Leita í fréttum mbl.is

Vísindamaður 100sta dags ársins

Vísindavefurinn og vísindafélag íslendinga standa fyrir merku verkefni í ár, í tilefni af ára afmælis félagsins.

Verkefnið gengur út á að segja frá störfum íslenskra vísindamanna, einum á hverjum degi allt árið. Í dag er 100sti dagur ársins og þá er fjallað um rannsóknir Ásdísar Egilsdóttur.

Ljóst er að ísland á marga góða og efnilega vísindamenn, sem starfa á fjölbreyttum sviðum. Vegna míns áhuga hef ég aðallega lesið pistla um félaga mína líffræðingana og þá sem rannsaka skyld fyrirbæri.

En síðan vaknar auðvitað spurningin, hvort að í árinu endist dagar til að telja upp alla vísindamenn landsins? Það fer að öllum líkindum þannig að þeir sem ekki komast á topp 365, verði súrir. Rétt eins og börn á fótboltamóti sem fatta að það voru ekki nógu margar medalíur fyrir alla. Íslenskt vísindasamfélag er smátt, en að fá að vita að maður sé ekki á topp 365 í minnsta vísindasamfélagi heims er rassskelling með gaddakylfu. Vonbrigði er raunverulegur kraftur, og ansi langlíf tilfinning. Stjórn félagsins og vísindavefurinn gæti mögulega lengt aðeins í árinu, eða bitið í skjaldarendur og sætt sig einhverja strauma úlfúðar. Við sem erum svo óheppin að lenda ekki á 365 verðum að taka þroskaða sýn á málið, og átta okkur á því að við stundum ekki vísindi til þess að fá verðlaunapeninga. Drif okkar verður að koma að innan, það verður ekki knúið af verðlaunagripum eða viðurkenningum einhverra nefnda.

Nú er komið að vandræðalegu játningunni. Eða fyrstu vandræðalegu játningunni.

Pistillinn hér að ofan var ritaður í einhverju pirringskastinu, og fóðraður á þekkingarskorti. Blessunarlega (eða ekki) les einhver suma pistlana sem maður setur á netið, og vinir manns nægilega vænir að láta mann vita af mistiginu.

Mér hafði semsagt láðst að lesa (og/eða skilja) upphafsmálsgrein vefsíðunnar sem heldur utan um listan yfir vísindamenn dagsins. Þar segir:

Í þessum flokki er að finna umfjöllun um vísindamenn á öllum aldri og af öllum fræðasviðum, frá hinum ýmsu háskólum, stofnunum og fyrirtækjum. Vísindamennirnir eru valdir af stjórn Vísindafélagsins og ritstjórn Vísindavefsins, í samráði við forstöðumenn háskóla og rannsóknastofnana, með það fyrir augum að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hér á landi og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.

Ef maður les þetta með egóið í lægsta gír, þá sér maður fegurðina í hugmyndinni. Þá kviknar reyndar spurningin, hversu stóran hluta lífsins er maður með egóið í lægsta gír? Eða, þarf maður að einbeita sér til að lækka egógírinn eða er það öfugt?

Mér þætti forvitnilegt að vita hvaða hugmyndir íslenskt fræðifólk og vísindamenn höfðu um dagatalið þegar það fór af stað. Var ég sá eini sem hélt að þetta mætti útleggja sem listi yfir topp 365 vísindamenn landsins?

Í gamla daga var vísindafélagið mjög snobbað, leit á sig sem hina íslensku vísindaakademíu með tilheyrandi hvítflippadýrkun og yfir-alla-hafinn merkikertaheitum. Nú er félagið opnara og virkara í almennu vísindalífi og baráttu fyrir stöðu vísinda í íslensku samfélagi. Við vonum að átakið auki skilning okkar íslendinga á vísinda og fræðimennsku hérlendis, landi og þjóð til framdráttar.

Breyting: Pistillinn var endurskrifaður að hluta, frá "Nú er komið að ..." og niðrúr, eftir ábendingu frá vini.

Ítarefni:

Hvaða rannsóknir hefur Ásdís Egilsdóttir stundað?

Hvað hefur vísindamaðurinn Ólafur Arnalds rannsakað?

 

Hvað hefur vísindamaðurinn Pétur Henry Petersen rannsakað?

Hvað hefur vísindamaðurinn Kesara Anamthawat-Jónsson rannsakað?

Hvað hefur vísindamaðurinn Margrét Helga Ögmundsdóttir rannsakað?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband