Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Arfleifð Darwins

Arfleifð Darwins, kafli eftir kafla.

Við höfum sett upp síðu sem er helguð Arfleifð Darwins, ritgerðasafni sem gefið verður út af Hinu íslenska bókmenntafélagi um næstu mánaðarmót. Á vefsíðunni munum við birta hluta úr nokkrum köflum bókarinnar, innganginn, kápu og

efnisyfirlit.

  1.   Þróunarkenningin - Einar Árnason.
  2.   Gen, umhverfi og svipfar lífveru - Einar Árnason.
  3.   Landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi, 1872-1910 - Steindór J. Erlingsson.
  4.   Lífríki eyja: Sérstaða og þróun - Hafdís Hanna Ægisdóttir.
  5.   Vitnisburður steingervinga um þróun lífs á jörðinni - Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir.
  6.   Áhrif Darwins á flokkunarfræði 19. aldar og nútímans - Guðmundur Guðmundsson.
  7.   Þróun atferlis - Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason.
  8.   Myndun tegunda og afbrigðamyndun íslenskraferskvatnsfiska - Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni Kristófer Kristjánsson.
  9.   Þróun kynæxlunar - Snæbjörn Pálsson.
10.   Uppruni lífs - Guðmundur Eggertsson.
11.   Þróun mannsins- Arnar Pálsson.
12.   Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins:Sókn eftir nýjum breytileika - Áslaug Helgadóttir.
13.   Menning, mím og mannskepnur:Þróunarkenningin í hug- og félagsvísindum samtímans - Guðmundur Ingi Markússon.
14.   Að skilja hugtökin er meira en að segja það - Hrefna Sigurjónsdóttir.
ArfleifdDarwinsBjarniHelgasonKaflarnir mynda samfellda keðju, frá kynningu á kenningunni, starfi Darwins, Fishers og þróunarfræðinga tuttugustu aldar, og til áhrifa sem hún hefur haft á fræðimenn í hug og félagsvísindum. Í innganginum er efni bókarinnar rakið (sjá einnig á vefsíðunni).
Í fyrsta kafla rekur Einar Árnason meginskýringar Darwins á þróun. Í fyrsta lagi hvernig saga lífsins tengist vegna erfða og myndar eitt ættartré sem greinst hefur á milljónum ára í bakteríur, plöntur og dýr, og í öðru lagi hvernig náttúrulegt val hefur leitt til margvíslegra aðlagana sem áður voru taldar helstu vitnisburðir um almáttugan skapara. ... Í öðrum kafla ræðir Einar hvernig svipfar eða eiginleikar einstaklinga mótast af samspili umhverfis og erfða... Í þriðja kafla bókarinnar gerir Steindór J. Erlingsson grein fyrir viðtökum þróunarkenningar Darwins á Íslandi á árunum 1872-1910. Þar fjallar hann m.a. um skoðanir Benedikts Gröndal, Þorvalds Thoroddsen og fleiri á kenningunni. Flestir voru þeir á einhverjum tíma hlynntir þróunarkenningunni, en skoðanir voru skiptar um gildi náttúrulega valsins.

Kápan á Arfleifð Darwins

ArfleifdDarwinsBjarniHelgasonBjarni Helgason hannaði kápuna af stöku listfengi.

Tvívíð mynd á tölvuskjá nær ekki dýptinni sem lakkið gefur formunum í bakgrunninum.

Meira: Arfleifð Darwins á leið í prentun.

Viðbót, kápan í meiri upplausn.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Arfleifð Darwins á leið í prentun

Eftir nokkura ára meðgöngu lítur út fyrir að bókin um Arfleifð Darwins sé á leið í prentun. Hér munum við birta hluta úr verkinu, meðan á prentun verksins stendur og eitthvað fram eftir hausti. Fyrst nokkur orð úr formála:

Þróunarkenningin tengist nafni enska náttúrufræðingsins Charles Darwin órjúfanlegum böndum. Þar ber hæst útgáfu bókar hans Uppruni tegundanna árið 1859. Þann 24. nóvember 2009 voru 150 ár liðin frá útgáfu hennar. Það sama ár voru einnig liðin 200 ár frá fæðingu Darwins, en hann fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury á Englandi og lést árið 1882. Þessi tvöföldu tímamót urðu kveikjan að bók þessari og nokkrum viðburðum sem ritstjórn hennar stóð fyrir og nefndust Darwin-dagar 2009. Að þeim dögum komu einnig nokkrir samstarfsaðilar: samtök líffræðikennara, líffræðifélag Íslands, líffræðistofnun Háskóla Íslands, siðmennt, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Hið íslenska bókmenntafélag.
Frekar lítið hefur verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Þær birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags á árunum 1887–1889, en tvær síðustu greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom Uppruni tegundanna loks út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmennta félags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Þeirri bók sem hér er fylgt úr hlaði er ætlað að fylla upp í þetta tómarúm, en markhópur hennar er fólk með áhuga á lífinu, þróun þess og fjölbreytileika, sögu hugmyndanna og stórum spurningum um líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni. Bókin nýtist einnig nemum í framhaldsskólum og háskólum sem inngangur og ítarefni um þróun lífvera.

Reykjavík í ágúst 2010.

Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson, Steindór J. Erlingsson.

Leiðrétting 23 ágúst 2010: Í fyrri útgáfu voru Shrewsbury og England með litlum staf. Takk Villi!

 


Arfleifð daga Darwins

Á síðasta ári voru 200 frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár liðin frá útgáfu bókar hans um Uppruna tegundanna. Darwin var einn mesti náttúrufræðingur sögunnar og í bók sinni setti hann fram þróunarkenninguna og útskýrði hvernig lífverur hafa í tímans rás tekið breytingum, og lagast að umhverfi sínu.

Af því tilefni stóðu nokkrir aðillar fyrir ritgerðarsamkeppni meðal framhaldsskólanema, málþingi um eðli mannsins og fyrirlestraröð um þróun lífsins (Heimasíða verkefnisns er Darwin.hi.is).

Síðasta verkefni okkar af þessu tilefni er ritgerðarsafn, sem fjallar á víðum nótum um kenningu Darwins, þróun lífsins og áhrif þróunarkenningarinnar á menningu.

Á næstu vikum mun ég kynna kafla bókarinnar, ræða um forsíðuna og segja frá því sem við höfum lært á ritstjórnarferlinu.

Eitt það erfiðasta við bókaútgáfu er að ákveða titil. Við gerum miklar kröfur til titla, um að þeir séu aðlaðandi, stuttir, hnyttnir og hlaðnir merkingu. Ritnefndinn og íslenskumaðurinn sem var okkar stoð og stytta, velti upp mörgum mögulegum titlum. Voru þeir flestir langir, loðnir og slæmir.

Að endingu sættumst við á:

Arfleifð Darwins: þróunarfræði, náttúra og menning.

Kápan verður hönnuð af Bjarna Helgasyni sem einnig gerði veggspjaldið fyrir Darwin daganna 2009.

DarwinVeggspjald


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband