Leita í fréttum mbl.is

Oliver Sacks taugalíffræðingur og sagnamaður er fallinn frá

Heilinn er stórbrotið fyrirbæri sem hjálpar okkur að skynja veröldina, rata um heiminn og samfélagið og heldur utan um hvatir okkar, minningar og þrár. Svo bregðast krosstré sem önnur tré - heilinn er ekki óbrigðull. Frávik í heilastarfsemi gera okkur erfitt fyrir og valda oft mikilli þjáningu (bæði sjúklinga og aðstandenda), en þau upplýsa okkur einnig um eiginleika taugakerfisins og vitundarinnar.

Oliver Sacks sinnti og rannsakaði sjúklingum með fágæta galla, meðal annars mann sem ruglaðist á konu sinni á hatti, mann sem varð fyrir eldingu og fylltist ástríðu fyrir tónlist, og mann sem fékk hnefastórt æxli i höfuðuð og man ekkert nema tónlist Grateful Dead (hvílík örlög!).

Oliver Sacks er líklega þekktastur fyrir bókina the Awakenings sem gat af sér samnefnda kvikmynd með Robin Williams og Robert Deniro í aðalhlutverkum. Þar fjallar hann um sjúklinga með svefnsýki sem margir hverjir höfðu sofið í áratugi. Árið 1969 var prufað að gefa þeim taugaboðefni, L-Dopa og raknaði fólkið þá við sér og var hið kátasta. Lækningin var tímabundin því þau féllu aftur í svefn einhverju síðar. Þó hægt væri að vekja fólkið með boðefninu urðu vökustundirnar alltaf styttri og styttri, líklega vegna þess að líkamarnir urðu ónæmir fyrir efninu.

Oliver fjallar á einstaklega næman hátt um einkenni og líðan sjúklinga sinna, dregur ekkert undan en viðheldur virðingu þeirra. Það er náðargjöf sem fáir hafa, og nær ómögulegt fyrir áhugapenna að lýsa almennilega. Til þarf lestur bóka Sacks. Hann hafði nefnilega einstaka frásagnagáfu og skrifaði af mikilli nærgætni og tilfinningu.

Ástæðan fyrir því kann að vera að hann var í raun ástfanginn af sjúklingum sínum, eins og hann lýsir í sjálfsævisögu sinni. “I had fallen in love – and out of love – and, in a sense, was in love with my patients.” Hann var ástfanginn í þeim skilningi að hann kafaði með sjúklingunum að rótum sjúkdóma þeirra, reyndi að skilja eðli þeirra og birtingarmyndir.

Óliver Sacks stundaði vísindi sértilfella og persónulegrar þekkingar, ekki vandlega skipulagðar rannsóknir á þúsundum með tilheyrandi viðmiðunarhópum og tölfræði. Engu að síður lærir maður heilmikið af skrifum hans, t.d. um sína eigin taugakippi, veikleika eða einkenni. En ekki síst að bera virðingu fyrir fjölbreytileika hins mannlega rófs og persónunum sem auðga líf okkar.

Ítarefni:

Mark Tran 30. ágúst 2015 The Guardian Oliver Sacks, eminent neurologist and author of Awakenings, dies aged 82

Awakenings.

Will Self, 8. maí 2015 The Guardian On the Move: A Life by Oliver Sacks – review

Arnar Pálsson 2. janúar 2012 Musicophilia


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband