Leita í fréttum mbl.is

Hvurslag, hvurslags - aðdáunarverðir smáglæpir

Hann hékk fram af bjargi í stormi og rýndi niður í iðurótið. Fyrst hafði hann bölsóttast yfir fólk sem hendir rusli í fjöruna, en síðan læddist að honum önnur hugsun. Gamli kallinn í sögunni rekald er jafnt kunnuglegur og auðskilinn, sem dulur og framandi.

Hversu stórar hugmyndir rúmast í hverri sögu? Sérstaklega ef hún telst smásaga? Hversu flókin getur atburðarásin eða persónusköpunin verið í 5000 orðum? Eins og svo margt í bókum, veltur þetta allt á skáldinu.

Smáglæpir-KÁPA-FRAMAN-2-2

Nýlega naut ég þeirrar blessunar að lesa smásagnasafn eftir Björn Halldórsson, sem kallast smáglæpir. Sögurnar eru fjölbreyttar að viðfangsefnum og persónum, ritaðar frá vinkli barna, fullorðinna og eldra fólks. Í fyrstu sögunni segir stúlka, nýflutt í framandi hverfi, frá því þegar hún kynnist dreng sem vill endilega fleygja sjónvarpi. Úr mikilli hæð. Þetta er ekki kviða um rokk og ról, heldur frekar saga um fyrstu kynni og hvernig vinátta getur myndast um leyndarmál. Sögurnar eru líka misjafnar hvað varðar viðfangsefni, en mögulega er hið ósagða sameiginlegur þráður þeirra allra. Sem er reyndar saga samskipta okkar í hnotskurn. Mér líkaði sérstaklega vel við söguna marglyttu, sem einnig er rituð frá sjónarhóli barns. Þar er lýst samskiptum tveggja fjölskylda á sólarströnd, á mjög kröftugan og meitlaðan hátt. Björn hefur greinilega gott vald á persónusköpun, getur spunnið sögur og kryddað þær vel. Skáldið hfur ágætt vald á málinu og lesningin er bæði þægileg og örvandi. Inn á milli leiftra setningar af ljóðrænu, sem gætu jafnvel staðið óstuddar. Smáglæpir eru fjölbreytt og spennandi lesning, og það verður gaman að sjá hvað Björn skrifar næst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband