11.12.2009 | 11:17
Mildari en áður var talið
Viðvörun: Ég reyni yfirleitt að hafa pistlana stutta og markvissa en kaus nú að setja nokkra punkta saman í einn langhund.
Greint var frá því nú í vikunni að dánartíðni af völdum H1N1 (svínaflensu) er lægri en talið var (um 26 af hverjum 100000 sem sýkjast deyja). Þetta er lægra en talið var.
Svínaflensan hefur náð athygli fréttamanna og þar af leiðandi fólks. Það hefur gætt ákveðinnar hjarðhugsunar hjá blaðamönnum, þeir tína upp allar fréttir af svínaflensu, því ýktari því prentvænni.
Þetta er greinilega veikleiki fjölmiðlunar. Annað birtingarform er ofuráhersla á losun kolefnis í umræðu um umhverfismál (í umhverfismálum skipta vígstöðvarnar þúsundum, frá verndun óspilltrar nátturu, vatnsvernd, rykmengun, endurvinnslu, verndun sjávar, losun ósoneyðandi efna o.frv.). Því miður er það eðli frétta (eða eðli fólks) að slæmar fréttir ferðast víðar en góðar fréttir. Það gildir einu hvort fréttirnar séu rangar eða réttar. Nýlegt dæmi um slæma frétt sem reyndist röng var sú fullyrðing the Sunday Express að bólsetning við HPV hefði leitt til krabbameins (Jabs as bad as the cancer). Sú frétt var bull, en leiðréttingin fékk ekki nærri jafn mikla lesningu og upprunalega slæma fréttin (And now, nerd news).
Hér höfum við rætt líffræði H1N1 veirunnar, (t.d. mikilvægi þess að rannsaka nýjar pestir Svínahvað og hróp um úlf, Fljúgandi píanó veiran), og þróun veirunnar, sem MUN breytast vegna stökkbreytinga (Ó nei stökkbreyting) og aðlagast mannkyninu (líklegast er að veiran verði vægari eftir því sem á líður). Inflúensu veirur stunda nefnilega einhvers konar kynæxlun, þegar tvær útgáfur af veirunni sýkja sömu frumur getur orðið endurröðun á erfðaefni og nýjar samsetningar orðið ti. Víkjum aftur að líffræði H1Ni síðar.
Svínaflensan hefur einnig náð athygli fólks sem hefur efasemdir um notagildi bólusetninga almennt, þeirra sem halda að veirur séu framleiddar af lyfjafyrirtækjum, manna sem efast um hefðbundin læknavísindi í heild sinni og fólks sem trúir því að bandaríkjaher vilji setja örflögur inní fólk og fylgjast með því. Hér skal tekið fram að þetta er misleitur hópur, t.d. eru samsæriskenningarnar margvíslegar og fjölbreyttar (sjá t.d. athugasemdir við Bólusetningamýtur á visindin.is).
Sumir víla ekki fyrir sér að hvetja aðra til að bólusetja ekki börnin sín. Þetta virkar á mig sem "AIDS-denialism" sem Thabo Mbeki predikaði í Suður-Afríku (forseti landsins trúði því ekki að HIV veiran ylli alnæmi og sannfærði fólk um að hætta á lyfjum, sem er talið hafa leitt til dauða 300000 manns).
En inn á milli leynast góðir punktar. Í athugasemdum við Bólusetningamýtur á visindin.is var Magus að velta fyrir sér samsæriskenningu:
Nu gaetu sumir haldid ad thad gaeti verid haettulegt ad throa virusa til ad finna boluefni gegn theim. -Gaeti ekki ordid slys og virusanrnir sloppid og valdid faraldri? (Eins og hefdi getad gerst med Baxter i fyrra).......Med thad i huga, tha nefni eg ad Miltisbrandsfaraldurinn i Bna 2001 gerdist einmitt thannig....slapp af herstod hja theim.
SKildirdu thu ekki hvad eg er ad fara? Fyrst eru virusarnir hannadir, og stuttu seinna haetta a faraldri....
Við skiptumst á nokkrum athugasemdum, ég svaraði meðal annars
Ég held að við deilum tortryggni á starfsemi stórra fyrirtækja, en ég er samt ekki tilbúinn að gleypa allar tilgátur um samsæri sem stungið er upp á.
....
Fyrirtækin og vísindamennirnir sem þróa bóluefni er í stanslausu vígbúnaðarkapphlaupi við veirurnar. Þú veist ekki hvaða stökkbreytingar verða á veirunni, eða hvort einhverjar gerðir endurraðist og myndi nýjar útgáfur (eins og svínaflensuveiruna).
Fyrirtækin verða því að vera á nálunum, safna veirum inn á tilraunastofuna og fylgjast náið með nýjum veirum sem koma upp.
Það er hægt að rekja uppruna veira með því að skoða erfðabreytileika í þeim og stundum mun í fjölda gena.
Ég hef aldrei séð nein gögn sem sýna að svínaflensan sé upprunin á tilraunastofu.
Þá benti Magus mér á grein sem miðaði að því að meta tilgátur um uppruna H1N1.
From where did the 2009 'swine-origin' influenza A virus (H1N1) emerge? Adrian J Gibbs , John S Armstrong and Jean C Downie Virology Journal 2009, 6:207doi:10.1186/1743-422X-6-207 Published: 24 November 2009 Abstract (provisional)
Gibbs og félagar skoða gen svínaflensuveirunnar og bera saman við raðir sem finnast í gagnagrunnum. Þeir byggja sem sagt þróunartré fyrir hina mismunandi hluta erfðamengisveirunnar (sjá t.d. mynd hér til hliðar - Mynd 1 í greininni).
Þeir ræða nokkrar tilgátur um uppruna veirunnar, i) að þær séu afurð endurröðunar þriggja veira í nátturunni og ii) að veiran hafi orðið til á tilraunastofu og sloppið út. Með orðum Gibb og félaga...
Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja er ekki mögulegt að skilja á milli þessara tilgáta. Það eru nokkur dæmi um að veirur sleppi út af tilraunastofum, og það er mýmörg dæmi um veirur sem verða til náttúrulega.
Two contrasting possibilities have been described and discussed in this commentary, but more data are needed to distinguish between them. It would be especially valuable to have gene sequences of isolates filling the time and phylogenetic gap between those of S-OIV and those closest to it.
Dómurinn er semsagt ennþá úti varðandi uppruna H1N1. Mér finnst ólíklegt að veiran hafi orðið til á tilraunastofu, og sérstaklega ólíklegt að eitthvað fyriræki hafi hannað veiruna og sleppt henni síðan í gróðaskyni.
Það hlýtur að vera erfitt fyrir leikmenn að greina á milli raunverulegra og mistúlkaðra pistla og athugasemda í bloggi, á fésbókinni eða Twitter. Þess vegna skiptir máli að kenna vísindalæsi, og að fréttamiðlar ráði fólk sem kann að miðla ekki bara niðurstöðum vísindarannsókna heldur sem kynni fólk einnig fyrir aðferð og heimspeki vísinda. Fréttamiðlar sem standa sig vel á þessi svið ávinna sér traust og fólk getur leitað til þeirra um áreiðanlegar upplýsingar.
Þekkingarleitin er meiriháttar ævintýri, á slóðir hins ókunna og framandi, og aðferð vísinda hjálpar okkur að vega og meta tilgátur og útskýringar á fyrirbærum...eins og uppruna H1N1.
Ítarefni
Sarah Boseley Swine flu pandemic 'less lethal than expected' the Guardian 10. des. 2009.
Sarah Boseley Mbeki Aids denial 'caused 300,000 deaths' the Guardian 26. nóv. 2009
![]() |
Bólusett á ný í næstu viku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.12.2009 | 14:00
Síðasti Darwin dagurinn
Haustið 2009 efndum við* til Darwin daganna 2009. Um var að ræða röð fyrirlestra um þróun lífsins, Charles Darwin, fjölbreytileika lífsins, uppruna þess og sögu jarðar.
Tilefnið er sú staðreynd að árið 2009 eru 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár síðan Uppruni tegundanna kom út.
Meðal fyrirlesara voru Peter og Rosemary Grant sem hafa rannsakað finkurnar á Galapagos, Joe Cain sem fjallaði um rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins og Linda Partridge sem fjallaði um hina nýja líffræði öldrunar.
Einnig fluttu margir innlendir vísindamenn erindi, hvert öðru skemmtilegra. Það fer að styttast í tilfinningaflauminn, óhjákvæmilegur þegar lokað er á skemmtilega kafla, en hann verður að bíða til sunnudags.
Síðasti fyrirlesturinn í röðinni verður nefnilega næstkomandi laugardag 12. desember (kl 13 í Öskju, náttúrufræðhúsi HÍ).
Snæbjörn Pálsson mun fjalla um ráðgátuna um þróun kynæxlunar.
Lífverur sem stunda kynæxlun senda bara helming af erfðaefni sínu í hvert afkvæmi, á meðan lífverur sem stunda kynlausa æxlun senda afrit af öllu sínu erfðaefni í hvert afkvæmi.Ef þú fjárfestir jafn mikið í hverju afkvæmi þá virðist það vera "þróunarfræðileg heimska" að æxlast með kynæxlun.
Samt sem áður er kynæxlun ríkjandi form fjölgunar meðal heilkjörnunga (bakteríur eru ekki til umræðu hér, þær eru sér kapituli), og tegundir sem leggja stund á kynlausa æxlun virðast ekki endast í þróunarsögunni (þær deyja frekar út en tegundir sem ástunda kynæxlun).
Snæbjörn mun ljúka Darwin dögunum 2009 með því að leysa ráðgátuna um kynæxlun í eitt skipti fyrir öll.
* Við erum Arnar Pálsson, Bjarni K. Kristjánsson, Guðbjörg Á. Ólafsdóttir, Hafdís H. Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steindór J. Erlingsson. Við nutum ráðgjafar Einars Árnasonar og Sigurðar S. Snorrasonar.
Mynd er af plakati Darwin daganna 2009, hannað af Bjadddna Helgasyni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2009 | 09:12
Torfa fiskifræðinga
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2009 | 10:56
Evolution of sex
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó