ánægjulegt að sjá að fyrri áætlanir um niðurskurð til samkeppnissjóða verða ekki framkvæmdar. Í staðinn á að efla stuðning við samkeppnis- og tækniþróunarsjóði og í nýsköpun, þótt að ég viti reyndar ekki alveg hversu mikið eða nákvæmlega hvernig fénu verður dreift á milli sjóða og eininga.

Hins vegar er áhyggjuefni að stuðningur við Háskólastofnanir er enn frekar rýr. Háskólar hérlendis fá ekki með nándar nærri sambærilegt fjármagn og háskóla á norðurlöndum.

Háskólaráð Háskóla Íslands ályktaði að þessu tilefni og kallaði eftir frekari skilningi og stuðningi alþingismanna. 

Í ályktun Háskólaráðs segir:

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að fylgt verði ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð HÍ varðandi stefnumótun um fjármögnun til ársins 2020. Vinna við stefnu um fjármögnun 2015-2020 átti skv. samningnum að hefjast á haustmisseri 2013. Háskólaráð leggur ríka áherslu á að ekki verði frekari tafir á að viðræður hefjist.

Einkar mikilvægt er að standa vörð um árangur Háskóla Íslands og tryggja að skólinn geti áfram lagt sitt af mörkum til þekkingarsköpunar í nýjum og eldri atvinnugreinum í þágu íslensks samfélags. Á undanförnum árum hefur Háskóla Íslands þrátt fyrir allt tekist að treysta stöðu sína á meðal hinna bestu í harðri alþjóðlegri samkeppni eins og fram hefur komið á matslista Times Higher Education World University Rankings. Hafa ber í huga að staða Háskóla Íslands á listanum byggir að hluta á árangri í vísindum á árunum fyrir hrun og eru áhrif niðurskurðar fjárveitinga til skólans því ekki komin fram að fullu.

Öflugur og traustur háskóli er grundvöllur framtíðar hagvaxtar á Íslandi eins og í öðrum löndum. Þeir háskólar sem bestum árangri ná eru í löndum þar sem fjárframlög hafa verið aukin markvisst til að styrkja samkeppnishæfni viðkomandi ríkja.

Það er sannarlega gott að leggja áherslu á mikilvægi grunnrannsókna fyrir þjálfun fólks og nýsköpun, og þar með efnahagslíf þjóðarinnar. 

En menntun er einnig mannbætandi, og þegar vel tekst til, hjálpar hún fólki að takast á við fordóma sína og samfélagsins, færa umræðu upp á hærra stig og yfirstíga margvíslegar samfélagslegar forneskjur.

Vísindi eru ekki svarið við öllum vandamálum mannkyns. Heimspeki upplýsingarinnar og vilji okkar til að bæta samfélagið og tilvist mannfólks eru einnig mjög nauðsynleg hráefni.


mbl.is Hefur þungar áhyggjur af fjárveitingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband