Leita í fréttum mbl.is

Hvað syngur hnúfubakurinn og hvers vegna?

Tónlist og maður eru samofin, og virðist sem sambandið hafi staðið í mörg þúsund ár. Laglínur og ljóð læsast í hug okkar og fylgja um alla ævi, hvort sem það sé ítalskt kvæði um naktan apa eða viðundradeild (e. Freakscene) Dinosaur Jr.

Náttúran er líka full af tónlist, mörg dýr gefa frá sér hljóð og hluti þeirra tísta eða blása stef og sönglínur. Söngfuglarnir eru þar æðstir og fjölbreyttastir, en í mörgum öðrum dýrahópum eru hljóð mynduð og stef kvökuð, bauluð eða rumin.

Kýrin baular og haninn galar, en hvað segja villtu dýrin og hvað heitir það þegar þau segja eitthvað? Með orðum Gilli gill plötunar, hvað segir breiðnefurinn? Hvað segir ávaxtaflugan, hvað segir þorskurinn, hvað segir venusargildran. Edda Elísabet Magnúsdóttir spurði, hvað segir hnúfubakurinn? Eða öllu heldur hvað syngur hnúfubakurinn og hvers vegna?

Edda mun verja doktorsritgerð sína um þetta efni í vikulokin.

--------------- Tilkynning af vef Háskóla Íslands ---------------

Föstudaginn 19. maí ver Edda Elísabet Magnúsdóttir doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Ritgerðin ber heitið: Sönghegðun hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) á fæðustöðvum við suðurmörk norðurheimskautsins (e. The singing behaviour of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in subarctic waters.

Ágrip af rannsókn

Á æxlunartíma hnúfubaksins (Megaptera novaeangliae) syngja tarfarnir flókna og langa söngva sem samanstanda af endurteknum og fjölbreyttum söngerindum. Á hverjum tíma og stað syngja tarfarnir sömu söngvana. Söngvarnir virðast einna helst mikilvægir í samskiptum tarfanna þegar þeir eru á æxlunarstöðvunum en líklega eru þeir jafnframt mikilvægir í tilhugalífi dýranna. Nýlegar rannsóknir hafa staðfest að hnúfubakstarfar eru einnig iðnir við söng utan æxlunarstöðva, t.d. á farleiðum og á fæðuslóðum á og við heimskautasvæðin. Tilgangur sönghegðunarinnar á fæðuslóðum er enn að miklu leyti á huldu.

Rannsóknir fóru fram á hljóðmyndun hnúfubaka við norðausturströnd Íslands á heilsársgrundvelli með áherslu á sönghegðun að vetri. Hljóðgögnum var safnað yfir þriggja ára tímabil. Upptökurnar leiddu í ljós að hnúfubakar syngja á fæðustöðvum sínum norðaustur af landinu á veturna og voru söngvarnir í mestum mæli á æxlunartíma þeirra. Jafnframt mynduðu þeir margvísleg samskiptahljóð allt árið sem flokkast ekki sem söngvar. Upptökur af söngvum fengust einnig frá þekktum æxlunarstöðvum hnúfubaka í Norður Atlantshafi, þ.e. frá Grænahöfðaeyjum úti fyrir norðvesturströnd Afríku og frá Karíbahafi. Markmiðið var að bera íslensku söngvana saman við söngva frá þessum æxlunarstöðvum.

Ef líkindi finnast milli söngva og þess hvernig þeir þróast á fjarlægum búsvæðum bendir það til þess að hvalir frá þeim svæðum eigi í samskiptum og tilheyri líklega sama æxlunarstofni. Fyrsta stigs Markov-líkan var notað til að meta samræmi og festu í myndun söngrunanna innan tímabila en samanburðargreiningar voru svo nýttar til að kanna líkindi milli söngvanna frá þessum ólíku svæðum og tíma. Ásamt því hversu miklum tíma hvalirnir vörðu í söng sýndu niðurstöðurnar fram á að söngvarnir frá Íslandi voru í samræmi við það söngform sem þekkist á hefðbundnum æxlunarstöðvum í hitabeltinu. Því er ólíklega um tilviljunarkennda söngva að ræða, öllu heldur eru líkur á að söngvarnir á Íslandi eigi þátt í tilhugalífi hvalanna. Söngvar með svipaða uppröðun erinda voru sungnir við Ísland og á æxlunarsvæðunum. Það bendir til þess að hvalirnir skiptist á hljóðum á Íslandsmiðum og/eða á farleiðum og flytji þau svo með sér suður á æxlunarstöðvarnar.

---

Þar sem söngvar heyrðust fram í mars er ljóst að einhverjir hnúfubakar halda til við Ísland yfir veturinn. Þannig geta íslensk hafsvæði nýst hvölunum á veturna og fram á vor til bæði fæðuöflunar, söngiðkunar og mögulega til mökunar. Niðurstöðurnar varpa þannig nýju ljósi á mikilvægi íslenskra fæðustöðva fyrir hnúfubaka að vetri til.

Andmælendur eru dr. Salvatore Cerchio, gestafræðimaður, New England Aquarium, Edgerton Research Laboratory og Woods Hole Oceanographic Institute, Applied Ocean Physics & Engineering, Boston, MA, USA og dr. Alison K. Stimpert, lektor og gestafræðimaður, Moss Landing Marine Laboratories, Moss Landing, CA, USA.

Leiðbeinandi er dr. Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Marianne H. Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, dr. Patrick Miller, prófessor við Háskólann í St. Andrews, Skotlandi og dr. Mads Peter Heide-Jørgensen, prófessor við Náttúrurannsóknastofnun Grænlands í Nuuk, Grænlandi.

Snæbjörn Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, stýrir vörninni sem fer fram í Öskju, stofu 132, og hefst klukkan 13:00.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband