Leita í fréttum mbl.is

Ein af ráðgátum lífsins

Guðmundur Eggertsson hefur skrifað um uppruna lífsins, og m.a. þann möguleika að líf hafi borist utan úr geimnum. Nýjasta bók hans, Ráðgáta lífsins er komin út hjá Bjarti.

http://www.bjartur.is/baekur/radgata-lifsins/

 

Lífið á jörðinni á sér langa sögu en uppruni þess er enn mikil ráðgáta. Stóraukin þekking á innri gerð og starfsemi lífvera hefur ekki megnað að auka skilning á uppruna þeirra. Margvíslegar tilgátur um uppruna lífs hafa verið settar fram en um enga þeirra er einhugur. Jafnframt hefur reynst torvelt að svara spurningunni um eðli lífsins á sannfærandi hátt. Enn síður er til vísindaleg skýring á því að til skuli vera lífverur sem geta spurt spurninga um tilveru sína og uppruna.

Í þessari bók segir annars vegar frá upphafi sameindalíffræðinnar og merkum uppgötvunum sem lögðu grundvöllinn að nútímalíffræði. Hins vegar er fjallað um uppruna lífs og helstu tilraunir til að gera grein fyrir honum. Loks beinist umræðan að eðli lífsins og að meðvituðu lífi.

Dr. Guðmundur Eggertsson var um árabil prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og vann að rannsóknum á sviði sameindaerfðafræði. Fjöldi greina eftir Guðmund hafa birst í íslenskum og erlendum tímaritum.

Hanna G. Sigurðardóttir  ræddi við Guðmund Eggertsson í Samfélaginu í nærmynd 10. september 2014.Hvernig kviknaði lífið ?

Á vef RÚV segir:

Hvernig gerðist það að lífvana efni jarðarinnar þróaðist í það sem við köllum líf ? Og hvernig er hægt að skilgreina líf út frá efnasamsetningu og ferlum ? Þessar stóru spuringar eru meðal þeirra sem sameindalíffræðingar glíma við.

Í bókinni Ráðgáta lífsins eftir Guðmund Eggertsson erfðafræðing er gerð grein fyrir kenningum ýmissa fræðimanna sem komið hafa fram um lausn þessarar gátu, en við henni hafa enn ekki komið fram svör sem sátt ríkir um. Meðal hugmynda er meðal annars tilgáta um að elding hafi verið hvatinn sem gerði að verkum að ólífrænt efni breyttist í líf. Samkvæmt annarri er reiknað með að lífrænt efni hafi borist til jarðar utan úr geimnum. 


mbl.is DNA lifði af ferð í gegnum lofthjúpinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Svarið er hérna:

Allt líf var flutt til jarðarinar frá öðrum byggðum plánetukerfum í geimnum:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1505431/

=Það var engin tilviljanakennd lífsþróun fyrir tilstuðlan eldinga.

Jón Þórhallsson, 29.11.2014 kl. 18:49

2 identicon

Þetta er sannarlega áhugavert efni, en ég fæ ekki betur heyrt en að uppgötvun Watsons og Cricks hafi t.d. flækt málin allverulega.

Einnig að grundvallar skilgreining á lífi hljóti að vera frumuhimnnan, sem er e.k. umbúðir utan um öll (líf)ferlin.

Í viðtalinu segir Guðmundur í sömu setningunni að það sé ekki til neitt einhlítt svar við því hvað líf sé, en jafnframt að það vanti bara herslumuninn til að svara því!

Það er dálítið sérkennilegt að halda hvoru tveggja fram.

Maður eru engu nær.

Jóhann (IP-tala skráð) 29.11.2014 kl. 19:00

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Var ekki "snuðrarinn" sem Bandaríkjamenn sendu út í geim,til að hæfa og læsa klónum í þekkta halastjörnu, þegar búin að finna (frumefni/sameindir) í henni sem gætu kveikt líf með ofurárekstri við t.d.lífvana hnött.- Pælandi í ráðgátum fávís en áhugasöm.      

Helga Kristjánsdóttir, 30.11.2014 kl. 04:24

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Helga

Litla geimfarið sem evrópubúar sendu á halastjörnuna fann vísbendingar um byggingareiningar lífrænna sameinda, en ekki stórsameindir eins og DNA.

Margir hafa velt fyrir sér hvort að byggingareiningar lífs gætu borist utan úr geimnum eða jafnvel gró einfaldra lífvera. Ekki er talið mögulegt að stórar lífverur geti borist á þennan hátt, vegna þess að þær þurfa í sig og á, og ferðalög í geimnum taka sinn tíma.

En jafnvel ef lífið barst hingað á þann hátt, þá þurfti það að yfirstíga dauða plánetu, og ná í orku og byggingareiningar.

Líklegast er, ef tekið er tillit til líf-hagfræðilegra atriða, að lífið hafi myndast á jörðinni. Og þá við aðstæður þar sem nægileg orka var fyrir hendi og framboð á byggingareiningum. Margir hallast að því að það sé við hveri neðansjávar eða í flæðarmáli.

Sæll JónGangi þér vel að smala í guðspekifélagið.Sæll JóhannSkilgreining á lífi er flókin og ekki eru allir sammála um það. Genið og ást eru sama marki brennd. En þetta eru allt raunveruleg fyrirbæri, þótt illa gangi að skilgreina þau.Guðmundur lýsir mótsögninni við þekkingarleitina. Mörgum spurningum er ósvarað, en mörgum spurningum hefur verið svarað. Með hliðsjón af því hversu mörgum spurningum hefur verið svarað, og því hversu vandaðar spurningar hafa verið settar fram, er eðlilegt að vera dálítið bjartsýnn. (annars eru vísindamenn yfir höfuð frekar neikvæðir og kröfuharðir á gögn, niðurstöður og túlkanir!)

Arnar Pálsson, 1.12.2014 kl. 16:53

5 identicon

Sæll Arnar!

Það er í sjálfu sér ekki markmið að smala miklum fjölda inn í Guðspekifélagið heldur er meira verið að leita lausna á lífsgátunni eins og  fyrirsögnin í þessari grein hljómar:

Varðandi flutning lífvera til jarðarinnar; þá erum við að að tala um risa-móðurskip sem gætu verið mörghundruð kílómetrar á lengd og verið algjörlega sjálfbær; jafnvel með landslagi innanborðs:

TVÆR ÓLÍKAR FRÁSAGNIR MANNA SEM SEGJA FRÁ SVONA MÓÐURSKIPUM: 

MÓÐURSKIP FRÁ ANDÓMEDU-STJÖRNUKERFINU:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1479858/

-------------------------------------

MÓÐURSKIP FRÁ SÍRÍUS-STJÓRNUKERFINU:

https://www.youtube.com/watch?v=cfb5hA_sQLE&feature=player_embedded

Jón Þórhallsson (IP-tala skráð) 1.12.2014 kl. 18:15

6 identicon

"Varðandi flutning lífvera til jarðarinnar; þá erum við að að tala um risa-móðurskip sem gætu verið mörghundruð kílómetrar á lengd og verið algjörlega sjálfbær; jafnvel með landslagi innanborðs"

Í guðanna bænum, haltu þig úti Jón. Á hverju eruð þið einginlega?

---

Sæll aftur Arnar.

Vissulega eru ást og gen "raunveruleg" fyrirbæri, en þau eru það með eðlisólíkum hætti, bæði hvað vísindi og listir varðar.Og enn flækjast málin.

Og þú segir: "Guðmundur lýsir mótsögninni við þekkingarleitina."

Mótsagnir eru óviðunandi í vísndalegum skilgreiningum en algerlega ásættanlegar og jafnvel upplýsandi í listum.

Sú hugmynd að "frumuhimna" hljóti að teljast einhvers konar grunnforsenda í skilgreiningu á lífi felur hins vegar í sér að þetta bítur allt í halann á sér. Frumuhimna er per se lifandi og samsett m.a. úr erfðaefni. Því er þetta ótæk skilgreining. Maður gæti eins sagt: "a rose is a rose is a rose".

Hitt er svo annað, að halda því fram að það sé ekki til neitt einhlítt svar við því hvað líf sé, en jafnframt að það vanti bara herslumuninn til að svara því, er barasta ekki á nokkurn máta vísindalegt.

(Það er ekki einu sinni ljóst hvort þróunarkenningin standist vísindalegar kröfur um hrekjanleika, ekki satt?)

Mér þætti hins vegar vænt um að heyra álit Guðmundar, eða þitt, á ákveðnum vanda sem mér sýnist auðsær, að því gefnu að gjörvallt líf sé sprottið af einum meiði.

Hvenær fór þessi lífvera að keppast við aðrar um að koma genum sínum áfram til annarra kynslóða?

Varla um leið og hún fjölgaði sér, eða hvað?

Kikkaði þróunarkenning kannski bara inn um leið og tvær tegundir voru komnar fram?

En vitanlega eru spurningar vísindamanna betri en svör trúarbragða. Það er samt ekki víst að einhlít svör fáist...

Jóhann (IP-tala skráð) 2.12.2014 kl. 22:25

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

Frásagnir einstaklinga eru með óáreiðanlegustu gögnum sem um ræðir. Það vita sérstaklega lögreglumenn og dómarar, en einnig vísindamenn sem krefjast gagna ekki sagna.

Sögurnar sem þú vísar í eru bara of fjarstæðukenndar til að ég geti tekið þær alvarlega.

Jóhann.

Ég reyndi að útskýra fyrir þér mótsögnina:

Mörgum spurningum er ósvarað, en mörgum spurningum hefur verið svarað.

Þetta er mótsögn um ferli vísinda og þekkinguna sem byggist upp.

Í hverju fagi eða fagsviði fyrir sig þá eru mótsagnir auðvitað óþolandi. Oft eru þær kveikjan að nýjum rannsóknum eða spurningum. En þá þurfa vísindamenn að finna þær og skilgreina, sem er reyndar oft leið að nýrri þekkingu.

Varðandi spurningu þína um uppruna lífs af einum meiði.

Öll gögn sem nú liggja á borðinu benda til þess að lífið á jörðinni sé af einum meiði (aðallega upplýsingar um byggingu erfðaefnis og prótínmyndunarkerfa, erfðatáknmálið og skipulag frumunar).

Keppnin á milli lífvera þarf ekki að vera á milli tegunda.

Það var einmitt kjarninn í þróunarkenningunni, að samkeppni milli einstaklinga INNAN tegundar væri drifið í náttúrulegu vali.

Því lutu fyrstu lífverurnar (eða lífveruvísarnir), um leið og þær byrjuðu að fjölga sér, lögmálum þróunar.

Arnar Pálsson, 4.12.2014 kl. 09:56

8 identicon

Sæll aftur Arnar og þakka þér svarið.

Allt er það gott og gilt framan af og ég er sammála hugmyndinni um eina og aðeins eina rót líf.

...en síðan hnýt ég enn og aftur um þetta:

"Það var einmitt kjarninn í þróunarkenningunni, að samkeppni milli einstaklinga INNAN tegundar væri drifið í náttúrulegu vali.

Því lutu fyrstu lífverurnar (eða lífveruvísarnir), um leið og þær byrjuðu að fjölga sér, lögmálum þróunar."

Það er varla hægt að halda því fram að fyrsta lífveran hafi verið tegund, ekki satt?

Tegundarhugtakið vísar nauðsynlega í ytri sambærilegar viðmiðanir (lífverur).

Ef við gefum okkur að fyrstu líverunni hafi tekist að fjölga sér (sem er einnig nauðsyn), þá hafa þessar tvær lífverur varla farið að berjast um lífsgæðin, eða hvað? Ekki frekar en foreldri reynir að ráða niðurlögum afkvæma sinna.

---

Löngu (eða einhverju) seinna aðgreindust þessar lífverur, og þar kom (hef ekki hugmynd um hvernig) að greina mátti tvær ólíkar lífverur (með frumuhimnu).

Var það þá sem samkeppni milli einstaklinga innan tegunda knúði fram náttúrulega valið?

Jóhann (IP-tala skráð) 4.12.2014 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband