Leita í fréttum mbl.is

Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautslandinu

Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautslandinu“

Miðvikudaginn 8. maí 2019 kl. 20:00 í stofu 132 í Öskju.

Hafdís Hanna Ægisdóttir flytur næsta fræðsluerindi HÍN sem fer fram í fyrirlestrarsal Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Við vekjum athygli á því að brugðið er út af hefðbundinni tímasetningu og verður erindið miðvikudagskvöldið 8. maí kl.20. Að loknu erindi verður boðið upp á spjall og hressingu fyrir utan fyrirlestrarsalinn.

Suðurskautslandið er framandi og heillandi heimur. Þessi kaldasta, vindasamasta og þurrasta heimsálfa jarðar hefur yfir sér ævintýrablæ landkönnuða og ofurhuga enda hefur ekkert fólk varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og engar heimildir eða ummerki eru um að þar hafi verið byggð. Þrátt fyrir einangrun og fjarlægð frá iðnvæddum heimi, eru ummerki um loftslagsbreytingar þar greinileg. Í erindinu verður fjallað um nýlega ferð til Suðurskautslandsins á vegum alþjóðlegs leiðtogaprógrams fyrir vísindakonur. Fjallað verður um ferðalagið, lífríkið, áhrif loftlagsbreytinga á heimsálfuna og þann lærdóm sem dreginn var af ferðalaginu.

 

Hafdís Hanna Ægisdóttir lauk BS og MS námi í líffræði við Háskóla Íslands og doktorsnámi í plöntuvistfræði frá háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðinn áratug hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum til að takast á við landeyðingu og endurheimta vistkerfi. Árið 2017 var Hafdís Hanna fyrsti Íslendingurinn til að fá inngöngu í alþjóðlegt leiðtogaprógram, Homeward Bound, sem hefur það að markmiði að þjálfa konur með vísindabakgrunn í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlun sér í lagi í tengslum við loftslagsmálin. Leiðtogaprógramminu lauk með mánaðarferðalagi 80 vísindakvenna til Suðurskautslandsins í byrjun árs 2019.

 tomhart_penguins.jpg

Aðgangur að fræðsluerindum HÍN er ókeypis og öllum heimill.

Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)

Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)

Mynd af mörgæsum á suðurskautslandinu var tekin af Tom Hart, sem hélt erindi við Liffræðistofnun HÍ fyrir nokkrum árum (Rýnt í gegnum drífuna: rannsóknir á vistfræði mörgæsa)


Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrigðanna í Þingvallavatni

Það er með töluverðu stolti sem ég fleyti hér áfram tilkynningu um doktorsvarnar erindi Jóhannesar. Það verður kátt í Öskjunni föstudaginn 26 apríl, 2019. 
Erindið verður kl. 14:00 í stofu 132.

Doktorsefni: Jóhannes Guðbrandsson

Heiti ritgerðar: Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrigðanna í Þingvallavatni

http://luvs.hi.is/vidburdir/genatjaning_i_snemmthroskun_og_erfdabreytileiki_bleikjuafbrigdanna_i_thingvallavatni

Ágrip

Fjögur afbrigði bleikju (Salvelinus alpinus) finnast í Þingvallavatni. Afbrigðin eru talin hafa þróast innan vatnsins frá lokum síðustu ísaldar og eru ólík hvað varðar m.a. stærð, útlit, lífsferla og fæðuöflun. Meginmarkmið verkefnisins var að auka skilning á hvaða sameinda- og þroskunarferlar liggja að baki mismunandi svipgerð afbrigðanna og meta erfðafræðilega aðgreiningu þeirra á milli. Könnuð var genatjáning í snemmþroskun í leit að mismunandi tjáðum genum sem gætu þannig bent á hvaða ferlar móta þroskun ólíkra svipgerða. Erfðabreytileiki meðal afbrigðanna var metinn og athugað hvort að erfðaset með mikinn mun í tíðni samsæta, meðal afbrigða, fyndust í genum með svipuð líffræðileg hlutverk og/eða væru bundin við ákveðna staði innan erfðamengisins. Tvenns konar aðferðarfræði var beitt, í fyrsta lagi að kanna áhugaverð gen með sértækum aðferðum og í öðru lagi að rannsaka allt umritunarmengið (með RNA-raðgreiningu). Niðurstöðurnar afhjúpa ólíka genatjáningu og erfðamun milli afbrigðanna. Munur í tjáningu finnst á genum í mörgum líffræðilegum ferlum sem bendir til töluverðar aðgreiningar afbrigðanna og að mögulega hafi mörg gen verið undir náttúrulegu vali. RNA-niðurbrot í sýnum, líklega vegna tæknilegra vandkvæða í meðhöndlun þeirra, hækkaði flækjustig greininga á RNA-raðgreiningargögnum. Greining umritunarmengisins var engu að síður gagnleg þar sem tjáningarmunur fannst í genum sem tengjast myndun utanfrumugrindar og beinmyndun. Gögnin sýna mikinn mun í tíðni samsæta meðal afbrigða og var mikinn mun að finna víða í erfðamenginu. Það getur bent til æxlunarlegrar einangrunar afbrigðanna og/eða náttúrulegs vals á mörgum litningasvæðum. Mikill erfðamunur fannst til dæmis í genum tengdum ónæmiskerfinu með sértækum aðferðum og aðgreinandi erfðabreytileiki í genum tengdum kollagen-efnaskiptum og umhverfisskynjum (sjón, heyrn) var áberandi í umritunarmenginu. Genatjáningarmunur í fóstrum og skýr munur í erfðasamsetningu afbrigðanna bendir til að þau séu komin áleiðis inn á “veg tegundamyndunar”.

fig-1-2xUm doktorsefnið

Jóhannes fæddist árið 1985 og ólst upp á Staðarhrauni á Mýrum. Hann lauk BS prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og BS prófi í stærðfræði frá sama skóla árið 2010. Jóhannes hóf doktorsnám í lífræði haustið 2009. Frá árinu 2012 hefur hann verið hlutastarfi hjá Veiðimálastofnun, sem varð að Hafrannsóknastofnun árið 2016, þar sem hann stundar rannsóknir á laxfiskum. Hann sinnti einnig aðstoðarkennslu í ýmsum líffræðigreinum í Háskólanum meðfram námi.

Andmælendur:
Dr. Kathryn Elmer, dósent við stofnun líffræðilegs fjölbreytileika, dýraheilsu og samanburðar-læknisfræði við háskólann í Glasgow.
Dr. Jón H. Hallson, dósent við auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinandi: Dr. Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Zophonías O. Jónsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Einar Árnason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Dr. Páll Melsted, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

Sjá viðburð á facebook

 
 

Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi

Jón Einar Jónsson og Arnþór Garðarsson segja frá rannsóknum á dílaskarfi næsta f östudag 22. mars kl. 12:30 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Erindið verður flutt á ensku undir titlinum Numbers and distribution of the great cormorant in Iceland:...

Staða þekkingar á fiskeldi í sjó

Hvað vitum við um fiskeldi í sjó og hugsanleg áhrif þess á umhverfið? Hið íslenska náttúrufræðifélag efnir til málstofu um fiskeldi í sjó mánudaginn 25. mars kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju , náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband