Leita í fréttum mbl.is

Högun tilrauna og smáskammta"lækningar"

Læknisfræði er af fornum meiði, en beitir nútildags hinni vísindalegu aðferð við að rannsaka sjúkdóma og finna lækningar við þeim.

Hin vísindalega aðferð byggist á prófun tilgáta, og þeirri hugmynd að við getum afsannað tilgátur, ekki sannað þær. Sem dæmi, við höfum áhuga á áhrifum efnis, t.d. arsniks á lífslíkur músa. Við setjum fram tilgátu, um að ákveðinn skammtur af arseniki hafi ekki áhrif á lífslíkur músar. Þetta er núlltilgátan, um engin áhrif. Þessi núll tilgáta hefur verið afsönnuð, oft og vendilega, og í öllum tilfellum minnka lífslíkur músanna. Þetta bendir til þess að ákveðinn skammtur af arseniki sé hættulegur heilsu venjulegra músa. Athugið, að þetta er ekki formleg sönnun á áhrifum arseniks á lífslíkur, heldur höfum við afsannað hið gagnstæða!

Tilraun sem þessi er sett upp sem "blindur samanburður" (á ensku blind trial), þar sem mýsnar fá t.d. mat með eða án arseniks, og þar sem tilviljun ræður hvaða hver mús fær. Þetta grunndvallaratriði í tilraunavísindum er í hávegum haft í læknavísindum, en gagnrýnt af þeim sem stunda það sem enskumælandi þjóðir kalla "homeopathy" (þýtt sem smáskammtalækningar á íslensku, þótt deila megi um viðskeytið lækningar í þessu tilfelli). Smáskammtafólk tekur þekkt efni, t.d. arsenik og þynnir það í vatni, oftast svo mikið að það eru hverfandi líkur á að sameindir af viðkomandi efni leynist í flöskunni sem seld er (draumur markaðsfræðingsins, að selja bara umbúðir og vatn).

Í nýlegu pistili sem birtist á vísindasíðu the Guardian sundurliðar Ben Goldacre rökstuðning iðkenda þessara "fræða", og sýnir m.a. að þeirra "tilraunir" eru ekki settar upp sem blindur samanburður. Smáskammtafræðingar vilja að fólk fái að vita hvort það sé að fá raunverulega meðferð, eða platmeðferð, sem augljóslega kippir hettunni af "blinda samanburðinum".

Smáskammtafólk svarar ætið slikum rökum með því að skipta um umræðuefni (sem er nátturulega klassískt viðbragð þeirra sem komnir eru í rökþrot). Algengasta mótbáran er sú að læknasamfélagið sé þjóni lyfjarisunum en ekki sjúklingum sínum. Vissulega eiga læknar að gæta sín að að láta ekki  auglýsingar eða gylliboð um utanlandsferðir hafa áhrif á sig. En lykilatriðið er að hin vísindalega þekking sem byggist upp í ritrýndum greinum er alltaf til endurskoðunar og sífellt endurmetin. Þannig að jafnvel þótt að niðurstöður tilraunir séu rangar eða mistúlkaðar, þá mun það koma í ljós og viðkomandi tilgáta afsönnuð. Goldacre nefnir að þrjár mestlesnu greinar ársins 2006 í The British Medical Journal, fjölluðu allar um afsönnun á ákveðnum tilgátum. T.d. var því haldið fram að bólgu og verkjalyfið Vioxx hefði engar alvarlegar aukaverkanir en rannsóknir sýndu að Vioxx jók líkunar bæði á hjartaáfalli og heilablóðfalli (þetta leiddi til málaferla og Vioxx var að endingu afturkallað. Athugið lyfjafyrirtækin tapa ekki bara orðspori heldur líka seðlum af slíkum mistökum). 

Aðalatriðið er að, þótt lyfjafyrirtækin og læknar geri mistök, þá nýtist hin vísindalega aðferð okkur til að leiðrétta þau mistök.

Goldacre bendir á að í óhefðbundnum "lækningum" eru neikvæðum niðurstöðum mjög sjaldan lýst (einungis 1-5% tilfella). Það er vísbending um að fólk sem stundi óhefðbundnar lækningar hafi tilhneygingu til að setja fram jákvæðar niðurstöður, en stinga hinum undir stólinn. Það eru ekki vísindaleg vinnubrögð!

Að endingu, greinin í the Guardian tíundar fleiri forvitnileg atriði varðandi smáskammta-skottu-"lækningar" sem verða ekki rakin hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

"Goldacre bendir á að í óhefðbundnum "lækningum" eru neikvæðum niðurstöðum mjög sjaldan lýst (einungis 1-5% tilfella). Það er vísbending um að fólk sem stundi óhefðbundnar lækningar hafi tilhneygingu til að setja fram jákvæðar niðurstöður, en stinga hinum undir stólinn. Það eru ekki vísindaleg vinnubrögð!"

Kannski það, að neikvæðum niðurstöðum sé einungis lýst í 1 - 5 % tilfella, sé vísbending um að niðurstöðum sé stungið undir stól. Kannski ekki. Ertu þó ekki að gefa þér að svo sé, þegar þú segir: "Það eru ekki vísindaleg vinnubrögð!" ? Mér finnst þetta hljóma sem fullyrðing.

Annars ætla ég ekki að fella neina dóma. Þó hef ég orðið vitni af, oftar en einu sinni, að hómopatameðferð hefur gagnast þar sem læknavísindin gerðu það ekki. Þá er ég einnig að tala um lítil börn, sem ekki hafa þroska til að meta gagnsemi þess sem þau eru að taka inn. Líklega trúa þau að öll meðul geri þeim gott.

Ég hef sjálfur, sem betur fer, ekki þurft að éta lyf eða fá neinar meðferðir hjá neinum. Þó hefur mér fundist hin 'hefðbundnu' lyflæknisfræði einkennast af því að ráðist er að einkennunum en ekki orsökinni. Vitanlega þarf að ausa úr lekandi báti. Þó er vænlegra að koma einnig fyrir lekann.

Brjánn Guðjónsson, 19.11.2007 kl. 13:00

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ef fólk birtir bara niðurstöður tilrauna sem sýna jákvæðar niðurstöður, en stinga hinum undir stól, þá eru vinnubrögðin ekki vísindaleg. Vísindaleg þekking byggist bara upp ef vísindamennirnir eru heiðarlegir og birti niðurstöður sínar, óháð því hvort þær er jákvæðar og neikvæðar.

Ef allt er í lagi með tilraunina (ekki bjöguð eða eitthvað ámóta) munum við fá jákvæðar niðurstöður í eitt skipti af hverjum 20 sem hún er framkvæmd (miðum við 5% marktæknistig).  Það þýðir að ef  ég myndi endurtaka einhverja tilraun 20 sinnum, þá eru líkur á að myndi ég fá neikvætt í 19 skipti en jákvætt í 1 skipti einungis vegna tilviljunar.*

Samkvæmt Goldacre er eins og smáskammtafólk hafni þessum 19 neikvæðu niðurstöðum og taki þessu einu jákvæðu trausta taki. Það er hægt að staðhæfa að slíkt er ekki dæmi um vísindaleg vinnubrögð.

En það er laukrétt hjá þér lyflæknisfræðin hefur ekki einbeitt sér að orsökum kvilla, sem vera má að tengjist gróðavon. Læknisfræðin hefur samt náð að finna orsakir margra sjúkdóma, smitandi og arfgengra, og beitt til þess vísindalegum aðferðum. Það er bráðnauðsynlegt finna orsakir margra sjúkdóma sem enn hrjá íbúa hnattarins, og finna leiðir til að koma í veg fyrir eða lækna þá.

* (Athuga ber varðandi 1/20 dæmið, að þetta eru meðalgildi tilviljanatalna, sem birtast þegar hugar-tilraunin er endurtekinn nokkur þúsund sinnum)

Arnar Pálsson, 19.11.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband