Leita í fréttum mbl.is

Veirur og saga íslenskra vísinda

Vísindafélag Íslendinga heldur málþing um veirur og vísindasögu í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 7. apríl kl. 13.30. Flutt verða þrjú erindi þar sem sjónum verður bæði beint almennt að íslenskri vísindasögu og tilteknum þætti hennar í fortíð og nútíð, þ.e. hvernig rannsóknir á sauðfjársjúkdómum á tilraunastöðinni að Keldum hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Sá hluti er ekki einungis sögulegur því að mikilvægar uppgötvanir hafa verið gerðar í nýjustu rannsóknum á Keldum sem skipta máli fyrir samtímann og framtíðina.

Sigurður Guðmundsson, prófessor við læknadeild HÍ, segir frá arfleifð Björns Sigurðssonar sem kom á fót tilraunastöðinni að Keldum um miðja 20. öld og gerði merkar rannsóknir á mæði-visnuveirunni í sauðfé sem reyndust löngu síðar ómetanlegar við rannsóknir á HIV-veirunni. Valgerður Andrésdóttir, sameindalíffræðingur á Keldum, gerir síðan grein fyrir nýlegum rannsóknum á mæði-visnuveiru og tekur dæmi um hvernig þær hafa nýst til skilnings á HIV-veirunni og í baráttunni við hana. Einnig fjallar Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor emeritus, um sögu íslenskra vísinda síðustu öldina og tekur dæmi um gagnkvæma víxlverkun vísinda og samfélags, þ.e. ýmiss konar áhrif vísindanna á líf fólks og störf en einnig fjölbreytt áhrif samfélagsins á vísindin, verkefnaval og afurðir.

Málþingið er það fyrsta af sex sem Vísindafélag Íslendinga stendur fyrir á árinu um vísindi og samfélagslegar áskoranir í tilefni af aldarafmæli bæði félagsins og fullveldis Íslands. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi verður m.a. skoðuð á málþingunum en ekki síður er ætlunin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga. Á síðari málþingunum verður m.a. fjallað um máltækni, umhverfismál og ferðamál.

Lokamálþingið verður haldið á 100 ára afmæli félagsins 1. desember en það var stofnað sama dag og Ísland varð fullvalda ríki, með það í huga að öflug vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Félagið stefnir að því að styrkja stöðu vísinda í íslensku samfélagi og menningu, m.a. með því að standa fyrir fræðslu og umræðum um ýmiss konar rannsóknir og dagskráin á afmælisárinu er einmitt liður í því.

Annar liður í afmælisdagskránni er samstarf við Vísindavefinn um dagatal íslenskra vísindamanna þar sem umfjöllun um fræðimenn birtist daglega allt árið: Markmiðið er að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hérlendis og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.

http://www.visindavefur.is/flokkur/242/dagatal-islenskra-visindamanna/

Ítarefni: Arnar Pálsson 9. júlí 2015 Mæði og visna og upphaf lentiveirurannsókna

Erindi Halldórs Þormar um Mæði og visna og upphaf lentiveirurannsókna

Margrét Guðnadóttir veirufræðingur

Arnar Pálsson 30. júlí 2013 Fremstur vísindamanna á Íslandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband