Leita í fréttum mbl.is

Blaðlúsahræða. Biðlað til andstæðinga erfðabreyttra lífvera

Málflutningur andstæðinga erfðabreyttra lífvera er oft ýktur og aðgerðir þeirra einnig. Yfirlýsingar um hættuna eru mjög afdráttarlausar og dylgjur um meiriháttar samsæri vísindamanna og alþjóðlegra stórfyrirtækja eru daglegt brauð.

T.d. ef vísindamenn taka afstöðu í deilunni og geta þess að þeir eiga ekki beinna hagsmuna að gæta, þá er það gert tortryggilegt að þeir þurfi að taka slíkt fram. Ekki er hlustað á fræðileg rök, útlistanir á staðreyndum um erfðir, sameindalíffræði, þróunarfræði, vistfræði, hvað þá mat á áhrifum eða áhættu sem ítrekað sýna að erfðabreyttar lífverur eru ekki hættulegar heilsu eða umhverfinu.

Meðal andstæðinga erfðabreyttra lífvera eru svokallaðir aðgerðasinnar, sem láta verkin tala. Erlendis eru dæmi um að aðgerðarsinnar í hópi dýrafriðunga hafi sleppt út tilraunadýrum. Þetta er baglegt og íþyngjandi fyrir rannsóknir. Dýrahaldshúsið í Fylkisskólanum í Norður Karólinu - NCSU, var t.d. 3 hæða glugglaust múrsteinavirki, með öryggismyndavélum, talna og öryggiskorta lásum. Ef hýsa þarf öll tilraunadýr í byggingu sem er blanda af Alcatraz og Hótel Holt, þá er viðbúið að kostnaður við læknisfræðilegar og grunnrannsóknir aukist.

Sumir sem berjast gegn erfðabreyttum lífverum beita svipuðum aðferðum, ráðast á gróðurhús eða akra og eyða plöntum. Nýlegt dæmi hérlendis eru skemmdarverk sem unnin voru á tilraunareit í Gunnarsholti.

Mér koma tvær mögulegar ástæður í hug fyrir því að ganga til slíkra verka*. Ein er sú að viðkomandi er sannfærður um að umhverfi eða lífríki landsins sé hætta búin af ræktun erfðabreyttra lífvera. Sú hætta er ímynduð, og mun meir skaði fyrir umhverfið af því að keyra bifreið frá Reykjavík til Gunnarsholts, en að rækta nokkrar erfðabreyttar byggplöntur þar.

Önnur ástæða getur verið sú að fanga athygli og mögulega samúð hins almenna borgara. Þetta er er einhverskonar tilbrigði við hríslufaðmlag (treehugging), þar sem viðkomandi leggur líf sitt að jöfnu við líf trésins (eða uglunar sem lifir í skóginum). Hugmyndin er þá líklega sú að óákveðni borgarinn hugsi á þessa leið "Ef einhver er tilbúinn að leggja líf sitt að veði, eða eyðileggja plöntur, þá hlýtur eitthvað mikið að liggja við..."

Hérlendir fræðimenn á sviði erfðafræði, sem sumir hverjir nota erfðabreyttar lífverur hafa tekið þátt í umræðu um eiginleika þessarar tækni, lífveranna, möguleg áhrif þeirra á umhverfi og heilsu. En þeim hefur ekki tekist vel upp. Af einhverri ástæðu er fólk tortryggið á tæknina, og þar með afurðirnar. Og andstæðingar erfðabreyttra lífvera er öflugur þrýstihópur, jafnvel hérlendis sbr.  nýlega þingsályktunartillögu (Enn skal banna útiræktun erfðabreyttra lífvera - Hefur eitthvað breyst?).

Plöntulíffræðingar og skordýrafræðingar við Rothamsted Research kjarnann í Englandi hafa þróað erfðabreytt korn, með það að markmiði að draga úr notkun skordýraeiturs. Rothamsted Research stöðin er ein sú elsta í heimi, og hefur í yfir hundrað ár stundað rannsóknir á nytjaplöntum og umhverfinu. Þeir hafa plantað erfðabreyttu korni í tilraunareiti, girt þá af með hefðbundnu korni og byggi (ekkert korn til manneldis eða fræframleiðslu vex innan 20 m. frá tilraunareitunum.

Erfðabreytingin sem um ræðir felur í sér að plönturnar framleiða stresshormón úr blaðlús. Aðrar blaðlýs skynja hormónið sem hættumerki, og forða sér. Hugmyndin er að þannig sé hægt að nota erfðabreyttar plöntur sem einskonar blaðlúsahræður (hliðstætt við fuglahræður).

En enskir aðgerðasinnar (Take back the Flour) hafa skipulagt árás á akranna þar sem erfðabreytta kornið er ræktað. Vísindamennirnir sendu frá sér myndband, þar sem þeir flytja ákall til andstæðinga erðfabreyttra lífvera, um að endurskoða aðgerðir sínar. Þar segir Guðrún Aradóttir skordýrafræðingur m.a.

We know we cannot stop you taking the action you are planning to take, but please reconsider before it's too late, and before several years of work to which we have been devoting our lives will be destroyed forever.

 

http://www.youtube.com/watch?v=I9scGtf5E3I&feature=player_embedded#!

Vísindamennirnir biðla til aðgerðasinna, og líklega einnig almennra borgara og vísindamanna, með skírskotun til fræðilegra, samfélagslegra, hagfræðilegra og tilfinningalegra raka. Það er ekki mikil von til þess að aðgerðasinnarnir láti af aðgerðum sínum, miðað við frétt the Guardian (Anti-GM activists urged not to trash wheat field).

Viðauki, til upplýsingar.

Umhverfisráðaneytið mun standa fyrir ráðstefnu um erfðabreytta ræktun

Ráðstefnan verður haldin í Hvammi á Grand Hóteli í Reykjavík, miðvikudaginn 15. maí 2012 kl. 13 - 17. Hún er öllum opin og er aðgangur ókeypis. 

Dagskrá ráðstefnu um erfðabreytta ræktun, sleppingu og dreifingu.

*Vinsamlegast skrifið athugasemd ef ykkur detta aðrar í hug!

Kveikja pistilsins eru bréfaskriftir Magnúsar K. Magnússonar og umræðan mótaðist af athugasemdum Guðna Elíssonar. Ég þakka þeim báðum mikilvægt framlag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessir aðgerðarsinnar eru vanvitar.. þeir eru eins og krabbamein í mannhafinu. Ef krabbameinsfrumur gætu talað, þá væru þær einmitt að tala eins og þessir aðgerðarsinnar

DoctorE (IP-tala skráð) 3.5.2012 kl. 14:16

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég get ekki tekið svona sterkt til orða.

Aðgerðasinnar hafa sett puttann (eða faðmlag sitt) á mikilvæga hluti, t.d.  framgöngu virkjunarsinna, óspillta náttúru sem jarðýtur eru að strauja eða flutning á geislavirkum úrgangi um þéttbýli.

Arnar Pálsson, 3.5.2012 kl. 17:53

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Frábært blogg og virkilega sorglegt lið, en athugasemd þín um aðgerðarsinna í virkjanamálum er bjálfaleg. Aðgerðir þeirra eru byggðar á fjarstæðukenndum upplýsingum, sjá t.d. hér

Það að vera á móti virkjunarframkvæmd út frá þeirri forsendu að ekki sé verjandi að fórna viðkomandi stað vegna náttúrufegurðar, er algerlega gott og gilt. En aðgerðarsinnarnir reyna að fá fleiri skoðanabræður í lið með sér með lygum og bulli... og það er ekki gott og gilt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.5.2012 kl. 20:15

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Gunnar fyrir innslagið

Eins og ég sagði við DoctorE, þá get ég ekki dæmt aðgerðasinna í heilu lagi (eins og ég reyndi að forðast alhæfingar í pistlinum um málflutning andstæðinga erfðabreyttra lífvera).

Sumir sem seldu landanum virkjanir (eins og Kárahnjúkavirkjun), gerðu sig seka um ýkjur og óraunhæf loforð um hagvöxt og atvinnutækifæri.

Eins má finna dæmi (eins og það sem þú tekur) um ýkjur af hálfu þeirra sem börðust á móti virkjunum.

Það sem ég átti við er að stundum geta aðgerðarsinnar hjálpað til við að varpa kastljósi á mikilvæg mál, sem hinn almenni borgari hefur ekki hugleitt að neinu viti. Á þann hátt geta þeir komið að gagni. En vandamálið er auðvitað að vita í hvaða málum eru aðgerðarsinnarnir að bulla og í hvaða málum eru þeir að benda á raunverulegar hættur.

Í virkjunarmálum er annars mín grundvallarafstaða mörkuð af þeirri staðreynd að virkjanakostir eru takmarkaðir. Náttúran er ekki óendanleg og við mennirnir höfum nú þegar tekið af henni vænan toll. Þess vegna er mikilvægt að framkvæma heildrænt mat, eins og Rammaáætlun, en ekki göslast áfram á geðþótta einnar umferðar af kjörnum fulltrúum (ég veit að Rammaáætlun er lituð af pólitík, en það voru líka virkjanirnar á síðasta áratug).

Arnar Pálsson, 4.5.2012 kl. 09:25

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Loforð um atvinnutækifæri á Mið-Austurlandi voru ekki óraunhæf. Þau eru staðreynd í dag. Af 450 starfsmönnum álversins í í Reyðarfirði eru rúmlega 100 með háskólapróf. Alls sköpuðust rúmlega 900 störf, bara á álverslóðinni og þá er ótalið þó nokkur störf annarsstaðar á landinu, t.d. í Reykjavík.

Efnahagsleg áhrif álversins í Reyðarfirði eru jákvæð fyrir þjóðarbúið í heild. Það sýna nýlegar skýrslur, m.a. frá Háskólanum á Akureyri.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 10:50

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Aðgerðarsinnar skiptast gróflega í tvo hópa. Skemmdarverkamenn sem eru alveg óþolandi og svo þá sem beita borgaralegri óhlíðni, og eru mér frekar að skapi.

Það er afleitt ef fyrri hópnum tekst að ná samúð í þessu máli og jafn óþolandi að pólitíkusar skuli ítrekað hlaupa á eftir órökstuddum sleggjudómum (ekki þó að maður sé neitt hissa...).

Varðandi rammaáætlum þá varð hún ekki lituð af pólitík að ráði fyrr en á síðustu metrunum þegar pólitíkusar tóku vinnu sem hafði staðið yfir árum saman og fóru að krukka í hana. Óþolandi plagsiður þeirra að geta ekki séð í friði vinnu sem unnin er á faglegum nótum!

Haraldur Rafn Ingvason, 4.5.2012 kl. 12:09

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innslagið Gunnar

Það var talað um mörg ný störf meðan á byggingum virkjunar og verksmiðju stóð. Flestir þeirra erlendra verkamanna sem unnu við virkjunina bjuggu við mjög daprann kost.

Störfin sem fengust á miðausturlandi voru sannarlega ánægjuleg viðbót,  þótt þeir sem hafi fyllt þau séu reyndar flestir landsbyggðarfólk. Borgarbúar vinna þar margir aðeins tímabundið, eftir vertíðarmynstri.

Erlendar tekjur eru góðar fyrir þjóðarbúið, en jafnan í þessu tilfelli er töluvert flókin, ef tekin eru með þensluáhrifin, erlenda starfliðið, bólgan í húsbyggingum á Austurlandi (hvað eru margar ónotaðar íbúðir þar?) og staða Landsvirkjunar.

Haraldur

Takk fyrir leiðréttinguna. Rammaáætlun var gripin af pólitík undir lokin, en ég er sammála um að vinnan fram að þeim punkti hafi verið til fyrirmyndar. Það hefði reyndar verið forvitnileg tilraun að láta tvo óháða hópa vinna rammaáætlun (í samhliða heimi með engum tengslum á milli). 

Miðað við hvað vistfræði, jarðfræði og hagfræði eru flókin fög, þá má búast við töluverðum breytileika í því hvernig tíu mismunadi hópar (með sömu samsetningu af fræðingum, en ólíka einstaklinga) myndu spila úr svona verkefni. Af hverju þorir stjórnsýsluliðið aldrei að gera almenninlegar stjórnsýslutilraunir...?

Arnar Pálsson, 4.5.2012 kl. 17:55

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það fer tvennum sögum af því, hversu dapur kostur verkamannanna við Kárahnjúka var. Mjög margt af því sem blásið var upp í fjölmiðlum voru hrein ósannindi og í besta falli ýkjur.

Tímasetning framkvæmdanna var ekki sú heppilegasta m.t.t. ástandsins á vinnumarkaðinum. Gríðarleg þensla í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu gerði það að verkum að erfitt var að fá iðnaðarmenn til að vinna í útlegð frá fjölskyldum sínum.

Byggingavitleysan var einnig hér eystra og slatti af íbúðum byggðar umfram þörf. Margt fór úrskeiðis í þeim efnum. Fyrst og fremst voru það þó auðvitað byggingaverktakarnir sjálfir sem fóru fram úr sér, en sveitarfélögin gerðu heldur ekkert í að gera þarfagreiningu, enda græddu þau á framkvæmdunum... fengu sín lóðagjöld o.þ.h.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.5.2012 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband