Leita í fréttum mbl.is

Hví að fullorðnast?

Væri ekki frábært að vera alltaf barn, þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu, geta leikið sér í núinu og lifað frjáls endalaust? Æskan er dásamleg, og mörg okkar sem teljumst fullorðin þráum að upplifa hana aftur. Að endurlifa sakleysið, áhyggjuleysið og að dúa í baggastæðunni á heyvagninum við sólsetur. Sú þrá er vitanlega tálsýn. Tíminn verður ekki sigraður.

Æskan varpar ævintýraljóma. Við hin fullorðnu rifjum upp æskuna með eftirsjá og löngun. Börn voru lengi vel afskipt í samfeĺagi manna, bara óspennandi uppspretta athyglisverðra og/eða notadrjúgra fullorðinna. Pabbi Indijana Jones sagði að Henry Jones Jr. hefði farið að heiman, "einmitt þegar hann fór að verða athyglisverður". Í gömlum málverkum litu börn út eins og litlir fullorðnir, listamenn sáu börn ekki eins og þau eru.

Í nútímanum er æskan á hærri stalli - jafnvel altari. Segja má að æskudýrkun ríki á vesturlöndum. Þetta birtist skýrt í hetjum kvikmynda, poptónlistar og samfélagsmiðla. Á hverju ári spretta út nýjar rósir eða fíflar, hver öðrum ferskari og meira spennandi. Gott er að við veitum nýjum hæfileikum athygli, en tilhneygingin er að beina athyglinni að nýjustu rósinni, eins og eldri kvikmyndastjörnur (reyndar aðallega konur) fá sérstaklega að upplifa.

Fólk á aldrinum 15-25 fær iðullega að heyra að það sé á toppi tilverunar. Að eftir þrítugt taki leiðindin við, hjónabönd, börn, íbúðakaup, afborganir og þar fram eftir götunum. Hverjum langar til að fullorðnast þegar það er miklu skemmtilegra að vera barn? Hvernig er að vera 25 ára og heyra frá samfélaginu að nú liggi leiðin niður á við? Er einhver ástæða til að fullorðnast og þroskast sem manneskja?

Heimspekingurinn Susan Neiman fjallar um þessar spurningar og margar fleiri í mjög áhugaverðri bók - why grow up: subversive thoughts for an infantile age.

Sýnin hér að ofan er að miklu leyti byggð á bókinni. Susan ræðir fyrst Pétur Pan, barnahetjuna sem neitar að fullorðnast. Með því að rekja sögu bókarinnar, leikgerða og kvikmynda sem fjalla um Pétur og félaga í Hvergilandi sýnir hún hvernig hinir fullorðnu, breyttust frá því að vera ógnvekjandi og leiðinlegir í að verða aumkunarverðir.

Í undirtitli bókarinnar eru orðin "infantile age". Öld óvitana er nútími æskudýrkunar og kannski þar sem mikilvægar er, öld þar sem fólk er ekki spennt fyrir því að þroskast og fullorðnast. Hér er kjörið tækifæri til að velta sér upp úr öllu því fáránlega sem fólk, fullorðið samkvæmt þjóðskrá, gerir sér til skemmtunar í nútímanum, en ég vil síður stuða lesandann (um of).

Susan leggur líka áherslu á að skilja hvernig þroski okkar á sér stað. Í töluverðri einföldun má segja að um sé að ræða tvo hluta, tiltrú og forvitni barnsins og efa og gagnrýni táningsins.

Börn sem komast til vits læra af foreldrum sínum og félögum um heiminn. Þau gleypa í sig þekkingu, læra að opna skápa, kubba, hjóla, tala saman og leysa alls konar þrautir. Börn á þessu stigi skilja að heimurinn er rökréttur og með því að læra getur maður gert fullt af sniðugu, t.d. fundið kex í baukum og stýrt fjarstýrðum bíl.

Næsta þroskastökk er við táningsaldur. Þá fatta unglingar að heimurinn er ekki alltaf rökréttur eða réttlátur. Hin svart-hvíta rökrétta veröld fyllist af gráum skuggum og óvissu, ósanngirni og efa. Efinn er vissulega nauðsynlegur, því til að fullorðnast þarf maður að geta efast, vegið og metið menn og málefni, spurningar og staðreyndir. Hættan er að festast í efanum, kaldhæðninni og vanmáttartilfinningu. Hví ætti maður að fullorðnast ef heimurinn er ósanngjarn, órökréttur, kaldur og mannvondur, og maður sjálfur er lítill, vanmáttugur og hæfileikalaus? Á maður ekki bara að sleppa því að fullorðnast og njóta lífsins? Táningar standa frammi fyrir þessu vali. Margir sem nú teljast fullorðnir tóku seinni kostinn.

Samkvæmt Susan er þroskinn bæði áskorun og auðlind. Hún, og reyndar margir aðrir heimspekingar og sálfræðingar, leggja áherslu á að við samþættum tiltrú barnsins og efa táningsins, til að geta fullorðnast. Mikilvægast er auðvitað að fólk taki ábyrgð á eigin lífi. Með orðum Susan.

Freedom cannot simply mean doing whatever strikes you at the moment; that way you’re a slave to any whim or passing fancy...

Real freedom involves control over your life as a whole, learning to make plans and promises and decisions, to take responsibility for your actions’ consequences. How is the child to learn if, like Peter Pan, he is ruled by the successive play of desires?

Við erum öll margþættar verur. Við hin fullorðnu eigum okkar barnalegu augnablik, hvort sem það er að detta inn í Eurovision, Guardians of the galaxy eða Hello kitty búðina. En þroskinn er að axla ábyrgð á eigin lífi.

Bókin Why grow up, fær mín bestu meðmæli.

ítarefni:

Vefsíða bókarinnar Why grow up - Susan Neiman

Susan Neiman í viðtali við kanadíska útvarpið 2016.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband