Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Cochrane samstarfsverkefnið

Það er eðli raunvísinda að niðurstöður úr hverri einustu rannsókn geta virkað marktækar vegna tilviljunar. Þess vegna er mjög mikilvægt að endurtaka rannsóknir, t.d. ef veira finnst í einstaklingum með ákveðinn sjúkdóm á Vopnafirði, þá er eðlilegt að athuga hvort að einstaklingar með sama sjúkdóm á Patreksfirði séu einnig sýktir af sömu veiru. Þegar margar rannsóknir finna sömu niðurstöðu þá fáum við meiri tiltrú á henni.

Cochrane samstarfsverkefnið snýst um að framkvæma kerfisbundnar úttektir (systematic review) á mörgun rannsóknum sem gerðar hafa verið á sama viðfangsefni læknisfræðinnar. Til dæmis:

Kerfisbundin úttekt krefst mikillar nákvæmni, margar rannsóknir á sama fyrirbæri eru bornar saman. Slík samantekt getur fundið væg en raunveruleg mynstur og einnig skorið úr um hvort að einhvert lyf virkar eða ekki. Mikilvægt er að horfa gagnrýnið á sýnatöku, sýnastærð, skipulag tilraunar, úrvinnslu og tölfræðilegar greiningar. Þessir þættir gerta skipt sköpum því margar rannsóknir eru ófullkomnar að einhverju leyti - sem getur skekkt niðurstöðurnar.

Ein skekkja sem vísindamenn hafa fundið út er að niðurstöður lyfjafyrirtækja eru oftar jákvæðar en niðurstöður óháðra vísindamanna. Það bendir til óheiðarlegra vinnubragða lyfjafyrirtækjanna. 

Steindór Erlingsson lýsti þessu ágætlega í umfjöllun sinni um þunglyndi og lyfjafyrirtækin (Ég er reiður).

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.

Önnur aðferð felst í því að draga úr eða birta ekki upplýsingar um alvarlegar aukaverkanir. Framleiðendur geðrofslyfja, s.s. Zyprexa, Seroquel og Risperdal, beittu m.a. þessari aðferð til þess að sannfæra lækna um að lyfin stæðu framar eldri gerðum geðrofslyfja. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós sú er ekki raunin. Í umsögn um eina slíka rannsókna, sem birtist í læknablaðinu Lancet 3. janúar, 2009, segir að læknar hafi verið blekktir í nærri 20 ár og einungis núna séu þeir að átta sig á sannleikanum. Hér er um alvarlegt mál að ræða því áður en nýju geðrofslyfin komu á sjónarsviðið um miðjan síðasta áratug 20. aldar var markaðurinn fyrir þau lítill og miðaðist aðallega við einstaklinga með geðklofa. Ávísun nýju lyfjanna hefur hins vegar vaxið gríðarlega og eru þau í dag m.a. notuð til þess að meðhöndla kvíða og svefntruflanir.

Þetta er vandamál sem sjúklingar og læknar þurfa að glíma við. Mikilvægt er að læknasamtök og félög reki af sér slyðruorðið og krefjist þess að lyfjafyrirtækin bæti vinnubrögð sín (sjá aðra pistla: Traust á vísindalegum niðurstöðum, Samskipti lyfjafyrirtækja og lækna).

Viðauki.

Að lokum vil ég samt árétta að þótt inflúensubólusetningar kunna að reynast gagnlitlar fyrir hinn almenna borgara, þá tek ég undir með lækninum (Peter Skinhøj sem vitnað er í í frétt mbl.is) að það sé líklega óþarfa áhætta fyrir börn og gamalmenni að sleppa þessari bólusetningu. Og þetta þýðir ekki að bóluefni gegn öðrum smitsjúkdómum séu gagnslaus, eða beinlínis hættuleg eins og sumir ofsóknarbrjálaðir hræðslupostular halda fram.


mbl.is Flensubólusetningar gagnslitlar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski vísindamaður ársins 2010

Jón Steinsson kynnti ágæta hugmynd í pistli í Pressunni 26 desember. Hann leggur til að tilnefndir verði vísindamenn ársins, kannski topp 10 listi í ætt við það hvernig íþróttafréttamenn velja íþróttamann ársins. Jón segir meðal annars:

Ég er kannski ekki fullkomnlega hlutlaus. En mér finnst allt of lítið fjallað um afrek íslenskra vísinda- og fræðimanna. Væri ekki tilvalið að taka upp þann sið að útnefna vísindamann ársins á Íslandi. Slík verðlaun hefðu sömu kosti og íþróttaverðlaunin. Ég er viss um að það er fullt af fólki sem hefði áhuga á því að lesa umfjöllun um „afrek“ 10 tilnefndra vísindamanna á þessum árstíma. Ekki síst væri gaman að geta gefið börnum og unglingum betri innsýn í það sem íslenskir fræðimenn eru að gera. Kannski myndi það vekja áhuga einhverra á vísindum og fræðimennsku. Mér hefur alltaf fundist sláandi hvað það eru miklu fleiri 10 ára krakkar sem vilja verða Christian Ronaldo en Richard Feynman þegar þeir verða stórir. Ég held það stafi að hluta til af því að íþróttamenn hafa staðið sig betur í að koma sér á framfæri.

Og tilnefnir síðan vísindamann ársins 2010.

Vísindamaður ársins árið 2010 er ... (spennan er í hámarki) ... Freysteinn Sigmundsson.

Hann hlýtur verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á upphafi eldgosins í Eyjafjallajökli sem birtust í vísindatímaritinu Nature 18. nóvember 2010 undir fyrirsögninni Intrusion triggering of the 2010 Eyjafjallajökull explosive eruption. Greinin varpar mikilvægu ljósi á upphaf eldgosa og sérstaklega eldgosa í eldstöðvum á „köldum svæðum“. Algengt er að eitt meginkvikuhólf fyllist smám saman og gjósi síðan. Í tilfelli Eyjafjallajökuls varð atburðarásin önnur og flóknari. Rannsóknin bendir til þess að um hafi verið að ræða fleiri en eitt kvikuhólf með missúrri kviku og sprengigosið hafi hafist þegar kvika úr mismunandi kvikuhólfum mættust.

Enginn vísindamaður nútildags vinnur einsamall, og það er mikilvægt að átta sig á að hópurinn sem rannsakar Eyjafjallajökulsgosið er stór.

Aðrir Íslendingar sem unnu að sömu rannsókn – og eiga vitaskuld mikið í henni, en Vísindamaður ársins er veitt einum aðila alveg eins og Íþróttamaður ársins – eru Sigrún Hreinsdóttir, Þóra Árnadóttir, Niels Óskarsson, Páll Einarsson, Halldór Geirsson, Benedikt G. Ófeigsson og Hjörleifur Sveinbjörnsson.

Það er vitanlega ekki hægt að veita verðlaun fyrir vísindaafrek með sama sniði og fyrir frammistöðu í íþróttum af einfaldri ástæðu. Hérlendis eru engir vísindafréttamenn í fullu starfi. Engu að síður væri vel mögulegt að framkvæma þessa hugmynd, og fá fagfélög (t.d. Vísindafélag Íslendinga, Jarðfræðifélag Íslands og Líffræðifélag Ísland.o.fl.) til að mynda nefnd sem sæi um tilnefningu og úthlutun. Gallinn er vitanlega sá að fagaðillarnir eru líklegir til að meta framfarir á sínu sviði meir en framfarir á öðrum sviðum. En ef hvert félag tilnefndi eina til tvær rannsóknir (eða greinar) sem þær bestu á sínu sviði, og það myndi síðan mynda topp 10 listann sem síðan yrði raðað af samráðsnefnd? Þetta er bara hugleiðing sem pistill Jóns vakti.

Ritstjórnarstefna 2011: Á þessu ári verða pistlarnir færri og styttri. Undirritaður er með nokkrar rannsóknir á lokastigi sem þarf að senda til birtingar. Það hlýtur að hafa forgang yfir dægurskrif þessi. Vitanlega munum við fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um lífvísindi og leiðrétta það sem betur mætti fara, en einnig birta styttri pisla um forvitnilegar rannsóknir í erfða- eða þróunarfræði og baráttumál vísindafólks.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband