Leita í fréttum mbl.is

Pörunarþjónusta fyrir laxfiska

Eigendur hunda velta stundum fyrir sér hvernig maki henti hundinum þeirra. Þá er oftast verið að hugsa um hreinræktun á afbrigðum, sem hafa æskileg einkenni eða fjárhagslegt gildi. Sjaldgæfara er að eigendur fiska, skraut, gull eða laxa, velti slíku fyrir sér. Vissulega er hér um að ræða mismunun á milli dýra, sem taka þarf á með samfélagslegum upphrópum eða hlátursköstum.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgHérlendis erum við ótrúlega heppin að laxfiskar, lax, urriði og bleikja, eru tiltölulega villtir og óspilltir. Reyndar hafa verið skrásett áhrif sleppinga og erfðablöndunar á vissa stofna, en vandamálið er ekki nærri því jafn mikið og í Noregi, á svæðum á Írlandi og í Bandaríkjunum. Fyrirhuguð aukning laxeldis, t.d. á vestfjörðum boðar ekki gott fyrir villta laxfiska á þeim slóðum, og jafnvel annarstaðar á landinu.

En þegar villtir laxastofnar hrynja er oft reynt að grípa til mótvægisaðgerða, eins og t.d. í Kaliforníu. Vegna landbúnaðar, stíflugerðar, áveita, landnýtingar, mengunar og annara þátta hrundu þar stofnar villta laxa. Fyrir um 100 árum var byrjað að ala laxaseiði í stöðvum sem mótvægiaðger. Nú er það svo að nær allur lax sem finnst í ám í fylkinu fæðist í eldis og sleppingarstöð. En sú aðferð að ala upp fisk í einni stöð og setja í 20 ólíkar ár, er ekki endilega heppileg. Með villta fiskinum tapaðist erfðabreytileiki sem oft tengist árþúsunda langri aðlögun fiskanna að vistkerfum tiltekinna árkerfa og hafsins.

Önnur vandamál tengjast slíkri sleppingu úr eldisstöðvum, fiskarnir eru erfðafræðilega einsleitir og atlætið annað en gerist í náttúrunni. Óvíst er að sami erfðabreytileiki henti fyrir líf ungviðis í eldistöð eða stærri fiski í sjógöngu - og því er togað í stofninn í ólíkar áttir. En innræktunin var álitin erfiðasti hjallinn. Talað var um hringiðu erfðagalla, sem geta safnast upp í fiskistofninum sem notaður var til að ala seiðin.

Nú er erfðatæknin komin inn í myndina. Með því að skoða erfðabreytileika í stofninum er hægt að finna út hversu skyldir einstaklingar eru, og forðast það að para náskylda saman. Nýleg grein segir frá því hvernig nálguninn er beitt í Kaliforníu. Fyrst eru hængar og hrygnur veiddar í gildrur og uggaklippt. Lífsýnið er sent í erfðapróf, og síðan eru nægilega fjarskyldir fiskar kreistir saman í túbu. Það hljómar erótískara en það er því yfirleitt er sleginn úr þeim lífsandinn með léttu höfuðhöggi fyrst.

Nálgun sem þessi er sannarlega lofsverð, en er samt enn eitt dæmið um tilraun til tæknilausnar á umhverfisvandamáli. Umhverfisvandamálið var eyðing búsvæða og hnignun náttúrulegra stofna. Það að dæla í árnar ræktuðum seiðum hefur aldrei náð að endurreisa laxastofna Kaliforníu, eða annarra svæða. Þess má geta að í Kaliforníu eru a.m.k. 30 aðrir stofnar laxfiska, sem eru í hættu á að hnigna enn frekar eða deyja út. Það að nota erfðatækni til að para saman einstaklinga er etv réttlætanlegt þegar reynt er að framlengja líftíma tegundar - en ég tel það óþarfi sem lausn til að halda uppi sportveiði.

Í þessu tilfelli er tæknilausnin ekki betri en náttúran.

Pistill þessi er innblásinn af frétt í NY Times.

2016 To Save Its Salmon, California Calls In the Fish Matchmaker

Myndin er af bleikjuhrognum, tekin við Þingvallavatn 2010.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband