Leita í fréttum mbl.is

Umræða um erfðabreyttar lífverur

Á fyrsta ári í doktorsnámi mínu í erfðafræði við North Carolina State University (NCSU) sótti ég námskeið sem hét "siðfræði og fagleg vinnubrögð í vísindum". Hluti af námskeiðinu fjallaði um ígildi Hippokratesar eiðs fyrir líffræðinga, annar um einkaleyfi, tilraunir á dýrum, og samskipti sprotafyrirtækja og Háskóla.

Nú var því slegið upp í Morgunblaðinu að Landbúnaðarháskólinn væri hluthafi í ORF líftækni, og gefið í skyn í það minnsta að rannsóknir allra vísindamanna og umsagnir um erfðatækni væru litaðar af þeirri staðreynd.

Í fréttinni sem hér fylgir ræðir Björn Örvar þessa ásökun og bendir á að viðkomandi vísindamenn leggi vísindalegann heiður sinn að veði, þegar þeir gefa umsagnir.

Ástæðan fyrir því að þetta viðfangsefni var tekið fyrir í NCSU var sú að þetta er mjög flókið mál. NCSU er að upplagi landbúnaðarháskóli, búinn til sem "land grant University", til að efla landbúnað í Bandaríkjunum. Margar deildir sinna ræktun á nytjategundum, sér deild um hænur, önnur um skógartré, meindýr á ökrum og þar frameftir götunum. Starfsmenn sem finna nýjar varnir gegn  pestum, eða leiðir til að bæta afköst hænsnabúa geta því oft selt niðurstöður sínar, eða stofnað um þær fyrirtæki (þetta er nýsköpun, hugmynd verður að fyrirtæki og tekjum). Og það er eðlilegt að háskólinn njóti góðs af, t.d. sem hluthafi. NCSU brenndu sig á því þegar tölfræðingurinn John Sall stofnaði tölfræðifyrirtækið SAS, að þeir veittu honum mjög takmarkaðan stuðning, og báru eðlileg lítið úr býtum. Tæknigarðar eiga að vera vettvangur fyrir slíka tækni og iðnþróun.

Hvernig viðheldur vísindamaður faglegu orðspori sínu þegar milljónir hanga á spítunni? Ef þú átt hugmyndina sjálfur, stofnaðu þá um hana fyrirtæki og haltu rannsóknunum til hliðar. Það eru vitanleg til fyrirtæki sem stunda rannsóknir, birta þær í ritrýndum tímaritum og allt það, en við látum þá umræðu eiga sig í bili.

Lausnin er að draga úr möguleika á hagsmunaárekstrum. Ef þú átt hlut í fyrirtæki í ákveðnum geira, þá getur þú ekki talist óháður umsagnaraðilli að efni á því fræðasviði. Eins verða þeir sem þú hefur unnið með áður, tengist ættarvenslum eða í gegnum félagslegt athæfi (vikulega tedrykkju, eða sjóböð) sjálfkrafa vanhæfir.

Hérlendis veifa stórnmálamenn og aðrir oft örmum og segja, ég gerði ekkert rangt. Vissulega hafði ég möguleika á því, en ég breytti samt rétt.

Okkur var kennt í námskeiðinu við NCSU að það á ekki að vera möguleiki á hagsmunaárekstrum ("there should be no possibility of conflict of interest"). Ef það var möguleiki á að þú gætir hafa misnotað aðstöðu þína, þá varðst þú að labba.

Því miður verður þessi pistill ekki sú ítarlega samantekt um erfðabreyttar lífverur sem efni standa til. En í það minnsta verður þetta örlítil innsýn í veröld vísindafólks. Það er vissulega mannlegt, en flestir þeirra gera sér grein fyrir því hvar mörk persónulegra skoðanna og faglegrar þekkingar liggja.


mbl.is Grundvallarspurning um mann og náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir pistilinn Arnar, áhugavert að lesa þetta hjá þér...sér í lagi út frá því hvar ég jú vinn :)

Gurra (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 20:21

2 identicon

Góður pistill !

Fransman (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 05:41

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Gurra og Fransman.

Tvískinnungurinn er sá að það er bent á möguleg hagsmunaárekstra fólks öðru megin við borðið, en ekki er atast út í hvað hagsmuna fulltrúi vottunarstofunar Túns hefur að gæta í öllu þessu.

Annars á ég "óbeinna" hagsmuna að gæta í lífrænum landbúnaði, frændi minn í Kjósinni stundar kjöt og jógúrtframleiðslu.

Samt get ég sem fagaðilli ekki látið orða bundist þegar fólk fer með þvaður um erfðir og erfðatækni.

Arnar Pálsson, 9.6.2009 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband