Leita í fréttum mbl.is

Að hugsa með höndunum

Rithönd mín er með þeim hroðalegri, en engu að síður vil ég trúa því að það sé fólki gott að rita á blað. Því miður get ég ekki rökstutt þá afstöðu mína með fræðilegum rökum.

Nokkur atriði koma samt upp í hugann. Í fyrsta lagi eru hendur mannfólks eru mjög merkilegir líkamshlutar. Hjá ferfættum ættingjum okkar er framfætur að mestu notaðir til göngu, undantekningar væru t.d. kengúrur og ísbirnir sem beita þeim sem vopnum eða moldvörpur sem brúka þær til graftrar.

Eftir að forfeður okkar losuðu um tak framlimanna á jörðinni fóru þær að nýtast þeim til margra annara hluta, klifurs, burðar, feldhreinsunar og snertingar. Í kjölfarið þróaðist hönd, sem er eitt fjölhæfasta verkfærið jörðinni.

Ég verð að viðurkenna að ég er enginn taugasérfræðingur en samkvæmt vefsíðu Eric H. Chudler við Washington Háskóla - Brain Facts and Figures eru þó nokkrar taugar í höndinni.

Number of tactile receptors in the hand = 17,000
Density of receptors on finger tips = 2,500 per cm2
Density of Meissner's corpuscles on finger tips = 1,500 per cm2
Density of Ruffini's corpuscles on finger tips = 75 per cm2

Þroskun hreyfigetu og skynjunar er tengd æfingu og notkun. Mig grunar að heili þeirra sem nota hendurnar á margvíslegan hátt þroskist betur/hraðar en ella, en hef ekkert fyrir mér í því nema hugboð.

Í öðru lagi eru skrif afleiðing mjög sérstaks samstarfs handar og hugar. Blessaður kollurinn þarf að setja saman setningu og höndin að setja hana á blað. Hvorutveggja er vandaverk.

Sem kennari finnst mér bera meira á því að fólk eigi í erfiðleikum með það að setja saman almennilegan texta, bæði í styttri svörum og sérstaklega í því sem eiga að heita ritgerðir á prófum. Eitt af því mikilvægasta sem nemendur eiga læra í skólum er að miðla af þekkingu sinni og nýjum hugmyndum á sem skýrastan hátt.* Ég hvet alla námsmenn til að leggja metnað í sín skrif, og endilega að æfa sig með því að skrifa pistla, smásögur, sendibréf og jafnvel blogg. Lesið ritgerðir annarra og leiðréttið, og fáið aðra til að lesa ritgerðirnar ykkar!

Í þriðja lagi. Auðvitað getur fólk skrifað góðar ritgerðir, bækur og pistla án þess að hafa lag á penna. En hví vill ég að fólk haldi í pennann? Mér finnst of margir veigra sér við því að tjá hugsanir með myndum. Myndir segja meira en þúsund orð, er tugga með heilmikið sannleiksgildi. Í minni vinnu er augljóst að heilmikil heilabrot sparast með því að teikna mynd. Til að lýsa starfsemi hjartans og mismunandi hluta þess þarf heila síðu í bók, en einföld mynd nær því fyllilega og meiru til. si1635

Myndræn líkön eru frábær tæki til miðlunar, og því finnst mér mikilvægt að fólk rækti samband sitt við blaðið og blýantinn.

Ætli það sé ekki mitt síðasta hálmstrá. Góðar stundir.

Mynd af vefnum http://www.aurorahealthcare.org.

Skyldur pistill: Að tigna forheimskuna

* Ætli þessi bloggsíða sé ekki tilraun mín til að þjálfa þessa eiginleika hjá sjálfum mér, sem sagt, skotleyfi hefur verið veitt.


mbl.is Rithöndin á undanhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig langar að minna á að það er ýmislegt fleira hægt að gera með höndunum en það sem felur í sér pappír og penna. T.d. búa til ýmsa hluti: prjóna, sauma, smíða, skrúfa, tálga, móta o.s.frv. Og vinna ýmis verk: moka, bursta, skera o.s.frv.

Sjálf verð ég að játa að ég handskrifa lítið núorðið. Þó fékk ég oft hrós sem barn fyrir fallega rithönd.

Eyja M. Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 13:38

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Eyja fyrir góðan punkt.

Vera má að prjónaskapur komi okkur til bjargar. Ég fékk samt alltaf í lúkurnar af því, og það var ekki bara kuldanum í plastverksmiðjunni að kenna.

Það er líka rosalega gaman að leira.

Arnar Pálsson, 15.3.2010 kl. 14:59

3 Smámynd: Einar Steinsson

Þetta atriði með að lyklaborðið fari líka, er ekki nóg skvaldur á skrifstofum þegar fólk er að tala í símann þó að ekki bætist við að fólk sé að tala við tölvuna líka. Fyrir utan að það er ekki endilega víst að öðrum komi neitt við hvað verið er að "skrifa". Sé ekki að lyklaborðið sé á útleið strax.

Einar Steinsson, 15.3.2010 kl. 16:14

4 Smámynd: Vendetta

Ég er alveg sammála. Mér finnst að þegar danskir "sérfræðingar" við stofnun sem er með getspár um framtíðina fara á egótripp, eigi fólk einfaldlega að loka eyrunum. Því að þeir vita ekkert meira um hlutina en fólk almennt, sér í lagi vita þeir minna en ekki neitt um framtíðina.

Í Danmörku er urmull af fólki sem hefur enga hagnýta menntun, sem titlar sig "medieforsker" og "valgforsker" eða eins og þessi Paludan "fremtidsforsker". Þeir líta á sig sem sérfræðinga og tekst að blekkja fjölmiðla með skvaldri sem er ekkert merkilegra en almennar skoðanir venjulegs fólks.

Þetta lið er á launaskrá hjá hinu opinbera og er í því sem atvinnulífið kallar "nulforskning" (núllrannsóknir) því að "rannsóknir" þeirra er ekki hægt að nota í neitt.

Auk þess eru þeir alltaf fengnir í viðtal á dönskum sjónvarpsstöðvum til að segja sitt almenna álit á einhverju. Til dæmis "sérfræðingur" í kosningum (valgforsker), sem kemur í stúdíóið og lætur hafa eftir sér, að sá eða sú sem er formaður stærsta flokksins eftir kosningarnar og sem drottningin biður um að mynda ríkisstjórn, verður forsætisráðherra. Eða að "sennilega munu sumir flokkar tapa fylgi, en á hinn bóginn munu aðrir flokkar auka fylgi sitt". Og þáttastjórnandinn fellur næstum í dá yfir þessari speki.

Móallinn er: Aldrei að hlusta á menn sem telja sig vita meira en aðrir um framtíðartækni, nema að þeir vinni sjálfir við tækniþróun. 

Vendetta, 15.3.2010 kl. 16:58

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Einar

Maður hlýtur að verða hás eftir að hafa lesið inn 30 síður af efni.

Lyklaborðin eru ekki á útleið.

Vendetta

Takk fyrir skemmtilegt innslag.

Dáleiddi þáttastjórnandinn er líkast til bara feginn yfir því að einhver sé að tala við myndavélina.

Núllrannsóknir er tvímælalaust orð vikunar.

Arnar Pálsson, 15.3.2010 kl. 17:45

6 Smámynd: Vendetta

Ég vil bæta því við, að Peter Paludan hefur próf í stjórnmálafræði, en hefur enga tæknilega menntun og er þess vegna í engu standi til að staðhæfa eitt eða neitt um lyklaborð framtíðarinnar. Það eina sem getur komið í staðinn fyrir lyklaborð er þráðlaus hugsanaflutningur frá heila til tölvu og það er nú svo langt í að það verði fullþróað, að það verður sennilega ekki með núverandi útgáfu af mannkyni.

Vendetta, 15.3.2010 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband