Leita í fréttum mbl.is

Hugmyndir um klónun loðfíla

Fréttablaðið birti stórkostlega frétt í gær um hugmyndir japanskra vísindamanna og samstarfsaðilla þeirra um að vekja loðfíla upp frá dauðum, með klónun.

Endurlífga útdauða tegund
VÍSINDI Japanskir vísindamenn ætla að freista þess að vekja loðfíla til lífsins á ný, 65 milljónum ára eftir að sú dýrategund leið undir lok.

Vísindamennirnir ætla að hefjast handa strax á þessu ári og stefna að því að ljúka verkinu innan fimm eða sex ára.

Meiningin er að fá frumur úr hræi af loðfíl, sem fannst í Síberíu fyrir nokkrum árum og er geymt í rannsóknarstöð í Rússlandi. Hræið er óvenju heillegt.

Ætlunin er að taka frumukjarna úr loðfílnum, setja hann í kjarnalausa eggfrumu úr venjulegum fíl og rækta þannig fóstur með erfðaefni loðfíls.- gb

Vísir.is birti fréttina líka undir sama titli, en leiðrétti síðan hinn augljósa miskilning síðdegis. 65 milljón ár urðu að tíuþúsundum árum.

Villan er komin frá Yahoo-pistlahöfundi (contributor, sem virðist vera virðulegt heiti á bloggari), sem birti útdrátt úr japanskri AFP fréttatilkynningu. Þetta sýnir þann hvískurleik sem alþjóðlegar fréttastofur og minni spámenn hér á klakanum taka þátt í. En þegar alvörunni/gamninu sleppir situr spurningin eftir...

er mögulegt að klóna loðfíl?

Rannsóknarhópurinn sem um ræðir inniheldur m.a. rússneska loðfílasérfræðinga. Loðfílar dóu út fyrir um 10.000 árum, en mörg hræ hafa varðveist merkilega vel í sífrera Síberíu. Lykilmenn í hópnum eru tveir japanir, Akira Iritani við Kyoto háskóla og Teruhiko Wakayama við Riken stofnunina.

Wakayama vinnur við að klóna mýs. Klónun felur í sér að kjarni úr líkamsfrumu, t.d. vöðva eða júgri er settur inn í egg sem erfðaefnið hefur verið fjarlægt úr. Wakayama og samstarfsmenn tóku kjarna úr vef músar sem hafði legið í frosti (-20°) í 16 ár, skutu honum inn í kjarnalaust egg. Árið 2008 birtu þeir grein sem lýsti því að eðlilegar mýs uxu úr slíkum fóstrum. Þetta sýnir að a.m.k. 16 ára gamlir kjarnar, geymdir við bestu aðstæður, eru nægilega heillegir til að taka þátt í þroskun.

Iritani er kominn á eftirlaun, en hefur einnig sýslað við æxlunarlíffræði og klónun músa. Hann og félagar birtu árið 2009 grein í tímariti japönsku vísindaakademíunar  þar sem þeir lýstu hreinsun á "heillegum" kjarna úr u.þ.b. 15000 ára gömlum loðfíl. Kjarnanum komu þeir fyrir í kjarnlausri músafrumu, og sögðu hann a.m.k. ekki hafa rofnað eða aflagast. Hins vegar gerðist ekker, loðfílskjarninn skipti sér ekki í músa-umfryminu (enda tæplega við því að búast - prótín músarinnar hafa tæplega passað við kjarna loðfílsins).

Félagarnir forvitnu í morgunútvarpi Rásar tvö, Guðmundur Pálsson og Freyr Eyjólfsson, plötuðu mig í viðtal um þetta mál í morgun. Ótrúlegt nokk, a.m.k. einn af nemendunum í þroskunarfræði var vaknaður þarna rétt rúmlega 7.

Frúin brýndi fyrir mér að vera ekki of neikvæður í útvarpinu (bráðnauðsynlegt ráð!) en ég get ekki metið málið öðru vísi en að hæpið sé að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt. Sannarlega væri mikilfenglegt að sjá loðfíl rölta niður Skólavörðustíg, en bévítans óvissuþættirnir benda til að það sé ólíklegur möguleiki.

Ítarefni:

Kato H, o.fl. Recovery of cell nuclei from 15,000 years old mammoth tissues and its injection into mouse enucleated matured oocytes. Proc Jpn Acad Ser B Phys Biol Sci. 2009;85(7):240-7.

Wakayama S, o.fl. Production of healthy cloned mice from bodies frozen at -20 degrees C for 16 years. Proc Natl Acad Sci U S A. 2008 Nov 11;105(45):17318-22. Epub 2008 Nov 3.

Skyldur pistill:

Barbapabbi mun ekki bjarga lífinu á jörðinni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Takk fyrir þetta.

Með leyfi að spyrja:

1. Er öldrun mannsins skipulagt undanhald eða kemur það eins og óvæntur sjúkdómur sem líkaminn þarf að bregðast við. Í heimildamyndinni "The living body" er hinu fyrrnefnda haldið fram.

2. Fór á fyrirlestur í HÍ. Þar var á fyrirlesara að skilja að gríðarlegt upplýsingamagn væri bundið í genum mannsins fyrirfram. Þar sem hljóðnemi gekk ekki il undirstéttar í hliðarsölum átti ég ekki kost á að spyrja. En í annarri heimildarmynd sem ég sá var því haldið fram að aðstæður móður á meðgöngu gætu haft áhrif á virkni gena í fóstri með því að "slökkva" á virkni þeirra.  Hvað segir þú um þetta.

Takk

Kristján Sigurður Kristjánsson, 20.1.2011 kl. 16:19

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Kristján

Öldun manns og annara dýra er ráðgáta. Sumir líta á öldrun sem síðþroska, sem er í raun "skipulegt undanhald". En það eru einnig óyggjandi rök fyrir því að slit og uppsöfnun galla sé kraftur sem leiði til margra öldrunarsjúkdóma. Ætli þetta sé ekki beggja blands.

Ég sat með þér í hliðarsalnum. Kári er tamt að gera mikið úr erfðaþættinum en engu að síður lagði hann meiri áherslu á samspil umhverfis og erfða en oft áður. Þroskun og eiginleikar lífvera eru afleiðing samspils erfða, umhverfis og tilviljana. Það fer eftir eiginleikanum hvort áhrif einstakra þátta séu meiri eða minni, fingraför eru með hátt arfgengi en hæð fullvaxta einstaklings veltur að miklu leyti á næringu á uppvaxtaskeiði (berum saman núlifandi og nítjándu aldar íslendinga).

Ástand móður hefur áhrif á hluta af breytileikanum í nokkrum eiginleikum og getur einnig mótað tjáningu vissra gena. Slík móðuráhrif eru svo sannarlega hluti af kökunni, en oftast frekar lítil sneið.

Arnar Pálsson, 20.1.2011 kl. 17:35

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Þakka þér fyrir Arnar og þakka þér fyrir að vera hér á blogginu. Það eru mikil lífsgæði fyrir okkur mörg að það skuli vera til svo efnaðir menn að þeir séu tilbúnir á deila auði sínum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 20.1.2011 kl. 17:45

4 identicon

Þið sjaið Steingrim J það tokst nu all sæmilega að klona þann vitleising eða hitt þo heldur ekkert þroskast a 2 arum

Runar Gudmundsson (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 20:09

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Kristján.

Arnar Pálsson, 21.1.2011 kl. 10:26

6 Smámynd: Arnar Pálsson

Rúnar, það er ekki búið að klóna fjármálaráðherrann núverandi.

Arnar Pálsson, 21.1.2011 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband