Leita í fréttum mbl.is

Heimsókn Grant hjónanna

Síðastliðinn föstudag komu Peter og Rosemary Grant í heimsókn til Íslands. Þau héldu tvö erindi laugardaginn 29 ágúst, annað um tegundamyndun og hitt um þróun finkanna á Galapagos. Bæði erindin voru framúrskarandi góð. Seinna erindið markaði formlegt upphaf fyrirlestraraðar í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin, sem gert hefur verið skil hér áður. Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ setti fyrirlestraröðina með sérlega skemmtilegum inngangi.

Finkur2009_1 Peter Grant, Rosemary Grant, Kristín Ingólfsdóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir, mynd A. Palsson.

Peter Grant hafði komið til Íslands sem unglingur meðal annars til að leita jurta. Síðar ákváðu þau hjónin að staldra hér við (fyrir um 35 árum) og rannsaka máfa sem rændu mat af lundum. Í Vík fundu þau annan ræningja, skjótari og liprari í lofti, kjóann. Einar Árnason sem vann með Grant hjónunum að rannsóknum á kjóa og sniglum í Vík í Mýrdal kynnti fyrirlesarana.

Grant hjónin lögðu áherslu á að þróun getur verið mjög ör. Einnig skipta einstakir atburðir oft miklu máli, hvort sem um er að ræða hamfarir eða happakast. Miklir þurrkar hafa áhrif á framboð fræja á eyjunum, og á hinn bogin getur aukin rigning í kjölfar El Nino valdið rótækum breytingum á gróðri og þar með fræsamsetningu. Finkustofnarnir eru nauðbeygðir til að svara þessum breytingum, líklega vegna þess að fæðuframboð skiptir mestu um afdrif einstaklinganna (það eru helst uglur sem stunda afrán á finkunnum, en ekki er vitað um sýkingar aðrar eða meindýr). Goggastærðin hefur breyst heilmikið á þeim rúmu 30 árum sem þau hafa vaktað finkurnar. Því fer fjarri að breytingarnar hafi verið stefnubundnar, sum árin eru stórir goggar heppilegir en í öðru árferði reynast litlir goggar betur. Sem undirstrikar eina af lykilályktunum þróunafræðinnar, þróun hefur enga stefnu.

Þau fræddu okkur einnig um vistfræði og atferli finkanna, hvenær ungfuglarnir læra söng foreldranna (sem ákvarðar síðan hvers konar maka þeir kjósa sér) og hvaða breytingar í tjáningu þroskunargena tengjast formi goggsins. Rannsóknir þeirra eru það margþættar og auðugar að ekki er mögulegt að gera þeim tilhlýðileg skil í pistli sem þessum.

Grant hjónin hafa verið á þeytingi betri part ársins, á ráðstefnum og fundum, með fyrirlestra og fræðslufundi. Næsta stopp þeirra er Oslóarháskóli, þar sem þau halda í fyrramálið erindi undir merki Kristine Bonnevie sem var fyrsti kvenprófessorinn í Noregi. Rannsóknasetur í þróunarfræði og vistfræði við Oslóarháskóla stendur ásamt öðrum fyrir mjög flottri röð atburða í tilefni afmælis Darwins.

Næsta erindi í fyrirlestraröðinni hérlendis verður 3 október, og mun Guðmundur Eggertson þar leita að uppruna lífs.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Pálsson

Betur myndskreytta og endurskrifaða útgáfu af þessari færslu má finna á darwin.hi.is.

Arnar Pálsson, 3.9.2009 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband