Leita í fréttum mbl.is

Framleiðsla og framreiðsla vísinda

Sem líffræðingi og kennara við Háskóla Íslands eru vísindi mér hjartfólgin. Ég hef mikinn áhuga á vísindalegum spurningum, niðurstöðum og álitamálum. Óhjákvæmilega veltir maður líka fyrir sér hinni vísindalegu aðferð og því hvernig vísindalegar framfarir eiga sér stað.

Framreiðsla vísinda

Vísindalegum framförum er nær eingöngu miðlað á rituðu formi, sem greinar í tímaritum eða á netinu. Sannarlega er myndefni og jafnvel myndbönd hluti af vísindalegum greinum og gögnum, en burðurinn í skrásetningu og miðlun vísinda er hið ritaða orð.

Vísindalegar greinar sem mestu skipta er ritrýndar. Það þýðir að greinin sem lýsir tiltekinni rannsókn, hefur farið í yfirlestur hjá sérfræðingum á viðkomandi sviði. Sérfræðingarnir rýna í rannsóknina og greinina, og ýmist hafna eða samþykkja. Oft þarf reyndar nokkrar umferðir til, ef yfirlesarar benda á veikleika eða tilraunir sem vantar, eða hreinlega leiðbeina höfundum með heimildavinnu, lýsingu á niðurstöðum eða túlkun. Það að fá grein samþykkta er langt ferli, og flestir vísindamenn fagna slíku afreki. Það að fá grein birta er ígildi þess að skora mark. Og ef greinin kemst í virt vísindaleg tímarit, er það eins og að skora sigurmark með landsliði.

Vísindamenn skila sínu til samfélagsins í formi slíkra greina, og einnig í bókum, einkaleyfum, forritum og öðrum afurðum.

Framleiðsla vísinda

Því hefur komist á sú hefð að mæla framleiðslu vísindamanna með því að telja greinar. Þetta var hið mesta ógæfuspor, af nokkrum ástæðum. Teljum fyrst upp gallana. Fyrst eru fræðigreinar mjög ólíkar hvað varðar birtingartíðni, vegna mismunar á aðferðum, spurningum, stuðningi og fyrirbærum. Í öðru lagi eru greinar misjafnar að gæðum. Sumar greinar fela í sér lítlar framfarir, á meðan aðrar opna okkur nýjar lendur þekkingar eða kollvarpa eldri tilgátum. Í þriðja lagi þá er mjög erfitt að spá fyrir um hvaða greinar hafa áhrif til lengri tíma. M.ö.o. sumar rannsóknir eru á undan sinni samtíð, og oft tekur það vísindasamfélagið dágóðan tíma að átta sig á mikilvægi þeirra. Í fjórða lagi, þá er óheppilegt að telja bara greinar, því þá fælum við fólk frá því að rannsaka erfið viðfangsefni (sem leiða ekki til birtinga margra greina).

Punktakerfi Háskóla Íslands

Innan HÍ er notað punktakerfi til að meta framleiðni fræðimanna. Kerfið varð til þegar Ólafur R. Grímsson var fjármálaráðherra, sem lausn á kjaradeilu. Kerfið var hugsað sem jákvæð hvatning. Það umbunar kennurum fyrir að klára rannsóknir sínar og birta greinar á alþjóðlegum vettvangi. Hins vegar er nú svo komið að kerfið er notað um allan háskólann, t.d. við að útdeila fé til rannsókna, uppskiptingu fjár til deilda og framhaldsnema.

Kerfið er meingallað og mikill styrr hefur staðið um það. Félag prófessora tók t.d. saman lista yfir gallana árið 2011.

Áhrifastuðull Thomson Reuters

Thomson Reuters er fyrirtæki sem rekur gagnagrunn um vísindalegar greinar og tilvitnanir. Það er fyrir hverja grein er athugað hvaða aðrar rannsóknir hún vísar til. Að sama skapi má þá einnig draga saman hvaða og hversu margar aðrar rannsóknir/greinar vísa í tiltekna grein.

Þessi gögn eru notuð til að reikna út áhrifastuðul (Impact factor) vísindarita. Ef tiltekið tímarit birtir margar greinar sem margir vísa í er ályktað að tímaritið hafi mikil áhrif. Ef sjaldan eða aldrei er vísað í greinar í öðru tímariti er hægt að álykta að fáir lesi þær greinar og að áhrif þeirra séu hverfandi.

Áhrifastuðullinn var hannaður til að bera saman tímarit. En ritstjórar tímarita eru gáfum gæddir, og hafa lært að spila á stuðulinn (til dæmis fá yfirlitsgreinar alla jafna fleiri tilvitnanir en grunnrannsóknir). 

Verst er að stuðullinn hefur síðar verið notaður af háskólayfirvöldum og rannsóknasjóðum til að bera saman vísindamenn. Þetta er ódýr aðferð til að sleppa við að kafa í rannsóknir einstaka vísindamanna.

Afnemum stuðulinn

Enda hafa nokkur samtök amerískra fræðimanna sent frá sér yfirlýsingu um að áhrifastuðlar verði lagðir af í mati á störfum einstaklinga og styrkveitingum. Ályktun þeirra er ítarleg og vandlega rökstutt. Hér er aðeins endurprentaður kjarni hennar:

A number of themes run through these recommendations:

  • the need to eliminate the use of journal-based metrics, such as Journal Impact Factors, in funding, appointment, and promotion considerations;
  • the need to assess research on its own merits rather than on the basis of the journal in which the research is published; and
  • the need to capitalize on the opportunities provided by online publication (such as relaxing unnecessary limits on the number of words, figures, and references in articles, and exploring new indicators of significance and impact).

Við vísindamenn þurfum að einbeita okkur að vísindunum, og að vanda rannsóknir og greinaskrif. En við verðum einnig að vera vakandi fyrir breytingum á umgjörð vísinda sem geta leitt okkur í villigötur. Punktakerfi eins og það sem HÍ notar nú til að útdeila rannsóknarfé er ljón á veginum til framfara.

Ítarefni og skyldir pistlar.

The San Francisco Declaration on Research Assessment (DORA)

Arnar Pálsson | 4. mars 2013  Ný opin tímarit á sviði líffræði

Ályktun Félags prófessora um punktakerfi HÍ - 2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband