Leita í fréttum mbl.is

Smáskammtalækningar eru ekki studdar af vísindum

Í forneskju var ýmislegt reynt til að bjarga fólki frá sóttum eða lækna þeirra mein.

Til dæmis reyndu forfeður okkar margskonar meðferð til að slá á sýkingar, og ályktuðu að sumar þeirra virkuðu. Vandamálið var að sumar meðferðirnar virkuðu í raun, en aðrar ekki. Þær virtust bara virka vegna þess að það sem fer upp, mun koma aftur niður. Þetta er best útskýrt með dæmi.

Barn fékk hitasótt. Töfralæknirinn slátraði hænu, dansaði gólandi í kringum tjaldið og ákallaði heiðna anda, Guð eða tótem ættbálksins. Barninu rénaði* sóttin, og töfralæknirinn eignaði sér heiðurinn (og fékk að halda hænunni).

Hitinn fór upp og hitinn fór niður. Þetta þekkja tölfræðingar sem "Aðhvarf að meðaltali" eða "regression towards the mean". Töfralæknirinn og fornmennirnir okkar oftúlkuðu atburðina og héldu að sirkus töfralæknisins hefði læknað barnið. Þetta stef er alltaf að endurtaka sig, nú stíga töfralæknarnir (græðararnir) aðra dansa sem auðveldara er að trúa (setja heita steina, stinga nálum í orkupunkta, greina lithimnur o.s.frv.).

Leiðin til að greina á milli töfralækninga (óhefðbundinna lækninga) og raunverulegra lækninga er aðferð vísinda. Hún byggist á vandlegum tilraunum, þar sem bornar eru saman besta viðurkennda aðferð, og ný óreynd aðferð sem ástæða er til að halda að gæti gagnast.

Þannig fundu læknar og aðrir vísindamenn út að sýklalyf berja niður sýkingar, hvernig best er að framkvæma skurðaðgerðir og hvernig (sólar)ljós brýtur niður þvagefni þegar börn fá gulu.

Nú liggur fyrir alþingi tillaga til þingsályktunar um að kanna hvort 

Fyrir alþingi liggur þingsályktunartillaga um heildrænar meðferðir og græðara (141. löggjafarþing 2012–2013. Þingskjal 566  —  452. mál.):

Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvort niðurgreiða skuli heildrænar meðferðir græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu og/eða undanþiggja þær greiðslu virðisaukaskatts.

Visindamenn hafa gagnrýnt þetta harkalega, m.a. með þeirri röksemd að flest af því sem fellur undir heildræna meðferð sé í raun töfralækningar eða afsannaðar tilgátur. Í seinni flokknum eru smáskammta"lækningar" - homopatía. Fjölmargir hafa tekið þessi gervifræði fyrir, sjá t.d. Högun tilrauna og smáskammta"lækningar" og grein í The Guardian (Ben Goldacre A kind of magic? 16. nov 2012) og ágætt yfirlit á Vantrú (2006).

Gunnlaugur Sigurðsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, kemur homopatíunni til varnar í grein í Fréttablaðinu 10. desember. Þar segir hann:

Læknirinn kallar hómópatíu „gervivísindi" án þess sýnilega að þekkja eða skeyta hið minnsta um þá skýru kenningu sem hómópatía byggir á, þá vísindalegu aðferðafræði sem notuð er við þróun lyfjakosts hennar eða þá nákvæmu greiningu á einkennum viðkomandi sem ráða vali á því lyfi (kallað „remedía") sem beitt er í hverju tilviki. 

En Gunnlaugur vísar ekki til neinna rannsókna, eða niðurstaðna sem styðja þá staðhæfingu að homopatía sé alvöru vísindi.

Magnús K. Magnússon læknir svarar Gunnlaugi á vísir.is (Af vísindalegri umfjöllun um verkan lyfja) 14. des. 2012.

En á hvaða fræðilega grunni byggir hómópatía? Það er raunar erfitt að setja þann grunn í rökrænt samhengi. Samkvæmt Organon, fagfélagi hómópata nota þeir „svokallaðar remedíur, örefni sem í stórum skömmtum myndu kalla fram hjá heilbrigðu fólki svipuð einkenni og þeim er ætlað að bæta. Þær eru unnar úr jurta-, dýra- og steinaríkinu og eru notaðar það mikið þynntar að ekki er talað um þær sem eiginlegt efni, heldur hvata."

Það þarf að gera meiri kröfu til orða en að þau hljómi vel, sérstaklega ef þeim er ætlað að skapa fræðilegan grunn. Gagnrýnin hugsun krefst gagnrýninna spurninga. Hvað eru remedíur? Þær eiga uppruna í náttúrunni líkt og fjölmörg lyf. Síðan eru þær þynntar út þangað til engin eða nær engin sameind er eftir í lausninni. Lausnin á síðan samkvæmt óútskýrðum hætti eða „minni vatnsins" að miðla áhrifum. Þessi orð hljóma því eins og töfrar. Fræði hómópata eru í vísindalegri mótsögn við þekkingu okkar í efnafræði, eðlisfræði og líffræði. Ef fræðigrunnur hómópata væri sannur og raunvísindin byggð á sandi, væri um algera umbyltingu að ræða. Kennihöfundar slíkra fræða ættu þá skilið Nóbelsverðlaun, og það fleiri en ein. Sú er enn ekki raunin. Það kemur því ekki á óvart að rannsóknir á hugsanlegri gagnsemi slíkra remedía til meðferðar hafa engum árangri skilað umfram það sem búast mætti við fyrir tilviljun. Þessu eru gerð góð skil í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir breska þingið (sjá: http://www.publications.parliament.uk/pa/cm200910/cmselect/cmsctech/45/45.pdf).

Samkvæmt öllum viðurkenndum skilgreiningum eru svokölluð fræði hómópata því ekki vísindi. Þau byggja ekki á tilraunum sem eiga stoð í raunheimum og það má því með sterkum rökum kalla þau gervivísindi, hjátrú eða ýmislegt annað. Þeir sem selja sjúklingum slíka vöru gera það á eigin ábyrgð, en í mínum huga kallast „remedía" ekkert annað en kötturinn í sekknum.

Textinn af yfirfarinn og leiðréttur (í hádeginu 17. des. 2012). Leiðréttingar voru smávægilegar en of margar til að tíunda.

*Í annari útgáfu stóð elnaði í stað rénaði. Það var skelfileg mistök af minni hálfu, ég hafði alveg misskilið orðið. Bestu þakkir Bjarni Gunnlaugur fyrir ábendinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þótt það yrði það eina sem þetta þing myndi koma sér saman um fram að kosningum, að samþykkja græðara til jafn við vísinda-lækningarnar, þá myndi það marg borga sig í betri heilsu almennings, minni lyfjakosnaði á lyfjum við aukaverkunum vegna sumra vísindalyfja, minna vinnutapi, færri öryrkja og svo mætti lengi telja.

Það er sorglegt að sumir tengi störf græðara við jafn mikla fjarstæðu eins og að slátra hænu í einhverjum lækningartilgangi. Ég minni á að það er árið 2012.

Það er engu líkara en að sumir hafi dregist aftur úr í  heildrænni þekkingu á mörgum sviðum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.12.2012 kl. 13:15

2 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Það eru örfá ár síðan nálastungulækningar fengu náð fyrir augum heilbrigðisyfirvalda, læningaraðferð sem notuð hefur verið í um 5.000 ár í Asíu og taldist ekki "hefðbundin" lækningaaðferð, heldur kukl. Örfá ár eru siðan hnykklækningar (kírópraktík) fengu náð fyrir heilbrigðisyfirvöldum einnig þrátt fyrir hávær mótmæli læknastéttarinnar. Hafði verið álitið kukl. Á ensku heitir það sem kallað er á íslensku "hefðbundnar" lækningar "modern medicine". Hitt er oft kallað "traditional medicine". Öfugt við íslenskuna og læknamafíuna íslensku.

Sigurbjörn Friðriksson, 17.12.2012 kl. 14:04

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Anna Sigríður

Það eina sem ég myndi vilja sjá - eru niðurstöður vísindalegra rannsókna sem sýna að þessar meðferðir virki.

Þær niðurstöður hafa ekki verið lagðar fram.

Á hinn bóginn er til hellingur af stórum rannsóknum sem sýna að þessar aðferðir virka ekki. Allavega ekki betur en lyfleysa (placebo).

Við eigum ekki að eyða peningum ríkisins (þú mátt gera hvað sem þú vilt við þína) í töfralækna sem hafa ekkert betra að bjóða en lyfleysu.

Sigurbjörn

Nálarstungur virka - en ekki eins og töfralæknarir segja.

Rannsóknir hafa sýnt að það er enginn munur á því ef nálunum er stungið í ORKUstöðvar - eða af handahófi í kropp sjúklings! Það þýðir að "fræði" græðaranna eru kjaftæði, en að meðferðin sjálf  getur etv linað þjáningar!

Nálarstungur geta því mögulega virkað til að lina þjáningar, en hún mun ekki uppræta meinið (það er ekki endilega slæmt, töluverður hluti lækninga felst í að líkna ekki lækna!).

Ég veit ekki nóg um hnykklækningar til að geta rætt þær. Sýndu mér niðurstöður (vísindalegrar rannsóknar) sem sýna að þær séu betri en venjulegt nudd, og þá skal ég hlusta.

En annars duga þessi ekki rök til að réttlæta kuklið.

Ef ein aðferð sem var skilgreind sem kukl - reynist hafa eitthvað gagn - þá þýðir það ekki að ALLT KUKL geri gagn.

Og það dugir heldur ekki að kalla læknana mafíu, kuklið virkar ekkert  frekar.

Arnar Pálsson, 17.12.2012 kl. 14:23

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Ítarefni og heimildir:

Nálarstungur í lithimnuna

Cochrane Review er gold standard í mati á læknisfræðilegum meðferðum. Hér er dæmi um úttekt á nálarstungum.

Þar segir í ályktunum:

CONCLUSIONS:

Sham-controlled RCTs have found no benefits of acupuncture relative to a credible sham acupuncture control for IBS symptom severity or IBS-related quality of life. In comparative effectiveness Chinese trials, patients reported greater benefits from acupuncture than from two antispasmodic drugs (pinaverium bromide and trimebutine maleate), both of which have been shown to provide a modest benefit for IBS. Future trials may help clarify whether or not these reportedly greater benefits of acupuncture relative to pharmacological therapies are due entirely to patients' preferences for acupuncture or greater expectations of improvement on acupuncture relative to drug therapy.

 

Arnar Pálsson, 17.12.2012 kl. 14:28

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Smáskammtalækningar eru vatn. Bókstaflega. Gleymið þeim.

Ásgrímur Hartmannsson, 17.12.2012 kl. 17:39

7 identicon

Homeopathy er fancy orð yfir skottulækningar. Sem sagt, alger della,svik!!!

DoctorE (IP-tala skráð) 17.12.2012 kl. 20:35

8 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Anna Sigríður:

Þú minnir okkur á að það er árið 2012. Það er rétt hjá þér. En á þessu herrans ári er einmitt ætlast til þess að fólk rökstyðji sitt mál með heimildum og sönnunum.

Þú heldur því fram að með því að setja skottulækningar til jafns við vísindalega sannaðar aðferðir, myndi það fækka öryrkjum, lækka lyfjakostnað og minnka vinnutap einstaklinga. Þetta eru frekar stór orð.

Hefur þú einhversskonar heimildir eða sannanir fyrir þessari fullyrðingu?

Og ef að skottulækningar eru svona áhrifaríkar, líkt og þú vilt halda fram, hvers vegna hafa þessi áhrif sem þú talar um ekki enn komið fram?

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 17.12.2012 kl. 22:00

9 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ingibjörg og Arnar, hún Anna hefur eflaust rétt fyrir sér um þennann sparnað, dautt fólk þarf ekki niðurgreidd lyf (allavegana ekki ennþá).

Steve Jobs ætti að vera gott dæmi um það...

Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.12.2012 kl. 10:31

10 Smámynd: Odie

Til gamans

That Mitchell and Webb Look: Homeopathic A&E

http://www.youtube.com/watch?v=HMGIbOGu8q0

og svo fullkomin lýsing á þessari vitleysu

http://www.youtube.com/watch?v=PnbFgRv8-Kw

Odie, 18.12.2012 kl. 12:10

11 identicon

Ég bara skil ekki fólk sem er að læra þetta og segir ekki við sjálft sig: Hey þetta sem ég er að læra hér er ekker nema fucking crap!
Það hlýtur að þurfa afar lága greindarvísitölu og/eða vilja til þess að svíkja fólk til þess að vera í þessu rugli

DoctorE (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 12:56

12 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kærlega Bjarni Gunnlaugur

Ég lagaði þetta í snatri. Ég mun vonandi muna merkingu orðsins, uns mér elnar sóttinn og verð lagður á bálköst.

Arnar Pálsson, 19.12.2012 kl. 12:35

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Ásgrímur, DoktorE, odie, Halldór og Ingibjörg fyrir athugasemdirnar og tenglana.

Arnar Pálsson, 19.12.2012 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband