Leita í fréttum mbl.is

Ofvirkur skrifari 50.000 bréfa heiðraður með mörgæs

Hvernig er best að heiðra miklar manneskjur?

Algeng leið er að nefna eitthvað eftir þeim, götur, hús, bækur eða lífverur. Eftir Alexander von Humboldt (1769-1859) var nefnd hafstraumur, skip, sýslur, bæir, tindar, og fjöldi tegunda lífvera, þar á meðal mörgæs. Eftir Humboldt eru nefndar fleiri tegundir lífvera og staðir en eftir nokkurri annari mannveru. Þar með talinn David Attenborough.

275px-Humboldt_PenguinAlexander var prússneskur náttúrufræðingur sem uppgötvaði jafnhitalínur, gróðurbelti og samhengi náttúrunnar. Um hið síðastnefnda sagði hann, "í þessari löngu keðju orsaka og afleiðinga er ekki hægt að horfa á einangraðar staðreyndir". Hann skilgreindi vef lífsins, þá sýn sem við höfum af náttúrunni í dag. Hann lagði þannig grunninn að vistfræði og umhverfisfræði.

Við ræddum framlag Alexanders í pistli, maðurinn sem uppgötvaði náttúruna, sem innblásinn var af bókinni Uppfinning náttúrunnar (The invention of nature - Andrea Wulf, 2015). Alexander var menntaður jarðfræðingur en fór ungur að árum í fimm ára leiðangur til Suður ameríku og kannaði landshætti, lífríki og jarðmyndanir. Hann hafði ástríðu fyrir mælingum, tók með sér loftvog hvert sem var, en skapaði sér nafn sem duglegur vísindamaður og síðar sína einstöku hæfileika til að samþætta staðreyndir og skapa þannig nýja þekkingu.

Hann var afburða skarpur og minnugur en einnig ákaflega virkur, hann m.a. lauk prófi á undan skólafélögum sínum. Hann skrifaði rúmlega 50.000 bréf um ævina og fékk sent um tvöfaldann þann fjölda. Hann var einnig með málglaðari einstaklingum. Í bók Wulf er lýst spaugilegum fundi Charles Darwin og Alexanders. Sá fyrrnefndi hafði lesið ferðabók von Humboldts um S. ameríku og heillast algerlega. Darwin sagði,

Vegna aðdáum minnar á hinni frægu persónulegu ferðasögu [Humboldts], sem ég kann orð fyrir orð að hluta, afréð ég að ferðast til fjarlægra landa, sem fékk mig til að bjóða mig fram til siglingar á skipi hennar hátignar Hvutta (HMS Beagle).

Þrítugur Darwin hitti Humboldt (þá um sjötugt) á mannamóti. Margir höfðu komið til að hitta Humboldt og ræða vísindi. Humboldt hrósaði Darwin fyrir fína ferðasögu, en svo byrjaði hann að tala. Hver spurning Darwins eða athugasemdir annara gesta voru kveikjan að langri einræðu. Og sveiflaðist umræðuefni Alexanders frá náttúrufræði til heimspeki, fegurð til stjarna. Eftir þriggja tíma eintal lauk fundinum og Darwin var í losti. Hann hafði vonast til að ræða við Humboldt um stór mynstur í náttúrunni og breytileika lífvera, en í staðinn þurft að sitja undir samfelldri einræðu um allt, ekkert og allt þar á milli, áfram, afturábak, á hlið, hvolfi og undir stanslausum snúningi.

Þetta var eini fundur Darwins og Humboldt, sem er virkilega sorglegt því báðir bjuggu yfir færni til að samþætta staðreyndir og sjá fyrir sér krafta sem verka á lífverur yfir meginlönd og órvíddir tímans. Humboldt hafði áhuga á störfum Darwins, sent honum langt bréf þar sem hann þakkaði honum fyrir ferðabókina (Voyage of the Beagle) með ítarlegum athugasemdum og spurningum. Humboldt hafði lýst mörgum þeirra þátta sem byggðu upp þróunarkenningu Darwins, t.d. samhliða aðlaganir plantna á ólíkum meginlöndum og samkeppni í náttúrunni sem var drifkrafturinn í hugmyndinni um hvernig náttúrulegt val gat byggt þær aðlaganir. Darwin rissaði einmitt nótur í sitt eintak af ferðabók Humboldts, þar sem lýst var lífsbaráttu Cabybara dýranna við Orinoco fljótið í Venúsela og Kólumbíu. Hugmyndin um baráttu fyrir lífinu var síðan skýrar sett fram af Maltusi eins og þekkt er, en nótur Darwins benda til að þarna hafi tendrast kveikurinn.

Andrea Wulf lýsir því einnig í bók sinni hvernig lokakafli uppruna tegundanna kallaðist á við stemmingar í ferðabók Humboldts. Báðar málsgreinarnar lýsa í fyrstu einfaldri og friðsælli náttúrusýn, en hvetja lesendur til eftirtektar, og veita athygli suði náttúrunnar, iðandi lífkerfi, plantna og margskonar dýra. Málsgreinin í bók Humboldts endar á þessum orðum:

Skepnur skógarins draga sig í hlé í þykkninu, fuglarnir fela sig undir laufi trjánna, eða sprungum steinanna. En samt, í því sem virðist vera þögn, heyrum við þegar við hlustir er lagt hin veikustu hljóð berast um loftið, við heyrum lágstemmdann titring, samfellt skvaldur, suð skordýranna sem fylla, ef okkur leyfist slíkt orðfæri, allar lægri bylgjulengdir loftsins. Ekkert fær manninn betur til að finna víddir og orku þess sem lifir. Mýgrútur skordýra ferðast um jarðveginn og fljúga umhverfis plönturnar sem eru þurrkaðar af ástríðum sólarinnar. Margvísleg hljóð berast frá hverjum runna, frá rotnandi trjástofnum, glufum í bergi og úr jörðinni sem grafin er sundur af eðlum, hundraðfætlum og smádýrum. Svo margar raddir sem lýsa því yfir, öll náttúran andar; og að í sínum þúsund formum er lífið samofið sprungnum og þurrum jarðvegi, rétt eins og barmafullum vatnsföllum og öllu loftinu sem umlykur okkur.

Þegar Darwin hitti Humboldt var hann á kafi í sínu stærsta bókmenntaverki. Cosmos var bók sem hann skrifaði fyrir fólk, allt fólk ekki bara fræðinga eða listamenn.

Þar dró saman staðreyndir og þekkingu úr öllum áttum, með því að dæla út bréfum með spurningum og athugasemdum. Hann hlustaði tæplega á hugmyndir annara, bara staðreyndirnar sem hann reyndi að ná utan um sjálfur. Kosmos var gríðarlega vinsæl bók, það seldust 20.000 eintök í þýskalandi fyrst árið og hún var þýdd og prentuð á mörgum tungumálum. Humboldt fór með fólk í einstakt ferðalag, frá geimnum og inn til jarðar, gegnum jarðskorpuna og inn í möttulinn. Hann sveif um vetrabrautina og sólkerfið, fjallaði um far mannsins og lífríkið, frá dýrum og plöntum til örvera. Ein stærsta hugmynd bókarninnar var sú að jörðin væri barmafull af lífi, þar sem lífverur hengu saman í vef sem líktist fegursta og fíngerðasta neti.

Þarna fæddist nútíma hugmynd okkar um náttúruna, og nokkrar mikilvægar fræðigreinar í kjölfarið. Að mínu viti á Alexander von Humboldt allan heiður skilið, ekki síst þann að fá mörgæs nefnda eftir sér.

Þessi pistill og hinn fyrri hafa rétt kynnt tvo þræði í ævisögu og lífsstarfi Alexanders von Humboldts. Vonandi gefst okkur tími til að rekja síðar áhrif hans á aðra hugsuði, sýn hans á nýlendurnar og þrælahald, og aðra forvitnilega vinkla.

Mynd af Humboldt mörgæs er af vef wikimedia commons.

https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Humboldt_Penguin.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband