Leita í fréttum mbl.is

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni

Í stórbrotnum sagnabálki um Barbapabba segir m.a. frá því þegar fólkið á jörðinni hafði þrengt að villtum dýrum, með veiðum, húsbyggingum og eiturspúandi verksmiðjum að Barbapabbi og fjölskylda flúðu hnöttinn með öll dýrin á jörðinni í leit að betri heimi. Þau settust að á litlum hnetti, þangað til jarðarbúar sáu að sér, lögðu af verksmiðjurnar, brutu upp malbikið og endurheimtu búsvæði dýranna.

Sagan var auðvitað til þess fallin að vekja athygli barna og foreldra þeirra á því hvernig nútíma lifnaðarhættir ganga á auðlindir jarðar og eyða lífríkinu. Í alvörunni getum við ekki treyst á að Barbapabbi bjargi lífinu á jörðinni, við verðum að gera það sjálf.

Við höfum, beint eða óbeint, valdið útdauða fjölda dýra og plöntutegunda. Richard Owen áttaði sig á því að loðfílar höfðu einu sinnig búið á jörðinni og síðan dáið út - og kom þannig fram með hugmyndina um útdauða (extinction). Vitað er að í Norður Ameríku voru margar tegundir stórra dýra sem hurfu eftir að maðurinn kom yfir Beringeiðið, og íslendingar vita flestir hvað varð um Geirfuglinn*. Mörg dýr eru í útrýmingarhættu eða standa höllum fæti (sjá t.d. Red list). Líffræðileg fjölbreytni minnkar þegar dýr og plöntur deyja út, en einnig þegar stofnar minnka eða búsvæði breytast.

Spurningin er, hvað getum við gert í málinu?

Hópur breskra vísindamanna stofnuðu frostörkina (Frozenark), sem síðasta vígi fyrir þau dýr sem eru í sem mestri útrýmingarhættu. Hugmyndin er að frysta frumur úr dýrum sem eru í alvarlegri útrýmingarhættu, með þá von í brjósti að hægt verði að klóna þau í framtíðinni. Það er möguleiki að flytja kjarna inn í virkjað egg, eins og var gert þegar kindin Dolly var búin til eða að búa til stofnfrumur úr lífsýnum úr næstum því útdauðum dýrum, sem síðan væru hvataðar til að mynda fósturvísa.

Næsta þrep væri að setja fósturvísa í staðgöngumæður, og vona að allt fari vel. Staðgöngumóðirin er flöskuhálsinn. Því er lýst á vef frostarkarinnar og frétt BBC að möguleiki væri að setja fóstuvísi úr hvíta norðurnashyrningnum í hvíta suðurnashyrningskú. Skyldleiki þessara tveggja tegunda er líklega nægilegur, til að leyfa slíka leikfimi (að því gefnu að aðrir þættir séu ekki til vandræða). En það er augljóst að í mörgum tilfellum munum við ekki hafa neinar staðgöngumæður til taks. Ef við eyðum öllum tígrisdýrum, ljónum, blettatígrum og öðrum stórum köttum, þá verður enginn staðgöngu"læða" eftir. 

Þessi hugmynd frystiarkarfólksins er frekar haldlítið síðasta hálmstrá. Vandamálið er eyðing búsvæða, veiðar og mengun. Ef okkur tekst að klóna dýr í útrýmingarhættu, og bara að halda þeim lifandi í dýragörðum þá er spurning hvort okkur hafi tekist að bjarga einhverju? Viljum við búa í veröld þar sem náttúran verður geymt í gleri á safni, á afgirtu svæði í Elliðaárdalnum eða í stóru gróðurhúsi inni í Smáralind?

Kveikjan að þessari hugleiðingu var viðtal sem Guðmundur Pálsson tók við mig síðasta fimmtudag, fyrir morgunútvarp rásar tvö. Mér tókst ekki að svara öllum hans spurningum nægilega nákvæmlega, og því endurtek ég þær hér að neðan með örlítið nákvæmari (lesist réttari) svörum en ég gaf þennan morgun.

Guðmundur lýsti fyrst Frostörkinni og hugmyndinni umhvort hægt sé að bjarga dýrum frá útrýmingu með klónun. Fyrst var spurt hvort við getum og megum klónað dýr?

Það er hægt að klóna nokkur spendýr, með aðferðum sem áður var lýst. Fyrst var músin klónuð, en klónun komst í hámæli árið1997 þegar kindin Dolly var klónuð, með flutningi á kjarna úr líkamsfrumu í virkjað egg. Síðar voru búnar til kindurnar Molly og Polly, sem voru bæði klónaðar og erfðabreyttar.

GP spurði - er klónun leið til að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni?

Ég taldi svo ekki vera, þetta væri í besta falli hálmstrá. Síðan sagið ég að það fæddust nóg af hvítum nashyrningum, sem er hreinlega rangt. Þeir eru mjög fáir eftir, aðal vandamálið er afrán og skortur á búsvæði. Siðan getur auðvitað verið að þeir séu ekki mjög frjósamir, eða þurfi mikið næði til að koma sáðfrumum á réttann stað og o.s.frv.

GP spurði - er þróunin þannig að tegundirnar séu að deyja út?

Svarið er ekki vitað, mörg stór dýr hafa dáið út og það er vel mögulegt að þegar útdauðahrinur gangi yfir jörðina að þá lifi lítil dýr frekar af en stór.

GP: Hvaða dýr er búið að klóna? Er almennt verið að klóna dýr?

Klónun er almenn í lífvísindum. Klónaðar erfðabreyttar mýs eru mjög algengt verkfæri í líffræðilegum rannsóknum. Klónaðar ávaxtaflugur eru óþarfa lúxus, því erfðafræðingar geta gert allar þær kúnstir sem þeir þurfa (erfðabreyta, stökkbreyta og búa til vefjablendinga) með hefðbundum aðferðum. Lýst hefur verið klónun rúmlega 20 dýra, m.a. ávaxtaflugna, kameldýra, kúa, katta og rotta, mest í þeim tilgangi að sýna hvað væri mögulegt. Ég veit ekki dæmi um að klónuð dýr séu til manneldis.

GP: Eru dýrin öðruvísi? Eldast klónuð dýr hraðar en önnur dýr?

Ég svaraði þessari spurningu illa. Það eru líffræðilegar vísbendingar um að klónuð dýr ættu að eldast hraðar en önnur dýr. Frumur úr líkamsvef eru eldri, þ.e. hafa skipt sér oftar en meðalkynfruman. Það leiðir til fleiri stökkbreytinga, sem geta skaddað geni og að auki getur þetta leitt til þess að litningaendarnir styttist (sem getur líka skemmt gen eða slökkt á þeim). Rannsóknir á þessu hafa verið misvísandi. Mýs sem voru klónaðar í sex kynslóðir sýndu engin merki  um öldrun, en Dolly sýndi merki um gikt. Það þarf stærri og ítarlegri rannsóknir til að skera úr um hvort klónun auki líkurnar á einhverjum sjúkdómum eða kvillum.

GP: Er menn að velta fyrir sér að klóna menn, góða íþróttamenn?

Nei, það er öflug siðferðileg rök sem mæla gegn því að klóna menn.

GP: Hefur maður verið klónaður?

Ekki svo við vitum. Einn rhesus api var klónaður, en með því að kljúfa fóstur en ekk með því að flytja kjarna úr líkamsfrumu í eggvísi. Það telst ekki alvöru klónun.

Ítarefni:

BBC - Clone zone: Bringing extinct animals back from the dead

Viðtal Guðmundar Pálssonar við undirskrifaðan á Rás 2 - fimmtudaginn 4 nóvember (Má klóna dýr til að bjarga þeim úr útrýmingarhættu).

Teruhiko Wakayama o.fl. Ageing: Cloning of mice to six generations Nature 407, 318-319 (21 September 2000) | doi:10.1038/35030301

*Ekki Freysa sem fór á Rás 2, Halldór sem stofnaði Sólann eða Kela sem fór í húsdýrin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Tegundir deyja út og aðrar rísa, gangur lífsins.

Georg P Sveinbjörnsson, 8.11.2010 kl. 23:15

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Tegundir rísa sem þurrka út mjög margar aðrar tegundir - sjaldgæft í sögu lífsins.

Arnar Pálsson, 9.11.2010 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband