Leita í fréttum mbl.is

Áhrif foreldra á afkvæmi með genum og umhverfi

Enn lifir sú meinloka að erfðir og umhverfi hafi aðskilin áhrif á eiginleika fólk og annarra lífvera. Gen hafa áhrif á svipfar okkar, en áhrifin eru háð umhverfinu sem við þroskumst og lifum í. Eins hafa umhverfisþættir ólík áhrif á fólk, eftir því hvaða erfðasamsetningu það hefur.

En hvers vegna lifir þessi tvíhyggja, um erfðir eða umhverfi? Ein ástæða er löngun mannshugans til að flokka og aðgreina hluti. Hún veldur því að við sjáum ekki veruleikann, samofna flókna heild sem til dæmis mótar eiginleika lífvera.

Erfðafræðingar hafa vitað frá þriðja áratugi síðustu aldar að áhrif gena velta á umhverfi. Við höfum einnig vitað að framlag erfða og umhverfis er mjög misjafnt eftir eiginleikum. Þetta framlag er metið með stærð sem kallast arfgengi (e. heritability). Mat á arfgengi er gert fyrir hóp lífvera, t.d. íslendinga eða ávaxtaflugur í Kansas. Matið byggir á því að heildarbreytileiki eiginleika í stofni er mætldu og svo er kannað hversu stórt framlag erfðaþáttsins er, sem hlutfall af heild. Arfgengi hleypur frá 0 og upp í 1. Sumir þættir, t.d. fingraför og vænglögun, eru með hátt arfgengi (0,7-0,9), en aðrir eiginleikar eins og frjósemi með næstum ekkert (0,01). Aðrir þættir sem útskýra breytileika í stofni eru umhverfi og tilviljun.

Arfgengi metur heildarframlag gena til einhvers eiginleika í tilteknum stofni, við þær umhverfisaðstæður sem stofninn lifir við. Ef við gætum metið arfgengi hæðar Íslendinga á sturlungaöld, þá er ólíklegt að það sé það sama og í nútímanum. Afleiðingin er sú að genin sem höfðu áhrif á hæð á sturlungaöld eru ekki endilega þau sömu og hafa áhrif á hæð í dag.

Við fáum fleira en gen frá foreldrum okkar. Foreldraáhrif hafa líka verið þekkt í meira en hálfa öld. Þau birtast þannig að foreldrar skaffa afkvæmum eitthvað til vaxtar, þroska og viðgangs. Augljósust eru móðuráhrif, t.d. með forða sem lagður er í egg eða næringu sem flyst um fylgju. Mæður leggja einnig í eggin efni sem nýtast fóstrum í þroska. Hjá mörgum dýrategundum er umönnun nauðsynleg til að ungviði komist á legg og standi sig vel í lífinu. Vitanlega mótast ólíkar gerðir foreldraáhrifa af tilstuðlan og samspili gena og umhverfis.

Kveikjan að pistlinu var ritstjórnargrein eftir Kjartan Hreinn Njálsson í Fréttablaði dagsins Erfðauppeldi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Vondi

Fjallar greinin ekki einmitt um það umhverfi sem við búum við á fyrri hluta 21. aldar? Ég efa að þarna sé verið að rýna út fyrir samfélag nútímans.

Egill Vondi, 13.2.2018 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband