Leita í fréttum mbl.is

Hraðsoðin vísindalík

Hvernig er fjallað um vísindalegar niðurstöður í fjölmiðlum? Hverju á maður að trúa þegar vín er eina vikuna óhollt og aðra vikuna grennandi. Guðmundur Pálsson dagskrárgerðarmaður segir frá:

"Tvö glös af rauðvíni að kvöldi, grennir ...og drepur krabbameinsfrumur!" Þannig hljómar fyrirsögn á íslenskum vefmiðli. Í greininni segir að ný rannsókn hafi sýnt fram á að þeir sem  drekka 1 -2 glös af rauðvíni á kvöldi léttist hraðar. Í lok greinarinnar er hægt að smella á "heimild" og þá birtist samhljóða grein á heimasíðu nýsjálensks fjölmiðlafyrirtækis. Þar er líka hægt að smella á "heimild" og þá fer maður inn á heilsuvef þar sem svipaðar upplýsingar koma fram, en nokkuð ítarlegri. Smelli maður á "heimild" þar er maður sendur á vef sem sérhæfir sig í vísindafréttum. Þar er fullyrðingin aðeins búin að breytast. "Tvö glös af rauðvíni að kvöldi grennir" er orðið: "Konur sem drekka í hófi, virðast síður þyngjast en konur sem drekka ekki." Og ef við förum enn dýpra - í vísindagreinina sjálfa, undir liðnum "niðurstöður," segir: Miðað við konur sem drekka ekki, þyngdust konur sem innbyrtu lítið eða hóflegt magn af áfengi minna og voru í minni hættu á að glíma við ofþyngd eða offitu á 12.9 ára tímabilinu sem þeim var fylgt eftir.”

Þannig opnaði hann viðtal við mig síðastliðinn föstudag, og spurði hvort ekki væri langur vegur frá frumheimildinni að þeirri ályktun um að rauðvín grenni fólk?

Í spurningunni felst saga nær allra vísindafrétta, varfærin ályktun verður að sláandi fyrirsögn. Í endursögn umbreytist upprunalega hugmyndin, "rauðvínsdrykkja dregur úr líkum á ofþyngd kvenna" verður að "rauðvín grennir". Í þessu tilfelli er um að ræða hreina rangtúlkun, því að þó eitthvað dregur úr líkum á ofþyngd er ekki víst að það virki sem megrunarlyf. Fyrsta niðurstaðan fjallaði um konur, en alhæfingin um alla. Og ekkert í frumheimildinni fjallar heldur um áhrif rauðvíns á krabbameinsfrumur.

800

 

Hvernig gengur þetta fyrir sig? Hvaðan koma vísindafréttir?

Þær koma flestar úr fréttatilkynningum, útbúnar af vísindatímaritum eða stofnunum. Algengast er að þær séu byggðar á samþykktri vísindagrein sem lýsir nýrri rannsókn og niðurstöðum hennar. Einnig eru dæmi um að þær séu lýsi nýjum verkefnum, en ekki niðurstöðum, t.a.m. kanna á áhrif lýsis á greind barna eða fyrirhugað er að endurlífga mammúta með klónun.

Hvað eru vísindafréttir?

Vísindafréttir eru af nokkrum megingerðum.

Fyrst eru afrek heimamannanna, fjallað er um Borgneska kjarneðlisfræðinginn í Skessuhorni og breskra vísindamanna á BBC.

Önnur gerð vísindafrétta fjallar um heilsu eða eitthvað sem ógnar heilsu. Undir þetta falla fréttir af farsóttum, t.a.m. Zika-veiran veldur örheila, lækning hefur fundist á krabbameini X, orsök einhverfu fundin eða bætt meðhöndlun alzheimer sjúklinga. Í þessum flokki er því miður oft um að ræða oftúlkun á niðurstöðum. Sem dæmi má nefna fjölda frétta um efni sem drepa krabbameinsfrumur á tilraunastofu. Það er ekkert mál að drepa frumur, vandamálið í krabbameinum er að drepa bara krabbameinsfrumurnar en ekki aðrar frumur sjúklingsins.

Þriðja gerðin eru fréttir af furðum, eins og tvíhöfða lamb fæddist í Dýrafirði, froskum rignir í Oregon, eða maður fæðir barn.

Fjórði flokkurinn eru krúttfréttir, eins og sætur mauraætu-ungi tekur pela, hestur gengur kiði í móðurstað eða vængbrotinn fugl braggast í húsdýragarðinum.

Fimmti flokkur vísindafrétta spannar feilspor vísindamanna. Vísindamönnum finnst þær fréttir vandræðalegar, en einnig áhugaverðar. Í þeim flokki er plastbarkalækninn Paolo Macchiarini nærtækt dæmi. Slíkar fréttir eru mikilvægar því þær veita vísindamönnum aðhald - "Ef þú svindlar verður skíturinn þinn borinn á torg", en þær hjálpa einnig vísindasamfélaginu að finna galla í uppeldi fræðimanna eða hvatakerfi vísinda.

Sjötti flokkurinn er sjaldgæfastur, en undir hann falla fréttir af raunverulegum vísindalegum framförum. Þarna er viss mótsögn, því vísindi mjakast í skrefum en sjaldan í stökkum. Sjaldgæft að ein rannsókn valdi umbyltingu á fræðasviði eða afhjúpi svarið við aldagamalli spurningu.

Af hverju erum við svona þyrst í svona fréttir? (eins og um rauðvín sem grennir).

Hvers vegna dreifast skrýtnar vísindafréttir eins og eldur í sinu?

Ástæðan erum við. Mannlega náttúra veldur því við þrífumst á sögum og ýktir hlutir ná athygli okkar.

Sögur sem ferðast manna á millum eru þær sem grípa okkur. Leiðinlegar sögur eða ruglingslegar dreifast ekki. Því miður eru niðurstöður rannsókna ekki alltaf skýrar. Þau fjalla um ósvaraðar spurningar og tilraunir og gögn og viðmið og niðurstöðurnar geta verið misvísandi eða óskýrar.

Ef gögnin eru skýr er niðurstöðum miðlað sem frásögn – sem sögu. Fréttatilkynningar eru skrifaðar til að kynna merkilegar eða nýjar rannsóknir, og sendar á fréttaveitur. Ef þær eru gripnar er upprunalega tilkynningin endurskrifuð og nýrri frásögn dreift. Hún getur síðan verið endursögð, jafnvel nokkrum sinnum, og bjagast oft eitthvað smá í hverri umferð (ef ekki er gætt að skoða frumheimildir eða leita álits annara sérfræðinga, eins og góðir blaðamenn gera).

Á hverjum degi eru sendar úr þúsundir fréttatilkynninga um vísindaleg efni, en bara nokkrar brjótast í gegnum múrinn og ná dreifingu á heimsvísu. Þær sem ná í gegn hafa eitthvað sérstakt við sig, snerta einhverja taug eða vekja ákveðin hughrif. Dæmi um fyrirsagnir síðustu vikna, tímakristallar, manna og svíns blendingur, svartur massi ýtir vetrarbrautinni...

Áhrifin eru ennþá meira áberandi á vefmiðlum sem taka sig minna alvarlega. Dægurmálasíður eða léttfréttaveitur eru algengur farvegur oftúlkaðra vísindafrétta eða farskenndra fyrirsagna. Þær þrífast vegna þess að fólk fer á þær og skoðar færslurnar (ofraust að kalla það fréttir). Vinsælustu fréttir á vefsíðum, bæði léttvægari vefmiðlum og ábyrgari fréttaveitum eiga mjög oft lágan samnefnara – sem eru kynlíf, ofbeldi, hneyksli, misferli o.s.frv.

Ástæðan fyrir því að fyrirsagnir eru ýktar er sú að fólk klikkar frekar á ýktar fyrirsagnir, og að vefmiðlar selja auglýsingar út frá FJÖLDA flettinga. Ef miðlar seldu auglýsingar út frá tíma sem fólk dvelur á hverri síðu, þá væri myndin e.t.v. öðruvísi, því þá væri meira lagt í ítarlegri skrif og minna af glansi eða hismi í kringum textann sjálfann.

Þetta er mikilvægasta atriðið. Hegðun okkar netverja viðheldur kjaftæðinu, því við skoðum færslur og fréttir sem höfða til lágra hvata.

Eru vísindamenn hugsandi yfir umfjöllun fréttamanna og blaða?

Sannarlega er vísindamönnum ekki sama um hvernig fjallað er um niðurstöður þeirra (eða þá sjálfa). Það er verulega vandræðalegt ef niðurstöðurnar eru rangtúlkaðar, eða settar í samhengi við einhverjar brjálaðar hugmyndir. Vísindamenn vilja flestir að niðurstöður þeirra fái sem mesta umfjöllun, fyrst og fremst meðal annara fræðimanna auðvitað en þeim líkar flestum kastljós fjölmiðlanna (vísindamenn eru manneskjur sem þarfnast athygli eins og við öll).

Hvernig er fjallað um vísindi í íslenskum fjölmiðlum?

Umfjöllun um vísindi hérlendis er dálítið misjöfn. Margt er mjög vel gert, nokkrir góðir fréttamenn/blaðamenn á RÚV, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu standa þar upp úr. Umfjöllun um jarðfræði er yfirleitt á mjög háu plani, m.a. vegna þess að leitað er til margra sérfræðinga sem hafa þá náðargáfu að miðla ástandi, óvissu og áhættu. 

Á undanförnum áratugum hefur umfjöllun um vísindi  minnkað og rýrnað að gæðum á heimsvísu. Þetta birtist á marga vegu, færri greinar um vísindi í blöðum, styttri innslög í fréttatímum, verri útskýringar og andvísindalegum röddum hefur verið gefinn hljómgrunnur. radda heyra nýaldarpostular, snákaolíusölumenn, andstæðingar bólusetninga eða loftslagsbreytinga, o.f.l.

Úlfhildur Dagsdóttir gerði úttekt í bókinni Sæborgina – og komst að því að vísindafréttir hérlendis sem fjalla um erfðafræði og stofnfrumur eru mjög rýrar. Fréttatilkynningar eru endurprentaðar nær orðrétt, sjaldgæft að leitað sé álits sérfræðinga, eða að niðurstöður séu settar í víðara samhengi.

Með örfáum undantekningum eru fréttirnar daprar, þær eru eiginlega hraðsoðin vísindalík fréttaskot. Yfirleitt eru erlendar fréttir þýddar af BBC eða einhverju slappara, og dempt á vefinn. Markmiðið er að grípa athygli okkar og fá klikk-in, like-in og auglýsingatekjurnar.

Hvernig má sporna við þessu?

Ábyrgðin er okkar allra, vísindamanna, fjölmiðla og almennings.

Vísindamenn þurfa að bæta miðlun, bæði óvissu í vísindum og því þegar staðreyndirnar eru afgerandi. Það verður að útskýra hvernig vísindin virka, hvernig við leitum svara við spurningum og því að þekkingarleit er alltaf óvissuför. Vísindin hafa ekki skýr og einföld svör við öllu því heimurinn er flókinn og ófyrirsjáanlegur.

Ekki er síður mikilvægt að vísindin geta fundið svör, og hafa fundið afgerandi svör við mörgum stórum spurningum. Vísindamenn verða líka að standa upp og láta rödd sína heyrast, t.a.m. í árferði þar sem sérhagsmunapotarar eru kosnir í æðstu embætti. Sérhagsmunapotarar sem afneita vísindalegum staðreyndum, af því að það hentar viðskiptahagsmunum eða trúarlegri sannfæringu.

Fjölmiðlamenn verða einnig að hjálpa til við að miðla vísindum á betri hátt. Vinna fréttir og pistla betur, skilja og endursegja rannsókn - ekki bara þýða eitthvað í snatri og hoppa í næsta verk. Nokkur atriði geta hjálpað hér, kanna uppruna fréttar og frumheimildir, rýna í framsetningu og tilraunatilhögun, leita álits óháðra sérfræðinga og kanna hvernig passar þessi niðurstaða við viðtekna þekkingu. Mikilvægast er e.t.v. hvernig almennir fjölmiðlar, sérstaklega vefmiðlar eða dægurmálamiðlar takast á við vísindalík viðfangsefni. Leyfa þeir sér að dreifa allskonar pistlum um vísindi, jafnvel þótt sannleiksgildi þeirra sé nær ekkert, bara til að auka umferð um vefsíður og auglýsingatekjur? Hérlendis er nóg af slíkum miðlum, og eru pressan.is, spegill.is, dv.is einna ötulust í þessum geira.

Við almenningur þurfum einnig að axla ábyrgð. Með því að klikka á pistil um tvíhöfða lömb, frétt um lauslætisgenið, mynd af heilabilum hormónatröllsins, erum við að kjósa með kjaftæðinu. Ef við veljum vandaðari pistla til lestrar og að deila, sendum blaðamönnum og ritstjórum þakkir fyrir vandaða umfjöllun (t.d. um áhrif loftslags á vistkerfi sjávar eða heilsufarsvanda í dreifðum byggðum), og forðumst að dreifa kjaftæðinu - þá höfum við færst fram veginn. En á meðan við getum ekki breytt okkar eigin hegðan, er hætt við að alvöru blaðamennsku um vísindi - eða aðrar fréttir sem máli skipta - haldi áfram að hnigna.

Pistill þessi fæddist eftir samræður við Guðmund Pálsson á Rás 2, sem fékk mig í viðtal 3. febrúar. Ég kann honum góðar þakkir fyrir að bjóðið og markvissar spurningar. Vafasöm vísindi - hvernig ferðast slæmar vísindafréttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband